Hraunssandur – Lambastapi
Langflestar hæðir og ásar ofan Grindavíkur hafa fellsnefnur, en þó eru þar til einstök fjöll. Festarfjall (Festisfjall) er brimsorfin eldstöð þar sem um helmingur móbergsfjallsins er burt. Mikið er um hnyðlinga í hrauninu og einnig má sjá merki kvikublöndunar í berginu.
Áður hafi FERLIR farið um Skálasand frá Lambastapa yfir á Hraunssand við Hraunsvík að Hrólfsvík, en nú var leiðin tilbakagengin með það að markmiði að skoða nánar hinar fjölbreytilegu og margvíslegu jarðmyndanir í þessum þverskornu merkilegheitum, sem Festarfjallið og Lyngfellið eru. Einungis er hægt að ganga fjörunar undir fellunum á lágfjöru, en gæta þarf vel að brimlagi og flóðahættu því auðvelt er að lokast inni á Skálasandi ef og þegar aðstæður eru óhagstæðar. Þá þarf að varast að ganga og nálægt berginu vegna stöðugs grjóthruns.
Á jarðfræðikorti ÍSOR er Festarfjallið talið einn af athyglisverðari stöðum á Reykjanesskaganum: „Óvenjulegt er að sjá þverskurði af móbergsfjöllum eins lýsandi um innri gerð þeirra og í Festarfjalli. Þar hefur sjávarrof verið að verki. Undirlag fjallsins er móberg og á því grágrýti.
Fjallið sjálft er úr móbergsbreksíu en grágrýti í toppnum. Á skilunum er rauðagjall. Berggangur, Festi, gengur upp í gegnum undirstöðuna og móbergshluta fjallsins upp að grágrýtishettunni, greinilegur úr fjarlægð. Festarfjall er stapi að gerð, myndaður á stuttri gossprungu í jökli og Festin er aðfærsluæðin. Norðan megin hvílir móbergsbreksían í Festarfjalli á eldri og lægri stapa. Gígurinn í honum er norðan undir Festarfjalli, að hálfu grafinn undir því. Ekki verður greint úr fjarlægð hvort eldri stapinn komi fram í brimklifinu.
Festarfjall kemur við sögu í riti sem tékkneskur jarðfræðingur skrifaði um jarðfræði Reykjanesskaga og út kom árið 1943. Hann benti á að undirlagið gengi óbrotið undir fjallið sem sönnun þess að móbergsfjöll Skagans væru ekki ris-spildur.
Í staðinn hélt hann fram jafngalinni kenningu um að þau væru leifar af víðáttumikilli myndun sem rofist hefði burt að mestu. Bergganginn nefnir hann ekki. Þar missti hann af réttum skilningi. Kannski hefði það rétta runnið upp fyrir honum hefði hann velt honum fyrir sér.“
Í verndunartillögum frá 2002 segir m.a.: „Skammt austan við Hraunsvík er Festarfjall þar sem sjávarrof hefur sorfið helminginn af móbergsfjalli. Í Festarfjalli og bergstálinu vestan þess eru merkilegar opnur. Í Hraunsvík er hraunlag með mesta magni hnyðlinga sem þekkist hérlendis. Jökulberg á milli móbergs (með hnyðlingum) og hrauns. Greinilegar jökulrákir á móberginu. Hnullungabergslag í móbergi, hraunstraumur (gangur) hefur troðið sér þar inn á litlu dýpi. Festin í Festarfjalli er berggangur sem gengur upp í gegnum móbergið og tengist hraunlagi ofar. Litlu vestar eru áberandi gaspípur í berginu. Skjólgóð sandströnd er neðan Festarfjalls og er talsvert varp í björgunum og í grastorfum (lundi, rita, fýll). Ógnir: Vegagerð og námavinnsla.
Landnotkun: Einhver efnistaka er ofan vegar við Hraunsvík og við Festarfjall. Tillaga er um verndarsvæði í Hraunsvík.“
Í þjóðsögu er fjallsins getið. „Austarlega í Grindavík, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Hrauns og Ísólfsskála, er þverhnípt fell fram við sjóinn, sem heitir Festarfjall. Neðan undir felli þessu er hátt blágrýtisstandberg og ægisandur undir sem ganga má þurrum fótum með lágum sjó. Frá Hrauni blasir við í miðju berginu grá rák sem gengur þráðbeint upp í gegnum bergið og nefnist Festin. Sagan segir að rák þessi sé silfurfesti sem tröllkona ein hafi einhvern tíma í fyrndinni hengt fram af berginu með þeim ummælum að þá er dóttir bóndans á Hrauni, sú sem bæri nafn hennar, gengi þar neðan undir þá skyldi festin detta niður og verða eign stúlkunnar. Því miður lét tröllkonan ekki nafns síns getið svo að ekki hefir verið auðvelt að láta heita eftir henni, enda hangir festin óhreyfð enn í dag.
Í þessari ferð FERLIRs var ætlunin m.a. að hlusta eftir rödd úr fjallinu. Þegar staldrað var við í sjávarhelli rétt austan við syðsta bergganginn, sem skagar út úr fjallinu, mátti heyra eftirfarandi, endurtekið nokkrum sinnum með lágum og dimmum rómi:
Í Festarfjalli oss býr
á Hraunsbónda hug snýr
heitir ey[eið] björg.
Verði orð fleiri
bara einu of mörg
þætti vér miður
ef nefnds dóttir heyri
fellur þá festin niður.
Jón Trausti skrifaði eftirfarandi um Festarfjall á leið hans frá Grindavík til Krýsuvíkur: „Eitt örnefni lærði jeg að minsta kosti á leiðinni frá Grindavík til Krýsuvíkur. Það er Festarfjall, rjett innan við Grindavíkurbygðina. Mjer var sagt, að það drægi nafn af því, að einhvern tíma í fyrndinni hefði verið feiknamikil fuglatekja í bjarginu framan í fjallinu, en þá var landið auðvitað ekki bygt öðrum en tröllum og landvættum. Frá þeim tíma hengi festar miklar framan í fjallinu ofan bjargið og væri ein þeirra úr gulli. Þegar jeg nálgaðist Festarfjall sá jeg undir eins festarnar og það langt til. Svo stendur á þeim, að fjallið, sem er úr fornu móbergi, hefur sprungið sundur við jarðrask einhvern tíma fyrir langa löngu og þá hefur bráðin eldleðja að neðan ollið upp í sprungurnar og storknað þar. Af því að þessar sprungur hafa verið mjög þröngar, eru gangarnir mjóir. Nú er sjórinn að smásverfa framan af fjallinu, og hefur verið að því síðan löngu fyrir landnámstíð. En af því að bergtegundin í sprungunum er harðari en hin, sem er í sjálfu fjallinu, slitnar hún seinna og liggja því upphleyptar bergraðir upp og ofan fjallið. Það eru festarnar.“
Frábært veður. „Þegar veðrið er gott í Grindavík er það hvergi betra“ [Guðbergur Bergsson].
Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-Rauðskinna I 45.
-isor.is
-Verndun jarðminja á Íslandi – Tillögur vegna náttúruverndaráætlunar 2002, Helgi Torfason og Ingvar Atli Sigurðsson. Unnið af Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins, Reykjavík, nóvember 2002.
-Lesbók Morgunblaðsins, Jón Trausti, 6. nóv. 1949, bls. 508.