Gálgaklettar og Flekkuvíkurstígur (Refshalastígur)
Þegar FERLIR barst eftirfarandi ábending var talin ástæða til að skoða hana nánar, þ.e. örnefnin Gálgaklettar. Við þá leit álpaðist hlutaðeigandi leitandi inn á Flekkuvígurstíginn svonefnda, öðru nafni Refshalastíg skv. örnefnaskrám, stíg sem ekki átti að vera lengur til skv. nýjustu heimildum.
Ábendingin var svona: „Reynir heiti ég og er mikill aðdáandi Reykjanessins. Les ég síðuna nokkrum sinnum í viku og hef reglulega gaman að. Ég sá að það var færsla um Stóru-Vatnsleysu og nágrenni um örnefni og ýmsu því tengdu. Þess vegna ákvað ég nú í gamni mínu að senda þér lítið örnefnakort sem ég vann í skólanum og fékk hjálp hjá bóndanum á Stóru-Vatnsleysu. Er þetta unnið eftir örnefnalýsingum en ekki skal ég ábyrgjast hvort þetta er hárrétt unnið. Mig langaði bara til að sýna þér þetta ef þú hefðir áhuga á þessu.“ Meðfylgjandi var loftmynd með örnefnum fyrir Minni-Vatnsleysu (og reyndar líka Stóru-Vatnsleysu). Á því voru örnefnin Gálgaklettur-syðri og Gálgaklettur nyrðri staðsett. Í örnefnalýsingu fyrir Vatnsleysu segir um þetta: „Rétt utan túngarðs Minni-Vatnsleysu eru klettar tveir, sem kallast Gálgaklettar. Þó eru þeir nefndir til frekari glöggvunar Gálgaklettur nyrðri og Gálgaklettur syðri. Klettar þessir standa í fjörubakkanum, og er þröngt vik á milli þeirra.“
Nyrðri kletturinn er svo til beint niður af suðurtúngarði Minni-Vatnsleysu og sá syðri skammt sunnar. Þegar staðurinn var skoðaður kom í ljós að vik er neðan Gálgakletts-nyrði, en engu slíku er fyrir að fara við þann syðri. Hins vegar eru aðstæður á báðum stöðunum mjög svipaðar; sléttir klapparstandar, svipaðir að stærð, alveg niður við strandbrúnina, nú grónir. Hafa ber í huga að gjarnan er tekið miða af klofnum háum klettum þegar getið er um Gálga eða Gálgakletta, en slík örnefni eru fleiri en 100 talsins hér á landi. Ekki eru heimildir um að aftökur hafi farið fram á þeim öllum, en ef taka ætti þau öll alvarlega mætti ætla að fleir hafi verið hengdir hér á landi en skráðar heimildir eru til um. Einhverjir hafa þá verið hengdir án dóms og laga. Hafa ber og í huga að henging var einungis ein tegund aftöku og nutu aðallega þjófar þeirrar náðar. Og þeir voru ekki svo margir er örnefnastaðirnir gefa tilefni til. Og til eru jafnvel nokkrir slíkir í hverri sveit. Öðrum sakamönnum voru ýmist drekkt, þeir brenndir eða hálshöggnir. Sýslumenn framfylgdu dauðarefsingum í fyrstu (og þá um skamman tíma), en síðar fóru þær flestar fram á Alþingi (alls 15 manns).
Þessi örnefni gefa þó tilefni til svolítillar íhugunar – og jafnvel endurskoðunar á tilefni örnefnisins. Gjarnan fylgir eftirfarandi skýring á örnefninu: „Sú saga er um Gálgakletta, að þar hafi fyrr á öldum verið hengdir sakamenn„. Eflaust hefur yfirvaldið sumstaðar nýtt sér náttúrulegar aðstæður til framkvæmdarinnar, s.s. í Gálgaklettum í Gálgahrauni gegnt Bessastöðum. Þar eru til heimildir um að menn hafi verið hengdir. En hvers vegna ætti að hengja fólk í klettaskoru neðan við Vatnsleysu. Þótt fólk hafi verið lágvaxnara fyrrum má samt ætla að viðkomandi hafi getað tyllt niður tá eftir fallið og staðið af sér henginguna. Til langs tíma gæti viðkomandi þó hafa kafnað til ólífis líkt og þeir sem brenndir voru á báli. Nýtínt prekið, allt að 25 hestburðir sem þurfti í einn bálkost, brann ekki svo augljóslega og má því ætla að sakamaðurinn hafi látist úr reykeitrun löngu áður en eldurinn náði skrokknum.
Aftur að Gálgaklettum. Sléttir klapparstandarnir gefa tilefni til að ætla, ef einhverjir hafa verið hengdir þar, að þar hafi verið reistir gálgar og þá líklega úr rekaviði. Stallarnir eru kjörnir til slíks og ekki erfitt að gera sér í hugarlund þá mynd að áhorfendur hafi staðið ofar í brekkunni og þannig haft góða yfirsýn um svæðið neðanvert. Líkunum gæti síðan hafa verið kastað fyrir klettana og sjórinn séð um að skola þeim út í stað þess að dysja þá í einhverri klettaskorunni, sem engum er reyndar fyrir að fara á svæðinu. Ekki hefur þurft mikinn efnivið í sæmilegan gálga. Stallarnir hafa ekki verið skoðaðir m.t.t. þess hvort þar kunni að leynast göt fyrir kaga. Hafa ber þó fyrirvara á öllu þessu að ekki eru heimildir um sýslumannssetur á Vatnsleysu, einungis kirkjustað fram á 18. öld. Það eitt gæti þó gefið tilefni til að ætla a.m.k. einhver tengsl milli örnefnisins og staðarins.
Eftir að hafa skoðað strandsvæðið umhverfis Gálgakletta var ráfað til suðvesturs, áleiðis upp á Almenningsveg. Þá – og allt í einu, birtist áberandi gömul gata vestan túngarða Vatnsleysu. Götunni var fylgt til norðvesturs, áleiðis niður að Flekkuvík. Hún liðaðist um neðanverða Flekkuvíkurheiði áleiðis að bæjarstæðunum við ströndina. Í götuna virtist enginn hafa stigið fæti um langa tíð. Kastað hafði verið upp úr götunni á köflum, hún lagfærð og greinilega hafði verið borið í hana, en jarðvegurinn fokið burt. Þegar götunni var fylgt til baka lá ljóst fyrir að hún myndi annað hvort sameinast Almenninsveginum eða þvera hann ofan við Stóru-Vatnsleysu. Gatan lá áleiðis að vesturtúngarði Stóru-Vatnsleysu, en beygði síðan svo til austurs, beint að svonefndri Bergþórsvörðu í heiðinni. Skammt þar frá var gróin tóft á fallegum stað er lætur lítið yfir sér. Bergþórsvarðan er skammt ofan við túnblett suðvestan bæjarins. Hún er að nokkru leyti hrunin. Varðan hefur einnig verið nefnd Svartavarða. Sumir hafa talið að varðan hefi verið innsiglingarvarða fremur en mið. Líklegri skýring er þó sú skv. framangreindu að þarna hafi verið viðsnúningur því Almenningsvegurinn greinist þarna, annars vegar beygir hann í 90° hjá vörðunni með stefnu á steinbrú yfir Hrafnagjá, og hins vegar beygir hann til suðvesturs áleiðis að gatnamótum Vatnsleysu og Strandarvegar. Þar heldur fyrrnefndi vegurinn áfram uns hann beygir aftur um 90° við gatnamót Almenningsvegar og Flekkuvígurstígs (Refshalastígs). Við vörðuna er einnig Eiríksvegur.
Vegurinn er nefndur eftir verkstjóranum sem hét Eiríkur Ásmundsson (1840-1893) frá Grjóta í Reykjavík en Eiríkur þessi stjórnaði m.a. fyrsta akvegargerð um Kamba.
Ef skoðaðar eru örnefnalýsingar fyrir Flekkuvík segir m.a.: „Skammt utan gamla traðarhliðsins er grunnt vatnsstæði, kallað Vatnshellur, vatnsból ofan í klappir. Þar til vesturs, um 200 m frá túngarði, eru þrír strýtuhólar, kallaðir Kirkjuhólar. Þeir eru í stefnu rétt vestan við opna tröðina. Það var trú fólks, að í Kirkjuhólum væri álfabyggð og þar var betra að fara með gát.” Þá segir: Refshalastígur: “Frá býlinu [Refshala] lá í suður Refshalastígur á Flekkuvíkurstíg en hann lá suður í Heiðina og tengdist þar Almenningsgötum.” Hér er Almenningsvegurinn nefndur „Almenningsgötur“.
Í Fornleifaskrá fyrir Vatnsleysuströnd segir m.a.: „Flekkuvíkurselsstígur – heimild um leið 64°40.130-22°14.049: “Flekkuvíkurselsstígur lá úr Traðarhliði og upp Heiðarlandið, sem var óskipt milli Bæjanna.” segir í örnefnaskrá.
Ekki er til nánari lýsing á legu stígsins en vísast hefur hann legið um/við Flekkuvíkurheiði og svo áleiðis í átt að Flekkuvíkurseli. Líklegt er að stígurinn hafi þá legið við Reykjanesbraut í námunda við Stóra-Hrafnshól. Ekki sést neinn fornlegur slóði í námunda við Reykjanesbrautina á þessum stað.“ Hér er verið að rugla saman Flekkuvíkurselstígnum annars vegar og Flekkuvíkurstígnum hins vegar. Hinn fyrrnefndi er þarna skammt vestar og má vel sjá hann í lágheiðinni ef vel er að gáð. Eftir að hafa fylgt Almenningsveginum frá Kúagerði upp Flekkuvíkurheiði má segja að hver sá einn verði ekki ósnortinn.
Almenningsgöturnar tvær er greinast við Bergþórsvörðu eru annars vegar gata, sem löguð hefur verið sem hestvagnavegur (vestari leiðin) og hins vegar gata, sem liggur upp heiðina framhjá Arnarvörðu.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Flekkuvík og Vatnsleysu.