Helgadalur – stekkur – Rauðshellir – Valaból – Tröllin

Helgadalur

Gengið var frá Kaldá til austurs, yfir hlaðna vatnsstokkinn frá fyrstu tímum vatnsveitunnar skömmu eftir þarsíðustu aldarmót (1916), framhjá opi Níutíumetrahellisins og áfram ofan barms Helgadalsgjár að fallegum reglulega lögðum klettum mitt á milli Búrfellsgjáar og Helgadals.

helgafellshellar-221

Í Rauðshelli.

Frá þeim sést gamla Selvogsgatan mjög vel þar sem hún liggur vestan Smyrlabúðar og á ská til suðurs yfir Mosana að Helgadal. Þar liggur hún niður með austasta Kaldárhnúknum og síðan áfram á ská upp gróna hlíðina í suðaustanverðum dalnum. Þar liggur gatan svo til alveg við forna tótt, sem þar er uppi í hlíðinni. Önnur gata hefur myndast síðar austan dalsins, en hún liggur austur fyrir Helgadalshæðir og áfram áleiðis upp í Valaból og Mygludali. Frá klettunum var líka stórkostlegt útsýni að Búrfelli, sem glitraði í kvöldsólinni.
Fyrir neðan klettana er hlaðinn stekkur, greinilega mjög gamall. Hann er ekki til, þ.e. hans hefur hvergi verið getið. Skammt sunnan við stekkinn er op Rauðshellis og skammt austar op Hundraðametrahellisins. Ekki var farið inn í hellana að þessu sinni, enda veðrið utan þeirra frábært.
Á meðan áð var í hlíðinni ofan við hellana kom þar að hópur fólks, greinilega mikið útivistarfólk í grænum, gulum, bláum og rauðum rándýrum úlpum, vatnsþolnum göngubuxum, gönguskóm af dýrustu gerð og göngustöfum í stíl við fatnaðinn. Það hlaut þó hafa fengið tilboð í bakpokana því þeir voru allir eins. Fólkið virtist hvorki hafa áhuga á hinum fornu tóttum í Helgadal né hellunum skammt frá. Kannski vissi það ekki af hvorutveggja. Það hafði elt göngustíginn.
“Heyrðu!”, sagði sá sem fremstur gekk við einn í hópnum. “Veist´u hvað þetta fjall heitir?”, og benti á Helgafell.
“Gott kvöld”, svaraði sá, sem ávarpaður var. Honum var litið niður á gallabuxurnar og strigaskóna sína. Og íslenska lopapeysan hans virtist alveg út úr kortinu þessa stundina. “Þetta fjall…”, svaraði hann, leit upp og horfði á manninn. “Þetta litla fjall getur nú ekki heitið mikið”. FERLIRsþátttakandinn leit á einn félaga sinn og brosti. Hann hafði greinilega heyrt þennan einhvers staðar áður.

Raudshellir-221

Í Rauðshelli

“Veit eitthvert ykkar hvað þetta fjall heitir?”, spurði þá maðurinn og snéri sér að öðrum FERLIRsþátttakendum.
“Nei, við vorum að koma”, svaraði ein í hópnum. “Ég er úr Reykjavík, sjáðu til. Ég veit bara að þetta er ekki Hekla”, bætti hún við. “Hvaðan eruð þið?”, spurði hún síðan.
“Við erum úr Hafnarfirði”, svaraði einn úr hinum hópnum.
“Hafið þið búið það lengi”, var þá spurt.
“Þessi hjón hafa búið það í þrettán ár”, svarað

i foringinn og benti á par í stíl, “en við hin höfum bara búið þar í ellefu ár”, bætti hann við. “Við ákváðum nýlega að byrja að hreyfa okkur svolítið og höfum gengið um svæðið þarna”. Hann benti á Kaldársel. “Og svo höfum við gengið upp gjá einhvers staðar þarna”, sagði hann og benti í áttina að Búrfellsgjá. Aðrir snéru sér eftir því sem maðurinn benti.
Búnaður fólksins var greinilega góður, en nöfnin á landslaginu yrði því bara byrði.
“Hvert eruð þið að fara?”, spurði FERLIRsþátttakandinn.
“Þangað”, svaraði maðurinn og benti í átt að Valahnúkum.
“Í Músarhelli?”
“Eru mýs þarna”, spurði þá ein í hópnum. Angistin skein úr augum hennar.
“Eða ætlið þið kannski að skoða tröllin”?, spurði annar.
Fólkið leit hvert á annað. “Eigum við ekki bara að fara til baka”, spurði sá yngsti í hópnum og leit á foringjann.

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

“Hafið þið reynt að skoða landakort”?, spurði þá einn FERLIRsþátttakandi og vildi greinilega reyna að gera gott úr öllu saman. Óþarfi að hræða byrjendur. “Það, sko, er alltaf betra að vita hvar maður er staddur”, bætti hann við og brosti.
Hin litu hvert á annað. Síðast sást til ofurútbúna fólksins þar sem það beygði vestur með vatnsverndargirðingunni, stystu og öruggustu leið að bílunum. Þau hafa sennilega ætlað að ná sér í landakort.
“Það mun líklega enginn trúa okkur ef við segjumst hafa séð álfa í þessari ferð”, varð einum að orði.
FERLIRsþáttakendur gengu hins vegar áleiðis að Valahnúkum, komu við í Valabóli og gengu síðan upp skarðið að Tröllunum, háum grannskornum berggangi þvert í gegnum hnúkana. Tröllafjölskyldan tók sig einstaklega vel út sem hún stóð þarna hnarrreist. Hrafnshreiður er í hæsta Hnúknum. Krunkið í krumma bergmálaði í kyrrðinni. Helgafell baðaði sig í kvöldsólinni.
“Það þarf eiginlega að merkja þetta betur”, varð einum að orði. “Hér er ekkert skilti sem segir hvað fellið heitir”. Brúnsvört lopapeysan hans féll vel inn í landslagið.
Gengið var eftir vegarslóða niður að Kaldárbotnum og að upphafsstað.
Gangan tók rúmlega klukkustund. Veður var frábært – eins og áður hefur komið fram.

Helgafell

Helgafell – séð frá Valahnúkum.