Dysjar – Haakon Shetelig

Hraun

Haakon Shetelig skrifaði í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1938 um „Íslenskar dysjar“ og fornleifar frá víkingaöld:
„Eftir frásögn Ara fróða var landið numið á árunum sextíu frá 870—930. Verða færð ýms rök að því, að tímatalið er ábyggilegt um þetta að öllu verulegu leyti, að fyrstu landnámin áttu sér stað á árunum 870—80, en að útflutningurinn varð mestur frá því um 900, og að árið 930, er kjörinn var hinn fyrsti lögsögumaður, er hið eðlilega lokaár landnámsaldarinnar. Íslendingar voru þá og nokkuð eftir það Ásatrúar, og fylgdu hinum fornu, heiðnu greftrunarsiðum, unz kristni var lögtekin á Alþingi árið 1000. Heiðnar dysjaleifar á Íslandi geta því ekki, nema að eins sem undantekningar, verið eldri en frá því um 900 og alls ekki neinar verið neitt að ráði yngri en frá því um 1000.
thorkotlusdys-221Norskir fornfræðingar veittu því snemma athygli, að svo var þessu farið, og að nokkur stuðningur gæti orðið að því við niðurskipun norskra funda frá víkingaöldinni eftir aldri þeirra, og þetta atriði heldur ennþá fullu gildi sínu að sínu leyti, þótt vjer höfum nú á annan hátt öðlazt möguleika til nákvæmari tímatalsákvarðana um hinar ýmsu gerðir forngripa frá víkingaöldinni í Noregi. En fornleifafundirnir á Íslandi eru samt sem áður alveg sjerstaklega athyglisverðir frá almennu norrænu sjónarmiði sjeð einnig. Það er óvenjusjaldgæft, að vjer höfum tækifæri til að athuga ákveðinn flokk fornleifafunda með svo vissum tímatakmörkunum og jafnframt innan jafn fastákveðinna landamæra. Forngripirnir sjálfir og sömuleiðis það samband, sem þeir eru í við aðrar fornleifar í fundunum, geta veitt hjer mjög merkilegan fróðleik (það er ekki til neitt fornfræðilegt heildar yfirlit yfir fornleifafundi frá víkingaöld á Íslandi. Ingvald Undset gerði í bók sinni, Norske Oldsager i fremmede Museer, bls. 53, skrá yfir íslenzkar fornminjar í þjóðminjasafninu í Kaupmannahöfn (1878). Kr. Kálund gerði fullkomna skrá yfir dysjar og dysjaminjar i ritgerð sinni, Islands Fortidslævninger, í Aarb. f. n. Oldkh., 1882, og er sú skrá góður grundvöllur. Við það bættust svo einkum rannsóknir Daniels Bruuns 1898, sbr. Geografisk Tidsskrift XV, Kh. 1900, og framhald í Geogr. Tidsskr. XVII, Kh. 1904, og loks ritgerðin Dalvik-Fundet í Aarb. f. n. Oldkh. 1910. — Kálund skýrir svo frá, að 30—40 dysjafundir frá heiðni á Íslandi hafi verið kunnir 1882. Nú munu þeir varla vera fleiri en 100).
gislagata-221-dysAð sjálfsögðu eru til fjöldamargar dysjar frá heiðni á Íslandi, miklu fleiri en ætla mætti, er litið er yfir það safn af fornleifum, sem nú verður sjeð í safninu í Reykjavík. Þess skal getið hjer, að reglubundnar rannsóknir með uppgrefti hafa þa að eins verið framkvæmdar, er ástæður voru til, og mjög hógværlega farið í þær, og hins er einnig að minnast, að jarðræktin á Íslandi er ekki innifalin í því, að brjóta land og plægja akur, störf, sem í Noregi verða mjög drjúgum til þess að leiða í dagsins ljós fornleifar úr dysjum frá löngu liðnum tímum. Á Íslandi finnast fornminjar helzt við heimaverk af hendingu, þegar grafið er fyrir undirstöðum nýrra húsa. Annars finnast hinar fornu dysjar þar venjulega fyrir eins konar fyrirbrigði í náttúrunni, sem er sjerkennilegt fyrir Ísland; það er þannig, að grassvörðurinn rifnar upp í roki og síðan blæs jarðvegurinn neðanundir smám saman burt með vindinum; beinaleifar og fornminjar koma þá fram til sýnis á yfirborðinu á eðlilegan hátt. Mjer hefir skilizt, að með reglubundnum rannsóknum mætti áreiðanlega gera ráð fyrir því, að auka mætti allmikið á tölu kunnra, íslenzkra dysjafunda frá víkingaöldinni og fylla enn betur yfirlitið yfir þær dysjaminjar og þær dysjar frá heiðni, sem til eru. Þetta síðast nefnda, um dysjarnar, er ekki hvað minnst áríðandi fyrir fornfræðilegar rannsóknir landsins, þar eð því fer vafalaust f jarri, að í öllum gröfum eða dysjum hafi verið fólgnar fornminjar með hinum framliðnu.
hraunsdys-221Greftrunarsiðirnir á Íslandi hafa yfirleitt verið óbrotnir, og dysjar, sem hafi verið verulega auðugar að fornminjum, hafa verið fásjeðar í samanburði við það, sem hefir átt sjer stað í Noregi. Sá var siður á íslandi, hinn sami og vestanfjalls í Noregi, að menn voru dysjaðir heima við bæina, innan landamæra ættmenna sinna, en ekki í grafreitum, sameiginlegum fyrir stóran söfnuð.
Að ytra útliti eru dysjarnar frá heiðni ætíð óálitlegar. Grafirnar eru luktar litlum grjóthrúgum og grasþökum, og eru nefndar dysjar á Íslandi, en oft eru slíkar dysjar að eins lágar, steinlagðar hvirfingar, sem eru naumast hærri en svæðið umhverfis; eða grafirnar geta verið blátt áfram grafnar niður í jarðveginn undir flötu yfirborði Sams konar fyrirkomulag með öllum mögulegum tilbreytingum er einnig alþekkt í Noregi, en það, sem er sjerkennilegt fyrir Ísland, er, að þar sjást engin minningarmörk, sem mikið ber á, engir stórir haugar, svo sem vjer getum að líta hvarvetna um land allt í Noregi frá víkingaöldinni, — suma furðulega mikla. Íslendingar hafa í því tilliti verið alveg lausir við allan metnað, og má segja, að hin einfalda, hógværlega gerð á dysjunum sje einkennandi þáttur í þessu nýja þjóðfjelagi þeirra allan fyrsta hlutann af lýðveldistímabilinu.
egilsdys-221Jafn tilbreytingarlaus var greftrunin sjálf. Líkin voru ætíð jörðuð óbrennd, svo sem einnig átti sjer stað, með mjög fáum undantekningum, í norrænu víkingabyggðunum á brezku eyjunum. Er hjer þannig enn um verulega frábrugðinn sið að ræða frá því, sem venja var til í Noregi; þar hölluðust menn mjög víða að líkbrennum alla tíð meðan heiðnir jarðarfararsiðir voru yfirleitt hafðir um hönd. Þeir, sem fengizt hafa við rannsóknir í fornfræði Íslands, hafa jafnan bent á þetta, hversu frábrugðnir greftrunarsiðirnir á Íslandi hafa verið, og hafa menn helzt viljað leita ástæðunnar í því, hve erfitt hafi verið að afla brenniviðar á Íslandi. Ekki er sú ályktun alveg sannfærandi. Í þann tíð var trjágróður allmiklu meiri á landinu en á síðustu tímum. Vjer sjáum t. a. m., að rauðablástur var stundaður mjög mikið, en til þeirrar iðju þarf mikinn við. Það er því ekki líklegt, að Íslendingar hafi látið af líkbrennum, vegna þess, að þeir hafi viljað fara sparsamlega með skógarviðinn, hefði þessi siður, að brenna líkin, stuðzt við viðurkennda, siðferðislega kröfu, sem menn væru skyldugir að gegna fyrir hina framliðnu. öllu heldur verður að dæma um greftrunarsiðina á Íslandi með tilliti til þess, hversu til var hagað í þeim efnum í víkingabyggðunum á Skotlandi og Írlandi; þar var greftrun án líkbrennslu svo að kalla undantekningarlaus, svo sem þegar hefir verið tekið fram. Á Íslandi var því fylgt þeim sið í þessu, sem þegar var kominn á fyrir löngu í nýlendunum vestan hafs, og það sennilega helzt fyrir áhrif frá kristninni, og fluttist þaðan með vestrænum landnámsmönnum, svo sem eðlilegt má þykja.
Gröfin sjálf er hin einfaldasta að gerð, hvort heldur hún hefir verið gerð að öllu leyti neðan jarðar eða lukt með dys ofan jarðar, og oft sett umhverfis hana röð af steinum, en ekki haft neitt verulegt grafarhólf. Ekki verður bent á það, að fylgt hafi verið neinni fastri reglu um það, hversu grafir manna skyldu snúa eftir áttum. Líkið er oft þannig í gröfinni, að rjett hefir verið úr því; en þess kvað einnig vera ábyggileg dæmi á Íslandi, að líkin hafi verið jörðuð sitjandi. Skipsgrafir eru undantekningar; þótt þær þekkist.“

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 46. árg. 1937-1938, bls. 5-6.

Þórkötludys

Þórkötlusdys.