Hólmshraunin fimm – Jón Jónsson
Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði um „Hólmshraunin fimm„, hraun í nágrenni Reykjavíkur, í Náttúrufræðinginn 1972:
Inngangur
„Þegar farið er sem leið liggur frá Reykjavík austur yfir Hellisheiði, eða austur yfir Fjall, eins og oft er komist að orði, blasir við manni á hægri hönd grámosagróinn hraunfláki, sem nær frá Jaðri austur að Selfjalli og hverfur til suðurs milli efstu brúna. Nyrzt, eða nánar tiltekið milli Selfjalls og Heiðmerkur, gengur þessi hraunbreiða undir nafninu Hólmshraun.
Við athugun kemur í ljós, að um a. m. k. fimm mismunandi og misgamla hraunstrauma er að ræða, sem auðveldlega má greina að norðantil á svæðinu. Er sunnar dregur verður það illgerlegt eða ómögulegt með öllu, enda koma þar fyrir enn fleiri hraun, sem hlaðizt hafa hvert yfir annað. Þau eru öll komin úr Þríhnúkum og svæðum milli þeirra og Hákolls í sunnanverðum Bláfjöllum.
Eldstöðvar á þessu svæði eru a.m.k. átta vel sýnilegar. Ekki er ólíklegt að einhverjar séu nú huldar yngri hraunum, og engan veginn er útilokað að neðst í þessum hraunlagastafla séu hraun frá Heiðinni há, sem runnið hafi til norðurs vestan Bláfjalla.
Ég hef valið að halda því nafni, sem notað er á kortinu (1:50000), en gefa síðan hverju hrauni númer eftir aldursröð á meðan ekki er hægt að tengja hvert og eitt þeirra við ákveðna eldstöð sem hlotið hefur nafn.
Hólmshraun I
Hólmshraun I er elzt þessara hrauna. Það kemur fram austan við Gvendarbrunna og hefur þar runnið út á og nærri þvert yfir Leitahraun (Jónsson 1971, bls. 52), og er því a. m. k. eitthvað yngra. Rekja má það til austurs báðum megin Suðurár um 1,5 km austur frá Gvendarbrunnum, en nyrzta tunga þess endar rétt sunnan við Hólm. Hefur það því næstum náð að renna þvert yfir Leitahraun á þessum stað.
Lítið ber á þessu hrauni þarna, en bergið í því er þó svo frábrugðið Leitahrauni, að mögulegt er að rekja það á þeim grundvelli. Þetta hraun kemur einnig fram efst í Heiðmörk. Hús „Nordmannslaget“ stendur einmitt á þessu hrauni. Hraunið er fínkornótt feldspatpyroxen hraun með ofurlitlu ólívíni.
Með því að mæla hlutfall steintegunda í tveim þunnsneiðum úr þessu hrauni fékkst eftirfarandi útkoma: Um aldur hraunsins er ekki vitað annað en það sem þegar er sagt, að það er yngra en Leitahraun og elzt Hólmshraunanna.
Hólmshraun II
Þetta hraun kemur fram á 11 stöðum á því svæði sem kortið nær yfir, en lítið fer fyrir því á þeim flestum. Mesta samfellda spildan er kvísl sú sem fallið hefur um skarðið milli Self jalls og Sandfells, niður með Selfjalli að austan og niður í Lækjabotna. Nyrzti tangi þess myndaði háa og mjög áberandi brún rétt austan við gamla gististaðinn Lögberg, en nú hefur sú brún verið rifin niður og jöfnuð út fyrir hinn nýja veg. Þó má ennþá auðveldlega sjá það á brekkubrúninni aðeins nokkra metra norðan við veginn. Þarna hefur það runnið út á Leitahraun. Nokkur hluti af þessari hraunkvísl hefur fallið vestur með Selfjalli að norðan og myndar þar tvo tanga. Stendur skátaskálinn gamli á þeim syðri og nær hann lengst þeirra vestur.
Hólmshraun kemur víða fyrir á Heiðmerkursvæðinu, bæði syðst, suðvestur af Silungapolli, og rétt austan við Jaðar.
Vestasta hraunröndin þar er þó ekki þetta hraun, heldur yngra hraun, Hólmshraun III. Hólmshraun II myndar því hólma við rönd yngra hraunsins rétt vestan við Gvendarbrunna. Auk þess kemur Hólmshraun II fram nyrzt í kverkinni suður af Selfjalli. Í borholu austan við Gvendarbrunna varð og vart við það undir yngra hrauni.
Hraunið er tiltölulega grófkornótt feldspat-ólívín-dílótt hraun og mjög auðþekkt á því, en annað er þó, sem ekki síður er einkennandi fyrir það, en það er að í því er mesti aragrúi hnyðlinga. Er sums staðar, t.d. í áðurnefndri hraunkvísl austan við Selfjall, svo mikið af þeim, að naumast er hægt að brjóta úr því mola svo að ekki sé í honum hnyðlingur (Jónsson 1963). Þetta eru gabbro-hnyðlingar líkir þeim, sem fundizt hafa á fjölmörgum stöðum á Reykjanesi og víðar hin síðari ár.
Hólmshraun III
Þetta hraun tekur yfir mun stærra svæði en nokkurt hinna hraunanna. Mestri útbreiðslu nær það í austanverðri Heiðmörk og nær þar óslitið frá Silungapolli og vestur fyrir Jaðar. Nyrzti tanginn á þeim hluta hraunsins nær langleiðina norður að Hólmsá skammt suðvestan við brúna. Brúnin á Hólmshrauni III er mest áberandi hraunbrúnin austan við Gvendarbrunna og allt austur að veginum inn í Heiðmörk, enda liggur það á þessu svæði næst ofan á Hólmshrauni I eða þá ofan á Leitahrauni. Tanginn suðaustan við Gunnarshólma sem Suðurlandsvegur liggur um er Hólmshraun III.
Vegurinn sker þar yfir nyrzta tanga þess. Það þekur svo allstóra spildu þar suður af og fyrir austan og sunnan Silungapoll, en er næst Selfjalli hulið yngra hrauni, Hólmshrauni V, en til vesturs hverfur það undir Hólmshraun IV, sem myndar mjótt belti ofan á því suðvestur af Silungapolli og nær út í tjörnina sem þar er. Þegar sunnar kemur hverfur Hólmshraun III algerlega undir yngra hraun, og það syðsta sem sést af því er nærri beint vestur af Selfjalli ofan og austan við Heiðmörk.
Þar fyrir sunnan er mjög erfitt eða ómögulegt að greina milli einstakra hraunstrauma, en geta má þess þó hér, að á svæðinu frá Húsafelli og austur að Heiðmörk hef ég talið mig geta greint a.m.k. 3 mismunandi hraun. Eru þá Hólmshraunin, sem hér er um rætt, ekki meðtalin. Sé nú Búrfellshraun ásamt Leitahrauni og hraununum næst vestan við Vífilsfell talin með kemur í ljós, að gosið hefur yfir tuttugu sinnum á svæðinu milli Lönguhlíðar og Bláfjalla frá því að jöklar hurfu af þessu svæði. Nokkrar líkur benda til þess að flest þessara hrauna séu yngri en Búrfellshraun, en samkvæmt rannsóknum Guðmundar Kjartanssonar er það um 7200 ára gamalt. Sýnir þetta, að eldvirkni hefur verið mikil á svæðinu milli Lönguhlíðar og Bláfjalla eftir að Heiðin há hætti gosum og eftir að Búrfellshraun rann.
Hólmshraun III er ekki ósvipað Hólmshrauni I fljótt á litið, en inniheldur miklu meira ólívín, og er á því auðvelt að greina þessi hraun að. Hnyðlingar finnast í þessu hrauni en ekki er mikið um þá. Einstaka stórir feldspatdílar koma fyrir í hrauninu.
Hólmshraun IV
Þetta hraun hefur fallið í samfelldum straumi yfir Hólmshraun III frá vesturhorni Selfjalls, og endar í mjóum tanga við tjörnina vestur af Silungapolli. Það nær óvíða 500 m breidd og er norðan til aðeins um 200 m og þaðan af minna. Það er áberandi meira dílótt en Hólmshraun I og Hólmshraun III. Nokkuð er um ólívíndíla í því og má vel greina þá með berum augum. Á því svæði sem hér um ræðir kemur Hólmshraun IV ekki fyrir nema á ofannefndu svæði.
Hólmshraun V
Síðast í röð þessara hrauna er Hólmshraun V. Það liggur ofan á Hólmshrauni IV vestur a£ Selfjalli, en klofnar þar á því, og fellur svo í tveim kvíslum báðum megin við það. Vestri kvíslin endar rétt sunnan og austan við skála þann, sem „Nordmannslaget“ hefur í Heiðmörk, og áður er minnst á. Önnur kvísl úr sama hrauni er svo nokkru vestar, en sú kvísl nær aðeins á einum stað fast að girðingunni sunnan við Heiðmörk.
Austasta kvíslin hefur svo fallið norður með Selfjalli að vestan og alla leið niður í Lækjabotna. Þetta er mjór hraunstraumur, sem fallið hefur upp að fjallinu eftir lægð, sem myndazt hefur milli þess og eldri hraunstrauma. Svo virðist, sem þetta sé yngst allra hraunanna á svæðinu milli Þríhnúka og Hákolls í Bláfjöllum, þó ekki verði það fullyrt að svo stöddu. Sé það hins vegar rétt sýnist og líklegt, að það sé komið úr stuttri gígaröð vestan undir Kóngsfelli. Aðalgígirnir eru tveir, en röð af smágígum liggur upp í fellið að norðvestan. Hrauntraðir stórar liggja frá þessum gígum suður fyrir Kóngsfell og austur með því að sunnan.
Þá hefur hraunið fallið norður milli Kóngsfells og Rjúpnadalshnúka, en önnur kvísl austur að Bláfjöllum, og er það yngsta hraunið sem endar í allhárri brún vestur af Vífilsfelli og á kortinu er nefnt Vífilsfellshraun. Greinilegt er, að hraunið úr gígunum við Kóngsfell er yngra en hraunin úr Eldborg við Drottningu, en mjög líklega er eitthvað af Hólmshraunum komið úr þeim gíg. Hólmshraun V er gráleitt, fremur fínkornótt basalthraun.
Eins og áður hefur lauslega verið drepið á eru margar eldstöðvar milli Bláfjalla og Lönguhlíðar. Hafa hraun frá þeim flestum runnið norður af og mynda þá mikla hraunbreiðu, sem á kortinu er nefnd Húsfellsbruni, en hraun þau, sem nefnd eru Hólmshraun og Skúlatúnshraun eru raunar hluti af þessum mikla hraunfláka. Nokkrar þessara eldstöðva eru stórkostlegar myndanir eins og t.d. Eldborg austan við Drottningu. Tæpum 3 km sunnar eru eldvörp, sem á kortinu hafa ekkert nafn. Þar eru 8 gígir á nær hringlaga svæði, og er einn þeirra mestur. Einn gígur er svo nokkuð utan við þessa þyrpingu.
Ég held, að líta verði á þessa gígaþyrpingu sem eina eldstöð, því hraunrennsli virðist a. m. k. á tímabili hafa verið úr öllum þessum gígum, en óvíst er að það hafi verið samtímis. Hraunin frá þessum eldvörpum hafa runnið norður af vestan Bláfjalla og lítið eitt vestur ávið yfir hraun frá Heiðinni há, en þau hverfa brátt undir yngri hraun og er ekki vitað að til þeirra sjáist eftir það. Líklegt er, að eitthvað af hrauni frá Heiðinni há hafi líka runnið norður af vestan við Bláfjöll, en óvíst er með öllu hversu langt þau hafa náð. Geta má þess hér, að hraun það í Heiðmörk, sem á kortinu er nefnt Strípshraun, hygg ég vera úr Þríhnúkum komið.
Þess skal hér með þakklæti getið, að kort það, er grein þessari fylgir, hefur Jón Eiríksson jarðfræðinemi teiknað fyrir mig með frábærri nákvæmni.“
Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 3. tbl. 01.11.1972, Hraun í nágrenni Reykjavíkur II – Hólmshraunin fimm, Jón Jónsson, bls. 131-139.