Fagradalsfjall – Langihryggur – flugvélabrak
Í bókinni Flugsaga Íslands – í stríði og friði – eftir Eggert Norðdahl er m.a. getið um tvö flugslys í Fagradalsfjalli á árinu 1941.
„Aðfaranótt fimmtudagsins 24. apríl klukkan 05:45 rakst breski Short Sunderland Mk.I flugbáturinn N9023 „KG-G“ úr 204 flugsveit RAF á austurhlið Fagradalsfjalls [í svonefndum Langhól] í Reykjanesfjallgarði í þoku og dimmviðri. Flugbáturinn hafði bækistöð á Skerjafirði og var að koma úr herflugi undir stjórn flugstjórans F/Lt Huges. Áður hafði áhöfn hans reynt að ná stefnumiðun á Reykjavík en ekki tekist. Flugmaður flugbátsins sá fjallshlíðina á síðustu stundur og náði að lyfta nefi hans þannig að hann rakst ekki beint inn í hlíðina. Þegar hann rakst á fjallið var hann í flugstefnu frá Reykjavík. Flugvélin brotnaði mikið og í henni kviknaði. Einn úr áhöfninni, P/O. J. Dewar aðstoðarflugmaður, kastaðist í gegnum þakið á flugstjórnarklefanum. Þrátt fyrir sprengingar í skotfærum og vitneskju um djúpsprengjur í flakinu fór hann félögum sínum til hjálpar en þrír þeirra voru mikið slasaðir. Einn þeirra var yfirmaður hans. Bjó hann um sár þeirra og gekk síðan 20 km yfir illfært hraun heim að Vogum á Vatnsleysuströnd þar sem hann gat hringt til Reykjavíkur eftir aðstoð. Samkvæmt heimildum lést einn í slysinu og tveir úr brunasárum á sjúkrahúsi en aðrir tíu slösuðust meira og minna.“
Hitt flugslysið varð suðaustar í Fagradalsfjalli. „Sunnudaginn 2. nóvember fórst stór tveggja hreyfla bandarískur flotaflugbátur á Langahrygg norðaustan Grindavíkur. Hann var Martin PBM-I Mariner og hafði auðkennið „74-P-8“ hjá VP-74 flugsveitinni í Reykjavík. Hann var sendur ásamt tveimur öðrum Mariner flugbátum frá Skerjafirði klukkan 03:30 um nóttina til að finna skipalestina ON.30 sem í voru 41 skip. Skipalestin hafði tafist í slæmu veðri og lélegu skyggni á vesturleið. Þetta verndarflug var líka til að fylgja 7 flutningaskipum og 5 bandarískum tundurspillum frá Íslandi til móts við hin skipin. Flugbátarnir töfðust á leiðinni vegna veðurs og komu fyrst að minni skipalestinni (08:15). Komu áhafnirnar auga á stóru skipalestina löngu síðar (09:45) og vernduðu skipalestirnar að mætingarstað.
Þar tóku bandarísku tundurspillarnir frá Íslandi við fylgd skipalestarinnar frá Bretum. Vegna versnandi veðurs urðu flugbátarnir að hætta verndarfluginu og snúa heim kl. 11:00. Á heimleiðinni versnaði veðrið enn til mikilla muna. Til aðstoðar flugbátunum á heimleið voru því hafnar útsendingar radíómerkja frá bandaríska herskipinu USS George E. Badger við Reykjavík… Fljótlega eftir að flugbátarnir yfirgáfu skipalestina flugu þeir allir blindflug vegna þoku og lágskýja hver í sínu lagi. Mariner flugbátarnir „74-P-3“ og „74-P-9“ lentu á Skerjafirði klukkan 14:35. Ekkert heyrðist til þess þriðja eftir kl. 14:10.
Öllum sveitum á svæðum nálægt Reykjavík og á Suðurnesjum var tilkynnt um að flugbáts væri saknað en lágskýjað og leiðinlegt veður kom í veg fyrir leit úr lofti. Herflokkar leituðu í landi aðfaranótt 3. nóvember og um morguninn fann flugmaður bandarískrar Curtiss P-40C Warhawk orrustuvélar flak flugbátsins utan í fjallshrygg nálægt Grindavík. Allir 11 mennirnir, sem verið höfðu um borð, höfðu farist þegar flugbáturinn sprakk og brann við að rekast á fjallið. Bráðið álið hafði runnið niður brekkurnar og var eftir á að líta eins og snjó hefði fest í hlíðina að sögn manna sem komu á slysstaðinn. Flugstjóri flugbátsins var Ensign G.N. Thornquist og var Ensign G. Bialek flugmaður. Einni farþegi var um borð. Það var 2/Lt. William P. Robinson úr bandaríska landhernum. Þetta var mesta flugslys sem orðið hafði á Íslandi fram til þess tíma.“
Þriðja flugvélaflakið í Fagradalsfjalli (Kastinu) er úr B-24 sprengjuflugvél er fórst 3. maí 1943. Með henni fórust 14 manns.
Heimild:
-Eggert Norðdahl, Flugsaga Íslands – í stríði og friði – I, Örn og Örlygur 1991, bls. 153 og 246.