Heiðmörk – formleg opnun

Heiðmörk

Í Vikunni árið 1951 var m.a. fjallað um formlega opnun Heiðmerkur: „Heiðmörk var formlega opnuð Reykvíkingum með liátíðlegri athöfn, sem fram fór á Mörkinni um Jónsmessuna í fyrra. Ræður voru fluttar, lúðrar þeyttir og ættjarðarljóð sungin. Borgarstjórinn í Reykjavík flutti vígsluræðu og gróðursetti eina Sitkagrenisplöntu nálægt ræðustólnum, til merkis um það, að Reykvíkingum væri ætlað að skrýða Heiðmörk vænum skógi. Sjálf var Heiðmörkin í fögrum sumarskrúða og veður hið ákjósanlegasta.
heidmork-222Senn munu Reykvíkingar flykkjast inn á Heiðmörk í mörgum hópum til skógræktarstarfa — í annað sinn.
Tuttugu og átta félög Reykvíkinga námu land á Heiðmörk í fyrra vor, spildur frá fjórum upp í tuttugu hektara að stærð, sem félögin hafa eignað sér. Vafalaust hugsa allir Heiðmerkurlandnemar gott til þess, að eiga margar ánægjustundir þar efra á ókomnum árum. En Heiðmerkurlandnemar búa jafnframt í haginn fyrir ókomnar kynslóðir Reykvíkinga með því að planta skógi á Mörkinni. Í fyrra voru gróðursettar á Heiðmörk rúmlega 50 þúsund plöntur, mestmegnis fura, og í vor er ráðgert að gróðursetja þar um 100 þúsund plöntur, aðallega furu og greni, enda munu væntanlega 10 til 15 félög bætast við landnemahópinn í vor. Heiðmörk er eign Reykjavíkurbæjar, en í umsjá Skógræktarfélags Reykjavíkur, sem jafnframt hefur forustu um skógræktarframkvæmdir á Mörkinni.
Reykjavíkurbær veitir Skógræktarfélagi Reykjavíkur ríflegan styrk til starfsemi sinnar, og veitir auk þess fé til skógræktar og annarra framkvæmda á Heiðmörk. Þannig er því varið, að Skógræktarfélag Reykjavíkur getur látið Heiðmerkurlandnemum í té ókeypis plöntur til gróðursetningar. Mestur hluti þeirra plantna sem gróðursettar eru á Heiðmörk eru uppaldar í Fossvogi, en þar eru nú yfir hálf milljón plantna í uppeldi.
heidmork-treSkógræktarfélag Reykjavíkur verður fimm ára í október næstkomandi. Stjórn þess er þannig skipuð: Formaður: Guðmundur Marteinsson verkfræðingur. Varaformaður: Helgi Tómasson dr. med. Ritar: Ingólfur Davíðsson magister Gjaldkeri: Jón Loftsson stórkaupmaður. Meðstjórnandi: Sveinbjörn Jónsson hæstaréttarlögmaður. Framkvæmdarstjóri félagsins er Einar S. E. Sæmundsen skógræktarfræðingur. Fyrir tveimur árum voru tiltölulega mjög fáir Reykvíkingar sem nokkurntíma höfðu ferðazt um landssvæði það sem kallað er Heiðmörk, eða vissu nokkur veruleg deili á því, en á síðasta ári varð á þessu gerbreyting. Mikill fjöldi Reykvíkinga lagði leið sína inn á Heiðmörk allt sumarið og fram á haust, og allir sem þangað koma undrast og dáðst að því hve þarna er fallegt og viðkunnanlegt. Mikill meirihluti þeirra sem á Heiðmörk komu í fyrra sumar munu þó aðeins hafa farið um takmarkaðan hluta hennar, en vafalaust læra Reykvíkingar smám saman færa sér í nyt og meta að verðleikum þessa víðáttumiklu og vingjarnlegu landareign sína.“

Heimild:
-Vikan, 14. árg. 1951, 19. tbl, bls. 1 og 3.

Heiðmörk

Heiðmörk – tóft.