Krýsuvík – ævintýri
Í Fjarðarpóstinum 24. ágúst 2022, bls. 10, er fjallað um „Ævintýrið í Krýsuvík„:
„Árið 1935 var ákveðið að leggja Suðurlandsbraut um Krýsuvík til að fá snjóléttan vetrarveg milli Árnessýslu og Reykjavíkur. Árið 1945 var lagningu vegar fyrir Kleifarvatn lokið og árið eftir hófst borun eftir jarðhita í Krýsuvík. Gróðurhús voru reist og tekin í notkun í mars 1949 ásamt húsi fyrir starfsfólk. Tveimur árum síðar hófst bygging bústjórahúss og 130 gripa fjóss sem aldrei var lokið því 1950 var framkvæmdafé á þrotum. Þá hafði ræst úr mjólkurskorti bæjarbúa með bættum samgöngum við Suðurland. Framkvæmdir hófust að nýju í Krýsuvík 1954 er 15 hektarar voru teknir í fulla ræktun. Keypt voru 100 gimbralömb og flest varð féð um 650 áður en þessum rekstri var hætt nokkrum árum síðar. Fjósið skýldi fjárstofninum um tíma.
Gróðrarstöðin og búskapurinn gengu ekki vel og illa hélst á starfsfólki. Var búrekstri af hálfu bæjarins hætt í Krýsuvík 1960.
Árið 1953 kom Hafnarfjarðarbær á fót vinnuskóla í Krýsuvík fyrir drengi á aldrinum 10-13 ára. Dvöldust um 40-50 drengir í Krýsuvík frá júníbyrjun til ágústloka en fóru heim til sín aðra hverja helgi. Bjuggu þeir í húsi því sem reist hafði verið byggt til handa fyrirhuguðu starfsfólki mjólkurbúsins fyrirhugaða. Það hýsti einnig um tíma starfmann gróðrarstöðvarinnar og fjölskyldu hans. Drengirnir unnu ýmis störf meðan á sumardvölinni stóð, fóru í leiki, stunduðu íþróttir og fóru í gönguferðir um nágrennið. Árið 1960 var tekið við drengjum frá 8-12 ára og dvölinni skipt upp í tvö fimm vikna holl. piltar í hvoru holli og var nú meiri áhersla lögð á léttari störf og leiki ýmiskonar. Lauk þessari starfsemi árið 1964.“
Sjá má t.d. meira um framkvæmdir í Krýsuvík HÉR, HÉR, HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.
Heimild:
-https://www.fjardarfrettir.is/wp-content/uploads/pdf/FF-2022-09-vef.pdf