Hlið

Í Tímanum árið 1947 var m.a. fjallað um Nýtt hitaveitu svæði í nágrenni Hafnarfjarðar og Rvíkur – „Heitu vatni dælt upp úr borholu á túninu á Hliði á Álftanesi„.
Hlid-tunakrt-II„Hlið á Álftanesi var fyrir nokkrum áratugum frægt útvegssetur, og þar bjuggu lengi einhverjir harðskeyttustu útvegsbændurnir við Faxaflóa. Á seinni árum hefir verið hljóðara um höfuðból hinna gömlu sægarpa. Nú kann þó svo að fara, að athygli manna beinist aftur að þessum stað, þótt af öðrum ástæðum sé en fyrrum. Síðastliðinn laugardag kom nefnilega mikið af heitu vatni upp ur borholu, sem þar hefir verið gerð, og líkindi eru til, að þarna sé enn meira af enn heitara vatni. Hiti og vatnsmagn hefir þó eigi verið mælt enn.
Boranir þær, sem gerðar hafa verið á Hliði á Álftanesi, voru hafnar sumarið 1943. Hefir verið unnið að þeim síðan, eftir því sem ástæður hafa leyft. Munu þessar rannsóknir þegar hafa kostað yfir 140 þúsund krónur.
Á laugardaginn var fór Jón Einarsson, forstjóri Orku, sem fyrir nokkru hefir yfirtekið hitarannsóknirnar, út að Hliði og lét dæla lofti niður í borholuna, sem mun vera hátt á fjórða hundrað metra djúp. Hafði áður verið settur þar upp turn og pípum verið rennt um 80 metra niður í hana. Kom innan stundar upp gusa mikil af brennheitu vatni. Þegar á þessu hafði gengið um stund, fóru Jón og aðstoðarmenn hans heim að Hliði og drukku þar kaffi í makindum, en létu dæluna vera í gangi á meðan. Hélt vatnið áfram að streyma upp úr holunni meðan þeir voru inni og allt þar til dælan var stöðvuð.
Hlid-22Sigurður Jónasson forstjóri festi kaup á jörðinni Hliði árið 1943. Lét hann hefja þar vatnsboranir þegar samsumars. Var notaður til þessa fjögurra þumlunga bor, sem fenginn var að láni hjá Reykjavíkurbæ. Um 230 metra út frá túninu á Hliði, út af svonefndri Helguvík, er heitt vatn í skeri, sem nú orðið kemur ekki upp úr sjó nema um stórstraumsfjöru nokkrum sinnum á ári.
Dr. Trausti Einarsson og Helgi Sigurðsson, nú hitaveitustjóri, og fleiri höfðu mælt þar 80—85 stiga heitt vatn, sem kom upp úr augum og sprungum á skerinu, og virtist margt benda til þess, að þarna væri enn heitara vatn, þar eð sjór gjálpar alltaf við og við yfir hitasvæðið, svo að erfitt var að mæla hitann nákvæmlega. Þótti sérfræðingum þessi mikli hiti á þessum stað benda til þess, að jarðhiti myndi einnig vera undir túninu á Hliði.
Samkvæmt ráði dr. Trausta Einarssonar var byrjað að bora eftir jarðhita utarlega í túninu á Hliði, og kom það fljótt á daginn, að hiti var í jörðinni. Borunin gekk aftur á móti illa, þar eð spennan á rafstraumnum frá Sogsstöðinni var mjög lág á þessum árum. Enduðu þessar tilraunir að lokum með því, að borinn brotnaði, þegar búið var að bora hátt á fjórða hundrað metra niður í jörðina. Ekkert vatn hafði þá komið upp, en hitinn mældist um 80 stig niðri í holunni. Hafði hitinn aukizt um 42 stig við síðustu hundrað metrana, nokkurn veginn jafnt og þétt. Virtist allt benda til þess, að náðzt hefði yfir hundrað stiga hiti, ef unnt hefði verið að bora álíka djúpt og gert var með slíkum borum á Reykjum í Mosfellssveit, um 600 metra.
Hlid-23Árið 1945 kom þingað til lands á vegum hlutafélagsins Orku sænskur verkfræðingur, Sven Petterson að nafni, frá hinu heimskunna borfélagi, Svenska Diamantbergborrnings A/B. — Hann taldi, að þarna hlyti að vera heitt vatn, og lagði þau ráð til, að reynt yrði að dæla því upp. Árið 1946 voru fengin tæki frá sænska félaginu, sem Hafnarfjarðarbær hafði keypt til nota í Krýsuvík, en lánaði til tilraunanna á Hliði. Var hafizt handa á laugardaginn um að dæla upp vatninu, og gaf tilraunin góða raun, sem þegar hefir verið lýst, og má líklegt telja, ef dæma má eftir árangri þessarar fyrstu tilraunar, að þarna megi dæla upp miklu heitu vatni, þótt það flæði ekki upp af sjálfu sér.
Þetta nýja- hitasvæði, sem þarna virðist fundið, getur haft mikla þýðingu, ef vatnsmagn og hitamagn reynist þar nægjanlega mikið. Mestu máli skiptir, að ekkert hitasvæði hér á landi (að sundlaugunum í Reykjavík undanskildum) liggur jafn vel við þéttbýli eins og þetta hitasvæði þarna í túninu á Hliði og á ströndinni vestur af því. Þaðan eru aðeins rúmlega fimm kílómetrar til Hafnarfjarðar og rúmlega tólf kílómetrar til Reykjavíkur.“

Myndirnar eru teknar í skerinu út af Helguvík hjá Hliði á Álftanesi. Eins og segir í greininni um jarðhitann á Hliði, kemur skerið nú orðið aðeins úr sjó um stórstraumsfjöru, og voru myndir teknar, þegar svo stóð á sjó. Skerið er gróið þara og þörungum, en af þvi miðju leggur upp gufu mikla frá heita vatninu. Þetta heita vatn þarna í skerinu leiddi hug manna
að því, að víðar myndi jarðhiti á þessum slóðum. —
/ SKERINU UT AF HELGUVIK

Heimild:
-Tíminn 25. febrúar 1947, forsíða.

Hlið

Hlið á Álftanesi.

Kögunarhóll

Gengið var um söguslóðir Ingólfs Arnarssonar á og við Ingólfsfjall.
Kögunarhóll, stundum nefndur Knarrarhóll, er í landi Hvols. Hann er hólstrýta úr móbergi suður af Ingólfsfjalli að vestanverðu. Suðurlandsvegurinn liggur um skarðið milli hóls og fjalls. Þjóðsaga hermir að Kögunarhóll sé haugur sem Ingólfur Arnarson hafi orpið yfir skip það er hann sigldi á hingað til lands. Nafnið Kögunarhóll mun merkja útsýnishóll.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Í heimild frá árinu 1821 segir að “… hier nærst ma teliast Knarar eda Kogunarholl, ad mestu allt um kring grasivaxinn mikid stór holl sem stendur framan undir landsudurs horni a firrnefndu Jngolfs fialli, inn i þennan hól er sagt ad Ingolfur hafi att ad lata skip sitt.” Árið 1840 var sagt að “Í útsuður fyrir neðan fjallið stendur upphár, ávalur, graslaus hóll, aðeins laus við það, en nú nefnist Kögunarhóll, en að fornu var kallaður Knörhóll, og lætur alþýða sér um munn fara, að Ingólfur hafi þar í sett skip sitt.”
Af hólnum er mjög gott útsýni til flestra átta. Sérstaklega hefur vel sézt til mannaferða um Ölfusið, eins og leiðir lágu, áður en gerðir vegir komu.
Gengið var á Ingólfsfjall upp skarð austan Þórustaðanámunnar. Leiðin var greið. Á skarðsbrúninni er varða sem ofar á fjallsbrúninni. Gangan inn eftir fjallinu var nokkuð slétt í brúnum brekkna. Framundan blasti Inghóll við ásamt Leirdalahnúkum.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Inghóll hefur jafnan verið tilnefndur sem legstaður Ingólfs Arnarssonar, hins fyrsta skráða landnámsmanns. Hóllinn er efst á fjallinu, á mörkum Hvamms og Alviðru. Hann er hár, sérkennilegur, jafn vaxinn. Er af sumum hefur hann verið talinn 200 faðmar að ummáli við rætur. Hann er í laginu sem uppmokaður haugur, ólíkur öllum hólum og hæðum sem eru á Ingólfsfjalli. Það er hlaðin grjótvarða á kolli hans. Hann er gerður að mestu úr klöppum og urðargrjóti og ekki líklegt, að menn hafi hlaðið hann upp nema að litlu leyti. Ýmislegt hefur verið skráð og ritað um Inghól.

Ölfus

Inghóll á Ingólfsfjalli.

Árin 1641-42 er skrifað að “kveðið ex tempore yfir haug Ingólfs landnámsmanns, að skipun biskups Brynjólfs, meðan hinir aðrir þénarar hlóðu vörðu yfir haugnum: Stóð af steindu smíði/staður fornmanns hlaðinn/hlóðu af herrans boði/heiðiteikn yfir leiði;/haugur var hár og fagur/hrundin saman á grundu,/en draugur simmur og magur/drundi björgum undir.”
Árið 1703 segir að Inghóll sé þar sem “fjallið er hæst, þó nokkuð norðar en á því miðju, sé haugur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmanns, mældur við jarðveginn tvö hundruð faðmar í kring, nú graslaus með stórum hellum og mel, sums staðar mosa vaxinn.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall.

Haugurinn sést á allar síður á fjallinu nema að norðan. Magister Brynjólfur Sveinsson reið þangað eitt sinn norðan á fjallið að skoða hauginn, hvern hann lét mæla.”
Um 1750 er ritað að: “Udi Arness-Syssel imod Sydost paa Ingolfsfjeld ligger Ingolf den forste Landnamsmand begraven. Hans Hoj og Gravsted er hojt og stort, som klarligen kan sees af omrejsende Folk, so færdes om Olveset, eller og osterlig i Flooen.”
1821: “Ingholl eda Ingolfs Arnarsonar Haugur; kallast mikid stór griothóll sem stendur nockud vestar enn uppa midiu sokólludu Ingolfsfialli; og er þess hærsti toppur. Vic: lógmadur E. Olafsson, hefr i hans R[ejse]besk[rivelse] sídara parti p:849 skrifad umm þessa Holls stærd. Líkur eru a því; eptir þvi sem su annars mistriggilega Ármans Saga ummgietur; ad Jngolfur Arnarson, sem bio a Reikium i Ólvesi; gamall og blindur þegar Armann kom ut hingad – hafi utvalid sér Legstad i þessum efsta toppi Jngolfsfialls sem Sionar holi; hvadann hann gat yferlitid allt Olvesid og miklu fleiri Hieród; um Jngolf Singur Egiert i Mánamali – “nemur hatt vid Ský haugnuandi –

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall – varða

… Sógusógn almuga umm Jngolf er su ad hann hafi latid þræla sina tvo sem nefndust Kagi og Kallbakur og þionustu Stulku sem nefndist Ýma bera giersemar sínar og fiarmuni skómmu fyrir sitt andlat uppi Jnghól og grafa þær þar inni. – hafi sidann drepid óll þessi hiu so þau ecki giætu fra sagt ecki er ad óllu olíkleg sagann; þvi Órnefni ber Jngolfsfiall eptir þessumm Hiuumm, þarsem Jngolfur Hefdi att ad fyrirkoma þeim t d Jmu Skard, Kaga Gil og Kallbakur.“ FF I, 223-24.

Ölfus

Inghóll.

Árið 1840 segir að “Uppi á norðanverðu fjalli þessu er hóll, er kallast Inghóll, og er það almæli, að þar sé heygður Ingólfur landnámsmaður, er fjallið dregur nafn af. Hóllinn er ei mjög stór ummáls og ei merkilegur, ei heldur auðsén á honum mannaverk.”
Árið 1873 segir að “á miðri langri bungu háfjallsins er hóll, – sjáanlegur frá öllum hliðum fjallsins nema að norðan – alveg eins og fornmannshaugur að lögun og einnig stærð að því er virðist; tilsýndar er útlitslíking furðulega mikil; hóllinn nefnist Inghóll. Segir almenn sögn að þar sé heygður Ingólfur fyrsti landnámsmaður Íslands. Sögnin er allgömul, Þórðarbók – og eitthvað svipað virðist gefið í skyn í Hauksbók – bætir viðtexta Landnámu um Ingólf: “Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá”, orðunum “þar sem sumir menn segja að hann sé heygður”; … Auðvelt er að komast á fjallið að norðan og að hólnum, og er talið að þá megi sjá, að hann er aðeins gerður af klöpp, grjóti og möl, og öll gerð hans sýnir að hann er náttúrusmíð.”

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall og nágrenni – loftmynd.

Brynjúlfur Jónsson ritar um Inghól árið 1898. Þar segir hann að “Inghóll, eða eiginlega Ingólfshóll, heiti hóll sá á Ingólfsfjalli, sem almennt hefir verið álitinn haugur Ingólfs. Á hann að hafa sagt fyrir að jarða sig þar … bað eg Kolbein bónda Guðmundsson í Hlíð í Grafningi, sem eg vissi að hafði skoðað hólinn, að láta mig fá lýsingu á honum, og gjörði hann það góðfúlsega. Svo segir í bréfi hans: “Hóllinn er sporöskjumyndaður, flatur að ofan og liggur í norður og suður. hann er um 55 fet á lengd og 35 fet á breidd að ofan. Á hæð er hann um 40 fet. Alstaðar hallar því nær jafnt út af honum. Mannaverk verða engin séð á hólnum nema varða á suðurenda hans, og virðist mér undirstaðan mjög forn. Efnið í hólnum er mest smágrjót, mosavaxið, þó er norðaní honum stórgrýti nokkuð. Að eins á litlum bletti uppá honum gengur járn nokkuð til muna í hann (um 1 ½ al. þar sem ég komst dýpst). Það var norðan til á honum miðjum, og þar var mosalaust. Hvergi gat ég séð merki þess, að grafið hefði verið í hann. – Inghóll liggur hér um bil á miðju Ingólfsfjalli, og enginn hóll honum líkur að lögun er þar nálægt. Í hólum umhverfis hann er tómt blásið stórgrýti og klappir. Alt fyrir það er Inghóll auðsjáanlega verk náttúrunnar.” Nú hefir mér sjálfum auðnast að koma upp á fjallið og sjá hólinn. Heg eg mjög litlu við lýsingu Kolbeins að bæta. Það er víst að hóllinn er verk náttúrunnar. … En varðan á hólnum er mannaverk, sem ef til vill hefir í fyrstu átt að vera minnisvarði Ingólfs – öllu fremur en leiði hans? – Hún er ferskeitt, nál. 1 fðm. á hvern veg, en nú er hún ekki hærri en manni undir hönd. Auðséð er, að hún hefir hrunið ofan til og hrapað til norðurs, en lausagrjót er þó ekkert utan með henni. Er því líkast að hún hafi fallið ofan í sjálfa sig, og hefir hún þá verið hol innan. Grjótið í henni er fremur stórt. Um vörðu þessa mun séra Stefán Ólafsson hafa kveðið vísuna: “Stóð af steindu smíði”, og hefir hann þá álitið hana leiði Ingólfs. Nú er hún landamerkjavarða.”

Ölfus

Kögunarhóll – Collingvood 1896.

„Styrmir fróði, sem var uppi á 12. öld, segir, að sumir menn segi, að Ingólfur hafi verið heygður í Inghól. Brynjólfur biskup í Skálholti fór upp á Inghól með menn með sér. Þar með Stefán Ólafsson skáld í Vallanesi. Hann orti vísu uppi á hólnum, sem er svona: „Stóðu að steindu smíði, staður fornmanns hlaðinn, hlóðu að herrans boðiheiða teikn yfir leiði. Haugur var hár og fagurhrundin saman á grundu. Draugur dimmur og magurdrundi í björgum undir.“
Einar Arnórsson prófessor heldur því fram, að lærðir menn hafi, allt fram á 17. öld, trúað því, að Ingólfur hafi verið heygður í Inghól. Aldrei hefur annar staður verið nefndur legstaður hans. Er því allt, sem bendir til þess að þar hafi hann verið heygður. Því hafi verið um annan stað að ræða, hefðu þær sagnir að sjálfsögðu getað geymzt, þar sem var um frægasta landnámsmann Íslands að ræða. Bendir því allt til þess, að Ingólfur hafi verið heygður í hólnum.“
Tóftir bæjarins Fjalls eru við suðausturhorn Ingólfsfjalls, en þar á Ingólfur að hafa haft vetursetu á leið sinni vestur með suðurströnd landsins þar sem hann settist að í Reykjavík.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra
-Stefán Ólafsson: Kvæði I, Kaupmannahöfn 1885, s. 73.
-Halfdan Jónsson, Lýsing Ölfushrepps, SSÁ, 245.
-Jón Ólafsson frá Grunnavík, Antiqvariske Annaler II, 185-86.
-Brynjúlfur Jónsson 1899, 14-15.

Inghóll

Inghóll.

Laxvogur

Í endurminningum Erlendar Björnssonar frá Breiðabólstöðum á Álftanesi er m.a. fjallað um beitufjöru:
„Ef ekki var stórstraumur og kræklingur til í byrjun vorvertíðar, þá var róið alveg eins og venjulega á síðustu dögum vetrarvertíðarinnar með handfæri og beitt ræksnum. Var þannig róið fyrstu vikuna eða um það bil, eftir því sem stóð á straumi.
En að því loknu bjuggu menn sig undir beituferðir.
Kræklingur á vettvangiÍ beitufjötu var farið eftir að straumur var hálfstækkaður, en aðallega í fyrsta stórstraumi eftir lokin. Menn fóru á sexmannaförum með alla skipshöfn. Menn fóru í sínum venjulegu sjóklæðum, alskinnklæddir. Maturinn var smjör, sem drepið var niður í íslenskar öskjur, tveggja punda, og eitt rúgbrauð og tveir harðfiskar. – Þetta var skammturinn fyrir hvern mann. Svo var kaffi og sykur sameiginlegt fyrir alla skipshöfnina, og var það eitt pund af brenndu og möluðu kaffi og eitt stykki af kaffibæti og um þrjú pund af kandíssykri.
Lagt var af stað á ýmsum tímum, en aðallega var miðað við það, að maður hefði hörku aðfall með sér inn Hvalfjörðinn, alla leið frá Kjalarnestöngum og inn eftir. Frá Álftanesi og inn í Laxvog, sem var fyrsti staðurinn, þar sem von var á beitu, var fjögra tíma róður.
Skulu nú taldi upp allir helztu beitustaðir í Hvalfirði sunnan frá.
Laxvogur var fyrstur. Fjörðuborðið þar var mikið, sem út féll af, og var vogurinn allur slétt leira. Þótti hvergi betra að taka krækling en þar, því hann lá í kerfum eða klösum laus á leirbotninum. Voru skeljarnar hreinar að utan og því léttari til flutnings, kræklingurinn sjálfur yfirleitt feitur, og þótti því beita úr Laxvogi alltaf drjúg og góð.

Kræklingur í nærmynd

Stampar voru næsti staður, að norðanverðu við bæinn Háls. Lá kræklingurinn þar á lágum, sléttum flúðum. Hann var stór og feitur og talinn ákaflega góð beita. – Voru það einkum vinir húsbóndans á Hálsi, sem fengu leyfi til þess að fara þarna í beitifjöru. Þarna var kræklingurinn seintekinn, því að ætíð varð að kafa eftir honum, en að sama skapi var hann drjúgur, en hann var alltaf hreinn og grjótlaus. En þar sem kræklingur var á malarkenndum botni, vildi smámöl verða föstu við hann, þar sem hann fannst í krefum eða klösum.
Næsti staður var Hvammsvík, næst fyrir innan Stampa, að norðanverðu við Reynivallaháls. Var kræklingurinn þar á staksteinóttum leirbotni. Var beita þaðan talin frekar rýr, en laus og fljóttekin, þó að kafa yrði djúpt þar eins og annars staðar. Varð yfirleitt víðast að kafa eftir kræklingnum, ef ekki hittist á gapastórstraum.
Næsti staður var Hvítanes, rétt fyrir innan Hvammsvík. Var þar malarbotn og kræklingur þar horaður, enda þótt beita væri þar tekin.
Því næst kom Fossá. Þar var malarbotn, kræklingur frekar góður, en mikið af smámöl hékk við hann.
Þá kom Brynjudalsvogur. Voru þar svipaðir staðhættir og í Laxvogi, en lítil beita, en góð, ef hún náðist.
Þá kom næst Botnsvogur, og voru staðhættir þar líkir. Er þá komið innst í Hvalfjörð, Kræklingurinn lá þar á leirbotni, en lítið var þar um beitu.
Þá kom Þyrill. Þar lá kræklingurinn á malarbotni, og þótti beita þaðan góð.
Þá kom næst Litlisandur. Þangað var oft farið í fjöru. Þá kom næst Miðsandur. Þar voru aðstæður alveg eins, malarbotn.

Ónýttur kræklingur í Laxvogsfjöru

Þá kom Brekka. Var þar forláta beita, er lá á flúðum og skerjum. Hún var mjög seintekin, en alveg hrein og að sama skapi stór og feit. Var hálffermi af beitu frá Brekku eins gott og hleðsla frá Söndunum. En staðurinn var mjög fjöruvandur, en beitan mjög fengsæl.
Laxvogur, Stampar og Brekka voru öndvegisstaðirnir í þessum beituferðum, og var talið, að fiskur brygðist varla, ef honum bauðst beita frá þessum stöðum.
Þá kom næst Bjarteyjarsandur. Var þar malarbotn og beitan eins og á hinum Söndunum.
Loks er að geta Kalastaða. Þar var hnullungs möl með leirbollum á milli. Þótti beita þaðan góð, ef hún náðist.
Eru þá upp taldir allir staðir í Hvalfirði, sem höfðu þessa miklu þýðingu fyrir útveginn fyrrum, og var þar oft margt um manninn. eitt sinn, er ég var í beitufjöru í Laxvogi, taldi ég 30 skip stór og smá, er voru þá í Laxvogi einum.

Ræktaður kræklingur

Vorið 1892 fjórum dögum eftir lokin fór ég t.d. í beitufjöru upp í Hvalfjörð á sexmannafari. Við fórum upp að Brekku. Gekk ferðin vel, og vorum við þrjár fjörur þar á staðnum, og fengum við hleðslu í skipið. Lögðum við af stað í blíðviðri. En þegar við komum á móts við Laxvog, fórum við að mæta skipum, sem voru að fara í beitufjöru. Og þegar við vorum komnir út fyrir Andrésey, þá höfðum við mætt og talið 88 skip, er öll voru á leið inn í Hvalfjörð í beitufjörur. Þetta voru sexmannaför og fjögramannaför. Sýnir þessi skipafjöldi, hve ferðirnar í beitufjörurnar voru mikill þáttur í sjómennsku þeirra tíma.
Var þessi skipafjöldi frá Seltjarnarnesinu og Engey og öllum verstöðvum við Faxaflóða þaðan talið og suður að Garðskaga.
Allt er þetta eins og svo margt annað, er gert var fyrrum, fallið í gleymskunnar djúp, en minningarnar lifa enn meðal þeirra, sem nú eru elztir, um þessi ferðalög.
Þá er að geta þeirra samninga, sem formenn gerðu við landeigendur í Hvalfirði vegna beitunnar. Fyrir fjögramannafar vour greiddar tvær krónur fyrir hleðsluna, fjórar krónur fyrir sexmannafar og sex krónur, ef um áttæring var að ræða. Var farið eftir landaurum, og var hundraðið af verkuðum og hertum þorskhausum metið á fjórar krónur, eða smátt hundrað af siginni grásleppu, sem gilti það sama, eða þá þriðjungur vættar af harðfiski.
Flestir formenn borguðu með þorskhausum eða grásleppu, og fylgdi þessari borgun það, að landeigandinn hitaði kaffi fyrir skipshöfnina, meðan hún dvaldist þar.“
Eins og hér hefur komið fram hefur kræklingur frá fornu fari verið notaður til beitu hérlendis og þóttu góðar beitufjörur í Hvalfirði. Í lok 18. aldar var kræklingatekja á 13 stöðum í firðinum (Lúðvík Kristjánsson 1985). Á árunum 1940-1950 var villtur kræklingur úr Hvalfirði soðinn niður í niðursuðuverksmiðju S.Í. F. (Sigurður Pétursson 1963) og þegar best lét voru tekin mörg bílhlöss af kræklingi á dag (Högni Torfason 1987).
 

Heimild:
-Erlendur Björnsson, endurminningar, Sjósókn (Jón Thorarensen), 1945, bls.81-84.Hvalfjörður - kræklingamið

Ferjukot
Gengið var um Kirkjuferju á norðurbakka Ölfusár.
Ölfusá er algerlega vaðlaus, þannig að fyrrum varð að sundríða hana eða nota ferjur. Á 19. öld voru einnig ferjustaðir við Laugardæli og við Óseyrarnes. Kotferjuslysið 1627 er eitt mesta ferjuslys hérlendis. Þá drukknuðu 10 manns. Ferjað var víðar yfir ána og eru fleiri sagnir til um slys og óhöpp á ferðum fólks yfir ána.

Kirkjuferja

Kirkjuferja – loftmynd.

Íslendingar hafa frá upphafi ferðast um land sitt þvert og endilangt. Þau ferðalög hafa oft verið erfið, einkum þar sem torleiði eins og vatnsföll urðu á leið manna. Þá minntust þeir þess gjarnan að oft er betri krókur en kelda og lögðu lykkju á leið sína þar sem því var við komið. Seinna komu fram uppfinningar eins og ferjur og kláfar til að stytta mönnum leið yfir erfiðustu vatnsföllin, sem varasamt eða ómögulegt var að sundríða.
Kaldaðarnes er og var stórbýli austan Ölfusár í Flóa. Ein elzta heimild um staðinn er ferjumáldagi Kaldaðarness frá aldamótunum 1200. Þar er kveðið á um einkarétt Kaldaðarness til ferjuflutninga yfir ána og tvær ferjur voru í rekstri. Önnur var á heimajörðinni gegnt Arnarbæli og hin efri var í ferðum milli Kotferju og Kirkjuferju.

Ölfus

Ölfus umhverfis Ölfusá.

Kaldaðarnes varð snemma kirkjustaður, helgaður heilögum krossi. Kirkjan átti kross, sem mikill átrúnaður hvíldi á. Vegna þessa kross var ævinlega margmenni á staðnum, þó flest á krossmessum vor og haust. Fólkið kom með gjafir með sér sem áheit. Sagnir segja frá því, að pílagrímar hafi flykkzt 50 saman út í ferjuna í einu og hún hafi sokkið í miðri á og allir farizt.
Kirkjuferja er norðan Ölfusár, en Kotferja sunnan hennar. Þegar gengið var um Kirkjuferju var Kirkjuhóll, Völukirkja og Ferjunefið (Ferjunes) skoðað sérstaklega. Handan árinnar heitir Hraknes. Kotferja var við víkina austan þess. Þar má sjá tóftir bæjarins.
Völukirkja er strýtumyndaður hóll, að hluta úr stuðlabergi, með fuglaþúfu á. Kirkjan er kunn úr þjóðsögum sem álfakirkja. Haft er fyrir satt að kona frá Kirkjuferju var á leið til kirkju að Arnarbæli. Átti hún leið fram hjá Völukirkju. Settist hún þar niður til að fara í sokkana. Hún hafði gengið berfætt yfir mýrina og Rauðukeldu. Heyrði hún þá sungið inni í Völukirkjunni. Sálmaversið nam hún, og var það ekki í sálmabók hinnar íslenzku þjóðkirkju. Hjá Völukirkju gengu menn ávallt með mestu virðingu við huldufólkið.

Kirkjuferja

Völvukirkja.

Kirkjuhóllinn er austur á túninu, sunnan vegar. Utan í honum er tún huldufólksins, sem í hólnum bjó.
Ferjunef er klettanef, sem skagar út í ána við mörk Þórustaða. Í skjóli við það var ferjunni lent, þegar ferjað var. Þar sjást enn kengir í klöppum, leifar frá tímum ferjunnar. Einnig eru uppi á bakkanum (á Ferjuvöllum), eða var til langs tíma, einhverjar leifar af byggingum, ef til vill skýli fyrir þá, sem biðu eftir ferjunni.
Segja má að fyrirrennarar nútímasjálfseignarstofnana á Íslandi megi finna allt aftur í fornöld. Þá voru brýr og ferjustaðir stundum eins konar sjálfseignarstofnanir. Ferjur hafa verið notaðar á Íslandi frá örófi alda. Nú hafa brýr víðast gert þær óþarfar.
Frábært veður.

Kirkjuferja

Kirkjuferja Ölfushreppur Árnessýsla – túnakort 1914.

Gráhella

Í Íslenskum fornbréfum er m.a. getið um landamerkjabréf Setbergs í Álftaneshreppi frá árinu 1523. Í rauninni hafa landamerki jarðarinnar lítið breyst í gegnum tíðina:
Ketshellir-21„Þad medkennum vier epterskrifader menn Jon Jonsson-[Runolfur1) biarnason2) og3) Runolfur Oddsson med þessum vorum eigein vitnisburde þad vier vorum vidstadder i skilldinganese á seltiarnarnese vm vorid epter fardaga þan 64) dag Junij.5) Arum epter lausnarans fæding 1523 saum vier og heyrdum6) á vidurtal þessara manna Peturs biörnssonar og Halls biornssonar. en af annare alfu Thomas Jonssonar vm arfaskipte á jordunne setberge. gafv þesser firnefnder menn Thomas Jonson frijan og kuittan fýrer sig sijna arfa med fullnadar handsölum vm jerdina setberg í Alftaneshrepp i Garda kirkju sokn liggiande. og medkiendust fyrer oss ad þeir hefde7) fullnadar betaling8) med tekid af firnefndum thomase jonsyne. handsoludu þesser firnefnde menn petur biornsson og hallur biornsson thomase Jonssyne ]ordena setberg til fullkomlegrar eignar og forraada9) med öllum hennar10) gögnum og giædum sem greindre jordu filger og fýlgt hefur ad fornu og nyu. sem er inan þessara takmarka. Vr midium kietheller og i stein [þan er stendur Urridakot-229i fremsta tiorn11) hollte. vr honum og i flodhalsin12). vr flodhalsinum13) og i alftatanga. vr honum og i Hellvu4) ef stendur i lambhaga. þadan og i [nedstu jardbru15). so epter þui sem lækurinn af skier [j tungards endan16). þadan i silungahellu. so þadan og i þufuna sem17) sudur á holltenu stendur. vr henne og i sidre18) lækiarbotna. vr þeim og i Grahellu. vr henne og i midian kietheller. hier ad auk a Garda stadur tolf19) hesta [reidings ristu20) i setbergs landfe. en opt nefnt21) setberg budarstödu vid skipaklett22) i garda lande. og ad öllu þessu sem hier er fyrir ofan skrifad gafu þesser firnefnder menn huörier adra kuitta [med fullnada“ handsölum1) fyrer sig og sijna erfingia2). Og til meire stadfestu setium vier vor incigle hier vnder. skrifad sama3) stad og dag sem fir seiger.
skilldinganese4) 1523 þan 6 dag Junij. [Undersrifader vitna og medkena ad soleidess ordrett seded hafe þad gamla Pergam entzbref Setbergs i Alfftaesshrepp. so sem hier ad ofan og framan skrifad stendr ad undanteknu þvi er Eydan ordana eda bokstafana til vijsar. ad þetta satt sie stadfesta ockar eigen handnskrifter og hiaþryckt Signet a Saurbæ a Kialarnese þan 27. Aprilis Anno 1723.
Sigurdur Sigurdsson mppria Hans Biarnason mppria
landsþingsskrifare (L. S.)
Birt a mantalsþingi ad Gordum 18 Juni 1852.
Th. Jónasson.5)“

Heimild
-Íslenskt fornbréfasafn, Setbergsbréf 1532, bls. 146-147.

Setberg

Setbergsbærinn- tóftir.

Krýsuvík
Hér á eftir er getið nokkurra ártala í sögu Krýsuvíkur:
KrýsuvíkurkirkjaGamla Krýsuvík eldri en 870?
Ögmundahraun rennur 1151
Kirkja um 1200
Krýsuvíkurkirkja byggð 1857 – 1929, endurgerð 1964
Arnarfell – búið til 1870
Vigdísarvellir 1830 -1905
Brennisteinsnám á 18. og 19. öld
Skúli Magnússon 1753
Jón Hjaltalín 1848
Joseph William Busby 1858
T.G. Paterson og W.G.S P
aterson 1871
Selatangar til 1880
Eignarnám ríkisins á Krýsuvík 1936
Stóri-Nýibær til 1938
Hafnarfjörður eignast Krýsuvík 1940 (afsal 1941)
Krýsuvíkurvegurinn kominn 1945
Magnús Ólafsson bjó í kirkjunni til 1945
Bústjórahús reist 1948
Gróðurhús og starfsmannahús reist 1949
Fjós byggt 1950
Vinnuskólinn 1953-1964
Túnræktun 1954

Krýsuvík

Krýsuvík; Hverafjall, Hveradalur og Baðstofa efst.

Selkot

Selkot er innan við Stíflisdal. Kjálká rennur framhjá kotinu. Austar er Selfjall. Milli þess og Búrfellshálsar er grösugur dalur. Innst í honum er Selgil. Ofar eru aðrir fallegir dalir, s.s. Búrfellsdalur, Kjálkárdalur og Hrossadalur. Örnefnin gáfu von um áður óþekktar tóftir.
SelkotEin af gömlu götunum lágu um Stardal og Fellsendaflóa. Þaðan lá leiðin hjá Stíflisdalsvatni yfir Grjótá. Fyrir neðan Dalholt þar sem Nyrðridalur og Stíflisdalur mætast er talið besta vaðið á Grjótá, en hún kemur ofan úr Kjölnum og rennur í gljúfrum niður Nyrðridal og í Stíflisdalsvatn. Frá vaðinu er farið Selkotsveg svonefndan í Selkot, en Selkot var hjáleiga frá Stíflisdal og talið nýbýli árið 1840, byggt um 1830. Þarna var vetrarþungt en heyskapur hægur.
Fyrsti bóndinn í Selkoti var Sigurður Þorkelsson. Hann bjó þar árin 1830 til 1890, en síðasti bóndinn Sveinn Abel Ingvarsson bjó þar frá 1937 til 1953. Hann er jarðsettur þar ásamt tveimur konum sínum, þeim Helgu Pálsdóttur og Ragnhildi Lýðsdóttur.
Selkot stendur eins og fyrr segir í Nyrðridal, en eftir honum rennur Kjálkaá. Innst tekur við svonefnt Gljúfur. Upp með því liggja reiðgötur austur á Þingvöll. Fyrir framan gljúfrið er Kirkjuflöt, en þar áði fólkið frá Fellsenda, Stíflisdal og Selkoti, Dalbæjunum svonefndu, þegar farið var í Þingvallakirkju. Langur kirkjuvegur hefur það verið og messur voru all tíðar í þá daga. Á Úlfljótsvatni í Þingvallasveit var t.d. messað þriðja hvern sunnudag á sumrin og fjórða hvern á vetrum.
Selkot-3Á Teignum svonefnda meðfram Kjálkaá var engjastykki, sem spilltist mjög af umferð ríðandi manna. Sjálf er Kjálkaá alla jafna meinleysisleg, en í vatnavöxtum á vorin getur hún sýnt á sér klærnar og á vetrum lokaðist bærinn gjörsamlega inni milli ófærra lækja og áa. Þetta segir í örnefnalýsingu höfð eftir Bjarna Jónssyni, beyki. Þar segir: „Selkot lá mjög afskekkt. Vegir voru erfiðir, ófærir á vetrum og í leysingum. Þrjár leiðir lágu frá bænum. Leiðin til Reykjavíkur lá suður yfir Kjálkaá á tveimur vöðum, yfir Grjótá, og síðan aftur yfir Kjálkaá og suðvestur að Sigurðarhól í Stíflisdalslandi. Síðan lá hún vestur yfir Mosfellsheiði.“
Leiðin í Kjósina lá norðan Stíflisdalsvatns, niður með Stýfingum, austan ár, niður með Þórufossi og norður að Hækingsdal.
Þriðja leiðin frá Selkoti var raunverulega framhald leiðarinnar úr Kjósinni, þ.e. leið Kjósaringa til Þingvalla, Kjósarheiði. Guðný (dóttir Jóns Bjarnasonar ábúanda í Selkoti 1918-1936) kveðst þekkja það nafn, en þessi leið var aldrei kölluð annað en Heiði þ.e. að fara austur yfir Heiði, frá Selkoti að Kárastöðum, Brúsastöðum og Þingvöllum. Leiðin lá til austurs eða suðausturs frá Selkoti. Þar voru reiðgötur, en faðir Kristrúnar (önnur dóttir Jóns) lagði þar veg eins og þeir voru í þá daga síðustu árin, sem hann var í Selkoti.
Þess má geta að frá bænum Skálabrekku og upp að Selkoti og Stíflisdal eru gamlar götur, sem liggja um Skálabrekkusökk og upp á milli Hádegisholta. Eins lágu götur frá Heiðarbæ um Vestra-Hádegisholt. Um þessa heiði var mikil umferð hér áður fyrr, sérstaklega í sambandi við réttir á haustin.
Í Jarðabók Árna og Jóns segir að bóndinn í Stíflisdal sæki skóg til eldunar, kolagerðar og eins rafta í Þingvallaskóg, þó að það sé erfitt vegna „vonds vegar.“ Kirkjuvegur þótti langur og erfiður og förumannaflutningur sömuleiðis. Þetta orð förumannaflutningur hef ég ekki heyrt áður, en merkir kannski að bændur hafi komið förufólki af sér frá einum bæ til annars. Þannig vann innbyggð Tryggingastofnun þjóðarinnar í þá daga. Þetta förufólk var svo gangandi fréttablað eða Ríkisútvarp með allt það nýjasta á hraðbergi og slúður í bland.
Þrjú önnur eyðibýli eru á þessum slóðum: Álftabakki í Stíflisdal fyrir sunnan Kjálkárós, Melkot fyrir austan Stóragil rétt hjá Selkoti og Hólkot, en sá bær stóð sunnan við Kjálkaá, norðanundir Hádegisholti. Hólkot fór í eyði í Svarta dauða árið 1402, en í Melkoti var búið í nokkur ár um aldmótin 1900.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Örn H. Bjarnason – Gamlar götur.

Selkotsvegur

Selkotsvegur að Brúsastöðum.

Hvaleyrarvatn

„Sagt er að nykur sé í Hvaleyrarvatni annað árið, en hitt árið í Kasthúsatjörn á Álftanesi.
Kasthusatjorn - kortSelstaða var áður fyrr við Hvaleyrarvatn, og sér enn tættur af selinu við vatnið. Eitt sinn voru í selinu karl og kona og gættu búpenings.- Konan fór sem oftar að sækja vatn, en kom ekki aftur. Seinna fannst lík hennar mikið skaddað rekið upp úr vatninu, og þótti líklegt, að nykurinn hafi drekkt konunni.
Eldri menn hafa oft heyrt mikinn skruðning og hávaða út í Hvaleyrarvatni, einkum þegar ísa leysir, og þykir líklegt, að það starfi af völdum nykursins.
Sagt er, að einu sinni hafi börn úti á Alftanesi, fjögur að tölu, verið að leika sér við Kasthúsatjörn og hafi þá séð dýr eitt, grátt áð lit, sem þau héldu að væri hestur og lá við tjörnina. Þau settust öll á bak nema eitt barnið; það sagðist ekki nenna á bak. Þegar barnið sagðist ekki nenna á bak, hristi dýrið börnin af sér og stökk út í tjörnina. Þóttust menn af þessu sjá, að þarna hefði nykurinn verið.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar. 14. árg. 1955, 2. tbl., bls. 8.

Hvaleyrarvatn-kvold

Kvöld við Hvaleyrarvatn.

Borgarhraunsrétt

Á nýlegri landakortum er Sandakravegur sýndur liggja frá Drykkjarsteinsdal í austri, með vestanverðu Fagradalsfjalli til norðurs og síðan niður á Skógfellastíg úr Fagradal um Aura. Veginum var fylgt norður með Borgarfjalli, um Nátthagakrika, framhjá Einbúa og að Kastinu með viðkomu í Selskál, Borgarhraunsréttinni og Borgarhraunsborg.

Sandakravegur

Gengið um Sandakraveg.

Þegar gengið var af gömlu þjóðleiðinni frá Grindavík til Krýsuvíkur vestast í Drykkjarsteinsdal má sjá djúpa gróna holu innan við hraunkantinn. Þarna gæti hafa verið vatnsstæði eða brunnur. Erfitt er að greina götuna að ráði fyrr en komið er inn fyrir Borgarfjallið, en þegar komið er í Nátthagakrika fer að móta vel fyrir henni. Sunnan við Einbúa er gatan mjög skýr. Kastað hefur verið upp úr henni á kafla, auk þess sem hlaðin gerði eru á tveimur stöðum við götuna.

Haldið var inn í Selskálina og hún skoðuð.

Borgarhraun

Sel við Selskál.

Ekki var að merkja nein mannvirki í skálinni, enda hefur orðið þarna mikil jarðvegseyðing. Þó er á einum stað vel grasi gróið svæði, en ekki var gott að merkja á bakka, sem þar, hvort hann væri náttúrulegur eða gæti verið hluti af einhverju mannvirki.
Gengið var til suðvesturs með vesturbrún hraunkants. Utan í honum eru grasi grónar brekkur og bollar. Hlaðinn stekkur er þar utan í bakkanum, en við leit fundust ekki önnur sýnileg mannvirki. Þó er líklegt að þau kunni að leynast þarna ef vel væri að gáð.
Stefnan var tekin til suðurs inn á hraunið, að Borgarhraunsréttinni, sem kúrir þar heilleg undir suðurjaðri hraunsins. Sumur hafa viljað nefna réttina eftir Ísólfsskála þar sem hún er í hans landi, en Skálamenn þekkja ekki slíka nafngift.

Borgarhraunsborg

Í Borgarhraunsborg.

Gengið var áfram til suðurs, að Borgarhraunsborg. Um er að ræða stóra fjárborg á grónum hraunhól. Hún er í rauninni í Litla-Borgarhrauni, skammt frá mynni Drykkjarsteinsdal.
Nafnið Selskál bendir til selstöðu og þá væntanlega frá Ísólfsskála. Stekkurinn í hraunkantinum gæti hafa verið hluti af henni. Nátthagakriki er enn ein vísbendingin og einnig Nátthagi skammt austar í Fagradalsfjalli.
Hugsanlega gæti gatan þar sem hún sést svo vel í krikanum og undir Einbúa einnig hafa verið hluti af selsstígnum. En hvað sem öllum vangaveltum líður fæst sennilega seint úr því skorið. Þetta svæði er hins vegar hið ákjósanlegasta göngu- og útivistarsvæði og margt að skoða.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Viðeyjarborg

Í Borgarhraunsborg.

Básendar

Í Faxa árið 1948 eru skrif séra Jóns Thorarensens um „Bátsenda„:

„Bátsendar hjá Stafnesi eiga sér einkennilega sögu. Þeir hafa eflaust á fyrri öldum verið notaðir til útróðra, en nafnkunnastir voru þeir fyrir hina dönsku einokunarverzlun, sem rekin var þar í þrjár aldir, frá 1484—1799.

Jón Thorarnesen

Jón Thorarensen.

Fyrst er getið um enska kaupmenn á Bátsendum. Árið 1484 gerði fulltrúi Danakonungs upptækt skip og vörur af Englendingum á Bátsendum, en þeir vildu hafa íriðsamlega verzlun við Íslendinga.

Árið 1491 sló í harða brýnu á milli Englendinga og Þjóðverja útaf Bátsendum, og 1506 eru Englendingar þar í friði með verzlun sína samkvæmt leyfi, er Þorvarður lögmaður Erlendsson í Selvogi gaf þeim.

En 1518 var friðurinn úti milli Þjóðverja og Englendinga út af Bátsendum, Grindavík og Hafnarfirði, og varð bardagi loks milli þeirra í Hafnarfirði, sem endaði með því að Þjóðverjar héldu velli og náðu þessum verzlunarstöðum af Englendingum. Eftir þennan bardaga voru Þjóðverjar öllu ráðandi á Bátsendum, og þegar þýzka útgerðin var mest, höfðu Þjóðverjar þar syðra 45 fiskiskip.

En Kristján þriðji lét gera einn eldhúsdag að þessu öllu og ræna öllum skipum af Þjóðverjum 1543, og 20 árum síðar rændi konungur eða sló eign sinni á allar útvegsjarðir kringum Bátsenda, og öllum afla var upp frá því í tvær aldir rúmlega skipað að Bátsendum, í sjóð konungs. En þrátt fyrir það, að Danir rændu hinum þýsku skipum tókst þeim seint að ná Bátsendum frá Þjóðverjum, því um miðja 16. öld höfðu þeir tuttugu skip þar syðra, en Danir einungis tvö.
Árið 1548 ætlaði danskt skip að sigla inn til Bátsenda, en þýzkt skip var þar fyrir, og flæmdu þeir það danska burt.

Bátsendar

Bátsendar 1083. Garðar fremst. Fjærst má sjá tóft torfbæjarins.

Árið 1640 byrja svo Danir einokunarverzlun sína með fullum krafti á Bátsendum, og þar varð aðalverzlun danska valdsins á þessum slóðum, þar til sjórinn batt enda á allt saman þann 9. jan. 1799, en þá gekk fárviðri með stórflóðum um aJlt Suðuriand, og eyðilögðust þá nótt 187 skip á Suðurlandi. Kirkjan á Hvalsnesi fauk, og skemmdir urðu miklar víðar. Á Eyrarbakka týndust 9 nautgripir, 63 hross og 58 kindur. Seltjarnarnes varð að eyju í flóðinu svo ekki varð komizt tíl Reykjavíkur. Og á Bátsendum eyðilagðist allt. Allur kaupstaðurinn eyðilagðist, en kona ein drukknaði.

Básendar 1726

Básendahöfn 1726. Keflavíkurhöfn ofar.

Þær byggingar, sem eyðilögðust voru þessar. Sölubúðin; íbúðarhús danska kaupmannsins; lýsisbúðin; lifrarbræðslan; íslenzkur torfbær, sem var 5 kofar litlir og urðu þeir allir ein grjóthrúga eftir flóðið; stórt vöruhús, og svo hrundu að mestu vörugeyrnsla, lítið fjós, hlaða og skemma, auk þesss tapaði kaupmaður 6 manna fari, 4ra manna fari, 2ja manna fari og norskri skektu. Sjórinn komst 164 faðma upp fyrir efsta húsið á Bátsendum.

Hinrik Hansen hét síðasti kaupmaðurinn á Bátsendum. Hann segir frá því í skýrslu, sem hann gaf, að um nóttina, aðfaranótt þess 9. jan., hafi hann, kona hans, 4 börn og vinnukona vaknað við það að brakaði í öllu verzlunarhúsnu, og skellir heyrðust eins og grjóti væri kastað á húsið, og þegar hann fór á fætur og lauk upp útidyrum, brauzt sjór inn á þau með afli og fyllti öll herbergi. Flýðu þau þá upp á loft og hírðust þar til kl. 7 um morguninn, að þau brutu þakgluggann og óðu upp að fjósinu, sem hærra stóð. Óðu þau í gegn um borðvið, planka, búsáhöld og vörur, sem allt flaut þar í einum graut. En þegar þau komu að fjósinu hrundi það litlu síðar, þá flýðu þau til hlöðunnar, en um líkt leyti sópaðist þakið af henni. Þá lagði þetta fólk af stað hálf nakið í roki og kulda í áttina heim að Loddu sem var næsta hjáleiga, og komst það þangað eftir mestu þrautir.

Básendar

Básendar – uppdráttur ÓSÁ.

Gömul kona, er var í íslenzka torfbænum á Bátsendum fórst í flóðinu.

Hinrik Hansen var kaupmaður á Bátsendum frá 1788 og til þess síðasta. Hann kom ungur til Íslands, 16 ára, og eignaðist íslenzka konu. Hann átti íbúðarhús á Bátsendum, sem eg hefi minnst á og bjó þar allt árið, hann var orðinn efnaður maður, en missti aleigu sína á einni nóttu og allt óvátryggt eins og geta má nærri. Bar hann sig upp við kóng, en fékk bæði sein og vond svör.

Hinrik Hansen dó í Keflavík 11. okt. 1802, 53 ára gamall, og var jarðsunginn að Útskálum 18. s.m. Þó að Hinrik Hansen væri danskur einokunarkaupmaður, þá hafði hann það það fram yfir aðra starfsbræður sína, sem fyrr höfðu verið þar, að hann kvæntist íslenzkri konu, og var á Bátsendum allt árið, en danskir kaupmenn voru oft vanir að fara á haustin til Danmerkur og loka verzlunarhúsunum og láta sér á sama standa, þó að Íslendingar yrðu að svelta heilu hungri á vetrum.

Básendar

Básendar 1983. Stafnesbærinn fjærst. Garður við Kaupmannshúsið.

Það er ekki að ástæðulausu, þó að einkennilegar tilfinningar vakni hjá mönnum, er þeir koma suður fyrir Stafnes, þar sem Bátsendakaupstaðurinn stóð.

Fyrir 148 árum var þar kaupstaður, sem sopaðist burtu á einni nóttu. Eg held, að enginn blettur á Íslandi eigi sér jafn einkennilega sögu. Þar sem nú eru berar klappir og brimbarðir hnullungar, þar á sama stað var einu sinni líf og fjör og fjögur tungumál: íslenzka, danska, enska og þýzka, hafa verið töluð þar fyrr á tímum. Mörg verzlunarhús voru þar og útvegsbændur komu í stórum hópum að leggja inn fisk sinn og taka út. Ungar og fallegar heimasætur að kaupa sér silkiefni í skrauttreyjur við upphluti og skautbúning.

Básendar

Básendar – Brennitorfuvík.

Karlarnir drukku þar brennivín bjartar jónsmessunætur og báru saman hjá hver öðrum vertíðaraflann, og hresstu sig eftir fiskflutningana og uppskipunina. Þangað kom líka oft maður einn, sem var stór, þrekinn og kraftalegur, með stórgert og svipmikið andlit, svartur á brún og brá og bað um úttekt. Þetta var sóknarpresturinn á Hvalsnesi, Hallgrímur Pétursson. En það var hvorttveggja, að hann gat ekki stært sig af búskap og af því að leggja miklar afurðir inn, og svo var líka hitt, að sýslumaðurinn á Stafnesi var óvinur hans, sem spillti fyrir honum á Bátsendum, svo hann hefur eflaust oft farið þaðan með þungum hug. Þess vegna sagði hann:
Mannleg aðstoð er misjafnt trygg
margir fá slíkt að reyna,
trúskaparlundin laus og stygg
leið gengur eigi beina.
Veltur á ýmsa hlið um hrygg
hamingjulánið eina.

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Já, það mátti segja, á Bátsendum, þar valt hamingjan oft um hrygg fyrir Íslendingum. En í frægustu bók heimsins standa þessi orð: Þeir síðustu munu verða fyrstir. Suðurnesin, sem áður voru heimkynni einokunar og kúgunar, hafa orðið fyrir gjörbreytingu og endurreisn. Frá þeim streymir nú árlega ógrynni auðs í þjóðarbúið, og flestir aðrir landshlutar munu hverfa í skugga þeirra stórfelldu mannvirkja og framkvæmda í sambandi við atvinnulífið, sem þar verða að veruleika á komandi tímum.“

Heimild:
-Faxi, 1. tbl. 01.01.1948, Bátsendar – séra Jón Thorarensen, bls. 3-4.

Básendar

Frá Básendum.