Minjastofnun – Stefna 2022–2027 um verndun og rannsóknir á fornleifum og byggingararfi
Minjastofnun Íslands lýsti því opinberlega fyrir nokkrum árum að starfsfólk stofnunarinnar hefði mun meiri áhuga en áður að vinna með íbúum, staðkunnugum og áhugafólki um fornminjar sem og öðrum með þekkingu á efninu á einstökum svæðum landsins. Síðan hafa liðið misserin – án nokkurra sýnilegra viðbragða.
Minjastofnun.
Til hvers eru stofnanir ríkisins? Þær virðast, þegar betur er gáð, fyrst og fremst vera fyrir starfsfólkið sem og viðfangsefnin, oftast án nokkurra tenginga við þá/þau er þjónustunnar eiga að njóta? Oftar en ekki virðist starfsfólk opinberra stofnana fremur líta á skjólstæðinga sína sem „óþægindi“ en viðskiptavini. Hversu þægileg væri t.d. vinnan í hugum þess ef engin væru „óþægindin“, þ.e. skjólstæðingarnir? Möguleikar hinna síðarnefndu hafa a.m.k. verið takmarkaðir til muna í seinni tíð til að ná símasambandi við hlutaðeigendur.
Svo virðist, af fenginni reynslu áhugafólks um fornminjar, sem framangreint gildi einnig um starfsfólk Minjastofnunar Íslands.
Þegar hins vegar betur er að gáð virtust upphafleg fyrirheit stofnunarinnar hafa lofað góðu – en gleymst einhverra hluta vegna, líkt og gerist jafnan hjá opinberum stofnunum.
Í skýrslu Minjastofnunar Íslands; „Stefna 2022–2027 um verndun og rannsóknir á fornleifum og byggingararfi“ má m.a. lesa eftirfarandi um að „Auka samstöðu um vernd fornleifa og byggingararfs„: „Fornleifar og byggingararfur og vernd þeirra er ekki einkamál einnar ríkisstofnunar heldur kalla vernd og stýrð nýting minja á samstarf margra aðila. Vernd fornleifa og byggingararfs er nauðsynleg til að tryggja að þekking á þróun og breytingum samfélagsins á hverjum tíma varðveitist. Byggingararfurinn, einstakar fornleifar, samgöngumannvirki og búsetulandslag eru hlutar af heild sem skýrir þróun samfélagsins. Fornleifar og byggingararfur eru vernduð með friðun og friðlýsingu og skapa þarf samfélagslega sátt um mikilvægi þess að varðveita þau og efla skilning á tilgangi og tækifærum verndunarinnar.
Fornistekkur – uppdráttur ÓSÁ.
Nýting jarðfastra menningarminja hefur ýmsar hliðar, svo sem notkun byggingar, rannsókn á fornleifum eða nýting í ferðaþjónustu, m.a. með því að auka aðgengi að minjastað eða byggingu fyrir gesti. Byggingararfur er best varðveittur með notkun, þ.e. að byggingin hafi tilgang og henni sé viðhaldið til að þjóna þeim tilgangi. Stýrð nýting er því mikilvæg þegar kemur að verndun fornleifa og byggingararfs.
Ákvörðun um nýtingu þarf alltaf að taka út frá mati á ástandi og gildi í hverju tilfelli fyrir sig. Eftirfarandi áhersluatriði tryggja sameiginlega sýn á vernd menningarminja og mikilvægi hennar:
A. Samráð um vernd fornleifa og byggingararfs
B. Aukin áhersla á vægi fornleifa og byggingararfs
C. Skýr sýn á friðlýsingar
A. Samráð um vernd fornleifa og byggingararfs
Minna-Knarrarnes; selsminjar og beitarhús í Sauðholtum – uppdráttur ÓSÁ.
Vernd fornleifa og byggingararfs er þverfaglegt verkefni. Öllu máli skiptir að aðilar sem koma að málaflokknum á einhvern hátt tali saman og nýti þekkingu og samtakamátt heildarinnar. Mikilvægt er að hagsmunaaðilar eigi samtal um sameiginlega hagsmuni sem mikilvægt er að efla. Sameiginlegir snertifletir fornleifa, byggingararfs og náttúru eru víða og er nauðsynlegt að taka höndum saman um vernd og nýtingu slíkra svæða. Lögð verður áhersla á samvinnu vegna umfangsmikilla framkvæmda í umhverfinu þannig að öll sjónarmið fái að heyrast og sameiginleg ákvörðun sé tekin um bestu leiðir.
Stefna um vernd fornleifa og byggingararfs mun styðjast við sterkt, jákvætt bakland sem um leið skapar sterka stöðu minjavörslunnar. Auka þarf skilning á mikilvægi fornleifa og byggingararfs innan stjórnkerfis ríkis og sveitarfélaga og gildi þess að vernda þau, skrá og rannsaka.
Til að friðlýsingar skili tilætluðum árangri þurfa forsendur þeirra að vera skýrar.
Auðnasel – uppdráttur ÓSÁ.
Forsendurnar, og þau fjölþættu gildi sem stuðst er við í ferlinu, t.a.m. við mat á sérstöðu og verndargildi, þurfa að vera gegnsæ og í samræmi við alþjóðlega staðla við vernd byggingararfs og fornleifa. Val á þeim fornleifum og byggingararfi sem talið er mikilvægt að friðlýsa þarf að byggja á víðtækri þekkingu og er mikilvægt að leita álits bæði íbúa og sérfræðinga.“
Auk þess er fjallað um að „Styrkja vitund um mikilvægi fornleifa og byggingararfs“:
„Vernd menningararfs er sameiginlegt verkefni allra landsmanna. Aukinn sýnileiki sögunnar er forsenda fyrir sterkari upplifun samfélagsins og þar með aukinni vitund um það virði sem í henni felst. Fornleifar og byggingararfur eru meðal þess sem mótar sjálfsmynd samfélaga og íbúa þeirra.
Nauðsynlegt er að almenningur átti sig á mikilvægi fornleifa og byggingararfs í þessu tilliti.
Selsvellir – sel Grindvíkinga; uppdráttur ÓSÁ.
Fornleifar og byggingararfur, og vernd þeirra, hafa einnig hagrænt gildi fyrir samfélagið. Þau eru auðlind sem hægt er að nýta til góðs um allt land, svo sem í ferðaþjónustu og kennslu. Sérstök áhersla verður lögð á að miðla og fræða yngri kynslóðina um nærumhverfið og söguna og þýðingu hennar fyrir þjóðina. Sérstaklega er lögð áhersla á að dýpka áhuga og þekkingu almennings á fornleifum og byggingararfi með því að tengja þau við sögur og annan lifandi menningararf, ekki síst með notkun stafrænna leiða.
Lögð er áhersla á að styrkja ímynd og veg fornleifa og byggingararfs með auknu samtali fagaðila og heimafólks. Í samtakamætti felast tækifæri til að efla stöðu fornleifa og byggingararfs um land allt.
Áhugamannafélög og hollvinasamtök af ýmsu tagi sýna málaflokknum áhuga og sinna honum af krafti. Mikilvægt er að virkja þá orku sem í þeim er fólgin með því að útfæra leiðir til að auka aðkomu þeirra að vernd fornleifa og byggingararfs. Minjaráðin eru kjölfesta minjaverndar í héraði. Þau hafa skilgreint hlutverk í minjalögum og er mikilvægt að hlúa að þeim og efla rödd þeirra.
Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.
Auka þarf þátttöku heimamanna í minjavernd og skilgreina aðkomu þeirra að staðbundnum verkefnum.
Leita þarf samráðs við minjaráð og íbúa hvers landsvæðis við val á fornleifum og byggingararfi sem vert væri að friðlýsa.
Móta þarf farveg fyrir almenning til að koma á framfæri upplýsingum um menningararfinn.
Samstarf þarf við viðeigandi stofnun um söfnun upplýsinga um fornleifar og byggingararf í tengslum við örnefnasöfnun í landinu.“
Líkt og í upphafi sagði virtust fyrirheit stofnunarinnar, a.m.k. í fyrstu, hafa lofað góðu. Svo virðist sem starfsfólk hennar hafi þó hvorki haft hinn minnsta áhuga á að framfylgja framngreindri stefnu stofnunarinnar né hafi gert nokkra tilraun til að samhæfa sig framangreindum samstarfsáhuga við þá hlutaðeigendur er nefndir eru í „Stefnu stofnunarinnar 2022–2027„.
Hafa ber þó í huga að enn lifa a.m.k. tvö ár af líftíma nefndrar „stefnu„….
Heimild:
–https://www.minjastofnun.is/static/files/stefnumotun/fornleifar-og-byggingararf-2022-2027.pdf
Borgarhraunsrétt – uppdráttur ÓSÁ.