Landakot
Jörðin Landakot lætur ekki mikið yfir sér þegar ekið er um Vatnsleysstrandarveg. Jörðin er á milli Þórustaða og Auðna (Höfða) og skartar m.a. fallega hvítri skeljasandsströnd. Tóftir er þar víða að finna. Fróðlegt er því að skoða örnefnalýsingar um jörðina, annars vegar skráða af Ara Gíslasyni og hins vegar Margréti Guðnadóttur og bróður hennar Eyjólfi.
Ari Gíslason skráði m.a. eftirfarandi (lýsingar á upplandinu er sleppt): „Jörð á Vatnsleysuströnd næst við Auðna. Upplýsingar um örnefni gaf Guðni Einarsson bóndi þar.
Merki móti Auðnum. Fyrir neðan flæðarmál er ós sá, sem heitir Markaós sem er austasti ósinn er skerst inn úr aðalós þeim er gengur inn milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál við suðurenda stakkstæðis, sem tilheyrir Landakoti, um Krók þann er sjávargarðar Landakots og Auðna mynda svo um Brunnhóla sunnanverða eftir gömlu torfgarðlagi um sunnanverðan Landakotshól.
Við merkin móti Auðnum er sker sem heitir Skurðsker og aðeins innar er annað sem heitir Sundsker. Milli þeirra er leiðin inn að vörinni og þar innar eru svo Markaflúðir í fjörunni.
Upp af Markaflúð á landi er Djúpagróf, gamalt vatnsból, unnið af mannahöndum, allmikið og merkilegt mannvirki, er á merkjum móti Þórustöðum. Þangað var vatn sótt áður fyr. Þetta er borað með handafli, hlaðið innan og tröppur niður í.
Í túninu er aðeins Landakotshóll, stór hóll upp af bæ og á merkjum móti Höfða, í sambandi við hann og slátt þar er sagt að fólk hafi dáið hér úr óþekktri veiki. Gamlar tættur eru inni í miðju túni neðan við bæ og heitir það Gata. Þar var alinn upp skipstjórinn á glæsilegasta skip Íslands. Þar standa hlóðir eins og áður fyr Tröppurnar í Djúpugróf er Landakotsmegin en
líklega hefur hann verið gerður í félagi. Vestast á túni lenti hér eitt sinn flugvél, hún brotnaði en maðurinn slapp, síðan var þetta stykki nefnt Holland.“
Margrét Guðnadóttir og Eyjólfur Guðnason rituðu eftirfarandi örnefnalýsingu fyrir Landakot byggða á landamerkjalýsingu jarðarinnar frá 1886:
„Um landamerki jarðarinnar Landakots í Vatnsleysustrandarhreppi gagnvart jörðunum Þórustöðum að norðan og austan og Auðna og Bergskots að sunnan og vestan vísast til landamerkjalýsingar gerðrar 12. júní 1886 að Brunnastöðum í Vatnsleysustrandarhreppi.
Undirrituð kannast við flest kennileiti í þeirri lýsingu, en ekki þó öll.
Um fjölda býla í Landakoti fyrrum vitum við ekki, en höfum ekki heyrt talað þar um tvíbýli. Í 7. línu, bls. 2, er talað um býlið Götu. Gata á að hafa verið neðan við Landakotsbæinn, en er norðan við hann, miðja vegu milli íbúðarhússins í Landakoti og girðingarinnar, sem skilur Landakot frá Þórustöðum.
Tættur Götu standa enn, og þar er hlaðinn grjótgarður um kálgarð, sem alltaf var kallaður Götugarður og sáð í hann fram á síðustu ár.
Býlið Lönd vitum við ekki hvar var og getum ekki staðfest, að það hafi verið niður við sjó, en þar eru tóftarbrot á tveimur stöðum og gamalt kálgarðsstæði hjá öðrum, sennilega er það sá kálgarður, sem talað er um í landamerkjalýsingunni frá 1886 og nefndur sjávarkálgarður Landakots. Hann var aflagður fyrir okkar minni. Ofan til í Landakotstúninu, miðja vegu milli Þórustaða og Bergskots, eru enn eldri hleðslur, og var faðir okkar stundum að gizka á, að þar hefðu Lönd verið. Þetta var þó ágizkun ein.
Á bls. 2 er talað um kennileiti í Landakotsfjöru. Skerið, sem þar er kallað Sílalónssker, var alltaf kallað Síllónssker í okkar bernsku (kannski Sílónssker, því lón er fyrir innan skerið, og fellur aldrei vatn úr því um fjöru) og kampurinn kambur. Landasker og Skorusker þekkjum við ekki. Talað var um tvö Sundsker, dýpra og grynnra. Það Sundsker, sem er á mörkum Landakots og Þórustaða, er dýpra skerið, en í grynnra skerinu er djúp skora, og gæti rétta heitið á því verið Skorusker eða Skurðsker.
Neðst á bls. 2. er talað um brunninn Djúpugröf. Sá brunnur var aldrei kallaður annað í okkar tíð, og var ausið úr honum vatni á þvott. Vatnsbólið var annar brunnur miklu dýpri, byrgður, og í honum flæðivatn ósalt. Hann þornaði um fjöru, en fylltist á flóði, og varð að sæta sjávarföllum til að dæla úr honum vatni. Hann er um 80-100 m neðan við íbúðarhúsið í Landakoti, langt frá Djúpugröf og miklu yngri og var aldrei kallaður annað er Brunnurinn. Fjöruvötn eru í Landakotsfjöru, ósalt vatn, sem áður fyrr var notað á þvott og ull. Þau koma upp úr um fjöru, en fara í kaf á flóði, og eru líklegast á suðurmörkum fjörunnar, upp undan Síllónsskeri. Meðan þang var skorið um allar fjörur, var auðvelt að finna vötnin, en nú
eru þau kannski horfin í þangið fyrir löngu.
Á bls. 2 er getið álaga á Landakotshól, sem er að mestu í Landakotstúni, en að hluta í landi Bergskots. Hólinn mátti ekki slá Landakotsmegin nema neðst, en við kunnum engar sögur um afleiðingarnar eða sjálf álögin. Það þótti sjálfsagt að slá aldrei hólinn; kýrnar myndu ekki heppnast, ef hóllinn væri sleginn.
Á bls. 3 í lýsingu Örnefnastofnunar er getið þekktra hóla og kennileita úr Strandarheiði, en erfitt er að staðsetja þá í landi hverrar einstakrar jarðar á svo þéttbýlu svæði, nema þá, sem næstir eru bæjum, eins og Skálholt og Vatnshóla, sem báðir virðast vera í landi Landakots. Ekki vitum við, hvar Auðna-Klofningar, Stórhæð eða Klofi eru, en þeirra er getið í landamerkjalýsingu. Önnur kennileiti á bls. 3 þekkjum við.
Sú lýsing á jörðinni Landakoti, sem við fengum í hendur frá Örnefnastofnun, gæti verið ítarlegri, og skulum við tína til hér á eftir fáeina bletti, sem hétu nöfnum í okkar bernsku, og reyna að lýsa staðháttum.
Íbúðarhúsið í Landakoti stendur í Landakotstúni sunnanverðu, nær Auðnum og Bergskoti en Þórustöðum. Núverandi íbúðarhús var byggt 1925-27 norðan við grunn eldra húss, sem rifið var. Standa nú tröppur þess húss einar eftir, og mótar fyrir grunni. Þetta hús, sem nú er búið í, byggðu Sveinn og Geir Pálssynir. Bjó Sveinn þá í Landakoti, en fluttist síðar að Hábæ í Vogum og rak þar verzlun. Árið 1927 fluttist að Landakoti Guðni Einarsson, faðir heimildarmanna. Hann kom frá Haga í Holtum í Rangárvallasýslu og hafði haft nokkurra mánaða búsetu í Reykjavík, áður en hann fluttist að Landakoti. Árið 1928 kvæntist hann Guðríði Andrésdóttur, er alin var upp á Þórustöðum á Vatnsleysuströnd og hafði aldrei þaðan farið. Þau bjuggu allan sinn búskap í Landakoti. Síðan 1958 hafa búið í Landakoti tveir synir Guðna, fyrst Eyjólfur, síðan Jón, sem enn hefur ábúð á jörðinni, þegar þetta er ritað (1977).
Áföst íbúðarhúsinu sjávarmegin eru hlaða og fjós, er mynda skúrlaga ranghala, sem gerir húsið sérkennilegt að ytra útliti. Safnþró er neðan við grunn gamla hússins, vestan og neðan við fjósið. Alveg við austurhorn íbúðarhússins byrja gamlir grjótgarðar, sem skýldu kálgörðum heima við bæinn. Austast í þessum hleðslum er talin hafa verið smiðja. Undir
suðurhlið hússins var í okkar bernsku gerður blómgarður, girtur með trégrindverki og hlaðin sæti í horn grindverksins næst húsinu.
Niður túnið, frá húsinu, liggur sjávargata að uppsátrinu. Þetta var troðningur, en túnið hart og hægt að fara sjávargötuna með hest og vagn, ef með þurfti. Sunnan við sjávargötuna, suður að mörkum Auðna, er slétt flöt, harðbali, sem kallaður var Seiglöpp. Heyið á Seiglöpp þótti þorna seint. Vestast á Seiglöpp, næst mörkum Auðna, var gerður kálgarður um 1940. Er hann notaður enn. Sjávarmegin við þennan kálgarð eru hólar og klappir. Þar eru líklega þeir Brunnhólar, sem nefndir eru í landamerkjalýsingunni, þótt enginn sé þar brunnurinn. Við höfum ekki áður heyrt þetta nafn. Flötinni Seiglöpp hallar í átt til sjávar, og endar hún í þýfðri laut milli Brunnhóla og sjávargötunnar. Í lautinni er oftast tjörn, misstór eftir úrkomumagni og árstíðum, en brunn vitum við ekki um á þessum slóðum.
Brunnurinn, sem notaður var í okkar bernsku, er út undan tjörninni, rétt norðan sjávargötunnar. Sá brunnur er a. m. k. 50 ára, byrgður, og vatn leitt úr honum í íbúðarhúsið um 80-100 m veg. Vitum við ekki, hvort þar kann að hafa verið eldri brunnur endurbyggður, þegar vatn var leitt í bæinn.
Neðan við tjörnina er gamalt, gróið kálgarðsstæði, aflagt fyrir okkar tíð. Það hlýtur að vera sá sjávarkálgarður, sem til er vitnað í landamerkjalýsingunni gagnvart Auðnum, enda liggur girðingin milli bæjanna úr suðurhorni hans í krók, sem myndast á mörkum sjávargarða beggja býlanna. Hjá kálgarðinum eru tóftarbrot, en ekki vitum við, hvort þar stóð bærinn
Lönd, eins og látið er að liggja í heimildum, sem við fengum í ljósriti frá Örnefnastofnun. Í okkar bernsku gekk fjárhús með hlöðnum veggjum vestast út úr kálgarðsveggnum og sneri dyrum til sjávar. Það var kallað Efrikofi til aðgreiningar frá öðru fjárhúsi, Neðrikofa, sem stóð alveg niðri á sjávarkambinum. Út úr suðurvegg kálgarðsstæðisins gekk
hesthús með hlöðnum veggjum og sneri dyrum að Auðnum. Frá syðra vegg Efrikofa gekk gamalt garðbrot alveg niður á sjávarkamb. Gæti það hafa verið á mörkum jarðanna Landakots og Auðna, en girðingin, sem nú skilur jarðirnar, liggur nú skáhallt nokkru sunnar, eins og sneitt hafi verið af Auðnatúninu.
Norðan sjávargötunnar, eiginlega í beinu framhaldi af neðra vegg gamla kálgarðsstæðisins, sem áður getur, neðan við þann brunn, sem vatn var leitt úr í bæinn, og skáhallt norður og niður til sjávar, var grjótgarður. Svæðið, sem afmarkaðist af honum og gamla kálgarðsstæðin annars vegar og sjávargarðinum hins vegar og girðingunni milli Landakots og Auðna að sunnan, var alltaf kallað Gerðið. Gerðið var athafnasvæði þeirra, sem sjóinn sóttu frá Landakoti. Þar var gert að veiðarfærum, og líklega hafa verið þar fiskreitir áður fyrr. Gerðið var slegið í okkar bernsku, en fiskur þurrkaður á reit, sem gerður var ofan túns eftir 1930. Grásleppa var þurrkuð við sjóinn og sundmagi breiddur á sjávargarðana, meðan hann var hirtur. Hleðslurnar kringum Gerðið hafa líklega átt að verja athafnasvæði útgerðarinnar fyrir ágangi búfjár.
Útræði hefur alltaf verið gott frá Landakoti. Þrjár varir hafa verið þar, Suðurvör, Miðvör og Norðurvör, og er Miðvörin enn notuð. Lendingarskilyrði eru þarna góð frá náttúrunnar hendi og gott smábátalægi á sundinu fyrir utan varirnar. Þar má leggja stærri trillum. Innsigling er þægileg. Tvö sundmerki eru, sundvarða á sjávargarðinum norðan til og önnur á hól í heiðinni, skammt frá þjóðveginum eldri. Á báðar að bera saman og í miðjan Keili, þegar inn er siglt. Á sjávarkambinum ofan við varirnar voru þau mannvirki, sem þurfti til árabátaútgerðar fyrri tíma. Þar var naust, skiparétt, hjallur og söltunarhús. Hjallurinn var áfastur við söltunarhúsið og sneri dyrum til sjávar. Á lofti yfir báðum var veiðarfærageymsla.
Handsnúið spil var norðan við hjallinn og bátar settir á hvalbeinum eins hátt upp í uppsátrið og þurfa þótti til að verja þá sjógangi. Milli Miðvarar og Norðurvarar var lág klöpp, kölluð Hausaklöpp. Þar var gert að og hertir þorskhausar. Slorfor var gryfja lítið eitt ofan við uppsátrið. Þangað fór slorið á vertíðinni, en síðan í áburð á túnið. Fé var beitt í fjöru.
Flæðihætta er, og var rekið upp úr fjörunni fyrir aðfallið.
Um skerin í Landakotstanga má bæta því við það, sem segir hér á fremstu síðu, að sunnan við sundið í Landakoti er grynning, þar sem sér á þara í mestu fjöru. Þegar illt er í sjóinn, getur tekið sig þarna upp boði, sem heitir Landaboði. Einnig er talað þarna um Landarif.
Sjór hefur mikið gengið á landið í seinni tíð, og má heita, að sjávargarðurinn frá Hausaklöpp að mörkum Þórustaða sé eyddur. Á honum sem næst miðjum er sundvarðan, sem áður er á minnzt, og hefur verið reynt að halda henni við. Ofan við garðstæðið eru harðir sandbakkar með lágu, þéttu grasi. Þeir voru kallaðir Bakkinn eða Landakotsbakki og talað um að slá Bakkann.
Neðst á Bakkanum sést nú kálgarðsstæði, sem notað var til skamms tíma, eða þar til ágangur sjávar gerði þar veruleg spjöll. Þessi kálgarður var kallaður Bakkagarður eða Sandgarður , því að jarðvegurinn var hvítleitur af fjörusandi, hér um bil eins og sandfjaran fyrir neðan sjávarkambinn. Utan um Bakkagarð voru grjótveggir, og fyrir austan hann merkilegt mannvirki grafið inn í Bakkann, hlaðið í hring og reft yfir með tunnustöfum, svo tyrft yfir allt saman. Þetta var kallað Jarðhúsið og notað fyrir kartöflugeymslu í okkar bernsku og var víst upphaflega ætlað til að ísa í fisk.
Bakkinn náði frá sjávargötunni að sunnan og vestan og allt norður og austur að Þórustaðabakka og Þórustaðatjörn. Syðst í þeirri tjörn er brunnurinn Djúpugröf, að hluta í Landakotstúni, og tjörn í kvosinni sunnan og austan við Djúpugröf, en mógrafir vestan og sunnan við Djúpugröf í austurjaðar Bakkans. Þarna að norðanverðu, milli Jarðhússins og Djúpugrafar, er Bakkinn nánast ræma, en breikkar eftir því sem nær dregur sjávargötunni.
Það eru víst ekki nema um 60 ár síðan þessi hluti túnsins varð slægur, áður var þetta víst fjörusandur. Melgresi er sjávarmegin í öllum Bakkanum, og hefur það kannski átt sinn þátt í því að græða upp fjörusandinn1. Bakkinn var alltaf snöggur, hvernig sem á hann var borið. Í austur hallaði Bakkanum í aflíðandi brekku á áttina að tóftum býlisins Götu. Milli Götu og Þórustaðagirðingar var túnið þýft og grýtt. Í austurjaðri Bakkans, aðeins sunnan við tjörnina, sem Djúpugröf er í, er sá hóll Holland, sem flugvél nauðlenti á, líklega 1934-35. Þetta var mesti merkisviðburður í þá tíð, og sem betur fer slasaðist enginn.
Frá Auðnum, um hlaðið í Landakoti, inn túnið, ofan við tóftarbrotin í Götu og að Þórustöðum liggur troðningur, sem var alfaraleið um Ströndina og liggur áfram inn á bæi.
Ofan við þennan götuslóða liggur sá hluti Landakotstúns, sem nefndur var Inntún, næst Þórustöðum, en Upptún upp af bænum í Landakoti. Í Upptúni mótar fyrir gömlum hleðslum, sem gætu verið bæjarstæði, og faðir okkar gizkaði á, að hefði verið bærinn Lönd.
Mamma vissi ekki um neinn slíkan bæ. Heimreiðin frá þjóðveginum að Landakoti liggur beint upp af íbúðarhúsinu og skilur að Upptún og svonefndan Leyni, sem er grösug laut, er liggur frá heimreiðinni að girðingunni, sem skilur að Landakot og Bergskot. Leynirinn breikkar, er sunnar dregur, og suður við girðinguna er hann breiðastur og afmarkast af Landakotshól, sem áður er að vikið sem álagabletti. Milli hólsins og íbúðarhússins er þýfi ofan við Seiglöpp. Í þetta þýfi gat safnast vatn og stundum orðið úr tjörn. Þetta þýfi endar í tveimur lágum hólum, sem við kunnum ekki nöfn á, en á milli þeirra lá götuslóðinn, sem áður getur suður að Auðnum. Í Landakoti var álagahóllinn yfirleitt kallaður Bergskotshóll.
Ofan við Upptún, Inntún og Leyni var girðing og heiðarmegin við hana fiskreitur og hænsnakofi. Síðan kom önnur girðing neðan við þjóðveginn, og á milli þessara girðinga var Móinn með moldarflögum og klöppum, sem við krakkarnir skírðum ýmsum nöfnum, sem varla verða talin til örnefna.“
Heimildir:
-Landakot – Örnefnalýsing Ara Gíslasonar.
-Landakot – Örnefnalýsing Margrétar Guðnadóttur, skráð af Eyjólfi Guðnasyni.