Refagildra í Berghrauni
Gengið var um hið misgreiðfæra Berghraun vestan við Staðarhverfi í Grindavík. Berghraunið er ofan við Staðarbergið og sennilega eitt af Eldvarparhraunum. Þrátt fyrir úfið apalhraun eru helluhraunssléttur inni á milli og því auðveld yfirferðar.
Næst berginu er sambland af hvorutveggja. Þegar gengið var ofan við Klaufir austarlega ofan við Staðarbergið sást glöggskyggnum heilleg hleðsla uppi í hrauninu, undir hraunbakka. Staðsetningin er augljós þar sem lágtófan er annars vegar, þá er „dældirnar smjó“. Þegar hleðslan var skoðuð kom í ljós alveg heil refagildra. Meira að segja fellihellan var enn fyrir opinu. Gildran er hlaðin úr hraunhellum, en stoðsteinarnir sitt hvoru megin við helluna eru úr grágrýti. Þetta var 26. hlaðna refagildran, sem FERLIR hafði skoðað á Reykjanesskaganum.
Skömmu síðar fundust tvær gamlar refagildrur austan við Ísólfsskála auk tveggja til viðbótar einni austan við Húsatóftir. Fyrir einungis nokkrum misserum var einungis talið að 3-5 slíkar væru til á Nesinu öllu. Ljóst er nú að mun fleiri slíkar eiga eftir að finnast á svæðinu. Þekktar refagildrur hafa allar verið skráðar, myndaðar og staðsettar með gps-hnitum.
Stuttu eftir að þetta var skrifað fór FERLIR aftur um svæðið í öðrum tilgangi. Í þeirri ferð var gengið fram á enn eina refagildruna, skammt norðvestan við hina fyrrnefndu. Sú gildra er einnig alveg heil. Talan er því komin yfir á átta tuginn.
Sjá meira um refagildrur HÉR.