Eftirfarandi er úr erindi Ómars Smára Ármannssonar um “Tyrkjaránið” á Sagnakvöldi í Saltfisksetrinu í Grindavík.
Í byrjun sumars 1627, eða fyrir 380 árum síðan, gekk allt sinn vanagang hjá Grindavíkurbændum. Vorverkunum var lokið og fé hafði verið fært til selja. Fólkið var að dytta að húsum og görðum á milli róðra, spjalls og sagna. Útvegsbændurnir voru vanir báts- og skipaferðum enda Grindavík þá einn helsti útgerðar- og verslunarstaður landsins. Þess vegna er kannski ekki svo víst að sigling skips (sumir segja tveggja skipa), sem nálgaðist snemmmorguns þann 20. júní, hafi vakið svo mikla athygli, venju fremur. Grindvíkingar áttu ekki von á neinu nema góðu úr þeirri áttinni, a.m.k. ekki síðustu 95 árin.
Viðburðurinn mikli ofan við Bótina aðfaranótt 11. júni 1532 er Bessastaðavaldið leiddi heimamenn ásamt Njarðvíkingum, Hafnfirðingum og þýskum frá Básendum mót Engendingum og drápu á þriðja tug þeirra hefur eflaust verið flestum gleymdur. Og ekki má telja líklegt að Grindvíkingar hafi reiknað með óvinum í þeim tilgangi, sem raunin varð á, eftir svo langa friðsemd.
Hansakaupmenn höfðu haft aðstöðu við þorpið og Grindavík hafði haldið stöðu sinni sem einn helsti verslunarstaður landsins. Hansakaupmenn keyptu hér fjölbreyttari vörur en Englendingar, til dæmis vaðmál, refaskinn, fjaðrir, rafabelti og skötubörð auk skreiðar og mun þetta hafa mælst vel fyrir. Þeir voru fyrst og fremst kaupmenn og má því ætla að þeir hafi kunnað betur að umgangast viðskiptavini en fiskimennirnir ensku. Tilskipun Danakonungs vegna Íslandsverslunarinnar 1602 hafði líka gefið ákveðin fyrirheit um friðsemd: “Svo og skulu þeir halda sig vingjarnliga, saktmóðugliga með góðri umgengni við landsins innbyggjara, bæði andliga og veraldliga, að enginn hafi með réttu yfir þeim að klaga.”
Framangreint er úr íslenskri þýðingu tilskipunar konungs frá 20. apríl 1602 um upphaf einokunarverslunar á Íslandi. Greinin fjallar um erlenda kaupmenn.
Með einokunarversluninni er átt við sérstaka gerð af verslunartilhögun sem var komið á fót á Íslandi árið 1602 og stóð í tæpar tvær aldir, fram til ársins 1787. Á árunum 1620-1662 hafði “Elsta íslenska verslunarfélagið” Íslandsverslunina undir höndum í umboði Dankonungs. Að vísu varð hagnaður af vöruskiptaversluninni mikill, eða um 60%, en inni í þeirri tölu má telja flutningskostnað og mannahald. Þegar upp er staðið má segja að verslunin fyrir 400 árum hafi verið með svipuðum hætti og nú, að vöruúrvaldinu undanskyldu.
Það var sem sagt þann 20. júní 1627 að skip kom að Grindavíkurströndum. Annað skip gæti hafa haldið sig utar á meðan hitt leið að höfninni. Segir sagan að þá hafi skipverjar áður komið við í Krýsuvík, haldið upp Ræningjastíg í Heiðnabergi, hitt fyrir selsstúlkur í seli ofan við bjargið og síðan fylgt smala eftir upp að kirkju þar sem síra Eiríkur á Vogsósum var við messu. Það var á sunnudegi.
Íbúafjöldinn í Grindavík hefur verið nálægt 180 manns. Búðir kaupmannsins danska stóð þá í Járngerðarstaðalandi, eða fram til 1639 er hann flutti að Básendum eftir að hafís hafði skemmt hafnaraðstöðuna. Áður hafði kaupmaðurinn haldið verslun við Húsatóftir þar sem hann síðan endurreisti búðir sínar ofan Búðarsands að nýju eftir 1664. Verslunarhús var reist á Búðarsandi 1731.
Flestir voru uppteknir við morgunverkin þennan júnímorgun árið 1627. Á Járngerðarstaðasundinu, sennilega utan við Suðurvör (Fornuvör) og Norðurvör frekar en í Stóru-Bót, lá danskt kaupskip. Aðkomumenn sendu þangað bát til að meta aðstæður. Á meðan sendi Lauritz Bentson, Grindavíkurkaupmaður, átta Íslendinga á báti að aðkomuskipinu. Þeir fóru um borð í skipið. Upplýst varð að fátt væri um varnir í landi. Foringi “Tyrkjanna”, Amorath Reis, fór með þrjátíu vopnaða menn í land. Þeir byrjuðu á því að hertaka danska skipstjórann og tvo menn með honum, rændu kaupmannsbúðina, en kaupmaður flúði og með honum aðrir Danir. Þá sneru “Tyrkir” sér að Grindvíkingunum.
“Tyrkirnir” skunduðu eftir sjávargötunni heim að Járngerðarstöðum. Þeim lá á því þeir gátu alveg eins átt von á að kaupmaðurinn snéri aftur með lið manns. Í bænum gripu þeir Guðrúnu Jónsdóttur, konu Jóns Guðlaugssonar. Hún var borin nauðug frá bænum. Í götunni kom þar að bróðir Guðrúnar, Filippus. Þegar hann reyndi að koma henni til hjálpar var hann barinn og skilinn eftir hálfdauður. Annar bróðir Guðrúnar, Hjálmar, bar þá þar að ríðandi. Tóku “Tyrkir” hestinn af honum og stungu. Lá hann óvígur eftir.
“Tyrkir rændu fé úr bænum á Járngerðarstöðum, tóku Halldór Jónsson, bróður Guðrúnar og þrjá sonu hennar, Jón, Helga og Héðinn, en bróðir hennar, Jón, hafði verið einn af þeim átta, sem fóru að finna skipið í upphafi. Jón Guðlaugsson, bónda á Járngerðarstöðum ráku “Tyrkir” til strandar með sonum hans og Halldóri, en vegna þess að Jón var þá orðinn aldraður maður og veikur gáfu þeir hann lausann er hann féll við í fjörunni. Stúlku eina, Guðrúnu Rafnsdóttur, tóku þeir og með húsfrúnni á Járngerðarstöðum og færðu til skips.
Fólkið hafði ekki talið að ræningjarnir myndu sækja í fólkið heldur einungis að fjárstuldir myndu verða. Raunin varð hins vegar önnur.
Á útleið ginntu “Tyrkir” hafskip á leið til vesturs til sín með fölsku flaggi. Þeir hertóku það skip, sem var kaupfar er sigla skyldi á Vestfjörðu. Kaupmaðurinn hét Hans Ólafsson. Fólkið var allt rekið ofan í skip, íslenskt og danskt, og sett í hálsjárn með hlekkjarfestum. Áður en “Tyrkir yfirgáfu Grindarvíkursjó gáfu þeir tveimur mönum, sem höfðu verið um borð í skipsbátnum, burtfararleyfi. Þeir náðu bát sínum og réru til lands. Eftir þetta fóru ræningjarnir burt frá Grindavík.
Þennan morgun var 12 Íslendingum, þarf af helmingur Grindvíkingar, og þremur Dönum rænt í Grindavík, auk áhafnarinnar á kaupfarinu utan við víkina. Af Íslendingunum hertóku ræningjanir húsfrúnna á Járngerðarstöðum, bróðir hennar og þrjá syni, auk stúlkubarnsins, allt heimilisfast fólk á Járngerðarstöðum. Afdrif Grindvíkinganna, sem rænt var, urðu með ýmsu móti. Þau Guðrún Jónsdóttir og Halldór bróðir hennar voru aðeins skamma hríð í þrældómi í Alsír. Komust þau til Danmerkur 1628 og heim til Íslands með vorskipunum sama ár.
Guðrún giftist nokkru síðar síra Gísla Bjarnasyni á Stað, en þá var maður hennar, Jón Guðlaugsson látinn. Halldór, bróðir hennar samdi rit um Tyrkjaránið. Um afdrif Guðrúnar Rafnsdóttur er ekki vitað. Árið 1630 skrifuðu þeir bræður Jón og Helgi foreldrum sínum bréf og vour þeir þá vegnir þrælar. Helgi varð frjáls eftir fjársöfnun 1936. Komst hann heim og kvæntist Guðbjörgu Gísladóttur. Settur þau saman bú á Járngerðarstöðum og bjuggu þar þangað til Helgi lést árið 1664.
Jón bróðir hans, Héðinn og Jón Jónsson, móðurbróðir þeirra, hvíla sennilega í afrískri mold. Sama gildir um bátsverjana fimm, sem reru út að ræningjaskipinu örlagamorguninn 20. júní 1627.
Eftir atburðina í Grindavík, á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum urðu Íslendingar mjög óttaslegnir næstu aldir á eftir yfir mögulegri endurkomu ræningjanna.
Grindvíkingar hafa m.a. minnst þessa með því að setja upp söguskilti á vettvangi atburðanna 20. júní 1627. Á því má lesa um atburðarrásina og afdrif þess fólks, sem þar kom við sögu.
Sýnilegar minjar:
-Fornavör (Suðurvör)
Fyrsta víkingaskipið kom til Grindavíkur 20. dag júnímánaðar og varpaði akkerum á grunninu úti fyrir Járngerðarstaðahöfninni. Var sendur frá því bátur að dönsku kaupskipi er þar lá og létust víkingar vera hvalveiðimenn í þjónustu Danakonungs og báðust vista, en fengu ekki.
-Skipsstígurinn
Ræningjarnir hófu að ræna búðirnar og síðan byggðarlagið. Flest fólk fór að dæmi kaupmanns, nema Járngerðarstaðafólkið, er féll í hendur þeim. Ræningjarnir drógu húsfrúna ásamt þremur börnumhennar og bróður stíginn niður að skipinu og særðu bræður hennar tvo á leiðinni. Eiginmaðurinn, aldraður og veikur, var skilinn eftir í fjörunni.
-Járngerðarleiði
Ræningjarnir hafa líklega gengið framhjá leiði Járngerðar við Sjávargötuna.
-Járngerðarstaðir
Dæmigerð bæjarhús frá byrjun 17. aldar. Útlendingar hafa varla borið mikla virðingu fyrir því sem fyrir augu bar þótt húsin hafi eflaust verið vegleg á íslenskan mælikvarða.
-Staður
“Tyrkirnir” virðast hafa haft augastað á Stað og Húsatóftum, enda bæirnir sennilega vel greinilegir frá frá. Ræningjasker bendir til þess að þeir hafi a.m.k. reynt landgöngu, en engar heimildir erum um að þeir hafi komist alla leið, enda um drjúgan veg að fara fyrir þá sem reynt hafa.
-Ræningjasker
Þar sem Staðarberg endar að austanverðu eru Bergsendasker. Litlu austan við þau eru Ræningjasker. Herma sagnir að þar hafi sjóræningjarnir frá Alsír gengið á land.
-Nónvörður
Upp af austanverðu Staðarbergi, ofan og vestan við Húsatóptir eru þrjár vörður, sem kallaðar hafa verið Nónvörður og voru eyktarmark frá bænum. Hermir sagan að þær hafi Staðarklerkur, sem þá var síra Gísli Bjarnason, hlaðið, er sást til ræningjanna. Á hann að hafa mælt svo um, að Staðarhverfi skyldi aldrei rænt á meðan vörðurnar stæðu, auk þess sem hann ku hafa gengið svo frá þeim, að “Tyrkjum” sýndist þar vera her manns og sneru frá hið bráðasta. Er þarna vitnað í Guðstein Einarsson og Gísla Brynjólfsson.
-Gíslavarða
Aðrir segja að varða sú, sem er á hraunhól vestan við Stað og gefur hið ágætasta útsýn, sé varða sú er síra Gísli lét hlaða til varnar “Tyrkjunum”. Mælti hann svo á um að meðan hún stæði óröskuð myndi Grindvíkingum óhætt. Svipuð álög munu hafa verið á Eiríksvörðu á Svörtubjörgum ofan við Selvog og sagan svipuð.
Skammt fyrir austan Staðarberg í Grindavík er sker eitt hér um bil landfast sem heitir Ræningjasker. Nafnið á það að hafa fengið af því að einhvern tíma á 17. öld kom ræningjaskip að landi í Grindavík og lentu ræningjarnir í skerinu og gengu þaðan á land. Þá var prestur á Stað er Gísli var nefndur og var talinn fjölkunnugur. Þá er byggðarmenn urðu varir við ferð ræningjanna, fóru þeir sem skjótast á fund prests og sögðu honum tíðindin. Brá prestur skjótt við og fór á móti ræningjunum og stökkti þeim á flótta þó að sagan segir ekki með hverjum hætti. Hlóð hann síðan vörðu til minja um þennan atburð spölkorn fyrir ofan prestssetrið og lét svo um mælt að meðan nokkur steinn væri óhruninn í vörðunni, skyldu ræningjar ekki granda Grindavík. Varðan nefndist Gíslavarða.
Sú saga hefur jafnan fylgt vörðunni, sem af sumum er nefnd Tyrkjavarða, að henni megi ekki raska. (Rauðskinna)
-Sundvörðuhraunsbyrgin
Til eru gamlar sagnir af Staðhverfingum er nýttu Eldvörpin til brauðgerðar. Bæði er að þarna hefur verið miklu mun meiri hiti fyrrum auk þess sem stígurinn í gegnum hraunið að þessum hluta Eldvarpa heitir Brauðstígur. Ummerki inni í hellinum benda og til brauðgerðar.
Í krikanum og upp á hraunöxlinni að sunnanverðu eru um tugur hlaðinna byrgja. Þau fundust fyrir tilviljun veturinn 1872 og elstu lýsingu á þeim er að finna í Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen en hann skoðaði þær árið 1883.
Sumir segja að byrgi þessi hafi verið aðsetur útilegumanna, en aðrir segja að í þeim hafi fólk dulist um sinn eftir að Tyrkirnir komu til Grindavíkur 1627. Byrgin eru fremur lítil, aflöng og þröng. Eitt kringlótt byrgi er uppi á hraunbrúninni og önnur þar hjá. Hlaðin refagildra er framan við syðstu byrgin.
Ef einhver eða einhverjir hafa viljað dyljast þarna um sinn væri það tiltölulega auðvelt. Fyrir ókunnuga er mjög erfitt að finna staðinn, auk þess sem hann fellur vel inn í landslagið. Þótt mosinn hafi sest á byrgin og hraunið í kring er líklegt að þau hafi engu að síður fallið vel inn í landslagsmyndina þá og þegar þau voru gerð.
Eftir að hafa skoðað mörg byrgi á nokkrum stöðum á Reykjanesskaganum, s.s. ofan við Húsatóttir, í Strýthólahrauni, í Slokahrauni, austan við Ísólfsskála, á Selatöngum, við Herdísarvík og við gömlu Hafnabæina er að sjá sem margt sé líkt með þeim. Svipað lag er á þessum byrgjum og t.d. í Slokahrauni og við Herdísarvík. Því er ekki útilokað að byrgin undir Sundvörðuhrauni hafi um tíma verið ætlað eða þjónað þeim tilgangi að varsla þurrkaðan fisk eða annan varning frá Húsatóttum. Á móti mælir að önnur þurrkbyrgi á Skaganum eru við sjávarsíðuna, en þessi talsvert langt uppi í landi. Hins vegar má geta þess að hreppsstjórinn hafði aðsetur á Húsatóptum og eitt helsta verkefni hans var fátækrahjálp og samtrygging ef eitthvað bar út af. Þarna gæti því hafa verið forðabúr hreppsins. Refagildran við byrgin, sem að öllum líkindum er jafngömul þeim, segir þó sína sögu.
Engin ástæða er til að draga úr tilgátum manna um aðra notkun og tilgang, sbr. framangreint, enda má telja líklegt að fólk hafi dvalið, eða hafi ætlað að dvelja þarna í skjóli hraunsins, ekki síst í ljósi þess að mannvistarleifar hafa fundist þar á öðrum stöðum í nágrenninu.
-Útilegumannahellir Eldvörpum
Mannvistarleifar eru í svonefndum “útilegumannahelli” í Eldvörpum. Þar eru nokkrar yfir 20 metra langar hraunrásir. Á einni þeirra er lítið gat, hleðsla, rásir upp og niður og inni greinilegar mannvistaleifar. Í efri rásinni er steinum raðað skipulega eins og þar hafi verið mynduð tvö fleti. Sjálf rásin er mjög aðgengileg og náði upp hraunið um 15 metra. Hliðarrás er í henni, falleg rás. Niðri er góð hraunbóla og inni í henni hleðslur. Hlaðið hefur verið fyrir op og framan við það er skeifulaga hleðsla. Bólan er um 6 metrar þannig að þessi rás er yfir 20 metrar. Ummerki í þessum helli er svipuð og í Brauðhellinum svonefnda. Hraunhellurnar eru ekki úr hellinum sjálfum. Þær hafa greinilegar verið færðar þangað og raðað upp í einhverjum tilgangi. Eflaust mætti finna fleiri mannvistarleifar á þessu svæði ef vel væri að gáð og hugsanlega komast að því til hvers og hvenær það var notað.
-Skipsstígur
Þjóðleiðin minni Grindavíkur og Njarðvíkur. Þá leið mun kaupmaðurinn danski í Grindavík sem og lið hans að öllum líkindum hafa flúið, enda ókunnugt staðháttum við ofanverða byggðina.
-Dýrfinnuhellir
Norðan og vestan við Lágafellið er Dýrfinnuhellir. Segir Tómas Þorvaldsson frá því í einni bóka sinna að sögn hafi verið um að samnefnd kona hafi flúið þangað með börn sín eftir að “Tyrkirnir” komu að Grindavík og fóru ránshendi um byggðalagið. Á hún að hafa hafst við í hellinum um tíma. Þá er ekki ólíklegt að vegavinnumennirnir á Skipsstíg hafi nýtt hellinn sem skjól. Gegnumgeng braggalaga hraunbóla er þarna skammt norðar, vinstra megin við stíginn. Hleðsla er við annan endann. Ekki er ólíklegt að ferðalangar og vegagerðamenn hafi einnig nýtt sér það sem skjól um tíma.
Dýrfinnuhellir er hins vegar rúmgóður, en ekki mjög hár til lofts. Hann hefur hins vegar veitt ágætt skjól þeim, sem í honum dvöldu. Þykkt lag af sandi er í gólfinu. Skammt frá honum er annar hellir, ekki síður ákjósanlegt skjól. Innhellar hans eru víða lágir. Sandur er í botninum.
Handan við stíginn, skammt frá er hins vegar mjög fallegur hellir, eða m.ö.o. stór hraunbóla. Botninn er alveg sléttur og hlaðið hefur verið upp í kantana. Opið er fremur lítið og að mestu þakið mosa. Mjög góður felustaður. Niðurstigið hefur verið lagað til. Þarna er mjög gott skjól fyrir marga menn. Ef lýsingin hefði ekki verið svo nákvæm af staðsetningu Dýrfinnuhellis væri raunhæft að ætla að þarna hafi fólk getað hafst við um tíma og það með góðu móti.
-Gíslhellir
Í örnefnalýsingu Innri-Njarðvíkur segir: “Suður af tjörninni (Seltjörn) eru tættur, sem heita Sel. (Í gamalli sóknarlýsingu Njarðvíkursóknar segir: “… vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar kenndar við Gíslhellir, sem er þarna ofan við Rauðamel.”
Gíslhellir er fundinn.
Í hellinum er heil, mikil (yfir mannhæðahá) og falleg fyrirhleðsla, Gólfið er nokkuð slétt. Mannvistarleifar eru inni í honum (hleðsla). Athyglisvert (og ekki óhugsandi að hellirinn hafi verið notað sem skjól fyrir Tyrkjum á sínum tíma) er m.a. hlaðinn bekkur utan í veggnum. Þegar staðið er upp á honum sést yfir hleðsluna og beint í toppinn á Þórðarfelli, en sagan segir einmitt að þar hafi átt að vera maður er veifa átti til merkis um að Tyrkirnir væru farnir. Eins og kunnugt er voru Grindvíkingar í felum víða í hraununum þarna í kring. Ekki er t.d. svo langt í Dýrfinnuhelli eða “Tyrkjabyrgin” í Sundvörðuhrauni.
Í einum endanum er falleg rás inn og upp á við og síðan niður aftur. Í henni eru dýrabein, nokkuð stór. Gætu verið af miðlungsstóru dýri.
Samtals er hellirinn (með rásinni) um 40 metra langur. Heila rásin sjálf er 15-20 metrar.
Ef hellirinn væri nefndur eftir Gísla myndi hann hafa verið nefndur Gíslahellir, en nafnið gæti þó hafa breyst, eins og mörg dæmi eru um. Hellirinn gæti heitir eftir prestinum á Stað, Gísla Bjarnasyni, er uppi var á tímunum um og eftir Tyrkjaránið. Gæti það tengst einhverri sögu svæðisins, s.s. væntanlegum felustað ef þurfa þætti. Einnig samkomu- og felustaður þeirra, sem tóku þátt í Grindarvíkurstríðinu árið 1532, en þeir söfnuðust áður saman við Þórðarfell, sem er ekki langt frá.
-Efri-Hellir
Segir sagan að í helli þennan hafi Grindvíkingar ætlað að flýja kæmi Tyrkir aftur. Var talið að hellirinn myndi rúma alla Grindvíkinga. Opið, eða öllu heldur opin, eru vandfundin suðvestan Húsafjalls.
-Hraunsdysin / kapellan
Það er alkunnugt að þegar Tyrkjar rændu hér á landi 1627 gjörðu þeir landgöngu í Grindavík. Segja menn þeir hafi komið upp á Járngerðarstöðum og söfnuðust menn saman og gengu móti þeim og varð bardagi í fiskigörðunum fyrir ofan varirnar.
Þá bjó karl gamall á Ísólfsskála. Hann átti stálpaðan son; rauða meri átti hann líka. Karlsson heyrði talað um að Tyrkjar væru í Grindavík. Hann bað föður sinn lofa sér að fara þangað til að sjá þá. Karl var tregur til þess, en sonurinn sókti fast eftir. Karl lét það þá eftir og setti hann á bak Rauðku og bað hann ríða hægt þangað til hann sæi Tyrkja og snúa þá aftur og flýta sér sem mest.
Hann fór nú og segir ekki af honum fyrr en hann sá Tyrkja þar sem þeir börðust við landsmenn. Þá stukku tveir strax og ætluðu að taka hann. Hann varð dauðhræddur, reið undan og barði á báða bóga, en Rauðka var ekki viljugri en svo að Tyrkjar voru alltaf í nánd við hana. Þó dróst svo austur á Hraunssand að þeir náðu henni ekki. Ofan til á miðjum sandi náðu báðir undir eins í taglið á henni, en hún sló aftur undan sér og setti sinn hóf fyrir brjóst hvorum Tyrkja svo þeir féllu niður dauðir, en Rauðka hljóp nú svo hart að karlssyni þótti nóg um og kom hann heill heim á Skála.
Leiði Tyrkjanna sést enn á Hraunssandi, hlaðið úr grjóti og lítið grasi vaxið ofan, næstum kringlótt, nálega einn faðm á hvurn veg. Slétt er fram á það því sandinum hallar, en undan brekkunni er það nálega tveggja feta hátt. Sumir kalla það Kapellu.
Tekið var hús á Sigurði Gíslasyni á Hrauni við Grindavík. Gengið var með honum um svæðið. Þegar komið var að hleðslum á grónum hraunhól norðan þjóðvegarins skammt vestan heimkeyrslunnar að bænum sagði Siggi aðspurður að þar væri líklega um dys að ræða. Hann kvaðst ekki kunna frekari deili á dysinni, en sagði dr. Kristján Eldjárn hafa haft mikinn áhuga á að skoða hana. Þá hafi hann rætt við gamlan mann, fæddan á svæðinu. Sá sagði að dysin væri frá því í Tyrkjaráninu. Hennar væri getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.
Kristján Eldjárn gróf í “dysina” á Hraunssandi 1958. Þar reyndist vera kapella frá 14. eða 15. öld. Hann hafði mikinn áhuga á manngerðum hól vestan við Hraun, en gafst ekki tími til frekari rannsókna.
-Blóðþyrnir
Í bardaganum veitti landsmönnum miður. Særðu Tyrkjar suma, en tóku suma; þó féllu margir af Tyrkjum.
Helgi hét maður; hann barðist með kvíslarfæti og drap fimmtán Tyrkja, en var síðan tekinn. Hann var keyptur út löngu seinna og er sú sögn eftir honum höfð, að hann hafi drepið tvo eigendur sína, hvorn eftir annan, þá hann hlóð múrvegg, en þeir fundu að verkinu, og hafi hann hlaðið þeim í vegginn svo þeir fundust ekki og engan grunaði að Helgi hefði ollið hvarfi þeirra.
Engin dys sést þar sem bardaginn var eða þar nálægt. En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.
Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir m.a. um Tyrkina í Grindavík “En svo segja Grindvíkingar og fleiri að þar vaxi þyrnir síðan þar kom saman kristið blóð og heiðið, en það er raunar þistill, en ekki þyrnir.”
-Heiðanberg
-Ræningjastígur
-Selið
-Selstígurinn – varða
-Ræningjahóll
-Ræningjadys
-Krýsuvíkurkirkja
-Eiríksvarða
Annað sinn komu Tyrkjar undir Krýsuvíkurbergi og gengu upp, þar sem heitir Ræningjastígur. Þá var sel hjá Selöldu, og fóru Tyrkjar þangað, drápu matseljuna, en eltu smalann heim að Krýsuvík. Þá var sunnudagur, og var Eiríkur prestur að messa í Krýsuvíkurkirkju. Segja sumir, að hann væri fyrir altarinu, en hitt mun sannara, að hann væri í ræðustól, er smalinn kom hlaupandi í kirkjuna og mælti: “Tyrkjar komu og drápu matseljuna og eltu mig hingað”.
Prestur mælti: “Viljið ekki lofa mér að ganga fram í dyrnar, góðir menn?” Menn játtu því. Eiríkur gengur fram í dyr og lítur út og sér Tyrkja kom á túninu. Hann mælti til þeirra: “Farið nú ekki lengra, drepið þarna hver annan. Væri annar dagur eða ég öðruvísi búinn, munduð þið éta hvern annan”. Þar börðust þeir og drápust niður, og heitir þar síðan Orrustuhóll eða Ræningjahóll, en Ræningjaþúfur, þar sem þeir eru dysjaðir. Eftir það hlóð Eiríkur vöðru á Arnarfelli og mælti fyrir henni sem hinni (á Svörtubjörgum), að meðan hún stæði, skyldu Tyrkjar aldrei granda Krýsuvík. Sú varða stendur enn (1859).
Heimildir:
-Saga Grindavíkur – Jón Þ. Þór – 1994.
-Öldin okkar – Öldin sautjánda; 1601-1800; 1966.
-Guðsteinn Einarsson – 1960.
-Íslenskar bókmenntir 1550-1900 – Kristinn Kristjánsson
-Helgi Þorláksson, Sjórán og siglingar, Mál og menning, Reykjavík, 1999.
-Þorsteinn Helgason, “Hverjir voru Tyrkjaránsmenn”, Saga 1995, bls. 110-34.
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar.
-Frásagnir Brynjúlfs frá Minna-Núpi.
-Rauðskinna.
-Rit Björns Jónssonar frá Skarðsá um Tyrkjaránið.
-Sagnir, munnmæli, frásagnir og leiðbeiningar elstu núlifandi manna í Grindavík.