Við Hvaleyrarvatn, neðan tófta Hvaleyrarsels, er upplýsingaskilti frá Byggðasafni Hafnarfjarðar. Á skiltinu er eftirfarandi texti, auk teikninga:
“Við Hvaleyrarvatn voru selstöður frá bújörðunum Hvaleyri, Ási og Jófríðarstöðum. Hér sjást rústir Hvaleyrarsels en þar var selstaða frá Hvaleyrarbændum allt fram til síðari hluta 19. aldar. Í Hvaleyrarseli höfðu Hvaleyrarbændur jafnan selstúlku og smala. Selstúlkan annaðist mjaltir og matargerð úr mjólkinni auk matargerðar fyrir þau en smalinn hélt fé í haga og annaðist heimflutning selafurða.
Tóftir Hvaleyrasels er þrjár, í miðjutóftinni hefur verið aðalhúsið og hinar tvær gætu hafa verið búr og útihús. Austasta tóftin er vel greinileg og hefur sennilega verið notuð sem útihús, inngangur snýr í suður. Aðalrústin er fyrir miðju og eru í henni a.m.k. þrjú hólf og tveir inngangar til austurs, innangengt er frá miðjurými í syðsta rýmið. Vestasta rústin hefur sennilega verið búr, þar er inngangurinn úr vestri. Aðeins vestar er stekkur sem talið er að hafi tilheyrt Hvaleyrarseli.
Seljabúskapur
Á seinni öldum stóð seljabúskapur frá miðjum júní og allt til loka ágúst. Selin voru byggð þar sem hagar voru betri og kjarnmeiri en heimahagarnir. Smali og selráðskona störfuðu í selinu og unnu hörðum höndum við að nytja mjólk ánna og kúnna til osta og smjörgerðar, afurðirnar voru svo fluttar heim til bæjar á nokkra daga fresti. Sérstakur kofi var stundum hafður handa kúnum ef þær voru í selinu en ærnar voru mjaltaðar í kvíum sem rúmaði bæði ærnar og lömb þeirra. Lömbin voru höfð í lambakró frá því seint á kvöldi til morguns en á morgnana var lömbunum aftur hleypt til ánna.
Nykurinn í Hvaleyrarvatni
Sagan segir að í lok selbúskapar í Hvaleyrarseli hafi verið á sjöunda áratug 19. aldar eftir að smali fann seljastúlku Hvaleyrarsels við vatnið rifna á hol eins og eftir óargadýr og hringlaga stór hófaför allt í kring. Nykurinn sem bjó í Hvaleyrarvatni annað hvert ár, og hitt árið í Urriðakotsvatni, var talinn hafa verið að verki. Seljastúlkan var jörðuð í garðakirkjugarði. Eftir þetta mátti oft sjá grábleikan hest á beit í selhrauni en ekki þarf að óttast nykur þennan lengur þar sem hann á að hafa frosið í hel frostaveturinn mikla árið 1918 þegar Hvaleyrarvatn botnfraus.”