Kleifarvatn – Pálmi Hannesson

Kleifarvatn

Pálmi Hannesson skrifaði fróðlega grein um „Kleifarvatn“ í Náttúrufræðinginn árið 1941. Hér má sjá hluta hennar:

KLEIFARVATN

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Sumarið 1930 rannsakaði ég Kleifarvatn eftir tilmælum dr. Bjarna Sæmundssonar. Tilgangur rannsóknanna var sá að afla nokkurrar vitneskju um lífsskilyrði í vatninu, eðli þess og gerð, en það vex og minnkar til skiptis, eins og kunnugt er, og hafa menn verið harla ófróðir um orsakir þeirra breytinga. Í þennan tíma var eigi bílfært nema skammt eitt suður frá Hafnarfirði, og gat ég því eigi komið við þeim tækjum, er ég hefði helzt kosið. Ég keypti norskan bát, fjórróinn, og lét flytja hann suður að vatninu með allmiklum erfiðismunum. Á bátinn lét ég festa tvær litlar vindur (spil), aðra fyrir línu, til þess að mæla vegalengd frá landi, en hina fyrir lóðlínu.

DÝPT

Kleyfarvatn

Kleifarvatn – dýpi.

Höfuðverkefni mitt var það að fá vitneskju um dýpi vatnsins og botnlag, enda hafði hvorugt verið rannsakað áður, svo að kunnugt væri. Alls mældi ég dýpi á nálega 100 stöðum, og reyndist það býsna tímafrekt með þeim útbúnaði, er ég hafði, því að torvelt var að mæla, ef á vatninu var nokkur alda að ráði. Niðurstaðan af mælingunum er í stuttu máli þessi: Vatnið er yfirleitt mjög djúpt eftir stærð og víðast mjög aðdjúpt, einkum undir Sveifluhálsi. Megindýpið liggur eftir vatnsfætinum endilöngum, samhliða hálsinum og nærri honum. Er það þannig að skilja, að hlíð hans gengur niður undir vatnsflötdnn óbrotin af öðru en vagli því eða þrepi, sem öldurótið hefir skapað. Mest dýpi í vatninu, 87,5 m, mældist út frá Syðri-Stapa, aðeins 200 m frá landi. En þar er megindýpið mjóst, því að Stapinn þrengir að því sín megin, en frá hinu landinu gengur grunn lengra út en í mitt vatnið. Sunnan við þessa mjódd breiðist megindýpið út, og er vatnsbotninn suður þaðan nokkuð regluleg skál með jöfnu aðdýpi og þó allmiklu, allt suður undir Geithöfða. Þó verður þar um 50 m. hár hamar, er gengur suður frá Syðri-Stapa nokkuð úti í vatninu.
Kleifarvatn liggur þannig í lokuðum dal og fyllir dalbotninn. Vatnsflóturinn er um 9,5 km2, og er þá mælt eftir uppdrætti herforingjaráðsins danska, sem gerður er samkv. mælingu frá 1908, en þá var mjög hátt í vatninu. Árið 1930 var vatnið allmiklu minna. Þá var þurr fjara framan við Innri-Stapa, norður vík vatnsins, Lambhagatjörn, þurr með öllu, svo að hvergi sá þar vatn, en að sunnan vatnaði aðeins inn fyrir tangana, sem afmarka víkina, er gengur upp að Nýjalandi. Telst mér svo til, að þá hafi flatarmál vatnsins verið um 8,65 km2 eða nærri 90 ha minna en þá, er mest er í vatninu.

BOTN

Kleifarvatn

Kleifarvatn – botnhverir.

Í öllu megindýpi vatnsins er leirbotn og raunar víðast þar, sem dýpi er 15 m eða meira. Út frá Syðri-Stapa eru þó hamrar og stórgrýti að minnsta kosti niður á 40 m dýpi. Leirinn á vatnsbotninum er límkenndur og mislitur, víðast gráblár eða grár, en sums staðar þó svartur, rauðleitur eða mógulur. Hann reyndist að langmestu leyti ólífrænn, enda mun hann vera veðrað móberg og hafa borizt í vatnið með vindi og í leysingum. Ofan á sandinum er víðast mógrátt lag eða himna, og kveður þar mest að lífrænum efnum, rotleifum og eskilögnum. Í víkunum undir Sveifluhálsi er dökkur vikursandur, léttur og hvarflandi fyrir öldugangi. Við báða enda vatnsins og víkina sunnan við Lambhaga er kastmöl í fjörum og út þaðan í vatnið. Hefir öldurótið orpið henni upp í granda og malargarða.

FJARA
Við suðvesturlandið er fjaran víðast föst, og er þar víðast grjót, en sums staðar klappir.Svo er og við stapana báða, Lambatanga, Geithöfða og Lambhaga, nema hvað þar eru hamrar víðast. í víkunum beggja vegna við Syðri-Stapa er dökkur vikursandur mjög laus, en malarfjörur við vatnsendana, eins og áður getur.

HITI

Kleifarvatn

Hverir við Kleifarvatn.

Þá daga, er ég dvaldist við vatnið, neyndist yfirborðshiti þess um 10° C eða mjög hinn sami og meðalhiti loftsins í júlímán., enda breyttist hann með lofthitanum. Botnhiti á megindýpinu mældist 4,6° C, en á grunnunum tæp 9° C. Hitavarp (Sprungschicht) virtist eigi greinilegt, en þó lækkaði hitinn mest á 20 —30 m dýpi. Ekki var þó unnt að rannsaka þetta til hlítar né mæla botnhita á mesta dýpinu, því að mælitækin, sem raunar voru af vanefnum ger, ónýttust fyrir óhapp, er til vildi, áður en slíkt mætti verða.
Tveir hverir að minnsta kosti koma upp í vatninu, báðir í því sunnanverðu, er annar skammt norður frá Lambatanga, en hinn austan við Geithöfða, nærri landi. Virðast þeir hafa hlaðið um sig hóla á vatnsbotninum og kemur allmikið vatn upp úr þeim. Hita gætir þó eigi nema örskammt út frá þeim og aðeins í yfirborði, enda hafa þeir engin áhrif á hita vatnsins í heild. Sumarið 1930 vatnaði yfir hveri þessa, en þó eigi meira en svo, að bátur flaut ekki yfir þann eystri, og rauk þar upp úr vatninu, þegar loft var kyrrt og rakt. Árið 1932 voru þessir hverir komnir upp úr vatninu.

AÐRENNSLI OG VATNSKOSTIR

Kleifarvatn

Afrennsli í Kleifarvatn frá Seltúni og Hveradal.

Svæði það, er veitir vatni Kleifarvatns, er ca 30 km-, enda hefir vatnið ekkert fast aðrennsli ofan jarðar. Lækjarkorn eitt rennur þó að jafnaði sunnan í það, en sumarið 1930 þornaði þessi lækur upp áður en hann næði vatninu. Hann kemur frá hverasvæðinu hjá Seltúni og er nokkuð mengaður brennisteinssamböndum. Allt umhverfis vatnið má kalla gróðurleysur, nema að suðvestan, en þar liggja engjalönd frá Krísuvík. Mjög lítið af áburðarefnum, einkum köfnunarefni, mun því berast í vatnið, enda er það ófrjótt. Sjóndýpi mældist ca 8 m norðanvert í vatninu, en ca 4,5 í því sunnanverðu, og hygg ég, að þar kenni brennisteinssambanda (kclloida) frá hverunum.

GRÓÐUR OG DÝRALÍF
Botnfastur gróður í vatninu er nær einvörðungu bundinn við grunnin, en þar eru talsverðar græður af Chara allt út á 10 m dýpi. Annarra plantna gætir lítið. Allstórir blettir eru þó á víð og dreif gróðurlausar með öllu, og yfirleitt eru plönturnar heldur þroskalitlar, enda mun köfnunarefni skorta. Grunnin og þeir aðrir hlutar vatnsins, þar sem botngróður getur þrifizt, munu varla vera meira en ca 180 ha, þegar ekki eru taldar víkurnar við vatnsendana, er þurrar voru vorið 1930. Á grunnunum er allmikið um vatnabobba (Limnaea psregcr), einkum nærri landi, þar sem grýtt er. Mest virðist mér kveða að þeim sunnan til, og nálægt hverunum voru þeir mjög margir. Eigi fann ég önnur botndýr, en þó nokkuð af hömum og hýsum eftir skordýralirfur, bæði í vatninu sjálfu og vogrekum úr því. Aftur er mikil mergð hornsíla í vatninu og mörg stórvaxin. Mjög mörg þeirra voru með bandorm (schistccephalus), svo að ég hefi hvergi annars staðar slíkt séð. Veltust þau hundruðum saman við fjörurnar dauðvona með orminn hálfan út úr kviðnum. Heyrt hefi ég, að eitt sinn hafi lifandi silungur verið fluttur í vatnið, en hans sér nú engin merki. Svifdýr eru fá, einkum virðist einstaklingafjöldinn lítill í samanburði við önnur vötn, og eigi fann ég nema hinar algengustu tegundir svo sem Bosmiina obtusirostris, Cycliops strenuus og Diaptcmus glacialis. Fjörubeltið er tiltakanlega lífsvana, og veldur þar vafalaust miklu, að vatnið vex og minnkar frá vori til hausts og ári til árs. Nokkurt mý var við vatnið og fáeinar vorflugur. Sundfuglar dvöldust þar ekki að jafnaði, en nokkrar stokkendur komu þangað öðru hverju sem gestir.

VATNSHÆÐARMÆLINGAR

Kleifarvatn

Indíánin í Kleifarvatni – kemst stundum á þurrt.

Áður en ég fór til rannsóknanna fékk ég mér nokkur merki til þess, að unnt væri að mæla vatnshæðina og fylgjast með þeim breytingum, sem á henni verða. Eftir allmikla leit að hentugum stað, setti ég merki þess í klett í Syðri-Stapanum. Lítil vík gengur inn í stapann frá norðri, klettum kringd, og eru merkin utarlega við víkina að austan. Þau eru fimm naglar, sem reknir eru inn í móbergið og surhjir festir með brennisteini. Efst er járngaddur, laust fyrir ofan efstu sýnilgeg flóðmörk, þá eirfleinar tveir og neðst tveir járnnaglar.
Það er gamalt mál, að í Kleifarvatni gæti flóðs og fjöru og komi hvorttveggja á 40 ára fresti þannig, að vatnið vaxi í 20 ár, en minnki í önnur 20. Tvenn merki höfðu menn til þessa. Annað er það, að Krýsvíkingar fóru með kaupstaðarlestir sínar fram með vatninu, þegar þar var fært með hesta, en þar er ófært talið nema fara megi fjöru framan við Innri-Stapa. Hitt merkið er engiland frá Krýsuvík, sem liggur sunnan við vatnið og fer í kaf, þegar hæst er í því. Má gera ráð fyrir því, að Krýsuvíkurmenn hafi gefið gaum að þessum merkjum, og er því líklegt, að munnmælin um vatnið hafi við rök að styðjast. Guðmundur Jónsson, sem síðastur bænda bjó að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík, sagði mér það, sem hér fer á eftir:

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Árið 1880 fluttist Árni sýslumaður Gíslason að Krýsuvík. Var vatnið þá talið minnkandi, en þó mikið. Engjarnar voru komnar upp, en fífugróður þar svo mikill, að á Nýjalandi „fékkst vel á engjalest“, og bendir gróðurfar þetta til þess, að engjarnar hafi verið komnar undan vatni fyrir nokkrum árum.
Árið 1895 fluttist Guðmundur að Nýjabæ. Var vatnið þá talið vaxandi, og ófært fyrir Stapann. Ekki vissi Guðmundur, hvenær vatnið hefði orðið minnst milli 1880 og 1895, en taldi þó, að það hafi alltaf verið fremur mikið á því tímabili og vafasamt, hvort þá hafi verið fært fyrir Stapann, enda var tíðarfar kalt og votviðrasamt á þeim árum.
Eftir 1895 óx vatnið jafnt og þétt, og fóru Krýsuvíkurengjar í kaf árið 1907 eða 1908. Telur Guðmundur, að vatnið hafi komizt hæst árið 1912, en tekið síðan að lækka, og árið 1916 komu engjarnar aftur upp úr. Eftir 1920, einkum eftir 1924, hyggur hann að mestu hafi munað um lækkunina, en ekki var þó farið fyrir stapann fyrr en 1929, en þá var komin þar allgóð fjara, svo að hann telur líklegt, að þar hafi verið fært 1—2 árum fyrr. Á uppdrætti herforingjaráðsins er vatnsborðið talið 135,00 m yfir sjó árið 1908, en ekki mun sú ákvörðun alls kostar nákvæm.
Eftir samanburðarmælingum, sem Jón Víðis hefir gert, stóð vatnið 132,44 m yfir sjó árið 1930, en 131,67 m árið 1932, þegar það var lægst. Samkvæmt þessu hefir vatnið staðið 3,33 m hærra árið 1908 en árið 1932, en eftir 1908 hækkaði það enn til 1911 eða 1912, og má því ætla, að munurinn á mestu og minnstu hæð þess hafi verið 4,0—4.5 m.
Árið 1926 tók Emil Jónsson, vitamálastjóri, mynd við vatnið, og mátti af henni marka hæð vatnsins þá með mikilli nákvæmni. En síðan 1930 hefir vatnshæðin verið mæld árlega og sum árin oftar en einu sinni. Mælingarnar annaðist Emil Jónsson frá 1932 —1938, en vegamálastjórnin eftir það. Það gefur að skilja, að þessar mælingar séu of fáar til þess, að af þeim megi draga miklar ályktanir um breytingar vatnsins, hversu þær gerist eða hve lengi hver umferð (cyclus) standi. Þó sýna þær, að vatnið hefir ekki vaxið jafnt hin síðari ár, heldur í stökkum með kyrrstöðu á milli eða jafnvel afturhvarfi. Þannig hækkaði vatnsborðið um 212 cm frá 1932—1934, stóð svo í stað til 1935, en lækkaði síðan á næsta ári um 107 cm. En heimildir þær, sem hér hefir verið getið, benda til þess, að hið síðasta breytingaskeið vatnsins hafi verið um 40 ár, eins og munnmælin herma, og má því ætla, að þau styðjist við athuganir. Að minnsta kosti má telja víst, að vatnið hafi orðið mest árið 1911 eða 1912, en farið síðan minnkandi til 1932.

ORSAKIR VATNSBORÐSBREYTINGA

Kleifarvatn

Kleifarvatn um Stapana.

Ýmsar tilgátur hafa komið upp um það, hvað valda muni þessum breytingum á vatninu, og mun sú almennust, að það hafi afrennsli neðanjarðar gegnum gjár eða hella, er ýmist teppist eða lokist einhverra orsaka vegna. Sumir hugsa sér þetta afrennsli sem einhvers konar sogpípu, er taki að verka, þegar vatnið er hæst, en fyllist lofti, þegar í því lækkar. Ekki virðast mér þessar skýringar næsta sennilegar, og kennir þar raunar misskilnings á eðli stöðuvatna. Mun því rétt að ræða þetta mál nánar og freista þess að finna skýringu, er við megi hlíta, að minnsta kosti sem undirstöðu frekari rannsókna.
Kunnugt er, að Kleifarvatn vaxi á vetrum, en minnki á sumrum, hvað sem hinum langvarandi breytingum líður. Guðmundur í Nýjabæ sagði mér, að þegar bátt væri í vatninu, gengi það hærra á Krýsuvíkurengjar á vetur en sumar, og er fjara tæki. kæmu engjarnar upp úr að sumrinu aðeins, en hyrfu undir vatn á veturna fyrst í stað. Sumarið 1931 mældum við Emil Jónsson lækkun vatnsborðsins frá efstu fjörumörkum um vorið til 15. júlí, og nam hún 70 cm. Síðari mælingar sýna og, að vatnið minnkar frá vori til hausts. Þannig lækkar vatnsborðið um 20 cm frá 18. maí til 25. cm. árið 1938, en árið 1936 lækkar það um 20 cm frá 16. júlí til 16. ágúst, eða nærri því um 0,6 cm á sólarhring að meðaltali.
Kleifarvatn er ekkert einsdæmi að þessu leyti, heldur eiga öll afrennslislaus vötn sammerkt í því, og er munurinn á vatnsborðinu vor og haust sums staðar miklu meiri, t. d. í ýmsum smávötnum á hálendinu. Þar hefi ég mælt fulla 6 m frá vatni að efstu fjörumörkum ársins. Skýringin á þessum árlegu vatnshæðarbreytingum virðist mér í stuttu máli þessi:
Afrennslislaus stöðuvötn eru hluti af jarðvatninu og verða þar, sem jarðvatnið liggur ofar en yfdnborð jarðar. Vatnsborð þeirra er því raunar jarðvatnsborðið sjálft. Nú nærist jarðvatnið á úrkomum;, þeim hluta hennar, sem ekki gufar upp eða rennur fram ofanjarðar. Jarðvatnsborðið hækkar því í úrkomum, en lækkar í þurrkum. Sama máli gegnir þá um afrennslislaus vötn Þau hækka því að jafnaði yfir veturinn, en lækka yfir sumarið. Á hálendinu verður þessi árstíðamunur meiri en á láglendinu, því að þar geymist vetrarúrkoman að mestu sem snjór, er leysir á skömmum tíma á vorin. Vötnin verða því mest, er leysingum lýkur.

Kleifarvatn

Við Kleifarvatn.

Hver er þá orsök hinna langvarandi vatnsborðsbreytinga? Samkvæmt þeirri skoðun, sem hér hefir verið lýst, verður að ætla, að þær stafi af langvarandi breytingum á úrkomu. Ekki er mér kunnugt um, að slíkar úrkomubreytingar hafi verið rannsakaðar hér á landi, en svo ber við, að erlendir fræðimenn hafa fært að því veigamikil rök, að þær eigi sér stað.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Maður er nefndur Bruckner. Hann rannsakaði afrennslislaus vötn á meginlandi. Evrópu og komst að þeirri niðurstöðu, að þau tækju langvarandi breytingum líkt og Kleifarvatn. Þessar breytingar reyndust misjafnlega miklar á hinum ýmsu vötnum, þannig að sum hækkuðu og lækkuðu meira en önnur, en öll fylgdust þau að, og reyndust breytingaskeiðin um 35 ár að meðaltali. Jafnframt rannsakaði hann skýrslur um veðurfar og sýndi fram á, að frá því um 1700, er slíkar skýrslur hefjast, og fram undir síðustu aldamót hafa jafnan skipzt á þurr tímabil og rök. Reyndust þurrkatímarnir 17 ár að meðaltali og votviðraskeiðin 18, en umferðin öll 35 ár. Við samanburð kom í ljós, að vötnin fylgdu veðráttunni, uxu á votviðratímunum, en minnkuðu á þurrviðristímunum. En sagan er ekki fullsögð enn. Bruckner og aðrir héldu rannsóknunum áfram, og kom þá í ljós, að þessara breytinga gætti í öllum heimsálfum, ekki aðeins í afrennslislausum vötnum, heldur í öllum vötnum og ám, jöklum og jafnvel úthafinu sjálfu. Vitanlega hafa þessar rannsóknir verið vefengdar, en almennt eru þó niðurstöður þeirra taldar góð latína meðal jarðfræðinga. Verður því að ætla, að þær eigi við hér á landi sem annars staðar. Þess er þó að geta, að langvarandi vatnsborðsbreytingar eru ekki kunnar hér nema frá Kleifarvatni einu, en auðvelt er að færa rök að því, að menn hafi fremur veitt þeim athygli þar en annars staðar. Kleifarvatn liggur fast að byggð. Þegar það vex tekur það engjar af og alfaraveg, en er það lækkar, þorna allstór svæði við enda þess ibáða, og fær slíkt ekki dulizt fyrir kunnugum. Önnur afrennslislaus vötn eru aftur lítil flest eða fjarri byggðum, svo að þeim hefir verið minni gaumur gefinn. Hins er og að geta, að eftir munnmælunum eiga tjarnirnar hjá Straumi í Hraunum að hækka og lækka að sama skapi sem vatnið. Guðmundur í Nýjabæ kvaðst hafa tekið“ eftir því, að þetta væri rétt, ög auk þess taldi hann að vötnin hjá Krýsuvík, Grænavatn og Gestsstaðavatn, væru sams konar breytingum báð, en breytingarnar væru þar minni en í Kleifarvatni í sömu átt benda athuganir, sem ég hefi gert við Rauðavatn í Mosfellssveit. Árið 1931 setti ég þar merki, og næstu árin virtist vatnið breytast á sama hátt og Kleifarvatn, aðeins í minna mæli. En síðan 1937 hefi ég ekki getað fundið merkið, og mun það hafa verið tekið. Varð því ekki af mælingum eftir það.
Samkvæmt munnmælunum, er breytingaskeið Kleifarvatns 5 árum lengra en tímabil Bruckners, en ekki er ósennilegt, að þar skeiki munnmælunum, enda þótt þau séu rétt í meginatriðum, og telji þau breytingaskeiðið fremur í fullum áratug en hálfum. Ekki skiptir það heldur máli, þó að síðasta hækkunarskeið vatnsins hafi reynzt 20 ár, því að sumir votviðrakaflar Bruckners voru svo langir.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Hér virðist því, að öllu athuguðu, fengin viðunandi skýring á breytingum Kleifarvatns. Vitanlega verður þó að halda rannsóknum áfram, unz úrskurður fæst, og þarf að mæla jöfnum höndum úrkomuog vatnshæð. Varla mun mega mæla sjaldnar en einu sinni í mánuði, enda er slíkt sæmilega auðsótt, þar sem ágætur vegur er kominn að vatninu.
Ekki er unnt að skiljast við þetta mál, án þess að geta um merkilega athugun, sem Ólafur Friðriksson hefir gert við Kleifarvatn. Árið 1938 kom hann að ósnum, sem verður milli aðalvatnsins og víkurinnar í norðurenda þess, Lambhagatjarnar. Sá hann þá, að straumur er í ósnum, og rennur úr vatninu inn í víkina. Ég hefi síðar gengið úr skugga um, að þetta er rétt, og er ósinn raunar lygn lækur eða stokkur. Af þessari athugun dró Ólafur þá ályktun, að í víkinni væri einhvers konar svelgur, er kyngdi jafnmiklu og inn streymdi um ósinn.
Árið 1930 var Lambhagatjörn þurr með öllu. Gekk ég þá um botn hennar allan. Það er sléttur leirbotn, og sér þar engin merki svelgs né annars afrennslis. Eftir það lækkaði vatnið enn í tvö ár, eins og áður segir, og hlýtur annað að hafa valdið þeirri lækkun en leki á botni Lambhagatjarnar. Ef menn fallast á þá skoðun, að Kleifarvatn sé hluti af jarðvatninu, er næsta ósennilegt, ef ekki óhugsandi, að hað hafi annað afrennsli en rennsli jarðvatnsins sjálfs, því að glufur og gjár, sem kynnu að vera í bergið undir því og umihverfis, hljóta að vera fullar af vatni upp að jarðvatnsborðinu, og gera verður ráð fyrir því, að rennsli jarðvatnsins sé mjög jafnt, nema hvað það hlýtur að vaxa eitthvað, ef jarðvatnið hækkar. Sogpípa kemur ekki til álita fyrir margra hluta sakir.

Kleifarvatn

Gengið um Litlu-Grindavík í Kleifarvatni þurrum fótum.

Kleifarvatn liggur í djúpri dalkvos milli bbrattra hlíða. Beggja vegna við það hlýtur því jarðvatnsiborðið að liggja allmiklu hærra en vatnsflöturinn og halla að honum. Jarðvatnið hlýtur því að streyma stöðugt til vatnslægðarinnar, en aðstreymi þess er ekki svo mikið, að það nægi til þess að fylla hana svo, að vatnið fái framrás ofanjarðar. Hins vegar hallar svo stóru svæði að vatninu, að óhugsanlegt er, að uppgufun frá vatnsfletinum hamli á móti aðrennslinu. Vatnið hlýtur því að hafa afrennsli neðan jarðar, og það afrennsli er rennsli jarðvatnsins. Nú getur jarðvatnið ekki fremur en annað vatn runnið þangað, sem hærra vatnsborð er fyrir, en þannig er háttað beggja megin við Kleifarvatn, eins og áður segir. Hæð Grænavatns og Gestsstaðavatns sýnir, að sama máli gegnir um lægðina suðvestur frá vatninu. Afrennsli vatnsins hlýtur því að vera til norðausturs, undir skarðinu, sem verður milli Lönguhlíðar og Sveifluháls. Í Kleifarvatni öllu er því straumur til norðausturs — straumur jarðvatnsins. Þegar vatnið er svo hátt, að Lambhagatjörn sé þurr. Liggur afrennslið undir botni hennar. En ef vatn er í tjörninni, rennur fyrst inn í hana úr aðalvatninu, en síðan aftur út úr henni um norðausturfjöruna. Í ósnum hlýtur straumurinn að vera mestur, og þar má mæla afrennslið. Mjög væri fróðlegt að fá úr því skorið, hvort þetta afrennsli er jafnt eða ekki. Í miklum þurrkum er trúlegt, að uppgufunin úr vatninu verði meiri en aðrennsli þess, og ætti þá að renna úr tjörninni inn í vatnið, að minnsta kosti ætti straumurinn í ósnum að verða mjög lítill. Í júlí 1930 mældi ég vatnshæðina daglega, og virtist mér bún fara mjög eftir veðri. Mest var lækkunin 0,9 cm á sólarhring, og var þá hinn glaðasti þurrkur. Samkvæmt því hafa á þessum tíma horfið úr vatninu um 778 500 smálestir og svarar það til nærri 9 m3 rennslis á sekúndu. Er næsta ótrúlegt, að aðrennslið nemi, svo miklu.
Jarðvatnsborðinu hallar alls staðar að Kleifarvatni, nema að norðaustan, og hallinn er víðast mikill. Úrkomuaukning á því greiða leið að vatninu. Aftur liggur afrennsli þess gegnum þröngt skarð og eykst því ekki svo mjög, þó að vatnsborðið hækki, heldur stendur það fyrir líkt og stífla. Er ekki ósennilegt, að þetta skýri það, að Kleifarvatn virðist hækka og lækka meira en önnur vötn.“

Heimild:
-Náttúrfræðingurinn, 11. árg. 1941, 3.-4. tbl. bls. 156-168.

Kleifarvatn

Hellir við Kleifarvatn.