Herbúðir í Hafnarfirði – Friðþór Eydal

Hafnarfjörður

Friðþór Eydal hefur tekið saman ritsmíð um „Herbúðir í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi í síðari heimsstyrjöld„. Hér verður gripið niður í umfjöllun hans um herbúðirnar í Hafnarfirði með leyfi höfundar; „Þér er sjálfsagt að nota efnið eins og þú vilt…“.

Friðþór Eydal

Friðþór Eydal er fæddur 23. september 1952.
Hann hefur starfað sem upplýsingafulltrúi
varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli í á þriðja
áratug. Friðþór mun lét af störfum þegar
varnarliðið var að fullu farið á brott en
Friðþór hefur unnið mikið og gott starf sem
upplýsingafulltrúi í gegnum árin. Friðþór er
mikill áhugamaður um sagnfræði og hefur
skrifað um hina ýmsu atburði
hernámsssögunnar.

Fyrstu bresku hermennirnir tóku sér bólfestu í Hafnarfirði og nágrenni 17. maí 1940 þegar vika var liðin frá hernámsdeginum. Voru það liðsmenn 1/7. herfylkis (Battalion) Duke of Wellington fótgönguliðssveitarinnar (Regiment), alls um 700–800 að tölu, sem kom til landsins sama dag ásamt öðrum liðsveitum 147. stórfylkisins (147 Infantry Brigade) sem hóf varnarviðbúnað á Suðvesturlandi. Aðalstöðvar herliðsins sem verja skyldi þýskum hersveitum landtöku á Álftanesi og í Hafnarfirði voru fyrst um sinn í Flensborgarskóla en fluttu brátt í klaustur Karmelsystra sem nýreist var Kvíholti á svonefndum Öldum í landi Jófríðarstaða ofan við Hafnarfjörð. Tók breska herstjórnin klaustrið á leigu í þessu skyni og reisti herbúðir á lóðinni. Herliðið hafðist í fyrstu að mestu við í tjöldum en reisti síðan allmargar herbúðir auk varðstöðva víða með ströndinni og á hæðum þar sem vel sást yfir, t.d. á Ásfjalli.
Kanadískar hersveitir komu einnig til landsins sumarið 1940 og stöldruðu við til hausts á leið sinni til Bretlands. Var einu vélbyssufylki hersveitarinnar The Queen‘s Own Cameron Highlanders of Ottawa falið að vera breska fótgönguliðinu í Hafnarfirði og nágrenni til stuðnings þar til það hélt einnig af landi brott í aprílmánuði árið eftir.
HernámÍ marsbyrjun árið 1941 tók 11. fylki hersveitarinnar The Durham Light Infantry, sem tilheyrði 70. stórfylki breska hersins, við vörnum svæðisins en í stað kanadíska vélbyssufylkisins kom eitt undirfylki 1/9. herfylkis The Manchester Regiment. Tók samskonar undirfylki úr 2. herfylki The Kensington Regiment við í september sama ár.
Skipti urðu aftur á breska fótgönguliðinu í síðari hluta október 1941 þegar herfylkið 1st Battalion Tyneside Scottish, The Black Watch (Royal Highland Regiment), tók við vörnum svæðisins. Liðsmenn voru flestir frá Norðaustur-Englandi líkt og aðrir félagar þeirra í 70. stórfylkinu, en herfylkið tengdist skosku hersveitinni í heiðursskyni og bar einkennisbúning þess.

Hernám

Hafnarfjörður – uppdráttur 1941.

Dvöl „Skotanna“ var þó ekki langvinn því bandaríska herfylkið, 1st Battalion, 10th Infantry Regiment, sem kom til landsins í september 1941, tók við vörnum Hafnarfjarðar og nágrennis 18. desember sama ár. Gegndi bandaríska fótgönguliðsfylkið starfinu þar til í ágústmánuði árið 1943 þegar það hélt af landi brott og flestar hersveitir yfirgáfu Hafnarfjörð. Ólíkt breska og kanadíska hernum tilheyrðu vélbyssuskyttur Bandaríkjahers fótgönguliðsfylkjunum sjálfum en ekki sérhæfðum herfylkjum sem deilt var milli fótgönguliðssveita.
Bretar reistu strandvarnabyssuvígi á Hvaleyrarhöfða sumarið 1940 til varnar innsiglingunni í Hafnarfjörð, og stórskotaliðsveit búin fallbyssum sem dregnar voru af torfærubifreiðum tók sér stöðu ofan við bæinn. Stórar loftvarnabyssur voru ekki settar upp í Hafnarfirði en tveimur slíkum var komið fyrir á Garðaholti í júlí 1940 og fjórum til viðbótar við Breiðabólsstaði á norðaustanverðu Álftanesi sumarið 1941.
HvaleyriAuk fyrrgreindra liðsveita voru stuðningssveitir sem önnuðust verklegar framkvæmdir, viðgerðir, uppskipun, flutninga, birgðahald og aðra þjónustu við fótgöngulið og stórskotalið.
Bandaríkjamenn tóku við allri starfsemi Breta í Hafnarfirði og nágrenni vorið 1942 þegar hernámi þeirra lauk formlega þótt liðsveitir breska flughersins og flotans störfuðu áfram í landinu við varnir skipalesta á siglingaleiðum á Norður-Atlantshafi fram yfir stríðslok.
Bandaríkjaher hóf sjálfur að tygja sig á brott sumarið 1943 þegar meginliðsaflinn sigldi til þjálfunar í Bretlandi fyrir innrásina á meginland Evrópu líkt og herafli Breta árið áður. Yfirgaf meginþorri herliðsins í Hafnarfirði og nágrenni bækistöðvar sínar þá um sumarið en við tóku tvö undirfylki 29. fótgönguliðssveitar, 29th Infantry Regiment, þar til sú hersveit hélt einnig af landi brott í apríl 1944.
ÁlftanesÖndvert við það sem oft hefur verið haldið fram voru gerðir leigusamningar við eigendur fyrir hvaðeina sem herinn fékk til afnota í landinu og greitt fyrir eins og íslensk og bresk lög kváðu á um. Bandaríkjaher tók síðar við flestum leigumálum Breta. Landeigendur komu e.t.v. í sumum tilvikum litlum vörnum við þegar herstjórnin taldi brýna þörf fyrir afnot en greiðslur voru í samræmi við það sem tíðkaðist í landinu, t.d. fyrir afnot af ræktuðu eða óræktuðu landi og húseignum. Verðgildi leigugreiðsla þvarr þó almennt með síaukinni dýrtíð þegar leið á styrjöldina og fékkst seint og illa uppfært, en skaðabótanefnd á vegum herstjórnarinnar og íslenskra stjórnvalda skar úr ágreiningsmálum.
ÁsbúðMikil húsnæðisekla varð í þéttbýli á stríðsárunum vegna gríðarlegs atvinnuframboðs og fólksflutninga úr sveitum. Þegar meginþorri herliðsins var horfinn af landi brott haustið 1943 leituðu bæjaryfirvöld í Reykjavík, Hafnarfirði og á Akureyri liðsinnis ríkisstjórnarinnar til þess að fá yfirgefnar herbúðir til afnota fyrir fólk í húsnæðisleit og samdist svo um við bandarísku herstjórnina. Í kjölfarið samþykkti Alþingi lög í apríl 1944 sem heimiluðu ríkisstjórninni að kaupa mannvirki hersins og taka að sér að bæta spjöll sem orðið hefðu á landi sem herinn hefði notað samkvæmt leigusamningum við landeigendur og ekki höfðu fengist bætt af leiguskimálum. Samdist svo við ríkisstjórn Bandaríkjanna að íslenska ríkið annaðist kaup og endursölu á öllum fasteignum og búnaði sem Bandaríkjaher vildi selja til þess að tryggja innheimtu lögboðinna aðflutningsgjalda.
HafnarfjörðurSkipaði ríkisstjórnin Nefnd setuliðsviðskipta til þess að annast viðskiptin. Ríkissjóður fékk eignirnar á vægu verði en yfirtók skuldbindingar Bandaríkjahers gagnvart landeigendum. Önnur nefnd, Sölunefnd setuliðseigna, fékk það hlutverk að annast sölu á fasteignum hersins og standa straum af kostnaði við að bæta skemmdir á landeignum. Í fyrirmælum Björns Ólafssonar fjármálaráðherra til nefndarinnar var lögð sérstök áhersla á að vel væri gengið frá og afmáð eftir því sem best væri unnt öll ummerki um herstöðvar og landinu komið í sómasamlegt horf.

Hafnarfjörður

Ásfjall – herminjar ofan camp Cloister – uppdráttur ÓSÁ.

Óhægt þótti fyrir nefndina sjálfa að annast framkvæmdir og bæta skemmdir vítt og breitt um landið. Var því ákveði að semja við kaupendur, t.d. á landsbyggðinni, sem aðallega voru sýslufélög og sveitarstjórnir, um að þeir önnuðust landbætur og tækju að sér aðrar skuldbindingar vegna landeigna sem nefndinni báru. Þó var einnig nokkuð um að einstakir landeigendur fengju peningagreiðslur eða mannvirki á landi sínu til eignar gegn því að standa sjálfir að niðurrifi og frágangi fyrir eigin reikning. Er það einkum á slíkum stöðum sem minjar um hernaðarumsvifin er enn að finna, enda tóku sumir landeigendur mannvirki í eigin þjónustu eftir atvikum og/eða hirtu ekki um að afmá ummerkin líkt og um var samið.

Hvaleyri Ridge, síðar Hvaleyri
HvaleyriBúðirnar voru reistar árið 1940 fyrir breskt fótgönguliðsundirfylki (infantry company) úr herdeildinni The Duke of Wellington Regiment. Sumarið 1941 tóku við liðsmenn Durham Light Infantry og síðar sama ár Company B úr 10. fótgönguliðssveit (regiment) Bandaríkjahers og dvaldi þar fram í júlímánuð 1943 þegar Company F, úr 29. fótgönguliðssveit tók við og hafði þar aðsetur uns hersveitin hélt af landi brott í apríl 1944. Í búðunum voru 27 braggar og 3 aðrar byggingar samkvæmt heimildum Sölunefndar setuliðseigna (27+6 eftir samkvæmt skýrslu Óskars Jónssonar til bæjarstjórnar um bragga í bænum og nágrenni 31. júlí 1944).

Hvaleyri Farm, síðar West End

Hvaleyri

Hvaleyri – herbúðir.

Í Hvaleyrartúninu þar sem var afleggjari heim að bænum og nú er austasti hluti golfvallarins, næst Hvaleyrarbraut.
Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir bresku stórskotaliðssveitina 201 Heavy Battery, Royal Artillery sem starfrækti tvær strandvarnabyssur með 4,7 þumlunga hlaupvídd á Hvaleyrarhöfða til varnar innsiglingunni í Hafnarfjarðarhöfn. Nafni sveitarinnar var breytt í október sama ár og nefndist hún þá D Coast Battery en 186 Coast Battery tók við rekstri virkisins í júlí 1941. Vorið 1942 tók bandaríska stórskotaliðssveitin Battery B úr 25th Coast Artillery Battalion við af Bretum og breytti nafni herbúðanna í Camp West End þegar Camp Hvaleyri Ridge varð Camp Hvaleyri.
HvaleyriBandríkjaher starfrækti strandvarnavígið þar til í júlí 1943 þegar byssurnar voru teknar úr notkun. Liðsmenn ofangreindra stórskotaliðssveita voru jafnan um 100 og í búðunum voru 24 braggar og nokkrar fleiri byggingar, þ. á m. steinsteypt og hlaðið baðhús sem enn stendur.
Strandvarnabyssuvígði á Hvaleyrarhöfða 11. júní 1942. Yst á sjávarbakkanum standa tvö skýli fyrir öfluga ljóskastara sem lýstu upp skotmarkið. Vígið samanstóð af tveimur fallbyssum með 4,7 þuml. hlaupvídd.

Cloisters

Hafnarfjörður

Camp Cloister.

Klaustrið og búðirnar ofan við það voru aðalstöðvar herliðsins sem var til varnar Hafnarfirði og nágrenni, fyrst 1/7 Duke of Wellington Regiment frá sumrinu 1940 þar til í júní 1941 þegar 11 Durham Light Infantry tók við, síðan 1st Tyneside Scottish „The Black Watch“ frá október sama ár og loks 1st Battalion, 10th Infantry Regiment Bandaríkjahers frá desember 1941 til ágúst 1943. Hluti fyrrnefndra kanadískra og breskra vélbyssufylkja hafði einnig aðsetur í Camp Cloisters. 21 braggi var í búðunum og í tíð Bandaríkjahers höfðu að jafnaði um 170 hermenn þar aðsetur.

Green (áður Quarry og Liphook)
HafnarfjörðurBandaríkjamenn sameinuðu þessar tvær búðir undir nafninu Green árið 1942.
Liphook stóð vestanvert við horn Vesturgötu og Vesturbrautar ofan við ytri bryggjuna í Hafnarfirði, nánar til tekið í svonefndu Ölduporti við húsið Öldu þar sem Vélsmiðjan Klettur var síðar til húsa (Óskar 1944: Hellyersport). Búðirnar voru reistar síðari hluta ársins 1940 og þar hafði aðsetur uppskipunarflokkur breska hersins úr 1007 Docks Operations Company. Í júlímánuði 1942 var þar komin slökkviliðssveit Bandaríkjahers, 10th Fire Brigade, sem dvaldi þar til ársins 1943 (Gamla slökkvistöðin í Hafnarfirði stóð þar skammt frá).

Hafnarfjörður

Vesturbærinn.

Quarry stóð vestanvert við horn Vesturgötu og Merkurgötu ofan við innri bryggjuna, Nýubryggju. Kampurinn reis einnig síðla árs 1940 og hýsti fótgönguliðsflokk (Platoon) um 30 manna úr 1/7 Duke of Wellington Regiment. Í júní 1941 tók við samskonar sveit úr 11 Durham Light Infantry Regiment og í desember kom þangað um 40 manna bandarískur fótgönguliðsflokkur úr Company C, 10th Infantry Regiment og dvaldi fram eftir ári 1942 eða til vors 1943 þegar hann sameinaðist Company C í Camp Gardar á Álftanesi.
Hafnarfjarðarbær fékk búðirnar leigðar af hernum árið 1943 og endurleigði til íbúðar vegna húsnæðiseklu í bænum ásamt Camp Milnsbridge við Strandgötu. 11 braggar voru í búðunum og 6 lítil hús af öðrum gerðum.

Camp Milnsbridge
HafnarfjörðurNorðan við húsið Bristol við Strandgötu (nú Suðurgata 24) þar sem síðar var Vélsmiðja Hafnarfjarðar og Ásmundarbakarí og enn síðar Listaportið og náði einnig yfir svæðið þar sem íþróttahús Hafnarfjarðar stendur nú.
Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir undirfylki (company) úr 1/7 Duke of Wellington Regiment. Í marsmánuði árið eftir tóku liðsmenn 11 Duram Light Infantry Regiment við og undirfylki úr 1st Tyneside Scottish herfylkinu í október. Í desember 1941 tók undirfylki D (Company D) úr 10. fótgönguliðssveit Bandaríkjahers (10th Infantry Regiment) og dvaldi þar fram í ágúst 1943 þegar hersveitin hélt til Bretlands. Í tíð Bandaríkjahers höfðu frá 140 til 270 hermenn aðsetur í búðunum sem töldu 21 bragga og 7 aðrar byggingar.
HafnarfjörðurHafnarfjarðarbær fékk búðirnar leigðar af hernum árið 1943 og endurleigði til íbúðar vegna húsnæðiseklu í bænum ásamt Camp Green við Vesturgötu.
Liðsmenn áttunda liðsflokks 1/6 fótgönguliðsfylkis bresku hersveitarinnar The Duke of Wellington Regiment sumarið 1940 við Ljósmyndastofu Önnu Jónsdóttur sem hún starfrækti í bakhúsi við Strandgötu. Liðsflokkur (platoon) samanstóð af 30–35 mönnum og mynduðu þrír slíkir undirfylki (company).
Braggabyggingin var stundum nefnt Tunnan eða Áman af heimamönnum.
HafnarfjörðurBæjarráð samþykkti í ágústlok 1942 að leyfa bandaríska Rauðakrossinum að reisa braggann sem samkomuhús hermanna til bráðabirgða. Heimildir herma að Kristinn Torfason hafi keypt braggann af Sölunefnd setuliðseigna árið 1944 og einnig að landeigandinn, Sviði hf., eignaðist hann en víst er að verkalýðsfélögin í Hafnarfirði höfðu þar aðstöðu fyrir funda- og skemmtanahald til ársins 1945 þegar þar var sett upp netaverkstæði. Skuldbatt Sviði hf. sig þá til þess að bragginn yrði rifinn sumarið 1946.
Þýsk/bandaríska söng- og leikkonan Marelene Dietrich er sögð hafa kom fram á skemmtun fyrir hermenn í bragganum í september 1943 samkvæmt viðtali við Gunnar Ásgeirsson í ótilgreindu jólablaði Hamars, blaðs sjálfstæðismanna í Hafnarfirði. Það getur ekki passað því hún kom ekki til landsins fyrr en í september 1944 þegar starfseminni var löngu lokið enda allir hermenn farnir úr Hafnafirði og nágrenni.

Camp Babcock

Hafnarfjörður

Camp Babcock.

Tjaldbúðir í núverandi Mosahlíðarhverfi. Babcock var áður Packway í túni Finnboga Ingólfssonar „upp með læk“ upp af vestanverðu Stekkjahrauni þar sem gatan Berjahlíð liggur í Mosahlíðarhverfi.
Herbúðirnar voru reistar haustið 1940 yfir breska stórskotaliðsflokkinn 1 Troop, 273 Field Artillery Battalion sem var vopnaður var 25 punda (88 mm) fallbyssum á hjólum og nefndi búðirnar Packway Camp. Í júní 1941 tók 1 Troop, úr 507. stórskotaliðssveitinni við og síðan liðsmenn bandaríska stórskotaliðsflokksins A Battery, 46th Field Artillery Battalion sem tóku við byssum Breta í febrúar 1942. Gáfu þeir búðunum nafnið Camp Babcock og í júlí árið eftir tók Battery A úr 70. stórskotaliðssveit Bandaríkjahers (70th Field Artillery Battalion) við en sú sveit hafði bandarískar fallbyssur með 105mm hlaupvídd og dvaldi í búðunum til vorsins 1944. Eftir það voru húsin m.a. notuð fyrir búfé og fiðurfénað. Í búðunum voru 18 braggar og þar dvöldu að jafnaði tæplega 100 Bandaríkjamenn. Má enn sjá útlínur nokkurra bragga í hraunjaðrinum.

Hafnar Depot
HafnarfjörðurVið svonefndan Einarsreit (fiskbreiðslureit Einars Þorgilssonar) austan Reykjavíkurvegar og norðan Álfaskeiðs þar sem lengi stóðu birgðaskemmur sem voru hluti af búðunum ásamt minni húsum úr hleðslusteini.
Búðirnar voru reistar árið 1940 og notaðar sem birgðageymsla breska hersins og síðar þess bandaríska (1942–1943), alls 14 vöruskemmur og smærri braggar, 6 skemmur, 8 braggar og 8 steinkofar) sem m.a. geymdu fatnað, matvæli og verslunarvöru. Nokkrir stórir skemmubraggar stóðu við Einarsreit fram á tíunda áratuginn þegar hann var tekinn undir íbúðabyggð. Skemmubraggar sem lengi stóðu vestanvert við Reykjavíkurveg voru ekki reistir þar á stríðasárunum.

Gardar Road

Hafnarfjörður

Langeyri – leifar bragga við Gardar Road.

Við Garðaveg þar sem hann lá vestan við Víðistaðatún og nú mætast Hjallabraut og Sævangur. Garðavegur lá frá Vesturbraut og yfir Víðistaðatún áður en Herjólfsgata og Herjólfsbraut voru lagðar.
Búðirnar hýstu jafnan einn fótgönguliðsflokk úr hersveitum Breta og síðar Bandaríkjamanna sem gætti að umferð um Garðaveg. Síðasti flokkurinn sem hafðist þar við var 30 manna flokkur úr undirfylki C (Company C), 10th Infantry sem hafði aðsetur að Görðum en hætt var að nota Camp Gardar Road til íbúðar sumarið 1942 og varðstöðin við Garðaveg þá mönnuð frá Camp Gardar.

Hafnarfjörður

Camp Gardar  Road.

Stórar braggaskemmur sem reistar voru á háum steinsteyptum grunnum „úti á Mölum“ þar sem Herjólfsgata liggur upp að mótum Garðavegar og Herjólfsbrautar, og enn sjást merki um, voru ekki reistar á vegum hersins á stríðsárunum heldur fluttar þangað af heimamönnum eftir stríð og notaðar sem fiskhús, m.a. af Óskari Jónssyni. Í landi Bala voru varnarmannvirki niðri við sjó sem skaðabætur fengust fyrir vegna landspjalla í stríðslok. Þessar varðstöðvar hafa líklegast verið mannaðar frá Camp Gardar Road og síðar Camp Gardar.

Amotherby
HafnarfjörðurAustan við horn Flatahrauns og Sléttahrauns þar sem Haukaskáli stóð síðar.
Búðirnar voru reistar sumarið 1940 yfir stuðningsundirfylki (Headquarters Company) 1/7 Battalion, Duke of Wellington Regiment sem starfrækti brynvagna, sprengjuvörpur og léttar loftvarnabyssur og annaðist fjarskipti, verklegar framkvæmdir og skrifstofuhald herfylkisins. Tvær flokksdeildir (platoons) úr stuðningsundirfylki 11 Battalion, Duram Light Infantry Regiment tók við í marsmánuði 1941 en voru leystar af hólmi af samskonar liðsveitum Tyneside Scottish-herfylkisins í október. Í desember sama ár tóku 120 liðsmenn þjónustuundirfylkis (service company) bandarísku hersveitarinnar 10th Infantry Regiment við herbúðunum og höfðu þar aðsetur þar til þær voru yfirgefnar í ágúst 1943.

Carleton
HafnarfjörðurVið Hellisgötu og Vesturbraut sem þá hét Kirkjuvegur. Breski herinn tók húsið Kóngsgerði að Kirkjuvegi 19 á leigu og reisti herbúðirnar á lóðinni í kring.
Búðirnar voru reistar sumarið 1940 fyrir 1. flokksdeild (Platoon) úr undirfylki (No. 1 Company) úr kanadísku hersveitinni Queen‘s Own Cameron Highlanders of Ottawa sem vopnuð var vélbyssum til stuðnings fótgönguliðssveitum. Hermennirnir höfðu einnig aðsetur í Kóngsgerði. Hinn 19. mars 1941 leystu liðsmenn 4. undirfylkis sömu hersveitar félaga sína af hólmi í Hafnarfirði og störfuðu þar uns þeir héldu til Bretlands 27. apríl
sama ár. Í stað Kanadísku vélbyssusveitarinnar í Hafnarfirði komu þá liðsmenn 1/9 Battalion, Manchester Regiment og loks samskonar undirfylki úr 2 Battalion, Kensington Regiment í september sama ár. Kensington-vélbyssufylkið hélt af landi brott 6. apríl 1942 og virðist Carleton Camp ekki hafa verið notaður af Bandaríkjamönnum sem þá voru teknir við vörnum Hafnarfjarðar.

Spithouse
HafnarfjörðurVarnarvígi með skotgröfum í túninu vestan við bæinn Óseyri þar sem nú standa húsin nr. 3–13 við Óseyrarbraut, milli Fornubúða og Stapagötu.
Varðstöð kanadísku Hálendinganna sem höfðu aðsetur í Carleton Camp, undirfylki (No. 1 Company) úr kanadísku hersveitinni Cameron Highlanders of Ottawa sem vopnuð var vélbyssum til stuðnings fótgönguliðssveitum. Nafnið kemur fram á einu korti og sem varnarvígi í sögu hersveitarinnar en aldrei í liðsafla- eða staðsetningarskrám herbúða, enda sjást þar einungis skotgrafir á loftmyndum.

Heimild:
-Friðþór Eydal, „Herbúðir í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi í síðari heimsstyrjöld“, 2025.
Hafnarfjörður