Kaldárselshellar – Helgadalur
Gengið var frá Kaldárseli að hellunum austan Kaldársels, s.s. 90 metra helli, Vatnshelli, Gjáhelli, Rauðshelli, 100 m helli, Fosshelli o.fl. Á leiðinni var gamla vatssleiðsluhleðslan skoðuð. Frá hellunum var gengið yfir að Rjúpnadalahrauni og refagildran undir norðurhorni Húsfells skoðuð. Þá var leitað að gömlu fjárskjóli í Húsfelli, sem sagnir eru til um. Það fannst eftir nokkra leit. Framan við það eru gamlar hleðslur. Frá fjárskjólinu var gengið um gjárnar norðvestan Húsfells, um Mygludali og í Valaból.
Þegar komið var niður í Helgadal var ætlað bæjarstæði fornbýlis, sem þar á að vera, skoðað í dalnum. Ekki er ólíklegt er að þarna sé komið bæjarstæði það sem lengi hefur verið leitað að og heimildir kveða á um. Á landnámsmaður að hafa byggt sér bæ í Helgadal, en þrátt fyrir leitir hafa leifar hans ekki fundist. Hér gæti einnig verið um hina fornu Skúlastaði að ræða, en þeir eiga skv. sögunni að vera næstelsta bæjarstæði norrænna manna hér á landi. Við þetta ætlaða bæjarstæði liggur gömul þjóðleið. Fróðlegt væri að fá við tækifæri áhugasaman fræðing til að kíkja á aðstæður þarna.
Framangreint eru nú einungis vangaveltur um hugsanlega möguleika því ekki er vitað til þess að svæðið eða þessi staður í Helgadal hafi verið skoðaður sérstaklega m.t.t. þessa.
Gengið var á Kaldárhnjúka og Kaldárbotnar skoðaðir áður en ferðin endaði við Kaldá.
Ferðin tók nákvæmlega 2 klst í ágætu veðri.