Skálafell

Skála Ingólfs Arnarssonar í Skálafelli er bæði getið í Íslendingabók Ara fróða og í Landnámu.

Íslendingabók

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.

„Ari hinn fróði Þorgilsson Gellissonar ritaði fyrstur manna hér á landi að norrænu máli fræði bæði forna og nýja,“ segir Snorri Sturluson í Heimskringlu. „Þykir mér hans frásögn öll merkilegust.“ Í formála kveðst Ari fyrst hafa gert Íslendingabók að frumkvæði biskupanna Þorláks Runólfssonar og Ketils Þorsteinssonar og einnig sýnt hana Sæmundi presti hinum fróða. Hafi hann síðan endurskrifað bókina, en sleppt úr henni „áttartölu og konungaævi“, þ.e. íslenskum ættartölum og ævisögum Noregskonunga.

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.

Fyrri gerð bókarinnar er glötuð, en Snorri hefur hagnýtt „konungaævina“ í Heimskringlu. En yngri gerðin hefur varðveist vel. Hún er samin um 1130 og geymir sögu Íslands frá landnámi fram til dauða Gissurar biskups Ísleifssonar 1118. Þetta er stutt en frábærlega traust heimilda­r­rit. Ari styðst við frásagnir manna sem hann vissi að voru spakir og „langt mundu fram“. Hann kann að telja alla lögsögumenn frá Hrafni Hængssyni sem tók lögsögu 1030 og skorðar tímatal atburða við embættisár þeirra. En mesta áherslu leggur hann á kristnitökuna árið 1000 og sögu fyrstu biskupanna í Skálholti, Ísleifs Gissurarsonar og Gissurar sonar hans.

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.

Í Íslendingabók segir um skála Ingólfs í Skálafelli: “Ingólfr [við Hjöleifshöfða] vetr annann en um sumarit eptir fór hann vestr með sjó hann var hinn þriðja vetr undir Ingólfsfelli fur vestan Ölfusá þau misseri fundu þeir Vífill ok Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fur neðan heiði 8 Ingólfr fór um vorit ofan um heiði hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komit hann bjó í Reykjarvík þar eru enn öndvegissúlur þær í eldhúsi En Ingólfr nam land millum Ölvusár ok Hvalfjarðar fur utan Brynjudalsá milli ok Öxarár ok öll nes út þá mælti Karli til ills fórum vèr um góð heröð er vèr skulum byggja útnes þetta hann hvarf á brott ok ambátt með honum Vífli gaf Ingólfr frelsi ók bygði hann á Vífilsstöðum við hann er kendt Vífilsfelt þar bjó hann lengi ok var skilríkr maðr Ingólfr lèt gera skála á Skálafelli þaðan sá hann reyki við Ölvusvatn ok fann þar Karla.”

Landnámabók

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.

Landnáma telur helstu landnámsmenn Íslands, segir hvar þeir námu land og greinir nokkuð frá uppruna þeirra og afkomendum. Bókin var sett saman á fyrra hluta 12. aldar, og mun Ari fróði hafa verið riðinn við hina fyrstu gerð, en hún er nú löngu glötuð. Elstu varðveittar gerðir Landnámu eru frá síðara hluta 13. aldar og frá 14. öld, en þær eru mjög auknar með nýjum ættartölum og frásögnum af ýmsu tagi. Elst er Sturlubók, sett saman af Sturlu Þórðarsyni lögmanni (d. 1284). Næst er Hauksbók, gerð af Hauki lögmanni Erlendssyni (d. 1334). Kveðst Haukur hafa ritað sína Landnámabók „eftir þeirri bók sem ritað hafði herra Sturla lögmaður […] og eftir þeirri bók annarri er ritað hafði Styrmir hinn fróði“. Styrmir lést 1245, en Landnámabók hans er glötuð. Þriðja forna gerðin, Melabók, er aðeins varð­veitt í brotum, og er það mikið mein því að hún hefur að mörgu leyti staðið næst frumtext­anum.

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.

– Sumt af viðaukum Sturlubókar (og Hauksbókar) er sótt í kunnar heimildir, til að mynda Íslendingasögur (Egils sögu, Eyrbyggju, Vatnsdælu o.fl.). En hin upprunalega Land­náma hefur verið gagnorð og traust heimild í líkingu við Íslendingabók. Sagt hefur verið, að þótt frumtextinn sé víða óvís eða glataður með öllu, séu þær gerðir Landnáma­bókar sem enn eru til merkustu heimildir sem nokkur þjóð á um uppruna sinn.

Í Landnámsbók segir: “Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.
Þá mælti Karli: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“
Hann hvarf á brutt og ambátt með honum.
Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.
Ingólfur lét gera skála á Skálafelli; þaðan sá hann reyki við Ölfusvatn og fann þar Karla.”

FERLIR skoðaði meintan skála Ingólfs í Skálafelli, sbr. meðfylgjandi myndir. Auk tóftarinnar má greina fleirri tóftir skammt frá henni.

Heimildir:
-Landnáma – 8. kafli.
-Íslendingabók, bls. 33.

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.

Flekkuleiði

Árni Óla skrifaði um “Rúnastein í Flekkuvík” í Strönd og Voga:

Rúnasteinn í Flekkuvík

Flekkuleiði

Rúnasteinninn á Flekkuleiði.

“Utan við Hvassahraun á Reykjanesskaga gengur inn Vatnsleysuvík og inn úr henni utarlega skerst önnur lítil vík, sem Flekkuvík nefnist. Stendur bær samnefndur fyrir botni víkurinnar. Þar í túninu er lítill hóll eða stór þúfa, sem kallast Flekku-leiði, og þar ofan á liggur hraunhella með rúnaletri. Stendur þar skráð: „Hér hvílir Flekka“.

Hver var Flekka?
Sagnir herma að hún hafi verið landnámskona, komin frá Flekkufirði í Fjörðum, og eitthvað vensluð Ingólfi Arnarsyni, enda frá sama byggðarlagi og hann. Ingólfur fékk henni fyrst bústað í Kjós. Reisti hún þar bæ og heitir hann enn Flekkudalur, við hana kenndur. Hún var vitur kona og framsýn, en eigi mjög við alþýðuskap. Hún undi sér ekki í Kjósinni, vegna þess að hún sá ekki til sævar frá bæ sínum. Fluttist hún svo vestur á Vatnsleysuströnd og reisti sér þar bæ við eyðivík nokkra.
Hefir víkin síðan verið við hana kennd og kölluð Flekkuvík og hlaut bærinn sama nafn. Þarna var þá afskekktur staður, víkin umgirt apalhrauni á þrjá vegu, en á hrauntöngum beggja vegna víkurinnar svarraði brimið og voru átök þess ekki mjúk. En í víkinni sjálfri var góð lending og mikill veiðiskapur var þar jafnan skammt undan landi. Þó var innsigling á víkina viðsjál og gat verið hættuleg, ef ekki var rétt farið. Þess vegna mælti Flekka svo fyrir, áður en hún andaðist, að sig skyldi heygja þar efst í túni, fyrir opinni innsiglingarleiðinni. Lét hún svo um mælt, að aldrei skyldi skip farast þar á réttu sundi, meðan nokkuð sæist af kumli sínu. Hafa menn haft trú á þessu síðan.

Jónas Hallgrímsson rannsakar leiðið

Flekkuleliði

Letur á rúnasteininum.

Sumarið 1841 fór Jónas skáld Hallgrímsson til Flekkuvíkur til þess að athuga rúnasteininn og rannsaka, hvort hér gæti verið um font kuml að ræða. Mönnum bar ekki saman um, hvernig lesa skyldi úr rúnunum. Að vísu gátu allir lesið nafnið
Flekka, en yfir því stóðu skammstafanir, sem menn greindi á um hvernig skilja bæri. Töldu sumir, að lesa ætti „hér hýsir“, en aðrir „hér hvílir“. Finnur Magnússon las: „hér hýsir“ og taldi áletrunina frá heiðni. Þótti Jónasi því fýsilegt að fá úr því skorið, hvort hér væri um að ræða grafreit frá fornöld, því væri rétt lesið, þá átti svo að vera.

Flekkuleiði

Rúnasteinninn á Flekkuleiði.

En Jónas rak sig á óvænta erfiðleika. Mönnum þar syðra stóð hinn mesti stuggur af komu hans, er þeir vissu erindið. Þeir vildu ekki láta hrófla við Flekkuleiði, því að þá væri hætt við að falla myndi úr gildi hin góðu ákvæði hennar um innsiglinguna á Flekkuvík.
Jónas varð þá að útvega leyfi til rannsóknarinnar hjá séra Pétri Jónssyni á Kálfatjörn, sem kallaðist landsdrottinn, vegna þess að kirkjan á jörðina. En Páll bóndi Vigfússon í Flekkuvík mun lengi hafa verið tregur, því að Jónas segir: „Ég hét þeim að láta Flekku kyrra, ef ég fyndi hana, og kvaðst gera þetta í virðingarskyni, svo sem oft hefði verið gert við helga menn.“ Lét Páll þá til leiðast og samþykkti, að rannsókn færi fram „móti tilhlýðilegri borgun fyrir jarðusla í óslegnu túni“.
Jónas lýsir Flekkuleiði þannig: „(Það er) í hafsuður frá bænum, 6 faðma fyrir innan túngarðinn, í þúfnareit; snýr frá útsuðri til landnorðurs og hallast þangað lítið eitt. Það er 5 álna langt og 2/2 álnar breitt, svo sem álnar hátt. Hraunhella ein lítil og slétt að ofan liggur á miðri hæðinni, sokkin í jörðu; á henni stendur með greinilegu letri:

Flekkuleiði

Hæðin er nú öll grasi gróin, en vottar samt í brúnunum fyrir grjóti, ekki ólíkt því sem það væri hleðsla.
… Letursteinninn er nú tekinn upp og mældur: Lengd 15—16/2 þuml., breidd 12 þuml., þykkt 4—5 þuml. Hann er því, sem sjá má, lítil og heldur ólöguleg hraunhella. … Af því hingað og þangað var að sjá steinsniddur út úr brúnum hæðarinnar, þótti líklegt, að vera mundi steinhleðsla. Grassvörðurinn var því allur af skorinn og moldinni sópað af grjótinu; var þetta jarðlag hvergi meira en hálft fet á þykkt. — Þá kom það í ljós, að undir var einlæg, jarðföst klöpp, eður réttara sagt hraungarður, svo þar hefir aldrei nokkur maður heygður verið. Það er því ljóst, að annaðhvort hefir Finnur Magnússon rétt að mæla, eða þetta eru brellur einar, og hefir þá einhver hrekkjakarl látið hér steininn til þess að blekkja menn trúgjarna.“

Sjálfsagt hefir Páll bóndi í Flekkuvík krafist þess fyrir fram, að gengið yrði frá leiði Flekku að lokinni rannsókn eins og það hafði áður verið. Og þótt Jónas geti ekki um það, hefir hann orðið að gera upp leiðið að nýju, enda þótt hann væri sannfærður um, að þetta væri enginn merkisstaður. Hann hefir ekki mátt ganga í berhögg við þá tröllatrú, sem menn höfðu á Flekkuleiði.
Matthías próf. Þórðarson hefir sagt, að skammstafanirnar á rúnahellunni eigi áreiðanlega að þýða „hér hvílir“, og hann álítur að áletrunin muni vera frá 17. eða 18. öld, gerð vegna munnmælanna um það, að þama væri Flekka heygð.

Flekkuleiði

Flekkuleiði (Á.Ó.)

Sumarið 1959 kom ég að Flekkuvík og skoðaði Flekkuleiði, rúmum hundrað árum eftir að Jónas var þar. Leiðið er mjög svipað og hann lýsir því, bæði að stærð og lögun, og bendir það til þess, að það hafi verið hlaðið upp þegar að rannsókn
lokinni. En umhverfið er orðið breytt, þúfnareiturinn, sem Jónas talar um, er horfinn og er leiðið nú í sléttu túni. Ofan á leiðiskollinum liggur hraunhellan litla með áletruninni, og er sokkin í jörð, eins og þegar Jónas kom að henni. Af stærð hellunnar, eins og hér er að framan greint, geta menn dregið, að stafirnir sé ekki stórir. Og nú eru þeir ekki lengur „greinilegir“, eins og Jónas kallar þá. Á þessari rúmu öld hafa þeir eflaust máðst og slitnað. Kveður svo ramt að þessu, að sums staðar sér aðeins móta fyrir leggjum þeirra. Mosi og skófir hafa einnig sest í risturnar, en yfirborð hellunnar hrufótt, svo að varla má greina á milli hvað eru holur í steininum og hvað er klappað. Þess verður naumast langt að bíða, að áletrunin máist af með öllu, ef stafirnir verða ekki skýrðir.
Ég reyndi að hreinsa mosa og skófir úr ristunum, eftir því sem unnt var, bar síðan krít í þær, svo að þær yrði gleggri. Því næst tók ég af þeim meðfylgjandi mynd.
Ef mynd þessi er borin saman við uppdrátt Jónasar, sést nokkur munur á 4. rúninni og seinustu rúninni í nafninu. Um 4. rúnina er það að segja, að Kaalund sagði að hún gæti ekki verið rétt hjá Jónasi, þar ætti ekki að standa [ heldur J, eins og kemur líka fram á ljósmyndinni. Þessi rún er nokkum veginn glögg enn, en Jónasi hefir annaðhvort sézt yfir annan skálegginn, eða þá að hann hefir ritað hana skakkt í minnisbók sína.
Seinasta rúnin er nú einna máðust, og vottar aðeins fyrir striki út úr aðalleggnum, en fráleitt held ég að þar hafi nokkurn tíma verið höggvinn bogi í líkingu við það, sem sýnt er á teikningu Jónasar.
Þess má geta hér, að á árunum 1937—39 ferðaðist Anders Bæksted hér um landið til að athuga rúnir og hefir skrifað bók um þær. Hann kom til Flekkuvíkur í júlí 1938 og tók mynd af Flekku-steininum og skýrði síðan upp rúnastafina. Eru þeir allir eins og hér á myndinni, nema seinasta rúnin. Hann segir, að rúnirnar sé „greinilegar”, en telur þær ungar, máske frá 18. öld, og miðar þá við gerð þeirra. Hann segir, að annar bóndinn í Flekkuvík hafi kunnað sögurnar um, að Flekka væri grafin þarna og vekti yfir innsiglingunni, en menn leggi nú ekki lengur trúnað á þá sögu.

Hvaðan er Flekkunafnið?

Flekkuvík

Flekkuvík.

Mér finnst það augljóst á öllu, að nafnið Flekkuvík hafi komið með landnemum frá Noregi eins og fjölmörg önnur nöfn.
Hér em bæirnir Flekkudalur og Flekkuvík, og þeir em báðir í landnámi Ingólfs Arnarsonar. Það er þegar athyglisvert, þegar þess er gætt, að suður úr Dalsfirði í Noregi, litlu utar en þar sem Ingólfur átti heima, skerst fjörður, sem heitir Flekkufjörður. Hann er kenndur við bæinn Flekku, sem þar er. Nafnið er skrifað á ýmsan hátt í gömlum skjölum, svo sem Fleke, Flocke, Flecke og Fleche, en nú er það skrifað Flekke. Sagt er, að það sé alveg einstætt meðal gamalla bæjarnafna, og vita menn ekki hvað það þýðir. Sumir giska á, að það sé dregið af „flek“ = blettur, en verði þó ekki skýrt. Getgáta hefir og komið um, að það sé dregið af dílagrjóti (flekkóttu grjóti), sem þar er, en þó þykir það ekki sennilegt, því að grjót hefði þá átt að vera í nafninu.
Annars úir og grúir af „Flekku“-nöfnum í Noregi. Þar er Flekkuvík, Flekkuós, Flekkuey, Flekkustaðir (og ýmis önnur, sem virðast dregin af karlkynsnafninu Flekkur: Flekkstveit, Flekshaug, Flekstad, Fleksvik). Ennfremur eru þar nöfn eins og Flikka, Flikke, Flikeid, Flikkerud, Flikkeshaug, FHkki, Flikkin, Flikkurud, Flikstade. Menn segja, að ekki megi blanda þessum nöfnum saman við Flekkunöfnin, en þó verði þau ekki skýrð. Samt dregur bærinn Flekkefjord á Ögðum nafn sitt af bóndabænum Flikke.
Hér skal ekkert fullyrt um, hvort hér sé um einn nafngiftaflokk að ræða, en þótt Flikk-nöfnin sé undanskilin, þá eru Flekkunöfnin svo mörg, að eitthvað sérstakt mun hafa ráðið þeim. Er þá nokkur goðgá að hugsa sér, að til hafi verið í forneskju einhver vættur, sem Flekka hét, og við hana sé þessi staðanöfn kennd? Jafnvel að hún hafi átt sér bónda, sem Flekkur hét (sbr. nafnið Álaflekkur). í Snorra-Eddu er jötunsnafnið Fleggur, en það gæti alveg eins verið Flekkur, því að greinarmunur var ekki gerður á g og k í rúnum.

Flekkuleiði ætti að varðveita

Flekkuleiði

Flekkuleiðið.

Þótt Flekkuleiði sé ekki kuml, er það skemmtilegt og mætti helst ekki glatast. Það segir sína sögu um það, hvernig þjóðtrú myndast. Flekka vakir yfir útræðinu í Flekkuvík, eins og Þuríður sundafyllir vakir yfir byggðinni og miðum þeirra í Bolungavík.
Það er eflaust alþýðuskýring, að Flekkuvík dragi nafn af konu, sem hét Flekka, alveg eins og menn sögðu að Krýsuvík drægi nafn af fjölkunnugri konu, er þar bjó og hét Krýs. Þó er ekki loku fyrir það skotið, að í Flekkuvík hafi einhvern tíma búið kvenskörungur, sem menn hafi kennt við bæ sinn og kallað Flekku. Menn hafa haft ýmsar sveiflur á því, allt fram á þessa öld, að kenna fólk þannig við bæi.
Við skulum ekki missa sjónar á þessum ímyndaða kvenskörung í Flekkuvík. Hún hefir búið þar rausnarbúi, haft margt fólk í heimili og rekið mikla útgerð. Flekkuvík hefir þá verið betri jörð og blómlegri en nú er. Þá hefir verið mikið og grösugt undirlendi fyrir botni víkurinnar og út með henni beggja vegna. Þetta land hefir sjórinn verið að brjóta um margar aldir, og í tíð þeirra manna, sem enn lifa, hefir sjórinn gert þarna mikil landspjöll. Þar sem háir heybólstrar stóðu á dögum Flekku húsfreyju, lemur nú brimið berar klappir. En útgerðin hefir þá, eins og síðar, verið helsti bjargræðisvegurinn.

Flekkuleiði

Rúnasteinninn á Flekkuleiði – uppdráttur ÓSÁ.

Húsfreyjan í Flekkuvík hefir borið umhyggju fyrir starfsfólki sínu. Ef til vill hefir einhver bátur farist þar á víkinni, vegna þess að hann þræddi ekki rétta leið, og lenti upp á sker. Þá hefir húsfreyjan látið setja upp sundmerki, svo að slíkt slys henti þar ekki aftur. Sundmerkin hafa verið tvær vörður, önnur fram við sjó, en hin uppi í túni. Þá var rétt innsigling, ef þessar tvær vörður bar saman. Og þá hefir húsfreyjan látið svo um mælt, að aldrei mundi farast bátur á Flekkuvík, ef stýrt væri eftir sundmerkjunum.
Svo líða árin. Húsfreyjan í Flekkuvík hverfur til feðra sinna, en minning hennar lifir vegna ummæla hennar. Aldrei ferst bátur á réttri leið inn Flekkuvík. Menn skilja ekki, að það er sundmerkjunum að þakka, en halda að það sé að þakka ummælum húsfreyjunnar. Ákvæði hennar haldi hlífiskildi yfir bátunum, og þau verði alltaf í gildi. Þess vegna vanrækja þeir að halda sundmerkjunum við. Neðri vörðuna tekur brimið, en efri varðan, uppi í túninu, molnar niður, af því að hún var úr torfi. Þar verður eftir dálítill hóll. Við hann er tengd minningin um Flekku húsfreyju, og þá er þess skammt að bíða, að menn fari að trúa því, að þessi rúst sé haugur Flekku, þarna hafi hún varð sér hvílustað til þess að geta alltaf vakað yfir innsiglingunni á víkina. Og þá hlýtur að draga að því, að menn fari að trúa, að ekki farist skip á víkinni meðan nokkur merki legstaðar Flekku sjást. Og svo kemur einhver framtakssamur maður, sem er Flekku hjartanlega þakklátur fyrir vernd hennar, höggvið rúnir á litla hraunhellu og leggur helluna á leiði Flekku, til þess að það gleymist aldrei.
Einhvern tíma löngu seinna eru hlaðnar nýjar sundvörður. Önnur er nú niðri á sjávarbakkanum, en hin hátt uppi í hrauni. En þegar sigld er rétt leið inn á víkina og vörðurnar ber saman, þá er Flekkuleiði í beinni línu á milli þeirra.”

Rannsókn Jónasar Hallgrímssonar
Jónas Hallgrímsson skrifaði um rannsókn sína á Flekkuleiðinu 1841 eins og fram kemur hér að framan:
“Flekku-leiði í Flekkuvík”
Í hafsuður frá bænum, 6 faðma fyrir innan tún-garðinn, í þúfnareit; snýr frá útsuðri til landnorðurs og hallast þangað lítið eitt. Það er 5 álna langt og 2’/4 al. breitt, svo sem álnar hátt. Hraunhella ein lítil og slétt ofan liggur á miðri hæðinni, sokkin í jörðu; á henni stendur með greinilegu letri, eins og kunnugt er:

Flekkuleiði

Hæðin er nú öll grasi gróin, en vottar samt í brúnunum fyrir grjóti, ekki ólíkt því, sem það væri hleðsla. Ég álít því nauðsynlegt, þar sem ágreiningur er um merkingu letursins, að rannsaka staðinn; því á einn bóginn er merkis-álit F. Magnussens, en hinu megin útlit hólsins, er ber öll merki þess að vera kuml, þótt lítið sje, og jafnframt nafnið sjálft, Flekku-leiði, og almenn sögusögn, og svo rík, að þar eru tengdar við bábiljur, svo sem til að mynda, að Flekka hefði sagt, þar myndi ekki farast skip á réttu sundi, meðan hún lægi fyrir opinni leiðinni. þessu trúa Strandarmenn svo ríkt, að þeim stóð hinn mesti stuggur af komu minni, og hét ég þeim að láta Flekku kyrra, ef ég fyndi hana, og kvaðst gjöra þetta í virðingarskyni, svo sem oft hefði verið gjört við helga menn. – Leyfi til rannsóknarinnar hefi ég nú loksins fengið hjá landsdrottni séra Pétri á Kálfatjörn, og samþykki ábúanda Páls bónda, móti tilhlýðilegri borgun fyrir jarðusla, þar hóll þessi stendur í óslegnu túni.
Letursteinninn er nú upptekinn og mældur:
lengd hans er 15″ – 16 1/2″.
Breidd 12″.
Þykkt 4″ – 5″.
Hann er því, sem sjá má, lítill og heldur ólöguleg hraunhella. Nú er rannsókninni lokið! Af því hingað og þangað var að sjá steinnibbur út úr brúnum hæðarinnar, ótti líklegt, að vera myndi steinhleðsla. Grassvörðurinn var því allur afskorinn og moldinni sópað af grjótinu; var þetta jarðlag hvergi meira en hálft fet á þykkt. – Þá kom það í ljós, að undir var einlæg, jarðföst klöpp, eður réttara sagt hraungarður, svo þar hefir aldrei nokkur maður heygður verið.
Það er því ljóst, að annaðhvort hefir F.M. rétt að mæla, eður þetta eru brellur einar, og hefir þá einhver hrekkjakarl látið hjer steininn til að blekkja menn trúgjarna.”
Í viðauka bætir Jónas við um Flekku-liðið: “”Flekku-leiði”; um það og skrif um það sjá Kr. Kå., Isl. Beskr., I., 31.-8. I., “hvorlades” o.s.frv.; að sjálfsögðu hefir þessi skammstöfun átt að merkja “hér hvílir”. Áletrunin er sennilega frá 17.-18. öld, gerð vegna munnmælanna um að þarna væri “Flekka heygð. – “Flekka” virðist vera ærnafn eða tíkur og ekki konu., “Dagbog”, vasahverið frá 1840; þar er frumrit af þessari skýrslu, ritað með blýanti á 3 bls. – Bls. 171, 14. l., “séra Pétri”, Jónssyni. – 15. l., “Páls bónda” Vigfússonar. – 3. l.a.n.”

Um rúnasteininn í Flekkuvík – Þórgunnur Snædal

Flekkuleiði

Myndin af Flekkuleiðinu fylgir umfjöllun Þórgunnar.

Þórgunnur Snædal skrifaði um „Rúnaristur á Íslandi” árið 2003, þ.á.m. rúnasteininn á Flekkuleiðinu:
“5. Flekkuvík, Gullbringusýslu. Hraunsteinn á grasgróinni hraunhæð, svonefndu Flekkuleiði, suðaustur frá bænum, um 90 metra vestan við (gamla) afleggjarann og um þrjá metra inna við túngarðinn. hraunhellan er um 42×33 cm. Steinninn er nokkuð sokkinn í jörð svo þykktin varð ekki mæld, rh. 7,5-9 cm:
hh flecka
H(ér) h(vílir) Flekka.
Rúnirnar eru djúpar og vel varðveittar. Ekki er auðvelt að tímasetja þessa ristu en hún er varla eldri en frá 17. öld. Flekkuleiðis og rúnasteinsins er fyrst getið 1817 í skýrslu séra Guðmundar Böðvarssonar um fornaldarleifar í Kálfatjarnarsókn.”

Gömul sögn – Helgi Þorláksson
Helgi Þorláksson skrifaði um Flekku í Skírnir árið 1978:
“Frá um 1840 eru sagnir um hollvætti sjómanna, Flekku við Flekkuvík á Vatnsleysuströnd. Hafði hún átt að segja að ekkert skip missti lands svo lengi sem hún lægi óhreyfð í leiði sínu, Flekkuleiði. Íbúar á staðnum ömuðust við raski á leiðinu (Kál I, 13).”

Rúnaletur

Rúnaletur

Eldra rúnaletrið.

Rúnir eru elsta form skrifleturs meðal germanskra þjóða. Orðið rún getur merkt leyndarmál, einkamál eða vísdómur. Til eru tvær gerðir af rúnakerfum. Eldra kerfið hefur 24 rúnir og var notað frá 2. öld e. Kr. fram til þeirrar áttundu. Þá var tekið upp nýtt rúnakerfi með 16 rúnum. Yngri rúnirnar hafa aðeins fundist á Norðurlöndum og á Bretlandi.

Á Víkingaöld notuðu menn rúnaletur og var letrið rist á horn, tré og steina. Íslenskar rúnaristur hafa fundist á legsteinum frá 1300-1700. Textar í rúnaletri voru ekki mjög langir enda gat verið seinlegt að rista þá. Rúnaletrið var einfalt og sumir stafir gátu táknað meira en eitt hljóð. Rúnastafrófið er nefnt fúþark eftir fyrstu sex stöfunum.

Rúnaletur

Yngra rúnaletrið.

Rúnir hafa verið notaðar allt frá landnámi Íslands. Þegar fyrstu landnemarnir settust að hérna var nýlega búið að taka í notkun yngra rúnaletrið með 16 stöfum í staðinn fyrir 24 stafa rúnaletur.
Íslensku rúnirnar fylgdu þeim norsku fast eftir allt til loka þjóðveldisins með nokkrum undantekningum þó. Eftir lok þjóðveldisins verður munurinn þó smám saman meiri og séríslenskar rúnamyndir verða algengari.

Rúnaletur var notað á Íslandi eiginlega alveg fram á 20. öldina en við lok 19. aldar var farið að birta greinar um rúnir á íslensku, meðal annars skrifaði Björn M. Ólsen, prófessor í íslenskri tungu og menningarsögu, greinar í Árbók Fornleifafélagsins og Finnur Jónsson ritaði einnig um íslenskar rúnaristur og þá hvarf íslenska rúnahefðin og vitneskja um rúnir var sótt í þessi rit.

Heimild:
-Strönd og Vogar, Árni Óla, Rúnasteinn í Flekkuvík, bls. 206-215.
-Jónas Hallgrímsson, III. Dagbækur, Yfirlitsgreinar o.fl., Flekkuleiði í Flekkuvík, bls. 170-171.
-Þórgunnur Snædal. 2003. „Rúnaristur á Íslandi.“ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags, bls. 5-68. Hið íslenzka fornleifafélag, Reykjavík.
-Skírnir, Helgi Þorláksson, 1. jan. 1978, bls. 137-138.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=70101
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3887

Flekkuvík

Flekkuvík.

Elliðaárdalur

Í skýrslu um “Sjálfbæran Elliðaárdal – stefna Reykjavíkur – Lokaskýrsla starfshóps 31. ágúst 2016“, er m.a. fjallað um sögu og minjar í dalnum.

Á fundi borgarráðs Reykjavíkurborgar 26. mars 2015 var skipaður starfshópur um sjálfbæran Elliðaárdal. Starfshópurinn fékk það hlutverk að gera tillögur að framtíðarfyrirkomulagi og fjármögnun á umhirðu og rekstri dalsins. Við gerð skýrslunnar var rætt við fulltrúa hagsmunaaðila, hverfisráð og hollvinasamtök sem einnig skiluðu athugasemdum við skýrsluna.
Helstu niðurstöður starfshópsins eru að dalurinn verði áfram eitt af aðalútivistarsvæðum borgarinnar, að fjölbreytilegt lífríki dalsins njóti verndar og að þess verði gætt að Elliðaárnar verði áfram frjósöm laxveiðiá.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Starfshópurinn telur að jafnvægi þurfi að ríkja á milli útivistarsvæða í dalnum og íbúabyggðar. Þá séu tækifæri til að styrkja vistvænar samgöngur í dalnum.
Starfshópurinn telur að kanna þurfi  vægi og fjölda vegfarenda um svæðið til að sjá hvar áherslum þurfi að breyta eða hvar bæta þurfi aðstöðu fyrir hjólreiðamenn, gangandi vegfarendur eða hestamenn.
Elliðaárdalurinn gegnir veigamiklu hlutverki í markmiðum borgarinnar í loftslagsmálum því dalurinn er með stærri grænum svæðum í borginni. Hlúa þarf að því lífríki sem er finna í dalnum og vakta það.  Fylgjast þarf með fjölda minka og kanína og viðhalda fjölbreyttu fuglalífi.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Fjöldi tækifæra eru í Elliðaárdalurinn fyrir umhverfismennt, rannsóknir á vistkerfinu og fræðslu og skoða þarf ólíkar leiðir til þess en staðsetning dalsins í miðri borg eykur notkunarmöguleika hans til muna.
Starfshópurinn telur að vernda þurfi mannvirki sem tengjast raforkuframleiðslu og sögu hennar í dalnum en henni hefur verið hætt. Stærsta mannvirkið sem tengist raforkuframleiðslunni er Toppstöðin og leggur starfshópurinn til að annars vegar verði framkvæmd húsakönnun á byggingunni og hins vegar að unnin verði drög að fyrirkomulagi hugmyndasamkeppni um mögulega starfsemi í húsinu. Undanfarin ár hefur verið frumkvöðlasetur í húsinu en ljóst er að ráðast þarf í umfangsmiklar endurbætur á húsinu.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Það er niðurstaða hópsins að ekki sé þörf á aukinni skógrækt í dalnum og grisjunarþörf sé umtalsverð til að bæta útivistarsvæðið.
Þegar starfshópurinn horfir á aukningu meðal ferðamanna er það mat hans að þó að margir þeirra leggi ferð sína í dalinn sé hlutverk hans fyrst og fremst að vera athvarf og útivistarsvæði fyrir borgarbúa. Aðgerðir sem farið verður í til að bæta innviði dalsins miði að þörfum allra sem dalinn sækja heim.
Borgarbúum er flestum annt um Elliðaárdalinn og því telur starfshópurinn þörf fyrir  lifandi vettvang fyrir samræður og samstarf. Hópurinn leggur því til að borgin haldi utan um reglulega/árlega samráðsfundi um dalinn þar sem allir sem áhuga hafa geta hist og rætt brýn mál.
Elliðaárdalurinn er ein af útivistarperlum Reykjavíkur. Hann nýtur borgarverndar vegna sérstaks náttúrufars og möguleika til útivistar. Þar eru merkilegir sögustaðir og friðlýstar minjar. Lengd hans á milli Elliðavatns og ósa Elliðaánna er u.þ.b. 6 km og breiddin milli hálfur til einn kílómetri. Reykvíkingar fóru gjarnan í lautarferðir þangað á 19. öld, en eftir að bílar komu til sögunnar fór fólk að sækja lengra. Nú er fólk farið að gefa dalnum gaum á ný og nýtur umhverfisins þar sem aldrei fyrr. Jarðfræði dalsins er hægt að lesa í Háubökkum við Elliðavog, þar sem er að finna skýringar á skilti. Meðalrennsli Elliðaánna er 5,5 m³/sek. Áætlað er, að flóðið mikla árið 1968 hafi náð 220 m³/sek. Orkuveita Reykjavíkir (Vatnsveita) sækir vatn sitt að mestu leyti af vatnasviði Elliðaánna, u.þ.b. 0,6 m³/sek. og verður því vatnsmagn Elliðaánna að sama skapi minna.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Gróður í dalnum er víða mikill, bæði náttúrulegur og ræktaður, a.m.k. 160 tegundir blómplantna. Skógrækt hófst líklega í dalnum upp úr 1920 með gróðursetningu reynitrjáa. Þegar hús og sumarbústaðir fóru að rísa í dalnum, kom til garðrækt. Orkuveita Reykjavíkur (Rafmagnsveita) hóf skógrækt í Árhólmanum upp úr 1950. Helztu varpfuglar í dalnum eru álftir, grágæsir, stokkendur, rauðhöfðaendur, urtendur, straumendur, duggendur, æðarfugl, toppönd, grafönd, hrossagaukar, skógarþrestir, starrar, auðnutittlingar, þúfutittlingar, steindeplar, maríuerlur, hrafnar, himbrimar, o.fl. Alls má telja 59 fuglategundir, en 31 þeirra eru fastir varpfuglar og 18 tegundir eru árvissir gestir.
ElliðaárstöðinElliðaárnar hafa löngum verið meðal beztu laxveiðiáa landsins en þar eru einnig urriði, bleikja, hornsíli og áll. Rústir þófaramyllu og litunarhúsi Innréttinganna má finna á takmörkuðu svæði í Árhólmanum undan bæjarhólnum að Ártúni. Elliðaárvirkjun var tekin í notkun árið 1921.
Rafmagnsveita Reykjavíkur hóf söfnun muna, sem tengjast sögu hennar, árið 1971. Skráning munanna hófst 1988 og þar með skipuleg söfnun.
Rafveitusafnið var formlega stofnað árið 1990 og það er skemmtilegt að heimsækja það í dalnum. Orkuveita Reykjavíkur (Hitaveita) á átta borholur í dalnum.
Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar voru fjórir kampar í landi Ártúns, Camp Alabaster (Camp Pershing), Camp Battle, Camp Hickham, Camp Fenton Street og Camp Ártún á Ártúnshöfða. Víðivellir, athafnasvæði hestamanna, er aðallega á tveimur aðskildum svæðum ofarlega í dalnum og þriðja og elzta svæðið er við enda Bústaðavegar. Árbæjarsafnið, sem var opnað árið 1957, er hluti af Elliðaárdalnum.

Búskapur og landbúnaður

Árbær

Árbær.

Elliðaárdalur hefur verið landbúnaðarsvæði um langt skeið en getið er búskapar á bænum Ártúni á 14. öld og Árbæ á 15. öld. Á Árbæ var búskapur í minnst 500 ár. Ummerki um þennan landbúnað eru mjög áberandi enn í dag því tún eru kringum bæjarstæðin sem reyndar gáfu ekki mikið af sér og þótti harðbýlt á báðum bæjum. Dalurinn var lengi vel notaður sem úthagi þar til hann var friðaður fyrir sauðfjár- og hrossabeit á sjöunda áratug tuttugustu aldar. Í Ártúni var gisti- og veitingaþjónusta fyrir ferðafólk um langt skeið, allt fram á 19. öld. Áður en byggðin reis í Árbæjar- og Breiðholtshverfum var mikið um að leigð væru erfðafestulönd í dalnum, einkum norðan Elliðaáa undir Ártúnsholti austur að Selás. Þar reisti fólk sér sumarbústaði og önnur smáhús og eigendur stunduðu garð- og trjáyrkju.
Sumarbústaðabyggðin lagðist niður að mestu á tímabilinu frá 1960-1990 en enn standa nokkur stærri hús sem eru heilsárshús, flest á Ártúnsblettum við Rafstöðvarveg en einnig nokkur í Árbæjar- og Seláshverfum. Eru það elstu húsin á þessum slóðum. Smáhýsi eru einnig í Löngugróf sunnan Árbæjarstíflu nálægt Stekkjarbakka (Árni Hjartarson o.fl., 1998).

Aðrar söguminjar

Elliðaárbrú

Elliðaárbrú 1927.

Elliðaárdalur var í lykilhlutverki í ullarvefnaðariðnaði í Reykjavík 18. öld sem var hluti af starfsemi Innréttinga Skúla Magnússonar landfógeta. Í árhólmanum má sjá ummerki um mannvirkin er þessu tengdust en þar stóðu þófaramylla, litunarhús og sútunarverkstæði. Var vatnskraftur Elliðaánna nýttur við að þæfa og lita ullina. Þjóðleiðin frá Reykjavík lá einnig yfir Elliðaárnar neðarlega í dalnum og má finna ummerki um gömul vegstæði og vöð og var Ártúnsvað fjölfarnasta vaðið (Árni Hjartarson o.fl., 1998). Fyrstu brýr yfir Elliðaárnar voru byggðar 1883 en hafa þær verið endurnýjaðar alloft síðan þá, stækkaðar og styrktar. Í dag eru tvær brýr fyrir bílaumferð, Höfðabakkabrú frá 1981 og Breiðholtsbrautarbrú frá 1993 auk brúar fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi til móts við Árbæjarlaug.
Stríðsminjar finnast einnig í dalnum en fimm herkampar voru á túni Ártúns á heimsstyrjaldarárunum síðari og má sjá ummerki um þá í túninu við bæinn. Einn stór kampur, Camp Baldurshagi, var á Víðidalssvæðinu en lítil ummerki eru þar eftir í dag.
Ekkert er minnst á veru Arnesar útilegumanns, veru hans í dalnum og fylgsni hans í Árhólmum.

Raforkuframleiðsla

Elliðaárdalur

Elliðaárrafstöðin.

Rafstöðin við Elliðaár var tekin í notkun sumarið 1921 og var raforkan framleidd með tveimur vélum og flutt eftir háspennuraflínu að aðveitustöð á Skólavörðuholti. Var raforkan fyrst og fremst notuð fyrir lýsingu í Reykjavík. Helstu mannvirki er tengjast raforkuframleiðslunni eru stíflurnar tvær, Árbæjarstífla sem var fullgerð árið 1929 og Elliðavatnsstífla sem var reist á árunum 1924-8 og endurgerð 1978, rafstöðvarhúsið sjálft ásamt fallstokknum sem liggur frá Árbæjarstíflu niður í rafstöðina auk nálægra húsa er tengjast starfseminni. Stærsta byggingin er þó Toppstöðin sem var
vara- og álagsstöð fyrir meginrafstöðina og tók til starfa 1948. Hlutverki hennar lauk á áttunda áratugnum og hýsir húsið nú frumkvöðlasetur. Eftir að pípan í fallstokknum rofnaði árið 2013 hefur
ekki verið virk raforkuframleiðsla í Elliðaárvirkjun (www.or.is)

Skógrækt

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Skógrækt hefur sett mikinn svip á Elliðaárdalssvæðið. Á 30 ára afmæli Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1951 var hafin skógrækt í Elliðaárhólma og var gróðursett þar árlega til um 1970. Í Sveinbjarnarlundi í Ártúnsholti eru enn eldri grenitré eða frá 1937 sem í dag eru talin hæstu grenitré á Íslandi eða um 20 metra há. Skógræktarfélag Reykjavíkur stundaði einnig skógrækt í Elliðaárdalnum um alllangt skeið í samstarfi við Vinnuskóla Reykjavíkur, t.d. í Breiðholtshvarfi (Árni Hjartarson o.fl., 1998). Mikill vöxtur hefur verið á plöntuðum trjágróðri þar síðustu misseri og víða finnst þéttur skógur og há tré.
Starfsmenn Reykjavíkurborgar sinna nú grisjun í skóginum.

Ísaldaminjar

Elliðaárdalur

Blesaþúfa framundan. Meðfylgjandi texti á á skiltinu vinstra megin á myndinni.

Í Elliðaárdal er nokkuð mikið af setmyndunum jökla frá lokum ísaldar, en henni lauk fyrir um 10 þúsund árum. Þá hófu jöklar að hörfa af Bláfjallahálendinu og Hengilssvæðinu þar sem skriðjökullinn, sem lá yfir Elliðaárdal, átti upptök sín.

Elliðaárdalur

Elliðaá og Blesaþúfa framundan.

Á þessum tíma hafði þykkur jökulísinn myndað mikið farg sem olli því að land þrýstist niður um tugi metra. Þegar jökullinn hörfaði varð sjávarstaða til skamms tíma mun hærri en þekkt er í dag. Við árósa og annars staðar, þar sem mikill framburður lausra efna frá bráðnandi jöklinum hlóðst upp, mynduðust malarhjallar og setfyllur.

Í Elliðaárdal má finna minjar um hærri sjávarstöðu frá ísaldarlokum, sem myndanir tengdar henni og frárennsli bránandi jökuls. Á þessum tíma mynduðust sandfjörur og sandeyrar sem teygðu sig út með Blesugróf og Árbæjarhverfi.
Þessar myndanir sem nefndar eru strandhjallar og óseyrar, benda til að sjávarmál hafi verið um 40 m hærra en nú er. Glöggt dæmi um fornar strandlínur má t.d. finna innan við Ártún. Á þessum tíma voru Elliðaár beljandi jökulfljót, en ekki kyrrlátar kindár eins og nú er.
Blesaþúfa er dæmigerðar leifar af fornri óseyri.

Heimildir:
-https://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_ellidaardalur.htm
-Sjálfbær Elliðaárdalur – stefna Reykjavíkur – Lokaskýrsla starfshóps 31. ágúst 2016.

Elliðaárdalur

Skötutjörn.

Hafnarfjörður

Björn Þorsteinsson sagnfræðingur skrifaði um “Mjóa veginn – mestu umferðaræð Íslands” í Alþýublað Hafnarfjarðar, jólablað, árið 1962, en vegurinn sá var Hafnarfjarðarvegur þeirra daga.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

“Síðastliðið ár ferðuðust með strætisvögnum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur rúmlega 900 þúsundir manna. (Áætluð tala eftir farmiðum: 915.829.) Sama ár fóru um 10 þúsund bifreiðir til jafnaðar á dag yfir brúna á Fossvogslæk.
Mest umferð var um verzlunarmannahelgina í byrjun ágúst, en þá fóru um 15.600 bifreiðir á dag yfir lækinn. Um þann hluta vegarins hafa því farið rúmlega hálffjórða milljón ökutækja á árinu eða a. m. k. rúmlega 7 milljónir manna, ef gert er ráð fyrir, að hvert farartæki hafi a. m. k. tvo menn innanborðs, ekil og farþega, en það mun vera allt of lág tala. Strætisvagnarnir fara 50 ferðir fram og aftur alla virka daga, en þar við bætast aukavagnar kvölds og morgna. Þeir munu því fara um 100 einstakar ferðir milli borganna á hverjum sólarhring. Samkvæmt farmiðasölunni ættu að vera um 25 menn í hverjum vagni til jafnaðar. Þeir, sem fara um Fossvogsbrúna, eru auðvitað ekki nærri allir einungis á ferðalagi milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Leið margra liggur í Kópavog, suður á Álftanes, og býsna margir sækja á Suðurnesin, en þeir, sem að sunnan koma, eru sumir að koma úr Kópavogi. Samt sem áður mun það ekki of í lagt, að milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur ferðist rúmlega milljón manna á ári, eða nær sexföld tala allra Íslendinga.
Vegurinn, sem á að anna allri þessari umferð, er fyrir löngu orðinn allt of mjór, auk þess sem hann er bæði holóttur, óþarflega hlykkjóttur og bráðhættulegur í frosti, snjó og regni. Það ætti alls ekki að taka yfir 12 til 15 mínútur að komast milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar á okkar dögum, en ferðalagið tekur venjulega um 25 mínútur og oft talsvert lengri tíma.
Um milljón manns eyðir því um 10.000.000 mínútum eða 16.666 klst. og 40 mín, eða rúmum 20.833 átta stunda vinnudögum á ári í óþarfa silagang á þessari leið. Ef einhver heldur, að hér sé um hæpna útreikninga að ræða, þá er þess að minnast, að það er ekki ein milljón, heldur a. m. k. 7 milljónir, sem leggja að einhverju leyti leið sína um Hafnarfjarðarveginn, meðan jörðin er að silast sporbaug sinn í kringum sólina.
Slæmir vegir í þéttbýli eru dýrir á okkar tímum. í hvert sinn, sem við silumst milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, erum við að greiða vegatoll hinnar ólögðu brautar, án þess að þau útgjöld komi að nokkru gagni. En seinagangur er ekki að öllu leyti neikvæður. Hann gefur ferðamönnum m. a. tóm til þess að athuga umhverfið, þegar sessunauturinn er ekki allt of skemmtilegur og aðlaðandi.

Meistaraverk náttúrunnar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður fyrrum.

Leiðin liggur úr Hafnarfirði, einhverju sérkennilegasta bæjarstæði hér á landi. Náttúran hefur gert frumdrætti að dálitlu listaverki upp frá höfninni, og það er vandmeðfarið eins og öll verk sinnar tegundar. Helztu hlutar þess eru hraun, lækur og hamar. Hvert þeirra býr yfir sérstökum töfrum, sem mannanna verk eiga að lúta, en ekki eyðileggja. Það er hægt að ganga þannig frá hlutunum í þessum bæ, að hraundrangarnir séu aðeins ljótir og leiðir farartálmar, sem skaga svartir og hálfbrotnir út í göturnar, gjóturnar séu óþverraholur, og lækurinn falli í óyndislegum sementsstokk til sævar. Þótt Hafnfirðingar kannist við slík fyrirbrigði og þekki hverfi, þar sem hverju húsinu er troðið að öðru, svo að eitt rekur sig á annars horn, og göturnar eru furðulegir krákustígir, þá blasir víðar við sjónum smekkvísi og umhyggja fyrir verkum skaparans. En bærinn á eftir að vaxa mikið. Það er ekki of í lagt, að á svæðinu Hafnarfjörður — Reykjavík muni búa um 180 þús. manns árið 2000, ef engin sérstök ógæfa sækir okkur heim. Það er jafnvel sennilegra, að um aldamótin muni búa á þessu svæði rúmlega 200 þúsundir manna. Hafnarfjörður mun eflaust eiga eftir að gera betur en tvöfaldast að íbúatölu á næstu 38 árum. Framtíðaráætlanir um skipulag bæjarins verður að gera á grundvelli þess, að hér rísi upp stórborg einhvern tíma. Hún mun m. a. teygja sig yfir hraunið meðfram nýja veginum, upp Setbergshlíðina og inn hraundalinn. Þar á lækurinn og umhverfi hans að vera mesta borgarprýðin, tjarnir og trjágarðar. —
Einnig mun byggð þéttast um Jófríðarstaðaland frá Skuld og suður og austur dalinn meðfram Grænugrófarlæk.

Ferfœttir skipulagsstjórar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Klaustrið ofar.

Hér er ekki ætlunin að dveljast einkum við framtíðina, heldur hyggja lítið eitt að fortíðinni.
Hafnarfjörður er með elztu verzlunarhöfnum á landi hér. Fjörðurinn verður aðalhöfn landsins á 15. öld og heldur því sæti að mestu fram á daga Skúla Magnússonar.
Skúli gamli bjó í Viðey og vildi hafa innréttingarnar sínar, nýsköpunarfyrirtækin, sem hann stofnaði, sem næst sér. Það var upphaf Reykjavíkur. Við verðum að fyrirgefa honum staðarvalið, af því að honum gekk gott eitt til.
Hér í firðinum mun lútherskt kirkjuhald eiga upphaf sitt á íslandi, hér sló fyrsti íslenzki kaupmaðurinn tjöldum og hér hófst rafvæðingin á Íslandi hjá honum Reykdal. Þótt Hafnarfjörður væri svo mikilvægur verzlunarstaður á 15. og 16. öld, að erlendir kaupmenn þreyttu hingað kappsiglingu á hverju vori, þá gerðu Íslendingar seint nokkuð til þess að greiða fyrir samgöngum hingað á landi.
Sauðkindin var lengi helzti skipulagsmeistarinn á Íslandi og vegamálastjóri. Í Landnámu segir, að „sumir þeir, er fyrstir komu út, byggðu næstir fjöllunum og merktu að því landkostina, að kvikfé fýstist frá sjónum til fjallanna”. Feður fræknu treystu auðheyrilega betur framsýni sauðkinda sinna en eigin dómgreind og létu stjórnast af sjónarmiðum þeirra til landgæða og búsældar við bólstaðaval. Jafnvel íslenzkir stórhöfðingjar eins og biskuparnir eltu forystusauðina upp í afdal norðan lands og upp fyrir öll stórvötn syðra. Til Skálholts varð ekki komizt úr neinni átt nema með þrálátum sundreiðum og selflutningum, en sauðir biskups áttu greiða leið til fjalla. Svo virðist sem hann Ingólfur gamli hafi verið nær eini heilskyggni maðurinn, sem hingað flutti í upphafi landsbyggðar. —

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Þær þjóðir, sem létu ekki stjórnast af hagspeki ferfætlinga, reistu sér aðalstjórnar- og menntasetur við góðar hafnir eða verzlunarleiðir, og þar risu upp þorp, sem urðu miðstöðvar atvinnulífsins í landinu, er stundir liðu. Hér var því ekki að heilsa. Í 740 ár var helzta höfuðsetur landsins uppi í Tungum, og þar var of t margt um manninn. En Skálholtsstaður var höfuðsetur íslands, meðan hér bjó frumstæð landbúnaðarþjóð í atvinnuefnum, en ekki stundinni lengur. Hefði biskupsstóllinn hins vegar staðið hér á Innnesjunum í landnámi Ingólfs, hefði hann orðið grundvöllur þeirrar borgar, sem Ísland skorti langan aldur. En stóllinn stóð á sínum stað, og það þurf til eitt mesta eldgos veraldarsögunnar að viðbættum ógurlegum jarðskjálftum til þess að hrekja hann til strandar, og á leiðinni liðaðist hann nær algjörlega í sundur.
Hafnarfjörður var löngum verzlunarstaður án þess að vera svo mikið sem þorp, og hingað lágu koppagötur úr ýmsum áttum yfir hraunin allt til ársins 1873. Að innan lágu Gömlufjarðargötur, troðningar frá túngarðshorni á Hraunsholti að Sjónarhóli, og þaðan niður um Háaklif hjá hliðinu á Hellisgerði. Þar stendur nú hálfbrotinn klettur, Svensensklettur, sem áður lá austan að klifinu. Kletturinn er kenndur við skipstjóra, Svensen, sem lengi sigldi upp Hafnarfjörð á vegum Knudtzons. Þangað gekk hann til þess að skyggnast til veðurs og gá til skipa.

Svensensklettur

Svensensklettur.

Vegurinn
Einn talaði um veg yfir vegleysur og hraun,
einn vitnaði í samtök, er ynnu þyngstu raun,
einn mældi fyrir vegi og vissi upp á hár,
hvar vegurinn ætti að koma, svo liðu hundrað ár.
Það breyttist ekki hraunið og björgin lágu kyrr.
Í byggðinni var talað um veginn eins og fyrr.
Einn hafði góðan vilja en öðrum þróttur þraut,
og þriðja fannst það heimska að leggja nokkra braut.

-Davíð Stefánsson.

Konungskoman 1874

Háaklif

Horft upp eftir Háaklifi, nú Reykjavíkurvegi – að Sjónarhóli.

Um 1873 bárust þau tíðindi til Hafnarfjarðar, að kóngurinn í Kaupmannahöfn ætlaði að heimsækja Ísland. Hafnfirðingar sáu það þegar af hyggjuviti sínu, að kóngur mundi aldrei fara svo af Fróni, að hann hefði ekki komið í Hafnarfjörð, þann stað, sem löngum var frægastur íslenzkra hafna og forfeður Kristjáns Friðrikssonar höfðu leigt við ærnu gjaldi.
Hins vegar fengu þeir strangar áhyggjur af því, að það væri alls ekki kóngi bjóðandi að eyða hálftíma í að paufast Gömlufjarðargötur yfir hraunið; hans hátign gæti þar að auki dottið og hlotið skrámur.
Þá var Kristinn Zimsen verzlunarstjóri hjá Knudtzon hér í Firðinuni, Hann gekkst fyrir því, að vegur var lagður frá Sjónarhóli yfir Flatahraun inn í Engidal. Þetta varð svo konunglegur vegur, að hér eftir var talið 10 mínútna skokk milli fyrrgreindra bæja.
Kóngurinn kom í Fjörðinn ári síðar, en Hafnfirðingar reyndust mjög tómlátir, þótt hans hátign birtist á Mölinni. Yfir Háaklif var lagt siglutré milli kletta, skreytt birki og lyngi. Klettarnir voru svo háir, að það var vel reitt undir ..lauftréð”. Kóngur hafði orð á því, að honum fannst sem hann hrapaði ofan í bæinn, þegar hann fór niður Háaklif.
Niðri á Mölunum var fólk í óðaönn að taka saman fisk. Kóngur gekk um sjávargötuna frá Linnetskletti og vestur að húsi Kristins Zimsens, sem eitt sinn var hús Bjarna Sívertsens. Við götu hans var engin skrúðfylking glápandi þegna, horfandi höggdofa á, hvernig kóngurinn hreyfði sig. Þó voru það ýmsir, sem veittu honum óskipta athygli. Börnin hættu leikjum sínum og fylgdust álengdar með hverju fótmáli hans. Meðal þeirra var Nielsína Abigael Ólafsdóttir, þá á 5. ári, en hún sagði löngu síðar Gísla Sigurðssyni frá konungskomunni til Hafnarfjarðar og hann mér. Níelsína giftist Daníel Daníelssyni dyraverði í stjórnarráðinu.
Á stakkstæðunum héldu menn áfram að rogast með börur sínar og taka saman fiskinn, rétt eins og ekkert væri um að vera í plássinu.
Þó er þetta ekki öldungis rétt, því að maður nokkur vék af einu stakkstæðinu rétt hjá Knudtzonsbryggju, gekk í veg fyrir konung og bauð hann velkominn í plássið. Nafn pessa konungdjarfa Hafnfirðings mun með öllu gleymt, og ræðan var aldrei skráð. Hún var þýdd fyrir konung, og hann gaf þessum fullrúa hafnfirzkrar sjómannastéttar gullpening fyrir kveðjuna, en hann hneigði sig og gekk aftur til vinnu sinnar við fiskinn. Þar með var hinni opinberu móttökuathöfn lokið. – Kristinn Zimsen bauð konungi inn, og Katinka, dóttir hans, færði hnum blómvönd úr garðinum bak við húsið. Kóngur þáði glas af léttu öli, það voru veitingarnar, og tók stúlkuna á kné sér og þakkaði henni móttökurnar.
Konungur hvarf á braut upp Illaklif og hélt með föruneyti sínu inn veginn frá Sjónarhóli. Hann hafði öldungis óviljandi orðið til þess, að Hafnfirðingar kynntust vegabótum.

Nœstu áfangar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Hafnfirðingar voru svo hrifnir af nýja veginum, að á næsta ári höfðu þeir uppi allmikil áform um vegabætur. Þann 12. apríl kemur hreppsnefnd Álftaneshrepps til aukafundar, og segir svo m. a. í fundargerðarbókinni:
„Á fundinum var fyrst rætt, hverjar uppástungur skyldi gjöra um, hvað vinna skyldi að þjóðveginum á næsta sumri. Var samþykkt af öllum nefndarmönnum, að góður vegur skuli lagður frá hinum nýja vegi, sem liggur ofan í Hafnarfjörð og suður undir Hvaleyri, og ætlar nefndin til þess 800 kr. þurfi, en skyldi upphæð þessi ekki fást öll, álítur nefndin óumflýjanlegt að gjöra við kafla þann, sem kallast Hamar, og nú til þess ætla 400 krónur. Einnig álítur nefndin mjög nauðsynlegt að leggja brú yfir mýrina frá trébrúnni á Hraunsholtslæk inn að Arnarneslæk, og ætlar nefndin, að til þess að gjöra góða brú mundi þurfa 1000 krónur, en að mikið megi bæta mýrina með 400—500 krónum. Var oddvita falið að semja uppástungu um þetta.”
Af fundargerðinni sést, að brýnustu vegabæturnar voru að ryðja braut yfir Vestur-Hamarinn, þar sem Vélsmiðja Hafnarfjarðar stendur, og „brúa” Austurmýrina, sem nú kallast Hofstaðamýri. Að brúa merkir að gera veg, bera a. m. k. ofan í verstu svakkana í mýrinni.
Talað er um trébrú á Hraunsholtslæk, en hvenær hún var gerð, er mér ókunnugt. Menn ætla að ráðast í talsvert og eru allbjartsýnir.
Alþingi fékk nokkurt fjárforræði með stjórnarskránni 1874, en afl þeirra hluta, sem gera skal, var þó af býsna skornum skammti. Lán voru ekki auðfengin, og lítið varð oft úr framkvæmdum, þótt viljinn væri góður. Árið eftir berst hreppsnefndinni beiðni frá Reykvíkingum um styrk til brúargerðar á Elliðaárnar. Hafnarfjörður hafði verið helzta verzlunarhöfn við Faxaflóa, og þangað höfðu bændur sótt í kaupstað hundruðum saman austan úr sveitum, þótt tekið væri að byggja upp í Reykjavík.
Brúargerð á Elliðaárnar var fyrirboði þess, að viðskiptaleið bænda mundi breytast, og hreppsnefndin synjaði um styrkinn.
Þegar þetta mál er til umræðna, kemur fram, að Konungsvegurinn yfir Flatahraun liggi undir skemmdum. Veittar eru 300—400 kr. til þess að láta bera ofan í hann.
Brúargerðin yfir Austurmýrina hefur auðsæilega strandað á féleysi, en margt kallar að. Álftnesingar þurfa að komast yfir mýrarfenin undan túninu á Selskarði, en þar „er ófær vegur”, og 400 kr. eru veittar til „brúargerðar” þar. „Ef mögulegt væri að fá meira fé”, ákveður nefndin að ráðast á Hraunsholtið , láta ryðja þar „vegarbreidd og gjöra skurð við hlíðarnar”. Til þess ætlar hún 200 kr., ef hægt er á einhvern hátt að höndla þá fjárhæð.

Dýrt vegagjald

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1920.

Árin líða, og lítið er hægt að framkvæma sökum fátæktarinnar. Í 1000 ár höfðu menn búið á Íslandi án þess að leggja nokkurn vegarspotta, svo teljandi sé. Menn höfðu slarkað einhvern veginn yfir ófærurnar eða orðið til í þeim. Menn björguðust eða fórust; það er hið endalausa efni íslenzkra ferðasagna í gamla daga. Hver kaupstaðarferð var svaðilför víðast á landinu. Og menn þurftu ekki að leggja í langferðir til þess að lenda í lífsháskum.
Féleysi, þróttleysi, klæðleysi, vegaleysi og allsleysi varð mörgum að fjörtjóni milli bæja, ef nokkuð varð að veðri, en mórum, skottum og illum vættum var kennt um ófarirnar. Álfhóll heitir klapparhóll á Digraneshálsi. Við hann er kennd Álfhólsbraut. Það er dálítill hlykkur á götunni hjá hólnum, af því að Finnbogi Rútur bannaði vegagerðarmönnum að brjóta byggð álfanna. Rétt sunnan við hólinn innan girðingar eru tættur sennilega af stekk. Þar í urðinni á að vera huslaður maður, sem varð úti á leiðinni milli Bústaða og Digraness. Þetta á að hafa verið ekki mjög merkilegur borgari á sinni tíð, og þess vegna var ekki fengizt um hann frekar.
Hábunga Garðaholts heitir Völuleiði. Undan útnorðurhorni girðingar á háholtinu vestan vegar er dys. Ekki á völva að hafa verið heygð þar að fornu, heldur mæðgur tvær, sem urðu þar úti á leið frá Bessastöðum að Görðum. Sagt er, að konan hafi farið að Bessastöðum með unga dóttur sína, sem hún kenndi einum manni yfirvaldsins, en sá vildi ekki við kannast. Af þeim sökum féll sá grunur á, að móðirin hefði fargað barni sínu og sér sjálfri á þessum stað, lagzt fyrir og hætt að þreyta göngur milli góðbúanna.
Um 1912 verður maður úti frá Lásakoti í Skógtjarnarhverfi á leið austur með Völuleiði. Hjörleifur, faðir Ingimundar Hjörleifssonar í Ásbúðartröð 3, verður úti í Garðahrauni veturinn 1909—10.
Margir kannast við kvæði Matthíasar Jochumssonar um börnin frá Hvammskoti (nú Fífuhvammi), sem drukknuðu á útmánuðum 1874 í Kópavogslæk:

Þrjú stóðu börnin við beljandi sund
næddi vetrarnótt yfir náklædda grund.
Hlökkuðu hjörtun svo heimkomufús,
hinum megin vissu sín foreldrahús.
En lækurinn þrumdi við leysingarfall,
fossaði báran og flaumiðan svall.
Hímdu þar börnin við helþrunginn ós;
huldu þá sín augu Guðs blásala ljós.
„Langt að baki er kirkjan,
sem komum við frá,
en foreldranna faðmur
er fyrir handan á.
í Jesú nafni út í,
því örskammt er heim.”
En engill stóð og bandaði
systkinum tveim.
Eitt sá tómt helstríð —
og hjálpaðist af;
hin sáu Guðs dýrð — og bárust í kaf.
Brostin voru barnanna bláljósin skær,
brostu þá frá himnum smástjörnur tvær.
Foreldrarnir tíndu upp
barna sinna bein,
og báran kvað grátlag
við tárugan stein.

Hafnarfjörður kemst í vegasamband

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Það þurftu margir að greiða dýran vegatoll, af því að hér voru hvorki til brýr né vegir. Verstu mýrarsvakkarnir út á Álftanesið voru brúaðir á árunum eftir 1876, en árið 1879 er fyrst ráðizt í vegagerð yfir Hraunsholtið. Á næstu árum geisa fádæma harðindi hér á landi, en allt um það eru Garðhreppingar, sem voru orðnir sérstakt hreppsfélag, alltaf hafnasamir við vegagerð. Árið 1881 kemst vegur yfir Hraunsholtið, og þá og á næsta ári munu gerðar brýr yfir Austurmýrina og upp Arnarnesið. Sá vegarkafli að Arnarneslæk var löngum nefndur „Mýrarbrú”. Arnarneslækurinn var þó óbrúaður enn um skeið.
Árið 1883 er tekið að leggja veg frá Hamrinum suður á Hvaleyri og hugsa fyrir brú á Kópavogslæk. Sú brú mun hafa komizt á 1884 eða 1885, og hefur sennilega einungis verið göngubrú í fyrstu. Um þær mundir eignast Garðahreppur nýja stétt embættismanna, vegabætarana, og bera þeir Magnús Brynjólfsson á Dysjum og Þorgils Halldórsson í Miðengi fyrstir þann titil.
Hreppnum var skipt í umdæmi milli þeirra. Skyldi Magnús sjá um vegagerðina í Hafnarfjarðarhraunum, en Þorgils í Garðahverfi og uppbæjum.
Ekki urðu neinar stórbreytingar á vegamálum hreppsins við tilkomu þessara embættismanna. Af samgöngubótum fara heldur fáar sögur næsta áratuginn. Verkfærakostur manna var af mjög skornum skammti, venjulega ekki annað en skófla, járnkarl, haki eða mölbrjótur og handbörur. Árið 1899 samþykkir hreppsnefndin að kaupa Landssjóðsverkfæri fyrir kr. 17,50. — sautján krónur og fímmtíu aura — til hreppsvegasjóðs. Þá var „kirkjuvegurinn með sjónum fram að Görðum orðinn bráðófær” og skyldi ráðizt í endurbætur á honum með 300 kr. lántöku.
Lítið var fengizt um vega- og gatnagerð í þorpinu sjálfu. Brú var gerð á lækinn um 1785, að því er Gísli Sigurðsson telur. Sú brú var sunnan við Brúarhraunsklett. Annar brúarsporðurinn stóð á Brúarklöppinni, en hinn á eyraroddanum. Þetta mannvirki kom helzt að gagni á fjöru, því að á flóðinu var það umflotið sjó. Síðar er brúin færð, og stendur hún þá um skeið fram undan þeim stað, þar sem búð Olivers er nú. Þessar brýr voru gerðar og kostaðar af kaupmönnum. Í þriðja sinn er henni fundinn staður undan Einarsbúð, og það er sá brúarflutningur, sem vofir yfir 1902. Þegar brúin var færð, fylgdi því m. a. sá kostnaður að teygja veginn að henni. Hreppsnefndin leitaði til sýsluneindar um fjárstyrk til framkvæmda og fékk 500 kr. til vegagerðar niður í Hafnarfjörð, um þorpið og til búargerðar gegn tvöfaldri upphæð til sömu framkvæmda annars staðar frá. Það fé lagði hreppsnefndin til, og þá um vorið var í fyrsta sinn lagður „viðunanlegur akvegur” ofan í Hafnarfjörð.
Sumarið 1902 var í fyrsta sinn hægt að komast með vagna niður í verzlunarstaðinn Hafnarfjörð, en ekki í gegnum þorpið. Á næsta ári var nýja brúin byggð á lækinn og hafizt handa um vegagerð í þorpinu. Þá varð það, að búendur í Brekkunni sunnan lækjar báðu hreppinn að leggja til land undir veg, sem þeir ráðgera að leggja beint upp Brekkuna (Illubrekku) milli sýslumannshússins og barnaskólans, „þar sem nú er mjór gangstígur”. Einnig báðu þeir um fjárstyrk til vegagerðarinnar. Þeir fengu landið, ræmu af lóð barnaskólans, og var heitið 20 króna virði í vinnu, sem hreppurinn útvegaði. Með þennan bakhjarl var einnig tekið við að leggja Suðurgötuna.
Þar með opnaðist akfær leið gegnum Hafnarfjörð, og árið eftir veitti landssjóður 2.800 kr. til vegagerðar milli Hafnarfjarðar og Vogastapa. Sá vegur átti langt í land, en þó var áfanga náð; Hafnarfjörður var kominn i vegasamband við umhverfið. Hitt var annað mál, að vegakerfið beindi brautir manna til Reykjavíkur, en ekki hinnar fornu hafnar við Faxaflóa.
Helztu heimildarmenn mínir eru þeir Gísli Sigurðsson lögregluþjónn og Adolf J. E. Petersen verkstjóri.”
-B. P.

Vegagerð í bænum bundin öðruleikum

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1907.

Í skýrslu um “Húsakönnun í miðbæ Hafnarfjarðar frá árinu 2019 segir m.a. um vegagerð í byrjun 20. aldar:
“Segja má að þegar Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi árið 1908 hafi ekki verið nokkurt skipulag á byggðinni og fáar eiginlegar götur í bænum. Strandgatan og Reykjavíkurvegurinn voru þó á sínum stað en að öðru leyti má segja að einungis hafi verið um slóða og stíga að ræða. Þar sem bæjarfélagið var fámennt og bæjarsjóður ekki vaxinn til stórframkvæmda var ljóst að kostnaðarsamar framkvæmdir eins og gatnagerð var, sérstaklega í svo erfiðu landslagi, yrðu ekki forgangsverkefni. Árið 1911 var sett á fót nefnd sem fékk það hlutverk að gefa götum og slóðum í Hafnarfirði nöfn og tölusetja hús í bænum. Í greinargerð sem nefnd þessi sendi frá sér sagði meðal annars: „Þegar maður fer um Hafnarfjörð og virðir fyrir sér byggðina, verður maður þess fljótt var, að öll ný veglagning er bundin miklum örðuleikum, ekki aðeins vegna hins hrjóstruga landslags, heldur einkum og ekki sízt sökum þess, hve óreglulega hefir verið byggt og ekkert fyrir hugað frá öndverðu um það, hvar vegir ættu að byggjast, þegar fram liðu stundir.“
Niðurstaða nefndarinnar var að gefa flestum þeim götum og slóðum sem fyrir voru í bænum nöfn en á þeim svæðum sem skipulagsleysið var hvað mest var brugðið út af þeirri reglu og svæðin einfaldlega kölluð „hverfi“ og hús númeruð innan þeirra.”

Heimildir:
-Alþýublað Hafnarfjarðar, jólablað, 15. des. 1962, Björn Þorsteinsson sagnfræðingur – Mjói vegurinn – Mesta umferðaræð Íslands, bls. 6-8.
-Miðbær Hafnarfjarðar, Skýrsla um húsakönnun, 2019.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður.

Skagagarður

Í Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags í Garði árið 2017 er m.a. fjallað um Skagagarðinn og Skálreyki:

Skagagarðurinn

Skagagarður

Skagagarðurinn.

“Lokaðist það af svonefndum Skagagarði, sem hlaðinn var frá túngarði Útskála og þvert fyrir tána yfir í túngarðinn á Kirkjubóli. Sér leifar hans hér og hvar enn,” segir í örnefnalýsingu. Í sýslu- og sóknalýsingu frá um 1860 segir ennfremur: “Fyrir ofan Skagann hefur legið garður einn mikill, sem enn er kallaður Skagagarður, frá túngarðinum á Útskálum beint yfir í Túngarðinn á Kirkjubóli.”
Enn sér fyrir Skagagarði sunnan Skagabrautar en norðan hennar er hann farinn í tún og þar sjást engin ummerki hans.

Í Chorographicu Árna!Magnússonar frá 1720 segir: “Garður (sú sveit) hefur nafn af girðingum. Menn meina landið hafi afgirt verið frá Hrafnkelsstöðum og so continue að Þórustöðum.” Í sýslu-og sóknalýsingu frá 1839: “… Ein hefir höfuðgirðing verið yfir þveran Skagann, sem Skagagarður kallast; á honum voru að sögn læst hlið.” Í annarri lýsingu frá um 1840 segir ennfremur: “Mikill garður hefir í fyrndinni þaðan [frá Flankastöðum] legið, sem enn sést merki til, og hefir náð allt inn að Útskálum. Er það sögn manna, að með þeim garði hefðu allir átt að fara, sem innan að sóttu jólagleði þessa [á Flangastöðum], svo ekki villtust menn, þó niða myrkur væri.
Þessi fornaldargarður liggur sunnanvert fyrir Skaganum eða heiðar megin, en Skaginn er sléttlendur og hagbeitarpláss frá Útskálum. Er þessi garður, sem heita má gersamlega niður fallinn, kallaður Skagagarður og hefir líkast til í fyrndinni verið varnargarður fyrir skaganum á hverjum verið hafa yrktir sáðakrar, og má enn sjá merki garðlaga, sem hlaðin hafa verið kringum sáðreitina. En á þessum aðalvarnargarði áttu að hafa verið læst hlið.”

Í grein Magnúsar Grímssonar, Fornminjar um Reykjanesskaga frá 1860 segir um Skagagarð: “Rústirnar af garði þessum, sem nú eru að mestu grasi grónar og líta út eins og ávalur hryggur, eru glöggar nema á stöku stöðum, þar sem mælt er, að hlið hafi verið á honum. Garðurinn hefur að mestu verið hlaðinn úr stórgrýti og að líkindum afar hár og þykkur, eftir sem út lítur 3/4 álna á þykkt. Nú geta 2 menn riðið samsíða ofan á rúst hans víðast hvar. Með!þessum garði hefur Skaginn með öllum ökrum og hofinu (?) verið alveg afgirtur.”

Skagarður

Skagagarðurinn – loftmynd.

Kristján Eldjárn skrifar í Árbók Ferðafélags Íslands árið 1977: “En Skagagarðurinn mikli, sem byggðin hefur nafn af og prestarnir lýsa svo fagurlega, hann er enn til, friðlýstur og heill, að öðru leyti en því að á einum stað var rofið skarð í hann 1964 til að komast þar í gegn með veg sem liggur frá Sandgerði til Út-Garðs…. Á milli Út-Garðs (Útskálahverfis) og Kirkjubólshverfis er víðáttumikið land, sem ætíð hefur verið lítt eða ekki byggt fyrr á tíð og raunar enn á vorum dögum. Þetta er sendið land og grýtt og virðist ekki kostamikið. Upp undir heiðinni og þá ofarlega eða efst á Skaganum liggur Skagagarðurinn þvert yfir hann í nokkurn veginn beinni línu frá Útskálum, þ.e. Túngarðinum á Útskálum, þótt sú samkoma sjáist ekki nú, og þar til hann hverfur fyrir ofan bæina Kolbeinsstaði og Hafurbjarnarstaði í Kirkjubólshverfi, þar sem hann hefur á sama hátt náð sambandi við túngarð.

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn.

Þessi beini garður, hinn!raunverulegi Skagagarður, hefur verið röskir 1500 m að lengd. Hann er sannarlega þess virði að skoða hann. Hugsum okkur að við komum eftir þjóðveginum frá Sandgerði og stefnum til garðs. Fyrir ofan Kolbeinsstaði klofnar vegurinn í tvennt. Til hægri liggur vegur til Inn-Garðs og síðan áfram til Keflavíkur. Til vinstri liggur áðurnefndur vegur til Út-Garðs og hann förum við. Þá sjáum við fljótlega Skagagarðinn nærri vegi til vinstri handar og ekki líður á löngu þar til við komum þar sem vegurinn sker garðinn. Þar er ráð að staldra við, ef maður hefur hug á að átta sig á Skagagarðinum. Við lítum um öxl og sjáum hvernig hann nær sambandi við túnin í Kirkjubólshverfi, og til hinnar handarinnar sjáum við glöggt hvernig garðurinn stefnir til norðausturs rétt utan við Útskálakirkju. Hér er auðvelt að sjá hvernig garðurinn tengir saman Útskálahverfi og Kirkjubólshverfi og hvernig hann girðir af Skagann, nokkurn veginn á mörkum hans og heiðarinnar. Hér er mjög auðskilið að þetta er aðalvarnargarður Skagans og einnig hvernig hann hefur getað tengst túngörðum til beggja hliða, sem vel hugsanlega hafa náð alla leið til Rafnkelsstaða að austan og Þórustaða að vestan eins og Árni Magnússon segir, eða jafnvel alla leið til Flankastaða eins og prestarnir segja. Í Kirkjubólshverfinu má enn rekja þessa garða að mestu leyti og á loftmynd sjást þeir greinilega og hvernig þeir enda við sjó rétt fyrir sunnan Þórustaði. Í Garðinum sést þetta miður sökum þess hve mjög hefur byggst þar en þó hygg ég að einnig þar mætti sjá búta af túngörðum ofan gömlu túnanna. Ekki fer hjá því að Skagagarðurinn veki undrun fyrir mikilleika sakir. Sú spurning hvarflar jafnvel í hug manns sem snöggvast að hann sé alls ekki mannaverk, heldur náttúrulegur ávalur ás. Slíkt væri dálaglegt.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Til þess að vera ekki einn um ábyrgðina fékk ég þrjá glögga menn til að gera með mér áreið á garðinn haustið 1976. Einn þeirra var dr. Sigurður Þórarinsson. Hann sagði orðrétt þegar hann sá garðinn: “Það er ekkert í náttúrunnar ríki sem getur búið þetta til.” Reyndar urðum við allir vel sammála um að vissulega væri Skagagarðurinn mannaverk. Hann má heita þráðbeinn, og þegar vel er að gáð er fleira sem sýnir að hann er af mannahöndum gerður. Hann hefur verið borið saman úr grjóti og jarðvegshnausum og áreiðanlega verið bæði hár og þykkur en með tímanum flast út og að nokkru sandorpist. Við þetta hefur hann smátt og smátt fengið þennan ávala svip og að lokum orðið firnabreiður í grunninn, víða líklega um 15m. Skýrar helðslur sjást varla í honum nú, þótt steinar standi upp úr víða, og þegar skarðið var rofið í hann vegna vegarins 1964 tók verkstjóri (Björn Jóhannesson)!ekki eftir greinilegri hleðslu svo hann muni. Reyndar er túngarðurinn á Hofi í Garði fróðlegur til samanburðar við Skagagarð. Hann er með ólíkindum mikill og ávalur nokkuð á svipaðan hátt, en til muna minna útflattur. Og beint upp frá gerðum, við hornið á íþróttavellinum sem nú er, má sjá vænan bút af mjög fornlegu garðlagi sem að öllu leyti minnir á Skagagarðinn sjálfan. Að sögn prestanna góðu áttu nokkur hlið að hafa verið á Skagagarðinum. Ekki er það nema eðlilegt, en í raun réttri er þetta hermt í sögum til þess að skýra nokkur skörð sem nú eru í garðinn. En sum þeirra eru langtum of víð til að teljast hlið, og kem ég nú ekki auga á nærtæka skýringu á skörðum þessum. Garðurinn kann að hafa verið rofinn af einhverjum ástæðum, en þó mætti fremur virðast við athugun sem skörðin hafi verið frá upphafi og þá ef til vill fyllt upp í þau með einfaldri grjótgirðingu, sem síðan hefur hrunið eða verið fjarlægð. Hefur garðurinn kannski aldrei verið fullgerður í sinni stóru mynd?”

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Í bók Jóns Böðvarssonar, Suður með sjó frá 1988 segir: “Nýjar rannsóknir jarðfræðinganna Guðrúnar Larsen og Hauks!Jóhannessonar hafa leitt í ljós að Skagagarðurinn á Suðurnesjum er miklu eldri en áður var haldið. Niðurstöðu þessa fengu þau eftir að hafa grafið gegnum garðinn á þremur stöðum. Að sögn Hauks mælist garðurinn nú 1500 metra langur, og hefur náð meðalmanni í öxl fyrr á öldum…. Garðurinn er stöllóttur að innanverðu en sléttur að utan, þannig að unnt hefur verið að reka fé út yfir hann án þess það kæmist inn aftur og hefir það líklega komið sér vel vegna!akurreina innan garðsins. Ofan á Skagagarði er grjóthleðsla sem telin er jafngömul torfgarðinum. Haukur segir að aldur garðsins megi greina all nákvæmlega út frá öskulögum sem sjást þegar grafið er í gegnum hann. Ljóst er að hann hafi verið reistur skömmu eftir að öskulag, kennt við landnám, féll í upphafi tíundu aldar. Svokallað miðaldalag er myndaðist við gos í sjó út af Reykjanesi árið 1226 lagðist ofan á garðinn, sem þá var að miklu leyti kominn í kaf vegna foks.”
Í skýrslu Garðars Guðmundssonar og fleiri í Árbók hins íslenska fornleifafélags frá 2002-2003 segir: “Hrun úr garðinum er undir miðaldalaginu frá 1226 og landnámslagið er í torfi garðsins. Magnús Á. Sigurgeirsson telur garðinn hlaðinn á 10.-11.öld.”
Viðbót 2017: Garðurinn var rakinn frá Skálareykum norður að Skagabraut. Hann er ekki mjög áberandi en sést þó alla leiðina sem lágur hryggur,5-8m breiður og mest 0,3-0,4m hár, algróinn. Hann fjarar heldur út eftir því sem nær dregur Skagabraut. Rúmum 100 m sunnan Skagabrautar er líkt og rask hafi orðið á garðinum á rúmlega 10 m löngum kafla sem sést helst á því að þar er garðurinn mjög ógreinilegur og gróður með öðru móti en í móanum umhverfis. Þar sem raskinu sleppir liggur greinilegur hryggur líkt og í framhaldi af garðinum en heldur meira í austur en fyrr, í stefnu skammt vestan við Skagabraut 23. Þessi hryggur tilheyrir líklega ekki garðinum heldur virðist hann liggja fast vestan við hrygginn þótt hann sé orðinn mjög óljós á þessu bili. Garðinn má rekja þokkalega á loftmynd í stefnu á heimreiðina að Skagabraut 36. Leiða má að því líkum að heimreiðin sé ofan á garðlaginu forna, sem haldi svo áfram til norðurs skammt vestan við bæjarhól á Útskálum og allt niður að sjó. Áður hafði í skráningu verið vikið að því að líklega væri garðurinn horfinn norðan Skagabrautar en á loftmyndum virðist votta fyrir honum í túninu tæpa 100 m NNV af íbúðarhúsinu á Útskálum.

Skálareykir

Skálareykir

Skálareykir – tóftir.

Í örnefnalýsingu segir: “Skálareykir eru gamlar bæjarrústir fast við miðjan Skagagarð. Þar sér fyrir túngarði og húsarústum…Skálareykja finnst ekki getið, hvorki 1703 né 1847. Eru til ýmsar tilgátur um býli þetta, m.a. að Ketill gufa hafi byggt skála, annan að Gufuskálum og annan að Útskálum. Svo var byggður nýr bær, þar sem reykirnir sáust frá báðum hinum skálunum, og því nefndur Skálareykir. Önnur segir, að þar sjáist merki og að þar hafi verið draugagangur, er setti bæinn í eyði, en trúlegra er, að það hafi verið vatnsskortur og fjarlægð frá sjó.

Skálareykir

Tóftir Skálareykja.

“1839:”Í mæli er að bær!hafi þá staðið á Skaganum nálægt þessum garði, sem Skálareykir hafi verið kallaðir; hafa allt til þessa sést þar bæjarrústir og mót til túngarðs. Ekki eru nema munnmæli, að þaðan hafi staðurinn verið fluttur að Útskálum, en hitt er víst, að þar hafi einhverntíma verið jörð byggð, þó hennar sé ekki getið.”
SSGK, 162;c.1840: “Nálægt þessum garði er í mæli, að hafi staðið bær, sem Skálareykir hafi heitið, og sjáist þar nú til bæjarrústa og túngarðsgirðingar umhverfis. Hvergi hef ég í jarðabókum séð þá jörð nefnda, enda hef ég fátt fengið í hendur af gömlum skjölum.”
SSGK,184;c.1860: “Með þessum garði hefur Skaginn með öllum ökrum og hofinu (?) verið alveg afgirtur, og þá hefur að líkindum enginn bær staðið fyrir utan hans nema einn, sem enn sér rústir af og hét á Skálareykjum [Skálareykir hdr.]. Sá bær hefir staðið þétt við garðinn miðjan, Skagamegin, og má vera að þar hafi verið gæzlumaður akranna og garðsins, ef bærinn er svo gamall eins og garðurinn. Á Skálareykjum sér enn fyrir túngörðum og bæjar- og húsarústum í meðallagi stórum.”
1902: “Fyrir austan þær (girðingar), þar sem nú er fjárrétt, er sagt að bær hafi verið og heitið Skálareykir. Er sagt að á þeim bæ hafi hvílt sú skylda, að verja akrana og girðingarnar fyrir ágangi af skepnum. Ekki er getið hvers vegna hann er kenndur við reyki. Má vera það bendi til þess, á þessu svæði hafi fyrrum verið jarðhitar, sem seinna hafi kólnað, og með þeim jarðhita hafi akuryrkjan þar staðið og fallið.”
BJ í Árbók 1903, 36. Rústir býlisins má greina um 200 m sunnan við fiskverkun H. Péturssonar og um 300 m suðvestan við nýlegt íbúahverfi við Spóaland. Rústir býlisins eru í þýfðu túni. Hluti þess er afgirtur og nýttur til hrossabeitar. Nokkuð af ökuslóðum liggja í kringum og og þvert yfir rústirnar.
1977 segir í Árbók Ferðafélagsins: “Minnast verður á Skálareyki. Rétt er það sem prestarnir herma að garðlag harla fornlegt afmarkar þar vænan blett rétt utan við garðinn og þó reyndar báðum megin við hann, því að garðurinn liggur gegnum girðinguna eins og best sést á loftmynd. Innan í girðingunni mótar fyrir mjög vallgrónum mannaverkum, en tvær grjóthlaðnar og snotrar húsatóftir miklu unglegri ofan á. Þar sagði fólk í Garði að gullkista væri grafin. Hvort þarna hefur verið! bær skal ósagt látið, en þessar minjar eru friðlýstar með garðinum sem rétt er, því að þær eru eins og samvaxnar honum. Nafnið mun líklega að hálfu dregið af Útskálum, en að hálfu er það óráðin gáta.”

Skálareykir

Skálareykir – uppdráttur.

KE í ÁFÍ 1977, 117. Rústir býlisins eru báðu megin Skagagarðs sem sést vel á þessu svæði og ná yfir svæði sem er um 200 x 130 m stórt. Bæjarhóllinn hefur líklega verið þar sem tóft A er nú en hún virðist vera fremur ung. Gætu því eldri byggingarstig verið undir tóftinni. Er hóllinn um 15 x 15 m að stærð og 0,5 m hár. Er hann veglegasti hóllinn á svæðinu og grasi vaxinn. Tóft A: Ofan á hólnum er tóft, líklega af fjárhúsi. Er hún 10 x 10 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Bæði snúa í NA-SV. Hólf I, hið austara, er 6 x 2,2 m að innanmáli og hefur um 2 m breitt op á syðri skammhlið. Fyrir utan opið er röð fremur stórra steina. Hólf II er 6 x 2,5 m að innanmáli og er op á því fyrir miðri vestari langhlið. Er opið ríflega 1 m breitt. Veggir tóftarinnar eru flestir 2 m breiðir nema sá sem aðskilur hólfin tvö, hann er aðeins um 1 m að breidd. Allir eru veggirnir 0,6 m háir. Líklega eru þeir grjót- eða torf- og grjóthlaðnir og sér í steina í öllum veggjum. Hleðslur eru grónar grasi. Gerði B: 5 m norðvestan við tóft A er ferhyrnt gerði. Hefur það líklega umlukið kálgarð eða rétt. Er það 16 x 15 m að stærð og snýr í NA-SV. Breidd veggja er um 1,5 m og hæð þeirra 0,3 m. Á stöku stað sést glitta í grjót í gegnum grassvörðinn. Ekki er eins þýft innan garðlagsins og utan þess.

Skálareykir

Skálareykir – loftmynd.

Erfitt er að átta sig á aldri garðlagsins en líklega er það ekki mjög fornt. Gerði C: 20 m sunnan við tóft A er annað gerði. Er það 26 x 7 m að utanmáli og snýr í NA-SV. Skammhliðar gerðisins virðast hafa rofnað í burtu en víða vantar einnig hluta í langhliðar. Breidd veggja er um 0,8 m og hæð þeirra er 0,4 m. Ekkert grjót sést í hleðslunum. Nánast engar þúfur eru innan garðlagsins. Líkt og garðlag B kemur helst til greina að um sé að ræða kálgarð eða einhvers konar aðhald. Aldur garðlagsins er óræður. Tóft D: 3 m suðvestan við tóft A er afar ógreinileg tóft útihúss. Er hún u.þ.b. 11 x 9 m að utanmáli og snýr í VNV-ASA. Virðist hún við fyrstu sýn aðeins vera upphækkun í landslaginu eða framhald af bæjarhólnum en ef vel er að gáð má greina leifar tveggja hólfa. Snúa bæði til NNV-SSA. Sést glitta í grjót á nokkrum stöðum sem líklega er úr veggjum útihússins. Tóft þessi er líklega mun eldri en tóft A. Garðlag E: Túngarður liggur utan um býlið. Afmarkar hann svæði sem er sporöskjulaga, u.þ.b. 200 x 130 m að stærð og snýr í N-S. Garðurinn er mikið siginn og sést sem hryggur í túninu, 3-5 m breiður og um 0,2 m hár. Víðast hvar er fremur greinilegur nema norðaustast þar sem hann hverfur sjónum á um 80 m vegalengd. Aðeins sést í grjót á stöku stað. Tóft F:!95 m suður af tóft A og upp við garðlag E er lágur hóll. Er hann 9 x 4 m að stærð, 0,3 m hár og flatur að ofan. Líklegast verður að teljast að útihús hafi staðið þar en að hleðslur þess séu nú útflattar. Tóft G: Austast við garðlag E, um 45 m suðaustan við tóft A er hóll. Er hann 8 x 7 m að stærð og ríflega 1 m hár. Stingur hann nokkuð í stúf við hið flata umhverfi í kring. Engar greinilegar rústir eru á honum en ójöfnur ofan á honum gætu verið leifar mannvirkis.

Skagagarðurinn gerður sýnilegur

Skagagarðurinn

Skagagarðurinn – minnismerki.

Suðurnesjabær fékk í sumar (2020) styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem lið í sérstöku fjárfestingarátaki stjórnvalda vegna COVID-19-faraldursins.

Suðurnesjabær sótti um styrk úr sjóðnum vegna verkefnisins. Það nefnist „Aðkomusvæði við Skagagarðinn“, nýr ferðamannastaður í Garði. Verkefnið felur í sér hönnun og verklegar framkvæmdir. Markmiðið er að gera Skagagarðinn sýnilegan og vekja athygli á honum.

Heimild:
-Garður á Reykjanesi: Fornleifaskráning vegna deiliskipulags – Birna Lárusdóttir, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2017.

Heimildaskrá:
-ÁFÍ 1977: Kristján Eldjárn. 1977. „Skagagarður – fornmannaverk“. Árbók Ferðafélags Íslands bls. 107-119. Ferðafélag Íslands.
-Árbók 1902: Brynjúlfur Jónsson. 1903. „Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902.“ Árbók Hins Íslenska Fornleifafélags, bls. 31-52.
-Árbók 2002-2003: Garðar Guðmundsson o.fl. „Fornir akrar á Íslandi. Meintar minjar um kornrækt á fyrri öldum.“ Árbók Hins íslenzka!fornleifafélags, bls. 79-106.
-Árni Magnússon. 1953. „Chorographica Islandica.“ Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju: annar flokkur. Bókmenntafélagið, Reykjavík.
-Birna Lárusdóttir!(ritstj.). 2008. Fornleifaskráning í Sveitarfélaginu Garði I: fornleifar frá Rafnkelsstöðum að Útskálum (auk hjáleigna). FS404k08011. Fornleifastofnun Íslands.
-Fasteignabók 1956-57: Fasteignabók I. Mat fasteigna í sýslum samkvæmt lögum nr. 33 frá 1955. Reykjavík 1956-57.
-Herforingjaráðskort 1910: Generalstabens topografiske kort. Nr. 17, Suðurnes N.A. Mælt 1908, útg. 1910. Kjöbenhavn.
-Jón Böðvarsson. 1988. Suður með sjó: Leiðsögn um Suðurnes. Rótaríklúbbur Keflavíkur, Keflavík.
-Loftmynd 1974: LMI-Kort-D16-D-5481. Landmælingar Íslands.
-Magnús Grímsson. 1940. „Fornminjar á Reykjanesskaga.“ Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess II, 243-62. Reykjavík.
-SSGK: Sýslu- og sóknalýsingar Gullbringu- og Kjósarsýslu. Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III. Reykjavík. 1937-39.
-Túnakort 1919: Túnakort fyrir Rosmhvalaneshrepp frá því um 1919. Þjóðskjalasafn Íslands.
-Umsögn Minjastofnunar Íslands um deiliskipulag í Garði, dags.!5. september 2017. MÍ201708-0023/6.09/ÞH 34
-Ö-Útskálar: Örnefnaskrá fyrir Útskála. Ari Gíslason skráði. Örnefnasafn Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Skagagarður

Skagagarðurinn í Garði.

Lækjargata

Grjóthleðsla og torf, sem fannst við framkvæmdir nýs hótels á lóð Íslandsbanka við Lækjargötu, er talið vera ummerki eftir torfbæinn Lækjarkot sem byggður var árið 1799 og var fyrsta íbúðar­húsið sem reist var á þessum slóðum.

Lækjarkot

Uppgraftarsvæðið við Lækjargötu.

Bærinn á sér merka sögu, af honum eru til teikningar og málverk frá fyrri árum og Kristján konungur IX. kom þar inn í Íslandsheimsókn sinni 1874, að því er fram kemur í umfjöllun um uppgröft þennan í Morgunblaðinu.
Sýni voru tekin á svæðinu og eru þau nú til rannsóknar hjá Fornleifastofnun. Sé um bæinn að ræða, er líklegt að svæðið verði rannsakað og grafið upp, að mati Lísabetar Guðmundsdóttur, fornleifafræðings hjá Fornleifastofnun Íslands.

Fornleifagröftur við hornið á Lækjargötu og Vonarstræti, sem hófst í maí síðastliðnum vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar, hefur leitt í ljós það sem virðist vera skálabygging frá tímum landnáms. Lísabet Guðmundsdóttir fornleifafræðingur, sem stýrir uppgreftrinum, segir þennan fund breyta miklu um það sem við töldum okkur vita um byggðasögu Reykjavíkur.

„Við höfum náttúrulega vitað um þessa elstu byggð í Reykjavík þar sem Aðalstrætið er,“ segir Lísabet, en þær bæjarrústir komu í ljós við uppgröft á áttunda áratugnum. „Við töldum okkur vita að aðalbyggðakjarninn hafi verið á því svæði, en okkur bara datt ekki í hug að það væri eitthvað þarna við Lækjargötuna. Og það var eiginlega það sem var svolítið skemmtilegt.“

Lækjarkot.Áfram var grafið í sólinni í dag.Vísir/Andri MarinóUppgröfturinn átti upphaflega að taka um fjórar vikur en sú áætlun breyttist skiljanlega þegar skálinn fannst í síðasta mánuði. Fyrir var vitað að bærinn Lækjarkot, sem byggður var árið 1799, hafði staðið á lóðinni, sem og timburhús sem reist var árið 1887.

„Þegar við vorum búin að klára að grafa þær byggingar upp, þá var náttúrulega slatti eftir,“ segir Lísabet. „Það var með svona ofsalega flottu landnámstorfi í veggjum, þannig að það virtist vera frekar gamalt. Við erum náttúrulega ekki komin með aldurinn á hreint ennþá,en það kemur bara þegar við förum í úrvinnsluna.“

Lísabet segist búast við því að uppgröfturinn muni standa yfir í um tvær til þrjár vikur til viðbótar. Hún telur ekki líkur á að áform um hótelbyggingu raskist nokkuð vegna fundarins en segir viðræður þegar hafnar við framkvæmdaraðila um varðveislu grjóts, hellna og varðeldar úr skálanum.

Heimildir:
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/05/06/merkur_baer_ur_felum_vid_laekjargotu/
-https://www.visir.is/g/2015314513d
-http://www.torfbaeir.com/Tomthus/T-Laekjarkot.html

Lækjarkot

Mynd Jóns Helgarsonar af Reykjavík árið 1836, trúlega máluð nálægt 1890. Lækjarkot sést lengst til vinstri á myndinni suðaustan við Dómkirkjuna. Efst á myndinni má sjá Hlíðarhús og torfbæi i Grjótaþorpi og við Vesturgötu. Lækjarkot var reist árið 1799 austast á Austuvelli. Runólfur forstjóri Innréttinganna bjó þar en drukknaði í Tjörninni 1811 “aðeins mjög lítið drukkinn” samkvæmt annálum. Meðal seinni ábúenda má nefna Þórð malakoff, sem var um margt sérkennilegur og bjó þar um 1870. Bærinn var rifinn árið 1887. Bærinn stóð þar sem nú er Lækjargata 10a sem er óbyggð lóð í dag. Fornleifauppgröftur árið 2015 sýndi ekki aðeins merki um bæinn Lækjarkot heldur einnig áður ókunnan landsnámsbæ.

Hamarinn

HAMARINN, öðru nafni Hamarskotshamar, í Hafnarfirði er ekki einungis náttúruvætti – í tvennum skilningi – heldur og stöndug fótfesta bæjarsamfélags við ofannefndan fjörð. Líkt gildir um uppverðaðan bróður hans; Setbergshamar (Þórsbergshamar). Á þeim báðum eru eru jökulminjar, einkum þó á hinum fyrrnefnda, sem ætlunin er að lýsa hér á eftir, enda setur hann hvað mestan svip á miðbæ Hafnarfjarðar og nýtur vinsælda sem útivistarsvæði. Hins vegar hefur lítið verið gert til að auka verðskuldað aðdráttarafl hans eða upplýsa bæjarbúa og gesti þeirra um þau merkilegheit, sem hann hefur að geyma. Hamarskotshamrinum tengjast t.d. sögur um álfa og huldufólk. Á HamrinumAf þeirri ástæðu, vegna eigin reisnar og ummerkja eftir síðasta ísaldarjökul var talin þörf á að friðlýsa hann árið 1984. Af Hamrinum er hið ákjósanlegasta útsýni yfir miðhluta bæjarins sem og Hamarskotslækinn. Um Hamarskot, sem hvorutveggja dregur nafn sitt af, verður fjallað hér á eftir.
Þegar Hamarinn var friðlýstur fylgdi m.a. eftirfarandi rökstuðningur í auglýsingu: “Samkvæmt heimild í 22. gr. laga um náttúruvernd nr. 47/1971 hefur [Umhverfisstofnun] að tillögu bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samþykkt fyrir sitt leyti að friðlýsa Hamarinn í Hafnarfirði sem náttúruvætti.
Eftirfarandi reglur gilda um svæðið: 1. Varðveita skal jarðmyndanir og lífríki svæðisins í núverandi mynd. Hvers konar mannvirkjagerð eða jarðrask sem breytt getur útliti eða eðli svæðisins eru óheimil, nema til komi sérstakt leyfi [Umhverfisstofnunar]. Þó er bæjarstjórn heimilt, í samræmi við skipulag Hamarssvæðisins og í samráði við [Náttúruvernd ríkisins], að láta planta trjágróðri, leggja gangstíga og setja upp bekki og annan búnað í þágu útivistar á svæðinu.
2. Svæðið er einungis opið gangandi fólki og skal það gæta Hamarsmyndin suðvestanverðgóðrar umgengni. 3. Náttúruverndarnefnd Hafnarfjarðar hefur eftirlit með framkvæmd friðlýsingar í umboði [Umhverfisstofnunar] og bæjarstjórnar. Til undanþágu frá reglum þessum þarf leyfi [Umhverfisstofnunar] og náttúruverndarnefndar Hafnarfjarðar. Um viðurlög vegna brota á reglum þessum fer eftir ákvæðum náttúruverndarlaga.” Hafa ber í huga að framangreindar reglur, með vísan til friðlýsingarreglugerðar, er enn í gildi. Það er því von greinarhöfundar, að annaðhvort annist bæjaryfirvöld hreinsun á plastruslinu við hálskraga hamarsins eða geri þá kröfu til íbúanna um að þeir hirði sjálfir eigin rusl eftir sig.

Hamarinn

Hamarinn – mörk friðlýsingar.

Elsta bergmyndun Hafnarfjarðar og undirstaðan sem allt annað hvílir á er grágrýti, sem er einkennisbergtegundin í Hamrinum.
Hamarskotsbæjarstæðið - lóð Húsmæðraskólans fjærÆtla má að bergið geti verið yngra en 0.8 milljón ára. Grágrýtið er grátt eða grásvart að lit. Það myndaðist úr hrauni frá eldstöðvum sem voru virkar á hlýskeiði ísaldar og eru yfirleitt komin úr dyngjum. Ekki er vitað úr hvaða eldstöð grágrýtið í 
Hafnarfirði og umhverfi þess er komið. Grágrýtið er yfirleitt dálítið frauðkennt og tekur í sig mikið vatn og þolir illa veðrun. Jöklar frá jökulskeiðum ísaldar hafa farið yfir grágrýtishraunin og skafið allt gjall ofan af þeim.
Þess vegna má ætla að Hamarinn hafi orðið til skömmu eftir lok þarsíðustu ísaldar því dyngjur verða jafnan til skömmu eftir að ísa leysir, síðan taka gjall- og klepragígar við keflinu. Ágætt dæmi um þetta er Vatnajökulssvæðið um þessar mundir. Möttulstrókurinn (sá ofurkraftur er heldur landinu uppi (ofan við sjávarmál) býr undir honum um þessar mundir. Nú þegar jökullinn er að minnka, smám saman, áætla jarðfræðingar að hann muni fæða af sér dyngjugos og það jafnvel ekki innan langs tíma – á jarðfræðilegan mælikvarða. Gosið getur varið í nokkur ár og því orðið hið ákjósanlegasta “túrhestagos”.
Flensborgarskólinn stendur á Hamarskotshamrinum. Hamarinn má segja að sé eitt samfellt hvalbak. Hvalbak er jökulsorfin klöpp með ávala slithlið sem snýr að Flensborg en stöllótt varhlið sem snýr að læknum í Hafnarfirði.
Flestar Jökusorfnar klappir á Hamrinumgrágrýtisklappir í Hafnarfirði eru rispaðar eftir jökla frá jökulskeiðum ísaldar. Grjót hefur frosið fast í botnlag jökulsins og dregist með honum. Þannig grópar og rispar jökullinn klöppina. Til dæmis má finna skýrar og fallegar jökulrispur uppi á Hamrinum með stefnuna NV-SA. Ásfjall er önnur grágrýtishæð ofan við Ástjörn. Fjallið er víðast hulið lausum jarðlögum. Hæðirnar fyrir ofan Setbergshverfið eru einnig úr grágrýti, það er Setbergshamar, Setbergsholt þar fyrir ofan síðan Fjárhúsholt, austan megin við Flóttamannaveginn er Svínholt og loks hlíðarnar Setbergshlíð og Sléttuhlíð.
Þótt Hafnarfjarðar sé jafnan getið sérstaklega sem álfabæjar fer af honum furðufáum skráðum sögum af álfum. Til að bæta fyrir þetta er rétt að benda á að margir Hafnfirðingar, sem annað hvort hafa leikið sér í Hamrinum eða verið þar á ferð, telja sig hafa séð þar hvítklædda veru. Þegar miðillinn Margrét frá Öxnafelli bjó við Tjarnargötuna taldi hún sig sjá huldufólk af konungakyni í Hamrinum.
Hamarinn norðanverður - þarna sást hvítklædda konanHvítklædda konan í Hamrinum, höll álfanna (huldufólksins), er sögð svipuð ljóma og vera með silfurbelti. Einnig hefur fólk orðið vart við fallegan söng nálægt Hamrinum en hvergi séð lifandi sálu og því aðeins hægt að skýra sönginn á þann hátt að þar hafi álfar komið við sögu.
Eftirfarandi frásögn er byggð á reynslu konu sem bjó lengi í grennd við Hamarinn. Hana dreymdi að henni væri boðið að koma inn í Hamarinn. Leiddi hvítklædd kona hana um glæsileg híbýli hallarinnar. Þegar þær gengu um salarkynnin sá konan margt skringilega klætt fólk. Það var allt í marglitum klæðum og hneigði sig þegar það sá álfkonuna. Þessi draumur hefur rennt stoðum undir þá kenningu að í Hamrinum búi álfar af konungakyni.
Önnur saga, sem FERLIR barst, segir frá því að þrír drengir, sem jafnan léku sér í Hamrinum, hafi verið að hlaða skýli úr grjóti utan í og ofan á norðvestanverðum Hamrinum. Þá hafi einum þeirra verið litið niður fyrir hamravegginn og séð þar hvítklædda veru. Hún hafi ljómað, brosað og liðið um, lyft höndum líkt og í varnaðarskini. Þegar hann hefði snúið sér við og ætlað að vekja félaga sinna á fyrirbærinu hafi veran horfið. Hræðsla hefði gripið drengina og þeir hlaupið skelfdir á brott.
En hvað um sögulegar upplýsingar? Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um Hamarskot: “Jarðardýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum. Eigandinn er Garðakirkju beneficium. Ábúandinn er Jón Arason. Kvaðir eru mannslán um vertíð, betalast eftir samkomulagi með míðum og slíkri þjónustu…, tveir hríshestar, einn dagsláttur, hestlán til alþingis og heyhestur… Kvikfjenaður er ii kýr og i kálfur. Fóðrast kann iii kýr naumlega. Heimilismenn vi. Selstöðu eigna nokkrir jörðinni í Garðakirkjulandi þar nærri sem heitir Sljettahlíð hjá hellir nokkrum og skuli þar kallast enn í dag Hamarkotssel. Skóg og hrís til kolagjörðar hefur jörðin lángvarandi brúkað mótmælalaust í almenningum… Heimræði er árið um kring og lending góð. engjar eru öngvar og vatnsból er erfitt um vetur.” Þótt minjar um Hamarskot hafi farið þverrandi við Hamarinn vegna ágangs má enn í dag glögglega sjá leifar nefndrar selstöðu.
Í bókinni “Bær í byrjun aldar” segir Magnús Jónsson frá bæjum, kotum og fólki í Hafnarfirði í byrjun 20. aldar. Um Hamarskotið segir hann: “Nú eru löngu horfin öll ummerki um hvar þetta kot stóð, en það var í slakkanum uppi á Hamrinum. Upphaflega hefur bærinn sjálfsagt dregið nafn sitt af hamrinum, en svo var farið að kenna hamarinn við kotið, og hann nefndur Hamarskotshamar.
Í Hamarskoti var grasnyt, en túnið – sem sýslumaðurinn hafði afnot af – var harðbalakennt. Alloft urðu íbúaskipti í Hamarskoti, og á þessum tíma voru þar hjónin Þorlákur Guðmundsson og Anna Sigríður Davíðsdóttir. Hann var fæddur 1842 í Hlíð í Garðahverfi, en hún 1856 á Bakka í Vatnsdal. Árið 1876 giftust þau, þá að Undirfelli í Vatnsdal og voru fyrst í húsmennsku þar nyrðra. Í Hamarskot fluttust þau um 1897, en höfðu áður verið á þrem stöðum í Hafnarfirði. Þorlákur annaðist m.a. skepnuhirðingu fyrir sýslumanninn. Börn þeirra voru Júlíus, Kristmundur, kvæntist Láru Gísladóttur – þau bjuggu lengi í Stakkavík, Sigurður Gunnlaugur, Una og Jarþrúður, auk þess Agnar, Anna og Sigríður. Þorlákur dó 1926 og Anna 1930.”
Útsýni af Hamrinum yfir HamarskotslækHér að framan er komin tenging við fyrri FERLIRslýsingar um Stakkavík í Selvogi (sjá lýsingu (Eggert) og lýsingu (Þorkell)). Lengi vel mátti, þrátt fyrir framangreint, sjá móta fyrir tóftum og garðlögum Hamarskots á flötinni sunnan við Hamarinn, en hvorutveggja eru nú að  mestu afmáð. Þó má, ef vel er að gáð, sjá fyrrum leifar búsetu Hamarkotsbænda, og hjúa, undir ofan til við sunnanverðan hamarinn.
Í Sögu Hafnarfjarðar, 1983, segir m.a. um Hamarkotshamar: “Eftir að gagnfræðaskólinn í Flensborg tók til starfa árið 1882 og aðkomupiltar tóku að sækja hann, mátti segja að allmikið lifnaði yfir firðinum á hverju hausti við komu þeirra… Útiskemmtanir voru helst þessar… Brenna var oftast annað hvort á gamlárskvöld eða á þrettándanum og venjulega álfadans í sambandi við hana. Var þá dansað úti á einhverri tjörninni. Oftast var brennan á Hamarskotshamri, en stöku sinnum á Kvíholtinu norðan Jófríðarstaða, þar sem nú er nunnuklaustur… Heimavist komst aftur á í Flensborg, þegar nýja skólahúsið á Hamrinum vat tekið í notkun haustið 1937… Sama ár fékk Iðnskólinn inni í nýbyggingu Flensborgarskólans á Hamrinum…”
Á Hamarskotshamri - uppgangur að norðanverðuSkammt ofan við Hamarinn eru Öldur. Þær komu við sögu stofnunar Knattspyrnufélagsins Framsókn árið 1919. Gjaldkeri í því var Gísli Sigurðsson (okkar maður í örnefnaskráningum). Vorið 1920 æfði Framsókn á Öldunum, þangað til völlurinn á Hvaleyrarholti var tekinn í notkun í ágústmánuði. Segja má frá því aukreitis að Ölduvöllurinn nýttist vel fjölmörg ár á eftir því þar urðu bæði knattspyrnufélagið Örninn og Fálkinn til á sjöunda áratugnum. Vörðu liðsmenn þeirra löngum stundum á vellinum í harðri baráttu um metnað og sigur. Liðsmennirnir hafa nú dreifst um heima og geima – reynslunni ríkari. Þakka má því ómeðvituðu aðstöðuleysi bæjaryfirvalda eftir að háværum röddum “umrenninganna” sleppti.
“Sundkennsla hófst
í Hafnarfirði sumarið 1909. Forgöngu um það hafði Ungmennafélagið 17. júní, sem hafði verið stofnað í bænum árið áður.. Í fyrstu var sundið kennt vestan til við Vesturhamar, út af Hamarkotsmöl, í svokallaðri Hellufjöru…
Þess má geta, að þegar landssjóður seldi Hafnarfjarðarbæ land Garðakirkju árið 1913 skv. lagaheimild frá 1912, var Hamars- og Undirhamarstún undanskilið, þar eð gert var ráð fyir því, að síðar yrði reist þar prestsetur, ef kirkjan yrði flutt frá Görðum til Hafnarfjarðar. (Hafnarfjarðarkirkja var vígð sama ár).
Árið 1951 gekkst Rotaryklúbbur Hafnarfjarðar fyrir því í samvinnu við Fegrunarfélag Hafnarfjarðar, að gróðursett voru fjölmörg barrtré utan í Hamrinum…” Fegrunarfélagið hafði verið stofnað þetta sama ár.
Þeir, sem gengið hafa um Hamrinn, hafa eflaust veitt athygli grjótraski, sem þar hefur orðið í honum sunnanverðum. Í Sögu Hafnarfjarðar segir um þetta: “Félagsmönnum í Húsmæðrafélagi Hafnarfjarðar fjölgaði fljótlega, og voru þeir rúmlega 500 mánuði eftir að félagið hafði verið stornað (1942). Kosin var nefnd til að undirbúa stofnun skólans. Nefndin og stjórn félagsins urðu ásátt um, að heppilegasti staðurinn fyrir skólann væri á HAmrinum, og árið 1946 veitti bæjarstjórn félaginu lóð undir skólann þar. Fullnaðarteikningar af skólahúsinu voru tilbúnar sama ár, og lét embætti húsameistara ríkisins þær í té.
Framkvæmdir hófust 1948, og var þá grafið fyrir grunni skólans. Kostaði það verk um 120.000 kr. Stóð Húsmæðraskólafélagið straum af kostnaði við þessar framkvæmdir. Í HamarskotsseliAllt frá stofnun þess gekkst það fyrir fjársöfnun til styrktar hinum væntanlega húsmæðraskóla… Ýmsar ástæður ollu því hins vegar, að ekkert var að því, að reistur yrði húsmæðraskóli í Hafnarfirði. ekki fékkst fjárfestingarleyfi til að hefja smíði hússins, og þar við bættist, að ýmsi félagasamtök lögðust eindregið geng því, að skólanum yrði valinn staður á Hamrinum, þar eð þau töldu, aðþað myndi lýta Hamarinn, ef skólinn yrði reistur þar. Það varð til þess, að starfsemi Húsmæðraskólafélags Hafnarfjarðar lagðist niður 1954…”
“Bæjarstjórn Hafnarfjarðar kaus fyrst náttúruverndarnefnd árið 1966… Stærsta verkefni hennar var eflaust stofnun Reykjaness-fólkvangs árið 1975. Einnig lét nefndin til sín taka.. má þar nefna Hamarkotslæk og næsta nágrenni hans…”
“Þann 1. júni 1983 var sjötugastiog fimmti afmælisdagur Hafnarfjarðarkaupstaðar… Mikið var um hátíðleika… Einn af eftirminnilegstu atburðum hátíðarhaldanna var útidagskrá á Hamrinum fimmtudagskvöldið 2. júní. Fólk safnaðist þar saman, svo þúsundum skipti, í kvöldblíðunni og naut samveru og skemmtunar.”
Hamarinn norðanverðurEins og sjá má hefur Hamarskotshamarinn verið bæði vettvangur sögulegra og eftirminnilegra atburða í sögu Hafnarfjarðar um langa tíð. Hafa ber það í huga nú þegar bærinn mun halda upp á 100 ára kaupstaðarafmæli sitt árið 2008.
Þegar staðið er uppi á Hamrinum verður Lækurinn fyrsta sjónhendingin. Lækurinn rennur í gegnum Hafnarfjörð og heitir í raun Hamarkotslækur. Hann stækkaði og breikkaði þegar hann var fyrst stíflaður árið 1904 og síðan hefur mannshöndin lagfært hann á ýmsa vegu. Lækurinn á upptök sín í tveimur kvíslum. Önnur þeirra kallast Stórakrókslækur og rennur úr Urriðakotsvatni um Kaplakrika þar sem hann kallast Kaplakrikalækur. Svo rennur hann fyrir neðan Setbergshverfið þar sem hann kallast Setbergslækur. Hin kvíslin kemur upp í Lækjarbotnum og kallast þar Botnalækur og sameinast hann Setbergslæknum í Þverlæk og eftir það kallast hann Hamarkotslækur. Jóhannes Reykdal trésmiður virkjaði hann til rafmagnsframleiðslu í 15 hús og reisti fyrstu rafstöðina á Íslandi til almenningsnota árið 1904. Árið 1906 var stærri rafstöð byggð til að lýsa upp húsin í bænum. Hún hét Hörðuvallastöðin og er talin elsta sjálfstæða rafmagnsstöðin á landinu. Hún hefur nú verið uppgerð og má sjá eftirmyndarmynd hennar efst í Hamarskotslæknum skammt neðan við Lækjarkinn.

Sjá meira um Hamarinn HÉR.

Heimildir m.a.:
-http://www.flensborg.is/sisi/hafnarfj/index.htm
-Jarðabókin 1703 – Hamarskot.
-Ásgeir Guðmundsson – Saga Hafnarfjarðar – 1983.
-Magnús Jónsson – Bær í byrjun aldar – 1967, bls. 23 og 24.
-Stj.tíð B, nr. 188/1984.

Hamarskot

Hamarskot.

Arnarseturshraun

Sigmundur Einarsson og Haukur Jóhannesson skrifuðu árið 1989 greinargerð um “Aldur Arnarseturshrauns” á Reykjanesskaga. Útgefandi var Náttúrufræðistofnin Íslands.

Í greinargerðinni er lýst niðurstöðum rannsókna á Arnarseturshrauni á Reykjanesskaga. Hrauninu er lýst og mæld stærð þess og rúmmál. Aldur hraunsins var fundinn með könnum öskulaga undir og ofan á því.

INNGANGUR

Sigmundur Einarsson

Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur.

Milli Vogastapa og Svartsengisfells liggur Grindavíkurvegur að mestu í unglegu hrauni. Jón Jónsson (1978) hefur lýst hrauninu og kallar það Arnarseturshraun (mynd 1) en einn hólanna við stærstu gígana sem mynduðu hraunið heitir Árnarsetur. Jón telur að hraunið hafi runnið á sögulegum tíma. Einnig birtir hann meðaltal af þremur efnagreiningum. Sveinn P. Jakobsson o.fl. (1978) birta efnagreiningu af hrauninu sem reynist vera basalt af gerðinni þóleiít. Arnarseturshraun er að mestum hluta komið úr um 400 m langri gígaröð sem liggur um 500 m austan Grindavíkurvegar á móts við Stóra Skógfell. Í upphafi gossins hefur gígaröðin verið mun lengri eða a.m.k. um tveir km. Um einn km norðaustur af aðalgígunum sést hluti af gígaröðinni sem virk var í gosbyrjun. Hún er um 500 m löng en slitrótt. Gígarnir eru litlir, 4-6 m háir, Virknin þar hefur dvínað fljótlega og gosið dregist saman á um 400 m langa gossprungu. Frá henni er allt meginhraunið runnið en aðrir hlutar gígaraðarinnar hafa færst í kaf nema áðurnefndir gígkoppar. Ekkert er vitað um framhald gossprungunnar til suðurs en þar er hraunið mjög þykkt og gígar horfnir ef einhverjir hafa verið.

Haukur Jóhannesson

Haukur Jóhannesson, jarðfræðingur.

Í lok gossins var gosvirkni einkum í þremur eða fjórum gígum. Nyrst og syðst var einkum hraunrennsli en á miðju gígaraðarínnar hlóðust upp gjallgígar. Nyrsti hluti gígaraðarinnar stefnir um N50A en aðalgígarnir stefna N40A. Upphaflega gossprungan hefur ekki verið á einni línu, heldur hefur hún verið skástíg og hliðrast til hægri, sem sést af því að nyrðri gígarnir eru ekki í beinu framhaldi af aðalgígunum.
Aðalgígarnir eru nálægt suðausturjaðri hraunsins. Þeir eru nú rústir einar eftir gjallnám en virðast hafa risið allt að 25 m yfir hraunið. Fyrst hefur hraunið frá gígunum einkum runnið til norðurs en síðar aðallega til vesturs og suðvesturs. Hraunið er að miklu leyti helluhraun en í því eru apalhraunsflákar og sumstaðar hefur helluhraunið brotnað upp og þar er hraunið mjög úfið. Eins og títt er um sprunguhraun á Reykjanesskaga er hraunið að jafnaði þeim mun úfnara og verra yfirferðar er fjær dregur gígunum, en nærri þeim er það afar blöðrótt og frauðkennt og brotnar undan fæti.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.

Arnarseturshraun er yngsta hraunið á þessu svæði og liggja jaðrar þess alls staðar út yfir aðliggjandi hraunfláka. Suður- og suðausturjaðrar þess liggja út yfir hraun sem að mestu eru runnin frá unglegri gígaröð skammt austan við Stóra Skógfell og hefur hún verið kennd við Sundhnúk (Jón Jónsson 1973). Norðan til hefur Arnarseturshraun runnið út yfir fornlegt og mikið sprungið dyngjuhraun ættað frá stórri dyngju norðan undir Fagradalsfjalli og hefur hún af jarðfræðingum verið kölluð Þráinsskjöldur. Norðvesturjaðarinn liggur út yfir annað dyngjuhraun, ámóta fornlegt og sprungið. Það er komið frá dyngju sem kölluð hefur verið Sandfellshæð eftir dyngjuhvirflinum sem er um tvo km vestur af jarðhitasvæðinu í Eldvörpum. Hraun sem komin eru úr Eldvörpum og stórum stökum gíg skammt suður af Þórðarfelli hverfa inn undir suðvesturjaðar Arnarseturshrauns, en suðurjaðarinn liggur eins og austurjaðarinn út á Sundhnúkshraun.
Ekki hafa neinar sprungur fundist í Arnarseturshrauni svo vitað sé en augljóst er að berggrunnurinn undir því er mjög sprunginn. Gliðnun eða umbrot virðast því ekki hafa átt sér stað á svæðinu eftir að hraunið rann. Illahraun, sem komið er úr gígum um fjóra km suðvestur af Arnarsetursgígunum, er einnig ósprungið (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988a) og því hugsanlega frá svipuðum tíma, Rétt er að benda á að ekki er ljóst hvernig gosbeltið hegðar sér á svæðinu frá Reykjanesi að Fagradalsfjalli, þ.e. hvort líta beri á það sem eina sprungurein eða fleiri. Af þessum sökum er aðeins hægt að draga ályktanir af Arnarseturs- og Illahraunsgosum um næsta nágrenni en ekki sprungureinina í heild.
Arnarseturshraun er fínkornótt í brotsári og að mestu dílalaust en stundum með stökum, litlum plagíóklasdílum og ógreinanlegt frá Illahrauni í handsýni.
Jón Jónsson (1978, 1983) telur flatarmál Arnarseturhrauns vera um 21.84 km2. Jón gerði ráð fyrir að norðurhluti gígaraðarinnar og hraunið frá henni væri sérstök gosmyndun og er það því ekki meðtalið. Rúmmál hraunsins telur Jón vera 0.44 km3 en tekur fram að sennilega sé sú tala talsvert of lág. Flatarmál Arnarseturhrauns reiknast okkur vera 22.02 km2, Erfitt er að meta meðalþykkt hraunsins þar sem landslag fyrir gos er ekki þekkt en út frá mælingum á þykkt hraunjaðra var meðalþykkt áætluð um 15 m og er þá gert ráð fyrir að landið hafi verið tiltölulega flatt. Heildarrúmmál hraunsins er þá um 0.33 km3.

ALDUR ARNARSETURSHRAUNS

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – Jón Jónsson.

Aldur Arnarseturshrauns var ákvarðaður út frá afstöðu þess til þekktra öskulaga í jarðvegi, Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson (1988a,b) hafa fjallað um öskulög frá sögulegum tíma á Reykjanesskaga og verður það ekki endurtekið hér. Grafin voru og mæld 5 jarðvegssnið (R-31, R-46, R-47, R-48 og R-52) sem náðu inn undir jaðra hraunsins og er staðsetning þeirra sýnd á 1. mynd. Sniðin eru sýnd á 2.-6. mynd.
Landnámslagið fannst með vissu í tveimur sniðum, R-31 og R-52 og ef til vill í sniði R-47. Það liggur skammt undir hrauninu. Miðaldalagið liggur beint undir hrauninu í öllum sniðunum og er 5-15 cm þykkt og hefur fallið skömmu áður en hraunið rann. Enginn jarðvegur er milli Miðaldalagsins og hraunsins nema í sniði R-47 þar sem mold hefur greinilega hripað niður í gegnum þunnan hraunjaðar og fyllt upp í glufur neðst í hrauninu.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun, snið.

Miðaldalagið hefur fokið upp að hraunjaðrinum svipað og lýst er í skýrslunni um Illahraun.
Snið R-47 var grafið við hraunjaðarinn vestan undir Litla Skógfelli og er einkar fróðlegt. Neðst í því er ljós leikenndur jarðvegur og í honum gráleit rönd sem gæti verið Landnámslagið. Þá tekur við um 40 cm þykkt lag, sem að mestu er svört, lagskipt basaltaska sem vafalaust er Miðaldalagið. Neðst er um 15 cm af hreinni, svartri ösku, en efri hlutinn er lagskiptur. Þar skiptast á lög af svartri eilítið moldarblandinni ösku og Ijósri, leirkenndri mold. Í þessum lagskipta hluta sniðsins er greinilega vatnsflutt efni. Þá tekur Arnarseturshraun við og neðst í því er leirkennd, ljós mold sem fyllir upp í allar glufur í neðraborði hraunsins. Utan við hraunjaðarinn er um 20-30 cm þykkt lag af dökkri fokmold ofan á Miðaldalaginu. Á þessum slóðum er ekkert yfirborðsvatn að sumrinu og því verður að ætla að lagskipti kaflinn hafi myndast að vetri eða vori til er frost var í jörðu. Því hefur liðið a.m.k. einn vetur frá því að Miðaldalagið féll uns Arnarseturshraun rann.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – snið.

Ljóst er að Arnarseturshraunið hefur runnið skömmu eftir að Miðaldalagið féll sem að líkindum var árið 1226 (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988b). Þetta er raunar sama niðurstaða og fékkst fyrir Illahraun (Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988a). Ekki er hægt að segja til um aldursafstöðu þessara tveggja hrauna þar sem jaðrar þeirra liggja hvergi saman.
Áður hefur komið fram að engar sprungur hafa fundist í þessum hraunum og því sennilegt að þau hafi runnið í sömu goshrinu eða jafnvel samtímis. Ef Miðaldalagið hefur fallið árið 1226 þá hefur Arnarseturshraun runnið í fyrsta lagi árið 1227 því einn vetur a.m.k. hefur liðið frá því að öskulagið féll uns hraunið rann.
Jón Jónsson (1978) giskaði á að Arnarseturshraun hafi runnið 1661 en það ár getur Vallholtsannáll (Gunnlaugur Þorsteinsson 1922-27) um gos í Grindavíkurfjöllum, Jón hvarf síðar frá þessari hugmynd (Jón Jónsson 1983) og taldi það runnið um 1300 og byggði þá skoðun sína á því að hann fann

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun, snið.

Landnámslagið undir hrauninu en ofan á því öskulag sem hann taldi frá Kötlugosinu 1485. Þetta snið Jóns Jónssonar er tekið á sömu slóðum og snið R-46 en þar fannst Kötlulagið frá 1485 ekki þrátt fyrir nokkra leit. Aftur á móti virðist Jóni hafa sést yfir Miðaldalagið.
Sem fyrr segir taldi Jón Jónsson (1978) að nyrsti hluti gígaraðarinnar í Arnarseturshrauni væri sérstök gosmyndun og auðkennir hann hana með H-37, Ekki fjallar Jón um aldur hraunsins, en samkvæmt jarðfræðikorti hans telur hann hraunið eldra en Sundhnúkshraun. Jarðlagasnið R-52 sýnir hinsvegar ótvírætt að þessu er öfugt farið. Austurjaðar H-37 liggur að mestu út á fremur unglegt hraun sem Jón auðkennir H-38 (Sundhnúkshraun) og liggur jarðlagasniðið með Miðaldalaginu og Landnámslaginu á milli hraunanna. Með hliðsjón af þessu og legu gígaraðarinnar er eðlilegast að álykta að H-37 sé hluti Arnarseturshrauns.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun, snið.

Afar ólíklegt verður að teljast að gosið hafi í Grindavíkurfjöllum 1661 eins og segir í Vallholtsannál því ekki er getið um það gos í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns (1923-24). Þeir söfnuðu upplýsingum í Jarðabókina árið 1703 og þá hefði átt að vera fjöldi manna á Suðurnesjum sem mundu gosið og tíundað hefðu skaða þann er það hefði valdið. Líklegast er að annálshöfundurinn hafi í raun verið að lýsa Kötlugosinu er varð 1660 enda á lýsingin að mörgu leyti vel við það.

Heimildir:
-Árni Magnússon og Páll Vídalín 1923-24. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. 3. bindi. Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn. Kaupmannahöfn. 468 bls.
-Gunnlaugur Þorsteinsson 1922-27. Vallholtsannáll. Í Annálar 1400-1800, 1. bindi, bls. 317-367. Hið íslenzka bókmenntafélag. Reykjavík.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988a. Aldur Illahrauns við Svartsengi. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 7. 11 bls.
-Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson 1988b. Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og Miðaldalagsins. Jökull 38: 71-87.
-Jón Jónsson 1973. Sundhnúkahraun við Grindavík, Náttúrufræðingurinn 43: 145-153.
-Jón Jónsson 1978. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga, Orkustofnun OS JHD7831. 303 bls. og kortamappa.
-Jón Jónsson 1983. Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Náttúrufræðingurinn 52: 127-139.
-Sveinn P. Jakobsson, Jón Jónsson og F. Shido 1978. Petrology of the Western Reykjanes Peninsula, Iceland. Journ. Petrol. 19: 669-705.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – hrauntjörn.

Örfirisey

Garðar Svavarsson skrifar um örnefnið “Reykjanes” í Morgunblaðið 16. apríl 2006 undir fyrirsögninni “Nafngjafi Reykjavíkur”:

“Nafnið Reykjavík er okkur tamt í munni, en sjaldnast leiðum við hugann að því af hverju það er dregið. Hér verður fjallað um uppruna og sögu örnefnisins.
Á norðurenda Örfiriseyjar handan olíustöðvar er örnefnið Reykjanes. Fleiri staðir á landinu bera þetta nafn og má þar nefna Reykjanes á Suðurnesjum, í Reykhólasveit og við Ísafjarðardjúp. Á þessum þremur síðasttöldu stöðum er jarðhiti, laugar eða hverir, og myndarleg nes svo augljóst er af hverju staðirnir draga nafn sitt. Hvorugu er til að dreifa í Örfirisey, þar er enginn jarðhiti og varla er hægt að kalla lítið klapparnef nes.

Örfirisey„Norðvestur í Effersey er nes, er kallað hefur verið Reykjanes, og er það gamalla manna sögn að þar hafi verið laug, sem sjór er nú genginn yfir. Ekkert kannast samt elztu núlifandi Reykvíkingar við þá sögn.“ (Örfirisey var alla jafnan kölluð Effersey fram undir miðja síðustu öld). Þótt Klemensi tækist ekki að finna neinn sem gæti staðfest sögnina um jarðhita í eyjunni hafnaði hann ekki þeim möguleika að þar hefðu verið heitar laugar við landnám. Hins vegar átti eftir að kom í ljós að einn úr flokki aldraðra Reykvíkinga vissi af eigin reynd hvar jarðhita var að finna í Örfirisey.

Í bók Þórbergs Þórbergssonar, rithöfundar, Frásagnir, sem kom út árið 1972, fjallar hann m.a. um Örfirisey, Grandann og Hólmann. Helsti viðmælandi hans í Reykjavíkurhluta bókarinnar var Ólafur Jónsson fiskimatsmaður. Ólafur var fæddur 1856 í Hlíðarhúsum, en það var húsaþyrping neðarlega við Vesturgötuna, og ól hann allan sinn aldur í Reykjavík. Hann var lengstum sjómaður eins og faðir hans og stundaði sjóinn frá Reykjavík og víðar. Þórbergur getur þess sérstaklega að þeir Ólafur hafi farið út í Örfirisey 30. mars 1935 til að skoða þá staði, sem Ólafur hafði nefnt í viðtölunum. Um Reykjanes farast honum svo orð í frásögn Þórbergs: „Í norðnorðvestur frá norðvesturhorni Örfiriseyjar eru tvö sker, annað nær eyjunni, hitt fjær. Út í þau má ganga um stórstraumsfjöru. Þau voru í mínu ungdæmi kölluð Reykjarnes. Nokkurn spöl fyrir austan sker þessi, hér um bil mitt á milli þeirra og Hásteina og þar úti sem þarinn er þykkastur, var dálítil flöt flúð, sem var upp úr sjó um stórstraumsfjöru. Í flúðinni var glufa um hálf fingurhæð að breidd. Upp úr þessari glufu rauk um stórstraumsfjörur framan af ævi minni.“ (bls. 151).

Reykjanes

Reykjanes við Reykjavík.

Þetta er óneitanlega skilmerkileg frásögn og engin ástæða er til að draga hana í efa enda Ólafur margoft búinn að sýna í viðtölum um önnur efni að hann hafði traust og gott minni. Það er athyglisvert að hann kallar fjöruna á þessum stað með skerjunum tveim Reykjarnes, en á öðrum stað í frásögninni um Örfirisey og Hólmann segir: „Það er engum efa bundið, að land allt hefur sigið hér mjög í sjó á síðari öldum. Einhvern tíma hefur Hólminn verið allstór eyja grasi vaxin, og þar sem Vesturgrandi og Örfiriseyjargrandi stóðu aðeins upp úr sjó um fjöru sem nakin malarrif, þar hafi fyrr á tímum verið grasi gróin eiði, sem hafi verið ofansjávar jafnvel í mestu stórstrauma.“ (bls.150).
Þessi lýsing hér að ofan um landsig og meðfylgjandi landbrot á að sjálfsögðu við um Örfirisey alla og þar með talið fjöruna sem nefnd var Reykjanes. Nú er vitað að land hefur sigið hér á Reykjavíkursvæðinu í mörg þúsund ár og telja fræðimenn á þessu sviði að land sé nú að minnsta kosti 2 m lægra en við upphaf landnáms. Þetta mikla landsig hefur valdið gríðarlegum breytingum á landi við
sjávarsíðuna. Klemens Jónsson ýjar að þessu í Sögu Reykjavíkur þegar hann segir að líklega hafi Effersey verið landföst við landnám. Nú er eyjan land umflotið vatni og því er landföst eyja ekki til frá náttúrunnar hendi. Hafi Örfirisey verið landföst við landnám hefur því verið um að ræða tanga eða nes, en ekki eyju.

Í Landnámu segir að Ingólfur Arnarson hafi komið hingað til lands tveimur til þremur árum áður en hann settist hér að. Vafalaust hefur hann verið að kanna hvort landið væri gott til búsetu og finna heppilegan stað til landnáms. Skip landnámsmanna, knerrirnir, voru ekki stór og því ljóst að ekki var hægt að flytja búpening til landsins nema í mjög smáum stíl. Því varð að treysta á veiðar fyrstu árin eða jafnvel í áratugi meðan bústofninn var að eflast. Ingólfur finnur staðinn sem hann leitaði að í Reykjavík og er nú best að vitna í orð Björns Þorsteinssonar í Íslenskri miðaldasögu: „– því að þar var allt að hafa sem hugur hans girntist: höfn, eyjagagn, veiðivötn og laxá, landrými og jarðhiti. Í rauninni jafnaðist hér enginn staður á við Reykjavík að fjölþættum náttúrugæðum.“ (bls. 27).

Örfirisey

Örfirisey – Reykjanes.

Þegar Ingólfur og áhöfn hans sigla skipi sínu inn í mynni Kollafjarðar, væntanlega fyrstir manna, blasa við þeim eyjar, sund og vogar og er ekki ósennilegt að þetta land hafi minnt þá á heimahagana í Vestur-Noregi. En eitt hefur þó ugglaust vakið sérstaka athygli þeirra og furðu. Upp af litlu nesi, sem teygði sig til norðurs frá meginlandinu, steig hvítur reykur til lofts, náttúrufyrirbæri sem þeir hafa tæpast séð áður. Nafnið á staðnum var sjálfgefið, Reykjanes. Víkin innan við nesið, sem er vel afmörkuð milli Reykjaness og Arnarhólstanga, hlaut einnig að draga nafn af hvernum á nesinu og kallast síðan Reykjavík.
Með fullri virðingu fyrir Þvottalaugunum er vægast sagt hæpið að Reykjavík dragi nafn sitt af þeim. Bæði er að Þvottalaugarnar eru í nokkurra kílómetra fjarlægð frá víkinni og leiti ber í milli svo að reykurinn frá þeim sást tæpast af hafi eða í víkinni nema við sérstök veðurskilyrði.

Örfirisey

Mynd SE tekin frá Skólavörðuholti um 1900.

En mótun landsins hélt áfram eins og hún hafði gert frá örófi alda. Á hverju ári nagaði sjórinn smáspildu af nesinu og þar kom að útsynningsbrimið braut sér leið gegnum nesið þar sem það var mjóst og Reykjanesið varð að eyju. Hvenær þetta átti sér stað veit enginn, en vafalaust var það nokkrum öldum eftir landnám. Vera má að þetta hafi átt sér stað í stórflóði sambærilegu við Básendaflóðið 1799, en þá gekk sjór yfir alla Örfirisey og lagðist þar af búseta um tíma. Þessar breytingar voru löngu um garð gengnar í upphafi átjándu aldar en í Jarðabókinni frá 1703 er eftirfarandi umsögn um býlið Erfersey: „Vatnsból í lakasta máta, þrýtur bæði sumar og vetur og þarf þá til lands á skipum að sækja eður sæta sjáfarfalli að þurt megi gánga um fjörurif það, sem kallað er Grandi.“ (Þriðja bindi, bls. 255).
Í þessari lýsingu er komin til sögunar eyja og grandi, en nes er ekki nefnt. Á þessum tíma er Geldinganes í líkri stöðu landfræðilega og Örfirisey, þ.e. eyja tengd við land með eiði sem sjór féll yfir á flóði, en þrátt fyrir það breytist nes ekki í eyju. Hvað veldur því að nafnið Reykjanes þokar til hliðar, en nafnið Örfirisey kemur í staðinn. Gæti verið að lausnar gátunnar væri að leita í nafni annarrar eyjar lítið eitt vestar?

Örfirisey

Örfirisey – loftmynd.

Akurey er yst eyja á Kollafirði og nafnið er vafalítið dregið af akuryrkju í eyjunni. Það er augljóst að þetta nafn fær eyjan löngu eftir landnám því að þó að akuryrkja hafi verið stunduð af landnámsmönnum frá upphafi hafa akrar verið nærri bæjum meðan þar var nægilegt landrými, en ekki í úteyjum. Einnig hefur Reykjanes verið góður kostur því að auðvelt var að girða nesið af og hindra þannig ágang búfjár. Var þá eyjan nafnlaus, jafnvel um aldir? Það er ákaflega ólíklegt því að eyjan er á þeim stað þar sem skip og bátar voru mikið á ferðinni eða við fiskveiðar og því brýn nauðsyn að kennileitum væri gefin nöfn. Leitum nú enn á ný í bókina Frásagnir. Steingrímur Steingrímsson frá Klöpp var einn af viðmælendum Þórbergs. Honum segist svo frá: „að Níels á Klöpp hafi sagt sér, að í hans ungdæmi hafði verið hægt að vaða úr Hólmanum og út í Akurey um stórstreymsfjörur, og hefði sjór þar ekki verið dýpri en svo, að komast hefði mátt þurrt í skinnbrók. En nú er þar óvætt dýpi um stærstu fjörur.“ (bls. 150).
Örfirisey
Það er til önnur heimild um þetta eiði eða granda milli Hólmans og Akureyjar. Í Sögu Reykjavíkur 870–1870, fyrra bindi, er birt mynd á blaðsíðu 62 af elsta korti sem til er af Reykjavík. Þetta kort er frá 1715 og nær yfir ytri hluta Kollafjarðar, suðurströnd Kjalarness og Seltjarnarnes vestan Laugarness. Örfirisey með verslunarhúsunum er á kortinu miðju og landtengingin, þ.e. Grandinn, sést greinilega. Sama má segja um grandann út í Hólmann, hann kemur skýrt fram, en það athyglisverða er að hann endar ekki í Hólmanum heldur liggur áfram út í Akurey. Mjög líklegt er að í upphafi átjándu aldar, þ.e á þeim tíma sem kortið er teiknað, hafi aðeins verið hægt að ganga þurrum fótum út í Akurey á stærstu fjörum. Við landnám hefur Akurey hins vegar verið í líkri stöðu landfræðilega og Örfirisey var mörg hundruð árum síðar, þ.e. eyja tengd við land með granda sem var ávallt á þurru um fjöru. Það fólk sem hér settist að við upphaf byggðar hefur líklega þekkt áþekk náttúrufyrirbæri frá fyrri heimkynnum sínum og gefur eyjunni því nafn við hæfi. Það nafn var sennilega Örfirisey.
Þegar Reykjanes breytist í eyju við landbrot eru eyjarnar orðnar tvær með áþekk náttúruleg einkenni, nánast hlið við hlið. Smám saman fer fólk að kenna ytri eyjuna við þá starfsemi sem þar er stunduð, þ.e. akuryrkju.
Örfiriseyjarnafnið flyst hins vegar yfir á Reykjanesið og ryður gamla nafninu út á norðurenda eyjarinnar þar sem það situr enn án staðfestu í landslagi. Þessi nafnasaga er að sjálfsögðu getgátur, en vert er að benda á að örnefnaflakk er ekki óþekkt hér á landi.

Örfirisey

Örfirisey 1958.

Nú eru liðnir rúmir sjö áratugir síðan Þórbergur og Ólafur gengu um Örfirisey og rifjuðu upp örnefni á og í nágrenni eyjunnar. Á þeim tíma var eyjan að mestu eins og náttúran hafði mótað hana, en nú er fátt sem minnir á Örfirisey þess tíma. Þó má enn finna staði sem Þórbergur fjallar um, svo sem klappirnar á norðurenda eyjunnar með gömlum áletrunum. Vestasti hluti klappanna er í raun norðvesturhorn hinnar eiginlegu Örfiriseyjar og sé horft þaðan í norðnorðvestur má á fjöru greina tvö sker, annað nær eyjunni, hitt fjær. Þessi sker kallaði Ólafur frá Hlíðarhúsum, Reykjanes. Lítið eitt austar í fjörunni, þar sem þarinn er þykkastur, leynist lítil flöt flúð með glufu sem er um hálf fingurhæð að breidd. Þetta eru síðustu leifar hversins sem gaf tveim stöðum nafn. Annað nafnið, Reykjanes, er nú að mestu gleymt, en hitt nafnið, Reykjavík, hefur farið víðar en nokkurt annað staðarnafn íslenskt.
Nafnið Reykjavík er okkur tamt í munni, en sjaldnast leiðum við hugann að því af hverju það er dregið.”

Emil Hannes Valgeirsson bloggaði um örnefnið “Reykjarvík”:

“Það er dálítið sérstakt að lögheimili fyrsta landnámsmannsins hafi verið akkúrat á þeim stað þar sem höfuðborg landsins stendur í dag. En hvar var hún þessi Reykjarvík sem sá merki maður á að hafa byggt sér ból? Og þá meina ég Reykjarvík með erri eins og staðurinn er nefndur í Íslendingabók. Ýmist er talið að um sé að ræða víkina sem afmarkast af Örfirisey og Laugarnestanga eða víkina þar sem gamla höfnin er. En kannski er þriðji möguleikinn til staðar?

Örfirisey

Örfirisey 1960.

Á þeim rúmu 1100 árum sem liðin eru síðan Ingólfur Arnarson var og hét hafa orðið miklar breytingar á landsháttum á strandlengjunni hér við sundin blá vegna ágangs sjávar en ekki síður vegna þess að hér suðvestanlands er landið stöðugt að síga vegna nálægðarinnar við gosbelti Reykjanesskagans. Talið er að þetta landsig gæti hafa verið allt að tveimur metrum frá landnámi og strandlengjan því á stórum svæðum allt önnur en hún er í dag, eyjar og sker hafa sokkið í sæ og nes hafa orðið af eyjum.

Á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar, sem tekin er frá Skólavörðuholtinu árið 1877, sést hvernig aðstæður voru þarna fyrir 132 árum. Örfirisey er tengd landi með mjóum granda og annar grandi liggur frá honum í sveigju að skerjum sem ná langleiðina að Akurey en í sameiningu má sjá út úr þessu vísi að stórri skeifu. Í dag eru skerin við Akurey ekki nema svipur hjá sjón, eru oftar en ekki í kafi og tengjast ekki landi nema kannski í mestu stórstraumsfjörum. Uppfyllingar hafa svo að sjálfsögðu gerbreytt stöðu Örfiriseyjar sem er í dag ekkert annað en nes, eins og það hefur væntanlega verið fyrr á tímum.

Örfirisey

Örfirisey 1970.

Ef landshættir hafa verið einhvern vegin svona á tímum Ingólfs Arnarsonar, sést að þarna hefur verið allstórt nes eða tangi sem hefur náð alla leið út í Akurey. Þarna hef ég merkt inn bláan punkt sem merkir hverasvæði en nokkuð víst þykir að þarna hafi verið heit laug eða hverasvæði sem í dag er sokkið í sæ. Ysti hluti Örfiriseyjar er reyndar enn í dag kallaður Reykjarnes. Sennilega hefur allt þetta nes sem Örfirisey tilheyrir í dag, verið kallað Reykjarnes og miðað við sjávarstöðu nú, er líklegt að lítil vík hafi gengið inn í landið þarna rétt vestur af hverasvæðinu og ef einhver hefur viljað kalla þá vík eitthvað hlýtur nafnið Reykjarvík óneitanlega að koma upp í hugann.

Reykjarvík. Sú hugmynd að nafnið á höfuðborg landsins sé dregið af lítilli vík sem fyrir löngu er sokkin í sæ er ekki endilega minn eigin hugarburður. Mig rámar nefnilega í að hafa lesið um þetta í Lesbókinni fyrir einhverjum árum en hef þó ekki fundið þá grein aftur. Örnefnið eða bæjarnafnið Reykjavík virðist ekki hafa verið verið notað öldum saman því landnámsjörðin var lengst af kölluð „Vík“ á Seltjarnarnesi en það heiti er dregið af Seltjörn við Gróttu sem hefur staðið fyrir opnu hafi frá því Básendaflóðið gekk þar yfir 1799. Það var ekki fyrr en þéttbýli fór að myndast í kvosinni að staðurinn fékk nafnið Reykjavík. Þar hafa fundist elstu mannvistarleifar hér á landi og því kemur einnig vel til greina að Reykjarvík sé einfaldlega bara víkin þar sem gamla höfnin er nú, eins og gjarnan er talað um.

Örfirisey

Örfirisey 1985.

Hugmyndin sem ég minntist á hér fyrr um að Reykjavíkin afmarkist af Örfirisey og Laugarnestanga hefur sennilega orðið til vegna heitu lauganna í Laugardal enda inniheldur sú stóra vík tvö reykjasvæði. Mér finnst þó sú vík vera full víðáttumikil, þar að auki er Laugardalur hvergi sjáanlegur frá kvosinni og í nokkurra kílómetra fjarlægð. Hverasvæðið á Reykjarnesi hefur örugglega þótt alveg nógu merkilegt eitt og sér til að nota í örnefni og ef Reykjarvík hefur verið skrifað með erri hlýtur það að vísa í einn ákveðinn reyk, en ekki fleiri.

Að lokum má svo benda á að þótt örnefnið Örfirisey hafi verið til frá fyrstu tíð, er ekki víst að það nafn hafi alltaf átt við sama stað og í dag. Það er nefnilega vel þekkt að þar sem landshættir eru stöðugt að breytast geta örnefni farið á flakk og aðlagast nýju landslagi eins og gæti verið raunin með Reykjarvíkina”.

Heimild:
-Morgunblaðið 16. apríl 2006; Garðar Svavarsson, Nafngjafi Reykjavíkur, bls. 22.
-https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/883564/

Örfirisey

Örfirisey – Reykjanes framar.

Garðar

Fjallað er m.a. um séra Markús Magnússon í Görðum á Álftanesi í Lesbók Morgunblaðsins árið 1992 og Alþýðublaðinu árið 1958. Í síðarnefndu skrifunum er getið um tengsl Markúar og mannvirkja í og við Kaldársel.

Í Lesbókinni segir:

Garðakirkja

Garðakirkja fyrrum.

“Næstan merkisklerka sem setið hafa í Görðum má telja Markús Magnússon (1748-1825) sem þjónaði Álftnesingum frá 1780 til æviloka. Hann hafnaði biskupsembætti á Hólum, en gegndi um skamma hríð biskupsdómi í Skálholti 1796-1797. Markús lét málefni er vörðuðu bættan þjóðarhag nokkuð til sín taka. Hann var m.a. einn af stofnendum Landsuppfræðingarfélagsins 1779 og hvatti samsveitunga sína mjög til jarðabóta og garðyrkju (Páll Eggert Olason, 1948-1952. HI-.47).
Nálægt hálfri annarri mílu frá Hafnarfirði beygðum við upp frá sjónum að litlu bæjarþorpi, sem heitir Garðar. Þar er prestsetur og kirkja en fáein kot umhverfis aðalbýlið.
Presturinn heitir Markús Magnússon. Hann er prófastur eða umsjónarmaður kirknanna í Gullbringusýslu. Auk heimakirkjunnar í Görðum þjónar nann einnig Bessastaðakirkju… . [P]restsetrinu [fylgir] stórt, grösugt land.
Við heilsuðum Upp á síra Markús og sátum stundarkorn inni hjá honum. Hýbýlum hans verður ekki hrósað fyrir mikil þægindi, en hann hefír nærri lokið við að láta byggja sér nýjan bæ í grennd við hinn gamla, og þar fær hann miklu betri húsakynni. Hann á dálítið bókasafn, 100-150 bindi. (Henry Holland, 1960:71.)”

Kaldársel

Fjárborg á Borgarstandi við Kaldársel. Myndin er tekin af Daniel Bruun 1898.

Í Alþýðublaðinu segir:
“Enn segir í Ferðabók Sveins: Hinn 1. nóvembermánaðar könnuðum við áðurnefndan helli, sem reyndist vera skapaður við jarðeld á sama hátt og Surtshellir, sem lýst er í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Hellir þessi er svo fallegur, að hann á skilið sérstaka lýsingu, en dagurinn var svo stuttur, að við gátum eigi gert hana. Verður bún því að bíða betra tíma. Við fundum aðra hella ok könnuðum 40 faðma af einum þeirra, en vissum eigi, hversu langur hann var alls, því að við höfðum hvorki kerti né blys. Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá að hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo að hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Auk þessa hefur þessi dugnaðarbóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd.

Kaldársel - fjárhellar

Fjárskjól og heykuml við Kaldársel – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta eru eins konar fjárhús, mönnum sínum, búmaður góður og ýtti mjög á eftir sóknarbændum sínum í garðrækt og jarðyrkju.” Hann var í biskupsstað í eitt ár, en það voru fleiri Garðaprestar. Hann var beðirin að taka Hólastól árið 1787, en baðst undan; vildi heldur sitja í Görðum.
Varla er vafi á því, að selið, sem Sveinn Pálsson getur um, er Kaldársel, enda eru hinir mestu og fallegustu hellar þar í grennd. Er og ljóst af þessari frásögn, að Garðar hafa átt beitiland þar i kringum Helgafell og í Undirhlíðum, og sennilega allt upp í Grindaskörð. Hefur allt þetta víðáttumikla fjalllendi þá legið undir Garða.”

Að ofan má sjá að nefndur Markús hafi látið byggja bæði fjárborgirnar á Borgarstandi sem og hlaðið um fjárskjólin norðan hans, væntanlega í kringum aldarmótin 1800.

Sjá meira um Kaldársel HÉR.

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 21. desember 1992, Gísli Ragnarsson; Kirkjustaðurinn á Görðum, bls. 40.
-Alþýðublaðið 19. apríl 1958, Stefán Júlíusson; Garðar á Álftanesi, bls, 7.

Kaldársel

Heykuml við Kaldársel.