Herdísarvík í Selvogi – Páll Sigurðsson

Herdísarvík

Hér rifjar Páll Sigurðsson upp „Útræði í Herdísarvík í Selvogi„. Frásögnin birtist í Morgunblaðinu árið 2000:
herdisarvik-930„Útræði var mikið frá Herdísarvík, enda fengsæl fiskimið steinsnar frá landi að kalla má, og sóttu þangað margir tugir manna víða að, einkum frá Suðurlandi en einnig úr nágrenninu. Lágu útróðrarmennirnir við í verbúðum, meðan á vertíð stóð, eins og venja var. Eru enn sjáanlegar miklar minjar um sjávarútveg og ýmis önnur umsvif í Herdísarvík fyrr á tíð. Innsti hluti víkurinnar sjálfrar, er liggur að kambi þeim, sem er milli tjarnarinnar og sjávar, nefnist Bót, en austast í henni var Vörin, þar sem útróðraskipin voru fyrrum dregin á land. Milli vertíða voru þau geymd þar nærri, í svokallaðri Skiparétt, þar sem hlaðnir grjótveggir héldu að þeim. Fyrir ofan Vörina stóðu margar sjóbúðir og má enn sjá glöggar tóttir sumra þeirra. Vitað er um nöfn margra búðanna, svo sem Landeyingabúð, Fljótshlíðingabúð, Símonarbúð, Bjarnabúð, Gíslabúð og Halldórsbúð, en það efni þarfnast þó nánari athugunar.

herdisarvik 931

Nær Herdísarvíkurbænum voru síðan m.a. Ólabúð og Hryggjabúð og að síðustu Krýsuvíkurbúð heim undir bænum, en frá höfuðbólinu Krýsuvík voru löngum gerð út tvö skip í Herdísarvík – en þar að auki var verstöðin að Selatöngum í landi Krýsuvíkur (rétt við vesturmörk þeirrar jarðar). Afla þeim, sem á land barst í Vörinni, var skipt á Skiptivellinum rétt ofan hennar. Enn má sjá mikla garða, er hlaðnir hafa verið í hrauninu austan og norðaustan Gerðistúnsins, þar sem fiskur var fyrrum þurrkaður eftir að hafa áður legið í „kös“ sem kallað var. Má ætla að samanlagt séu garðarnir nokkrir kílómetrar að lengd. Á svonefndum Básum austan Vararinnar (og niður undan Gerðistúni) var einnig gömul lendingarvör, sem kallaðist Skökk. Róið var með fornu lagi frá Herdísarvík fram á þriðja tug þeirrar aldar, sem nýliðin er. Ljóst er, að landið hið næsta Herdísarvíkurbæ hefur löngum legið undir ágangi sjávar, og fyrrum stóð mikill sjóvarnargarður, handhlaðinn úr stórgrýti, á kambinum milli Tjarnar og sjávar, en hann hrundi eftir að byggð var þar af lögð. Hefur sjór síðan valdið stórtjóni á túninu norðan Tjarnarinnar og virðist hafa komið fyrir lítið þótt vinnuvél ýtti upp nýjum garði fyrir fáum misserum; sá garður er nú einnig að hverfa. Að sumu leyti má rekja spjöllin til þess að landið sígur á þessum slóðum eins og víðar á Suð-Vesturlandi.
HerdísarvíkGamli bærinn í Herdísarvík stóð við vesturenda Herdísarvíkurtjarnar. Var hann löngum vel húsaður, m.a. baðstofa stór og góð, alþiljuð, og vandað stofuhús – og valinn rekaviður úr fjörunni að sjálfsögðu notaður í allt tréverk. Hið næsta bænum voru síðan ýmis útihús, sum þeirra einnig vönduð timburhús. Bærinn stóð lágt og varð því stundum fyrir ágangi sjávar í aftakaveðrum af suðri með hásævi, þegar Tjörnina fyllti og sjór gekk einnig upp frá henni. Bærinn var rifinn að hluta til árið 1934, eftir að nýtt íbúðarhús hafði verið reist, en þó má enn greina ummerki hans, undir klöppinni Skyggni. Vatnshólmi nefnist lítill hólmi í Tjörninni fram undan gamla bæjarstæðinu. Þar var tekið allt vatn til daglegrar neyslu, en það bullar þar upp um tjarnarbotninn fast við hólmann.“

Heimild:
-Morgunblaðið 15. janúar 2000, bls. 34-35.

Herdísarvík

Herdísarvík – gamli bærinn.