Eldvörp I

Eldvörp

Skoðaður var svonefndur “Útilegumannahellir” vestan við borholuna í Eldvörpum ofan Grindavíkur. Í honum eru hleðslur. Ein kenningin er sú að í honum hafi Húsatóttarfólkið bakað brauðið sitt, en Brauðstígurinn, sem liggur upp í gegnum Sundvörðuhraun frá “Tyrkjabyrgjunum” kemur niður skammt frá opinu. Í þessum helli var talsverður jarðhiti áður en borholan kom til.

Eldvörp

Eldvörp – heðslur í helli.

Í stað þess að fara Brauðstíginn niður að “Tyrkjabyrgjunum”, var gengið suður fyrir byrgin, um tiltölulega slétt hraun, og komið að þeim úr suðvestri. Byrgin og hlaðin refagildra, sem er við byrgin, voru skoðuð. Þaðan var haldið niður eftir Brauðstígnum að girðingu, henni fylgt til vesturs út að hraunkantinum og strikið síðan tekið niður að Húsatóttum (-tóftum). Farið var yfir nokkrar gjár, s.s. Miðkrókagjá og Skothólsgjá, á leiðinni og komið að nyrsta og jafnframt heillegasta fiskbyrginu ofan Túngjár (Hjálmagjár) á Byrgjahólum.

Húsatóftir

Húsatóftir – minjar og örnefni – ÓSÁ.

Þaðan má sjá móta fyrir a.m.k. fjórum fiskbyrgjum öðrum sunnar á gjárbarminum. Enn sunnar eru nokkur byrgi til viðbótar, auk hlaðinna þurrkgarða. Þeir nefnast Háavíti og Lágavíti. Hjálmagjá nefndist svo því fólk taldi sig oft sjá gjáveggina upplýsta með fögrum ljósahjálmum, sem báru af lýsisstýrunum í mannheimum. Efsti hluti gjárinnar heitir Tóftagjá.
Á túninu neðan við Húsatóttir, sunnan við Stakabrunn, er hóll, sem nefndur er Pústi. Þar hitti Helgi Gamalíason hópinn og leiddi hann áfram vestur með ströndinni. Pústa sagði hann hafa fengið nafn af því að Húsatóttamenn hvíldu sig þar á leið sinni með byrðar frá vörinni. Helgi nefndi rústir gömlu bæjanna með kantinum landmeginn; Hamra, Sólvelli og Vindheima. Niður á skerjunum eru Þvottaklappir þar sem vatn streymir undan hrauninu á fjöru. Neðan Vindheima er Kóngsklöppin þar sem gamla konungsverslunin var í Grindavík. Enn má sjá tóttir hennar uppi á sjávarkambinum, en mikill hluti þeirra hefur þó sjórinn hirt.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Mikið landrof hefur orðið þarna í gegnum tíðina, auk þess sem landið hefur sigið. Innan við Kóngsklöppina var Tóttarvörin og sést móta fyrir hleðslum þar sem hún var. Utan við klöppina er Ballestasker, en við það má sjá steina, sem notaðir voru í ballest hinna erlendu skipa.

Staðarhverfi

Stóra-Gerði.

Gengið var að gömlu bryggjunni, sem var í Húsatóttalandi. Vestan við hana er varða, landamerki Húsatótta og Staðar. Vestan við bryggjuna eru minjar fiskverkunarhúsa og ofar tóttir og garðar frá Hvirfli. Vestan við Hvirfil eru Þvottaklappir Staðarbænda. Þar kemur og tært vatn undan klöppunum. Þar fyrir neðan er Staðabótin, en ofan hennar er Hvirflabrunnur, hlaðinn. Vestar er flóruð Staðarvörin og Skakkavör skammt vestar. Undan henni er Festarsker, en á því er annar kengurinn af tveimur, sem konungsskipin voru fest við. Skerið kemur einungis upp í stórstraumsfjöru.

Staðarvör

Staðarvör.

Staðarvörin er fallegt mannvirki, sem huga þarf vel að. Vestar á kambinum eru heillegar tóttir Stóra-Gerðis, brunnur og falleg heimreið. Skammt vestan við Stóra-Gerði er Litla-Gerði. Sjórinn er nú byrjaður að brjóta tóttir þess bæjar niður. Þá var strikið tekið yfir vörslugarð Staðar, eða það sem eftir er af honum, og gengið að Kvíadal, heillegum tóttum þess bæjar.
Frá Kvíadal var gengið yfir Hundadal og á hól í Staðatúni, en þar undir er talið að bærinn Krukka hafi verið, en sandurinn lagði hann í eyði á skömmu tíma fyrir alllöngu síðan og þakti hann síðan alveg. Þarna undir gætu verið mjög heillegar minjar.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

Skammt norðar er Staðarbrunnurinn, nær ósnertur og fallegur brunnur frá árinu 1914.
Komið var við á hinu gamla bæjarstæði Staðar og litið inn í kirkjugarðinn. Þar í klukknaportinu er t.d. skipsklukkan úr Alnaby, sem strandaði þarna fyrir utan, á Kolasandi, árið 1902. Á klukkunni er ártalið 1898 og áletrunin ALNABY. Áður en kaffi var þegið í golfskálanum í boði bæjarstjóra, var litið á Húsatóttarbrunninn. Hann er beint fyrir neðan golfskálann.
Loks var gengið upp Árnastíg með viðkomu í gömlu tóttunum á Húsatóttum, litið á Sundvörðuna austast í hrauninu og stígurinn skoðaður þar sem hann er hvað mest markaður í klöppina norðan við Sundvörðuhraunið.
GígurÞegar komið var inn í Eldvörpin á ný voru skoðaðar hleðslur, sem Erling Einarsson benti hópnum á, í gróinni lægð skammt norðan við heitasta gíginn í Eldvörpum. Þær gætu verið merki þess að Hamarsbóndahellir sé þarna einhvers staðar skammt frá, en Helgi hafði bent á svæðið þarna á sínum tíma sem líklega staðsetningu. Verður skoðað betur síðar.
Gangan tók með hléum um fimm klukkustundir og fimm mínútur. Boðið var í byrjun upp á glænýtt súrefni, svalan grindvískan andvara og síðan áður óþekkt sólskin seinni hluta leiðarinnar. Hitinn var í kringum 10 C°.

Eldvörp

Gígur í Eldvörpum.