Krýsuvíkurkirkja II
Krýsuvíkurkirkja var reist árið 1857, en lögð af sem sóknarkirkja 1929, notuð till íbúðar, endurbyggð og síðan endurvígð 1964. Hún tilheyrir nú Hafnarfjarðarprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi.
Kirkjan er varðveitt af þjóðminjaverði. Þegar Krýsuvíkurbærinn, hið merka stórbýli um aldir, var orðinn svo hrörlegur á fyrri hluta 20. aldar að ekki var lengur hægt að hafast við í honum, flutti ábúandinn í kirkjuna. Hún var afhelguð og notuð sem bústaður um tíma. Þangað komu margir á ferðum sínum um Krýsuvík og nutu skjólsins þótt stundum væri vistin köld á vetrum. Ofn var þá í kirkjunni og var hann kyntur duglega, en kulnaði á milli. Kirkjan er dæmi um einfalda sveitakirkju frá síðari hluta 19. aldar. Krýsuvík er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Krýsuvík fór endanlega í eyði eftir 1950. Stórbýlið Krýsuvík hafði um tíma 14 hjáleigur, enda jarðgæði mikil áður en uppblástur tók að herja. Víða í Krýsuvík má sjá búsetuminjar, allt frá Selöldu í suðri að Kleifarvatni í norðri, Seljabót í austri og Selatöngum í vestri. Sveinn Björnsson, listamaður og lögreglumaður, hafði vinnustofu í Krýsuvík. Þegar hann andaðist 28.04.1997, sjötíu og tveggja ára, var hann jarðaður í Krýsuvíkurkirkjugarði 9. maí. Þá hafði ekki verið jarðsett í garðinum síðan 1917.