Reykjanes

4. Stóra-Sandvík – Reykjanesviti (Valahnúkur)

-Stampar
Á árunum 1210-1230 má segja að Reykjanesið hafi logað stafnanna á milli og leikið á reiðskjálfi. Annálar greina frá eldsumbrotum með stuttum hléum, á og úti fyrir Reykjanesi á 12. og 13. öld. Samkvæmt þeim hefur gosið á Reykjanesi árið 1118, og a.m.k. 13 sinnum á 13. öld. Sagt er að sumum eldgosum hafi fylgt miklir landskjálftar og þess getið að svartamyrkur hafi verið um annars hábjartan dag (1226) og að Reykjanesið hafi brunnið (1210 og 1211). Í hamförum á fyrri hluta 13. aldar er talið að byggð hafi eyðst á Reykjanesi en merki um hana sjást m.a. við Skjótastaði norðan Stóru-Sandvíkur. Í annál er þess getið að 18 manns hafi farist á Reykjanesi í landskjálfta og eldi árið 1118. Næsta lítið er vitað um sögu Hafna á 14. og fram á síðari hluta 16. aldar eins og margra annarra staða á landinu, m.a. vegna þess að kirkjubækur, sem geymdar voru í Viðey, eyðilögðust í bruna. Þó munu vera til heimildir um mikinn landsskjálfta 1389 og að 1390 hafi hálft Reykjanesið brunnið. Til mun vera heimild um að eldur hafi komið upp í hafi fyrir Reykjannesi 1420 og að þá hafi skotið upp landi. Einnig er getið um eld fyrir Reykjanesi 1422 og aftur 1584. Í annál er greint frá eldi í ,,Grindavíkurfjöllum” árið 1661 og hafi sést oft, fyrir og eftir jól, á Norðurlandi. Til er heimild um að árið 1706 hafi komið upp eldur í sjó fyrir Reykjanesi og einnig 1783 fyrir sunnan Geirfuglasker: Kom þá upp land sem sökk aftur (Nýey). Síðasta gos sem minnst er á í annálum, á eða fyrir Reykjanesi, á að hafa verið árið 1830 en þá sigu Geirfuglasker í sjó. Síðustu eldsumbrot sem heyrst hefur um, fyrir Reykjanesi, eiga að hafa átt sér stað í kringum 1930. Á þá að hafa gosið á sjávarbotni nálægt Eldey.

Gossaga Reykjanessskagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin virðist hafa verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin. Dyngjugos virðast hafa verið algeng á fyrri hluta Nútíma þ.e. fyrir 5000 – 10 000 árum en sprungugosin hafa verið nær einráð síðustu 5000 árin.
Eldgos eru ekki jafndreifð í tíma. Þau virðast koma í hrinum. Á Reykjanesskaganum koma hrinurnar á um 1000 ára fresti og stendur hver goshrina í 200 – 350 ár. Síðasta hrinan hófst um miðja tíundu öld og lauk á seinni hluta þrettándu aldar.
Eldgosin hegða sér þannig að í upphafi þeirra opnast spunga og landrek á sér stað. Rekið er nokkrir metrar í hverri hrinu. Hvert gos er líka í hrinum. Það stendur í fáeina daga eða vikur og síðan er að draga úr virkninni í mánuði eða ár áður en næsta gos verður.
Neðansjávargos verða einnig á Reykjaneshryggnum, suðvestur af Reykjanesi. þau hegða sér svipað og gos undir jökli. Spungugos undir jökli mynda móbergshryggi og eru þeir algengir á Reykjanesskaganum.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos.
Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000 í þessu gosi myndaðist feiknarmikið hraun.
Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjóómílna fjarlægð frá stöndinni.
Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.

-Saltverksmiðjan
Á mótum vegar að Reykjanessvita eru rúmir 11 km frá syðri hraðahindruninni í Kirkjuvogshverfi. Vegurinn liggur fyrst í vestur að Sjóefnaverksmiðjunni, síðan í norðvestur fram hjá gúanóverksmiðju en skammt þaðan er vinkilbeygja til vinstri á veginum að vitanum og út að Valahnjúki. Þessar verksmiðjur eru hér vegna jarðhita sem fæst úr borholum en þær eru með öflugustu borholum landsins um og yfir 10 megavött hver.

-Haustak – hausaþurrkun
Upplýsingar liggja ekki á lausu – líklega liggur reksturinn niðri. Hins vegar var gerð þarna ágæt tilraun með því að þurrka fiskhausa með því að nota jarðgufuna. Fiskurinn var aðallega ætlaður til útflutnings.

-Reykjanesvirkjun – djúpborunarverkefni
Hér á eftir er stuttur útdráttur úr erindi sem flutt var á nýafstöðnu Orkuþingi. Erindið var flutt af Guðmundi Ómari Friðleifssyni, Orkustofnun, en fleiri komu að gerð þess.
Kynnt var hugmynd um að bora 4 til 5 km djúpa rannsóknarholur í háhitasvæði landsins. Markmiðið er að finna yfirkrítískan jarðhitavökva djúpt í rótum háhitasvæðanna, rannsaka hann og kanna nýtingarmöguleika hans. Vitað er að yfirkrítískan jarðhita er að finna á þessum stöðum en ekki er vitað hvort hann er í vinnanlegu magni. Hreint vatn sýður við 100°C við yfirborð jarðar en með auknu dýpi og þar með auknum þrýstingi sýður það við stöðugt hærra þar til komið er að krítískum mörkum við tæplega 375°C og rúmlega 222 bara þrýsting. Við hærra hitastig og þrýsting er vatnið í einum fasa, einskonar gasfasa, og hvorki sýður né þéttist við hita- eða þrýstingsbreytingar ofan krítísku markanna. Neðan krítískra marka skilst vatn hins vegar í tvo fasa við suðu, þ.e. vatn og gufu.
Ljóst er að orkuinnihald vökva í þessu ástandi er firnahátt, en óljóst er hvort tekst að nýta það með hagkvæmum hætti. Til að átta sig á því hvert orkuinnihaldið er hefur verið nefnt að því megi helst jafna við orku í jafnþyngd af dýnamíti. Grundvallarspurningin er hvort vinna megi margfalt meiri orku úr háhitasvæðum en unnt er með hefðbundinni tækni. Með djúpvinnslu má væntanlega auka líftíma jarðhitakerfanna, draga úr umhverfisáhrifum, auka nýtni vinnslunnar umtalsvert og jafnvel vinna verðmæt steinefni og málma úr djúpvökvanum. Áhersla verður lögð á heildstæða vinnslu auðlindanna sem þýðir að fléttað verður saman framleiðslu á raforku, framleiðslu á varmaorku fyrir iðnað, lífrænni og ólífrænni efnavinnslu og skipulagðri fræðslu og ferðamennsku. Verkefnið er ekki einvörðungu áhugavert fyrir Ísland, heldur einnig í alþjóðlegu tilliti þar sem líklega má yfirfæra reynsluna héðan á háhitasvæði vítt og breytt um heiminn bæði á landi og á hafsbotni.
Talið hefur verið að Ísland henti vel til slíkra rannsókna þar sem landið er staðsett á miðju rekbelti jarðskorpuplatna á úthafshrygg. Hér er bæði hægt að skoða háhitakerfi sem flytja varmaorku til yfirborðs með missöltu sjávarættuðu vatni eins og á Reykjanesi og með tiltölulega fersku úrkomuvatni eins og á Hengilssvæðinu og á Kröflusvæðinu.
Til þessa hafa Hitaveita Suðurnesja hf., Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur staðið að þessu verkefni með ráðgjöf frá Rannsóknasviði Orkustofnunar. Leitað hefur verið eftir alþjóðlegu samstarfi um rannsóknir aðrar en nýtingarrannsóknir og hefur miðað vel í þeim efnum. Ef áætlanir um verkefnið ganga eftir má búast við að ýmsum undirbúningi, svo sem hagkvæmniathugunum og umhverfismati, verði lokið á næstu tveimur árum þannig að boranir geti hafist árið 2004.

-Forsetahóll
Spölkorn frá kröppu beygjunni er grasi vaxinn hóll eða fell á vinstri hönd sem nefnist Litlafell og einnig Forsetahóll (en þennan hól gáfu bræðurnir Ketill og Oddur Ólafssynir frá Kalmanstjörn (en ekki Hafnamenn sem þakklæti fyrir veg út á Reykjanes eins og ég hafði áður haldið fram og haft ákveðna heimildarmenn að) forsetaembættinu í tíð Sveins Björnssonar (að hans ráði) til að forsetinn gæti aðstoðað þá í að fá ruddan slóða út á Reykjanes.

-Reykjanes-vitar, gamli og nýi
Ekið er um hlað vitavarðarhússins (þar er snyrtiaðstaða fyrir ferðafólk) og áfram út að Valahnjúki. Við strönd Reykjaness og báðu megin nessins hafa orðið mörg og mikil sjóslys á þessari öld. Við Reykjanes strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam. Það var 28. febrúar 1950. Skipið vari vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og á leið til útlanda dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri. Um borð voru 50 skipverjar. (Hvers vegna 50 manns voru um borð í vélarvana skipi sem draga átti til útlanda af dráttarbáti bíður sagnfræðinga að rannsaka). Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga.

Fyrsti ljósviti á Íslandi var reistur á Valahnjúki 1878. Í miklum jarðskjálftum 8-9 árum síðar hrundi úr hnjúknum og sprungur mynduðust ofan á honum. Var þá talið að reisa yrði vitann á öruggari stað og var þá núverandi viti á Vatnsfelli (nefnt eftir litlu vatni/uppsprettu sem er norðan þess – reyndar eru þeir til sem fullyrða að heitið Vatnsfell sé dregið af eimingartækjum sem þar voru sett upp og áttu að sjá vitavarðarhúsinu fyrir drykkjarvatni en sem ekki reyndist svo þörf fyrir) byggður og tekinn í notkun 1908. Annar viti, minni, var reistur sunnar á sk. Austurnefi og er ástæðan sú að lítið fell, sem nefnist Skálarfell, skyggir á ljósið frá stóra vitanum á nokkru svæði þegar siglt er úr suðri. Hóllinn sem er á móti Vatnsfelli og er á vinstri hönd þegar ekið er fram hjá vitavarðarhúsinu á leið út að Valahjúk nefnist Bæjarfell.

-Valahnúkur – sem eldri vitinn stóð á, Bæjarfell sem sá nýji stendur á.

-Kríuvarpið (arctic tern) við Reykjanesvita

Kría

Kría.

Krían er einn best þekkti fugl landsins. Hún er sjófugl sem kemur til landsins um mánaðamótin apríl maí. Síðsumars fara þær svo að tygja sig til brottfarar en þá eiga þær fyrir höndum, eða vængjum, eitthvert mest ferðalag sem nokkurt dýr leggur í á jörðinni. Þær fljúga suður eftir öllu Atlantshafi að Suðurskautslandinu og er jafnvel talið að þær fari umhverfis Suðurskautslandið áður en þær leggja aftur í norðurátt næsta vor. Á farfluginu fljúga þær á 45–60 km hraða á klukkustund í 6–7 tíma daglega og fara þannig um 300 km á hverjum degi. Allt ferðalagið aðra leiðina tekur því um einn og hálfan mánuð, hreint ótrúlegt afrek fyrir fugl sem ekki vegur nema rúm 100 g. Kríurnar verpa hér í þéttum byggðum um allt land jafnvel uppi á hálendinu. Íslenskar kríur skipta hundruðum þúsunda og virðist stofnstærðin sveiflast talsvert. Oft sjá menn að mikill viðkomubrestur verður í kríuvörpum vegna veðurfars eða fæðuskorts. Krían er afbragðs flugfugl sem andæfir yfir vatni og steypir sér síðan eldsnöggt niður eftir sílum sem eru aðalfæða þeirra, ásamt smákrabbadýrum og skordýrum. Hún er einnig þekkt fyrir árásargirni við varplönd sín og njóta aðrir fuglar þar verndar hennar. Sum kríuvörp eru geysistór, það stærsta er í Hrísey með yfir 20.000 varppör en stór vörp eru líka á Snæfellsnesi. Hreiðrið er smálaut oftast án nokkurra hreiðurefna og eggin oftast tvö eða þrjú. Aðalvarptíðin er í júní. Kríur eru friðaðar.

-Helstu sjófuglar sem verpa í Valahnúk.
Fýll, rita, svartfugl, dæmi um lunda.

-Vara fólk við hættum
Ástæða er til að vara fólk, sem vil ganga að Valahnúk, við hættum. Stöðugt fellur úr berginu.

Valahnúkur

Valahnúkur.