Garðar á Álftanesi – Stefán Júlíusson
Stefán Júlíusson skrifaði í Alþýðublaðið árið 1958 um „Garða á Álftanesi„:
„Fyrir nokkru var ég beðinn að tala á samkomu í, félagsheimilinu á Garðaholti, og var þess helzt óskað, að ég segði eitthvað frá Görðum á Álftanesi. Eg varð við þeim tilmælum og flutti þar óskrifaða og sundurlausa pistla um staðinn eftir prentuðum heimildum. Nú hef ég hripað inntakið í rabbi þessu niður og birtist það hér. Aðeins vil ég taka það skýrt fram, að ég er enginn fræðimaður, og því ber ekki að líta á þetta sem ritgerð, heldur er hér á ferðinni leikmannsþáttur um merkan stað. —
Garðar á Álftanesi hafa löngum verið ein mesta jörð á Innnesjum, og í margar aldir þótti Garðaprestakall eitt af vildarbrauðum hér á landi. Vafalaust hefur það verið að miklu leyti vegna útræðis, en útræði hefur verið frá Görðum, Álftanesi og Hafnarfirði svo lengi sem sögur herma; Garðar, ásamt býlunum í kring, mynda heilt byggðarhverfi, sem ávallt er kallað Garðahverfi. Þessi býli eru öll gamlar hjáleigur frá Görðum, og hafa þau verið milli tíu og tuttugu. En ýmis önnur býli í Garðahreppi voru einnig eign Garðakirkju, enda lítur helzt út fyrir, að kirkjan hafi um eitt skeið átt mestan hluta hreppsins.
Garðar á Álftanesi eru ekki nefndir í Landnámu, en um landnám á þessum slóðum segir svo: „Ásbjörn hét maður Özurarson, bróðurson Ingólfs. Hann nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum.“ Um Ásbjörn segir ekki meira í Landnámu, en minnzt er þar á, að einn afkomandi hans hafi búið á Seltjarnarnesi. Ekki er líklegt, að Ingólfur Arnarson hafi gefið svo nánum frænda sínum, sem Ásbjörn var, lélegt land, jafnvel þó hann hafi kosið að hafa hann nálægt sér. Þótt hraun hafi þá verið í upplandi Ásbjarnar eigi síður en nú, hefur „Álftanes allt“ verið hlunnindaland, ekki sízt fyrir sjósóknara. Og öll holtin beggja vegna Hafnarfjarðarhrauns og eins Garðaholt, hafa þá verið viði vaxin.
Það furðulega í þessum fræðum er, að Skúlastaðir fyrirfinnast hvergi í landnámi Ásbjarnar
Özurarsonar. Hefur þetta verið mönnum ráðgáta löngum, og ýmsum getum hefur verið að því leitt, hver hafi verið landnámsjörðin. Hafa ýmsir viljað halda Bessastöðum fram, en aðrir hallast að minni jörðum og ómerkari. Allt frá því ég fór að leiða hugann að þessum efnum, hefur mér þótt einsætt, að Garðar væru landnámsjörðin. Þetta var aðeins leikmannstilgáta, dregin af aðstæðum og landslagi, en aldrei hef ég getað sleppt þessari hugmynd, þótt ýmsir hafi statt og stöðugt haldið öðru fram. Sú gáta verður aftur á móti aldrei ráðin, hvernig Skúlastaðir háfa breytzt í Garða, ef hér er þá ekki um einskæra villu að ræða í Landnámu. Vera má einnig,að bærinn hafi verið nefndur svo um skeið, og þá einmitt á þeim tíma, er höfundur Landnámu þekkti til.
Eg átti margar ferðir hjá Görðum í uppvexti mínum á leið „fram á Álftanes“, en ég ólst upp í hrauninu nálægt miðju vegar milli Hafnarfjarðar og Garða. Aldrei taldi ég þá Garða vera á Álftanesi, því að innnesið var almennt talið byrja vestan Álamýrar og Selskarðs.
Hins vegar sá ég þetta í bókum og þótti skrýtið. En þótt vegur Bessastaða væri þá þegar orðinn meiri, en Garðar að setja ofan, fannst mér alltaf meira til Garða koma. Mér þótti sennilegt, að einmitt þar hefði frændi Ingólfs, landnámsmaðurinn Ásbjörn Özurarson, viljað búa, Staðurinn blasir við sól og firði, að baki bungumyndað holt, skógi vaxið á landnámstíð; víðsýnt er og fagurt heima á staðnum, sér inn til fjalla, út á flóann og „fram á nes“. Þetta var kjörið bæjarstæði landnámsmanns. Auk þess eru Garðar svo að segja í miðju landnámi Ásbjarnar, en Álftanesið hlýtur að hafa talizt byggilegasta skákin í því. Og nafngiftin, Garðar á Álftanesi, virtist einmitt benda til þess, að höfuðbólið ætti nesið allt.
Eitthvað á þessa lund voru æskuhugmyndir mínar um Garða sem landnámsjörðina, en nú hefur merkur fræðimaður í þessum efnum, Magnús Már Lárusson prófessor, í rauninni tekið af skarið. Hann segir svo í grein, sem hann reit í síðasta jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar: „Að vísu má leiða allgóð rök að því, að Garðar, hin týnda landnámsjörð Skúlastaðir, hafi snemma klofnað upp í fleiri smærri einingar — „.
Fram til ársins 1891 var allt það land, sem nú er Bessastaða hreppur, Garðahreppur og Hafnarfjörður, einn hreppur, og hét hann Álftnesheppur. Náði hann þannig yfir allt landnám Ásbjarnar Özurarsonar, frá Hvassahrauni að Hraunsholtslæk, og þó heldur betur, því að enn eru býlin Vífilsstaðir, Hofsstaðir og Arnarnes í Garðahreppi. Hafa þessi býli vafalaust fallið undir Garðakirkju síðar. Þegar Álftaneshreppi var skipt árið 1891 í Garða- og Bessastaðahrepp, hef ur verið farið að líta á Bessastaðahrepp einan sem Álftanes, og þannig er það í rauninhi kallað nú, en hið forna Álftanes hefur verið milli Hafnarfjarðarbotns og Arnarvogs, eða vestan vegarins, þar sem hann liggur frá Hafnarfirði að Silfurtúni. Eins verður ekki fram hjá því gengið, að Bessastaðakirkja hefur jafnan verið útkirkja frá Görðum, en í Görðum hafa margir höfuðklerkar setið öld fram af öld.
Hér verður ekki á nokkurn hátt leitazt við að rekja sögu Garða á Álftanesi. Samt langar mig til að stikla hér á stóru í persónusögu staðarins, þó aðeins eftir prentuðum heimildum, enda nægir það til að sýna, hvert höfuðból og merkiskirkju staður jörðin hefur verið frá öndverðu.
Garðar á Álftanesi munu aðeins vera nefndir í einni Íslendingasögu, Hrafnkels sögu Freysgoða, sem gerist um miðja 10. öld. Þar er sagt, að Þormóður búi í Görðum á Álftanesi. „Hann á Þórdísi, dóttur Þórólfs Skalla-Grímssonar frá Borg.“ Hrafnkatla mun yfirleitt talin skáldsaga, skrifuð á ofanverðri 13. öld, en samt verður það ljóst af þessu, að höfundi hefur fundizt sjálfsagt, að í Görðum byggju merkismenn, sem tengdir voru sjálfum Mýramönnum.
Í Sturlungu er Garða á Álftanesi að minnsta kosti tvívegis getið. Í Þórðar sögu kakala stendur svo: „Þenna vetur var Þórður Bjarnarson í Görðum með Einari Ormssyni, frænda sínum. Hann hafði verit með Órækju í Reykjaholti at drápa Klængs Bjarnarsonar. Ormr Bjarnarson reið við tólfta mann í Garða til Einars. Komu þeir þar síð um kveldit í þann tíma, er þeir Einarr ok Þórður ætluðu at ganga til baðs. Tóku þeir Ormr Þórð þar höndum. Leiddu þeir hann þá inn til stofu. Þórðr varð við alla vega sem bezt ok bauð fyrir sig allt þat, er honum sómdi. En þá er hann sá, at Ormr vildi ekki annat hafa en líf hans, þá beiddist hann prestfundar. Ok svá var gert. Eftir þat var hann leiddr í ytri stofuna. Lagðist Þórðr þá niðropinn ok bað þá hyggja at, hvárt honum blöskraði nökkut. Ormr fekk þá mann til at höggva hann. Sá hét Einarr munkr. Eftir þat reið Ormr heim austr á Breiðabólstað.“
Þessi atburður gerðist árið 1243. Af frásögninni má fá ýmsar upplýsingar um staðinn. Bóndinn, Einar Ormsson, er Svínfellingur að ætt, afkomandi Flosi Þórðarsonar, eða Brennu-Flosa. Voru þeir Svínfellingar mikils háttar menn, enda ein merkasta ætt á Sturlungaöld. Er því fullvíst, að Garðar hafa verið stórbýli, er svo ættgöfugur maður bjó þar. Þá kemur fram að kirkja er á staðnum, og þar er prestur. Ekki er líklegt, að kirkjan hafi verið nýreist, enda má gera ráð fyrir, að kirkja hafi mjög fljótlega verið reist á þessu forna höfuðbóli. Hins vegar er bóndinn ekki prestur, heldur hefur hann prest, en það var stórbændasiður á fyrstu öldum kristninnar á landi hér. Á öðrum stað í Sturlungu, Íslendingabók, stendur svo: „Gizurr jarl reið suðr á Kjalarnes ok gisti í Görðum á Álftanesi at Einars bónda Ormssonar. Var honum þar vel fagnat ok var þar nokkurar nætr.“
Þessi atburður gerðist árið 1264. Eru nú liðin tuttugu ár frá því, sem um getur í fyrri tilvitnunni, og enn er Einar Ormsson bóndi í Görðum. Ekki þarf frekar vitnanna við um það, að hann hefur verið stórbóndi, því að varla hefur Gizur jarl gist nema á höfuðbólum. Ekki er þess getið, hvernig Einar fékk Garða til ábúðar, enda skiptir það ekki máli fyrir það efni, sem verið er að leitast við að draga hér fram: Garðar á Álftanesi voru; mikið höfuðból á Sturlungaöld.
Vera má, að ætt Ásbjarnar landnámsmanns hafi skipt á Görðum og annarri jörð, t.d. á Seltjarnarnesi, nema Einar hafi verið kvæntur inn í ættina eða tengdur henni á annan hátt. Garða ef ekki mikið getið í prentuðum heimildum á næstu öldum, en þó koma þeir allmikið við sögu í deilumálum Staða-Árna biskups Þorlákssonar við leikmenn á ofanverðri 3. öld. Þessar deilur voru sem kunnugt er um það, hvort kirkjan skyldi eiga jörðina, þar sem, hún stóð, og aðrar jarðir, sem undir kirkjustaðinn lágu. Í Árna biskups sögu eru Garðar ávallt kallaðir Garðastaður, og eru þeir nefndir í sömu andrá og merkustu kirkjustaðir landsins á þeirri tíð. Settust leikmenn og klerkar á jörðina á víxl, eftir því hvorum veitti betur, Árna biskupi eða foringja leikmanna, Hrafni Oddssyni. Þessir atburðir hafa gerzt eftir daga Einars bónda Ormssonar. Gera má fastlega ráð fyrir því, að prestur hafi verið ábúandi í Görðum frá því staðamálum lauk fyrir 1300 til ársins 1928. En átökin um Garða síðast á 13. öld benda til þess, að kirkjan hafi þá þegar átt nokkurn hluta jarðarinnar og fleiri jarðir í kring. Og upp úr þessu tóku kennimenn að gerast héraðshöfðingjar og stórbændur.
Um siðaskiptin situr í Görðum sr. Einar Ólafsson, umboðs maður Skálholtsbiskups, þ.e. síðasta kaþólska biskupsins, Ögmundar Eálssonar, og hins fyrsta lúterska, Gizurar Einarssonar. Þá átti Skálholtskirkja orðið víða ítök, enda segir Magnús Már Lárusson prófessor í fyrrnefndri grein, að Skálholtskirkja hafi eignazt nokkrar minni jarðanna í Álftaneshreppi þegar um 1200. Einar Ólafsson var fyrst prestur í Nesi við Seltjörn, síðan í Laugarnesi, en fluttist þá að Görðum og var þar prestur í 21 ár, eða þar til hann gerðist ráðsmaður í Skálholti árið 1552. Það er eftirtakanlegt, að hann sækir að Görðum frá Nesi og Laugarnesi, en báðar þessar jarðir voru vildar setur fyrr á tímum.
Eftir siðaskipti sitja margir frægir klerkar Garðastað, og verða nú heimildir auðugri. Hér verður þó aðeins hlaupið á nokkrum staksteinum, ella yrði of langt að rekja. Fyrst skal getið tveggja nafnkunnra feðga, sr. Þorkels Arngrímssonar og Jóns biskups Vídalíns. Sr. Þorkell var sonur Arngríms lærða Jónssonar, sem einna frægastur var Íslendinga á sinni tíð, vegna vináttu við og embætti fyrir Guðbrand biskup Þorláksson og varnar- og kynnisrit hans á latínu um Ísland og Íslendinga. Var sr. Þorkell fyrsti lærði íslenzki læknirinn, en hann var prestur í Görðum frá 1658 til dauðadags 1677. Nam hann læknisfræði í Kaupmannahöfn og Noregi og e.t.v. víðar og fékkst nokkuð við lækningar. Um hann hefur Vilmundur landlæknir Jónsson skrifað merka bók, Lækningar séra Þorkels Arngrímssonar, sem Háskóli Íslands mun hafa tekið gilda sem doktorsritgerð, en landlæknir hirti ekki að verja, Sr. Þorkell átti þrjá syni, sem allir voru miklir lærdóms- og merkismenn, og allir fæddir í Görðum.
Þeir voru: Þórður, sem fetaði í fótspor föður síns og nam læknisfræði, síðar rektor í Skálholti, en mikið orð fór af lækningum hans, Jón biskup Vídalín og Arngrímur, rektor í Danmörk, sem dó ungur. Þeir foræður voru allir miklir gáfu- og atgervismenn og skáld góð, en ekki að sama skapi gæfumenn; voru þeir drykkfelldir nokkuð, og Þórður læknir þó mest, en svo var faðir þeirra einnig. Jón Vídalín var prestur í Görðum í þrjú ár, en var þó löngum aðstoðarmaður biskups í Skálholti, enda fór hann frá Görðum í Skálholt árið 1698. Í Ferðabók Sveins Pálssonar segir svo á einum stað (október 1791): „Eftir skamma dvöl á Bessastöðum fór ég að Görðum. Þar (þ.e í Görðum), á Bessastöðum, í Nesi hjá Birni lyfsala og í Reykjavík hjá Scheel fangaverði eru beztir matjurtagarðar og þessar slóðir. (Markús) prófastur Magnússon í Görðum hefur meira að segja fengið flestalla bændur í sóknum sínum til að gera kálgarða, og sjá þeir sér auðvitað hag í því. Hann er áreiðanlega beztur búhöldur hér sunnan lands — án þess þó, að embættisrekstur hans bíði nokkurt tjón við það. -Meðal annars hefur að hans ráðum verið gert hið fyrsta helluþak á Íslandi í hina nýreistu kirkju í Görðum, og eru hellurnar lagðar ofan á timbursúðina. Hyggjast menn að fylgja því dæmi hans við kirkjurnar á Bessastöðum og í Reykjavík, sem nú eru í smíðum.“
Enn segir í Ferðabók Sveins: „Hinn 1. nóvembermánaðar könnuðum við áðurnefndan helli, sem reyndist vera skapaður við jarðeld á sama hátt og Surtshellir, sem lýst er í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Hellir þessi er svo fallegur, að hann á skilið sérstaka lýsingu, en dagurinn var svo stuttur, að við gátum eigi gert hana. Verður bún því að bíða betra tíma. Við fundum aðra hella ok könnuðum 40 faðma af einum þeirra, en vissum eigi, hversu langur hann var alls, því að við höfðum hvorki kerti né blys. Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá að hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo að hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Auk þessa hefur þessi dugnaðarbóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd. Þetta eru eins konar fjárhús, kringlótt og keilulaga og hlaðin þannig saman, að engin spýta er í þeim. Hver þeirra rúmar um 50 fjár. Óskandi væri, að sem flestir fylgdu dæmi þessa ágæta manns.“
Markús Magnússon var prestur og prófastur í Görðum frá 1780 til dauðadags árið 1825, vígður þangað aðstoðarprestur Guðlaugs prófasts Þorgeirssonar, sem var prestur í Görðum 1746—1781, og varð sr. Markús tengdasonur hans. Sr. Guðlaugur var hinn mesti merkismaður. klerkur góður og biskupsefni. Hann rak draugana af höndum Garðhverfinga og kom þeim í Stíflishóla, eins og frá segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (bls. 264, I).
Sr. Markús Magnússon var hinn ágætasti maður, eins og Sveinn Pálsson segir, og lærður vel. Um hann segir Páll Eggert Ólason í íslenzkum æviskrám: „Hann var auðmaður, enda mjög hjálpsamur sóknarmönnum sínum, búmaður góður og ýtti mjög á eftir sóknarbændum sínum í garðrækt og jarðyrkju.“ Hann var í biskupsstað í eitt ár, en það voru fleiri Garðaprestar. Hann var beðinn að taka Hólastól árið 1787, en baðst undan; vildi heldur sitja í Görðum. Varla er vafi á því, að selið, sem Sveinn Pálsson getur um, er Kaldársel, enda eru hinir mestu og fallegustu hellar þar í grennd. Er og ljóst of þessari frásögn, að Garðar hafa átt beitiland þar í kringum Helgafell og í Undirhlíðum, og sennilega allt upp í Grindaskörð. Hefur allt þetta víðáttumikla fjalllendi þá legið undir Garða.
Alla 19. öld sitja höfuðklerkar í Görðum, fyrst sr. Markús til ársins 1825, þá Árni stiftprófastur Helgason 1825—1858, er hann lét af prestsskap, en bjó þó áfram í Görðum. Eftir hann varð prestur í Görðum sr., Helgi Hálfdánarson, sálmaskáld og síðar forstöðumaður prestaskólans. Hann var til ársins 1867, er sr. Þórarinn Böðvarsson kom að Görðum, en hann var þar prestur til dauðadags 1895.
Sr. Árni Helgason var hinn mesti lærdómsmaður, eins og alkunnugt er, kennari með afbrigðum, tvisvar biskup í forföllum og fékk biskupsnafnbót.
Um hann eru margar skemmtilegar sögur. Svo segir Benedikt Gröndal í Dægradvöl sinni: „Eg gekk til prestsins að Görðum með hinum börnum af nesinu og var náttúrulega efstur. Faðir minn var gamall lærisveinn séra Árna, og voru þeir virkta-vinir, enda báru allir virðingu fyrir stiptprófastinum, og oft kom ég til hans. Séra Árni var einhver hinn tignarlegasti maður, sem ég hef séð, og mynd hans er mér ógleymanleg. Hann var alltaf jafnrólegur, aldrei daufur, hann var í því jafnvægi lífsins, sem mjög fáir ná; hann drakk stundum, en aldrei svo mikið að nokkuð yrði að fundið. Hann var einhver hinn fullkomnasti maður, sem hugsast getur, stór Og höfðinglegur. Stundum var hann meinyrtur og glettinn í orðum, einkum ef hann var lítið kenndur. Einhverju sinni komu þeir til hans Jón Þorleifsson og Steingrímur Thorsteinsson; þair voru þá í skóla og voru vinir. Þeir komu að Görðum um sunnudag, en ekki fyrr en messa var úti. Jón Þorleifsson fór þá að biðja prófastinn fyrirgefningar af að þeir kæmu svo seint. Þá sagði séra Árni: ,,Það er fyrirgefið, og þó þið hefðuð aldrei komið.“ — Séra Matthías Jochumsson kom þangað og fór að tala um þýzka heimspeki, en séra Árni mun ekki hafa þótt mikið til koma. Séra Matthías var þá prestur í Móum á Kjalarnesi. Eftir að hann hafði látið heimspekisdæluna ganga, þá þegir séra Árni um stund og segir loksins: „Fiskast mikið af hrokkelsum á Kjalarnesi núna?“ – „.
Helgi Hálfdánarson var prestur í Görðum, þar til hann gerðist kennari við prestaskólann 1867. Hann var þingmaður, meðan hann sat í Görðum og mikils virtur alla tíð, enda lærdóms- og gáfumaður.
Þórarinn Böðvarsson var um margt öndvegismaður, og ekki sízt eftir að hann hann kom að Görðum. Hann var þingmaður Gullbringu- og Kjósarsýslu öll ár sín í Görðum nema tvö og mikill búsýslumaður.
Hina kunnu og velþegnu bók sína, Lestrarbók handa alþýðu, sem almennt var nefnd Alþýðubók sr. Þórarins, gaf hann út árið 1874, eða 6 árum eftir að hann kom að Görðum. Árið 1882 stofnaði hann gagnfræðaskólann í Flensborg til minningar um Böðvar son sinn, en nokkru áður hafði hann stofnað þar barnaskóla. Var Jón sonur prófasts, síðar fræðslumálastjóri, fyrsti skólastjóri í Flensborg. Þá er ótalið það framtak sr. Þórarins, sem mest snertir kirkjustaðinn í Görðum. Árið 1880 lét hann reisa í Görðum veglega steinkirkiu. Var hún úr höggnu grjóti úr Garðaholti og eftir nær áttatíu ár standa veggir ófallnir. Um það bil öld hafði nú liðið frá því, að Markús prófastur Magnússon byggði upp kirkjuna í Görðum, sem á sinni tíð þótti til fyrirmyndar,
eins og Sveinn Pálsson tekur fram. Kirkja sr. Þórarins er síðasta Garðakirkjan, og sjálfur ætlaði hann ekki í fyrstu að reisa hana þar. Á hans dögum var Hafarfjörður óðum að stækka, og þegar sr. Þórarni þótti nauðsynlegt að byggja nýja kirkju fyrir Garðasókn, fannst honum eðlilegt, að hún yrði byggð í Hafnarfirði. Þá voru íbúar Hafnarfjarðar um fjögur hundruð og Fjörðurinn að sjálfsögðu stæsta byggðin í sókninni. En Hafnfirðingar töldu sig ekki hafa bolmagn til að byggja kirkju, þótt sr. Þórarinn byði þeim fjárhagslega aðstoð, og því var kirkjan enn reist í Görðum. Hafnfirðingar höfðu alla tíð átt kirkjusókn að Görðum, en það er um þriggja og hálfs kílómetra leið. Að vísu var fyrr á öldum kirkja á Hvaleyri, annexía frá Görðum, en hún mun aðeins hafa verið fyrir Hvaleyrartorfuna, en þar var fjölbýlt áður. Þessi kirkja var lítil og lengst af hálfkirkja, þ.e. messað þar aðeins örsjaldan á ári. Hér má og geta þess, að á 16. öld var þýzk kirkja í Hafnarfirði, en hún var ekki fyrir Íslendinga, heldur þýzka kaupmenn og starfsfólk þeirra.
Hafnfirðingar reistu þjóðkirkju sína árið 1914, og er hún arftaki hinnar fornfrægu Garðakirkju, enda brauðið enn kallað Garðaprestakall. Gripir úr kirkjunni í Görðum voru þá fluttir í Hafnarfjarðarkirkju. Samt voru enn unnin ýmis prestsverk í Garðakirkju lengi: eftir þetta, allt fram yfir 1930, en mest yoru það greftranir. En nokkru síðar féll kirkjan og var rifin, svo að eftir standa naktir steinveggirnir. Nú hefur Kvenfélag Garðahrepps tekið sér fyrir hendur að endurreisa kirkjuna í Görðum. Eru framkvæmdir þegar hafnar. Verður ekki annað sagt en þetta sé hið mesta myndarframtak. Endurreist Garðakirkja væru verðugur varði um forna frægð staðarins.
Tveir prestar sátu í Görðuni, eftir sr. Þórarin Böðvarsson, báðir hinir merkustu menn, sr. Jens Pálsson 1896—1912 og sr. Árni Björnsson frá 1913 til 1928, er hann fluttist til Hafnarfjarðar.
— En hann hafði fengið leyfi safnaðarins til að sitja áfram. í Görðum, þótt kirkjan væri flutt til Hafnarfjarðar. Báðir voru þessir Garðaprestar prófastar í Kjalarnesprófastsdæmi, eins og flestir fyrirrennarar þeirra höfðu verið, Eftir að sr. Árni var flutt ur til Hafnarfjarðar, fékk Guðmundur Björnsson ábúð á jörðinni, og er hann enn bóndi í Görðum.
Eins og ég gat um í upphafi, hefur sjósókn frá Görðum, úr Hafnarfirði og af Álftanesi vafa laust rennt sterkustum stoðum undir mikilleik staðarins.
Magnús Már Lárusson prófessor telur í áðurnefndri grein, að ekki hafi verið fluttur fiskur út af þessum slóðum, að minnsta kosti ekki að ráði, heldur hafi hann mest farið á innlendan markað, og þá aðallega austur í sveitir. En hverfin kringum Garða, á Hvaleyri og Álftanesi, og seinna í Hafnarfirði, hafa myndazt vegna sjósóknar og landbúnaðar jöfnum höndum. Fólk hefur verið nægjusamt og rólegt á þessum slóðum, og sama ættin búið öld fram af öld á sömu torfu. Þannig voru mínir ættfeður í móðurætt leiguliðar og fiskimenn Garðakirkju svo langt aftur, sem rakið verður. Bjuggu þeir á ýmsum kotum í Garðahverfi, og hefur sá elzti, sem um getur í heimildum, verið landseti þeirra feðga Þorkels Arngrímssonar og Jóns Vídalíns á 17. öld. Mætti vel vera, að ættin hafi verið á torfunni frá landnámstíð. En þótt sjávarfang væri drjúgur þáttur í auðlegð Garða fyrr meir, var búskapur þar þó jafnan mikill, enda er töluvert undirlendi í Garðahverfi. Og í Görðum er getið um akuryrkju fram yfir aldamótin 1400. Land hefur minnkað fyrir neðan Garða, sjór brotið bakkana og eytt. Þannig eru tvö býlin, þar sem forfeður mínir bjuggu, Bakki og Sjávargata, horfin úr sögunni vegna sjávargangs. Einnig hefur sjórinn brotið mikið land milli Garðahverfis og þess hluta nessins, sem nú er í daglegu tali kallað Álftanes. Ekki er heldur vafi á því, að hin víðlendu holt hafa blásið upp.
Hér lýkur þessum pistlum mínum um hinn forna Garðastað, og geta þeir vart kallazt annað og meira en haldahófslegar hremsur, eins konar reytingur af reyfinu um þá jörð, sem ég hef frá barnæsku talið vera hið forna höfuðból Ásbjarnar Özurarsonar. Þótt Garðar sjálfir megi nú muna sinn fífil fegri, eru þó í fornu landi þeirra aðsetur forseta lýðveldisins, Bessastaðir á aðra hönd, en þriðji stærsti kaupstaður landsins, Hafnarfjörður, á hina.“
Heimild:
-Alþýðublaðið 19. apríl 1958, bls. 6-8.