Írafellsmóri
Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1954 má lesa eftirfarandi um „Írafellsmóra“:
„Írafellsmóri var alþekktur hér í Reykjavík á seinna hluta 19. aldar. Var talið að hann fylgdi Mörtu Þórðardóttur skóara í Vigfúsarkoti. Annars fylgdi hann líka Engeyingum og var því oft nefndur Engeyjarmóri. Þeir feðgar Kristinn Magnússon og Pétur kölluðu hann frænda sinn, en gættu þess að hann kæmist ekki út í eyna. Ýtti Kristinn jafnan sjálfur og sá um að Móri kæmist ekki með. En einu sinni komst Móri á báti með Kjalnesingum til Engeyjar og varð hroðalega sjóveikur á leiðinni. Var hann svo illur út af þessu er hann kom á land, að hann rauk heim í fjós og drap beztu kú Kristins. Þegar farið var að birkja kúna, kom í ljós stór blár blettur á mölunum vinstra megin og var marið inn í bein, en hinum megin voru fjórir bláir blettir og líktust fingraförum, enda varð Kristni að orði, er hann sá blettina: „Stór eru fingraför Móra frænda!“ – (Þjóðs. Ól. Dav.)“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 7. mars 1954, bls. 156.