Hetta – Papahellir?

Hetta

„Í Krýsuvík er Hetta, Hnakkur og Hattur. Kært er mér þetta, kem þangað aftur og aftur…“, segir í ljóðinu. Ljóðið segir til um röð toppanna á afmörkuðu svæði Sveifluhálsins (Austurhálsins) norðan Sveiflu.
Í hverasvæði HettuTilefni göngunnar að þessu sinni var eftirfarandi frásögn á vefsíðunni -tabernacleoftheheart.com-, en hún hljóðaði svona: „Eitt höfuðeinkenni keltneskrar kristni var T krossinn sem var borinn sem stafur og bjöllur léku veigamiklu hlutverki í keltnesku helgisiðunum og voru svo að segja einkennismerki reglumeðlima.
Alls staðar á Írlandi og í Skotlandi ristu paparnir keltneska krossinn á veggi hella þeirra sem þeir kusu sér gjarnan sem dvalarstaði. Slíkur kross hefur fundist í helli við Krýsuvík og hafa fornleifafræðingar sem rannsakað hafa hann staðfest, að líklega sé hann menjar um veru papanna á þessum stað. Það sem er athyglisvert í þessu sambandi er að fjallið sem hellirinn fannst í heitir Hetta. Augljóslega hefur hellirinn verið notaður sem athvarf á kyrrðardögum fyrir einstaka munka og þessir fornu bræður okkar notuðu sama táknmálið og tíðkast enn í dag í íhugunarklaustrum, það er að segja munkahettuna dregna yfir höfðuð sem tákn um að viðkomandi munkur óskaði þess að dvelja í þögn. Sjálft orðið Krýsuvík virðist varpa enn frekara ljósi á það hverjir hafa dvalið hér til forna. Á skosk-gelísku þýðir orðið cryce annað hvort kross eða rakaða krúnu á höfði munks. Ekki er ólíklegt að norrænir menn hafi kallað munkana krýsa.“
 

Myndanir í Hettu

Ekki er kunnugt um að heimild þessi komi fyrir annars staðar. Reyndar ætti heimildin að vera það merkileg að hennar ætti a.m.k. að vera getið í ferðabókum frá fyrri tíð og tilvitnunum varðandi veru papa hér á landi sem og fornleifaskráningum. En því er ekki að heilsa. Auðvitað gæti mönnum hafa sést yfir svo gamlan stað, enda langt um liðið, og hann gleymst. Hér að framan er staðurinn þó tilgreindur sérstaklega þrátt fyrir að heimildir og rannsóknir um hliðstæðar vísbendingar hafi farið fram annars staðar á landinu, s.s. á Suðurlandi. Framangreindar nafngiftir eru að mörgu leyti eðlilegar því Hnakkur er hnakklaga, Hattur er hattlega og Hetta er hettulaga.
FERLIRsfélagar hafa allnokkru sinni gengið framhjá og umhverfis nefnda Hettu ofan við Krýsuvík, en á þeim ferðum hefur gaumur ekki verið gerður sérstaklega að hellum eða skútum í hæðinni, enda framangreindar upplýsingar tiltölulega nýtilkomnar. Í stað þess slappa bara af heima og afneita tilvitnunni sem tómri vitleysu var ekki um annað að ræða en að rölta af stað og leita af sér hinn minnsta grun.
AfveltaHaldið var upp frá Krýsuvíkurhúsunum (starfsmannahúsinu og gróðurhúsunum) og stefnan tekin á Hettu. Tækifærið var notað og hverinn austan í hæðinni skoðaður. Í ljós kom að þarna hafði verið borað og talsverð ummerki um það skilin eftir í hverasvæðinu. Talsverður brennisteinn er þarna nú og má ætla að svæðið hafi verið nýtt þegar brennisteinn var sóttur í Baðstofu og í hverina ofan við Seltún. Fallegar útfellingar eru á hverasvæðinu og litadýrðin er mikil. Fara þarf mjög varlega um það því ókunnugir gætu auðveldlega farið sér að voða.
Stefnan var tekin á gilskorning sunnan í Hettu. Mikið sjónarspil er í gilinu fyrir þá sem kunna að meta jarðrakakonfekt. Umbúðirnar eru reyndar öngvar, en innihaldið þess áhugaverðara. Og ekki spillir útsýnið yfir neðanverða Krýsuvík, að Geitahlíð, Arnarfelli og Bæjarfelli fyrir upplifuninni. Þess ber að geta að upplýsandi sólstafir hjálpuðu til við að varpa ljóma á dýrðina þessa síðdegisstund.
SkútiÞegar upp úr gilskorningnum var komið tóku við gróningar millum tveggja hæða, Hettu á hægri hönd og „Járnbrautarinnar“ á þá vinstri. Reyndar er hér um einu og sömu „hæðina“ á hálsinum að ræða, þegar horft er á hana úr fjarlægð. Nafngiftin „Járnbrautin“ gáfu Vinnuskólapiltar í Krýsuvík þessum hluta, en einn liður í veru þeirra í vinnuskólanum var gönguferðir um nágrennið (sjá meira um vinnuskólann HÉR). Hetta sjálf er gróinn kollhæð ofan við húsakostinn. Ekki er útilokað að hæðin öll hafi jafnan verið nefnd Hetta, enda ekki óeðlilegt.
Skyggnst var eftir hugsanlegum helli eða skúta í hlíðunum. Skyndilega birtist „skepna“ framundan. Hún lá á bakinu með allar fjórar lappirnar upp í loftið. Kindaleg hegðun það, enda kom í ljós að hér var um afvelta rolluskjátu að ræða – í beitarhólfi Grindavíkurbænda. Kindin virðist hafa legið þarna drjúgan tíma og reynt hvað hún gat til að komast aftur á lappir, en án árangurs. Hún var ósködduð, þ.e. hrafninn og tófan höfðu ekki komist í hana. Augun voru vökul og fylgdust vel með. Eyrnarmerkið var skoðað, kindinni klappað á makka og reynt að tala hlýlega til hennar.

Á Hettu

Að því búnu var tekið í hornin og kindinni velt yfir á magann. Fætur reyndust óburðugir – í fyrstu a.m.k. Smám saman virtist kindin braggast, en þrátt fyrir fyrstu hjálpar- og stuðningsaðgerðir tókst ekki að fá hana til að kunna fótum sínum forráð. Því var afráðið að skorða kindina af á maganum í von um að tíminn myndi vinna með henni og hún standa upp að lokum.
Fetuð var fjárgata ofarlega með vesturhlíð Hettu (Járnbrautarinnar) og áfram suður fyrir hana. Þegar komið var yfir á þá hlið vöknuðu spurningar í tengslum við tilefni ferðarinnar. Frá toppi Hettu var hið ágætasta útsýni niður að Húshólma, hinni fornu Krýsuvík. Frá henni hlaut Hetta að vera hæsti punkturinn í landslaginu. Frá Hettu var hvergi betra útsýni yfir hafflötin undan ströndinni. Þaðan var auðvelt að fylgjast með skipakomum með ströndinni, enda sigldu víkingaskipin helst grunnt á þeim tíma. Frá hæðinni hefði auðveldlega verið hægt að gefa fólkinu í byggðinni merki um yfirvofandi hættur, auk þess sem ekki er nema u.þ.b. klukkustundar gangur á millum. Þá má vel við bæta að á toppnum eru sérkennilegar veðramyndanir, sem líkja má við altör. Þau gætu hafa þótt áhugaverð fyrir Guðsdýrkendur í nýjum heimkynnum.
KrýsuvíkEnn í dag er óljóst hverjir voru íbúar í hinni fornu Krýsuvík (rústir í Húshólma og Óbrinnishólma) og hvenær (sjá meira HÉR). Sumir telja þó að þarna hafi verið fyrir íbúar áður en norrænir menn numu hér land.
Vegna framangreind var ekki óraunhæft að ætla, að framangeindu gefnu, að á Hettu hafi í fyrndinni verið sjónpóstur eða varðstöð. Ekki var þó að sjá leifar eftir slíka á hæðinni. Hins vegar eru þarna víða grunn skjól og önnur fyrir öllum áttum, ef svo ber undir. Á einum stað hafði hrunið fyrir skúta, en gatið var það þröngt að ekki var komist inn fyrir með góðu móti. Opið horfið mót gömlu Krýsuvík. Mun neðar í hæðinni, mót suðvestri, eru op, sem ekki hafa verið fullkönnuð.
Hafa ber í huga að heimildin, sem varð tilefni ferðarinnar, er véfengjanleg, Auk þess er ekki vitað til þess að ummeki um veru papa hafi fundist á þessu landssvæði. Á móti má segja að fullnægjandi rannsóknir á minjunum í Ögmundarhrauni m.t.t. þessa hafa enn ekki farið fram.
Enginn fannst krossmyndin í ferðinni, enda ólíklegt að ein slík myndi finnast á veðruðu móbergi eftir svo langan tíma sem hér á að vera raunin á. Því var hvorki hægt að sanna né afsanna heimildina upphaflegu. En hvað um það…
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild:
-tabernacleoftheheart.com

Efst á Hettu