Hafnaberg – skilti

Hafnaberg

Við bílastæði á Nesvegi ofan við Hafnaberg eru tvö skilti. Annað felur í sér upplýsingar um bjargið og íbúa þess og hitt eru nánari skil á hinum síðarnefndu. Reyndar er textinn orðinn allmáður, en með því að rýna í hann af gaumgæfni má lesa eftirfarandi á textaskiltinu:

Hafnaberg

Hafnaberg – skilti.

„Bjargið er myndað úr basalt hraunlögum sem mynda syllur. Sökum þess hve vogskorið það er býður það upp á gott aðgengi til fuglaskoðunar og í því má sjá flestar tegundir íslenskra bjargfugla.

Efst með brúnum verpa fýlar á breiðum hraunsyllum og í litlum skútum. Flestir taka þó eftir ritunni, bæði er mest af henni og að auki er hún hávær fugl. Bjargið ómar af hástemmdum klið frá ritum, blönduðum lágstemmdari röddum svartfuglanna. Rituhreiðrin eru dreifð um allt bjargið og á mjóum syllum byggir ritan upp hreiður úr sinu og gróðri, sem límd eru saman með driti. Langvían er næst ritunni að fjölda. Langvían er frekar hnappdreifð og býr í þéttu sambýli á tiltölulega breiðum syllum og skútum.

Hafnaberg

Hafnaberg – skilti.

Í bjarginu eru hellar með þéttri langvíubyggð. Stuttnefjan verpir á þrengri syllum en langvían og ekki í eins miklu þéttbýli. Stuttnefjum hefur fækkað mikið í Hafnabergi undanfarna áratugi. Eggjum langvíu og stuttnefju er verp beint á grjótsylluna og skurn eggjanna er frekar þykk. Litamynstur þeirra er fjölbreytt og talið að foreldrarnir þekki egg sitt á því. Lögum eggjanna er þannig að þau velta ekki beint undan halla, heldur í hring.

Meðal annarra fugla sem verpa í bjarginu er álkan, en erfitt getur verið að koma auga á hreiður hennar þar sem það er oftast inni í urðum og skútum.

Hafnaberg

Hafnaberg – textinn.

Lundinn verpir einnig í bjarginu í sprungum og holum, en pörin eru nokkuð fá. Sama er að segja um teistur sem verpa í urðum neðst í bjarginu.

Varp hefst í bjarginu seinni hluta maí og liggja svartfuglar á eggjum í rúma 30 daga. Ungar svartfuglanna hoppa svo ófleygir úr bjarginu um 20 daga gamlir og halda með foreldrunum á haf út. þegar ungarnir hoppa heyrast mikil hljóð í foreldrunum þegar þau hvetja ungana til dáða og tíst í unganum á móti. Þetta gerist helst um lágnættið þegar farið er að skyggja svo skúmar og aðrir ræningjar komi síður auga á ungana þegar þeir taka fyrstu skrefin.“

Hafnaberg

Hafnaberg – hreiður.