Kirkjuvogssel – Stafnessel II
Gengið var að Kirkjuvogsseli suðaustan Hafnarvegar. Selið er undir hól innan varnarsvæðisins og hefur fengið að vera óhreyft um langan tíma. Tóttir eru á tveimur stöðum í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Neðan þeirra er stekkur og enn neðar og norðar er reglulegur hringur, sem gæti hafa verið kví eða lítil rétt.
Selstígurinn sést vel þar sem hann liggur frá selinu í átt að Ósabotnum. Hópurinn gekk hins vegar frá því til norðurs og inn fyrir aðalvarnarsvæðið með leyfi yfirvalda. Ætlunin var að leita að tóftum Stafnessels, sem þar átti að vera ofarlega í heiðinni þar sem hallar til vesturs.
Mikið landrof hefur átt sér stað á svæðinu, auk þess sem framkvæmt hefur verið alveg að brekkunum. Þó má sjá talsvert gras efst undir brekkunum og einnig er ekki ólíklegt að selið hafi verið þar undir eða ofan við klettana. Leið er vörðuð að klettunum og eru vörðurnar, sem greinilega eru mjög gamlar, flestar hrundar. Þó er ein stærst og stendur enn nokkuð neðan við brekkurnar. Hún hefur líklega verið sundvarða inn að Ósabotnum því hún ber frá skerjunum í Keili.
Þá var gengið niður að Djúpavogi og þaðan til norðvesturs eftir gömlu Kaupstaðaleiðinni.
Skammt ofan við voginn er 200-300 m langur beinn mjög fallegur kafli á leiðinni, sem greinilega hefur verið ruddur og flóraður á kafla. Þegar hópurinn kom að enda kaflans skein sólin á svæðið svo hún sást mjög vel þar sem hún liggur upp holtið. Leiðinni var fylgt að Gamla Kirkjuvogi þar sem tóttirnar af gamla bænum og kirkjugarðurinn voru skoðaðar, auk garðanna og brunnsins. Þar sem greinilega var að verða mjög lágsjávað var ákveðið að halda áfram framhjá Skotbakka og Þórshöfn yfir að Básendum. Þegar þangað var komið var gengt út í öll sker.
Farið var fetið út í stærsta skerið vestan Básendalægis. Þar í klöpp á því norðanverðu er festahringur í keng, nokkuð ryðbrunninn. Í hring þennan var festi hér á öldum áður og í hana voru kaupskipin, er þarna lágu, fest. Klöppin var öll upp úr sjó, sem ekki er algengt þarna. Eftir að hafa dáðst að litbrigðunum (rautt, brún, grænt og gult) umhverfis hringinn var haldið hægt suður með skerinu. Þar var að sjá annan keng, en í hann vantaði hringinn. Eftir að hafa áð við Draughól var haldið með steingarðinum, sem umlykur Básenda, að Stafnesi þar sem ferðin endaði.
Frábært veður.