Ingólfur útvegsbóndi I
Eftirfarandi um „Upphaf útgerðar í Reykjavík“ birtist í Sjómannadagsblaðinu árið 1986:
„Ingólfur útvegsbóndi bóndi í Vík hefur ekki getað komizt með yfir hafið þann kvikfénað, sem nægt gæti heimilisfólki hans og því hefur það verið hans fyrsta verk að senda þræla sína á sjó á eftirbátnum, en svo hétu þeir bátar, sem landnámsmenn og landafundamenn þessa tíma drógu með sér og einnig höfðu þeir með sér léttbát til ,,skjóta út“, litla byttu, sem þeir höfðu á hvolfi uppi í skipi sínu og var hún þar þá einnig til skjóls.
Ekki hefur Ingólfi litist á að stunda róðra frá Ingólfshöfða, þar sem er lending brimasöm, og tekur sig upp og fer að leita fyrir sér að betri stað til sjósóknar; hann fer yfir grösug héruð, girnileg til landbúskapar, en lýkur ekki ferð sinni fyrr en á uppgrónum hraunkarga vestur við sjó, þar sem nes og víkur og eyjar búa honum góða lendingu og þó jafnframt stutt róið á fengsæla slóð. Svo einföld er skýringin á staðarvali Ingólfs til búsetu, að hann finnur ekki álitlegan stað á suðurströndinni til róðra, og honum var nauðsynlegt að finna skjólgóða vík fyrir brimi, þar sem hann hafði ekki nema tveggja eða þriggja manna far til sóknar, en þær litlu fleytur voru illa fallnar til brimlendingar, ekki sízt eins og hann brimar fyrir suðurströndinni.
Það er hljótt um Reykjavík í fyrri alda fiskveiðisögu, það er varla að nafninu bregði fyrir í heimildum í sambandi við fiskveiðar. Það er margt, sem veldur því, að Reykjavík verður ekki sögufrægt sjávarplass á áraskipatímanum. Reykjavík verður t.a.m. aldrei verstöð og því veldur lega hennar, að þar er alla tíð á árabátaöldunum róið í heimræði.
Það er rangt, sem margir þeir hafa gert, sem reynt hafa að rekja fiskveiðisögu Reykjavíkur, að slá saman fiskveiðum og útvegi Seltirninga og Reykvíkinga.
Það eru allir sammála um að Reykjavík sé það svæði, sem kaupstaðurinn reis á og það er spildan frá Rauðará og út af Örfiriseyjargranda eða út að Seli, gegnt honum. Það hefur ekki verið minna en þriggja kortéra róður úr vörunum austan við Örfiriseyjargrandann og út á móts við yztu varir á Nesinu, svo sem Nesvör og Bygggarðsvör og fengsælasta þorsklóðin, Sviðið, því ekki nýtzt Reykvíkingum til sóknar á tveggja manna förum sínum, sem sókn þeirra byggðist á að heimildir segja. Það verða snemma skörp skil milli útvegsins á Reykjavíkursvæðinu og Seltjarnarness, sem varð verstöð snemma, en verstöðvar mynduðust á yztu nesjum og víkum yzt við firði. Það varð bæði allt annar útvegur og allt annað fólk á Nesinu en í Reykjavík. Á Nesið flykktust vermenn, mest austan yfir fjall, hraustir piltar, sem gerðu Nesstúlkum börn, og settust þar að, og þarna óx upp sterkur stofn harðsækinna sjómanna, sem sóttu út á Sviðsslóð og veiddu stórþorsk.
Á Nesinu myndaðist útvegsbændastétt, öflugir karlar, sem gerðu út fjagramannaför, sexæringa og áttæringa og notuðu tveggjamannaför aðeins í grásleppuna og eitthvað til sumarróðra. Það má sjá það í sagnfræðibókum, að Reykvíkingar hafi sótt fyrri hluta vertíðar suður í Garð og Leiru; um þetta má finna einstakt dæmi á 19du öld, — en það voru Seltirningar, sem höfðu þennan háttinn á almennt, ekki Reykjavíkingar.
Þar sem Reykjavík varð ekki verstöð byggðist útvegurinn þar á róðrum heimamanna, og byggðin ekki fjölmennari en 100—150 manns framá daga Innréttinganna. Þá hefur það gert þeim örðugra fyrir að sameinast um róðra á stærri bátum en tveggja manna förum, að Lækurinn klauf byggðina og menn austan Lækjar ekki sameinast mönnum til róðra, sem reru úr Grófarvörunum. Lækurinn hefur oft verið illur yfirferðar áður en brú kom á hann.
Ásamt því, sem áður er sagt, að lega staðarins leiddi til sóknar á smábátum á innmið, þá hefur það einhverju valdið máski, að byggðin var klofin. Víkurbóndi hefði þó meðan hann hafði bein í nefinu átt að hafa getað gert út stærra skip, þar sem byggð var snemma nokkuð þétt í Grjótanum, og kannski hefur hann gert það, þó engar séu heimildir fyrir slíkri útgerð. Það má mikið vera, ef mikill útvegsbóndi hefði verið einhvern tímann á áraskipaöldum í Reykjavík, að hann hefði þá ekki komizt inn í söguna með nafnið sitt.
Reykjavík verður á 17du öld verzlunarstaður og síðan iðnaðarpláss á 18du öld og það dregur úr ástundun fiskveiðanna. Menn á kotbýlunum og þurrabúðarmenn hafa þá farið að snúast í kringum verzlunina, sem pakkhúsmenn og eyrarvinnumenn í upp- og útskipun og það dregið úr róðrum þeirra og löngun til sjósóknar og síðan komu Innréttingastofnanirnar uppúr miðri 18du öldinni og sú starfsemi hefur ekki örvað sjósókn Reykvíkinga. Skúli var meira að segja með þær tvær duggur, sem hann keypti 1752, og komu hingað 1753, í Hafnarfirði. Eins var um hina miklu Húkkortuútgerð kóngsins, 1776 — 87, að hún hafði bækistöð sína í Hafnarfirði.
Fyrstu heildarlýsingu á byggð og búskap á Reykjavíkursvæðinu er að finna í Jarðabók Árna og Páls (1702—14) og manntalinu 1703. Þá eru 150 manns búsettir á svæðinu frá Rauðará út að Seli og af búskaparháttum má ráða að fólkið lifir þar mest á sjófanginu og þar er getið heimræðis nær við hvert kotbýli og landskuldir greiddar í fiskum en ekki getið bátaeignar. En við höfum heimildir úr Ferðabók Eggerts og Bjarna og Frásögnum Horrebows, hvorttveggja heimildin frá miðri 18du öld, um báta Reykvíkinga.
Í Ferðabókinni er sagt frá því að í verstöðvunum sunnanlands og allt að Keflavík sé róið kóngskipum mest og það eru sexæringar áttæringar og teinæringar, en í höfnunum fyrir norðan Keflavík „sækja menn sjó allt árið á smærri skipum og fámennari.“ Á öðrum stað segir: „ .. . í Reykjavík, á ströndinni inn á móts við Viðey, í Laugarnesi og Engey, sækja menn sjó allt’ árið á smábátum.“
Horrebow segir: „Svo má heita að smábátar séu einungis í Gullbringusýslu og við Hvalfjörð. Víðast hvar á landinu eru þeir stærri og er þeim róið af 4,6 og 8—20 mönnum.“
Í Ferðabók Eggerts og Bjarna er lýst sjósókn Kjalnesinga, en þeir sóttu á sömu mið og Reykvíkingar og hafa róið á samskonar bátum. Það er athyglisvert að þeir Eggert orða sóknina við Kjalnesinga en ekki Reykvíkinga, sem getur ekki stafað af öðru en að hún hafi þá verið meiri og dæmigerðari á Kjalarnesi. Að hvorki þeir Eggert né Horrebow nefna Reykjavík í fiskveiðilýsingu segir náttúrlega sína sögu.
Í Ferðabókinni segir svo: „Á Kjalarnesi er sjór sóttur allt árið. Bátar eru hér litlir. Hinir stærstu eru fjagramanna för en einsmannsför þeirminnstu.
Segl Kjalnesinga eru úr þunnum, fíngerðum ullardúk, sem ofinn er með líkum hætti og léreft. Dúkur þessi kallast einskefta og notar bændafólk hann í skyrtur. Aðeins eitt segl er á hverjum bát, og er það haft fjórðungi mjórra að ofan en neðan. Siglutréin eru misjafnlega löng, en venjulegast er, að þau séu % af bátslengdinni. Í siglutoppinum er lítið hjól. Á því leikur strengur til þess að reisa og fella seglið. Siglan er fest í eina af fremstu þóftunum og bundið með taugum í framstafn og til hliðanna. Stýrið er fest á tvo króka, efst á því er þverfjöl sem stjórntaumarnir eru festir í. Þeir eru notaðir hér í stað stýrissveifar.
Í akkeris stað nota menn kollóttan, harðan stein, og er gat í gegnum hann. Í gatið er rekið þvertré, sem taugin er bundin við og festir útbúnað þennan í botninn. Þegar róið er til fiskjar, verður hver maður af skipshöfninni að hafa færi, öngul, beitu og hníf, sem kallast sax, og auk þess að vera sjóklæddur. Allir veiða á handfæri eftir beztu getu, en að loknum róðri er aflanum skipt í jafna hluti, því að annars gæti orðið of mikill munur á afla eftir heppni manna. Bátseigandinn fær einn hlut aflans, þótt hann rói ekki með.
Aðallega veiða menn þorsk, sem er algengasti fiskurinn , en auk hans veiða menn líka flyðrur, skötur og smávaxna háfa. Flyðran er úrvals-matfiskur, en hinir eru einkum veiddir vegna lifrarinnar, en úr henni fæst sérlega gott lýsi. Á haustin og framan af vetri veiða menn smálúður á þar til gerða öngla. Þeir eru festir tveir og tveir á þvertein úr járni.
Lúðuveiði þessi er eingöngu nærri landi, sjaldan fjær en áttung úr mílu. Tittlingur, eða réttara sagt þyrsklingur, er smáþorskur. Rauði þyrsklingurinn kallast þarafiskur, af því að hann dvelst á þarabotni. Hann er oft hárauður á lit og með rauðum dröfnum á kviðnum. Þetta eru einungis tilbrigði frá aðaltegundinni, þorskinum. Á Kjalarnesi eru fiskveiðarnar auðveldari en annars staðar á Suðurlandi.“
Í sóknarlýsingu séra Árna Helgasonar í Görðum, en hún frá því um 1830, er sagt að Hafnfirðingar rói eingöngu tveggja manna förum og það er heldur engin ástæða til að ætla að Reykvíkingar hafi verið farnir, fremur en Hafnfirðingar, að breyta neitt sínum aldagömlu róðrarháttum á tveggja manna förum mest.
Það er ekki fyrr en á síðustu þremur áratugum 19du aldar, þegar upp eru komnir í Reykjavík útvegsbændur eins og Hlíðarhúsamenn og Borgarabæjarmenn í Grjótanum, að Reykvíkingar fara að róa stærri árabátum en þeir höfðu gert um aldirnar.“
Heimild:
-Sjómannadagsblaðið, 49. árg 1986, 1. tbl. bls. 54-56.