Traðarfjöll

Í Náttúrufræðingnum 1983 fjallar Jón Jónsson, jarðfræðingur, um „Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga„. Þar skrifar hann m.a. um Traðarfjallahraun sunnan Traðarfjalla:

Samkvœmt annálum urðu eldgos í Trölladyngjum á Reykjanesskaga árin 1151 og 1188. Líkur benda til að 1151 hafi Ögmundarhraun íKrísuvík og Kapelluhraun sunnan Hafnarfjarðar runnið er umbrotahrina varð í eldstöðvakerfi Trölladyngju. Hrinunni lauk líklega 1188 með myndun Mávahlíðahrauns. Umbrotahrinan í heild er nefnd Krýsuvíkureldar.

Traðarfjöll

Móhálsadallur. Traðarfjöll efst til vinstri.

„Eftir að þessi grein var búin til prentunar, fannst enn ein eldstöð, sem telja verður óvéfengjanlegt að sé frá sögulegum tíma. Þessi eldstöð er sunnan í Traðarfjöllum, skammt sunnan við Djúpavatn. í riti mínu um jarðfræði Reykjanesskaga (Jón Jónsson 1978, bls. 165-166) er eldstöðvum á þessu svæði nokkuð lýst og hraunið nefnt Traðarhraun, en réttara væri e. t. v. að nefna það Traðarfjallahraun. Þegar vegur var Iagður gegnum Reykjanesfólkvang var hann skorinn inn í gíg sunnan í Traðarfjöllum. Við það kom í ljós allþykkt moldarlag undir gjallinu og reyndist þar auðvelt að grafa fram jarðvegssnið, sem nær frá því og niður á fast berg, sem þarna er móberg.

Traðarfjöll

Traðarfjöll – loftmynd.

Undir gjallinu er fyrst 9 cm þykkt moldarlag en þá kemur ljósleitt (nánast gulleitt) öskulag, sem ekki getur annað verið en landnámslagið margumtalaða. Sýnir þetta að þarna hefur gosið, að líkindum þó nokkru eftir árið 900 þar eð um 9 cm jarðvegur hefur verið kominn ofan á öskulagið áður en gosið varð. Vel gæti þetta hafa verið um sama leyti og Ögmundarhraun rann, þótt ekkert sé um það hægt að fullyrða. Eins og teikningin sýnir er annað ljóst öskulag neðar í sniðinu og ætti það samkvæmt reynslu að vera H3. Ekki hefur enn gefist tími til að rekja útbreiðslu hraunsins frá þessu gosi, enda er það ekki auðvelt.
Hitt er ljóst að með þessu bætist við enn eitt gos, sem örugglega hefur orðið á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Þykir þetta renna enn einni stoð undir það að meiriháttar goshrina hafi þar orðið snemma á landnámsöld.
Ekki var mögulegt að greina neinar gróðurleifar undir gjallinu. Nægilega mikið loft hefur þarna komist að til þess að gras hefur brunnið til ösku en ekki kolast.
Því má bæta hér við að þar eð svona þykkt jarðvegslag er komið ofan á landnámslagið, gæti þetta verið það gos sem Jónas Hallgrímsson talar um og Þorvaldur Thoroddsen (1925) vitnar í. Gæti þetta verið skýringin á því að ártalið 1340 hefur verið tengt Ögmundarhrauni.“

Traðarfjöll
Í Jökli 1991 fjalla Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir um Krýsuvíkurelda. Um er að ræða seinni grein af tveimur um sama efni. Í greininni lýsa þau gossprungunni, sem Krýsuvíkureldarnir eru sprottnir úr:

Traðarfjöll

Traðarfjöll.

„Gossprungan og hraunin sem frá henni hafa runnið em sýnd á 1. mynd. Eins og flestar gossprungur á Suðvesturlandi hefur hún meginstefnu nálægt N45°A. Gjallhröngl syðst í austurhlíð Núpshlíðarháls markar suðvesturenda gígaraðarinnar en norðausturendinn er austanvert í norðausturenda Undirhlíða, á móts við Helgafell ofan Hafnarfjarðar. Vegalengdin milli enda sprungunnar er um 25 km.
Syðst í Núpshlíðarhálsi er austurhlíðin orpin gjalli og hrauni sem sést vel af Ísólfsskálavegi þar sem hann liggur næst hálsinum. Gígaröðin liggur til norðausturs í eða við vesturhlíð Móhálsadals, allt norður undir Vigdísarvelli, fyrst slitrótt en síðan samfellt, og sumstaðar er gígaröðin tvöföld. Um þremur kílómetrum sunnan Vigdísarvalla breytist stefnan skyndilega; gígaröðin sveigir þvert yfir dalinn og fær síðan mun norðlægari stefnu. Áfram liggur hún skástígt norður með vesturhlíð Sveifluháls að Slögu og þaðan slitrótt með Vigdísarhálsi að Traðarfjöllum og hefur þá hliðrast aftur að Núpshlíðarhálsi.

Traðarfjöll

Gígar norðan Traðarfjalla.

Gossprungan liggur um Traðarfjöll vestanverð og í dalverpinu milli þeirra og Núpshlíðarháls. Á móts við Djúpavatn slitnar gossprungan en tekur sig upp aftur skammt norðan við vatnið. Þar em nyrstu gígamir á suðurhluta sprungunnar utan í Núpshlíðarhálsi, beint vestur af Hrútafelli.
Þar sem landið liggur hæst í Móhálsadal slitnar gossprungan en hún tekur sig upp á ný skammt norðan við Vatnsskarð, en þar er landið tekið að lækka verulega. Þaðan liggur gígaröðin, tvöföld á kafla en nokkuð slitrótt, áfram til norðausturs vestan undir móbergshryggnum Undirhlíðum. Skammt norðan Bláfjallavegar sveigir gígaröðin upp í móbergið og norðausturendi hennar, sem Jón Jónsson (1978a) hefur nefnt Gvendarselsgíga, liggur austan undir nyrsta hluta Undirhlíða, skammt sunnan við Kaldársel.“

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 1.-4. tbl. 01.05.1983, Eldgos á sögulegum tíma á Reykjanesskaga – Jón Jónsson, bls. 135-136.
-Jökull, 1. tbl. 01.12.1991, Krýsuvíkureldar II; Kapelluhraun og gátan um aldur Hellnahrauns, Sigmundur Einarsson, Haukur Jóhannesson, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, bls. 64.

Traðarfjöll

Reykjanesskagi – jarðfræðikort. Traðarfjallahraun er nr. 12.

Hlíðarborg

Stekkir voru nánast við hvern bæ á Reykjanesskaganum, stundum fleiri en einn. Stekkir í seljum voru jafnan tiltölulega litlir. Endurspegluðu þeir fjölda fjár á hverjum tíma. Eftir að hætt var að hafa fé í seli voru stekkir hlaðnir nær bæjunum. Flestir voru þeir svolítið stærri en hinir. Enn má víða sjá leifar af hlöðnum stekkjum og slíkir uppgrónir eru ekki allfáir. Upp úr sumum þeirra voru hlaðnar fjárborgir. Nokkur dæmi eru um að hlaðnar hafi verið réttir við hlið stekkjanna eftir að fráfærur lögðust af, s.s. við Garðastekk, Óttarsstaðastekk og Þorbjarnarstaðastekk. Gjarnan er bent á réttirnar sem stekkina fyrrum, en svo er alls ekki fyrir að fara. Sennilega er það vegna þess að gömlu grónu stekkirnir eru í dag orðnir ógreinilegar fyrir augum ókunnugra.

Garðastekkur

Garðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Garðastekkur er sunnan undir jaðri Garðahrauns. Hann er orðinn gróinn og líkist fremur aflangri húsatóft en stekk. Ef vel er að gáð má sjá tvíhólfa skiptingu í tóftinni; annað fyrir ær og hitt fyrir lömbin. Austan við stekkinn er nú hlaðin fjárrétt, sem oftar en ekki er nefnd Garðastekkur. Uppi á hraunbrúninni er gömlu fjárborg, sennileg frá stekkstíðinni.

Garðastekkur

Garðastekkur efst til hægri.

Óttarsstaðastekkur er norðan undir Miðmundarhæð. Á hæðinni er Miðmundavarða, eyktarmark frá Óttarsstöðum. Stekkurinn er algróinn, en þó vel greinanlegur. Hann hefur verið að svipaðri stærð og Garðastekkur. Vestan við stekkinn er grjóthlaðinn rétt með lambakró/lambhúsi innanvert.

Óttarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur – stekkurinn er hægra megin við réttina.

Þorbjarnarstaðarstekkur, oftast nefndur Stekkurinn, er norðan undir Stekkatúnshæð. Þar var Stekkatúnið með Stekksgerðinu. Gamli stekkurinn sést enn vel, hlaðinn úr grjóti, en nokkuð gróinn. Gerðið er sunnan við stekkinn. Vestan við stekkinn var síðan hlaðin rétt. Innst í henni er lambakró.
Hér á eftir verður lýst verklagi í og við stekkinn forðum.

Óttarsstaðastekkur

Óttarsstaðastekkur.

Stekkur
Stekkir voru venjulega hlaðnir úr grjóti, en líka úr torfi og grjóti. Í stekknum var stíað. Hann var tvískiptur og var lengri á annan veginn. Stundum voru náttúrlegar aðstæður nýttar til stekkjargerðarinnar að hluta. Yfirleitt var stekkurinn ekki langt frá bænum eftir að selstöðurnar lögðust af í lok 19. aldar, kannski í 10.-15 mín. fjarlægð. Stekkurinn var tvískiptur; annars vegar fyrir ærnar, sem mjólka átti, og hins vegar fyrir lömbin eftir að stíað var frá. Lambhús var sumstaðar fyrir endanum á stekknum, hlaðið úr torfi og grjóti, þó aðallega úr grjóti. Ekki var ræktað tún í kringum stekkinn en þar greri upp og varð grænna en annars staðar, vegna húsdýraáburðarins.

Stekkjatíð

Þorbjarnastaðastekkur

Þorbjarnastaðastekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Stíað var í viku til hálfan mánuð, byrjað var í miðjum júní og undir mánaðarmótin voru lömbin tekin frá mæðrum sínum fyrir fullt og allt. Talað var um að fara á stekkinn eða fara ofan á stekk. Lambféð var rekið á stekk um 9 leitið á kvöldin. Ærnar voru reknar inn í stekkinn og lömbin færð inn í stíuna. Síðan var ánum hleypt út og þær voru næturlangt í kringum stekkinn, þær höfðu að éta þar og fóru hvergi meðan þær heyrðu í lömbunum. Lömbin fengu broddmjólkina úr ánum og þegar byrjað var að stía var mjólkin orðin nógu góð til að hægt væri að nota hana í hvað sem var, enda var hún nýtt á svipaðan hátt og kvíamjólkin. Lömbin voru yfirleitt ekki mörkuð yngri en viku gömul en eftir það voru þau mörkuð, hvar sem náðist í þau. Börnum var oft gefið fráfærulamb á stekk en ekkert sérstaklega smalanum. Börnum var bannað að kyssa lömb, því að þá gat tófan bitið þau.

Kvíar

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðastekkur. Stekkurinn efst vinstra megin.

Kvíað var í fjárrétt sem hlaðin var úr grjóti. Í einum dilknum í réttinni voru kvíærnar mjólkaðar. Fyrir dilk var sett grind og hann síðan kallaður kvíar. Réttin var notuð til að rétta í henni um haustgöngur og við rúning á sumrin. Oft var réttin líka fyrir nærligghjandi kot eða bæi. Mikil for var í gólfinu og lausagrjót saman við. Réttin var skammt utan við tún og var aðeins nokkurra mínútna gangur þangað. Taðið var ekki hreinsað út, enda mikið grjót saman við úr gólfinu en þetta greri upp strax og hætt var að mjólka.

Komið er heim á kvíaból
kýrnar, féð og smalinn.

Nátthagi

Óttarsstaðastaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

Yfirleitt var nátthagi skammt frá stekknum eða kvíabólinu, stundum fleiri en einn. Nátthaginn var skjólgóð hvylft eða lægð í landslaginu. Hlaðið skjól fyrir smalann var við suma nátthaga eða lagaður hraunskúti.

Mjólkurær og lömb

Þórustaðaborg

Þórustaðir – stekkur.

Lömbin voru u.þ.b. mánaðar gömul þegar fært var frá. Málbærar voru þær ær kallaðar sem báru á réttum tíma. Misjafnt var hvort fært var frá öllum málbærum ám. Frekar var fært frá ám með gimbrum, því að fráfærulömb voru oftast sett á, svo og ám með sérlega stórum lömbum. Lömb sem fæddust seint voru kölluð síðborin lömb. Lambgotur voru þær ær sem báru dauðu, þær voru mjólkaðar ef þær voru heimavið til þess þær geltust ekki. Þegar vanið var undir var bjórinn tekinn af dauða lambinu og settur á lambið sem venja átti undir. Ef ær týndi lambi og það fannst ekki var yfirleitt erfitt að venja undir hana, var þó stundum reynt að taka hana inn með lambinu. Lömb sem villtust undan voru kölluð frávillingar og þau sem þrifust illa voru kölluð vanþrifalömb.

Fráfærur

Ás

Ás – stekkur.

Fráfærur var notað um atburðinn að færa frá og tímann sem ær voru mjólkaðar í kvíum. Þegar fært var frá var rekið inn í stekkinn og lömbin sett út. Á óþæg lömb sem ekki vildu fylgja hópnum var snúið saman lambahaft úr ull. Það var sett á framfæturna og var hvert haft bara notað einu sinni. Lömbin voru höfð heima hálfa aðra viku. Voru þau ýmist höfð inni eða setin, þar sem ærnar heyrðu ekki í þeim meðan þau voru að spekjast, annars var hætta á að þau týndust. Síðan voru þau rekin á afvikinn stað í nágrenninu, oft í dalkvos. Geldfé var ekki rekið á fjall með lömbunum, það fór fljótt eftir rúning. Staðurinn sem lömbin voru rekin í var kallaður afrétt. Lömb voru ekki setin á afréttinni. Í undantekningatilfellum voru lömb kefluð.

Hjáseta

Smalaskáli

Smalaskáli í Smalaskálahæð.

Starfið að sitja yfir, kallaðist hjáseta. Orðið búsmali var gjarnan notað um smalann. Sá sem sat yfir fénu á sumrin kallaðist smali. Yfirleitt var eitthvað af börnum húsbónda látið sinna smalastarfinu. Ekki fékk smalinn neitt sérstakt sumarkaup, né önnur hlunnindi fram yfir önnur börn á heimilinu. Smalinn hafði með sér hund ef hann var við og það sem til féll í nesti, bar hann með sér í smápoka. Sniðugir smalar komu sér upp afdrepum. Þeir leituðu sér skjóls í skútum og ef vont var hrófluðu þeir stundum hærra, gömlum tóftarbrotum til að skýla sér í en reftu ekki yfir. Smalar voru notaðir í ýmsa aðra snúninga sem til féllu. Smalar urðu að passa að koma með allt féð heim að kveldi og að láta það ekki vera of þétt saman meðan því var beitt. Setið var yfir fénu frá því um níuleytið á morgnana til níu á kvöldin, fram að mánaðamótum ágúst-september. Setið var yfir í öllum veðrum. Smalarnir fundu út hvað tímanum leið eftir því hvar sólin var stödd. Þegar hún hvarf innundir var orðið framorðið og mál að halda heim. Eftir mjaltir voru ærnar bældar. Þá var orðið áliðið og mál fyrir smalann að fara að sofa.

Kvífé

Smalaskjól

Smalaskjól.

Efnahagur fólks var ógjarnan miðaður við eign í kvífé. Þó voru dæmi þess. Mylkar ær í kvíum kölluðust kvíær. Ær sem sóttu í tún voru kallaðar túnarollur og oft þurfti að vaka yfir túninu til að verjast þeim. Oft var eitur sett í gömul hræ út á víðavangi fyrir tófuna en því var hætt vegna þess að það kom fyrir að hundar drápust af eitrinu. Farið var á greni á vorin til að drepa tófu. Bjöllur voru ekki hengdar á kvífé en þær voru oft hengdar á forystusauði til þess að sauðamaðurinn ætti hægara með að fylgjast með fénu.

Mjaltir

Smali

Smali við færikvíar.

Notaðar voru blikkfötur og tréfötur við mjaltir. Þær voru svipaðar að stærð, c.a. 10 lítra. Þær voru hvorar tveggja heldur víðari að ofan en neðan. Föturnar voru ekki misjafnar að stærð en þær voru nokkuð margar í brúkinu í einu. Þær voru kallaðar skjólur. Eftir að mjólkin hafði verið borin úr kvíunum var hún látin í trébakka, mjólkurbakka. Mjólkin var látin standa í sólarhring, síðan var tappinn tekinn úr og undanrennunni hleypt niður um gatið. Rjóminn var eftir og var strokkað úr honum smjör. Sauðasmjör var feitara og hvítara en kúasmjör og mjög ljúffengt. Undanrennan var soðin og saman við hana látinn hleypir og þéttir. Hleypirinn var búinn til þannig að vinstur úr kálfi var hreinsað og þurrkað og látið síðan í bleyti. Lögurinn af því var notaður sem hleypir í skyrið. Í þéttinn var notað fínt skyr. Undanrennunni var hellt heitri í tréílát sem kölluðust skyrbiður. Þegar mjólkin var mátulega volg var hleypinum og þéttinum bætt í . Skyrbiðurnar voru úr tré, talsvert viðari en venjulegar fötur og tóku 20 til 30 lítra. Eftir sólarhring var skyrið síað. Á kvíarnar var farið í verstu fötunum sem til voru, gömlum flíkum sem hálfpartinn var búið að slíta. Þau voru ekki kölluð neitt sérstakt. Við mjaltir stóðu konurnar hálfbognar fyrir aftan ána og héldu með vinstri hendi utan um júgrið og mjólkuðu fyrst annan spenann með hægri hönd og síðan hinn. Þær studdu löngutöng öðru megin við spenann og hreyfðu hana ekki en með þumalfingri struku þær mjólkina niður úr spenanum.

Venjulega var mjólkað í tveimur umferðum, fyrst obbinn af mjólkinni, síðan var hreinsað. Þær voru kallaðar fyrirmjölt og eftirmjölt. Ekki þurfti að merkja ærnar, því að þær stóðu alltaf í sömu röð. Kvíamjöltum var hætt í byrjun september. Síðasta mjöltunin kallaðist að hreyta. Stundum var kúamjólk blandað í sauðamjólk í vinnslu. Þegar fé barðist, vissi það á veðrabreytingar. Þegar ær leituðu heim var sagt að það legðist vont í þær.

Fráfærur felldar niður
Fráfærur voru víðasthvar felldar niður fljótlega eftir 1920. Þá var farið að rækta meira landrými og hægt var að fjölga kúm. Fólk var að mörgu leyti fegið þessu, frjálsræði þess óx og lömbin urðu vænni og fallegri.

Mjaltarstúlka

Mjaltarstúlka – Daniel Bruun.

 

Valahnúkar

Sagan segir að „einu sinni hafa nátttröllafjölskylda búið í Kerlingarhnúk sunnan við Kerlingarskarð, en norðan við Kerlingargil og er þá Lönguhlíðahorn á millum. Stórkonusteinar eru norður undir Lönguhlíðarhorni. Sögn er af tilvist þeirra, en hún verður ekki rakin hér.
TröllapabbiEitt sinn að vetri þegar dagurinn var stystur ákvað fjölskyldan í Kerlingarhnúk að leggja land undir fót og sækja sér hval (sumir segja skreið) til Hafnarfjarðar en sá hafði rekið á Hvaleyri. Þetta var löngu áður en mennskir höfðu sest að hér á landi. Lögðu tröllin; móðir, faðir, dóttir og stálpaður sonur þegar af stað er sólin hafði skriðið undir ysta hafflöt Faxaflóans. Hundur þeirra fylgdi fast á eftir. Sóttist ferðin vel niður hraunin. Fóru þau beint að augum; yfir Valahnúka (Austurhnúka og Vesturhnúka), sniðgengu þó Helgafell. héldu um Brunna, sem nú er Kaldársel, yfir Bleiksteinsháls og sem leið lá yfir Ásfjall niður á Hvaleyri. Fleiri tröll voru þá mætt á svæðið og þrættu þau drjúga stund um fenginn. Fór þó svo að lokum að tröllafjölkskyldan í Kerlingarhnúk fékk drjúgan skerf og hélt hún að því búnu áleiðis heim á leið. Sóttist henni nú ferðin seint því hvalkétið bæði seig í og var ekki auðborið. Eftir að hafa áð við Brunna undir Kaldárhnúkum héldu þau ferðinni áfram. Faðirinn, sem bar hryggjarstykkið, dróst svolítið aftur úr, enda landið á fótinn. Fjölskyldan hélt sig í hæfilegri fjarlægð frá Helgafelli því vættir þess voru ekki af þeirra ættum.
HundurinnEitthvað virðist fjölskyldan annað hvort hafa misreiknað tímann eða hún hefur farið hægar yfir á heimleiðinni en ætlað var því þegar hún kom upp fyrir brún Austurhnúka birtust skyndilega fyrstu morgunsólargeislarnir í Grindarskörðum. Hundurinn, sem fór með hæstu hæðum, steinrann fyrstur. Ætlaði fjölskyldan þá að freista þess að komast niður af Austurhnúkum, en höfðu ekki við sólinni. Urðu fremstu fjölskyldumeðlimirnir að steinum þeim er standa þar enn; móðirin og börnin austar, en faðirinn lítt vestar. Sést vel hvar hann hefur sest niður þegar hann varð þess áskynja er gerst hafði.
TröllamammaSaga þessi hefur lifað meðal tröllanna í fjöllunum ofan Hafnarfjarðar allt til þessa dags. [Aðrir segja að sjá megi skreiðina umleikis tröllunum, sem fyrr sagði.]
Og endar svo þessi saga.“

Eru þetta ekta nátttröll þarna á Valahnúkum? Er þetta ekki bara lygasaga? Ótrúlegt þykir að nátttröll hafi verið til – eða hvað? Lífssteinarnir að baki „tröllunum“ segja sína sögu. Auk þess er sagan góð – en þó verður að segja eins og er að tröll eru ekki til í raun og veru (þ.e. engar áþreifanlegar sannanir liggja fyrir um tilvist þeirra (aðrar en bráðin að baki þeim svo miðvetra)). Þau tilheyra ekki náttúrunni eins og fuglar eða fiskar og þess vegna er ekki hægt að fjalla um ummyndun þeirra í stein með því að útskýra einhver líffræðileg ferli í líkama þeirra, á sama hátt og til dæmis hefur verið fjallað um umbreytingu plantna á koltvísýringi í súrefni eða það hvernig hrökkálar mynda rafstuð.
Umbreyting tröllanna er þess vegna mannanna verk. Tröll verða því að steini þegar sólin skín á þau af því að þannig segja menn sögur af tröllum!
Að vísu er rétt að geta þess að ekki verða öll tröll að steini ef þau komast í tæri við sólarljós heldur á það fyrst og fremst við um svonefnd nátttröll.
Það getur verið ágætis skemmtun að koma auga á form í náttúrunni sem líkjast tröllum, eins og við ímyndum okkur að þau líti út.
En svo má auðvitað spyrja af hverju tröll verða endilega að steini, af hverju breytast þau ekki í vatn, gorkúlur, banjó, færiband eða eitthvað allt annað? 

Tröllamamma

Og alveg eins má spyrja af hverju verður ummyndunin við sólarljós en ekki við tunglskin, þegar það rignir, í sunnanstrekkingi eða við eitthvað allt annað?
Til þess að svara þessum spurningum er rétt að hafa í huga hvernig menn búa íslensk tröll til. Lengst af hefur íslenska orðið tröll þó ævinlega verið notað um einhvers konar bergbúa eða vættir í mannsmynd. Fram kemur í þjóðsögum að tröll eru stórvaxnar verur sem búa í hellum og gljúfrum. Þau eru ólík jötnakyni goðsagnanna að því leyti að jötnarnir búa vel og ríkmannlega, eiga góð húsakynni og berast á, eins og lesa má um í Þrymskviðu og víðar.
Af þessu sést að það er ekki fjarri lagi að láta tröll verða að steini, enda eru þau bergbúar. Ef tröllin yrðu að banjói, færibandi eða einhverju öðru sem tengist þeim ekki neitt, væri verið að fara á skjön við skáldskaparlega rökvísi.
Það felst einnig rökvísi í því að láta tröllin verða að steini þegar sólin kemur upp. Andstæða sólarljóss og dagsbirtu er nóttin og myrkrið, en þá fara kynjaverur einmitt á kreik. Þegar hin upplýsta og bjarta veröld tekur aftur völdin er „eðlilegt“ að myrkaöflin láti undan síga. Þá verða nátttröllin beinlínis steinrunnin.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.

Umbreyting (e. metamorphosis) er eins konar afbrigði af myndhverfingu (e. metaphor) en með því hugtaki er átt við að merking orða færist af einu sviði yfir á annað. Ummyndun tröllanna verður til þess að þau hætta að vera tröll en verða að grjóti í staðinn. Það getur verið ágætis skemmtun að koma auga á tröll þegar menn eru á gönguferðum og eins og getur verið gaman að sjá andlit í skýjafari.
Hvað eru vættir? Vættir geta verið bæði af hinu góða og illa, það er hollvættir eða óvættir.
Hvort dularvættir séu til í alvörunni eða ekki, er ógerningur að svara með óyggjandi hætti. Það fer í rauninni eftir viðhorfi hvers og eins hverju hann vill trúa. Þess má geta að til eru einstaka raunvísindamenn sem segjast trúa því að vættir séu til í venjulegum skilningi. Reynsla manna sýnir að sannanir sem menn taka gildar um tilvist vætta munu seint koma fram.
Rétt er að hafa í huga að framangreind saga af tröllunum á Valahnúkum er ekki þjóðsaga. Hún var samin af einum Ferlirsfélaganna í tilefni að göngu á hnúkana árið 2009.

Heimild m.a.:
-www.visindavefur.hi.is

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

Raufarhólshellir

Um „Raufarhólshelli„, stærsta hraunhellinn á Suðurlandi, er nánast þrjár samhljóma frásagnir í Ísafold 1909, Fjallkonunni sama ár og í Lögberg 1933. Hér er frásögnin úr síðastnefna blaðinu:

„Allir kannast við stærstu hella landsins, Surtshelli, Stefánshelli og Víðgelmi, en það eru ótrúlega fáir Sunnlendingar, sem kannast við, eða hafa komið í stærsta hellinn hér sunnanlands: Raufarhólshelli í Ölfusi.
Hér skal sagt nokkuð frá helli þessum og því, sem um hann hefir verið skrifað, en jafnframt bent á þær leiðir, sem bestar eru að honum.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Raufarhólshellir er í Eldborgarhrauni skamt frá bænum Vindheimm í Ölfusi. Þangað er akfært á bílum. Leiðin frá Reykjavík liggur um þjóðveginn austur, en skamt fyrir austan Kamba er beygt út af þjóðveginum til suðurs út á braut þá er liggur um Hjallahverfið og að Vindheimum. Frá Vindheimum er gengið til norð-vesturs um hálfrar stundar gang, og e r þá komið að hellinum.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Hellirinn er ekki auðfundinn og er því betra að spyrja vel til vegar á Vindheimum, en þeir sem vanir eru að ferðast eftir landabréfum munu þó geta fundið hellinn tilsagnarlaust, eftir hinum nýja uppdrætti Herforingjaráðsis af SV-landi; þar er hellirinn greinilega merktur. Aðra leið en þessa má og fara að hellinum. Ef farið er á bílum t. d. að Kolviðarhóli eða Hveradölum og síðan gengið um Lágaskarð til suðausturs út í Eldborgarhraun. Leiðin frá Hveradölum að hellinum er um 10 km. Báðar þessar leiðir eru bráðskemtilegar.

En þeim, sem fara hina síðarnefndu leið, vildi eg benda á, að til þess að fara ekki alveg sama veg til baka frá hellinum er mjög skemtilegt að ganga lítið eitt vestur, um hin svo nefndu Þrengsli. Þá sjá menn um leið hið fyrirhugaða vegstæði nýja þjóðvegarins austur, því hann á að liggja um Þrengslin fram með Raufarhólshelli og niður í Ölfusið.
Hellirinn dregur nafn sitt af hól nokkrum skamt frá hellismunnanum, sem Raufarhóll heitir. Grasi gróin lág liggur að hellismunnanum og gengur hellirinn ofan í hraunið úr norðurenda lágarinnar. Raufarhólshellir er um 1 km. að lengd.
Víðast er hátt undir loft í hellinum og fallegar hvelfingar sumsstaðar. Marga einkennilega dropasteina er þar að sjá bæði í lofti og á gólfi. En það skemtilegasta, sem þarna er að sjá, eru íssúlurnar, sem standa á víð og dreif um hellisgólfið. Þær eru gildar mjög og margar um mannhæðar háar og gætu verið verðir hinna huldu vætta, sem hellinn byggja.
– Þegar liður á sumarið minka íssúlur þessar mikið vegna hitans.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Þótt merkilegt megi virðast hafði hellir þessi aldrei verið neitt rannsakaður fyr en árið 1909 að 5 ungir og röskir Reykvíkingar hjóluðu austur í Hveradali, en gengu síðan þaðan um Lágaskarð að Raufarhólshelli. Þeir rannsökuðu hellinn rækiliega; mældu og tóku myndir.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Frásögn um ferðalag þeirra birtist í Ísafold þ. 21. júli 1909. Hér skal birtur hluti af þeirri frásögn: „Þjóðsögur hafa gengið um þenna hellir (þ. e. Raufarhólshelli) að hann sé eitthvert feiknaflæmi. Þær sögur kveiktu fyrir tveim árum forvitni í þrem mönnum hér, svo að þeir lögðu upp til að kanna hellinn. Einn þeirra var Sveinn Guðmundsson járnsmiður hér í bænum. Þeir komust 300 faðma inn í hellinn. Þá brast þá ljós, svo þeir urðu frá að hverfa. ‘
Á sunnudaginn var (þ.e. 18. júlí 1009) lögðu fimm piltar upp héðan úr bænum, til þess að kanna hellinn að nýju: Sveinn Guðmundsson, sá er nú var nefndur, Guðbrandur Magnússon prentari (nú forstjóri Áfengisverslunar ríkisins), Carl Ólafsson ljósmyndari, Páll Magnússon járnsmiður og Stefán Guðmundsson trésmiður. Þeir voru vel búnir að ljósfærum, höfðu með sér þrjú karbid-ljósker, og 10 faðma langt snæri til mælinga. Þeir komust inn um allan hellinn. Hann reyndist 508 faðma langur, um 10 faðma breiður að jafnaði og 10—35 álna hár, á að giska. Lengdin er álíka mikil eins og frá Læk (Lækjartorgi mundi nú vera sagt) hér í bænum austur að Mjölni (gamla mulningsverksmiðjan rétt fyrir innan vatnsþró).

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Auk þess eru þrír afhellar út úr honum, einn 26 faðma langur, annar 37 faðma, og þeir báðir allháir. Hinn þriðji er 50 faðma langur, en ekki nema um 2 álnir á hæð. Jarðföll eru þrjú, en öll á fyrstu 30 föðmum, þegar þeim sleppir, er myrkurgeymurinn óslitinn inn í botn. Einn þessara félaga (G.M.) hefir farið um Surtshelli — Honum fanst meira um Raufarhólshelli að ýmsu leyti.“
Tiltölulega fáir hafa farið í hellinn síðan að þessir framtakssömu Reykvíkingar rannsökuðu hann.
Þess má þó geta að árið 1915 gengu nokkrir menn frá Eyrarbakka í hellinn. Fóru þeir um hann allan og tóku þar margar myndir. í fyrravor fór Jón Víðis mælingam. í hellinn ásamt starfsfólkinu á Vegamálaskrifstofunni og tók hann þá ágæta mynd við eitt jarðfallið í hellinum. Einnig höfum við Skátarnir farið í hann nokkrum sinnum.
Og nú á næstunni mun Ferðafélag Íslands efna til farar í hellinn og ættu þá sem flestir Reykvíkingar að nota það ágæta tækifæri til að skoða hann.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Hellirinn er ekki greiðfær. Stórgrýti og urð þekur botninn og verður því að gæta hinnar mestu varúðar þegar í hann er gengið. Einkum er nauðsynlegt að hafa góð ljós og vcra vel skóaður, því vei þeim, sem hætta sér á lágum götuskóm í slíkar göngur, því þeir munu misstíga sig og meiða.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Eins og áður er minnst á, heitir hraun það, sem Raufarhólshellir er í Eldborgarhraun. Um það segir Þorv. Thoroddsen meðal annars í bók sinni „Lýsing Íslands, 2. b. bls. 129: Ýms líkindi eru til þess, að þetta hraun sé það, sem getið er um að hafi runnið árið 1000, þegar kristni var lögtekin á Íslandi. „Þá kom maðr laupandi, ok sagði, at jarðeldr var upp kominn í Ölfusi, og mundi hann laupa á bæ Þórodds goða. Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undr í at guðin reiðist tölum slíkum.“ Þá mælti Snorri goði; „Um hvat reiddust guðin þá, er hér brann hraunit, er nú stöndum vér á?“ Áður var það ætlun manna, að það hefði verið Þurárhraun, sem þá myndaðist, en hitt er líklegra, að það hafi einmitt verið Eldborgarhraun, sem þá brann.“ – Jón Oddgeir Jónsson —Lesb.
Sjá MYNDIR af Raufarhólshelli.

Heimild:
-Fjallkonan, 28. tbl. 24.07.1909, Raufarhólshellir, bls. 110.
-Ísafold, 46. tbl. 21.07.19.0, Raufarhólshellir, bls. 182.
-Lögberg, 26. tbl. 29.06.1933, Raufarhólshellir, bls. 2.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Ásfjall

Gengið var frá Haukasvæðinu áleiðis að Grísanesi. Sunnan við hraunkantinn er, að því er virðist, hlaðið gerði eða rétt. Þá átti að vera hlaðin rétt vestan í neshorninu, en hleðslurnar hafa greinilega verið notaðar í fjárhús eða beitarhús. Þær eru í landi Hvaleyrar.

Ásfjall

Stekkur undir Hádegisskarði.

Efst í holtinu ofan við húsin er hlaðið skotbyrgi, sem nokkuð hefur verið raskað, en þó má enn sjá móta fyrir lögun þess og hleðslur. Skjólgarður er út frá byrginu til norðurs og vesturs og að inngangi austan hennar. Nokkru austar, sunnan í Grísanesi, er annað upphrófað skotbyrgi. Á milli byrgjanna eru tvær fallnar vörður, líklega landamerkjavörður milli Áss og Hvaleyrar.
Vestan undir hæðardragi norðan við Grísanes eru tvær tóptir hvoru megin við göngustíg, sem lagður hefur verið umhverfis Ástjörn, líklega sauðakofar frá Ási.
Gengið var eftir stígnum til austurs norðan undir hæðinni. Efst í henni norðantil er hlaðið byrgi er gæti hafa verið skjól eða aðhald. Borgin og aðhaldið hefur að öllum líkindum verið notað af Bretanum á stríðsárunum, en hann hafði bækistöðvar víðs vegar um þetta svæði. Víða má sjá smáhleðslur, en þær eru flestar með öðru handbragði en Íslendinganna.

Ásfjall

Byrgi á Ásfjalli.

Austar, norðan undir öxlinni, eða rétt sunnan við þar sem Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur liggja yfir öxlina, er Hádegisskarð. Þar er gömul borg, sem virðist hafa verið breytt í stekk. Hluti borgarhringsins sést þó enn þótt gróið hafi yfir hann að hluta. Tvær fallnar vörður eru á Grísanesi, en þó enn vel greinilegar.

Haldið var áfram upp á Ásfjallsöxlina og á Ásfjall, Efst á öxlinni á vinstri hönd er gömul borg, sem lítið er þó eftir af. Þegar komið er langleiðina upp að Ásfjallsvörðunni stóru er hlaðið stórt skotbyrgi undir klöppum er horfir til suðausturs. Hér gæti einnig hafa verið gamal fjárskjól að ræða, en Bretinn síðar notað það sem skjól. Hlaðið byrgi er líka norðvestan undir Ásfjallsvörðunni. Ásfjall er 125 metra hátt.

Grísanes

Grísanes – fjárhús.

Þar sem byrginu hefur verið hróflað upp má sjá hlaðinn gang liggja út frá vörðunni til norðurs og fram á brúnina. Enn eitt hlaðna steinbyrgið í hæðinni er skammt austan við vörðuna og horfir mót norðaustri. Tvö önnur eru þar skammt suðaustar í Ásfjallsöxlinni.
Í bakaleiðinni var gengið suður af fjallinu og komið niður í Dalinn. Hann er nokkuð gróinn þar sem hann liggur milli hlíðar og Hamraness. Austan í Dalnum eru grónir hraunbollar og í a.m.k. einum þeirra er gamall fjárhellir. Sjá má hlaðið opið inn undir skúta, en þakið hans er að mestu fallið niður.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum.

Hellnahraun rann fyrir um 2200 árum og stíflaði afrennsli hennar til sjávar. Annars eru Hellnahraunin tvö ef vel er að gáð – hið yngra og hið eldra. Hið yngra eru um 1100 ára.
Ásbærinn stóð undir Ásfjalli um aldir, en var rifinn á áttunda áratug 20. aldar. Skammt sunnan við bæinn, undir klapparholti, er stekkur.
Frábært veður – Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Ásfjall

Ásfjall og Grísanes – uppdráttur ÓSÁ.

Hvalreki

Nýlega rak dauðan hval, hrefnutarf,  á Álftanesfjöru norðan Breiðabólstaðar. Slíkur hvalreki er ekkert einsdæmi hér á landi, enda þurfti fljótlega í upphafi byggðar að setja sérstakar reglur um eignarhald um hvalreköld.
Í hinni fornu lögbók Jónsbók er langur bálkur, rekabálkur, um hvali og hvalnytjar. Þar er m.a. kveðið á um að ef hval rekur á land er hann eign landeiganda, en ef í honum er hvaljárn eða spjót og rekur á land beri að skipta honum milli landeiganda, eiganda járnsins og fátækra.

Hvalreki

Hvalreki á Seltjarnarnesi 1955.

Hvalreki við strendur Íslands var býsna algengur á árum áður og þótti í þá daga mikill happafengur. Algengar voru frásagnir af hvalreka sem björguðu heilu sveitunum frá hungri. Um hvalreka innan netlaga var fjallað í 54. landbrigðisþætti Grágásar, þar kom fram að landeigandi ætti reka fyrir landi sínu, þar á meðal hval.
Í Jónsbók er að finna sambærilegt ákvæði um hvalreka og verða hér rakin þau ákvæði sem enn gilda í íslenskum rétti. Í áðurnefndum 1. kapítula rekabálks Jónsbókar kemur fram að „hver maður á reka allan fyrir landi sínu, viðar og hvala, sela og fiska, fugla og þara nema með lögum sé frá komið“.

Á Vísindavef Háskóla Íslands var spurt: „Er Jónsbók enn í gildi í íslenskum lögum?“:

Hvalreki

Hvalreki fyrrum.

„Stutta svarið við þessari spurningu er: Rúmur tíundi hluti lögbókarinnar frá 1281, sem nefnd hefur verið Jónsbók, er enn í lagasafni Íslands.
Íslendingar gengust Noregskonungi á hönd á árunum 1262-4. Þjóðveldislögin giltu þá í landinu, það er Grágás. Konungur vildi skipta þeim lögum út fyrir eigin lögbók. Hann fékk lögleiddar tvær lögbækur með skömmu millibili. Fyrri lögbókin var nefnd Járnsíða og þótti ekki góð og gilti bara í um 10 ár. Betur tókst til með síðari lögbók konungs, sem lögleidd var á Alþingi árið 1281. Fljótlega var farið að nefna hana Jónsbók eftir aðalhöfundi hennar, Jóni lögmanni Einarssyni. Jónsbók var meginréttarheimild á Íslandi í meira en 400 ár.

Hvalreki

Hvalreki við Garðskaga.

Upprunalega lögbókin, sem konungur lagði fyrir Alþingi árið 1281, er ekki lengur til en hún hefur varðveist í mörgum afskriftum. Reyndar er engin íslensk miðaldabók til í eins mörgum handritum og Jónsbók. Til eru 224 heil eða heilleg handrit af Jónsbók og 62 handritabrot. Elsta handritið er frá því fyrir 1300 (AM 134 4to) en fallegasta handritið er frá 1363 og er nefnt Skarðsbók (AM 350 fol.). Myndprentuð eftirgerð af Skarðsbók var gerð í tilefni 700 ára afmælis Jónsbókar árið 1981. Jónsbók var fyrsta bókin sem prentuð var á Íslandi, sem ekki var Guðsorðabók. Það var gert árið 1578 í Hólaprentsmiðju. Jónsbók hefur verið prentuð nokkrum sinnum síðan það er 1578, 1580, 1591 (Núpufellsbók, ekki er vitað hvenær hún var prentuð en talið er að það hafi verið einhvern tímann á bilinu 1582 til 1620), 1707, 1709, 1763 (dönsk þýðing Egils Þórhallssonar (1734-1789)), 1858 (Akureyrarútgáfan), 1885 (Gustav Storm í bókinni Norges gamle love), 1904 (fræðileg útgáfa), 1934 (ljósprentuð 1578 útgáfan), 1981 (Skarðsbók myndprentuð) og 2004 (fræðileg útgáfa).

Jónsbók

Blaðsíða úr Jónsbók í myndprentaðri útgáfu Skarðsbókar frá 1981.

Í bréfi Magnúsar konungs, sem fylgdi Jónsbók, segir að bókinni sé skipt í 10 bálka. Hverjum bálki er svo skipt í marga kafla. Mjög snemma eða strax í Skarðsbók (1363) fór að bera á ýmiskonar ruglingi í bálka- og kaflaskiptingunni, sem ýmist erfðist í næstu útgáfur eða var leiðrétt og þá mismunandi eftir útgáfum eða skrifað var upp eftir öðrum handritum en Skarðsbók. Í það minnsta riðlaðist skipan bókarinnar og er því ekki að öllu leyti samræmi á milli Jónsbókarútgáfna hvað þetta varðar. Ekki er þó um stórvægilegan mun að ræða. Sem dæmi má nefna að Jónsbók frá 2004 er skipt í 13 bálka og 260 kafla en í Jónsbókarútgáfunni frá 1904 eru bálkarnir 10 og kaflarnir 251.
Eftir að einveldið komst á árið 1662 hvarf fljótlega síðasti snefill af löggjafarvaldi Alþingis til konungs. Enn meiri þáttaskil urðu þegar Kristján konungur fimmti setti lögbók fyrir Danmörku árið 1683 og fyrir Noreg árið 1687. Þessar lögbækur nefnast Dönsku og Norsku lög og var hvorugri ætlað að gilda á Íslandi.

Hvalreki

Hvalreki við Eiðisgranda.

Á átjándu öld setti konungur nokkrar óljósar tilskipanir um gildi Norsku laga á Íslandi. Oft og tíðum var ekki kveðið nákvæmar að orði en það, að ákvæðin og heilu bálkarnir ættu að gilda eins og átt gæti við á Íslandi. Kastað var höndum til þessa verks vegna þess að lögbók átti fljótlega að taka gildi á Íslandi. Meinið var, að það gerðist aldrei. Stafaði af þessu hinn mesti glundroði og má segja að á 18. öldinni hafi næsta fáir kunnað skil á því, hvað væru í rauninni gildandi lög í landinu. Það leiddi til þess að dómar voru oft og tíðum byggðir á dönskum og norskum lögum, sem hvorki höfðu verið sett fyrir Ísland né birt hér. Hafði strax upp úr 1700 fjarað svo mjög undan Jónsbók, að Árni Magnússon (1663-1730) snupraði Björn Þorleifsson (1663-1710) Hólabiskup fyrir að láta prenta hana árið 1707. Árni segir í bréfi til biskups, að hann hefði ráðið frá því að bókin yrði prentuð og segir að margt í bókinni sé undarlegt og stór hluti hennar sé liðinn undir lok. Árni vildi samt fá eintak handa sjálfum sér og þá frekar tvö en eitt úr því að biskup var hvort sem er búinn að prenta bókina. Magnús Stephensen (1762-1833), dómstjóri Landsyfirréttar, lyfti grettistaki við að leysa úr réttaróvissunni. Þegar hann lést árið 1833 var réttaróvissunni að miklu leyti eytt.

Hvalreki

Hvalreki við Þorlákshöfn.

Árið 1945 voru hlutar af 56 köflum Jónsbókar í lagasafninu. Árið 1983 voru kaflarnir 47 og hefur þeim ekki fækkað síðan þá. Jónsbókarákvæðin frá 1281 munu vera alveg einstök í lagasafni nú á dögum og minna á langa sögu Alþingis sem löggjafarstofnunar.
Flestir kaflar Jónsbókar í lagasafninu eru úr Búnaðarbálki (Landsleigubálki) og Rekabálki. Rekabálkur fjallar um hvalreka og rekavið. Sum Jónsbókarákvæðin, sem tilgreind eru í lagasafninu, eiga uppruna sinn í íslenska Þjóðveldinu það er eru komin úr Grágás. Það eru því til lagaákvæði í lagasafni Íslands sem hafa verið í gildi frá upphafi Íslandsbyggðar eða að minnsta kosti frá stofnun allsherjarríkis og Alþingis árið 930.
Nokkuð oft hefur verið vísað til Jónsbókarákvæða í Hæstaréttardómum. Venjulega er það í málum sem snerta ágreining um eignarrétt yfir landi eða um rétt til ýmiskonar landnytja, svo sem veiði, beitar og reka.“

Í „Landsyfirréttardómum og hæstaréttardómum í íslenskum málum“ frá 1895 er dómur um hvalreka. Málið höfðuðu bændur á Járngerðarstöðum gegn Oddi V. Gíslasyni, presti á Stað:

Hvalreki

Hvalreki við Grindavík.

„Hinn 26. ágústmánaðar 1890 fannst dauður hvalur á floti fyrir utan Grindavík, og var hann af þeim sem fundu hann róinn í land á Járngerðarstöðum; hvalurinn var óskemmdur og 25 álnir að lengd milli skurða.
Afrýjendurnir, sem eru fyrirsvarsbændur á Járngerðarstöðum, ljetu skera hvalinn og skiptu honum í 3 hluti jafna: uppróðrarhlut til flutningsmanna, landshlut og skurðarhlut. Var þannig farið með hvalinn sem flutningshval eptir fyrirmælunum í 7. kap. J.bókar Rb. Hinn stefndi, sem hefur haldið því fram, að hvalurinn væri rekahvalur, taldi skipti þessi ólögmæt, og áleit, að það bæri að skipta hvalnum þannig: 1/3 hluta til uppróðrarmanna, en af hinum 2/3 hlutunum einum fjórðungi til Skálholts- og Staðarkirkju til jafnra skipta, ein um fjórðungi í skurðarhlut milli allra grasbýlismanna í Grindavík og tveim fjórðungunum til allra (7) jarðanna í Griudavík sem landhlut til jafnra skipta. Hinn stefndi höfðaði þá mál gegn áfrýjendunum út af hvalskiptum þessum og var það dæmt í aukarjetti Kjósar- og Gullbringusýslu 7. febr. 1892 á þá leið, að áfrýjendurnir skyldu allir fyrir einn og einn fyrir alla greiða hinum stefnda sjera Oddi Gíslasyni fyrir hönd kirkjunnar á Stað í Grindavík 1/8 — einn áttunda — úr 2/3 — tveim þriðju — hlutum hins umrædda hvals og hinum sama sem ábúanda á Stað 1/7 — einn sjöunda — hluta af 2/4 hlutum af hinum sömu 2 þriðjungum hvalsins, allt eptir mati óvilhallra manna; með sama dómi voru áfrýjendurnir dæmdir til að greiða 100 kr. í málskostnað og nokkur ummæli málsfærslumanns þeirra í varnarskjölum hans fyrir aukarjettinum voru dæmd dauð og ómerk. Að öðru leyti voru áfrýjendurnir sýknaðir fyrir aukarjettinum.

Hvalreki

Hvalreki á Álftanesi 2021.

Nefndum aukarjettardómi Kjósar- og Gullbringusýslu hafa þeir Einar Jónsson, Sæmundur Jónsson, Eiríkur Ketilsson og Magnús Maguússon skotið til yfirdómsins með stefnu, útgefinni 9. júlí f.á., og krafizt þess, að dómurinn verði úr gildi felldur, að þeir verði algjörlega sýknaðir af öllum kærum og kröfum sjera Odds Gíslasonar, og að hann verði dæmdur til að greiða þeim allan sakarkostnað fyrir báðum rjettum með nægilegri uppbæð. Hinn stefndi, sjera Oddur Gíslason, sem befur haft gjafsókn í hjeraði og gjafvörn fyrir yfirdómi og skipaðan talsmann, hefur af sinni hálfu krafizt pess, að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur, og að áfrýjendurnir verði allir fyrir einn og einn fyrir alla dæmdir til að greiða honum málskostnað fyrir yfirdómi að skaðlausu, svo og, að hinum skipaða málflutningsmanni verði tildæmd hæfileg málsvarnarlaun.

Hvalreki

Hvalreki við Granda.

Hinn stefndi hefur eigi fundið neitt að því, að finnendum hvalsins var úthlutaður 1/3 hluti hans í uppróðrarhlut, en að öðru leyti hefur hann byggt kröfur sínar til hluta úr honum á ákvæðum í Wilchinsmáldaga, er segja svo: „að Staðarkirkja eigi 1/8 í hvalreka öllum í Grindavík milli Rangagjögurs og Valagnúpa“, og að því leyti hann sem ábúandi Staðar gjörir kröfur til landhutar, byggir hann það á venju, er á að vera sönnuð með ýmsum hvalrekavitnisburðum, uppskrifuðum árið 1657, en gefnum 1603 og 1627, svo og vitnisburðum um, hvernig hafi verið farið með hvalreka í Grindavík 1860 og 1878, en vitnisburðir þessir fara í þá átt, að landhlut af hval, sem rekur í Grindavík, sje skipt milli allra jarða þar, sem eru 7 að tölu. Ákvæðin í Wilchinsmáldaga, svo og hinir tilvitnuðu vitnisburðir, ræða að eins um rekahval, en áfrýjendurnir hafa stöðuglega haldið því fram, að hjer sje um flutningshval að ræ3a, er heimilt hafi verið að róa upp á Járngerðarstaðaland, og skipta þar á þann hátt, sem þeir gjörðu. Aptur á móti hefur hinn stefndi leitazt við að sanna það, að hvalurinn hafi fundizt í rekhelgi (fiskhelgi) Grindavíkur, og skýrir hann svo frá, að allar jarðir í Grindavík hafi sameiginlegan rjett, að því er rekhelgi snertir.

Hvalreki

Hvalreki í Vogum.

Hinn stefndi heldur því fram, að hvalurinn hafi fundizt á þessum miðum: Djúpmið: Hásteinar mitt á milli Húsatópta og Sýrfells; Hásteinar um Tóptatúnshala; Austurmið, grunnmið: Varðan Sigga í Skotta — og hefur hann látið mæla vegalengdina frá miði þessu til næsta lands, Þórkötlustaðaness, og reyndist vegalengdin 4—500 faðmar(c: 353 mælisköpt á 4 álnir = 1412 ál.). Þá hefur dómarinn eptir beiðni hins stefnda útnefnt 2 menn til þess að athuga, hvort flattur þorskur sæist á bátsborði frá landi í 500 faðma fjarlægð, og hafa þeir gjört tilraun um það, og staðfest með eiði fyrir rjetti, að peir bafi sjeð fisk á borði í 540 faðma fjarlægð. Mælingum þessum hafa áfrýjendurnir mótmælt, og sjerstaklega hafa þeir haldið því fram, að mið þau, sem mælt hefur verið frá, sjeu eigi hin rjettu mið, þar sem hvalurinn fannst. Um þetta hefur hinn stefndi látið fram fara vitnaleiðslu, og hafa 4 vitni, einmitt menn þeir, sem reru hvalinn í land, gefið vitnisburð þar að lútandi. Eitt vitnið skýrði svo frá, að „er þeir komu fyrst að hvalnum, hafi varðan verið vestan til á miðja Vatnsheiði og djúpt af grunnbrún“; annað vitnið tjáist ekkert vita um það; þriðja vitnið segir, að hvalurinn hafi verið á grunnbrún, er þeir fyrst komu að honum, og 4. vitnið ber, að varðan hafi verið austarlega á Vatnsheiði. Með þessum vitnisburðum er það eigi sannað, að hvalurinn hali fundizt á miðum þeim, sem hinn stefndi hefur látið mæla frá vegalengd til lands.

Hvalreki

Hvalreki við Garðskaga.

Hinn stefndi — en á honum virðist sönnunarbyrðin hvíla í þessu efni — hefur þannig eigi sannað það, að hvalurinn hafi fundizt í rekhelgi eða fiskhelgi — enda verða hinar framkvæmdu mælingar eigi álitnar lögmæt sönnun gegn áfrýjendunum, sem eigi voru kvaddir til að vera við þær — og virðist það því rjett, að farið hefur verið með hvalinn sem flutningshval, en í hinum framlögðu skýrslum er hvorki kirkju nje Stað í Grindavík eignaður hluti í hvölum þeim, sem fluttir eru á fjörur annara jarða í Grindavík (c: í flutningum). Það ber því að sýkna áfrýjendurna fyrir kærum og kröfum hins stefnda í þessu máli. Málskostnaður fyrir báðum rjettum þykir eiga að falla niður. Sem gjafsóknarmál hefur málið verið rekið forsvaranlega í hjeraði, og fyrir yfirdómi hefur málsvörnin verið lögmæt.
Því dæmist rjett að vera: Afrýjendurnir, Einar Jónsson, Sæmundur Jónsson, Eiríkur Ketilsson og Magnús Magnússon eiga að vera sýknir fyrir kærum og kröfum stefnda sjera Odds Gíslasonar í þessu máli. Málskostnaður falli niður.“

Heimildir:
-Jónsbók, rekabálkur, kap. 1.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=31477
-Landsyfirréttardómar og hæstaréttardómar í íslenskum málum 01.01.1895, Hvalreki, nr. 28/1892, bls. 324-328.

Hvalreki

Hvalreki á Álftanesi 2021.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt (Selsvallarétt/Gjáarrétt) er undir Réttargjá suðaustan við Heiðina há, þar sem gjáin rís hæst. Um er að ræða nokkra dilka og almenning, auk leiðigarðs. Veggirnir standa nokkuð heillegir. Þegar Geitafellsrétt var aflögð um aldamótin 1900 var hlaðin rétt á Vörðufelli í Strandarheiði. Hún þótti erfið til rekstrar svo Selvogsréttin nýrri (Girðingarrétt) var hlaðin í heiðinni milli Hnúka og Urðarfells (Svörtubjarga). Réttin sú hefur einnig verið nefnd Gamlarétt, en hún var aflögð árið 1957.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt – uppdráttur ÓSÁ.

Í Örnefnaskráningu Gísla Sigurðssonar, yfirfarinni af Eyðþóri Þórðarsyni frá Torfabæ í Selvogi, fyrir Nes segir m.a.:
„Austur af Hnúkunum er komið á svæði, sem einu nafni er kallað Gjárnar eða Á Gjánum. Þetta svæði er milli Hnúka og Geitafells. Um það liggja gjár, sem það dregur nafn af. Þær liggja allar í sömu átt, frá Geitafelli. Austust og næst landamerkjum er Nesgjá. Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga. Við
austurenda Réttargjár eru Selsvellir alveg inn undir Geitafelli. Það var slægjuland frá Nesi. Þar fékkst gott hestahey. Götugjá er neðsta gjáin“.
Götugjá hefur einnig verið nefnd Nesgjá. Milli hennar og Geitafells eru tóftir sels vestan undir hraunhól.

Í Örnefnaslýsingu Gísla um Selvogsafrétt, einnig yfirfarinni af Eyþóri, segir:

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt.

„Nesgjá er austust af gjánum, næst hreppamörkum. Réttargjá er vestar og nær Geitafelli Þar austur undir fellinu er Geitafellsrétt, en þar var fyrrum aðalrétt Selvogsinga og Ölfusinga“.

Í Þjóðólfi 1875 eru „Auglýsingar„. Þar er getið um Geitafellsrétt sbr:
„Um leið og eg geri almenningi kunnugt, að eg samkvæmt tilmælum amtmannsins yfir suðr- og vestrumdœminu hafi verið skipaðr lögreglustjóri til upprœtingar fjárklábans í suðurhluta Gullbringusýslu, í Selvogi og í Út-Ölfusinu inn fyrir Hjallahverfið, skal hér með skorað á fjáreigendr þá, sem kindr kynnu að eiga í réttum þeim, sem sótt er að úr þessu lögsagnarumdœmi mínu, að koma sem tímanlegast, að réttunum og hirða kindr sínar. Mun almenn skoðun á réttarfenu, fyrr en er dregið, fara fram í Gjáarrétt mánudaginn 20. p.m., í Geitafellsrétt þriðjudaginn 21. s. m. og í Hveragerðisrétt miðvikudaginn 22. s.m. Allar kindr þær, sem þá finnast með kláða eðr kláðavotti, munu samkvæmt 4. gr. tilsk. frá 5. jan. 1866 verða stranglega aðskildar frá hinu fénu og skornar þegar stað við réttina, ef eigandinn er ekki við til að hirða þær á tryggjandi hátt, svo að þær ekki nái samgöngum við annað fé, eða ef enginn annar vill taka þær að sér til hirðingar…“. – Reykjavík 15. september 1875, Jón Jónsson.

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi, Áfangaskýrsla I“, segir um Geitafellsrétt:

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt – uppdráttur í Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi.

„Geitafellsrétt er rúma 11,5 km norðaustan við [Nes í Selvogi]. Á heimasíðu FERLIS segir: „Geitafellsrétt (Selsvallarétt) er undir Réttargjá þar sem hún rís hæst. Um er að ræða nokkra dilka og almenning. Veggirnir standa nokkuð heillegir. Þegar Geitafellsrétt var aflögð um aldamótin 1900…“.
Umhverfis réttina er grasivaxið svæði. Til vesturs rís hamraveggur gjárinnar. Mosavaxið hraun er til austurs. Réttin er 34×20 m að stærð, snýr norðursuður og er í aflíðandi halla til austurs. Hún skiptist í fimm hólf og aðrekstrargarð. Réttin er sem fyrr segir hlaðin upp við vesturvegg Réttargjár og er grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,5-1,2 m á hæð og má sjá 3-5 umför grjóthleðslu í þeim. Lýsingin hefst nyrst, í hólfi 1. Það er 15×7 m að innanmáli og snýr norðursuður. Tvö op eru inn í hólfið, eitt til norðurs inn í hólfið en hitt til suðvesturs, yfir í hólf 2. Réttargjá afmkar hluta af vesturvegg og er bjargið um 10 m hátt. Þetta er líklega almenningurinn. Hólf 2 er vestan við hólf

Réttargjá

Varða á Réttargjá.

1. Það afmarkast af hamravegg gjárinnar til vesturs, stórgrýti til austurs en hlaðnir veggir eru til suðurs. Hólfið er þríhyrningslaga, 12×6 m að stærð og snýr norður-suður. Op er sem fyr segir til austurs yfir í hólf 1 og annað til suðurs, yfir í hólf 4. Hólf 3 er sunnan við hólf 1. Það er minnst í réttinni og ekki sér móta fyrir opi þar inn. Hóflið er 7×7 m að stærð og er einnig þríhyrningslaga. Það mjókkar til vesturs. Hólf 4 er sunnan við hólf 2 og 3. Það er 14×8 m að innanmáli og snýr norðvestur-suðaustur. Op er á miðri suðurhlið, annað til norðurs, yfir í hólf 2 og hið þriðja til vesturs í hólf 5. Suðurhlið hólfsins er hrunin að mestu. Hólf 5 er vestan við hólf 4. Það er undir klettavegg gjárinnar og inn á milli bjarga sem þar eru. Hólfið er 4×1 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Til norðausturs frá hólfi 3 er 35 m langur aðrekstrargarður. Hann er grjóthlaðinn, 1 m á breidd og 0,3-0,6 m á hæð.“

Heimildir:
-Nes- Örnefnaskrá, Gísli Sigurðsson og Eyðþór Þórðarson frá Torfabæ í Selvogi.
-Selvogsafréttur, Örnfanaskrá, Gísli Sigurðsson og Eyðþór Þórðarson.
-Þjóðólfur, 27. tbl. 20.09.1875, Auglýsingar, bls. 109-110.
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands 2015, bls. 108-109.

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt. Geitafell fjær.

Heiðin há

Í Andvara 1884 er frásögn Þorvaldar Thoroddsens af ferð hans á Heiðina há ásamt séra Ólafi, presti á Vogsósum, undir fyrirsögninni „Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883„:

Heiðin há

Heiðin há – gígurinn (loftmynd).

„Upp af Selvogsheiði er fjarskamikil hraunhunga, sem kölluð er »Heiðin há«. þangað fórum við með sjera Ólafi frá Vogsósum. Heiðin há er 2030 fet á hæð, goysimikil flatvaxin eldfjallsbunga, lik í lögun og Skjaldbreiður; hún er hlaðin upp úr óteljandi, gömlum hraunlögum suður af Bláfellshlíðum ; hallast hún jafnt og pjett niður að Selvogsheiði (3°), og eru margar og langar gjár í lægðinni, þar sem þær mætast. Efst er Hrossagjá; hún er styzt, og er utan í heiðarhlíðinni sjálfri; þar næst Strandagjá, mjög löng, nær frá Svörtubjörgum upp undir Geitafell; svo er Rjettargjá ; hún byrjar í slakkanum milli heiðanna, og nær upp í Geitafell; og syðst er Götugjá (eða Nesgjá); hún nær frá sjó yfir hlíðina á Selvogsheiði upp í Lambafellshraun fyrir noðan og austan Geitafell; neðri (syðri) brúnin, sem er utan í Heiðinni há, er lægri, svo landið hefir auðsjáanlega sigið í slakkanum milli heiðanna.

Heiðin há

Heiðin há – gjár.

Þegar við fórum upp á »Heiðina há«, fórum við upp Grindaskarðaveg upp að Hvalhnúk, og riðum svo þar upp á sjálfa heiðarbunguna. Efst á heiðinni markar fyrir gígnum, sem öll þau fjarskalegu hraun hafa komið úr, sem mynduðu heiðina. Gígurinn er nú fullur af hrauni, en hefir verið afarstór, sem sjá má af leifum þeim, sem eptir standa af gígröndinni; það eru dálitlir hraunhnúkar, sem standa í kring; gígurinn hofir verið allt að 100 faðmar að þvermáli; sunnanverðu við þenna gíg er að auki 2 eða 3 bollar miklu minni, hálffullir af hrauni. Sjálf er heiðin mjög stór um sig; eintóm gömul hraun, með holum og gjótum og hallast lítið, 2°, til vosturs, og 3° til austurs.

Heiðin há

Heiðin há – jarðfræðikort Ísor.

Heiðasljetturnar milli »Heiðarinnar há» og Brennisteinsfjalla eru einn storkinn hraunsjór; hafa þessi hraun flest fallið ofan úr austurhallanum á Brennisteinsfjöllunum, því þar eru stórir gígir svo tugum skiptir allt norður fyrir Grindaskörð: Úr þessum hraunum hafa straumarnir komið, er fjellu niður hjá Stakkavík og Herdísarvík. Gömlu hraunin í Selvogi, sem víðast eru nú mjög sandorpin, eru flest komin úr Selvogsheiði, og saman við þau hafa að ofan runnið hraun úr Heiðinni há. Austan við Heiðina há, milli hennar og Meitla og Geitafells að austan, tekur við vestri armurinn af Lambafellshrauni. Við fengum bezta veður, og útsjónin var ágætlega fögur; landið lá eins og uppdráttur fyrir fótum vorum, allt austur í Eyjafjöll og norður yfir Faxaflóa.

Heiððin há

Heiðin há – jarðfræðikort.

Sunnanlandsundirlendið allt og stórárnar sáust einkar vel, eins og grænn dúkur með silfruðum hríslum; Vestmannaeyjar lyptust upp af hyllingunni, og Snæfellsjökull norðan við flóann blasti við eins fagur og hann er vanur; langt upp á landi rís Skjaldbreiður við himin, og jöklarnir með hvítleitum bjarma. Norðan við Heiðina há eru Bláfjöll, eða rjettara sagt; norðurbrún hennar styðst upp að Bláfjöllum. Það er mikill og langur fjallgarður og hár (um 2200 fet); frá þeim gengur hálsarani suður lægðina milli Heiðarinnar há og Brennisteinsfjalla, sem heitir Ásar; Hvalhnúkur er einn af þeim ásum.“

Ólafur Þorvaldsson skrifaði um Grindarskarðsveginn í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943. Frásögn hans tekur við þar sem lýsing Þorvaldar sleppti:

Heiðin há

Í Heiðinni há  – Bláfjöll fjær.

„Þegar lagt er upp úr Stóra-Leirdal, er strax farið upp allbrattan háls, með nokkrum aðdraganda austur af. Er þetta Hvalskarð.
Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnjúkur, mjór og allhár, en frekar þunnur. Ekki þætti mér ólíklegt, að nafnið sé dregið af lögun hnjúksins, svo mjög minnir hann á bak stórhvelis að allri lögun. Annars segir þjóðsagan, að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnjúkurinn þar suður af Hvalhnjúkur, sem fyrr er getið.

eiðin há

Efst í Heiðinni há.

Þegar austur úr Hvalskarði er komið, taka við Hvalskarðsbrekkur til vinstri handar, en Lágahraun, með háum, strjálum hólum, til hægri handar. Hvalskarðsbrekkur liggja í suður- og suðvesturdrögum víðáttumikillar heiðarbungu, er nefnist Heiðin há. Ekki er mikill gróður uppi á Heiðinni há. Grámosi er þar fyrirferðarmestur, og liggur hann yfir hálfbrenndum grjóturðum.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Mishæðalaus má heiðin teljast, en dregst að toppi á alla vegu, og heitir efsti toppur hennar Kerlingarhnjúkur og er 62 6 m hár. Útsýni í björtu er allmikið og oft fagurt af heiðartoppnum, en þó sést ekki það fegursta, sem Heiðin há hefur að bjóða, — en menn vita aðeins af því kringum sig — það er nafn heiðarinnar, það er einkennilega fagurt, í senn fornlegt og skáldlegt. Að velja einmitt þetta nafn, en ekki t.d. Háaheiði eða eitthvað þvílíkt, lýsir því, hvað sá, sem skírði, hefur verið mikill snillingur í nafngiftum á örnefni, og sennilegt er, að fleiri fögur og sérkennileg örnefnaheiti um þessar slóðir eigi til sama manns að telja. Má þar nefna Fjallið eina, sem sver sig greinilega í sömu ætt.

Þegar Hvalskarðsbrekkum sleppir og komið er nokkuð austur með heiðarbrekkunum, er stór, stakur hraunhóll vestur við veginn, Þorvaldshóll. Litlu austar, þegar brekkunum sleppir, eða þær lækka svo, að útsýn opnast til norðausturs, blasir við í þeirri átt allstórt fell, Urðarfell.“

Sjá einnig HÉR.

Heimildir:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 23-24.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags 01.01.1943, Grindaskarðavegur – Ólafur Þorvaldsson, bls. 102-103.

Heiðin há

Kerlingarhnúkur – Geitafell fjær.

Aspar

Svo virðist sem lítið sé aðhafst við að spyrna í verki við fótum og höndum þegar samspil skógræktar og fornleifa eru annars vegar.

Fornasel

Við Fornasel 2008.

Í 3 gr. Laga um menningarminjar nr. 80/2012 segir um „Fornminjar„:
Fornminjar“ samkvæmt lögum þessum eru annars vegar forngripir og hins vegar fornleifar.
Forngripir“ eru lausamunir 100 ára og eldri sem menn hafa notað eða mannaverk eru á og fundist hafa í eða á jörðu eða jökli, í vatni eða sjó. Skip og bátar frá því fyrir 1950 teljast til forngripa. Til forngripa teljast einnig leifar af líkömum manna og hræjum dýra sem finnast í fornleifum, svo sem fornum haugum, dysjum og leiðum.
Fornleifar“ teljast hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri, svo sem:
a. búsetulandslag, skrúðgarðar og kirkjugarðar, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi leifum mannvirkja og öskuhauga, húsaleifar hvers kyns, svo sem leifar kirkna, bænhúsa, klaustra, þingstaða og búða, leifar af verbúðum, naustum og verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum,
b. vinnustaðir þar sem aflað var fanga, svo sem leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, kolagröfum og rauðablæstri,

Baðsvellir

Selstóftir í skógi á Baðsvöllum.

c. tún- og akurgerði, leifar rétta, áveitumannvirki og aðrar ræktunarminjar, svo og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita,
d. vegir og götur, leifar af stíflum, leifar af brúm og öðrum samgöngumannvirkjum, vöð, varir, leifar hafnarmannvirkja og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra,
e. virki og skansar og leifar af öðrum varnarmannvirkjum,
f. þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð,
g. áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum og minningarmörk í kirkjugörðum,
h. haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið,
i. skipsflök eða hlutar þeirra.
Fornminjar njóta friðunar nema annað sé ákveðið af Minjastofnun Íslands.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Í 4. gr. er fjallað um „Byggingararfinn„:
Til byggingararfs samkvæmt lögum þessum teljast hús og önnur mannvirki og einstakir hlutar þeirra sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, svo sem:
a. stök hús eða hlutar þeirra og húsasamstæður, hvort sem er til íbúðar eða menningar- og atvinnustarfsemi í þéttbýli eða dreifbýli, húsaþyrpingar og götumyndir,
b. kirkjur og bænhús, ásamt tilheyrandi mannvirkjum, svo sem klukkuturnum, garðhleðslum og sáluhliðum, klaustur, samkomuhús, skólahús og nánasta umhverfi þeirra, aðrar opinberar byggingar, íþróttamannvirki og sundlaugar,
c. brýr og hvers konar samgöngumannvirki, virkjanir, stíflur, dælustöðvar og önnur orkumannvirki, hafnarmannvirki, vind- og vatnsmyllur, vitar, slippir, hjallar, manngerðir hellar og réttir.

Rósel

Rósel 2020.

Í 21. gr. um „Verndun fornleifa“ segir m.a.:
Fornleifum, sbr. 3. mgr. 3. gr., jafnt þeim sem eru friðlýstar sem þjóðminjar og þeim sem njóta friðunar í krafti aldurs, má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, spilla, granda eða breyta, hylja, laga, aflaga eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.
Eigendur og ábúendur jarða skulu hlúa að fornleifum á landareignum sínum og viðhalda umhverfi þeirra eftir því sem sanngjarnt getur talist. Minjastofnun Íslands er skylt að veita ráðgjöf og leiðbeiningar í því sambandi.
Minjastofnun Íslands gerir nauðsynlegar ráðstafanir til verndar fornleifum, viðhalds eða endurbóta, en áður skal gera landeiganda eða ábúanda viðvart um þær. Ef nauðsyn krefur lætur Minjastofnun Íslands rannsaka fornleifar með uppgreftri eða á annan hátt.
Friðlýstum fornleifum skal viðhaldið á kostnað ríkisins. Minjastofnun Íslands ber ábyrgð á friðlýstum fornleifum og semur verk- og fjárhagsáætlun um viðhald þeirra.

Hvalsnesleiðin forna

Hvalsnesleiðin forna 2008.

Í 22. gr. laganna er fjallað um „Friðhelgun og merkingar„:
Fornleifum sem eru friðlýstar skal fylgja 100 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði umhverfis friðlýstar fornleifar eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands. Friðhelgað svæði umhverfis aðrar fornleifar, sem ekki eru friðlýstar en njóta friðunar, skal vera 15 metrar nema annað sé ákveðið.
Minjastofnun Íslands skal sjá til þess að friðlýstar fornleifar eða minjastaðir séu auðkennd með sérstökum merkjum. Upplýsingaskilti eða aðrar merkingar við friðlýstar fornleifar skulu vera í samræmi við reglur sem stofnunin setur og skal staðsetning þeirra vera háð samþykki stofnunarinnar.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

„Meðal þess sem er nýtt í lögunum og við fögnum hjá Minjastofnun er að friðhelgað svæði í kringum friðlýstar minjar er nú 100 metrar, en það var 20 metrar í eldri lögum. Þá er nýjung í minjaverndarlögum að inn kemur ákvæði um 15 metra friðhelgað svæði kringum friðaðar minjar en slíka mörkun skorti í eldri lögum“ skrifar Kristín Huld Sigurðardóttir í „hugleiðingum sínum um breytt umhverfi minjaverndar í Árbók HIF 2012 (2013).

Á vesíðu Minjaverndar segir m.a. um framkvæmdir við friðlýstar fornleifar: „Umhverfis friðlýstar fornleifar er 100 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði umhverfis friðlýstar fornleifar og á fornleifunum sjálfum eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands“.

Hvaleyrarsel?

Hvaleyrarsel – stekkur.

Í riti um „Skógrækt í skipulagsáætlunum sveitarfélaga“ er m.a. fjallað um áhrif skógræktar á menningarminjar: „Það er gert við mat á áhrifum skipulagstillögunnar á umhverfið. Sem dæmi má nefna að skógrækt getur haft áhrif á gróðurfar, ásýnd lands og nærveður og einnig á svæði sem njóta verndar, s.s. vegna vatns, náttúrufars
eða menningarminja“.

Í umsögn Minjastofnunar um lýsingu vegna gerðar landsáætlunar í skógrækt LSK2020 til Umhverfis og Auðlindaráðuneytisins þann 30. janúar 2020 segir m.a.: „Nýrækt skóga getur haft í för með sér umbyltingu lands og raskað einstökum fornleifum sem og haft áhrif á minjaheildir og menningarlandslag. Því er nauðsynlegt að festa í sessi samvinnu skógræktar og minjavörslu til að tryggja hagsmuni minjaverndar.

Seldalssel

Seldalssel.

Í 1. mgr. 21. gr. laga um menningarminjar segir: „Fornleifum […] jafnt þeim sem eru friðlýstar sem þjóðminjar og þeim sem njóta friðurnar í krafti aldurs, má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, spilla, granda eða breyta, hylja, laga, aflaga eða flytja úr sdtað nema með lyfi Minjastofnunar Íslands“.
Mikilvægt er að það sé skýrt að allar fornleifar (sem uppfylla skilyrði 3. gr. laga um menningarminjar nr. 80/2012) er friðaðar og taka þarf tillit til þeirra og þess menningarlandslags sem þær tilheyra þegar horft er til skógræktar. Í 4. gr. laga um skóga og skógrækt nr. 33/2019 segir: „Nánar tiltekið skal í áætluninni gerð grein fyrir: a; forsendum fyrir vali á landi til skógræktar með tilliti til náttúruverndar, minjaverndar og landslags.“

Húshöfði

Húshöfði – stekkur.

Á Reykjanesskaganum hefur skógræktarfólk litla virðingu borið fyrir menningarminjum og öðrum fornleifum. Eftirlit með að trjám og öðrum gróðri sé plantað í einstakar fornleifar eða jafnvel heilar menningarheildir hefur hingað til verið ábótavant, eins og eftirfarandi nokkur dæmi sanna:

1. Í friðlýsta Fossárréttina hefur verið plantað trjám með þeim afleiðingum að gamla réttin sést nú varla í landslaginu.
2. Í Fornasel ofan Brunntorfa í Hafnarfirði hefur trjám verið plantað fast við selshúsin að norðanverðu.
3. Trjám hefur verið plantað í selin á Baðsvöllum ofan Þorbjarnar í Grindavík. Nokkrum húsanna hefur verið raskað.
4. Plantað hefur verið trjám í tóftir Njarðvíkurselsins austan Seltjarnar í Njarðvíkurlandi.

Húshöfði

Húshöfði – Beitarhús og Jófríðarstaðasel.

5. Selið í Selbrekkum (nú Sólbrekkum) í Njarðvíkum er nú þakið trjám.
6. Önnur selstaðan við Róselsvötn ofan Keflavíkur er nú horfin í trjágróður.
7. Trjám hefur verið plantað í gömlu Hvalsnesleiðina ofan Keflavíkur.

Hamarskotssel

Hamarskotssel – stekkur.

8. Trjám hafði verið plantað í Snorrastaðaselið við Snorrastaðatjarnir, en þau voru fjarlægð eftir að athygli var vakin á því.
9. Trjám hefur verið plantað þétt upp við megintóft Hvaleyrarsels við Hvaleyrarvatn ofan Hafnarfjarðar.
10. Trjám hafði verið plantað í stekk Hvaleyrarsels sunnan vatnsins. Þau hafa að hluta til verið fjarlægð eftir ábendingar.

Heiðmörk

Fjárborg og fjárhús í Heiðmörk.

11. Trjágróður þekur nú stekk Seldalssels norðan Seldals milli Selhöfða og Stórhöfða.
12. Trjágróður þekur nú stekk Jófríðarstaðasel í Húshöfða ofan Hafnarfjarðar.
13. Trjám hefur verið plantað fast við beitarhúsatóft Jófríðastaða í Húshöfða sem og við seltóftirnar þar skammt frá.

Hamarskotssel

Hamarskotssel – trjárækt.

14. Tré þekja nú stekk Hamarskotssel norðan Sléttuhlíðar ofan Hafnarfjarðar.
15. Tré þekja rústir fornbýlisins Holukots í Botnsdal í Hvalfirði.
16. Fjárborg og fjárhús í Heiðmörk eru þakin og umkringd gróðursettum trjám.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

17. Trjám hefur verið plantað framan við munnan að Hamarskotsselsfjárhelli.
18. (Reykja)Víkurselið í Öskjuhlíð er nánast horfið í skóg.

Á nokkrum minjasvæðum hafa tré orðið sjálfsáð með þeim afleiðingum að minjarnar eru nánast horfnar, s.s. við Gránuskúta sunnan Gjásels, við Hrauntungufjárskjólið í Hrauntungum, við innganginn í Neðri-Straumsselshella, Sveinsfjárskjól ofan Hafnarfjarðar sem og Öskjuholtsskjólið ofan Vatnsleysustrandar. Lítið virðist við því að gera.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – plöntuniðursetning.

Það er ekki til bóta að einstaklingar dundi sér við að planta trjám í fornleifar, án vitundar um hvaða reglur gilda um slíkt. Nýjasta dæmið er að finna í Óttarsstaðaseli ofan Hafnarfjarðar. Þar hefur einhver fundið sig tilknúinn til að planta aspartrjáarsprotum umhverfis meginseltóftirnar, væntanlega með þeim afleiðingum að þær hverfi í gróður þegar fram líða stundir, auk þess aspir eru aðskotaviðbót við ríkjandi trjágróðurinn í Almenningum. Óttarsstaðaselið er menningarheild. Þar er, auk selshúsanna, að finna, nátthaga, tvö fyrirhlaðin fjárskjól, stekki og vatnsból. Óvíst er hvort hlutaðeigandi láti sér nægja að nýplanta í selstóftirnar, eða hvort það sé einungis upphafið að stórtækari trjárækt á svæðinu?

Sjá meira HÉR.

Heimildir:
-Lög um menningarminjar nr. 80/2012, 3., 21. og 22. gr.
-Ný lög um minjavernd – hugleiðingar um breytt umhverfi minjaverndar, Kristín Huld Sigurðardóttir. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 2012 (2013).
-https://www.minjastofnun.is/media/skjol-i-grein/Arbok-HIF-181-196.pdf
-https://www.minjastofnun.is/minjar/fridlystar-fornleifar/
-https://www.skipulag.is/media/attachments/Skograektogskipurlag_2017_lores.pdf
-Umsögn Minjastofnunar um lýsingu vegna gerðar landsáætlunar í skógrækt LSK2020 til Umhverfis og Auðlindaráðuneytisins þann 30. janúar 2020.
-https://www.google.is/url?sa=t&rct=j&q=&esrc=s&source=web&cd=&ved=2ahUKEwjzw4ar36HzAhVB3KQKHR_8CukQFnoECBYQAQ&url=https%3A%2F%2Fwww.stjornartidindi.is%2FPdfVersions.aspx%3FrecordId%3D6c07557e-44ee-4c82-9cf7-6cbad986b536&usg=AOvVaw3BNZGa_ub3-gTWUbowFUhZ

Fossárrétt

Fossárrétt 2009.

Fossárrétt

Fossárrétt 2011.

Kapella

Í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins 2017 er m.a. fjallað um „Kapelluhraun og Heilaga Barböru„:

„Á hverjum degi bruna þúsundir bíla um Keflavíkurveginn með ökumenn og farþega sem eru óvitandi um einstaka náttúru- og menningarperlu sem leynist nánast alveg við veginn. Þessi perla er lítil kapella sem stendur á örlítilli hæð sunnan við álverið í Straumsvík. Hæð, sem er hluti af Kapelluhrauninu, sem hefur verið skafið og eyðilegt á stóru svæði umhverfis þessar einstöku minjar.

Kapellan

Kapellan í Kapelluhrauni áður en hún var grafin upp.

Í annálum er sagt frá miklu eldgosi í Trölladyngju árið 1151 og rann þaðan hraun frá Undirhlíðum til sjávar. Gosið var hluti af svo kölluðum Krýsuvíkureldum, sem urðu á langri gossprungu á Reykjanesskaganum. Þá er einnig talið að Ögmundarhraun, suðvestur af Krýsuvík, eins og við þekkjum hana í dag, hafi runnið yfir gamla Krýsuvíkurbæinn sem stóð niður undir sjó. Þar er að finna mjög merkar mannvistarleifar og óbrennishólma.

Kapellan

Kapellan – líklenski heilagrar Barböru endurgert.

Margt styður aldursgreiningar hraunanna, m.a. annálar og geislakolsmælingar. Í Kjalnesingasögu, sem er talin skráð eftir 1300, er einnig minnst á hraunið, sem þar er kallað Nýjahraun. En einmitt sú nafngift bendir til þess að hraunið hafi runnið eftir að land byggðist, og trúlega að mönnum ásjáandi. Nýjahraunsnafnið var notað allar miðaldirnar en síðar einnig nafnið Bruni. Á síðustu öldum fóru menn að kalla hraunið Kapelluhraun eftir lítilli hálfhruninni kapellu sem fannst í hrauninu. Kapellan er í landi Þorbjarnarstaða, eyðibýlis nálægt Straumi. Hún stendur við mjóa götuslóð sem rudd hefur verið yfir hraunið, og var alfaraleið suður með sjó öldum saman.
Kapellan er talin vera frá kaþólskum tíma. Kristján Eldjárn rannsakaði kapellurústina, ásamt fleirum, árið 1950. Þar fundust ýmsir munir, m.a. líkneski af Heilagri Barböru, verndardýrlingi gegn eldi, hruni, jarðhræringum og hita. Barbara var píslarvottur sem dó fyrir trúna, og var hálshöggvin af föður sínum, Hún var samkvæmt helgisögum uppi í lok 3. aldar e. Kr. Faðir hennar á að hafa læst hana inn í turni til að gæta meydóms hennar, og því er turn eins konar einkennistákn hennar. Líkneskið sem fannst í kapellunni sýnir einmitt Heilaga Barböru með vitann í fanginu. Það var brotið og aðeins fannst efri hluti þess í þrem pörtum. Styttubrotið er um 3,3 cm á hæð, en hefur líklega verið um 5,5 cm þegar styttan var í heilu lagi.

Kapellan

Kapellan – endurgerð.

Allt bendir til þess að hér hafi menn gert bæn sína í kaþólskum sið, áður en lagt var á hraunið, minnugir sagna um eldflóð og óáran, og heitið á Heilaga Barböru sér til verndar. Kapellan, sem er endurhlaðin, er opin í vest-suðvestur, og inni í henni hefur verið komið fyrir stækkaðri eftirmynd af líkneskinu. Það er sannarlega vel þess virði að heimsækja Heilaga Barböru þegar menn eiga leið suður með sjó, hvort sem þeir gera þar bæn sína eða ekki. Þótt eldgosahrinur einkenni Reykjanesskagann og um 850 ár séu frá þeirri síðustu, er fátt sem bendir til þess að eldur verði þar fljótlega uppi, eins og segir í fornum skræðum. En í hrauninu og kapellunni tengjast sagan og jarðfræðin, trúin og lífskjörin, og þar getum við einnig dregið lærdóm af því hvernig ekki á að fara með umhverfi einstakra og dýrmætra minja.“

Heimild:
-Fréttabréf Ættfræðifélagsins, 1. tbl. 01.02.2017, Kapelluhraun og Heilög Barbara, bls. 2.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðiarinnar, sem lá framhjá henni.