Hreiðrið – Kaðalhellir – Gjáarhellir

Hreiðrið

Haldið var að Kaldárseli. Hraunið, þar sem það er hæst, á milli vegarins með Sléttuhlíð og með Fremstahöfða, heitir Gjár. Vestarlega í því er Gjáahellir. Gengið var að honum. Opið er nokkuð rúmgott. Fyrir innan blasir við rúmgóð hraunrás. Hún lækkar svolítið eftir að komið er inn, en hækkar og vítkar síðan á ný, uns hún endar. Þessi hluti rásarinnar er um 15 metrar. Mold er í botninum og grjótið hefur verið lagað til innan við munnann. Líklegt er að hellir þessi hafi um tíma verið notaður sem fjárskjól. Tiltölulega stutt er í fjárhellana í Kaldárseli, en þeir eru þarna austan við. Hálfhlaðið fjárhús undir Fremstahöfða er einnig þarna skammt suðvestar.

Kaldársel

Gerði í Gjánum ofan Kaldárssels.

Beðið var í nátthaganum norðan Kaldársels uns Þórarinn Björnsson, guð- og hellafræðingur, bættist í hópinn. Leiddi hann hópinn fyrst að náttúrulegum hraunkofa ofarlega á hraunhrygg norðvestan við Kaldársel. Kofinn er í rauninni toppurinn á lóðréttri hraunrás. Dyragat þess snýr á móti suðri, eins og góð dyragöt eiga að gera. Falleg náttúrusmíð.
Þá var haldið til vesturs að Kaðalhelli. Hann er í nokkuð stóru jarðfalli er hallar niður til norðvesturs. Þar uppi í bergveggnum er lág hraunrás, sem nefnd er þessu nafni. Krakkar á vegum KFUMogK í Kaldárseli höfðu þarna afdrep og nefndu hellinn. Kaðal þarf til að komast upp í rásina. Hún er 5-6 metra löng. Ef farið er með hraunveggnum til austurs er komið inn í rúmgóðan sal. Þar uppi er sylla og lág rás, fremur stutt. Ef hins vegar er farið vestur með hraunveggnum er komið inn í skúta. Úr honum liggja göng niður á við og síðan spölkorn inn undir hraunið. Neðst í honum er kristaltær ís, sem aldrei þiðnar fullkomlega. Myndast í honum regluleg og falleg ljósbrot.

Hreiðrið

Í Hreiðrinu.

Loks var haldið áfram til vesturs. Þar í miðri hraunbreiðunni er lítið gat, ca. 60 c, í þvermál, beint niður á við. Hrunið hefur þarna niður í hraunrás. Dýpið er um mannhæð. Þórarinn fann helli þennan á sínum tíma og nefndi hann Hreiðrið. Fleiri virðast ekki hafa komið þar niður ef marka má heilan mosann á börmunum og sporlausa moldina á botninum.
Rásin er alveg heil og liggur bæði til norðurs og suðurs. Norðurleiðin, um 15 metrar, er nokkuð þröng með mold á botni. Suðurleiðin er hins vegar eins og kona – góð á milli. Hún lækkar, en hækkar síðan aftur eftir u.þ.b. 10 metra. Botninn er grófur sem og barmarnir. Rauðleitt grjótið er hrjúft og því þörf að vera með bæði vettlinga og hnjáhlífar.

Hreiðrið

Í Hreiðrinu.

Þegar komið er vel innfyrir birtist gildi hellisins. Á steinum, í lofti og á víðar má sjá mikið af misstórum gasbólum, nokkurs konar eggjum. Bólurnar eru gráleitar og virðast hafa sprottið út úr berginu. Fyrirbæri þetta má sjá í öðrum hellum, en varla í þessum mæli á einum stað. Hægt væri að skríða innar því hraunið virðist vera lagskipt. Botninn er hins vegar mjög grófur. Ætla má að Hreiðrið geti verið um 100 metrar. Hellirinn er vandfundinn. Tekinn var punktur á hann til öryggis.
Þegar út var komið blasti við stjörnubjartur himininn, norðurljós og sindrandi máninn yfir Helgafelli. Blankalogn. Fegurra getur það varla orðið.

Hreiðrið

Jarðmyndanir í Hreiðrinu.