Hálshögg í Straumi
Í bókinni „Neistar – úr 1000 ára lífsbaráttu íslenskrar alþýðu“ eru ýmsir mannlífsþættir. Einn fjallar um afleiðingar af aftöku Jóns Arasonar og tengist Straumi. Textinn er tekinn upp úr Grímstaðaannál. Jafnan hefur því verið haldið á lofti að kapellan í Kapelluhrauni hafi tengst því atviki, en þar er um misskilning að ræða.
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að einn af mönnum Kristjáns skrifara hafi verið drepinn í Kapelluhrauni og grafinn í kapellunni til hefnda eftir Jón biskup Arason og syni hans. Rannsókn Kristján Eldjárns í kapellunni árið 1950 gaf þó enga vísbendingu um slíkt. Það, sem ekki kom fram í rannsókninni, enda ekki fyrirséð, var sú mikla eyðilegging á merkilegu minjasvæði er varð í algleymi álversframkvæmdanna á sjöunda áratug síðustu aldar. Ef bara einhver svolítil hugsun hefði kviknað í kolli þeirra er vit hefðu átt að hafa á slíku þá værum við öllu menningarsögulega ríkari nú.
Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnarstaði segir m.a.: „Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys.“ Kapellan, þ.e. húsið, sem þarna var, gæti þess vegna hafa verið hlaðin til minningar um atvikið. Líklegt má telja að aftakan hafði verið framkvæmd þarna skammt frá, en líkamspartarnir síðan skildir eftir við Alfaraleiðina er lá framhjá kapellunni, öðrum til varnaðar. Fyrrum lá gata af leiðinni niður í Lambhagavík, sem mun hafa verið aðallendingastaður verslunarinnar í Straumsvík fyrrum. Gísli Sigurðsson nefndi hana Ólafsstíg, sbr.: „Uppi á Brunabrúninni er líka Fiskabyrgið, þar sem fiskur var kasaður hér í eina tíð og síðan hertur. Þarna uppi voru einnig tvö til þrjú fjárhús. Sunnan við þau lá stígur austur eftir hraunhrygg allháum. Var hann lagður hellum langt austur. Gísli Sigurðsson segir, að hann hafi heitið Ólafsstígur, en það mun vera rangt. Ólafsstígur lá upp á hraunið hjá kálgörðunum í Litla-Lambhaga.“ Þá segir að „Austurtúngarðurinn [á Þorbjarnarstöðum var rétt norðan Alfaraleiðarinnar] lá úr Beinaviki upp á klettastall og suður eftir honum suður á Brunann.“ Örnefnið „Beinavik“ er hér ekki skýrt nánar, en það mun hafa verið í krikanum þar sem þjóðleiðin lá upp á Brunann. Það gæti gefið til kynna aftökustaðinn, enda jafnan notaður sem áningastaður. Ferskt vatn kemur þarna undan hrauninu og skjólgott er þar fyrir norðanáttinni.
„1551 – Bóndinn þar á Kirkjubóli á Miðnesi og hans maður, Hallur að nafni, hann bjó í Sand(hóla)koti, var ráðsmaður bóndans, þeir voru báðir teknir um sumarið eftir og áttu að flytjast til alþingis. En þeir voru þverbrotnir og bágir viðureignar, fluttu þá að straumi, og voru þeir þar báðir hálshöggnir. Þar var þá kaupstefna [eitt af herskipum Dana kvað þá hafa legið þar, en venjulega kaupstefnan var öll í Hafnarfirði]. Höfuðin voru fest á stengur, en bolirnir á hjóli sundur slitnir, og sá til merkis meir en 20 eður 30 ár. Margur galt þá, bæði sakaður og saklaus, fyrir norðan og sunnan, en Danir tóku sér mestar eignir þeirra feðga. Böðullinn, sem þá feðga hjó í Skálholti, hét Jón Ólafsson. En þegar norðlenzkir riðu frá Kirkjubóli eftir hefnd þeirra, fundu þeir þennan Jón á Álftanesi. Tóku þeir hann og héldu á honum túlanum og helltu ofan í hann heitu biki [blýi, segja aðrir]. Með það lét hann sitt líf, en þeir riðu norður.“
Heimild:
-Björn Sigfússon – Neistar, úr þúsund ára lífsbaráttu íslenskrar alþýðu, 1044, bls. 161 (Grímsstaðaannáll).
-Örnefnalýsingar fyrir Straum og Þorbjarnarstaði.
-Árbók Hif 1954.