Fyrstu kartöflurnar

Bessastaðir

Á Bessastöðum voru gerðar stórmerkilegar tilraunir í matjurtarrækt á ofanverðri 18. öld og þar heppnuðust fyrstu tilraunir til þess að rækta kartöflur á Íslandi, 1758, en ekki í Sauðlauksdal, eins og almennt hefur verið talið. Einnig var kartöflurækt snemma á Görðum.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Erlendur grasafræðingur, kallaður Köning, sem hingað var sendur til að skoða jurtir landsins, virðist hafa haft vetursetu á Bessastöðum 1763-64, en var hér hvorki lofaður né lastaður eftir því sem Íslandsárbók segir.

Allan síðari hluta átjándu aldar var mikil garðrækt á Bessastöðum og hafði þessi garðyrkjuáhugi áhrif víðar um nesið. Þegar Skúli fógeti fluttist að nýju að Bessastöðum, fékk hann silfurverðlaun árið 1772-73 fyrir kartöflurækt, en gullverðlaunin hreppti Ólafur amtmaður Stefánsson í Sviðholti.

Ólafur Stephensen

Ólafur Stephensen, amtmaður.

Garðræktin á Bessastöðum virðist hafa verið í hvað mestum blóma í stiftamtmannstíð Jóhanns Levetzow, sem kom að Bessastöðum árið 1785.
Stanley segir í ferðabók sinni árið 1789 “að lokinni máltíð fórum við út í garðana, sem eru fegurri, fjölskrúðugri og skipulagðir af meiri smekkvísi en mig hefði órað fyrir. Þessar plöntur eru ræktaðar þar og dafna flestar ágætlega, grænkál, kál, kálrabí: planta, sem hefir betri rófur en næpa og vex eins vel hér og í Danmörku”.

Skúli Magnússon skrifaði á svipuðum tíma lýsingu Gullbringu- og Kjósarsýslu. Þar getur hann um jurtir sem ræktaðar eru á Bessastöðum, í Viðey, Nesi, Reykjavík, Keflavík og víðar. Þær eru einkum gulrætur, hvönn eða hvannarót, brúnt, grænt, hvítt og rautt kál, gulrófur, piparrót, Pétursselja, kartöflur, radísur, redíkur, rófur og salat.

Heimildir:
-Sturla Friðriksson – Úr 200 ára sögu kartöflunnar á Íslandi – 1959.

Bessastaðir

Bessataðir fyrrum.