Gerði – Kristrúnarborg
Gengið var frá gamla Keflavíkurveginum þar sem hann kemur út úr Kapelluhrauninu að vestanverðu og liðast í gegnum Selhraunið við tjarnirnar ofan við Straumsvík, neðan Gerðis.
Fallegar veghleðslur, sem enn hafa fengið að vera óhreyfðar, eru við veginn þar sem hann beygir niður með tjörnunum. Svipaðar hleðslur má einnig sjá með elsta hluta vegarins vestan Rauðamelsnámunnar í landi Óttarstaða. Ætlunin var að fylgja að mestu Alfaraleiðinni áleiðis að Lónakotsmörkum, en skoða þó hinar ýmsu minjar, sem eru beggja vegna hennar á þeiri leið.
Tóftir bæjar og útihúsa eru í Gerði. Þar er nú aðstaða Starfsmannafélags Ísals í uppgerðu húsi. Fallegar hleðslur eru með tjarnarbakkanum að norðvestanverðu. Álverið hefur nýlega keypt megnið af landinu ofan við sjálft sig, bæði af Skógrækt ríkisins og Hafnarfjarðarbæ, sem reyndar verður að telja mikil mistök af hálfu þess síðarnefnda.
Við bakkana má t.d. sjá hlaðin byrgi veiðimanna við tjarnirnar, hlaðin gerði til ullarþvotta, bryggju til slíkra verka og þar má einnig sjá hvernig ferskvatnið streymir undan hrauninu. Sagt er að Kaldá komi þarna upp, en hvað sem því líður er jafnan stöðugt rennsli ferskvatns á þessum stað. Bændur á Þorbjarnarstöðum sóttu vatn í “leysingarnarvatnið” og nýttu það til ýmissa nota. Á bökkum tjarnanna að vestanverðu má sjá tóftir útihúsa og hlaðna garða er mynda gerði.
Vörslugarðurinn um Þorbjarnastaði er tvöfaldur. Líklegt má telja að hann hafi verið hlaðinn vegna nægilegs framboðs af grjóti er verið var að rækta túnin, til að nýta til fjárrekstrar af heimatúninu í réttina norðan við túnin eða til að stækka hið ræktaða svæði með tilkomu girðinga.
Þorbjarnarstaðir fóru í eyði árið 1930, en þar hafði áður búið Þorkell Árnason frá Guðnabæ í Selvogi og Ingibjörg Jónsdóttir, dóttir Jóns Guðmundssonar, bónda og hreppsstjóra á Setbergi, Jónssonar hins fjárglögga frá Geysi í Haukadal (Tortu og Helludal), fyrrum Áslákssstöðum á Skeiðum. Ein dóttirin bjó í Urriðakoti.
Börn Þorbjarnastaðahjónanna voru ellefu að tölu. Eitt þeirra var Ingveldur Þorkelsdóttir, húsfreyja í Teigi í Grindavík, mikil öndvegiskona líkt og annað það fólk er hún átti kyn til. Þorbjarnastaðabörnin hlóðu m.a. Þorbjarnastaðaborgina undir Brunntorfum og stendur enn, heil að mestu.
Ofan við Alfaraleiðina, ofan Þorbjarnastaða, er réttin. Hún er nokkuð heilleg. Þorbjarnastaðir notuðu, auk hennar, bæði heimaréttina, norðan vörslugarðsins, sem og vorréttina skammt norðaustar, undir vesturbrún Kapelluhrauns.
Hún stendur enn og er nokkuð heilleg. Þessi rétt er með tveimur dilkum, líklega fyrir sauði, enda að mestu verið notuð sem rúningsrétt. Þá er og líklegt, miðað við mannvirkin, að hún hafi verið notuð sem stekkur og fráfærurétt um tíma. Ofar er nátthagi og styrkir það því þá tilgátu.
Miðmundarholt (-hóll), er skammt vestar. Á því er há og myndarleg varða, eyktarmark. Skammt vestan hennar eru gatnamót Alfaraleiðar og Straumsselsstígs. Sjást mótin vel, en þau eru ómerkt. Ofar má sjá vöru við selsstíginn, en handan hraunhryggs er hlaðið skjól við stíginn. Annars er selsstígurinn vel markaður í hraunið á kafla, einkum þar sem hann liggur um slétt ofanvert Selshraunið og hefur sameinast stígunum áleiðis upp í Gjásel og Fornasel, sem munu hafa verið sel frá Þorbjarnastöðum.
Nýlega var grafið í tóftir Fornasel og kom í ljós að þar reyndust vera minjar frá því á 14. eða 15. öld (BE).
Fallegar vörður varða Alfaraleiðina í gegnum tiltölulega slétt hraunið. Leiðin liggur framhjá Gvendarbrunni, vatnsstæði á tiltölulega sléttu hrauni, en norðvestan þess er hlesla fyrir fjárskjóli.
Þá liggur leiðin áfram til vesturs, um krókóttan stíg. Skammt vestan Gvendarbrunnsmá sjá móta fyrir tveimur föllnum vörðum, sem telja má að hafi verið nokkuð stórrará sínum tíma. Líklegt má telja að þær hafi haft ákveðin tilgang fyrrum, sem í dag verður að telja óljósan. Þær eru þó nálægt landamerkjum Óttarstaða og Straums.
Skammt austan Smalaskálahæða er varða við Alfaraleiðina. Þar liggur Óttarstaðaselsstígurinn þvert á leiðina. Að þessu sinni var beygt til hægi og stígnum fylgt að Óttarstaðaborginni. Fjárborgin er stundum nefnd Kristrúnarborg eftir Kristrúnu Sveinsdóttur frá Óttarstöðum, sem hlóð hana ásamt vinnumanni sínum, Guðmundir Sveinssyni, um 1870. Austan við fjárborgina eru hraunhæðir, Smalaskálahæðir. Í þeim vestanverðum var nýlega komið fyrir líki konu er myrt var í bæ Ingólfs, hins fyrsta skráða landnámsmanns á voru landi. Það mál upplýstist.
Gengð var til baka um gamla Keflavíkurveginn, framhjá Rauðamelsnámunum og að upphafsstað.