Jarðhræringar á Reykjanesskaga fyrr eða síðar – Páll Einarsson
Í Morgunblaðinu árið 1995 var vital við Pál Einarsson, prófessor í jarðeðlisfræði við raunvísindadeild HÍ, með fyrirsögnina „Jarðhræringar á Reykjanesskaga fyrr og síðar„:

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur er fæddur í Reykjavík árið 1947. Hann varð stúdent frá MR 1967 og lauk fyrrihlutaprófi í eðlisfræði frá Háskólanum í Göttingen í Þýskalandi 1970. Hann lauk M.Phil.-prófi í jarðeðlisfræði frá Columbia University í New York 1974 og doktorsprófi frá sama háskóla ári síðar. Páll hefur verið prófessor í jarðeðlisfræði við raunvísindadeild HÍ frá 1994.
„Skipulegar jarðeðlisfræðirannsóknir hófust við Háskóla Íslands árið 1957 og hafa frá árinu 1966 verið stundaðar á jarðeðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskólans. Meginverksvið stofunnar eru fimm.
Mældar eru breytingar á segulsviði jarðar, segulsvið jarðlaga kannað m.a. með rannsóknum á bergsýnum, unnið er að grunnvatns- og jarðhitarannsóknum og jöklarannsóknum og loks fara þar fram jarðskjálftarannsóknir og könnun á jarðskorpuhreyfingum í umsjón Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings. Páll segir að rannsóknavinna jarðeðlisfræðinga sé að því leyti ólík störfum flestra annarra raunvísindamanna að þeir þurfi að bíða eftir því að náttúran geri tilraunir fyrir þá.
– Hver er tilgangur rannsóknanna á jarðskorpuhreyfingum?
„Tilgangurinn er margvíslegur. Í alþjóðlegu samhengi má fá upplýsingar hér um jarðskorpuhreyfingar og eðli þeirra og heimfæra á önnur svæði í heiminum sem eru óaðgengileg til rannsókna. Ísland er eina landið þar sem hægt er að stunda rannsóknir á þurru landi á virku hryggjakerfí. Að sjálfsögðu skipta þær einnig máli fyrir okkur sem búum hér í þessu jarðskjálfta- og eldfjallalandi. Við reynum að skilja eðli þessara hreyfinga og auðvelda okkur að búa við þetta ástand. Við getum aukið skilning okkar á þvi hvers vegna jarðskjálftar eru þar sem þeir eru, hversu stórir þeir geta orðið og hver séu líkleg áhrif þeirra á folk og mannvirki.“
– Hvernig er samvinnu jarðeðlisfræðistofu og Veðurstofunnar um jarðskjálftamæiingar háttað?
„Jarðskjáiftamælingar þurfa að fara fram á mjög mörgum stöðum. Jarðskjálftamælum er dreift um öll jarðskjálftavirku svæðin. Þetta er rekið í samvinnu stofnananna og byggt er á þekkingu starfsmanna þeirra. Túlkanir og niðurstöður mælinga eru loks ræddar og greindar í sameiningu og góðu samstarfi.“
– Er ástæða til að ætla með hliðsjón af þessum mælingum að stórir jarðskjálftar séu yfirvofandi?
„Stórir jarðskjálftar verða á Íslandi aðallega á tveimur svæðum: Á Suðurlandsundirlendinu og fyrir norðurströndinni. Ef við lítum til langs tíma má búast við skjálftum af stærðinni 7 einu sinni til tvisvar á öld. Skjálfti af þeirri stærð varð fyrir norðan síðast 1963. Á Suðurlandi hafa ekki orðið svo stórir skjálftar síðan 1912. Ef við byggjum á sögunni verður að reikna með því að það verði stórir skjálftar á Suðurlandi innan tíðar.“
– Reykjanesskagi hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu. Hvers konar skjálftasvæði er þar?
„Jarðskjálftavirkni stafar af flekareki og hreyfingum þeirra. Spenna safnast fyrir á flekaskilunum og eftir því sem lengra líður frá síðasta skjálfta þeim mun meira styttist í þann næsta. Reykjanesskaginn er á þessum flekaskilum og eldvirkni og hreyfingar eru að jafnaði miklar. Það svæði hefur nokkra sérstöðu að það er bæði mjög eld- og skjálftavirkt. Það virðist eins og kvikuvirkni á Reykjanesskaga komi í löngum kviðum með mjög löngu millibili. Nú hefur ekkert verið um að vera á Reykjanesi samfellt í 600 ár. Það er ansi langur tími fyrir enga eldvirkni. Áður en langt um líður verðum við að reikna með því að það svæði taki við sér aftur. Þá er líklegt að eldvirkni verði líkt og fyrr mikil í langan tíma.
Sama er að segja með jarðskjálftana. Þeir skjálftar sem valda mestum áhrifum í Reykjavík eiga upptök sín á Bláfjallasvæðinu. Þeir virðast verða á 30-40 ára fresti en síðast urðu skjálftar af því tagi árin 1929 og 1968. Það eru því frekar miklar líkur á því að skjálftar verði af svipaðri stærðargráðu og áður næsta áratug. Það er þó heldur ekki hægt að útiloka að þeir verði stærri.“
– Samhengið milli stærðar jarðskjálfta, fjarlægðar frá upptökum þeirra og tjóns vegna skjálfta hefur verið rannsakað. Hvað segja niðurstöður slíkra rannsókna um skjálftaáhættu fyrir þéttbýl svæði?
„Reynslan sýnir að skjálftarnir á Suðurlandi eru að líkindum stærri en þeir sem verða á Reykjanesskaga. Þeir skjálftar valda að sjálfsögðu tjóni á upptakasvæði sínu og það ræðst síðan af því hversu þéttbýlt er hve tjónið er mikið. Skjálftaáhættan er þannig mest í Reykjavík þó að skjálftar séu ekki stórir eða nálægir. Það verður að taka fullt tillit til skjálfta á Reykjanesskaga og í nágrenni Reykjavíkur þó að líkur á stórum skjálfta séu ekki eins miklar og á Suðurlandi. Það er m.ö.o. hugsanlegt að minni skjálftar í grennd við Reykjavík geti valdið meira tjóni en stórir skjálftar á Suðurlandi.“
Heimild:
-Morgunblaðið, 121. tbl. 31.05.1995, Jarðhræringar á Reykjanesskaga fyrr og síðar – Páll Einarsson, bls. 8.















