Fagradalsfjall – flugvélaflök
Gengið var um Fagradalsfjall með það að markmiði að finna og skoða þrjú flugvélaflök, sem þar eiga að vera.
Gengið var frá Siglubergshálsi og gengið um Lyngbrekkur og upp með Langahrygg að austanverðu. Þaðan er gott útsýni yfir að Skála-Mælifelli. Flugvélabrak frá því á stríðsárunum liggur norðaustan í hryggnum. Tólf menn fórust, Bretar og Bandaríkjamenn. Stutta stund tók að finna brakið. Það er efst í hryggnum og í brekkunni þar fyrir neðan. Hluti braksins er í gili undir brekkunni.
Haldið var yfir að Langhól. Þar fórst önnur vél í stríðinu, Sunderland flugbátur. Ekki er ljóst með mannskaða. Brakið er norðaustan í hólnum, nokkuð ofarlega. Áður en komið vara ð barkinu var gengið fram á vatnsketil þar í hlíðinni og var þó svolítið vatn í honum. Vel gekk að finna brakið. Gengið var svo til beint á það.
Eftir að hafa skoðað svæðið var gengið upp á hæsta punkt Langhóls (391 m.y.s.).
Þar er gott útsýni yfir hinar fögru og blómlegu byggðir Suðurnesja og Útnesja. Brak af flugvél er ofarlega undir Langhól í norðaustur.
Frá Langhól var haldið í Kastið, en þar er þriðja flugvélabrakið. Það er af Liberator-flugvél Andrews yfirhershöfðingja Bandaríkjanna í Evrópu í stríðinu, en hann fórst þarna 3. maí 1943. Fjórtán fórust og einn komst lífs af í þessu slysi.
Eftir að hafa skoðað brakið í Kastinu var haldið sem leið lá að upphafsstað.
Veður var frábært. Gangan tók 5 klst og 5 mín. Átján km voru lagðir að baki.