Rauðamelsstígur – Hrútafell – Rauðamelur

Óttarsstaðaselsstígur

Gengið var um Straumsselsstíg/Rauðamelsstíg/Hrauntungustíg norðan við Hrútafell. Þeim síðastnefnda var fylgt um Hörðuvelli, Einihlíðar, Dyngnahraun og Mosa. Þar beygir stígurinn inn í Skógarnef og til norðurs vestan við Óttarsstaðasel. Norðan við selið liggja Rauðamelssígur og Óttarsstaðaselsstígur saman. Stígurinn hefur stundum verið nefndur Mosastígur milli Mosa og Óttarsstaðarselsstíg. Einnig Skógargata inn í Skógarnef. Leiðinni var fylgt áfram niður á Alfaraleiðina utan við Smalaskálahæð, yfir hana og áfram niður fyrir Rauðamel.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – fornar leiðir; Ólafur Þorvaldsson.

Sennilega er eðlilegast að nefna Hrauntungustíginn kaflann frá Hádegisskarði að Sauðabrekkum, Straumsselsstíginn kaflann frá Straumi upp fyrir Hrúthólma að gatnamótum Rauðamelsstígs og Rauðamelsstíginn kaflann, annað hvort frá Óttarsstöðum, eða mótum hans og Óttarsstaðarselsstígs norðan selsins að gatnamótum Straumsselsstígs norðan Hrútafells. Kaflinn frá þeim gatnamótum að Ketilsstíg gæti heitið hvort sem er Rauðameslsstígur áfram og/eða Straumsselsstígur.
Ólafur Þorvaldsson getur hvorki um Rauðamelsstíg né Straumsselsstíg í grein sinni um „Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar“ í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Ætla mætti af því að þar hafi ekki verið alfaraleiðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Hraunin voru á þessum tíma ekki heldur hluti af Hafnarfirði heldur Garðahreppi. Af þeirri ástæðu hefur hann e.t.v. ekki talið ástæðu til að fjalla um þá stíga sérstaklega. Með greininni fylgir þó uppdráttur af hinum fornu slóðum og á honum eru bæði Straumsselsstígur og Rauðamelsstígur merktir skilmerkilega.

Mávahlíðar

Mávahlíðar – forn gata.

Auk þess að skoða Rauðamelsstíg frá Hrútafelli var skoðuð gata út frá norðvestanverðum Hrúthólma að Mávahlíðum. Gatan er á sléttu helluhrauni og bæði breið og greinileg á köflum. Ein lítil varða er á milli hólmans og fellsins. Þegar komið er að hlíðum þess liggur gata til suðurs með því austanverðu. Einnig til norðurs sömu megin. Að þessu sinni var fyrstnefnda gatan rakin áfram vestur yfir lágan sandháls og niður hlíðina að norðvestanverðu. Þar sést stígurinn vel þar sem hann liðast um slétta hraunhelluna neðanverða, áleiðis að Dyngjurana. Þar kemur hann inn á Rauðamelsstíginn.
Ástæða þótti til að skoða þessa leið sérstaklega, bæði vegna þess að hún er einstaklega falleg og greiðfær og auk þess er hún skemmtileg hliðar- og hringleið frá Rauðamelsstíg. Og ekki skemmir tignarleiki Mávahlíðanna fyrir útsýninu á leiðinni.

Mávahlíðar

Mávahlíðar – forn gata.

Þegar gengið er eftir Rauðamelsstíg frá Hrútafelli er í fyrstu gengið um slétt helluhraun. Stígurinn er vel greinilegur. Þegar nálgast tekur lága mosavaxna hraunbrekku mjókkar stígurinn. Hann liggur síðan gróinn, en þó greinilegur, með fallegum hraungíg og síðan áfram að norðurenda Fíflavallafjalls. Austan við endann er djúp gígskál og er stígurinn með austurbarmi hennar. Norðan skálinnar beygir stígurinn til norðurs þar sem hann liðast niður mosahlíð niður að Hörðuvöllum. Á leiðinni greinist stígurinn í nokkrar götur, en þær eru kindargötur er myndast hafa í mosasléttuna. Áberandi og breiður stígur liggur þó yfir að suðurhlíðum Mávahlíðar og er þar enn einn stígurinn í stígakerfi svæðisins.

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur að Óttarsstaðaseli.

Ólafur teiknar Rauðamelsstíginn þarna niður hlíðina á uppdrátt er fylgdi umræddri grein hans í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48 (útg. 1949), í beina stefnu á Ranann. Stígurinn beygir þó þarna til vesturs og síðan aftur til norðurs. Tekinn er bogadreginn krókur niður fyrir hærri hraunkant að neðanverðu. Kannaður var möguleiki á beinni leið þarna niður eftir, eins og uppdrátturinn sýnir, en stór gjá hindrar þar umferð.
Norðan við Ranann sést vel niður eftir stígnum þar sem hann liðast áfram til norðvesturs niður hlíðina, áleiðis að Lambafelli. Stígurinn er þarna nokkuð breiður, en ástæðan er sú að bíl hefur verið ekið eftir honum upp á brúnina og áfram upp fyrir enda Fíflavallafjalls. Gamla stíginn má þó sjá á köflum til hliðar við slóðann. Norðaustan við Lambafellið eru gatnamót og það greinileg.
Rauðamelsstígurinn liðast áfram til norðurs, en önnur gata liggur þarna til suðurs austan Lambafellsins. Líklega er þar um að ræða hestagötu er lá áfram inn með Eldborg, Trölladyngjurótum og áfram inn á Selsvelli þar sem hún hefur m.a. mætt Þórustaðastíg um hálsinn yfir til Vigdísarvalla. Auk þess hefur þarna legið leið t.a.m. til og frá Selatöngum. Á heforingjaráðkorti frá 1908 (endurgert 1936) sést gatan liggja áfram upp í Sogin og einnig inn með Núpshlíðarhálsi.

Rauðamelsstígur

Rauðamelsstígur.

Rauðamelsstígurinn liðast nú í gegnum hraunið, um þriggja metra breiður á kafla. Hestagatan, klöppuð í slétt bergið, sést þarna á nokkrum stöðum. Hún er lítillega til hliðar við meginleiðina. Með lagni má sjá lægðir í óhreyfðum mosanum og fylgja götunni nokkurn spöl. Síðan þrengist hann verulega og verður ógreinilegri. Einungis ein varða, og það vel mosaskeggvaxin, er við norðurenda hans – þar sem hann kemur niður í Mosana. Mosinn á vörðu þessari er sérkennilegur og öðruvísi en almennt gengur og gerist. Þarf ekki að undra að til skuli vera hátt í átta hundruð mosategundir hér á landi.
Þarna er gott útsýni yfir norðvestanverðar Einihlíðar. Stórbrotið er að sjá hvernig nýjasta hraunið, sennilega frá því í goshrinunni á 12. öld (1151-88) hefur runnið sem foss fram af og niður hlíðarnar á tveimur stöðum.
Þegar staðið er þarna virðist eðlilegra að stígurinn hafi legið svo til beint og á ská um hlíðina ofanverða til suðurs. Hún virðist greiðfær, en ekki mótaði fyrir heilstæðum stíg þar þrátt fyrir greinanlega útidúra.

Rauðamelsstígur

Rauðamelsstígur – vörður við gatnamót stígsins, Óttarsstaðaselsstígs og Skógargötu um Mosa.

Þegar niður á slétt helluhraun Mosanna er komið má sjá móta fyrir hestagötu klappaða í hraunhelluna við hlið hinnar almennu. Mosinn hefur víðast hvar þakið hana, en ef vel er að gáð má sjá götuna á köflum.
Ofarlega í Mosunum greinist gatan í tvennt; annars vegar beint áfram að Bökkuklettum og hins vegar til norðvestur niður með brún Eldborgarhrauns. Þá leið er m.a. hægt að komast niður í Seltóu í Afstapahraui og þræða síðan Tóurnar langleiðina niður að Kúagerði.

Þegar komið er niður að hraunnefi er skagar inn í Mosana úr norðaustri greinist gatan. Hin breiða almenna heldur áfram niður eftir, áleiðis að Bögguklettum, sem eru tveir klofnir klettastandar í annars sléttri hraunhellunni. Nýlegra hraun, mjög þunnfljótandi, hefur runnið líkt og vatn niður sléttlendið, smurt sig upp á klettana og síðan sjatnað á ný. Hraunhellan er ekki nema nokkrurra sentimetra þykk og hefur forstveðrun náð að brjóta hana í smærri einingar á stórum köflum.

Bögguklettar

Bögguklettar.

Hin gatan liggur til norðausturs með hraunbrúninni. Gróið er í kantinn svo ekki skal undra að hestamenn skuli hafa valið þess leið um Mosana. Leiðirnar tvær koma síðan saman á ný norðan Böggukletta þar sem hún kemur inn á lítillega hækkun í hrauninu.

Hestagatan sést vel svolítinn spöl. Þá greinist stígurinn í tvennt; annars vegar til hægri, sem hefur verið meginleiðin, bæði breið og greinileg og liggur áleiðis inn í Skógarnef, og hins vegar (að öllum líkindum) hestaleiðin (beint áfram), niður með hraunbrún Skógarnefsins. Þar liðast hún um grónina undir hraunbrúninni. Þessar leiðir koma síðan saman á ný við tvær vörður við norðanvert Skógarnef.

Skógarnef

Skógarnef – varða.

Stígurinn í gegnum Skógarnefið er óglöggur vegna þess að gróið hefur yfir hann að mestu. Ef vörðum er hins vegar fylgt þvert í gegnum Nefið má fylgja stígnum eins og hann var. Hann sést undir klapparhæðarbrún og síðan vel skömmu áður en komið er út úr því að norðanverðu. Þar er verklega hlaðin varða, líklega landamerkjavarða á sléttlendi, og síðan tvær aðrar er áður var minnst á.
Héðan er stígurinn vel varðaður niður að gatnamótum Óttarsstaðarselsstígs norðvestan selsins, skammt neðan Meitlanna. Sunnanverð vesturhlíð Almennings er þarna vel gróin og liggur Rauðamelsstígur á ská til norðurs um gróninga og hraunbolla. Nota þarf fulla athygli til að fylgja stígnum rétta leið um þetta svæði. Varða við skjól vestan Óttarsstaðasels sést í norðaustri og þegar lengra er komið sést selsvarðan ofan við selið. Frá gatnamótunum, þegar gengið er til suðurs milli vörðubrotanna er beint sjónlína í Trölladyngju.

Almenningur

Almenningur – kort.

Stígur gengur upp frá Óttarsstaðaseli að Búðarvatnsstæðinu og síðan áfram upp að norðanverðum Mávahlíðum. Þar kemur hann inn á stíg þann er fyrr var líst frá Hrúthólma að hlíðunum. Vörður eru við stíginn á stöku stað. Að og frá Búðarvatnsstæðinu er hann vel áberandi.
Við fyrrnefnd gatnamót eru tvær fallnar vörður, næstum jarðlægar. Frá þeim liðast Óttarsstaðaselsstígur (Rauðamelsstígur) niður hraunið, niður Bekkina, að og yfir Alfaraleiðina milli Innnesja og Útnesja og áfram áleiðis að Óttarsstöðum. Áður en námurnar voru teknar í notkun í Rauðamel hefur stígurinn legið norðan við Melinn og síðan áfram að Óttarsstöðum. Námurnar hafa tekið hann í sundur á stuttum kafla, en stígurinn kemur á ný í ljós norðvestan við þær. Þar lauk göngunni að þessu sinni.

Almenningur

Almenningur – vörðukort (ÁH).

Rauðamelsstígurinn er vel greinilegur mest alla leiðina milli gatnamótanna norðan Hrútafells að Óttarsstöðum.
Helstu leiðir milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur voru Stórhöfðastígur, Undirhlíðavegur, Dalaleið, Straumsselstígur og Rauðamelsstígur. Flestar leiðirnar lágu saman norðvestan við Ketilinn. Auk þess er vel vörðuð leið upp frá Lónakotsseli að Sauðabrekkum, en hennar hefur hvergi verið getið svo vitað sé. Stundum var um fleiri en eina götu að velja á köflum sömu leiðar.
„Gömlum vinum og gömlum götum á enginn að gleyma“. Á þessu gamla færeyska orðtaki byrjar Ólafur Þorvaldsson lýsingu sína á „Fornum slóðum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar“ er birtust í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48.

Almenningur

Almenningur – leiðir.

„Þessar gömlu götur og vegir, því að nokkuð af þeim kallaðist vegir, annað götur eða stígar, búa í þögn sinni og yfirgróningu yfir margra alda óskráðum minningum um alla þá menn sem þar hafa ferðast; um alla þá erfiðleika sem þeir áttu við að etja á jafntorfærum leiðum og margar þeirra voru – en voru þrátt fyrir allt leið manna um landið frá landnámstíð fram á vora daga. Þær búa líka yfir mörgum ánægjustundum vegfarenda, sem svo oft var vitnað til, að þetta eða hitt hefði borið við á þessum leiðum. Efast ég um að fólk, sem ferðast nú um landið eftir dýrum vegum, á dýrum farartækjum nútímans, eigi ánægjulegri og bjartari minningar að ferðalokum en þessar fornu og nú yfirgefnu slóðir veittu oft og einatt þeim sem um þær fóru á sínum tíma.

Fornaselsstígur

Fornasels og Gjálselsstígur.

Flestar hafa þessar götur orðið til smám saman af umferð manna og hesta, og hafa margar þeirra verið mjög fjölfarnar, t.d. sést víða, þar sem leiðir liggja yfir hraunhellur, að hesthófurinn með sínum pottuðu skeifum og líka oft pottuðu hestskónöglum hefur sorfið götur oft 10-20 sm djúpar. Til þess að djúpar götur myndist í hart hraunið eða grágrýtisklappir hefur umferð hlotið að vera bæði mikil og það um langan tíma.
Óvíða sér nema eina götu í hraunlendi eða þar sem grágrýtsiklappir eru. Þó ber aðeins út af. Þar sem vegir lágu um svona ógreitt land urðu menn oft að teyma lestir sínar hverja á eftir annarri. Vegna þess að aðdráttarferðir manna voru á nokkuð ákveðnum tíma, sér í lagi á vorin, sammæltust oft menn úr sömus veit til slíkra ferðalaga, og gátu oft slegist í förina fleiri menn með hesta í hópnum þar sem hver maður var oftast með 5-8 hesta. Þegar menn fóru lausríðandi og leið þeirra lá um slíkt land urðu þeir að „lesta sig“ sem kallað var, gátu ekki riðið hlið við hlið, og var þetta stundum kallaður „gæsagangur“. Aftur á móti þars em götur lágu eftir grónu landi, t.d. grasdölum, árbökkum eða meðfram sjó, sjást sums staðar allt að tuttugu götur hlið við hlið, þá gátu menn teymt lestir sínar samsíða, eða ef lausir voru, riðið hver við annars hlið, spjallar saman, rétt milli sín tóbaksílát og ef til vill vasafleyg sem hressti þá og lífgaði á margra daga lestarorri.“

Reipshögld

Reipshögld.

Ólafur heldur áfram að lýsa hinum gömlu götum: „Oftast nær var það svo að þeir sem fóru um þessar gömlu götur, þó lausríðandi væru, urðu að fara hægt yfir landið, þar eða þær götur voru víða þröngar eða ógreiðar yfirferðar. Þetta hafði vitanlega sína ókosti og líka kosti. Ókostirnir voru helst taldir þeir að menn voru lengur en ef gatan hefði verið greið – einnig það að oft voru á þessum götum klif eða skarpar beygjur sem varð að fara hægt yfir og fyrir, og gátu baggar rekist í og hrokkið af klakk. Sáust þess stundum merki meðfram fornum götum að slíkt hafði hent, þó jafnvel sjaldnar en búast mátti við. Athugull ferðamaður komst stundum auga á brotna högld af reipi utan við veginn, kom þá stundum í ljós, ef menn nenntu að taka upp og skoða þetta gamla, þögla vitni hinar fornu og miklu umferðar, að það var komið um óravegu, jafnvel yfir fleiri sýslur, úr fjarlægum landsfjórðungum. Reipshagldirnar voru þá alltaf brennimerktar bæði nafni eiganda og hreppsbrennimerki.

Skeifa

Skeifubrot í alfaraleið.

Það ber einnig við að menn sjá við þessar gömlu götur skeifubrot eða jafnvel heila skeifu, sem er kannske orðin tvöföld að þykkt frá uppruna af ryði og sandi samanblönduðu, má oft merkja aldur hennar bæði af lagi og gatafjölda…
Þá er að geta kostanna við þessar gömlu götur að nokkru, þeir voru ef til vill færri en ókostirnir, en þó skal nefnt hér t.d. aðþar gáfust ótal tækifæri til athugunar á því sem fyrir augu bar, svo sem landslagi, kennileitum, hvernig örnefni hefðu myndast o.fl. Út frá ýmsum þessum athugunum spunnust oft milli samferðamanna fróðlegar og skemmtilegar umræður.

Rauðamelsstígur

Rauðameslsstígur – vörður.

Til var það á leiðum milli byggðalaga, þar sem talin var hálfnuð leið, að menn nefndu t,d, Hálfnaðarklett, Hálfnaðarhól, Hálfnaðarskarð, Hálfnaðarsprungu. Öll þessi leiðarmerki af núttúrunnar hendi eru nú týnd eða að týnast með niðurlagðri umferð um fornar slóðir.“
Rétt er að láta þessi síðustu orð Ólafs Þorvaldssonar verða áhrínins- og áminngarorð til handa núlifandi kynslóð. Ástæðulaust er að láta þennan miklvæga þátt forsögunnar týnast eða gleymast. Glötuð gata er glataður menningartengill milli fortíðar og nútíðar. Framtíðin mun ekki varðveita slík verðmæti nema vitneskjunni verði komið á framfæri.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Gamlar þjóðleiðir og fornir stígar liggja vítt og breitt um Reykjanesfólkvang. Þessar leiðir hafa gleymst eftir að ökuvegir voru lagðir og menn hættu að þræða gamlar slóðir á ferð sinni um nesið. Flestar leiðirnar tengja byggðahverfin gömlu við útverin á Suðurnesjum.
Á milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur lágu t.d. Undirhlíðaleið, Dalaleið, Vatnaleið, Stórhöfðastígur og Hrauntungustígur. Frá Hraunabæjunum við Straumsvík og Hvassahrauni lágu t.a.m. Straumsselsstígur, Rauðamelsstígur og Mosastígur til Krýsuvíkur, að Selatöngum eða Grindavíkur. Með Núpshlíðarhálsi lágu Hálsagötur og milli Vatnsleysustrandar og Vigdísarvalla lá Þórustaðastígur. Drumbsdalastígur þræðir sig áfram frá Bleikingsvöllunum sunnan Vigdísarvalla austur að Krýsuvík.
Rauðamelur var áður fyrr tveir rauðir gjallhólar en eru nú malargryfjur.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Stígurinn, sem lá frá Rauðamel í suðurátt er, sem fyrr segir, nokkuð greinilegur á köflum og heitir ýmist Óttarstaðaselsstígur, Skógargata, Raftastígur eða Rauðamelsstígur en þegar ofar dregur mun hann heita Mosastígur og liggja upp að Dyngjum þar sem Hálsagötur taka við ýmist með eða yfir hálsinn eftir því hvert leiðin lá þaðan.
Vænlegt er að stika Rauðamelsstíg. Mikilvægt er að gera það eins nákvæmlega og vandlega og hægt er. Þetta er falleg, merkileg og áhrifarík leið yfir skagann. Hún var örugglega ein af höfuðleiðum vermanna og annarra ferðalanga sem komu langt að og fóru þessa leið (og margar aðrar) í vetríðarbyrjun síðla á þorranum eða byrjun góu og í lok vorvertíðar í maí. Hver veit nema þetta hafi einnig verið flutningsleið brennisteinsmanna að og frá Krýsuvík á meðan Þýskubúð var kaupvangur í Straumsvík á 15. öld og hluta 16. aldar og brennisteinninn var nýttur í Baðstofu og við Seltún.

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur.

Umferð um Rauðamelsstíg hefur verið lítil sem enginn í áratugi, allt frá því að bíllinn kom til sögunnar. Víða er stígurinn að gróa upp og sennilega verður ekki langt að bíða þess að hann hverfi algerlega. Ástæða er til að hvetja fólk, sem treystir sér til, að feta hann og viðhalda þannig þessari gömlu þjóðleið. Fé hefur verið rekið um stíginn, en auk þess hefur hann verið farvegur fólks og fararskjóta um langan aldur. Það ber hin djúpmarkaða gata greinilegan vott um.
Eftir að hafa skoðað Rauðamelsstíginn vaknar grunur um að hann hafi verið hluti af mun eldri, almennari og lengri leið, þ.e. gleymdri götu, sem legið hefur frá Innnesjum út á sunnanverð Útnesin, en þar Krýsuvíkurleiðin einungis verið hliðarstígur frá Lambafelli. Þær grunsemdir verða gaumgæfðar nánar á næstunni.

Gengnir voru 21 km á 6 klst og 46 mín. Frábært veður um frábært land.

Heimildir m.a.:
-Ólafur Þorvaldsson 1949. Fornar slóðir milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-48. Bis. 81-95.

Rauðamelur

Litli Rauðamelur við Rauðamelsstíg.