Hafnarfjörður – upphaf og verslun
Hafnarfjörður skerst inn úr sunnaverðum Faxaflóa, og eru takmörk fjarðarins Hvaleyrarhöfði að sunnan, en Bali eða Dysjar að norðan. Hafnarfjarðar er fyrst getið í Hauksbókartexta Landnámu, en þar segir svo um brottför Hrafna-Flóka og förunauta hans frá Íslandi:
“Þeim beit eigi fyrir Reykjanes, og sleit frá þeim bátinn og á Herjólf, – hann kom í Herjólfshöfn. Flóki kom í Hafnarfjörð, – þeir fundu hval á eyri einniút frá firðinum og kölluðu þar Hvaleyri – þar fundust þeir Herjólfur.” Menn hafa leitt að því getum, að Herjólfshöfn, sem segir frá í Landnámu, sé Hvaleyrartjörn, en hún var höfnin í Hafnarfirði, sem fjörðurinn dregur nafn sitt af.
Í landnámu segir, að Hafnarfjörður hafi verið í landnámi Ásbjarnar Özurarsonar, bróðursonar Ingólfs Arnarssonar. Ásbjörn nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, allt Álftanes og bjó á Skúlastöðum.
Enginn veit lengur, hvar sú jörð var, en giskað hefur verið á, að hún hafi verið, þar sem nú eru Garðar á Álftanesi. Að öðru leyti fer fáum sögum af Hafnarfirði, frá því að land byggðist og allt fram til upphafs 15. aldar. Hans er hvergi geti í fornöld í sambandi við verslun og siglingar, og er sennilegt, að strjálbýlt hafi verið við fjörðinn á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, enda voru fiskveiðar lítið stundaðar hér á landi á því tímabili miðað við það, sem síðar varð. Það er athyglisvert, að Hafnarfjarðar er þá fyrst getið að marki í heimildum, þegar fiskafurðir verða aðalútflutningsvara landsmanna í stað landbúnaðarafurða. Þessi umskipti urðu um 1400. Þá varð skreið eftirsóttasta útflutningsvara Íslendinga í stað vaðmáls.
Sökum legu sinna og ágætra hafnarskilyrða frá náttúrunnar hendi varð Hafnarfjörður ein helsta verslunar- og fiskveiðihöfn landsins laust eftir 1400. Hafnarfjarðar var fyrst getið í sambandi við verslun 1391. Þá kom þangað kaupskip frá Noregi, og þremur árum síðar lagði norskt skip úr höfn í Hafnarfirði. Þeirra eru einu dæmin, sem kunn eru, um siglingar til Hafnarfjarðar á 14. öld. Ljóst er, að Hafnarfjörður var ekki jafnþekkt verslunarhöfn á þessum tíma og síðar varð, enda voru siglingar hingað til lands mjög stopular á 14. öld, og sum árin féll sigling alveg niður.
Í upphafi 15. aldar hófu Englendingar fiskveiðar og verslun hér við land, og þá hófst nýtt tímabil í sögu Hafnarfjarðar. Fyrsta enska kaupskipið, sem sögur fara af, kom til Hafnarfjarðar árið 1413.
Þegar Englendingar hófu siglingar hingað til lands um 1412, varð gjörbreyting til batnaðar á verslunarháttum, og fyrir vikið versluðu Íslendingar mikið við þá, en Danakonugur reyndi hins vegar að halda versluninni við Ísland í sama horfi og áður, þ.e. að einskorða hana við Björgvin í Noregi.
Þegar fram sótti, voru Englendingar ekki sérlega vel þokkaðir meðal Íslendinga, því þeir þóttu yfirgangssamir og áttu það til að ræna skreið landsmanna. Sló í brýnu með Englendingum og Íslendingum á ofanverðir 15. öld, e.t.v. oftar en einu sinni.
Í kringum 1468 hófu Hansamenn siglingar til Íslands, Í fyrst komu skip þeirra frá Björgvin, en fljótlega hófust siglingar frá ýmsum þýskum Hansaborgum, svo sem Lýbiku, Hamborg og Brimum. Hörð samkeppni var milli Englendinga og Þjóðverja um bestu verslunarstaðina og þá einkum Hafnarfjörð. Kunn eru átökin þar 1475 og atlagan að Básendum 1490 (sjá Grindavíkurstríðið) eru urðu upphafið að endalokum á verslun Englendinga hér á landi.
Þjóðverjar virðast hafa hrakið Englendinga frá Hafnarfirði, Straumsvík og Básendum um og eftir 1480 og þegar kom fram á fyrri hluta 16. aldar höfðu þeir náð undirtökunum á verslunni hér á landi.
Hafnarfjörður var aðalhöfn Hamborgaramanna hér á landi á ofanverði 15. öld og alla 16. öld, enda engrar íslenskrar hafnar getið jafnoft í verslunarskjölum Hambogarkaupmanna og Hafnarfjarðar.
Á fyrri hluta 16. aldar færðust þýsku kaupmennirnir í aukana. Þá fóru þeir að hafa vetursetu hér á landi og ráku umfangsmikla útgerð á Suðurnesjum í trássi við bann konungs. Nú hóf konungsvaldið tilraunir til að hnekkja veldi Þjóðverja. Fyrsta skrefið í þá átt var að hirðstjóri konungs, Otti Stígsson, gerði árið 1543 upptæka alla báta þeirra á Suðurnesjum og aðrar eignir. Vorið 1550 handtóku þeir umboðsmann hirðstjórans, Kristján skrifara, en létu hann lausan í Hafnarfirði um sumarið, þegar hirðstjóri kom til landsins.
Um þessar mundir fylgdu Danakonungur þeirri stefnu að koma versluninni til Íslands í hendur danskra kaupmanna. Friðrik 2. Tók upp þá nýbreytni að selja einstakar hafnir á leigu. Við þessa ráðstöfun jókst vald konngs yfir versluninni og þetta var undanfari þess, að Danir tækju hana alfarið í sínar hendur. Kristján 4. Danakonungur gaf út tilskipun um einokunarverslun Dana hér á landi árið 1602. Þá varð úr sögunni hið beina verslunarsamband milli Íslands og Þýskalands og um leið Hafnarfjarðar og Hamborgar.
Verslunarstaðurinn í Hafnarfirði hét Fornubúðir og var á Háagranda, ysta tanga Hvaleyrargranda, gegnt Óseyri. Á fyrri hluta einokunartímabilsins, 1602 – 1787, var Hafnarfjörður helsti verslunarstaður á landinu.
Á árunum 1684-1732 var í gildi svokölluð umdæmaverslun. Landinu var skipt í mörg verslunarumdæmi, og var landsmönnum bannað að versla utan þess umdæmis, sem þeir voru búsettir í, að viðlögðum algerum eignamissi og þrælkun í járnum á Brimarhólmi. Kaupsvæði Hafnarfjarðar náði yfir Kálfatjarnar-, Garða- og Bessastaðasóknir, og voru íbúar þar árið 1702 samtals 980.
Árið 1774 tók konungur við versluninni, og breytist þá ýmislegt Íslendingum í hag.
-Úr Saga Hafnarfjarðar – Ásgeir Guðmundsson – 1983.