Arnarnes

„Sumarið 1926 hafði ég tal af frú Þuríði Guðmundsdóttur Mathiesen, ekkju Theodors Mathiesen í Hafnarfirði. Hún er fædd í Kópavogi 14 árum eftir að Jónas kom þangað (21. sept. 1855) og uppalin þar, unz hún var komin á 19. ár. Frú Þuríður er prýðilega gáfuð kona, skýr í tali og minnug vel enn á margt það er hún sá eða heyrði í æsku. — Hún sagði mér af munnmælunum um dysina við veginn gamla efst á Arnarnesshálsi, sem getið er um hér að framan.
Thorgardsdys-21Neðar, á norðanverðum hálsinum, kvað hún vera dys Þorgarðs, sem svo miklar þjóðsögur gengu um, sbr. Þjóðs. Jóns Árnas., I, 388—91. Mun sú dys þó frá fyrri tímum en Þorgarður á að hafa verið á, eftir þjóðsögunum. Annars er svo að sjá sem sumt í þeim, einkum frásögnin um glæp þann er Þorgarður á að hafa verið drepinn fyrir, stafi frá máli Sigurðar á Árbæ. En hvað sem um það er, þá er líklegast að þessi dys sé yfir einhverjum, sem hafi verið líflátinn hér skammt frá eftir dómi á Kópavogsþingi. Ögmundur skólastjóri Sigurðsson hefir sagt mér, að Filippus heitinn Filippusson, sem ólst upp í Arnarnesi, hafi skýrt svo frá, að þetta væri dys Steinunnar frá Árbæ. Ekki er það fortaks-mál, þótt það komi ekki heim við frásögn Þuríðar. Dysin er úr grjóti og allstór. Að norðanverðu hefir henni verið rótað mikið upp, fyrir nokkrum árum, og kann þá að hafa verið tekið nokkuð grjót úr henni. Hún er að austanverðu við gamla veginn, skammt suður frá Litla-Arnarnesi, er Þuríður kvað svo heita. Þar sjást enn á flöt niður við voginn, norðan gamla vegarins, litlar og óglöggar tóftir eftir kot, sem var þar fyrrum.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 42. árg. 1929, bls. 29-30.

Þorgautsdys

Þorgautsdys.

Gálgahraun

Gengið var um Grástein á Álftanesi, framhjá Selskarði, skoðuð steinbrú yfir Skógtjörn og haldið austur með suðurjarðri Gálgahrauns að Garðastekk.

Gálgahraun

Gálgahraun – skófir.

Skammt frá vegamótum Suðurnesvegar og Norðurnesvegar er sá merki steinn Grásteinn, sem er álagasteinn. Í honum eru för sem sýna að reynt hefur verið að færa steininn úr stað en eitt sinn er það var reynt sýndist mönnum Eyvindarstaðir standa í björtu báli og hættu við flutninginn. Skyggnt fólk segja álfa búa í steininum. Þeim er illa við að fólk fari með gassagangi framhjá honum. Sé það gert reyna þeir að gera því fólki glettu. Þeir láta fólks hins vegar í friði fari með friðsemd.
Gengið var með Álftanesvegi áleiðis að Gráhelluhrauni. Selskarð er þar á vinstri hönd, skammt austan heimkeyrslunnar að Bessastöðum.

Garðastekkur

Í Garðastekk.

Á leiðinni var skoðuð gömul göngu- og reiðleið um Álamýri við Skógtjörnina. Leiðin lá fyrrum um steinbrú, „stíflurnar“ yfir jarðar tjarnarinnar og stytti það leiðina yfir í Garðahverfi. Brúin var þó hrunin á nítjándu öld, að minnsta kosti þegar Benedikt Gröndal skrifaði Dægradvöl. Benedikt segir brúna „allmikið verk, en illa gert“.

Guðmann Magnússon, bóndi á Dysjum í Garðahverfi, lýsti helstu leiðum, sem farnar voru út á Álftanes um aldamótin.

Skógartjörn

Skógartjörn – brú.

Austur úr hafi tvær leiðir með sjónum í gegnum hraunið. Önnur í vestæga stefnu um Garðastekk, en þaðan hafi sú leið skiptst í tvennt og ein leið legið meðfram sjónum og út á Álftanes (Bessastaðasókn), en önnur í Garðahverfi.

Þetta getur vel passað við Fógetagötuna annars vegar og Garðaveg/-götu hins vegar, en hún liggur upp á Garðaholt, svo til í beina stefnu á Garðakirkju. Álftanesgatan gæti síðan hafa tekið við frá gatnamótunum, áleiðis að Bessastöðum.
Selskarði hefur verið mikið raskað, þrátt fyrir viðurkennt fornleifagildi. Það er í rauninni ágætt dæmi um hvernig á ekki að umgangast fornminjar og ætti því að geta orðið víti til varnaðar.

Fógetagata

Fógetagatan um Garðahraun.

Gísli Sigurðsson nefnir nafnið Selsgarðar. Í jarðabók ÁM og PV segir að Garðar hafi brúkað þar (í landi Hausastaða) skipsuppsátur. Álftanesgata (Fógetagata) hafi legið á vatnaskilum (þurrlendi) sunnan Selskarðsbæjar gamla.
Gálgahraun er fremsti hlutinn af hrauninu norðvestan Álftanesvegar. Þar lá vegurinn til Bessastaða allt fram á nítjándu öld. Gálgahraun þótti mjög gjöfult.

Ólafur Þorvaldsson segir í enduminningum sínum að “þeir , sem fóru til aðdrátta í Gálgahrauni, voru aðallega Garðhverfingar, svo eitthvað Hafnfirðingar, og var það þang og marhálmur, sem þangað var sótt, og ver það bæði rekaþang og skorið þang.

Garðastekkur

Garðastekkur.

Betra þótti rekaþang til brennslu en þang það, sem skorið var, aðallega fyrir það að minna salt virtist í því og þornaði því fyrr.
Þegar þangið var orðið þurrt báru menn það oftast heim á sjálfum sér, í stórum byrðum eða sátum, þar eð fæstir þurrabúðarmenn áttu hesta. Gálgahraun lætur ekki mikið yfir gróðri þeim, sem það býr yfir, en hann er meiri heldur en flesta grunar. Gálgahraun fæddi og fóstraði marga sauðkindina, meðan menn hagnýttu sér útibeit. Þó var beitin þar ekki með öllu áhættulaus. Gálgahraun, sem er nyrsti hluti Garðahrauns, á sér engin ákveðin mörk að sunnan í hrauninu.

Gálgahraun

Gálgahraun – kort.

Gálgahraun býður upp á stórbrotna náttúru. Hraunið, sem kemur úr Búrfelli um Búrfellsgjá, um 10 km leið og er um 18 ferkílómetrar. Hraunið er talið vera um 7200 ára. Heitir það ýmsum nöfnum á leiðinni. Í því eru fjölbreyttar tjarnir, fjörur og grunnsævi með auðugu lífríki. Gálgahraun er tilkomumikið nútímahraun með lífauðugum sjávarfitjum.

Hluti þessa svæðis hefur verið friðlýstur. Í matsskýrslu fyrir nýjan Álftanesveg kemur fram að hin forna þjóðleið, Fógetastígur, hafi verið leið um Gálgahraun. Stígurinn þykir mjög óvenjulegur þar sem óvíða hafi umferð á Íslandi verið það mikil fyrr á öldum að rásir hafi klappast í hraun. Stígurinn er þannig minnisvarði um mikilvægi Bessastaða sem miðstöðvar stjórnsýslu á Íslandi og efnahagslífs við Faxaflóa um aldur. Þykir stígurinn “meðal allra merkustu fornleiða á höfðuborgarsvæðinu og hefur ótvírætt varðveislugildi”.

Gálgaklettar

Gálgaklettar.

Gálgahraun er nefnt eftir Gálgunum nyrst í hrauninu. Þar var aftökustaður. Sakamannastígur liggur frá Álftanesgötu (Fógetastíg/-götu) yfir að Gálgaklettum.
Gengið var að Garðastekk. Garðastekkur er gömul fjárrétt. Mikilvægt er að varðveita stekkinn, enda teljst hann til menningarminja. Í hrauninu, ofan við stekkinn, er gömul fjárborg, sem ekki er getið um í örnefna- eða fornleifalýsingum.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar – 2002.
-Álftanessaga – Anna Ólafsdóttir Björnsson.

Gálgaklettar

Gálgaklettar – meintur grafreitur.

Krýsuvíkurkirkja

Í Sunnudagsblaði Tímans árið 1969 var rætt við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd undir fyrirsögninni „Daglegt brauð, sem drottinn gefur„. Í viðtalinu segir Þórarinn m.a. frá Árna Gíslasyni, sýslumanni í Krýsuvík, og Oddi V. Gíslasyni, presti á Stað í Grindavík:

Þórarinn Einarsson„Að þessu sinni tökum við tali gamlan mann suður með sjó. Hann hefur lengst ævi sinnar sótt deildan verð í greipar Ægis, hið daglega brauð, sem drottinn gefur sjómanninum — brauðið, sem við hinir viljum eignast hlutdeild í og Íslendingar fá vart nægju sína af.
En ekki hefur bátur vaggað honum á bárum allar ævistundir, og þess vegna berst talið að mörgu öðru en sjómennsku og fiskidrætti.
Hann kiprar dálítið augun og hleypir í brýnnar, þar sem hann situr andspænis okkur, líkt og hann hefur oft gert, þegar rýnt var í sortann, allkeikur og hressilegur, þó að mörg séu árin, sem hann á að baki sér. Þórarinn heitir hann, Einarsson, og á heima á Höfða á Vatnsleysuströnd.
— Hvar fæddist þú, Þórarinn?
— Ég fæddist í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík árið 1884. Þetta er hálfníræður maður, sem þið eigið tal við. Faðir minn, Einar Einarsson, bjó í Stóra-Nýjabæ, og þá voru í Krýsuvík fjórtán bæir, þar sem nú er enginn. Sá, sem öllu réði þar á bernskuárum mínum — það var Árni sýslumaður Gíslason.
— Var hann búinn að vera þar lengi?

Þórarinn Einarsson

Þórarinn Einarsson og Guðrún Þorvaldsdóttir Höfða ca. 1940.

— Nei, hann kom að austan nokkrum árum áður en ég fæddist. Hann var sýslumaður Skaftfellinga í tæp þrjátíu ár og bjó þá á Kirkjubæjarklaustri. En svo brá hann á nýtt ráð, sextugur maður.
Hann keypti Krýsuvík og Herdísarvík og gerðist sjálfur bóndi í Krýsuvík. Ég man vel eftir Árna. Hann var lítill vexti, rauðbirkinn og með kragaskegg og enskt kaskeiti aftan á hausnum. Það hefur komið í staðinn fyrir sýslumannshúfuna, sem hann lengi var búinn að bera.
— Hann var mikill fjárbóndi, minnir mig, að ég hafi heyrt?
— Það mátti nú segja — hann var um tíma fjárflesti bóndi á öllu landinu. Hann rak tólf hundruð fjár af Klaustrinu, þegar hann fluttist til Krýsuvíkur. En ekki komu nema sex hundruð fullorðnar kindur til skila fyrsta haustið sem hann var í Krýsuvík. Það leitaði austur aftur, féð, vildi komast í átthagana. Ég hef heyrt, að sex kindur kæmust alla leið austur að Klaustri. En leiðin er löng og vatnsföll mörg, og það fórst víst margt eða lenti í villum.

Stóri-Nýibær

Nýibær í Krýsuvík.

— Hvernig líkaði valdsmanninum bóndastaðan?
— Hann var nú ekki neinn venjulegur bóndi. Þeir voru vanir að ráða, sýslumennirnir í þá daga, og Árni var ráðríkur. Hann gat orðið bráðvondur, og þá rauk hann út eða burt frá þeim, sem hann reiddist við. En eftir nokkrar mínútur kom hann aftur, og þá var honum runnin reiðin. Hann var hjúum sínum ákaflega góður húsbóndi og hafði sama fólkið svo árum skipti. Skammaði það aldrei — rauk bara út.
— Lét hann mikið að sér kveða í byggðarlaginu?

Krýsuvík

Í Krýsuvík 1887. Árni Gíslason lengst t.h.

— Hann vildi láta alla í Krýsuvíkurhverfi sitja og standa eins og honum þóknaðist. Hann átti þetta allt — þetta voru eintómar hjáleigur, sem fylgdu heimajörðinni, höfuðbólinu. Körlunum þótti sem þeir hefðu ekki sama frelsi og áður, enda fór fljótt að fækka í sveitinni eftir að hann kom. Faðir minn hafði verið formaður hjá séra Oddi Gíslasyni á Stað í Grindavík áður en Árni kom, en nú varð hann að gerast formaður hjá honum. Hann skyldaði karlana til þess að róa hjá sér. Já — hann átti þetta allt saman.
— Hafði hann mikinn sjávarútveg?
— Mig minnir, að hann gerði út þrjú skip, og þau lét hann ganga frá Herdísarvík. Þá voru gerð út sex skip þaðan, svo að þar var þó dálítil verstöð. Sex skipshafnir — það var ekki svo lítill hópur.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær.

— Reri faðir þinn víða?
— Það var nú einkum í Grindavík. Í nokkur ár var hann hjá séra Kristjáni Eldjárn, afa forsetans okkar — hann var prestur á Stað í sjö eða átta ár. Það var vinsæll maður og skemmtilegur. Hann var ungur og glaðvær, þegar hann var í Grindavík, og ókvæntur — mig minnir, að hann hefði systur sína hjá sér ráðskonu. Frá Stað fór hann svo að Tjörn í Svarfaðardal, og þar ílentist hann. Séra Oddur tók við af honum, og hjá honum var pabbi formaður nokkrar vertíðir eins og ég sagði ykkur áðan.
— Var séra Oddur ekki formaður sjálfur?

Krýsuvík

Krýsuvík 1936 – Ásgeir L. Jónsson.

— Hann reri tvær vertíðir með pabba, en seinna var hann sjálfur formaður. Hann sótti sjóinn, þó að hann væri prestur, eins og margir Grindavíkurprestar hafa gert. Og hann gerði út skip og báta. Frostaveturinn mikla, 1881, gaddagóuna svokallaða, var séra Oddur á bát með pabba. Eitt sinn sem oftar voru þeir á færum á sundinu fyrir utan Grindavík. Fiskurinn var ör, sílfiskur, en frostið hart og nokkur gjóla. Bátinn ísaði, svo að hann var orðinn allsokkinn. Þá vildi pabbi hætta að draga, en séra Oddur var ekki á því. „Daglegt brauð, sem drottinn gefur, Einar minn“, sagði hann. Frá því vildi hann ekki hlaupast fyrr en í fulla hnefana. Þó varð úr, að þeir hættu, og henti þá séra Oddur fiskinum, sem hann var með á önglinum. En ekki mátti tæpara standa, því að báturinn sökk, þegar þeir komu í vörina.
— Og þetta var forvígismaður slysavarna á sjó á Íslandi?

Krýsuvík

Legsteinn Árna Gíslasonar að baki Krýsuvíkurkirkju.

— Já, þetta var forvígismaður slysavarna á sjó á Íslandi. Og forvígismaður um margt. Hann hafði farið til Englands og átt þangað mörg erindi. Hann vildi læra enska tungu og komast í kynni við ensk kristniboðsfélög, og þar kynntist hann líka slysavörnum og lærði að gufubræða lifur. Með því bætti hann lýsisverkunina. Og svo fór hann að vinna að slysavörnum og ferðaðist í því skyni um landið, talaði við sjómenn, gaf út bæklinga um slysavarnir, meira að segja blað, sem hét Sæbjörg. Til þess naut hann styrks frá Alþingi — mig minnir að hann fengi þrjú hundruð krónur á ári. —

Oddur V. Gíslason

Oddur V. Gíslason.

Já, séra Oddi voru hugleiknir sjómennirnir, enda áttu sóknarbörn hans í Grindavík alla afkomu sína undir sjónum og hann sjálfur sjómaður. Og nógu voru sjóslysin mörg og átakanleg til þess, að eitthvað væri reynt að sporna við þeim.
— Bárufleygur — var það ekki eitt af því, sem Oddur vildi láta menn nota?
— Jú, bárufleyginn fékk hann frá Noregi. Það var belgur eða poki með lýsi eða olíu til þess að lægja úfinn sjó. Hann kostaði átta krónur, ef mér bregzt ekki minni.“

Þórarinn Einarsson fæddist 12. apríl 1884 og dó 7. apríl 1980.
Árni Gíslason, sýslumaður, ljóðskáld og skrifari fæddist 14. september 1820 og dó 26. júní 1898.
Árni kvað þetta t.d. einhvern tíma á búskaparárum sínum í Krýsuvík;

Vorið blíða lífgar lýð,
lengist óðum dagur.
Gyllir fríða Geitahlíð
geislinn sólar fagur.

Oddur Vigfús Gíslason, guðfræðingur, sjómaður og baráttumaður fæddist 8. apríl 1836 og dó 10. janúar 1911.

Heimild:
-Tíminn Sunnudagsblað, 10. tbl. 16.03.1969, Daglegt brauð, sem drottinn gefur, rætt við Þórarinn Einarsson á Höfða á Vatnsleysuströnd, bls. 228-232.

Krýsuvík

Krýsuvík um 1880.

Steðji

Í Kjós ofan Kjalarness er fátt minnismerkja. Þau eru þó þar fleiri en engin.

Neðri-Háls

Kjós

Kjós – minnismerki.

Við þjóðveginn ofan við Neðri-Háls í Kjós er grágrýtissteinn. Á honum er skjöldur með áletrun: „Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að vera jarðneskt, en jörðin fær hlutdeild í himninum. Þar búa ekki framan neinar sogir og þessvegna er gleðin ekki nauðsynleg. Þar ríkir fegurðin ein, ofar hverri kröfu.“ – Heimsljós H.K.L.
Hornsteinn Umhverfis- og náttúruverndar, 7. júní 1998 – Sól í Hvalfirði“.

Í mbl.is 7.6.1998 er fyrirsögn; „Samtökin SÓL í Hvalfirði afhjúpa minnisvarða“: Undir henni segir: „Samtökin SÓL í Hvalfirði afhjúpa í dag hornstein að Hálsnesi í Kjós, sem er tileinkaður umhverfis- og náttúruvernd.

Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að hornsteinninn sé minnisvarði um þá baráttu sem íbúar Hvalfjarðar háðu fyrir umhverfi sínu og jafnframt áminning um það umhverfisslys sem staðsetning álvers á Grundartanga er. Hornsteinninn er ekki síst ætlað að marka upphaf aukinnar sóknar í umhverfismálum á Íslandi í framtíðinni.“

Kjós

Kjós – minnismerki.

Landakot

Jörðin Landakot lætur ekki mikið yfir sér þegar ekið er um Vatnsleysstrandarveg. Jörðin er á milli Þórustaða og Auðna (Höfða) og skartar m.a. fallega hvítri skeljasandsströnd. Tóftir er þar víða að finna. Fróðlegt er því að skoða örnefnalýsingar um jörðina, annars vegar skráða af Ara Gíslasyni og hins vegar Margréti Guðnadóttur og bróður hennar Eyjólfi.

Landakot

Landakot – loftmynd.

Ari Gíslason skráði m.a. eftirfarandi (lýsingar á upplandinu er sleppt): „Jörð á Vatnsleysuströnd næst við Auðna. Upplýsingar um örnefni gaf Guðni Einarsson bóndi þar.
Merki móti Auðnum. Fyrir neðan flæðarmál er ós sá, sem heitir Markaós sem er austasti ósinn er skerst inn úr aðalós þeim er gengur inn milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál við suðurenda stakkstæðis, sem tilheyrir Landakoti, um Krók þann er sjávargarðar Landakots og Auðna mynda svo um Brunnhóla sunnanverða eftir gömlu torfgarðlagi um sunnanverðan Landakotshól.
Við merkin móti Auðnum er sker sem heitir Skurðsker og aðeins innar er annað sem heitir Sundsker. Milli þeirra er leiðin inn að vörinni og þar innar eru svo Markaflúðir í fjörunni.

Landakot

Landakot – uppdráttur ÓSÁ.

Upp af Markaflúð á landi er Djúpagróf, gamalt vatnsból, unnið af mannahöndum, allmikið og merkilegt mannvirki, er á merkjum móti Þórustöðum. Þangað var vatn sótt áður fyr. Þetta er borað með handafli, hlaðið innan og tröppur niður í.
Í túninu er aðeins Landakotshóll, stór hóll upp af bæ og á merkjum móti Höfða, í sambandi við hann og slátt þar er sagt að fólk hafi dáið hér úr óþekktri veiki. Gamlar tættur eru inni í miðju túni neðan við bæ og heitir það Gata. Þar var alinn upp skipstjórinn á glæsilegasta skip Íslands. Þar standa hlóðir eins og áður fyr Tröppurnar í Djúpugróf er Landakotsmegin en
líklega hefur hann verið gerður í félagi. Vestast á túni lenti hér eitt sinn flugvél, hún brotnaði en maðurinn slapp, síðan var þetta stykki nefnt Holland.“

Margrét Guðnadóttir

Margrét Guðnadóttir.

Margrét Guðnadóttir og Eyjólfur Guðnason rituðu eftirfarandi örnefnalýsingu fyrir Landakot byggða á landamerkjalýsingu jarðarinnar frá 1886:
„Um landamerki jarðarinnar Landakots í Vatnsleysustrandarhreppi gagnvart jörðunum Þórustöðum að norðan og austan og Auðna og Bergskots að sunnan og vestan vísast til landamerkjalýsingar gerðrar 12. júní 1886 að Brunnastöðum í Vatnsleysustrandarhreppi.
Undirrituð kannast við flest kennileiti í þeirri lýsingu, en ekki þó öll.

Landakot

Landakot – Gata.

Um fjölda býla í Landakoti fyrrum vitum við ekki, en höfum ekki heyrt talað þar um tvíbýli. Í 7. línu, bls. 2, er talað um býlið Götu. Gata á að hafa verið neðan við Landakotsbæinn, en er norðan við hann, miðja vegu milli íbúðarhússins í Landakoti og girðingarinnar, sem skilur Landakot frá Þórustöðum.
Tættur Götu standa enn, og þar er hlaðinn grjótgarður um kálgarð, sem alltaf var kallaður Götugarður og sáð í hann fram á síðustu ár.

Landakot

Landakot 1921.

Býlið Lönd vitum við ekki hvar var og getum ekki staðfest, að það hafi verið niður við sjó, en þar eru tóftarbrot á tveimur stöðum og gamalt kálgarðsstæði hjá öðrum, sennilega er það sá kálgarður, sem talað er um í landamerkjalýsingunni frá 1886 og nefndur sjávarkálgarður Landakots. Hann var aflagður fyrir okkar minni. Ofan til í Landakotstúninu, miðja vegu milli Þórustaða og Bergskots, eru enn eldri hleðslur, og var faðir okkar stundum að gizka á, að þar hefðu Lönd verið. Þetta var þó ágizkun ein.

Landakot

Landakot – sjóhús.

Á bls. 2 er talað um kennileiti í Landakotsfjöru. Skerið, sem þar er kallað Sílalónssker, var alltaf kallað Síllónssker í okkar bernsku (kannski Sílónssker, því lón er fyrir innan skerið, og fellur aldrei vatn úr því um fjöru) og kampurinn kambur. Landasker og Skorusker þekkjum við ekki. Talað var um tvö Sundsker, dýpra og grynnra. Það Sundsker, sem er á mörkum Landakots og Þórustaða, er dýpra skerið, en í grynnra skerinu er djúp skora, og gæti rétta heitið á því verið Skorusker eða Skurðsker.

Landakot

Landakotsskiparétt.

Neðst á bls. 2. er talað um brunninn Djúpugröf. Sá brunnur var aldrei kallaður annað í okkar tíð, og var ausið úr honum vatni á þvott. Vatnsbólið var annar brunnur miklu dýpri, byrgður, og í honum flæðivatn ósalt. Hann þornaði um fjöru, en fylltist á flóði, og varð að sæta sjávarföllum til að dæla úr honum vatni. Hann er um 80-100 m neðan við íbúðarhúsið í Landakoti, langt frá Djúpugröf og miklu yngri og var aldrei kallaður annað er Brunnurinn. Fjöruvötn eru í Landakotsfjöru, ósalt vatn, sem áður fyrr var notað á þvott og ull. Þau koma upp úr um fjöru, en fara í kaf á flóði, og eru líklegast á suðurmörkum fjörunnar, upp undan Síllónsskeri. Meðan þang var skorið um allar fjörur, var auðvelt að finna vötnin, en nú
eru þau kannski horfin í þangið fyrir löngu.

Landakot

Landakotsgarður.

Á bls. 2 er getið álaga á Landakotshól, sem er að mestu í Landakotstúni, en að hluta í landi Bergskots. Hólinn mátti ekki slá Landakotsmegin nema neðst, en við kunnum engar sögur um afleiðingarnar eða sjálf álögin. Það þótti sjálfsagt að slá aldrei hólinn; kýrnar myndu ekki heppnast, ef hóllinn væri sleginn.
Á bls. 3 í lýsingu Örnefnastofnunar er getið þekktra hóla og kennileita úr Strandarheiði, en erfitt er að staðsetja þá í landi hverrar einstakrar jarðar á svo þéttbýlu svæði, nema þá, sem næstir eru bæjum, eins og Skálholt og Vatnshóla, sem báðir virðast vera í landi Landakots. Ekki vitum við, hvar Auðna-Klofningar, Stórhæð eða Klofi eru, en þeirra er getið í landamerkjalýsingu. Önnur kennileiti á bls. 3 þekkjum við.
Sú lýsing á jörðinni Landakoti, sem við fengum í hendur frá Örnefnastofnun, gæti verið ítarlegri, og skulum við tína til hér á eftir fáeina bletti, sem hétu nöfnum í okkar bernsku, og reyna að lýsa staðháttum.

Landakot

Landakot 1950.

Íbúðarhúsið í Landakoti stendur í Landakotstúni sunnanverðu, nær Auðnum og Bergskoti en Þórustöðum. Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunni. Þetta hús, sem nú er búið í, byggðu Sveinn og Geir Pálssynir. Bjó Sveinn þá í Landakoti, en fluttist síðar að Hábæ í Vogum og rak þar verzlun. Árið 1927 fluttist að Landakoti Guðni Einarsson, faðir heimildarmanna. Hann kom frá Haga í Holtum í Rangárvallasýslu og hafði haft nokkurra mánaða búsetu í Reykjavík, áður en hann fluttist að Landakoti. Árið 1928 kvæntist hann Guðríði Andrésdóttur, er alin var upp á Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og hafði aldrei þaðan farið. Þau bjuggu allan sinn búskap í Landakoti. Síðan 1958 hafa búið í Landakoti tveir synir Guðna, fyrst Eyjólfur, síðan Jón, sem enn hefur ábúð á jörðinni, þegar þetta er ritað (1977).

Landakot

Landakot – bæjarstæðið.

Áföst íbúðarhúsinu sjávarmegin eru hlaða og fjós, er mynda skúrlaga ranghala, sem gerir húsið sérkennilegt að ytra útliti. Safnþró er neðan við grunn gamla hússins, vestan og neðan við fjósið. Alveg við austurhorn íbúðarhússins byrja gamlir grjótgarðar, sem skýldu kálgörðum heima við bæinn. Austast í þessum hleðslum er talin hafa verið smiðja. Undir
suðurhlið hússins var í okkar bernsku gerður blómgarður, girtur með trégrindverki og hlaðin sæti í horn grindverksins næst húsinu.
Niður túnið, frá húsinu, liggur sjávargata að uppsátrinu. Þetta var troðningur, en túnið hart og hægt að fara sjávargötuna með hest og vagn, ef með þurfti. Sunnan við sjávargötuna, suður að mörkum Auðna, er slétt flöt, harðbali, sem kallaður var Seiglöpp. Heyið á Seiglöpp þótti þorna seint. Vestast á Seiglöpp, næst mörkum Auðna, var gerður kálgarður um 1940. Er hann notaður enn. Sjávarmegin við þennan kálgarð eru hólar og klappir. Þar eru líklega þeir Brunnhólar, sem nefndir eru í landamerkjalýsingunni, þótt enginn sé þar brunnurinn. Við höfum ekki áður heyrt þetta nafn. Flötinni Seiglöpp hallar í átt til sjávar, og endar hún í þýfðri laut milli Brunnhóla og sjávargötunnar. Í lautinni er oftast tjörn, misstór eftir úrkomumagni og árstíðum, en brunn vitum við ekki um á þessum slóðum.
LandakotBrunnurinn, sem notaður var í okkar bernsku, er út undan tjörninni, rétt norðan sjávargötunnar. Sá brunnur er a. m. k. 50 ára, byrgður, og vatn leitt úr honum í íbúðarhúsið um 80-100 m veg. Vitum við ekki, hvort þar kann að hafa verið eldri brunnur endurbyggður, þegar vatn var leitt í bæinn.
Neðan við tjörnina er gamalt, gróið kálgarðsstæði, aflagt fyrir okkar tíð. Það hlýtur að vera sá sjávarkálgarður, sem til er vitnað í landamerkjalýsingunni gagnvart Auðnum, enda liggur girðingin milli bæjanna úr suðurhorni hans í krók, sem myndast á mörkum sjávargarða beggja býlanna. Hjá kálgarðinum eru tóftarbrot, en ekki vitum við, hvort þar stóð bærinn

Landakot

Landakot – túnakort 1919.

Lönd, eins og látið er að liggja í heimildum, sem við fengum í ljósriti frá Örnefnastofnun. Í okkar bernsku gekk fjárhús með hlöðnum veggjum vestast út úr kálgarðsveggnum og sneri dyrum til sjávar. Það var kallað Efrikofi til aðgreiningar frá öðru fjárhúsi, Neðrikofa, sem stóð alveg niðri á sjávarkambinum. Út úr suðurvegg kálgarðsstæðisins gekk
hesthús með hlöðnum veggjum og sneri dyrum að Auðnum. Frá syðra vegg Efrikofa gekk gamalt garðbrot alveg niður á sjávarkamb. Gæti það hafa verið á mörkum jarðanna Landakots og Auðna, en girðingin, sem nú skilur jarðirnar, liggur nú skáhallt nokkru sunnar, eins og sneitt hafi verið af Auðnatúninu.

Landakot

Landakot – uppdráttur af Landakotsskiparétt.

Norðan sjávargötunnar, eiginlega í beinu framhaldi af neðra vegg gamla kálgarðsstæðisins, sem áður getur, neðan við þann brunn, sem vatn var leitt úr í bæinn, og skáhallt norður og niður til sjávar, var grjótgarður. Svæðið, sem afmarkaðist af honum og gamla kálgarðsstæðin annars vegar og sjávargarðinum hins vegar og girðingunni milli Landakots og Auðna að sunnan, var alltaf kallað Gerðið. Gerðið var athafnasvæði þeirra, sem sjóinn sóttu frá Landakoti. Þar var gert að veiðarfærum, og líklega hafa verið þar fiskreitir áður fyrr. Gerðið var slegið í okkar bernsku, en fiskur þurrkaður á reit, sem gerður var ofan túns eftir 1930. Grásleppa var þurrkuð við sjóinn og sundmagi breiddur á sjávargarðana, meðan hann var hirtur. Hleðslurnar kringum Gerðið hafa líklega átt að verja athafnasvæði útgerðarinnar fyrir ágangi búfjár.

Landakot

Landakotsfjara millum Þórustaða.

Útræði hefur alltaf verið gott frá Landakoti. Þrjár varir hafa verið þar, Suðurvör, Miðvör og Norðurvör, og er Miðvörin enn notuð. Lendingarskilyrði eru þarna góð frá náttúrunnar hendi og gott smábátalægi á sundinu fyrir utan varirnar. Þar má leggja stærri trillum. Innsigling er þægileg. Tvö sundmerki eru, sundvarða á sjávargarðinum norðan til og önnur á hól í heiðinni, skammt frá þjóðveginum eldri. Á báðar að bera saman og í miðjan Keili, þegar inn er siglt. Á sjávarkambinum ofan við varirnar voru þau mannvirki, sem þurfti til árabátaútgerðar fyrri tíma. Þar var naust, skiparétt, hjallur og söltunarhús. Hjallurinn var áfastur við söltunarhúsið og sneri dyrum til sjávar. Á lofti yfir báðum var veiðarfærageymsla.
Handsnúið spil var norðan við hjallinn og bátar settir á hvalbeinum eins hátt upp í uppsátrið og þurfa þótti til að verja þá sjógangi. Milli Miðvarar og Norðurvarar var lág klöpp, kölluð Hausaklöpp. Þar var gert að og hertir þorskhausar. Slorfor var gryfja lítið eitt ofan við uppsátrið. Þangað fór slorið á vertíðinni, en síðan í áburð á túnið. Fé var beitt í fjöru.
Flæðihætta er, og var rekið upp úr fjörunni fyrir aðfallið.

Landakot

Landakot – tóftir.

Um skerin í Landakotstanga má bæta því við það, sem segir hér á fremstu síðu, að sunnan við sundið í Landakoti er grynning, þar sem sér á þara í mestu fjöru. Þegar illt er í sjóinn, getur tekið sig þarna upp boði, sem heitir Landaboði. Einnig er talað þarna um Landarif.
Sjór hefur mikið gengið á landið í seinni tíð, og má heita, að sjávargarðurinn frá Hausaklöpp að mörkum Þórustaða sé eyddur. Á honum sem næst miðjum er sundvarðan, sem áður er á minnzt, og hefur verið reynt að halda henni við. Ofan við garðstæðið eru harðir sandbakkar með lágu, þéttu grasi. Þeir voru kallaðir Bakkinn eða Landakotsbakki og talað um að slá Bakkann.

Landakot

Landakot – hjallur.

Neðst á Bakkanum sést nú kálgarðsstæði, sem notað var til skamms tíma, eða þar til ágangur sjávar gerði þar veruleg spjöll. Þessi kálgarður var kallaður Bakkagarður eða Sandgarður , því að jarðvegurinn var hvítleitur af fjörusandi, hér um bil eins og sandfjaran fyrir neðan sjávarkambinn. Utan um Bakkagarð voru grjótveggir, og fyrir austan hann merkilegt mannvirki grafið inn í Bakkann, hlaðið í hring og reft yfir með tunnustöfum, svo tyrft yfir allt saman. Þetta var kallað Jarðhúsið og notað fyrir kartöflugeymslu í okkar bernsku og var víst upphaflega ætlað til að ísa í fisk.
Bakkinn náði frá sjávargötunni að sunnan og vestan og allt norður og austur að Þórustaðabakka og Þórustaðatjörn. Syðst í þeirri tjörn er brunnurinn Djúpugröf, að hluta í Landakotstúni, og tjörn í kvosinni sunnan og austan við Djúpugröf, en mógrafir vestan og sunnan við Djúpugröf í austurjaðar Bakkans. Þarna að norðanverðu, milli Jarðhússins og Djúpugrafar, er Bakkinn nánast ræma, en breikkar eftir því sem nær dregur sjávargötunni.
Það eru víst ekki nema um 60 ár síðan þessi hluti túnsins varð slægur, áður var þetta víst fjörusandur. Melgresi er sjávarmegin í öllum Bakkanum, og hefur það kannski átt sinn þátt í því að græða upp fjörusandinn1. Bakkinn var alltaf snöggur, hvernig sem á hann var borið. Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt. Í austurjaðri Bakkans, aðeins sunnan við tjörnina, sem Djúpugröf er í, er sá hóll Holland, sem flugvél nauðlenti á, líklega 1934-35. Þetta var mesti merkisviðburður í þá tíð, og sem betur fer slasaðist enginn.

Landakot

Landakot – Götugarðar.

Frá Auðnum, um hlaðið í Landakoti, inn túnið, ofan við tóftarbrotin í Götu og að Þórustöðum liggur troðningur, sem var alfaraleið um Ströndina og liggur áfram inn á bæi.
Ofan við þennan götuslóða liggur sá hluti Landakotstúns, sem nefndur var Inntún, næst Þórustöðum, en Upptún upp af bænum í Landakoti. Í Upptúni mótar fyrir gömlum hleðslum, sem gætu verið bæjarstæði, og faðir okkar gizkaði á, að hefði verið bærinn Lönd.
Mamma vissi ekki um neinn slíkan bæ. Heimreiðin frá þjóðveginum að Landakoti liggur beint upp af íbúðarhúsinu og skilur að Upptún og svonefndan Leyni, sem er grösug laut, er liggur frá heimreiðinni að girðingunni, sem skilur að Landakot og Bergskot. Leynirinn breikkar, er sunnar dregur, og suður við girðinguna er hann breiðastur og afmarkast af Landakotshól, sem áður er að vikið sem álagabletti. Milli hólsins og íbúðarhússins er þýfi ofan við Seiglöpp. Í þetta þýfi gat safnast vatn og stundum orðið úr tjörn. Þetta þýfi endar í tveimur lágum hólum, sem við kunnum ekki nöfn á, en á milli þeirra lá götuslóðinn, sem áður getur suður að Auðnum. Í Landakoti var álagahóllinn yfirleitt kallaður Bergskotshóll.
Ofan við Upptún, Inntún og Leyni var girðing og heiðarmegin við hana fiskreitur og hænsnakofi. Síðan kom önnur girðing neðan við þjóðveginn, og á milli þessara girðinga var Móinn með moldarflögum og klöppum, sem við krakkarnir skírðum ýmsum nöfnum, sem varla verða talin til örnefna.“

Heimildir:
-Landakot – Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Landakot – Örnefnalýsing Margrétar Guðnadóttur, skráð af Eyjólfi Guðnasyni.

Landakot

Landakot 2020. Gata framar.

Hveragerði

Í Hveragerði eru nokkur minnismerki.

Hveragerði – Blóm í bæ 2010

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Blóm í bæ.

Þessi silfurreynir er gjöf frá Garðyrkjufélagi Íslands til Hveragerðisbæjar í tilefni af 125 ára afmæli félagsins.
Hann er beinn afkomandi elsta trés landsins sem talið er að hafi verið gróðursett 1884 við hús Schierbech landlæknis við Suðurgötu í Reykjavík.

Gunnar Björnsson

„Trjálundur þessi er til minningar um Gunnar Björnsson garðyrkjubónda í Álfafelli 1913-1977“.

Minnismerkið er á steyptum stöpli í Listigarði Hvergerðinga.

Reykjakirkjugarður

Hveragerði

Hveragerði – minnismeri; Reykjakirkjugarður.

Í Hveragerði, neðan við Garðyrkjustöðina, er Reykjakirkjugarður. Garðurinn sá forni hefur nú verið enduvakinn, bæði með málamyndauppgreftri, tilbúnum garðhleðslum, en ekki síst öllu merkilegra skilti á vegg er vísar á nafngiftina. Skiltið má þakka Sesselju Guðmundsdóttur.
Þessara merku minja virðast hvergi getið í vefheimildum.

Gísli Sigurbjörnsson 1907-1994

Gísli Sigurbjörnsson fæddist 29. okt. 1907 í Reykjavík. Hann lést 7. janúar 1994.

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Gísli Sigurbjörnsson.

Gísli lauk prófi frá Verslunarskóla Íslands 1927. Hann stofnaði Elli- og hjúkrunarheimilið Grund árið 1938 og var forstjóri þess frá stofnun og jafnframt forstjóri Áss í Hveragerði frá 1952. Auk þess að vinna brautryðjendastarf í þágu aldraðra sinnti Gísli mikið íþróttamálum, bindindismálum og ferðamálum alla tíð. Hann var einn af stofnendum Krabbameinsfélags Íslands og formaður Knattspyrnufélagsins Víkings um skeið. Hann gegndi auk þess fjölda trúnaðar- og ábyrgðarstarfa á ýmsum vettvangi.

Minnisvarðinn var afhjúpaður 3. sept. 1995. Hann stendur á lóð Dvalarheimilisins Áss í Hveragerði. Brjóstmyndina gerði Helgi Gíslason myndhöggvari.

Lárus J. Rist (1879-1964)

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Lárus J. Rist.

„Munit, at léð er lýði land fyrir kraft og anda. [M. Joch.]“

Árið 1936 kom Lárus J. Rist sundkennari frá Akureyri til Hveragerðis. Hann hafði stundað nám við lýðháskólann Askov í Danmörku og lokið prófi frá fimleikaskólanum í Kaupmannahöfn árið 1906. Lárus hafði um árabil unnið við sundkennslu á Akureyri og 6. janúar 1907 vann hann það afrek að synda yfir Eyjafjörð. Lárus gekk í Ungmennafélag Ölfusinga og varð fljótlega mikilvirkur í félagsstarfinu. Hann var stórhuga og setti sér það markmið að í Hveragerði skyldi byggð vegleg sundlaug, stærsta sundlaug landsins. Lárus tók forystu í sundlaugarnefnd og valdi sundlauginni stað í gilinu fyrir neðan gróðurskálana á Reykjum. Þar seytlaði volgur lækur milli grasigróinna bakka og hjálpaði hann til að grafið var fyrir lauginni á þessum stað.

Í ágústmánuði árið 1959 var afhjúpaður minnisvarði um Lárus J. Rist í Laugaskarði í tilefni áttræðisafmæli hans. Þetta var brjóstmynd gerð af listamanninum Ríkharði Jónssyni.

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Elna og Unnsteinn.

Það var hátíðarblær yfir staðnum þennan dag og hundrað börn og unglingar steyptu sér til sunds í laugina. Jóhannes úr Kötlum flutti frumsamið kvæði að fornum hætti. Gunnar Benediktsson rithöfundur las kvæði Matthíasar Jochumssonar í tilefni af Eyjarfjarðarsundi Lárusar árið 1907.

Brjóstmyndin er eftir Ríkarð Jónsson myndhöggvara.

Elna Ólafsson (1912-1998) – Unnsteinn Ólafsson (1913-1966)

„Hjónin Elna Ólafsson og Unnsteinn Ólafsson skólastjóri 1939-1966“.

Unnsteinn var skólastjóri Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi.
Nemendur og vinir reistu honum þennan minnisvarða sem stendur í Unnsteinslundi ofan við Garðyrkjuskólann. Helgi Gíslason myndhöggvari gerði minnisvarðann.

Unnsteinslundur

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Unnsteinslundur.

Árið 1943 átti Unnsteinn Ólafsson skólastjóri frumkvæði að gerð grasagarðs hér í hlíðinni, sem nú er við hann kenndur.

Á sumardaginn fyrsta 1998
Garðyrkjuskóli ríkisins

Jóns Kristjánsson
Minnisvarðinn er við Náttúrulækningafélagið í Hveragerði.

Garðahlynur

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Garðahlynur.

Við Varmahlíð er hlynur. Við hann er skilti: „Garðahlynur“.
Undir honum er bekkur. Á bekknum er skilti: „Margrét Sverrisdóttir – Greta, 7.12.1942-3.4.2021. Minningin lifir“.

Minningabekkur gegnt Reykjafossi, norðan árinnar.
„Njótum útsýnis og kyrrðar. Blessuð sé minning hjónanna í Laugaskarði, Hjartar og Margrétar. Bekkurinn er gjöf frá börnum og tengdabörnum“.

Heimild:
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/

Hveragerði

Hveragerði – minnismerki; Hjörtur og Margrét.

Þorlákshöfn

Í Öfusi og Þorlákshöfn eru nokkur minnismerki.

Kolbeinn Grímsson (1927-2006)

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Kolbeinn Grímsson.

„1927-2006
Ertu að fá hann?“

Við Hlíðarvatn í Selvogi hafa menn löngum veitt silung á stöng. Einn af þessum veiðimönnum var Kolbeinn Grímsson. Hann veiddi gjarnan á flugu, sem hann hnýtti sjálfur og kallaði peacock, á veiðistað sem kallaður er Innranef við norðurströnd Hlíðarvatns.

Sagan segir að ef einhver var við veiðar á veiðistaðnum á Innranefi þá settist Kolbeinn á stein við ströndina og ávarpaði veiðimanninn: ,,Eru að fá’an?”
Þegar veiðimaðurinn gafst upp á veiðum á þessum stað hnýtti Kolbeinn fluguna peacock á tauminn og hóf veiðar og leið ekki á löngu þangað til fiskurinn tók.

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Kolbeinn Grímsson.

Á þessum steini er nú skjöldur með nafni Kolbeins og áletruninni Ertu að fá hann?

Kolbeinn Grímsson lést árið 2006. Stefán Hjaltested lét gera minningarskjöld
um Kolbein. Skildinum var komið fyrir á Innranefi og snýr hann út að Urðarvík.

Þorlákshöfn – Egill Thorarensen (1897-1961)
Minnismerkið er í almenningsgarði við Egilsbraut. Á því er áletrun: „Egill Thorarensen 1897-1961. Hann breytti verstöðinni Þorlákshöfn í nútíma bæ.“

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Egill Thorarensen.

Minnisvarðinn er eftir Gunnstein Gíslason.

Annar minnisvarði um Egil er á Selfossi.

Strandarkirkja – Engill (Landsýn)

Strandarkirkja er kirkja við Engilvík á Suðurstrandavegi. Kirkjan var kirkja íbúa í Selvogi og bjó prestur í Vogsósum uns brauðið var lagt niður árið 1907. Strandakirkja er þjóðfræg vegna áheita og helgisagna. Strandarkirkja stendur við skerjótta og hafnlausa Suðurstöndina. Þar hjá er viti. Í kirknatali Páls Jónssonar biskups í Skálholti sem er að stofni til frá um 1200 er kirkjan á Strönd nefnd. Sennilegt er að lending í víkinni hafi verið um Strandarsund sem er suður og austur af kirkjunni. Núverandi kirkja var reist 1888 og endurvígð eftir endurbætur 14. júlí 1968 og endurbætt frekar og endurvígð aftur 13. október 1996.

Helgisagnir um Strandarkirkju

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Landsýn.

Elsta helgisögnin um Strandarkirkju er að Gissur hvíti hafi gert kirkju þar á 10. og 11. öld úr kirkjuvið sem Ólafur Tryggvason Noregskonungur sendi hann með frá Noregi. Önnur sögn er að Árni nokkur formaður hafi reist kirkjuna úr smíðavið sem hann kom með frá Noregi. Þriðja helgisögnin er um ungan bónda frá uppsveitum Árnessýslu sem fer til Noregs að sækja smíðavið í hús sín en lendir í sjávarháska og hafvillum og dimmviðri og veit ekki hvar skipið er. Hann ákveður í örvæntingu sinni að gefa allan smíðaviðinn til kirkjubyggingar á þeim stað þar sem hann næði landi heilu og höldnu. Þá sá hann ljósengil framundan stefni skipsins og verður sá engill stefnumið sem hann stýrir eftir. Hann lendir í sandvík milli sjávarklappa og þá hvarf engillinn. Skipsmenn sáu í birtingu morguninn eftir að þeir höfðu verið leiddir eftir bugðóttu lendingarsundi milli boðaskerja á úthafsbrimströnd. Var hin fyrsta Strandakirkja reist úr viðnum sem kom úr skipinu.

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Landsýn.

Vorið 1950 var reistur minnisvarði um kraftaverkið í Engilsvík norðvestan við kirkjuna. Minnisvarðinn sem er standmynd á stalli sem sýnir hvítklædda konu sem heldur á skínandi krossmarki er eftir Gunnfríði Jónsdóttur myndhöggvara og nefnist Landsýn. Á fótstallinum er skilti. „Landsýn eftir Gunnfríði Jónsdóttur, afhjúpað 29. maí 1950. Sögnin um Egilsvík.

Í bæn þeir lyftu huga hátt
þá háðu stríð við Ægis mátt.
En himinn rétti arm í átt
þar ýtar sáu land.

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Stakkavík.

Það skip úr dauðans djúpi rann
því Drottins engill lýsa vann.
Svo býður hann við boða þann
og báti stýrir hjá.“

Árið 1994 var vígt minnismerki um látna sjómenn.

Stakkavík
Á skilti grunns gamla Stakkavíkurhússins við Hlíðarvatn sendur: „Stakkavík í eyði 1943 – síðasti ábúandi; Kristmundur Þorláksson“.

Hlíð

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Hlíð.

Á skilti á tóftum gamla bæjarins hlíðar við Hlíðarvatn stendur: „Hlíð í eyði 1906 – síðasti ábúandi; Nikulás Erlendsson“.

Gísli Eiríksson
Á grágrýtissteini austan við Þorlákshafnarveg er skjöldur. Á hann er letrað: „Jólalundur – Takk fyrir að lýsa upp okkar tilveru. Til minningar um Gísla Eiríksson, f. 29.09.1963, d. 20.06.2023.“

María Bjarnadóttir

María Bjarnadóttir

Ölfus – minnismerki; María Bjarnadóttir.

Neðst á grunni Strandarkirkju er lítið skilti: „María Bjarnadóttir frá Herdísarvík, f. 17. júli 1881, d. 18. maí 1922. Var úti við Kolviðarhól“.

Fæstir taka eftir þessu litla minningarskilti. María varð úti 1922.
Skiltið er eins neðarlega og hægt er og þá í stíl við stétt konunnar!

Þegar forvitnast er um þessa konu má lesa litla frétt í Vísi frá því 31. maí 1922: „Bæjarfréttir – Konan, sem fanst örend hjá Kolviðarhól, hét María Bjarnadóttir, sunnan úr Selvogi; niðursetningur hjá Þórði Erlendssyni á Torfastöðum í Selvogi, en hættuð úr Herdísarvík“.

Strandarkirkja – Til minningar um látna sjómenn

Strandarkirkja

Strandarkirkja – minningastienn um láta sjómenn.

Við Strandarkirkju er minningarsteinn um láta sjómenn með eftirfarandi áletrun:

Og svo er, þótt á vegferð lífs sé vandi
og voði í málægð, myrkur, brim og sker
mun einhvers staðar engill bíða í landi
og engill þessi bíður – eftir þvér.

Í trú sést úr myrkrunum töfrandi dýrð
með trú berst þeim líknsemd er hryggjast,
í trú hin jarðneska tilvera skýrð,
með trú skulu himnarnir byggjast.

Sér Helgi Sveinsson – 1994.

Skrúðgarður Þorlákshafnar

Á grágrýtisbjargi í Skrúðgarði Þorlákshafnar er skilti.

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Skrúðgarður.

„Kvenfélag Þorlákshafnar. Kvenfélag Þorlákshafnar hóf frumkvöðlastarf við myndun skrúðgarðs í Þorlákshöfn árið 1974, sem ber vott um framsýni, vilja og dugnað. Sveitarfélagið Ölfus þakkar ómetanlegt starf í þágu samfélagsins. Gert af tilefni 50 ára afmælis Kvenfélags Þorlákshafnar 11. maí 2014“.

Kvenfélagið í Þorlákshöfn gerði garðinn.

Skjöldur á bekk:
Á bekk við minnismerkið er bekkur. Á honum er skjöldur: „Gjöf frá Kvenfélagi Þorlákshafnar til Sveitarfélagsins Ölfuss. Íbúar í Ölfusi, til hamingju með endurbættan skrúðgarð. Kvenfélag Þorlákshafnar 2006„.

Hlín landslagsarkitekt

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Hlín Sverrisdóttir.

Í Skrúðgarði Þorlákshafnar er grágrýtisbjarg. Á því er skilti: „Hlín Sverrisdóttir landslagsarkitekt endurhannaði skrúðgarð Þorlákshafnar. Hönnunarvinnan er gjöf til æskustöðva til minningar um foreldra hennar, Álfhildi Sveinbjörnsdóttur 1933-2014 og Sverrir Sigurjónsson 1934-2015. Þau höfðu alltaf einlægan áhuga á fegrun skrúðgarðsins og uppbyggingu Þorlákshafnar“.

Lífsfleyið
Minnismerki um horfna ástvini milli kirkjunnar í Þorlákshöfn og kirkjugarðsins. Þrír nafngreindir eru á skiltum við minnismerkið.

Á minnismerkinu er skilti: „Minningarreitur um drukknaða og horfna ástvini.

Minn ljúfi Jesú, lof sér þér
fyrir líkn og huggun þína,
þú, lífs og daða er lykla ber,
æ, lít á nauðsyn mína.

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Arnarbæli.

Mig burtför æ lát búast við,
mér blessun gef og sálarfrið,
er lífsins dagar dvína.

Sálmur nr. 447, höf. ókunnur“.

Arnarbæli – Arnarbæliskirkja

„Hér stóð Arnarbæliskirkja.

Kirkju er fyrst getið í Arnarbæli um 1200 en var lögð niður 1909“.

Þessi minnisvarði stendur í gamla kirkjugarðinum í Arnarbæli.

Ofan við kirkjugarðinn er upplýsingaskilti um Arnarbæli.

Hveradalir – minnismerki um Krisrján Ó. Skagfjörð og L.H. Müller

Hveradalir

Ölfus – minnismerki; Hveradalir.

Ofan og austan við Skíðaskálann í Hveradölum má sjá líkt og klöpp ganga ganga fram úr hæðinni að baki skálans. Á henni eru líkt og tvær vörður. En þetta eru ekki vörður, heldur minnismerki, sem skíðamenn reistu, reistu þeim Kristjáni Ó. Skagfjörð og L. H. Müller, tveimur forvígismönnum skíðaíþróttarinnar í Reykjavík. Þessi tvö minnismerki gera staðinn óneitanlega nátengdari Reykjavík.
Minnismerkin eru á standinum í brekkunni hægra megin við skíðaskálann.

Heimild:
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Lífsfleyið.

Sandgerði

Nokkur minnismerki eru í Suðurnesjabæ; Garði og Sandgerði.

Eggert Gíslason (1927-2015)

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Eggert Gíslason.

Hann gerði Garðinn frægann.
Eggert Gíslason, skipstjóri, fæddist 12. maí 1927 í Kothúsum í Garði. Foreldrar hans voru Gísli Árni Eggertsson skipstjóri og Hrefna Þorsteinsdóttir kona hans.
Eggert lauk fullnaðarprófi frá Gerðaskóla 1940 og fiskimannaprófi hinu meira frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1949.
Hann hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1964. Aflakóngur árið 1952 á Víði GK-510. Varð aflakóngur 1957 á Víði II og margfaldur aflakóngur í heimaverstöð og á landsvísu árin 1955-1959.
Eggert var frumkvöðull í notkun ýmissa tækninýjunga. Hann notaði dýptarmæli til að finna síldina og kastaði síðan nótinni eftir skrúfuvatninu. Þá varð Eggert fyrstur íslenskra skipstjóra til að ná verulegum árangri í notkun ASDIC-fiskileiktartækis, en með asdicinu var hið fullkomna fiskileitartæki komið til sögunnar. Þá var Eggert í hópi frumherja við notkun kraftblakka á síldveiðum.

Minnisvarðinn stendur við Byggðasafnið í Garði sunnan við Reykjanesvita.

Þormóðsslysið 1943

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Þormóðsslysið.

Þormóðsslysið varð 18. febrúar 1943. Vélskipið Þormóður BA 291 frá Bíldudal fórst við Garðskaga 18. febrúar 1943 eftir langa og stranga baráttu í óveðri á utanverðum Faxaflóa. Með skipinu fórst þrjátíu og einn, tuttugu og fjórir farþegar og sjö í áhöfn. Fern hjón voru í hópi farþega og eitt barn.

Skipverjar á Þormóði BA 291:

Gísli Guðmundsson, skipstjóri
Bárður Bjarnason, stýrimaður
Lárus Ágústsson, 1. vélstjóri
Jóhann Kr. Guðmundsson, 2. vélstjóri
Gunnlaugur Jóhannsson, matsveinn
Björn Pétursson, háseti
Ólafur Ögmundsson, háseti.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Þormóðsslysið.

Farþegar úr Dalahreppi:

Benedikta Jensdóttir
Guðbjörg Elíasdóttir

Farþegar frá Patreksfirði:

Séra Þorsteinn Kristjánsson
Þórður Þorsteinsson

Farþegi frá Hvammstanga:

Guðmundur Pétursson

Farþegar frá Bíldudal

Ágúst Sigurðsson
Jakobína Pálsdóttir
Áslaug Jensdóttir
Bjarni Pétursson
Fjóla Ásgeirsdóttir
Gísli Kristjánsson
Séra Jón Jakobsson
Jón Þ. Jónsson
Karl Eiríksson
Kristján Guðmundsson
Indíana Jónsdóttir
Loftur Jónsson
Málfríður Jónsdóttir
Óskar Jónsson
Salóme Kristjánsdóttir
Þorkell Jónsson
Sigríður Eyjólfsdóttir
Bjarni 7 ára sonur Sigríðar og Þorkels
Þorvaldur Friðfinnsson

Minnisvarðinn er á Garðskaga, á sjóvarnargarðinum skammt frá vitanum og var afhjúpaður árið 2023.
Annar minnisvarði um Þormóðsslysið er á Bíldudal.

Hallgrímur Pétursson (1614-1674)

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Hallgrímur Pétursson.

Prestur og sálmaskáld, hann var þekktastur fyrir Passíusálmana.

Hallgrímur fæddist árið 1614 í Gröf á Höfðaströnd, en ólst upp á Hólum. Hann fór til iðnnáms til Danmerkur og Þýskalands um 1630. Hann lærði járnsmíði og steinsmíði en kom síðar til Kaupmannahafnar og stundaði þar nám í Frúarskóla. Í Kaupmannahöfn kynntist hann Guðríði Símonardóttur sem kom til Kaupmannahafnar ásamt fleirum sem rænt var í Tyrkjaráninu 1627. Þau felldu hugi saman og komu til Íslands 1637 og settust þau að á Bolafæti í Njarðvík (sjá næsta minnisvarða).
Hallgrímur varð prestur í Hvalsnesi árið 1644 og bjó þar til 1651 og líkaði Hallgrími þunglega vistin þar. Honum fæddist dóttir þar, Steinunni, en hún dó ung og varð föður sínum mikill harmdauði. Hallgrímur gerði legstein yfir gröf Steinunnar og er steinninn nú í Hvalsneskirkju. Lengi vel var steinninn týndur en fannst um miðja 20. öld í kirkjustéttinni á Hvalsnesi.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Magnús Magnússon.

Árið 1651 fékk Hallgrímur veitingu fyrir Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Þar líkaði honum visitin vel og þar bjó hann og þjónaði til dauðadags. Í Saurbæ orti hann Passíusálmana og aðra sálma sem enn eru sungnir.

Minnisvarðann, sem er við Hvalsneskirkju, gerði Páll Guðmundsson á Húsafelli.

Magnús Magnússon (1915-1994)
Í Listigarði norðan garðvegar er grágrýtissteinn. Á honum er skjöldur: „Til minningar um Magnús Magnússon Bræðraborg, f. 29. ágúst 1915 – d. 26. 4. 1994.
Garður þessi er gefinn bæjarfélaginu Garði á 90 ára árstíð Magnúsar sem var mikill áhugamaður um ræktun og umhverfi. Gefendur eru: Unnur Björk Gísladóttir og afkomendur þeirra hjóna.“

Sigurður B. Sivertsen

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Sigurður Sívertsen.

Sóknarprestur á Útskálum f. 2.11.1808 – d. 24.5.1887.
Stofnandi Gerðaskóla 1872.

Sveitarstoð og styrkur
stöðugt reyndist hann
landiog lýð til heilla
lífsstarf fagurt vann.

Sigurður B. Sívertsen (f. 2. nóvember 1808 í Seli í Reykjavík, d. 24. maí 1887 á Útskálum í Garði), var prestur á Útskálum.

Hann var sonur hjónanna Brynjólfs Sívertsens (Sigurðssonar) prests á Útskálum (áður dómkirkjuprests í Reykjavík og prests í Holti undir Eyjafjöllum) og Steinunnar Helgadóttur konu hans. Sigurður var vígður aðstoðarprestur föður síns með konungsundanþágu vegna aldurs þann 18. september 1831. Hann bjó á Gufuskálum í Leiru 1833 en tók við Útskálum af föður sínum 1. mars 1837 og var prestur þar til ársins 1886, þá orðinn blindur. Kona hans var Helga Helgadóttir (1809-1882) og komust 3 barna þeirra upp. Hálfbróðir Sigurðar var Helgi G. Thordersen biskup, en þeir voru sammæðra.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Sigurður Sívertsen.

Séra Sigurður var mikill og góður búmaður og hlaut verðlaun bæði frá Búnaðarfélagi Suðuramts og frá danska landbúnaðarfélaginu. Hann var forgöngumaður um stofnun barnaskóla í Garði, sem hefur starfað þar óslitið frá árinu 1872. Hann varð riddari af Dannebrog árið 1874. Sigurður var ötull og vel metinn og góður kennimaður. Hann stundaði ritstörf alla tíð á meðan hann hélt sjón og eftir að hann varð blindur lét hann skrifa fyrir sig. Eftir hann liggja æviminningar, greinar í blöðum, Suðurnesjaannáll og Bæjaannáll í Útskálaprestakalli auk fleiri rita sem ekki hafa verið gefin út.

Minnisvarðinn stendur framan við Gerðaskóla.

Minnisvarði til minningar um drukknaða sjómenn

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; minnismerki um drukknaða sjómenn.

Leiði óþekkta sjómannsins í Útskálakirkjugarði. Við minnisvarðan er skilti: „Árið 1946 fannst sjórekið lík í Lambastaðavör í Garðahreppi. Lík þetta var þannig á sig komið að það var með öllu óþekkjanlegt.
Við kistulagningu atvikaðist það svo að ekki náðist til prests, en Þorlákur Benediktsson í Akurhúsum flutti þar hugnæma bæn.
Var líkið svo jarðsett í Útskálakirkjugarði og hefur leiði þess síðan verið leiði hins óþekkta sjómanns.
Þessi frásögn birtist í jólablaði Faxa árið 1960.“

Súlan er fagurlega skreydd. Undir henni eru nokkrir skildir með nöfnum drukkaðra sjómanna.

Jón Forseti RE 108

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Jón forseti.

Minnismerkið er skjöldur á grágrýti. Ofan á því er eftirmynd af togaranum. Á skildinum stendur: „28. febrúar 1928 strandaði togarinn Jón Forseti RE 108. Togarinn strandaði á skerinu Kolaflúð sem er beint framunan Stafnesvita. 15 manns fórust og 10 menn björguðust við illan leik.
Strandið varð til þess að flýta stofnun Slysavarnafélags Íslands.
23. júní sama ár var Slysavarnasveitin Sigurvon stofnuð í Sandgerði og er hún elsa sveit innan SVFÍ.
Jón Forseti var fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga.

Blessuð sé minning þeirra sem fórust í þessu slysi.“

Minnisvarðinn stendur við bifreiðastæði skammt frá Stafnesvita og var upphaflega afhjúpaður árið 2009. Við minnisvarðann eru 15 stórir steinar sem tákna þá 15 sem fórust við strandið.

Minnisvarði um drukknaða sjómenn

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; mnnismerki um drukknaða sjómenn.

Minnisvarðinn eru þrír stuðlabergsstandar. Við þá er skilti: „Minnisvarði um drukknaða sjómenn.

Þegar brotnar bylgjan þunga
brimið heyrist yfir fjöll,
þegar hendir sorg við sjóinn
syrgir tregar þjóðin öll. – J. Magnússon.“

Minnisvarðinn var reistur á Sjómannadaginn 1999.
Varðinn er verk systkinanna Írisar Jónsdóttur og Þorsteins Jónssonar og var reistur að frumkvæði Axels Arndal Vilhjálmssonar, formanns sjómannadagsráðs Sandgerðis. Undir minnismerkinu eru steinar og skidir með nöfnum horfinna sjómanna.

Minnisvarðinn stendur nyrst í Hvalsneskirkjugarði.

Álög – Minnisvarði um drukknaða

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Álög.

Horfnir sjómenn Sandgerði – Minnisvarði um drukknaða í Sandgerði.
Minnisvarðinn er eftir Steinunni Þórarinsdóttur og var afhjúpaður á Sjómannadaginn 1986 í tilefni af 100 ára afmæli Miðneshrepps.
Þrjár rústfríar öldur tákna að hafið sé eilíft, en maðurinn er úr pottstáli og ryðgar, sem táknar að maðurinn sé forgengilegur.

Minnisvarðinn stendur við innaksturinn í Sandgerði, sunnan Sandgerðisvegar skammt norðan íþróttasvæðisins.

Grímsvarða

Grímsvarða

Suðurnesjabær – minnisvarði; Grímsvarða.

Á minnsivarðanum er skjöldur: „Grímsvarða endurreist 2014.
Til minningar um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Vörðurnar voru tvær“.

Grímsvarða eða Grímsvörður við Sandgerðisveg voru sunnan vegarins, skammt frá gamla Sandgerðisveginum. Vörðurnar voru fjarlægðar þegar nýi Sandgerðisvegurinn var lagur. Varða á þeim stað hefur nú verið endurreist og er nú minnisvarði um þá sem látist hafa á Miðnesheiði. Það var fyrir tilstuðlan þeirra Guðmundar Sigurbergssonar og Sigurðar Eiríkssonar í Norðurkoti að varðan var endurreist.

Þeir Guðmundur og Sigurður eru áhugamenn um sögu Miðnesheiðar og hafa m.a. endurhlaðið vörður á þjóðleiðinni yfir heiðina, s.s. Einmenningshólsvörðu, Gotuvörðu og Efri-Dauðsmannsvörðuna gegnt Vegamótahól.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Grímsvarða.

Miðnesheiði er mannskæðasta heiði landsins og í kirkjubókum á Útskálum eru nafngreindir næstum 60 einstaklingar sem orðið hafa úti á heiðinni í aldanna rás. Talið er að þeir séu mun fleiri. Nú er Miðnesheiði sakleysisleg á að horfa en ástæða þess að svo margir hafa orðið úti þar er að heiðin veitir lítið skjól og þar eru fá kennileiti og því var auðvelt að villast þar á árum áður þegar hvergi sást til ljósa.

Prestsvarða

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Prestsvarða.

Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen, sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var höggvið sálmavers.

Leturhella er við Prestsvörðuna. Á hana er letrað:

„1876 21.JAN Í FRIDI LEGST ÉG
FYRIR Í FRIDI ER ÉG ÞVÍ ÞÚ
EINN DROTTINN ERT ÞAÐ SEM
LÆTUR MIG BÚA ÓHULTAN Í NÁÐUM.“

Framangreint vers er greinilega úr Davíðsálmi 4. kafla 9. vers: „Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.”

Varðan er skammt sunnan við gamla Garðveginn sunnan Leirunnar.

Ólafur Jónsson (1853-1920) – Einar Ólafsson (1877-1925)

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Ólafur Jónsson.

„Til minningar um Ólaf Jónsson (stóra) frá Kotvogi í Höfnum f. 19.10.1853, d. 31.12.1920.
Makar: Sólveig Einarsdóttir Kötluhóli Leiru og Ingibjörg Tómasdóttir Naustakoti Hvalsnesi.

Einar Ólafsson frá Klapparkoti Miðneshreppi f. 8.9.1877 d. 30.7.1925.
Maki: Ágústa Jónsdóttir Réttarholti Skagaströnd.
Blessuð sé minning þeirra.“

Minnisvarðinn, steinn með skilti er sýnir framangreinda áletrun stendur í Útskálakirkjugarði.

Efri-Dauðsmannsvarða

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Efri-Dauðsmannsvarða.

Vestan við Vegamótahól, þar sem voru gatnamót Sandgerðisgötu og Bæjarskersvegar, liggur gatan undir nýja Sandgerðisveginn, en kemur aftur undan honum í Draugaskörðum. Ofan við þau eru t.d. endurhlaðin Efri-Dauðsmannsvarðan. Þar liggur hann áfram til suðurs framhjá Dynhól. Fallnar vörður eru vinstra megin götunnar svo til alla leið upp að Gotuvörðu. Á þeirri leið fer gatan aftur undir Sandgerðisveginn, liggur síðan samhliða honum spölkorn, og fer þá enn á ný undir hann til vesturs.

Vegmótahóll er nefndur eftir vegamótum Bæjarskersgötu og Sandgerðisgötu, sem þar eru sunnan hans. Sandgerðisgata er greinileg með sunnanverðum Vegamótahól og þar sem hún liggur vestur með hólnum, yfir slóða og í gegnum lúpínubreiðu. Handan hennar er hann vel greinilegur og víða hefur verið kastað upp úr veginum. Norðar sést vel til Digruvörðu í heiðinni.

Efri-Dauðsmannsvarða er sunnan Sandgerðisvegar og sést vel frá veginum, innan girðingar beitarhólfsins.

Neðri-Dauðsmannsvarða

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Neðri-Dauðsmannsvarða.

Skammt vestar og sunnan við Sandgerðisveginn gamla er vörðubrot; Dauðsmannsvarðan neðri. Þar segir sagan að maður hafi orðið úti, líkt og svo margir aðrir á Miðsnesheiði í gegnum tíðina. Auk hins hefðbundna segir sagan að þar eigi að vera áletrun á steini. Sú áletrun hefur enn ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit.

Til fróðleiks er rétt að geta þess að auk Dauðsmannsvarðanna efri og neðri, er til Dauðsmannsvarða í heiðinni við Fuglavíkurleiðina. Henni er gerð nánari skil í annarri FERLIRslýsingu.

Neðri-Dauðsmannsvarða er fallin og sést einungis ógreinlega þar sem hún hverfur í móann vestan Vegamótahóls.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Dauðsmannsvarða.

Dauðsmannsvarða ofan við Bjarghús
Enn ein Dauðsmannsvarðan er í heiðinni ofan við Bjarghús. Hún stendur nokkuð heil enda hafði Sigurður Eiríksson í Norðurkoti lappað duglega upp á hana. Varðan er ekki við þekkta leið, en er eftir sem áður þannig staðsett að greiðfært hefur verið þarna yfir heiðina millum Keflavíkur og Fuglavíkurhverfisins.

Fornmannaleiði í Garði – Haugbúinn
Skammt frá bænum Vegamótum í Garði, sem nú er kominn í eyði, er stór steinn, hellulaga, og eru undir og við hann þrír steinar, sem hann hvíldi áður á. Munnmæli eru um, að eitthvert torráðið fornletur hafi verið á steininum. Ef vel er að gáð má sjá leifar áletrunarinnar þvert yfir steinhelluna. Hún virðist vera sem rúnir, en hefur hingað til verið ólæsileg þeim er til þekkja. En sögn er, að undir þessum steini hvíli fornmaður nokkur, og steininn megi alls ekki hreyfa.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Haugbúinn.

Nú er það á öldinni sem leið, að á Lykkju í Garði bjó Þorsteinn Ólafsson, faðir Björns hafnsögumanns í Hafnarfirði og afi sér Þorsteins Björnssonar fríkirkjuprests í Reykjavík. Þorsteinn Ólafsson var framkvæmdamaður mikill og kappsfullur. Eitt sinn stóð hann í einhverjum byggingum og vantaði tilfinnanlega stóran stein. Kom honum þá í hug að steinninn á leiði fornmannsins mundi henta sér ágætlega. Þorsteinn vissi þó hverjar sagnir gengu um steininn, að hann mætti ekki hreyfa, því að þá mundi illt hljótast af. En hann var maður ófælinn og kjarkmikill og lét sér ekki smámuni fyrir brjósti brenna, enda var hann hið mesta karlmenni. Varð það svo úr, að hann safnaði mönnum til að bera steininn heim, og urðu þeir 8 saman. En steinninn var svo þungur, aðþeir áttu fullt í fangi með hann, enda þótt þeir væru svo margir. Eftir mikið og langt erfiði komu þeir honum þó á þann stað, en Þorsteinn hafði ætlað honum.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Haugbúinn.

Eftir að þessu stórvirki var lokið, var Þorsteinn að vinna eitthvað úti við. Skyndilega syfjaði hann þá svo mjög, að hann mátti ekki halda sér vakandi. Fór hann því heim, gekk upp á baðstofuloft, hallaði sér upp í rúm og var þegar sofnaður. Dreymir hann þá, að upp úr baðstofustiganum kemur maður, stór og aðsópsmikill, og skipar honum harðalega að skila steininum þangað sem hann var tekinn. Þorsteinn hrökk upp við þetta og þóttist sjá á eftir manninum niður stigann.

Var Þosteinn nú glaðvaknaður. Ekki setti hann þetta neitt fyrir sig, heldur fór á fætur og gekk út til vinnu sinnar, sem hann hafði frá horfið.

En hér fór sem áður, að skyndilega sækir hann svefn svo að hann má ekki halda sér vakandi. Lagðist hann þá út af og sofnaði skjótt. Kemur þá sami maðurinn að honum aftur og er nú enn byrstari í bragði, er hann skipar Þorsteini að skila steininum. Þorsteinn hrekkur upp við þetta og íhugar draum sinn. En vegna þess að hann trúði ekki á neina fyrirburði, ætlaði hann að humma þetta fram af sér. Og enn fer hann til vinnu sinnar.
Fór nú sem fyr, að brátt syfjar hann svo, að hann má ekki annað en leggjast til svefn og sofnar þegar. Kemur hinn ókunni maður þá til hans í þriðja sinn og er nú ærið gustmikill. Gengur hann að Þorsteini, tekur um fót hans og kreistir fast og segir að honum skuli hefnast fyrir, vilji hann ekki skila steininum.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Haugbúinn.

Nú vaknar Þorsteinn og er honum þá nokkuð brugðið. Finnst honum sem hinn ókunni maður haldi enn heljartaki um fót sinn. Og rétt á eftir laust æðisverk í fótinn, svo hann mátti varla bera þær kvalir hljóðalaust.
Hann sagði nú konu sinni frá draumum sínum, en hún sagði að steininn skyldi þegar flytja á sinn stað. Þorsteini var ekki um það, vildi ógjarna láta undan því er hann kallaði draumarugl. En ú varð konan að ráða.

Voru þá fengnir menn til að flytja steininn aftur á sinn stað, og urðu þeir fjórir saman.
Einn af þessum mönnum hét Stefán Einarsson og var frá Króksvelli í Garði. Hann sagði mér svo frá síðar, að þeim hefði virzt steinninn mjög léttur og veitzt miklu auðveldara fjórum að bera hann en þeim 8, sem höfðu sótt hann.
Síðan hefur enginn hróflað við steininum.

Við fornleifauppgröft á hólnum, sem letursteinninn liggur undir, fyrir nokkrum árum kom í ljós að þar er enga dys að finna, einungs grjótklöpp.

Ellustekkur í Garði

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Ellustekkur.

Skammt ofan við þjóðveginn í gegnum Leiruna er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er Elínarstekkur (Ellustekkur). Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.

Sögu þessa og staðsetningu stekksins hef ég eftir ábendingum Ólafs Sigurjónssonar frá Litla-Hólmi.
“Þegar bílvegur var lagður um Leiruna, um og eftir 1920, var honum valið stæði ofan við byggðina, skammt austan við Elínarstekk. Þessi vegur var síðan breikkaður, eins og fleiri þjóðvegir á árum seinni heimstyrjaldarinnar, og náði þá uppundir stekkinn.

Ellustekkur

Ellustekkur.

Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.

Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum.

Ellustekkur er sunnan Garðvegar, skammt austan Garðs.

Gerðaskóli – Skólinn í Garði

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Gerðaskóli.

Veturinn 1871-72 gekkst Sigurður fyrir því að bændur í Garði hlaði veggina í skólann í Gerðum. Voru það heljar þykkir veggir úr grjóti, utan og innan og sandur á milli. Auk aðalhússins voru byggð baðstofa með þriggja rúma lengd, þrjú rúm hvoru megin, var hún upphaflega ætluð börnum sem sóttu skólann lengra að. Aftan við hana var feykimikið eldhús handa skólanum. Þessar byggingar stóðu þar sem nú heitir í Fjósum eða Skúlhúsum. Húsaskipan var svo háttað, að tvær kennslustofur voru niðri og loft uppi til íbúðar fyrir kennara, en efst var hanabjálki. Var byggingunni lokið á öndverðu hausti árið 1872.
Gerðaskóli var svo settur 7. október 1872. Var mikið fölmenni þar saman komið. Hélt séra Sigurður þar skörulega ræðu og skýrði þar meðal annars frá tilætlan sinni og framkvæmdum. Til kennara hafði séra Sigurður valið Þorgrím Þ. Guðmundsson. Prestur fékk kennara í hendur bók þá, er enn er til hér í skólanum og heitir Dagbók barnaskólans í Gerðum. Í þá bók skyldi rita nöfn allra þeirra barna er í skólann gengu, lengri eða skemmri tíma, svo og skýrslu um kennslu hans og yfirheyrslur barnanna að hverri viku liðinni og svo vitnisburð um framför barnanna, gáfur og siðferði.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Gerðaskóli.

Nemendur fyrsta skólárið voru 15 talsins. Námsgreinarnar sem kenndar voru í Gerðaskóla fyrstu árin voru, kristindómur (kver og biblíusögur), lestur (nýja testamentið, lestrarbók), skrift (eftir skrift kennarans), réttritun, reikningur. Skólinn stóð til aprílloka fyrstu tvö árin, eftir það ákvað nefndin að skólinn skyldi vera í tveimur deildum og börnum skipt eftir aldri, kunnáttu og þroska, og skyldi skóla vera lokið 14. mars og var þá ákveðið að kennarar skildu vera tveir og stóð svo lengi.
Hætt var að nota bygginguna til skólahalds árið 1887. Síðar var húsið notað sem samkomuhús um áraraðir.

Minnismerki um Gerðaskóla er grágrýtissteinn. Steinninn stendur skammt frá Sjólyst ofan Gerðahafnar. Á skildi á steininum stendur: „Gerðaskóli – Hér stóð fyrsta hús Barnaskólans í Gerðum, byggt af fríviljugum samskotum. Í því var kennt 1872-1887.“

Tómasarhóll

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Tómasarvarða.

Á Tómasarhól er Tómasarvarða. Hvorutveggja er skammt frá Fuglavíkurseli, innan varnargirðingarinnar á Miðnesheiði.
Margir urðu úti á þessari leið á 18. og 19. öld og er að finna í heiðinni nokkrar
vörður til minnis um þá; a.m.k. þrjár tilteknar Dauðsmannsvörður, Tómasarhóll og
Ólafsvarða eru dæmi um slíkar vörður.

Ólafsvarða
„Landamerkjavörður og stakar vörður eru víða að finna á heiðinni. Hlutverk hverrar og einnar er ekki alltaf ljóst og mun e.t.v. ekki verða hægt að segja til með vissu hvort þær séu allar landamerkjavörður fyrr en skráningar liggja fyrir á öðrum landmerkjavörðum, eða mörkum milli jarðanna neðar í landinu, að teknu tilliti til þróunar byggðar frá landnámi, en landamerki færðust til frá einum tíma til annars þegar jarðir skiptust upp – ein af annarri.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Ólafsvarða.

Sumar þessara stöku varða gætu líka verið minnismerki um fólk, sem hefur orðið úti á heiðinni, en nákvæm vitneskja um það hafi síðan glatast. Fjöldi slíkra varða er hins vegar þekktur á Reykjanesi. Ein er innan girðingar en það er Ólafsvarða og rétt utan girðingar norðanmegin við flugvöllinn er Dauðsmannsvarða og Tómasarhóll. Ólafsvarða mun raskast við framkvæmdina og lendir undir flugbrautinni en aðrar stakar vörður eru ekki í hættu. Má hugsa sér sem mótvægisaðgerð að taka grjótið og endurhlaða Ólafsvörðu rétt utan við Vestan við Rafnkelsstaði í Garði er Kisturgerði“. segir í Fornleifaskráningu á Miðnesheiði árið 2014.

Ekki er vitað hvaða Ólafur þetta var. Í örnefnaskrá segir: „Þá er Ólafsvarða. Með gamla veginum ofan við Melabergsvötn er Neðri-Glæsir. Það er varða á hól. Þar rétt ofar er önnur, sem heitir Efri-Glæsir.“ Ólafsvarða er um 10 metrum norðan við Hvalsnesleiðina-Melabergsgötur. Hún er heil, um 1,40 á hæð og 1,10 á breidd. Varðan hefur hátt minjagildi.

Kistugerði

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Kistugerði.

Þar segir þjóðsagan að sé fornmanngröf og í henni gullkista. Gerðið er í rauninni pollur undir klapparvegg, grænlitur. Reyndar eru áhöld um að staðsetningu gerðisins. Sumir telja það uppi á klöppunum og skammt utar, en skv. sögunni á að vera letursteinn með rúnum við það. Sá steinn er nokkru neðar og norðar, við gerðið undir berghömrunum. Þjóðsagan segir að fjársjóður Rafnkels hafi verið grafinn með honum þarna í gerðinu. Reyni einhver að grafa hann upp mun þeim hinum sama sýnast bærinn standa í ljósum logum. Sagan er svipuð sögunni um fjársjóðinn í Silfru við Járngerðarstaði í Grindavík og fleiri álíka.
Einhverjir munu hafa viljað leita fjársjóðsins fyrir nokkrum árum með stórtækum tækjum. Við það valt letursteinninn, sem verið hafði við gröfina, niður hallann og staðnæmst þar sem hann nú er, skammt ofan við ströndina.
Erfitt er að lesa út úr rúnunum á steininum, en þær eru svipaðar og á álagsteininum Heródesi við Grindavík.girðinguna þar sem Hvalsnesleiðin-Melabergsgötur koma að girðingunni vestan við flugvöllinn, enda reist til að minnast sögulegs atburðar, manns sem varð úti á leiðinni.

Letursteinninn er niður undir fyrrum sjávarhamri skammt austan Rafnkelsstaða.

Þórshöfn – HP-áletrun

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Þórshöfn.

Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi um Miðnesheiðina 1903 segir: „Milli Bátsenda og Þórshafnar var mér vísað á vörðubrot, er steinn væri í með áhöggnu fangamarki Hallgríms Péturssonar og ártali. Það er og svo; fangamarkið er HP; en ártalið er 1728.“ Hallgrímur Pétursson, prestur og sálmaskáld, var á Suðurnesjum frá árinu 1637 til 1651, prestur í Hvalsnesi síðustu 7 árin, en þá fluttist hann þaðan fyrir fullt og allt og gerðist prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Hann andaðist 27. október árið 1674, sextugur að aldri. Ritaðar heimildir geta ekki um heitið „Hallgrímshella“ sem menn eru teknir að kalla stein þennan.
Engar vísbendingar fundust um aðrar mannvistarleifar en brýnt er að forvörður meti hvort og þá til hverra aðgerða þurfi að grípa til þess að bjarga þessari áletrun frá glötun.

HPD-steinninn

HPD-steinninn úr fyrrum Duushúsum.

Framangreind „Hallgrímshella“ er nú í vörslu Þjóðminjasafnis. Ártal á henni passar ekki við ártíð Hallgríms Pétursson. Ofan við Þórshöfn er hins vegar áletrun á „steinaltari“; HP. Vilja margir meina að þar sé komið fangamark nefnds Hallgríms, en hann ku á fyrstu árum sínum sem prestur í Hvalsneskirkju farið fótgangandi millum hennar og heimilis síns að Bolafæti í Njarðvíkum. Líklegra er þó að þarna sé um að ræða fangamark Hans Péturs kaupmanns Duus, en hann var einmitt kaupmaður í Keflavík á þeim tíma sem ártölin á steinhellunni gefa til kynna, um 1880. Samskonar fangamark er á hornsteini Duushúsa og á pakkhúslofti verslunarinnar. Hans Pétur verslaði í Þórshöfn á þessum tíma.

Minnisvarði um drukknaða sjómenn

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; minnismerki um drukknaða sjómenn.

Um er að ræða hvítmála styttu af sjómanni við fyrrum sjólist ofan við Gerðahöfn. Á fótstalli styttunar er skilti er á stendur. „Til minningar um drukknaða sjómenn – Mangi frá Mel; Listaverk eftir Helga Valdimarsson“.

Minning um Gíslu S. Vigfúsdóttur
Um er að ræða hvítmála styttu af biðjandi konu utan við hlið kirkjugarðs Útskálakirkju. Á fótstalli hennar er skilti: „2023 – Ég bið fyrir þér (I pray for you) – Verk eftir Helga Valdimarsson. Gefið Útskálakirkju til minningar um konuna mína, Gíslu S. Vigfúsdóttur“.

Skagagarðurinn
Minnisvarði um Skagagarðinn hinn forna er sunnan Garðbrautar þar sem hús nr. 25 stóð áður. Á skilti við minnismerkið segir m.a.: „Skagagarðurinn mun hafa verið um 1500 metra langur og var fyrr á öldum um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi ver var talið að garðurinn væri frá 13. og 14. öld, en fyrstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur varla verið hlaðinn síðar en á 10. öld.

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Skagagarðurinn.

Garðinum hefur sennilega verið ætlað að halda sauðfé frá kornökrum á norðanverðum skaganum, en örnefni og fornar akurreinar benda til umfangsmikillar akuryrkju á Suðurnesjum fyrr á öldum.
Ljóst er að garðurinn hefur girt með öllu fyrir skagann. Því við báða enda hans tóku við miklir túngarðar, en samkvæmt lögum íslenska þjóðveldisins var hver maður skyldugur til að verja vikum á ári til garðhleðslu.“

Sólveig Magnúsdóttir (1932-2020)

Hvalsnes

Suðurnesjabær – minnismerki; Sólveig Magnúsdóttir.

Tómasína Sólveig Magnúsdóttir fæddist 2. apríl 1932 í Nýlendu í Miðneshreppi. Hún lést á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 15. febrúar 2020.

Minnismerki um Sólveigu er á Kirkjuhól (Austurbæjarhól) ofan við Hvalsneskirkju. Sumarbústaður hennar er skammt sunnar, utan garðs Hvalsnesstorfunnar. Hún reisti hann í skika er hafði tilheyrt Nýlendu.

Gummi Steins, (1978-2010)

Gummi Steins

Gummi Steins – minnismerki.

Við tíundu brautina á Kirkjubólsvelli í Suðurnesjabæ (Sandgerði) er bekkur. Á bekknum er skjöldur með áletruninni:
„Til minningar um gleðigjafann Gumma Steins, f. 21.10.1978, d. 17.04.2010. Minning þín er ljós í lífi okkar.“
Fjölskylda Gumma gaf golfklúbbnum bekkinn til minningar um hann eftir að hann lést í slysi til sjós.
Kirkjubólsvöllur hét áður Vallagerðisvöllur, en nafninu var breitt eftir að FERLIRsfélagar bentu forsvarsmönnum vallarins á rétta staðsetningu hans.

Heimildir m.a.:
-Fornleifaskráning á Miðnesheiði 2000.
-Fornleifaskráning vegna aðalskipulags á Keflavíkurflugvelli – 2014.
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/

Suðurnesjabær

Suðurnesjabær – minnismerki; Jón forseti.

 

 

 

 

 

Vogar

Í Vogum og Vatnsleysuströnd eru nokkur minnismerki:

Arahólavarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Arahólsvarða.

“Arahóll er austan til við Minni-Voga á honum stendur Arahólsvarða. Vogamenn nefna Hólinn Arhól, Arhólsvarða, Arhólsbrekka”, segir í örnefnaskrá. Í Mannlíf og Mannvirki í Vatnsleystrandarhreppi segir: “[…] minnisvarði um Hallgrím [Scheving Árnasonar], er hann lét gera á svonefndum Arahól, sem er hæð austanvert við íbúðarhúsið og heitir minnisvarðinn Arahólsvarða. Hallgrímur fékk vinnumann í Minni-Vogum til að byggja vörðuna. Sá hét Sveinbjörn Stefánsson, hálfbróðir Hinriks Hansens, er byggði Mýrarhús. Varðan var byggð árið 1890, í hvaða tilgangi er ekki ljóst, nema þá sem prýði fyrir plássið. […] Leifur Kristjánsson frá Helgafelli efndi gamalt loforð, […] um 1982, að laga vörðuna og var það gert svo gott sem á aldarafmæli hennar.”
Arahólsvarða er um 320 m NA við Stóru-Voga og um 125 m SA við Minni-Voga.

Vogar

Vogar – minnismerki; Arahólavarða.

Varðan stendur á grasigrónum hól, Arahól, sem er um 10-20 m á hæð og snýr NA-SV. Varðan er grjóthlaðin og steinlímd. Varðan er um 2,5 m á hæð, um 2 m á breidd og 2 m á lengd. Hlutverk vörðu er óþekkt ef hún hefur nokkurn tíman nýst til einhvers annars en sem minnisvarði. Samkvæmt ljósmynd frá árinu 1921 í fórum Þjóðminjasafns Íslands er varðan sem stendur í dag (2007) steinlímd með kalki úr Esjunni sem brennt var í Kalkofninum í Reykjavík. Áður var grjótvarða á sama stað.

Arahólavarða stendur á Arahól við skrúðgarð Vogabúa.

Stefánsvarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Stefánsvarða.

„Neðan við Strandarveg, innst á há Hæðinni, er Stefánsvarða, falleg og reisuleg, kennd við Stefán Pálsson (f. 1838) útgerðarmann á Stóru-Vatnsleysu. Vegagerðarmenn rifu vörðuna eins og margar aðrar á þessum slóðum en hún var endurhlaðin árið 1970 af Jóni Helgasyni frá Litlabæ og Magnúsi syni hans. Á „hafnfirskan“ stein í vörðunni er klappað nafnið „Stefánsvarða“.“ (SG)

Í athugasemdum og viðbótum við örnefnalýsingu segir að varðan hafi verið hlaðin endurhlaðin um 1950. Ekki er vitað hvenær varðan var hlaðin upphaflega en líkur eru á því að hún hafi átt að varða leið.

Þegar vegfarendur aka um Vatnsleysustrandarveg eða ganga um Almenningsveginn, hina fornu þjóðleið um Ströndina, er Stefánsvarðan eitt helsta kennileitið á leiðinni. Almenningsvegurinn lá um Hæðina skammt sunnan við vörðuna og má enn sjá móta fyrir honum á köflum.

Vogar

Vogar – minnismerki; Stefánsvarða.

Stefán Pálsson fæddist í Hvassahrauni 5. febrúar 1838.  Vegagerðarmenn er unnu við gerð þjóðvegarins ofan Strandarbæjanna í byrjun 20. aldar rifu vörðuna og notuðu grjótið sem kanthleðslur í nýja veginn. Eftir að hæðin hafði verið vörðulaus í u.þ.b. hálfa öld tóku þeir Jón Helgason og Magnús sonur hans sig til árið 1970 og endurhlóðu vörðuna. Magnús var um skeið minjavörður í Byggðasafni Hafnarfjarðar og skrifaði margar fróðleikslýsingar um mannlífið þar fyrrum, s.s. “Byggð í byrjun aldar.” Til fróðleiks má geta þess að Magnús sótti áður steininn í vörðuna heim að gamla bænum á Minni-Vatnsleysu og markaði sjálfur áletrunina í hann til minningar um nefndan Stefán.

Kristmundarvarða

Vogar

Vogar – minnsimerki; Kristmundarvarða.

„Tvær vörður eru í Djúpavogsheiði ofan við Bieringstanga og heitir önnur þeirra Kristmundarvarða, kennd við Kristmund Magnússon sem varð úti á heiðinni þar sem varðan er, svo til beint austur af svonefndum Voghól.
Þessi atburður gerðist 1907 eða 1908 er verið var að smala fé,“ segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi.
Varðan er um 360 m sunnan við Töðugerðisvörðu og um 1,1 km suðvestan við Efri-Brunnastaði.
Varðan stendur lágt í hraunmóa sem er að hluta uppblásinn.
Varðan stendur vel. Hún er um 1 m í þvermál og 1,1 m á hæð. Í henni sjást 6 umför. Fast norðaustan undir vörðunni er minningarskjöldur um Kristmund. Ekki er vitað hvenær varðan var upphaflega hlaðin en hún var endurhlaðin árið 1993 af Ragnari Ágústssyni frá Halakoti.

Árni Vigfús Árnason

Vogar

Vogar – minnismerki; Árni Vigfús Árnason.

Minningarreitur um Árna Vigfús Árnason gildismeistara sem lést í bílslysi á Reykjanesbraut 16.10.1991.
Blessuð sé minning hans!
St. Georgsgildið í Keflavík.

Minnisvarðinn stendur austan við Reykjanesbrautina, rétt sunnan Vogaafleggjara.

Jónas E. Waldorff

Waldorff

Vogar – minnismerki; Waldorff.

Skammt norðan Reykjanesbrautar, skammt vestan við Vogaafleggjara er kross. Á honum er eftirfarandi áletrun:
„Til minningar um Jónas E. Waldorff sem lést hér í bílslysi, f. 01.04.1989 – d. 09.03.2003“.

Íslands Hrafnistumenn
Minnismerki við gangstíg með ströndinni vestan Stóra-Vogaskóla.

Listaverkið Íslands Hrafnistumenn eftir Erling Jónsson var afhjúpað 2008 á Stóru-Voga túni við Stóru-Voga tanga.

Vogar

Vogar – minnismerki; Íslands Hrafnistumenn.

Á tímum árabátaútgerðar var Vatnsleysuströnd ein stærsta verstöð landsins og var verkið reist sem minnisvarði um sjómennsku og útgerð frá Vogum og Vatnsleysuströnd.

Birgir Þórarinsson í Minna- Knarrarnesi með aðstoð Birgis Guðnasonar hjá Listasafni Erlings Jónssonar áttu frumkvæði að því að minnisvarði yrði reistur. Þeir leituðu til Erlings um gerð listaverks sem skírskotaði til sjómennsku og útgerðar frá Vogum og Vatnsleysuströnd. Erlingur brást mjög vel við hugmyndinni enda sjálfur frá Vatnsleysuströnd, og úr varð verkið Íslands Hrafnistumenn.

Vogar

Vogar – minnismerki; Íslands Hrafnistumenn.

Erlingur fæddist í Móakoti á Vatnsleysuströnd 1920. Hann lést í Reykjanesbæ 2022. Mörg verk standa eftir hann í Reykjanesbæ og víðar. Erlingur starfaði lengi sem handavinnukennari í Keflavík og fór síðar til Noregs til að mennta sig frekar og starfaði þar síðar sem listakennari.

Á fótstalli minnismerkisins er skjöldur. Á honum stendur: „Íslands Hrafnistumenn – Erlingur Jónsson 2009.

Íslands Hrafnistumenn
lifðu tímamót tvenn,
þó að töf yrði á framsóknar leið.
Eftir súðbyrðings för
kom hinn seglprúði knörr,
eftir seglskipið vélknúin skreið.
En þótt tækjum sé breytt,
þá er eðlið samt eitt –
eins og ætlunarverkið,
er sjámannsins beið. – Örn Arnarsson“.

Sjómannadagsráð efndi til samkeppni um ljóð og lag fyrir sjómannadag 1939. Sigurljóðið var Hrafnistumenn Arnar Arnarsonar við lag eftir Emil Thoroddsen. Framangreint er fyrsta erindið af fjórum.

Jón Daníelsson

Vogar

Vogar – minnismerki; aflraunasteinn.

Jón Daníelsson í Stóru-Vogum á Vatnsleysuströnd varð þjóðsagnarpersóna í lifandi lífi. Auk þess að vera atorkumikill sjávarútvegsbóndi þótti mörgum til hans koma af ýmsum öðrum gáfum og atgervi.

Í Morgunblaðinu 1988 er fjallað um afhjúpun “Minnisvarða Jóns sterka Daníelssonar” við Stóru-Vogaskóla:
“Við skólaslit Stóru-Vogaskóla í Vogum sunnudagínn 15. maí klukkan 14 verður afhjúpaður minnisvarði um Jón sterka Daníelsson dannebrogsmann frá Stóru-Vogum, en minnisvarðanum hefur verið valinn staður á skólalóðinni, sem er í landi Stóru-Voga.
Jón Danfelsson fæddist 21. mars 1771 að Hausastöðum í Garðahverfi í Gullbringusýslu og ólst upp hjá foreldrum sínum við fremur kostalítil kjör, því foreldrarnir voru fátæki og fjölskyldan fjölmenn.

Vogar

Vogar – minnismerki; Jón Daníelsson.

Eitt var þó sem Jón skorti ekki í æsku og uppvexti, en það var hákarlalýsið og hákarlalýsisbúðingurinn, sem hann neytti sem feitismatar alla sína löngu ævi, en hann andaðist 16. nóvember 1865.

Minnisvarðinn, aflraunasteinn, er framan við Stóru-Vogaskóla. Á minnisvarðanum er skjöldur. Á honum má lesa eftirfarandi: „Aflraunasteinn – 450 kg. Til minningar um Jón Daníelsson frá Stóru-Vogum, f. 21. mars 1771, d. 16. nóv. 1865. Sæmdur Dannebrogs orðunni 1848.
Hér var Egils afl og áræði
fræleiki Gunnars, framsýni Njáls
hyggindi Snorra, hagvirkni Þórðar
Áskels frjósemi, ígrundun Mána“.

Flekkuleiði

Vogar

Vogar – minnismerki; Flekkuleiði.

Túnið við Flekkuvíkurbæinn er að mestu sunnan og ofan við húsið. Syðst í því, svo til alveg undir túngarðinum ofanverðum er Flekkuleiði; lágur gróinn hóll, einn af nokkrum. Á leiðinu er “rúnasteinn”, sem segir að þar “Hvíli Flekka”. Í raun er um 16. eða 17 aldar leturstein að ræða skv. áliti sérfræðinga. Sagan segir að Flekka, norsk landnámskona, sem áður byggði Flekkuvík, hafi viljað láta grafa sig í jarðri túnsins þar sem hún hefði útsýni yfir innsiglinguna að bænum. Þar mun hún hvíla, blessunin.
Ekki er ólíklegt að ætla að Flekka hafi verið grafinn á ystu mörkum hins ræktaða lands á þeim tíma, m.a. til að vernda það fyrir hugsanlegum yfirgangi þeirra, sem á eftir kynnu að koma, en miklir fólksflutningar voru til landsins á landnámsöld og landamörk því fljót að breytast.
Rúnasteinn Flekku er einn af a.m.k. þremur á Reykjanesskaganum.

Rúnasteinninn er í lágum grónum hól sunnan bæjarhúsanna, innan garðs.

Kúagerði

Vogar

Vogar – minnismerki; Kúagerði.

Varða þessi var hlaðin að frumkvæði Áhugamanna um bætta umferðarmenningu í byrjun sumars 1990 til minningar um þá sem látist höfðu eða slasast í umferðinni á Reykjanesbrautinni. Þessi kafli brautarinnar hafði sérstaklega háa slysatíðni og þess vegna var ákveðið að hlaða vörðuna þarna, bæði til minningar um þá látnu og jafnframt öðrum vegfarendum til áminningar um að fara gætilega.
Það var hleðslumaður úr Hafnarfirði sem hlóð mannvirkið.

Varðan stendur við Vatnsleysuvík í Kúagerði, rétt við gamla Suðurnesjaveginn.

Minnismerki – „Hot Stuff“
Kastið; flugslys.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Í hlíðinni ofan við Kastið vestast í Fagradalsfjalli er brak úr B-24 sprengiflugvélinni “Hot Stuff” er fórst þar mánudaginn 3. maí árið 1943, kl. 16:20.
var að koma frá Bretlandi með stefnu á Meeks-völl. Hún var hluti af 8. flugsveitinni í Bovington í Englandi. Fjórtán menn af fimmtán manna áhöfn fórust í slysinu. Þetta var mesta flugslys hér á landi fram á þennan dag. Leitarsveitir komu að flakinu daginn eftir, kl. 15:05. Aðkoman reyndist hryllileg. Afturhluti vélarinnar var brunninn og annað eftir því.
Í Kastinu, upp undir hlíðum Fagradalsfjalls, eru hlutar flugvélarinnar enn á víð og dreif. Margir eru í fjallshlíðinni, s.s. hluti hjólastells o.fl. Þarna má sjá ýmsa vélarhluta, sem fer þó óðum fækkandi. Einnig hvar álið hefur bráðnað utan um steina úr hlíðinni. Um borð í vel þessari var m.a. hershöfðinginn Frank Andrews. Hann fórst þarna ásamt ásamt þrettán öðrum félögum sínum.

Vogar

Vogar – minnismerki; Kastið 1943.

Eftirminnilegar slysavettvangiljósmyndir voru teknar á vettvangi skömmu eftir slysið. Einn maður, George A. Eisel, skytta í afturturni vélarinnar, komst lífs af. Hann sat fastur í flakinu í 26 tíma og það tók hjálparmenn einn til viðbótar að ná honum út. Eldur kom upp í vélinni, en hellirigning á svæðinu slökkti hann fljótlega. Vegna strangrar ritskoðunar var ekki skýrt frá slysinu fyrr en þremur dögum síðar. Auk hershöfðingjans og fylgdarmanna hans fórst lútherski biskupinn Adna Wright Leonard, sem var á ferðalagi að heimsækja hersveitir Bandaríkjanna um allan heim.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Aðrir, sem fórust þennan örlagaríka dag, voru skv. slysaskýrslu Bandaríkjamanna þeir Charles H. Barth, Frank L. Miller, Morrow Krum, Fred. A. Chapman, Theodore C. Totman, Robert Humprey, Joseph T. Johnson, Robert H. Shannon, James E. Gott, Lloyd C. Weir, Kemmeth A. Jeffers og Paul H. McQueen, Sá er lifði flugslysið af hét George. A. Eisel og var stélskytta, sem fyrr sagði.
Þessa örlaganótt nálgaðist flugvélin Kaldaðarnesflugvöll. Fllugvélinni var flogið lágt yfir flugbrautinni, en flugmaðurinn gerði ekki tilraun til að lenda. Þess í stað hélt hann áfram til vesturs með suðurströndinni í u.þ.b. 60 fetum. Við Reykjanes snéri vélin til norðurs.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Ekkert fjarskiptasamband var við hana. Flugvélinni var beygt í austlæga stefnu og flugmaðurinn virðist stefna sjónflug inn á Meeks-völl. Lélegt skyggni og lágskýjun hindraði það. Flugmaðurinn reyndi að fljúgja undir skýjum. Þá varð slysið. Hún rakst á 1100 feta hæðina, 150 fet frá toppnum á a.m.k. 160 mílna hraða.
Í febrúar þetta ár hafði Andrews hershöfðingi orðið yfirmaður alls herafla Bandaríkjamanna í Evrópu. Í minningargrein um hans sagði H.H., “Hap” Arnold, yfirmaður flugflota Bandaríkjamanna að hann teldi að Andrews hefði verið gerður að yfirmanni innrásarliðs bandamanna í Evrópu, en þá stöðu fékk síðan Dwight D. Eisenhower, hershöfðingi, síðar forseti Bandaríkjanna. Segja má því með sanni að atburður þessi hafði viss áhrif á heimssöguna.

Áhöfn og farþegar
Capt. Robert H. Shannon – Pilot †
Lt. Gen. Frank Maxwell Andrews – Copilot †
Capt. James E. Gott – Navigator †
T/Sgt. Kenneth A. Jeffers – Radio Operator †
S/Sgt. Lloyd C. Weir – Crew Chief †
S/Sgt. Paul H. McQueen – Gunner †
Civilian Adna W. Leonard – Methodist Bishop and Chairman of the Corps of Chaplains †
Brig. Gen. Charles A. Barth Gen. Andrews Chief of Staff †Hot Stuff Crew in front of aircraft
Col. Marlow Krum – Member of Gen. Andrews Staff †
Col. Frank L. Miller – US Army, Chief of Chaplains †
Maj. Theodore C. Totman – Gen. Andrews Secretary †
Lt. Col. Fred A. Chapman – US Army†
Maj. Robert H. Humphrey – US Army Chaplain †
Capt. Joseph T. Johnson – Gen. Andrews Aide †
S/Sgt. George A. Eisel – Tailgunner – lifði slysið af

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Flugvélin
Consolidated B-24D-1-CO Liberator
Serial no: 42-23728
USAF 8th. Airforce 93rd. Bombardment Group.

Bandaríska B-24 Liberator – sprengjuflugvélin Hot Stuff, var fyrst flugvéla 8. flughersins til að ljúka 25 árásarferðum frá Bretlandi yfir meginland Evrópu í heimsstyrjöldinni síðari. Áhöfnin fékk fyrirmæli um að snúa flugvélinni heim til Bandaríkjanna vorið 1943 þar sem fara skyldi sýningarför um landið í fjáröflunarskyni fyrir Bandaríkjaher.

Vogar

Vogar – minnismerki; Andrews og félagar.

Yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Evrópu, Frank M. Andrews, hafði verið boðaður til skrafs og ráðagerða í Washington, óskaði eftir því við vin sinn Ted Timberlake ofursta, yfirmann 93. sprengjudeildar, að fá far með Robert ,,Shine” Shannon höfuðsmanni og áhöfn hans á Hot Stuff, en Andrews var einnig kunnugur Shannon. Hershöfðinginn var reyndur flugmaður og skyldi vera aðstoðarflugmaður í ferðinni.
Rétt fyrir brottför kom í ljós að með Andrews í för voru átta aðrir farþegar, nánustu starfsmenn hershöfðingjans, biskup Methodistakirkjunnar sem fór fyrir prestadeild Bandaríkjahers og tveir herprestar. Sprengjuflugvélin rúmaði ekki svo marga farþega og urðu því fimm úr áhöfninni eftir og biðu annarrar ferðar.
Hot Stuff lagði upp frá Bovington flugvelli í Englandi að morgni 3. maí og skyldi hafa viðkomu í Prestwick í Skotlandi og Reykjavík á leiðinni vestur um haf. Veður var gott í fyrstu en fór versnandi þegar komið var upp að suðurströnd landsins með dimmviðri og rigningu.

Vogar

Vogar – minnismerki; Hot Stuff.

Flugvélin sást hringsóla yfir breska herflugvellinum í Kaldaðarnesi en hélt áfram förinni lágt vestur með strönd Reykjaness. Ólendandi var í Reykjavík og þegar ekki tókst að finna Keflavíkurflugvöll sökum dimmviðris var ákveðið að halda aftur til Kaldaðarness. Lágskýjað var og hvass vindur með slagviðri. Bar flugvélina af leið og hafnaði hún á brún Fagradalsfjalls og splundraðist.
Við slysið fórust allir um borð nema stélskyttan, George Eisel liðþjálfi, sem slapp lítt meiddur en klemmdur í byssuturninum. Bjóst hann við dauða sínum í brennandi flakinu en byssukúlur sprungu um allt í eldinum. Slagviðrið vann þó um síðir á bálinu og barst Eisel hjálp þegar leitarflokkar fundu flakið tæpum sólarhring eftir slysið.

Minnisvarðinn var upphaflega reistur í Arnarseturshrauni við Grindavíkurveg, en var síðar færður vegna tæringar frá Svartengisvirkjun og stendur nú í hlíðinni nyrst við gatnamót Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar.

Ólafsvarða

Vogar

Vogar – minnismerki; Ólafsvarða við Ólafsgjá.

Nokkurn veg norðvestur frá Arahnúk er Ólafsvarða við Ólafsgjá í Vogaheiði. Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta Klifgjár, millum hennar og Stóru-Aragjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring, ólík hinum. Hún sést ekki fyrr en komi er að henni ef ekki væri varðan við hana.

Um aldamótin 1900 (21. desember) hrapaði Ólafur Þorleifsson, bóndi úr Hlöðuneshverfi, þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jól. Mikil leit var gerð að honum, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson.

Varðan var hlaðin til minningar framangreindan atburð.

Magnúsarsæti

Magnúsarsæti

Letur við Magnúsarsæti.

Á Stóru-Vatnsleysu dvaldi Magnús nokkur Eyjólfsson frá Torfastöðum í Fljótshlíð, f. 1827. Magnús var kallaður „gjörtlari“, en það er fornt nafn á gull- og silfursmiðum. Magnús var ölkær maður, þó aldrei yrði það neinum til meins. Svo hagar til á Stóru-Vatnsleysu, að í gegnum túnið liggur Hrafnagjá og sagt er að hún liggi í sjó fram út í Vatnsleysuvík. Er gjá þessi víða hættuleg í túninu, með stöllum og syllum og heitir ein syllan „Magnúsarsæti“ eftir Magnúsi „gjörtlara“. Er sagt að margar ferðir hafi Magnús farið á syllu þessa og sofið þar úr sér vímuna. Í bergið fyrir ofan syllu þess eru höggnir stafir, ME. 1888 til minningar um nefndan Magnús, og þar fyrir neðan S.J.

Magnúsarsæti

Magnúsarsæti – letur.

Stafirnir S.J. gætu verið upphafsstafir þess er meitlaði þetta í bergið og að M. eigi við Magnús. S.J. gæti átt við tvo menn frá Stóru-Vatnsleysu. Annar var Sigurjón Jónsson, síðar bóndi í Garðhúsum í Vatnsleysutúninu, en árið 1888 er Sigurjón 14 ára gamall og vil ég síður eigna honum þetta verk. Hinn var Sigurður Jónsson, bóndi og silfursmiður, f. 1814, og hefur hann þá verið 74 ára árið 1888 og því trúlegra að hann hafi gert þessa stafi, þó orðinn þetta gamall, en stafirnir eru gerðir af hagleiksmanni með góðum verkfærum.
Magnúsarsæti er í austanverðri Hrafnagjá skammt vestan Stóru-Vatnsleysu.

Litli sjómaðurinn

Þorvaldur Guðmundsson eignaðist Minni-Vatnsleysu árið 1953 – og varð þar með eigandi að stærsta svínabúi landsins.

Minni-Vatnsleysa

Litli sjómaðurinn á Minni-Vatnsleysu.

Þorvaldur notaði íbúðarhúsið sem starfsmannaíbúð, uns hann reif það árið 1978 og byggði ný hús fyrir menn og skepnur.

Nálægt grunni gamla hússins á Minni-Vatnsleysu lét Þorvaldur setja styttu, sem hann hafði látið gera. Heitir hún Litli sjómaðurinn, til minningar um þá er sóttu sjóinn. Styttuna gerði listamaðurinn Ragnar Kjartansson.
Styttan stendur á lágum grasi vöxnumhól skammt norðan við Ráðsmannsbústaðinn, ofan við sjávarkambinn. Á fótstallinum er skilti. Á því stendur: „Litli sjómaðurinn eftir Ragnar Kjartansson. Til minningar um þá er sóttu sjóinn frá Minni-Vatnsleysu – 1962“.

Hafa ber í huga að eflaust eiga eftir að koma fram minnisvarðar í umdæminu er víða kunna að leynast.

Þyrluvarða

Þyrluvarða

Þyrluvarðan 2008.

Vestast í Breiðagerðislakka, fast norðan Reykjanesbrautar, er varða – „Þyrluvarða“.
Það var 1. maí 1965 að Sikorsky björgunarþyrla frá Varnarliðinu hrapaði niður í lægðina suðvestur frá Skrokkum norðan Reykjanesbrautar. Hún var að koma frá Hvalfirði á leið til Keflavíkurflugvallar. Þarna fórust fimm menn, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvar Varnarliðsins og var varðan reist í minningu þeirra.
Fréttin birtist m.a. á forsíðu MBL þriðjudaginn 4. maí – Hörmulegt slys er 5 varnarliðsmenn farast í þyrlu, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli – “Sá hörmulegi atburður gerðist s.l. laugardagskvöld um kl. 19, að þyrla frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli hrapaði til jarðar við jaðar nýja vegarins vestan Kúagerðis upp af Landakoti á Vatnsleysuströnd, með fimm mönnum. Allir biðu þeir bana, enda varð þyrlan alelda um leið og hún snerti jörðina.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla I, 2011.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, Sesselja Guðmundsdóttir, 2007.
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/#rey

Vogar

Vogar – minnismerki; Skjöldur við Kristmundarvörðu.

Seltjarnarnes

Hér á eftir verður fjallað um helstu minnismerkin á Seltjarnarnesi:

Ásmundur Sveinsson – Trúarbrögðin

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Trúarbrögðin.

Frummynd þessa járnskúlptúrs er frá 1956. Árið 1975 var hún stækkuð og reist á núverandi stað í tilefni 100 ára afmælis Mýrarhúsaskóla.

Ár: 1965/1975.
Efni: járn.

Trúarbrögðin eru frá því skeiði í list Ásmundar (1893-1982) þegar járnið leysti stein og tré af hólmi sem aðal efniviður listamannsins. Jafnframt urðu viðfangsefni hans óhlutbundin, oft sótt í heim tækni og geimvísinda. Í þessu verki notar Ásmundur geómetrísk form og tákn sem vísa til ýmissa trúarbragða og andlegra minna. Hálfmáninn er tákn múhameðstrúar, utan hans stendur kross sem tengist öðrum hlutum verksins með járngeislum. Margs konar þríhyrnd form vísa til heilagrar þrenningar en einnig til viðleitni alls til æðri upphafningar og sameiningar. Hringurinn er tákn eilífðar og einingar. Við fyrstu sýn líkist verkið skipi, með stefni, möstrum og segli. Má skilja það svo að hin ýmsu trúarbrögð og andleg leit mannsins séu á sama fleyi, siglandi hraðbyri inn í framtíð einingar og andlegs þroska.

Minnismerki er staðsett við Kirkjubraut, á holtinu skammt vestan Seltjarnarneskirkju.

Bjarni Pálsson (1719-1779)

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Bjarni Pálsson.

Minnisvarði um Bjarna Pálsson landlækni stendur við Nes við Seltjörn á Seltjarnarnesi.

Bjarni var skipaður fyrsti landlæknir á Íslandi 17. mars 1760 og sat að Nesi við Seltjörn 1763-1779.

Minnisvarðinn er reistur af Seltjarnarneskaupstað á 200 ára ártíð Bjarna Pálssonar 8. september 1979.

Bjarni fæddist að Upsum á Upsaströnd við Dalvík. Foreldrar hans voru hjónin séra Páll Bjarnason prestur á Upsum og Sigríður Ásmundsdóttir. Bjarni missti föður sinn tólf ára að aldri og fluttist þá með móður sinni að Stað í Hrútafirði. Hann hóf nám í Hólaskóla 1734 en hætti vorið 1736 til að gerast fyrirvinna móður sinnar. Hann hóf þó nám að nýju síðar og lauk stúdentsprófi frá Hólaskóla 1745, þá 26 ára að aldri. Hann innritaðist í Kaupmannahafnarháskóla 1746 og lagði þar stund á læknisfræði og náttúruvísindi.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Bjarni Pálsson.

Bjarni lauk læknanámi í september 1759 fyrstur Íslendinga og var þá orðinn fertugur. Hann var skipaður fyrsti landlæknir Íslands 18. mars 1760 og bjó eftir það á Bessastöðum og síðan á Nesi við Seltjörn þar sem nú er Nesstofa á Seltjarnarnesi. Hann kenndi nokkrum mönnum læknisfræði og veitti sumum þeirra lækningaleyfi eftir að hafa prófað þá en aðrir sigldu til Kaupmannahafnar og luku þar læknanámi.

Kona Bjarna var Rannveig Skúladóttir (1742-1803), dóttir Skúla Magnússonar landfógeta. Sveinn Pálsson læknir skrifaði ævisögu Bjarna og var hún gefin út í Leirárgörðum árið 1800.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Bjarni Pálsson.

Minnismerkið, þrír stuðlabergsstandar, er skammt norðan við Nes. Á þeim hæsta, í miðið, er tákn lækna, á þeim til vinstri handar er áletrunin „Reist af Seltjarnarkaupstað á 200 ára ártíð Bjarna Pálssonar 8. sept. 1979“ og á þeim til hægri handar er áletrunin „Bjarni Pálsson f:17. maí 1719, d: 8. sept 1779. Skipaður fyrsti landlæknir á íslandi 18. mars 1760. Sat að Nesi við Seltjörn 1763-1779“.

Björn Jónsson í Nesi (1772-1798)
Fyrsti lyfjafræðingurinn og apótekarinn á Íslandi.

Minnisvarðinn var afhjúpaður 24. september 2021 og stendur í Urtagarði apótekarans við Nes á Seltjarnarnesi, en urtagarðurinn var gerður árið 2010 í minningu Björns Jónssonar, Bjarna Pálssonar landlæknis og Hans Georg Schierbeck, landlæknis með jurtum sem vitað er að apótekarar og lyfjafræðingar notuðu 1763-1834.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Björn Jónsson í Nesi.

Upphaflega er talið að Urtagarðurinn hafi staðið suður af Nesstofu, en nýi garðurinn er suðaustur af Nesstofu og stendur minnisvarðinn í garðinum.
Minnisvarðinn er grágrýtisbjarg með áletruninni „Björn Jónsson, lyfjafræðingur. Apótekari í Nesi 1772-1798“.

Georg Schierbeck (1847-1911)
Í Urtagarðinum er gulmálaður garðbekkur, að baki minnismerkinu um Björn Jonsson í Nesi.. Á honum er áletrun: „Georg Schoerbeck landlæknir, f. 24.02.1847, d. 07.09.1911. Græðandi og heiðursfélagi Garðyrkjufélags Íslands“.

Ankeri
Norðan Norðurstrandar gegnt gatnamótum Sefgarða er ankeri. Á því er skjöldur með eftirfarandi áletrun: „Akkeri við Nýjabæjarvör. Ekki er vitað um uppruna þess akkeris, sem fannst í Súgandafirði um 19160. Akkerið er gjöf Jóns Snæbjörnssonar til Seltjarnarnesbæjar.

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Skilti á Ankeri við Nýjabæjarvör.

Amma Jóns, Bryndís Ó. Guðmundsdóttir f. 20.06.1900, d. 23.06.1966 og afi, Jón Guðmundsson f. 14.031899, d. 27.07.1964 voru síðustu ábúendur Nýjabæjar.
Akkerið stendur hér við Nýjabæjarvör í landi sem áður tilheyrði Nýjabæ“.

Ankeri
Sunnan Suðurstrandar, skammt ofan við Björgunarmiðstöð bæjarins, er ankeri við grágrýtisbjarg. Einhver gömul, ryðbrunnin, áletrun er á ankerinu, en engar aðrar skýringar er þar að finna.

Björn Jónsson (1932-2010)
Björnslundur

Seltjarnarnes

Seltjanarnes – minnismerki; Björnslundur.

Gróðursettur af félögum Rotaryklúbbs Seltjarnarness í minningu Björns Jónssonar (1932-2010) skólastjóra og skógræktarfömuðar 2019.

Gróðurlundurinn er í útivistarsvæði norðan við Suðurströnd á Seltjarnarnesi, skammt vestan við íþróttasvæði bæjarsins. Við hann er lítið skilti, sem á stendur: „Björnslundur – Gróðursettur af félögum Rótarýklúbbs Seltjarnarness í minningu Björns Jónssonar (1932-2010) skólastjóra og skógræktarfrömuðar 2019“.

Friðartré

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Friðartré.

Á útivistarsvæðinu, þar sem Björnslundur er, hefur verið komið fyrir skilti við hálfdauða hríslu. Á því stendur: „Friðartré – Gróðursett 5. júlí 2011. Augnabliks friður getur og mun bjarga heiminum. -Sri Chinmoy stofnandi Friðarhlaupsins (Wold Harmony Run)“.

Nes við Seltjörn

Hér stóð kirkja til ársins 1799.

Minnisvarðinn um kirkju í Nesi við Seltjörn er skammt sunnan Ness.

Rotaryklúbbur Seltjarnarness reisti minnisvarðan.

Heimildir m.a.:
-https://www.seltjarnarnes.is/is/mannlif-nattura/menning/listaverk-baejarins
-https://eirikur.is/minnisvardar/vesturland/reykjavik-minn/#selt
-https://is.wikipedia.org/wiki/Bjarni_P%C3%A1lsson

Seltjarnarnes

Seltjarnarnes – minnismerki; Neskirkja.