Húsatóptir – minjar

Húsatóttir

Gengið var með Jórmundi Kristinssyni, 75 ára, um Húsatóptir og m.a. leitað að fyrrum brugghelli við Tóptirnar, sem munnmælasagnir hafa verið til um.

Húsatóttir

Baðstofa.

Jórmundur bjó hjá foreldum í eystri bænum að Húsatóptum. Hreppsstjórinn bjó þá í vestari bænum uns hann var fluttur niður fyrir bæina, í hús það sem nú hýsir golfskála Grindvíkinga. Jórmundur sagðist ekki muna eftir því hvernig gamli bærinn hafi litið út, en sennilega hafi hann verið úr torfi og grjóti, eins og hús voru fyrrum. Hús það, sem hann bjó í hafi verið á þeim stað, sem núverandi hús er.
Jórmundur sagði vatn hafa jafnan verið sótt í brunninn neðan við nýja húsið á Húsatóptum (golfskálann), en það hafi yfirleitt verið með saltbragði. Þá hafi faðir hans grafið niður í gjá skammt suðaustan við hús þeirra og þá komist níður í ferskt vatn. Op er niður í gjána, sem gengur í gegnum hraunhól. Í dag er þar nokkurt drasl, en sjávarfalla gætir í gjánni. Ferska vatnið flýtur ofan á saltvatninu svo bæði auðvelt og nærtækt hefur verið að nálgast þarna vatn.
Jórmundur sagði að vitað hafi verið að víða hafi verið bruggað í Grindavík og nágrenni fyrrum. M.a. voru einhverjir við þá iðju í Jónshelli (Gaujahelli) þegar jarðskjálfti reið yfir. Lokaðist hellirinn og þeir þar inni. Voru mennirnir orðnir úrkula vonar um að komast út er annar jarðskjálfti opnaði hellinn á ný. Sagnir eru og til um brugghelli við Húsatóptir og samsvarar lýsingin á honum framangreindum brunni í hraunhólnum.
Margar sprungur eru beggja vegna Húsatópta. Stærsta gjáin og jafnframt sú dýpsta, Baðstofa, er austan við túnin. Í henni er mikið ferskt vatn, um 12 °C. Fiskeldisstöðin á Tóptum sækir vatn sitt þangað. Sprungurnar eru í misgengi, sem m.a. nær í gegnum Þorbjörn. Á einum stað austan og ofan við Baðstofu hefur gjáin fyllst af grjóti og sandi svo ganga má í gegnum hana. Er hún nokkurs konar minni útgáfa að Almannagjá á Þingvöllum.

Húsatóttir

Refagildra.

Baðstofa er um 18 faðma djúp, þar af er dýpt vatnsins í botni hennar um 9 faðmar. Í gjána var oft sótt vatn, er brunnar spilltust í stórflóðum. Þótti vatn þar mjög gott. Svo sagði Lárus Pálsson hómapat, að hann tæki hvergi vatn í meðul annars staðar en í Baðstofu. Sögn er um, að Staðarprestur hafi fengið að sækja vatn í Baðstofu gegn því, að Húsatóptarbændur fengju að taka söl í landi Staðar. Gjáin er mjög djúp niður á vatnsborðið, en ekki nema um 3 m breið. Mikill gróður er í henni víða. Brú liggur yfir gjána þar sem vatni er dælt úr henni, en vatnið er bæði notað til vökvunar á golfvellinum og í fiskeldinu sunnan vegarins, sem fyrr sagði. Gegnumstreymi er á vatninu í gjánni. Skammt ofan gjárinnar er hlaðin refagildra. Hún er fallin saman að hluta, en vel má greina útlínur hennar og byggingarlag. Nú er vitað um 25 slíkar refagildrur á Reykjanesskaganum. Væri í rauninni hægt að gera þær virkar með skömmum fyrirvara ef einhver hyggðist á refaveiðar. Þessar gildrur falla mjög vel inn í landslagið og eiga ókunnugur jafnan erfitt með að greina þær frá því.
Nokkur hlaðin fiskbyrgi eru vestan við Húsatóptir, ofan við megingjárbarminn. Eitt þeirra er enn nokkuð heillegt. Þrjár ástæður munu hafa verið fyrir staðsetningu byrgjanna, þ.e. lofta þurfti vel um fiskinn, þau voru fjarri flugunni og einnig hæfilega langt frá alfaraleið.

Húsatóttir

Fiskibyrgi.

Hjálmagjá er norðvestast (efst) í túni Húsatópta, grasi gróin í botninn. Haft var eftir gömlu fólki, að það hefði oft séð hamrana upplýsa með dýrlegum ljóshjálmum, sem bárum mjög af lýsiskolum í mannheimi. Sást þá oft huldufólkið úr Hjálmagjá leika listir sínar á skautum í tungsljósinu (þ.e.a.s. í lægð í Húsatóptatúni, sem kallast Dans, og þar mynduðust góð svell í frosthörkum á vetrum), segir í örnefnaskrá.
Sunnan við Dans (sem er norðaustast í túninu) er Kvíalág og Fjósskák sunnan hennar. Næst er Harðhaus. Hann er ósleginn túnpartur um 120 m norður af bænum, fast utan golfvallarins. Þar hraktist aldrei hey. Í óþurrkatíð var Harðhaus sleginn til að fá þurrkt. Fjósaskák og Harðhaus náðu alveg heim að gamla bænum. Harðhaus fékk nafn sitt er bóndi á Tóptum reyndi að slétta hann líkt og aðrar skákir, en fékk þá þrálátt mein í annan fótinn. Lét bóndi þá af túnsléttunni í hólnum og varð hann aldrei sleginn. Talið var að huldufólk hefðist við í hólnum.

Húsatóttir

Tóft á Húsatóttum.