Krýsuvík – einbúinn Magnús Ólafsson

Krýsuvík

“Krýsuvík er sennilega landnámsjörð. Segir Landnáma að Þórir haustmyrkur hafi numið Selvog og Krýsuvík.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940 – Sigríður Hansen Guðmundsdóttir.

Eftir að kristni var lögtekin var þarna kirkja, og helguð Maríu mey. Voru prestar búsettir í Krýsuvík fram yfir 1600. Síðar varð þarna útkirkja frá Strönd í Selvogi, og seinast útkirkja frá Stað í Grindavík þangað til hún var lögð niður fyrir 12 árum. Stendur þó húsið enn.
Gamalt íslenskt orðtak segir: “Honum líður eins og andskotanum í Krýsuvík”. Er þá átt við að einhver lifi eins og blóm í eggi. En varla geta það nú talist nein meðmæli með Krýsuvík, að andskotanum líði þar sérstaklega vel. Og bágt á maður með að trúa því, að þar sé vistarvera hans, þegar maður kemur þar um sólríkan sumardag.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Manni finnst miklu fremur að þarna hljóti að vera góðra vætta vé, því að það er ótrúlega mikil viðbrigði að koma í þenna fagra gróðurreit utan úr hinni ömulegu auðn, sem er allt um kring. En málshátturinn mun eiga rót sína að rekja til þess, að þarna eru margir bullandi brennisteinshverir og sumir ægilegir. Og í meðvitund fyrri kynslóða var náið samband milli brennisteinshvera og Vítis.

Nú eru allir bæirnir í Krýsuvík í eyði. Stóri-Nýibær lagðist seinast í eyði og eru nú 6 ár síðan.

Túnakort

Krýsuvík – túnakort 1918.

En þó hefur ekki verið mannlaust þarna. Einn maður varð eftir, þegar allir aðrir flýðu af hólmi. Með órjúfandi tryggð við staðinn hefur hann aldrei gefist upp, heldur þraukað þar fjarri mannabyggðum aleinn, ósveigjanlegur og hiklaus og barist þar áfram með hinni ódrepandi íslensku seiglu. Þessi maður heitir Magnús Ólafsson, og er nú 67 ára að aldri.
Magnús er upp alinn í Hafnarfirði, en 18 ára gamall fór hann til Árna sýslumanns Gíslasonar í Krýsuvík. Er sagt að hann færi þangað nauðugur. Árni hafði útgerð í Herdísarvík og er að heyra á Magnúsi að hann hafi kviðið fyrir því að verða sendur þangað.

Jónsbúð

Jónsbúð á Krýsuvíkurheiði.

-Mér hefur aldrei verið um sjóinn gefið, segir hann, en ég var snemma hneigður til fjárgeymslu, og það starf fékk ég. Þá var hann ánægður.
Ábúendur komu og hurfu, margs konar breytingar urðu, en alltaf var Magnús kyrr í hverfinu. Var hann á bæjunum sitt á hvað. Að undanteknu einu ári, sem hann var á Setbergi í Hafnarfirði, og einum vetri, sem hann var þar í kaupstaðnum, hefur hann stöðugt verið í Krýsuvík. Og þegar allir voru flúnir þaðan, settist hann að í kirkjunni. Höfðu verið rifnir úr henni bekkir, altari og prédikunarstóll, loft sett yfir kórinn og hann þiljaður af. Enn fremur hafði verið afþiljuð ofurlítil kompa í framkirkjunni fyrir geymslu.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1940.

Menn hugsa sér kirkjur oft nokkuð stórar, en þessi var bæði fornfáleg og lítil. Hún var úr timbri og ekki manngegnt undir bita. Ekkert tróð mun í veggjum og gólfið sigið og gisið. Og hvernig sem á er litið er þetta heldur ömurleg vistarvera. Það hefur því þurft óvenju mikið sálarþrek til þess að geta hírst þarna aleinn árum saman, langt frá öllum mannabyggðum. En það sér ekki á Magnúsi að hann hafi gugnað neitt við einveruna. Hann er ern og teinréttur eins og herforingi.

Ég gerði mér ferð suður í Krýsuvík í sumar til þess að sjá þenna einkennilega mann. Kom ég þar um kvöld. Þá var besta veður, logn og hlýtt, og kvöldsólargeislarnir léku fagurlega um Arnarfell og grónar grundir. En á Krýsuvíkina og kirkjuna varpaði Bæjarfellið svörtum skugga. Það er ekki jafn langur sólargangur þar, eins og annars staðar í þessari fjallakvos.
Magnús bauð mér inn til sín. Hann var nú ekki einn, heldur voru hjá honum fjórir dvalargestir, hjón með tvö börn. Þrengslin voru mikil, en þar sem hjartarrúm er, þar er líka húsrúm.

Krýsuvík

Fjárskjólið í Bæjarfelli.

-Það hefur nú stundum verið þrengra hjá mér en þetta, sagði Magnús. Einu sinni í vetur gistu hjá mér 20 Grindvíkingar. Þá var þröngt. Það komust ekki allir fyrir á gólfinu og urðu sumir að sofa fyrir framan.
Magnús er orðvar maður og dulur á sína hagi. Og það er ekki fyrir ókunnugan mann að fá hann til að leysa ofan af skjóðunni. En margt gæti hann sagt um 50 ára dvöl sína þarna í Krýsuvík, og þær byltingar, sem þar hafa orðið í fásinninu. Mig fýsti þó mest að fræðast um hann sjálfan og lífskjör hans, sem eflaust eru efni í heila skáldsögu.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja 1936. Fyrir utan kirkjuna standa þrír menn og einn drengur. Annar frá vinstri er Magnús Ólafsson einsetumaður í Krýsuvík. Kirkjan var afhelguð árið 1929 og þess vegna nýtt sem íbúðarhús þegar myndin var tekin – Ásgeir L. Jónsson.

Ég komst að því, að hann er kvæntur og á fjögur upp komin börn. Hann sendi fjölskylduna til Hafnarfjarðar fyrir nokkrum árum, til þess að börnin gæti gengið í skóla. Og svo ílengdist fjölskyldan þar, og hefur ekki komið til hans aftur. Hann gerði eina tilraun til þess að yfirgefa Krýsuvík og setjast að hjá konu og börnum í Hafnarfirði. En hann hélst þar ekki við nema einn vetur. Þá fór hann aftur suður í Krýsuvík. Ég spurði hann hvernig á því hefði staðið.

-Það var stopul vinna í Hafnarfirði, og ég hafði meiri löngun til þess að huga um kindur en snapa eftir vinnu þar.

Litlahraun

Litlahraun – fjárskjól.

Þetta er sjálfsagt alveg satt, en ég hygg þó að fyrst og fremst hafi það verið fjallabyggðin, sem seiddi hann til sín. Maður getur orðið ótrúlega fast bundinn sínum heimahögum. Úr fjarlægð halda þeir í mann og seiða mann til sín með einhverjum töframætti. Og ég hygg að það hafi fyrst og fremst verið óyndi, sem flæmdi Magnús burtu úr Hafnarfirði. Sumir geta hvergi yndi sitt fest nema á einum vissum stað.
Ég reyndi að leiða talið að því við Magnús, hvort honum hefði ekki liðið illa þarna í einverunni.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson.

-Nei, mér hefur liðið ágætlega. Það er einna verst hvað kalt er í kirkjunni. Hún er svo gisin og gólfgöld. Þó ég kyndi eldavélina í mestu frostum og hún hitni svo, að 20 stig séu uppi við loftið, þá er svo kalt við gólfið að skórnir mínir verða stokkfreðnir undir rúminu. Og svo angrar rottan mig. Það varð einu sinni beinlínis stefnivargur af henni hérna. Nú hefur henni heldur fækkað aftur, en hún grefur sig alltaf inn íkirkjuna. Þó að ég troði í götin á kvöldin sem best ég get, rífur hún það allt úr á nóttunni og er komin inn til mín áður en ég veit af.
En hvernig er með aðdrætti og mat?

-Ég þarf nú ekki á miklu að halda. Mjölvöru hafa Grindvíkingar flutt til mín, en annað sæki ég í Hafnarfjörð. Og matreiðslan veldur mér ekki neinum vandræðum. Ég lifi mestmegnis á trosfiski, ét hann bæði heitan og kaldan svo að segja í öll mál og þykir það dýrindis matur.
Hvað geturðu haft þér til afþreyingar á veturna?
-Ég á nokkrar kindur og það fer drjúgur tími í að hugsa um þær. En þegar ég hef innt gegningar af höndum, þá sest ég við tóvinnu. Ég tæti allan veturinn.

Litlahraun

Litlahraun – fjárhústóft.

Ekki var hann fús á að segja mér hvað hann ætti margar kindur, en í tveimur fjárhúsum er þær á veturna. Magnús hefur tekið að sér að verja túnið í Krýsuvík fyrir ágangi og fyrir það fær hann að vera þarna og hefur nytjar túnisins á eyðihjáleigunni Suðurkoti og annan heyskap eftir þörfum.

En hvað um einmanaleikann?
-Það koma æði margir hérna til mín og margir hafa gist hjá mér. Þeir hafa ekki tekið til þess hvernig húsakynnin voru og viðtökurnar.

Krýsuvíkurheiði

Krýsuvíkurheiði – smalabyrgi.

Í sumar komu hingað tveir enskir hermenn í bíl alla leið heim í hlað. Þeir komu frá Grindavík og voru að leita að Þjóðverjum. En það var enginn Þjóðverji hér. Englendingarnir voru svangir og báðu um mat. Ég hafði ekki annað til en nokkrar flatbrauskökur, sem ég hafði bakað um morguninn. Og þeir átu þær með góðri lyst. Svo buðu þeir borgun, en ég sagðist ekki selja greiða. Þá sóttu þeir reyktóbaksbauk út í bílinn og gáfu mér.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Það leið að kvöldi. Sól var gengin til bak við fjöllin og nöpur gola stóð ofan frá Kleifarvatni. Magnús spurði hvar ég hefði hugsað mér að vera í nótt. Ég hafði nú ekki afráðið neitt um það, hélt að ég gæti fengið að sofa í heyi hjá honum. Nei, það gat ekki komið til mála. Þarna var engin hlaða, heykuml var á bersvæði og ekki hægt að hafast við í því, sagði hann.
-En þér er velkomið að sofa hérna í bælinu mínu.

Magnús Ólafsson

Magnús Ólafsson í Krýsuvík.

Og það varð úr, að ég svaf hjá honum um nóttina og leið ágætlega. Tvisvar varð ég var við að hann fór á fætur og út. Heyrði ég hann þá hóa úti fyrir og hundgá mikla. Hann var að stugga kindum burt frá túninu. Það er ónæðisamt að verja ógirt tún, þar sem þúsundir fjár eru allt um kring.
Það er alltaf einhver mannaferð á vetrum milli Selvogs og Grindavíkur. Þetta er löng leið og getur hæglega breyst veður í lofti á skemmri tíma heldur en þarf til að ganga hana. Og þá er gott að geta leitað skjóls í Krýsuvík. Ég minnist þess þó ekki að hafa heyrt minnst opinberlega á þörfina á því. Má vera að það hefði verið gert ef Magnús hefði ekki verið þarna og tekið að sér að skjóta skjólshúsi yfir hvern sem kom, og gera öllum greiða er hann gat bestan í té látið.
Hann á heiður skilið fyrir það og væri launa vert.“

Við þetta má bæta við eftirfarandi frá Lofti Jónssyni í Grindavík, en hann kom ungur í Krýsuvíkurkirkju þegar Magnús bjó þar:

Krýsuvík

Krýsuvík um 1950.

„Ég man nú ekki svo vel eftir öllum aðstæðum inni hjá Manga í Krýsuvík (Magnús Gíslason). Hér var hann alltaf kallaður Mangi í Krýsuvík. Þó man ég eftir óumbúnu rúmfleti inn við gafl í suð-austur horninu. Lítið borð var þarna og tveir stólar. Ekki man ég eftir eldavél sem þó hlýtur að hafa verið einhvers staðar. Ég man ekki eftir grátunum sem hljóta að hafa verið uppi, því það hafa verið mikil helgispjöll að fjarlægja þær. Fjöldamörgum árum síðar átti ég leið þarna um í bíl. Kirkjan var þá læst en þegar kíkt var á glugga sást að mýsnar voru búnar að naga neðan af stóllöppunum, misjafnlega mikið, þannig að þeir voru ekki góðir til ásetu.“

-Landið er fagurt og frítt – Árni Óla – 1944.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.