Sel – Lýsing Íslands
Hér á eftir er getið um skrif Þorvalds Thoroddsens í „Lýsing Íslands„, sem gefin var út af Hinu íslenzka Bókmenntafélagi 1919. Eftirfarandi frásögn um „sel“ birtist í þriðja bindi. Hann minnist reyndar ekki á selstöður á Reykjanesskaganum, en fjallar um margt á forvitnilegan hátt um notkun þeirra í tíma og rúmi:
„Sel. Sumarbeit fyrir búsmala til dala, heiða og fjalla var á fyrri öldum mikið meir notuð en nú, menn höfðu snemma tekið eftir því, að gróðrarsæl fjallalönd og dalalönd voru góð undir bú og vildu eigi íþyngja heimahögum með of mikilli beit á sumrum. Það sá Skallagrímur fljótt, að fé þroskaðist vel til fjalla á sumrum. »Hann fann mikinn mun á, at þat fé varð betra ok feitara, er á heiðum gekk, svá þat, at sauðfé helzt á vetrum í fjalldölum, þótt ei verði ofan rekit. Síðan lét Skallagrímur gera bæ uppi við fjall ok átti þar bú. Lét þar varðveita sauðfé sitt». Fornmenn munu því frá landnámstíð hafa haft búpening sinn í seljum á sumrum, enda voru þeir vanir því frá Noregi, og þar eru selstöður enn algengar, eins og líka í Alpafjöllum.
Selin voru í fornöld kölluð sel eins og nú eða þá setr eða sætr; sætr eru þau kölluð í Jónsbók og hefir það nafn enn sumstaðar haldist i staðanöfnum, t. d. Sætrafjall og Sætraklif við Reykjarfjörð á Ströndum (Kúvíkur). Selin voru stundum kölluð sumarhús og sjálfir bæirnir eru oft nefndir vetrarhús í sögunum. Í Hafreðarsögu er getið um mörg sel við Langadal og Laxárdal í Húnavatnssýslu, og hafa þau verið skamt frá bæjum. Eins hefir selið í Sælingsdal verið nærri bæjum, sem getið er í Laxdælu, þar var engi hjá selinu, sem húskarlar Bolla unnu, og þar var mannmargt. Hefir þar verið reglulegur sumarbústaður fyrir flest heimilisfólkið. Selin voru þar tvö, svefnsel og búr. Þar í selinu var Bolli veginn, sem kunnugt er. Í sömu sögu er getið um sel frá Vatnshorni í Sarpi í Skorradal, þar hefir víst aðeins verið eitt hús, því sagt er: »Selið var gert um einn ás, ok lá hann á gaflhlöðum ok stóðu út af ásendarnir, ok var einart þak á húsinu ok ekki gróit. Þar voru 5 menn í selinu, en fólk var líka heima á bænum í Vatnshorni.
Í Glúmu er talað um sel á Mjaðmárdal, og i Ljósvetningasögu er getið um sel, er Þorkell hákur átti i Ljósavatnsskarði. Þorsteinn i Saurbæ var i seli í Kúvallardal, er þeir Hörður ætluðu að heimsækja hann. Í Örnólfsdal er talað um sel, og var þar flest fólkið, en mannfátt heima; eins var sel á Langavatnsdal og hét þar á Þorgilsstöðum, og var þar mikið af stóðhrossum á beit, er Gunnlaugur ormstunga kom þangað. Af Hrafnkelssögu má ráða, að þá hafi eigi aðeins verið sel ofarlega i Hrafnkelsdal, sem hét Grjótteigssel, heldur einnig önnur sel viða um dali og heiðar í nánd. Í Kjarradal segir Heiðarvígasaga að allir bændur úr Hvítársíðu hafi haft selfarir,og er það eðlilegt, því þar eru enn mjög grösug beitarlönd upp á Tvídægru; milli Kjarrár og Lambár er nú afréttarland, sem Gilsbakkakirkja á og leigir Bæjarsveit til uppreksturs; þar sem Langavatnskvísl kemur í Kjarrá er ágætt hagapláss, sem heitir Starir.
Í Biskupasögum er getið um sel frá Hólum i Hjaltadal, og voru þar »nokkurar konur til at heimta nyt af fé«, »en karlmenn voru engir viðstaddir, voru þeir farnir at samna sauðum«. Bendir þetta á, að allmargt fólk hafi verið í selinu. Bæði þessir og fleiri staðir i sögunum sýna, að selin hafa verið nokkurskonar sumarbústaðir og eigi mjög fjarri bæjum.
Langt fram eftir öldum hafa sumir búið í seljum sem sumarhúsum með flestallt heimilisfólkið.
Þess er t. d. getið um dóttur Þorleifs Grímssonar á Möðruvöllum (f:1560), að hún var ein heima og nokkur ungmenni, en annað fólk í seli. Grágás bannar að gera sel í afrétti, og á víst við, að menn byggi sel í óleyfi í annara manna afréttarlandi, er sá útlægur er sel gjörði, og Jónsbók telur selið heilagt, þó þeir brjóti, er afrétt eigu en þeir bæti landnám að fullu, er selið gerðu. Jónsbók kveður á, að menn hafi sætr á fjöllum, þar sem þau áður hafa verið og færi eigi úr stað þeim, er þau hafa verið að fornu fari og eigi má þau byggja of nærri högum annara. Jónsbók leyfir að sætr megi hverr þeirra gera í almenningi, »er þann almenning eigu, er vill sitja i sumarsetri, ef þat er úr búfjárgangi«. Yfirleitt er þó auðséð að flest sel til forna hafa verið nærri bygð eða í bygð, oftast þá í beztu hagbeitarlöndum, í frjósömum hlíðum, í dalabotnum, innfjörðum eða þá á heiðum.
Búalög segja svo fyrir, að þrjár konur eigi at vera í seli, þar sem er 80 ásauðar at mjólka og 12 kýr, með matselju, og skulu vera tvær við vetrarhús um miðdegi til heimavinnu«. Búpeningur var vanalega hafður í seli frá þvi 8—9 vikur voru af sumri til byrjunar tvímánaðar eða frá miðju júnímáuaðar til þess um seiuni hluta ágústmánaðar, enda var svo fyrirskipað í lögum; en sumstaðar er tekið fram í fornbréfum. að selstöður skuli aðeins vara til Ólafsmessu fyrri. Að selin hafa verið mjög mörg, sóst bæði á grúa af örnefnum og af Fornbréfasafni, sem getur selja og selfara á óteljandi stöðum. Seljunum hefir líklega smátt og smátt fækkað, eftir þvi sem nautpeningur varð færri og sauðaeignin stærri. Kirkjur eiga um alt land fjölda af ítökum til selfara en þau eru nú notuð sumpart sem afréttir, sumpart sem heimahagar, sumpart leigð öðrum einstökum mönnum og hreppum.
Á 18. öld voru selstöður mjög farnar að leggjast niður svo stjórnin, J 754, fann sér skylt að skipa bændum að hafa búfé sitt á seljum og geldfé á afréttum frá 9. til 21. viku sumars, til þess að hlífa heimahögum og slægjum, en því mun alls ekki hafa verið hlýtt frekar en öðrum fyrirskipunum stjórnarinnar í þá daga. Eftir fyrirmælum ýmsra íslenzkra framfaramanna gaf stjórnin á 18. öld út ótal boðorð og lagareglur um alt mögulegt og ómögulegt, er búskap snerti, en þar var aðeins sá hængur á, að engu var hlýtt, ekkert varð úr neinu, þegar til framkvæmdanna kom, þó oft væri hótað afarkostum. Þó segir Eggert Ólafsson, að selfarir hafi í hans tíð enn verið algengar í Borgarfirði, en viðast annarstaðar lagðar niður. Voru selhúsin vanalega þrjú, iveruhús eða svefnsel, eldhús og búr. og mun sá húsafjöldi hafa haldist síðan í fornöld, þó sum selin bæði fyrr og síðar hafi verið fátæklegri. Í seljunum voru kýr og ær. Þar var smali og fullorðin stúlka með telpu til aðstoðar, þær mjólkuðu, strokkuðu, gjörðu smjör og osta o. s. frv. N. Mohr kom 1780 í sel nálægt Skagaströnd, borðaði þar grasagraut og var fenginn fjöðurstafur til þess hann gæti drukkið úr mjólkurtrogunum. Mohr sá á ferð sinni um Norðurland og Vesturland aðeins þrjú sel, á Spákonufelli, við Kaldrananes i Strandasýslu og frá Reykjahlíð við Mývatn. Allir búmenn 18. aldar hvetja bændur til að taka upp aftur selstöður, en þó árangurslaust.
Ólafur Stephensen vill hafa búpening i seljum frá Jónsmessu til rétta, »eru þá heimahagar i friði fyrir ágangi hans. óbitnir, ótroðnir, og miklu betri til vetrarbeitar. Þá voru líka nærri öll tún ógirt og ilt að verja þau fyrir ágangi fénaðar, sem var heima við. Guðlaugur prófastur Sveinsson ritaði 1787 um selstöður og þeirra nytsemi. Hann segir, að þá sé það einungis nokkrir fáir forstands og fyrirhafnar menn, sem enn árlega flytja búsmala sinn i nokkurt fráliggjandi sel á sumrum, einkum frá messudögum fram um höfuðdag, 8 eða 10 vikna tíma; og á nokkrum stöðum veit eg haft í seljum frá fardögum og lengra fram á haust, einkum þar hrjóstrugt og magurt heimaland er, til enn meiri hagnaðar nytsemdar«.
Síra Guðlaugur heldur mjög fram nytsemi selja segist sjálfur hafa búið á jörð í 14 ár, þar sem búsmali gerði þriðjungi minna gagn heima en i selinu, en aðrir bændur hefðu sagt sér, að þeir hefðu ekki meira en freklega gagn af peningi sínum, er þeir gátu eigi komið honum í sel. Kosti seljanna telur hann: meiri afrakstur búfénaðar, hlífð við heimahaga, enginn ágangur á tún og engjar, minna ónæði fyrir fénaðinn af rekstri og smölun, oft gott til fjallagrasa nærri seljum og hægra að ná i þau, stundum hægt frá selinu að nota fjarlægar slægjur; sumstaðar má brúka selin sem beitarhús á vetrum, og hafa þar heyforða og fjárborgir. Segir höfundurinn, að sumir hafi tvö selhús, íbúðarhús með rúmum og eldstó í öðrum enda og svo búr, en betra sé að hafa húsiu þriú, eldhúsið sérstakt.
Magnús Ketilsson hafði jafnan búsmala sinn i seli og þar fullorðinn mann, og dreng til smalamensku, áttu þeir lika að slá og hirða seltúnið. Jón Steingrímsson bygði einnig sel frá Prestsbakka »í efstu og beztu högum jarðarinnar, 3 selhús á eiuum hól með 7 stafgólfatali, en svo rúmgóð, að til var ætlað, þau skyldu taka hálft annað hundrað fjár«. Ólafur Stephefesen hafði líka búfé sitt i seli og svo gerðu flestir framfaramenn á 18. öld.
Á 19. öld lögðust selin því nær algjörlega niður, og nú munu selstöður nærri hvergi vera til á Íslandi. Á ferðum mínum 1881 — 98 fór eg mjög víða um beitarlönd og heiðar, en man ekki til að eg findi eitt einasta sel, sem enn var notað sem sumarhús frá aðaljörðu, en eg kom í allmörg sel, sem voru orðin að sérstökum heiðarbýlum eða kotbæjum; slík seljakot eru algeng víða um land. Hve afarmikla þýðingu selin hafa haft á fyrri öldum. Sést af hinum óteljandi seljarústum, sem eru dreifðar um afdali og heiðar um alt Ísland.
Selstöður og nýbýli hafa verið nátengd hvert öðru, og á halllendum og útskæklum hálendisins eru mjög viða dreifðar rústir eyðibæja og selja, hvað innan um annað, enda hefir notkun þessara fjallhúsa skifst á ýmislega, sel og beitarhús orðið að sjálfstæðum býlum o. s. frv. í bygðum sjást þess líka ótal dæmi, að sel hafa breyzt í sjálfstæðar jarðir og þær sumar allstórar; örnefnin eru hinn ljósasti vottur þess, hve miklar breytingar stöðugt hafa orðið í því efni.
Í byrjun 20. aldar hafa ymsir búmenn hvatt til þess, að selstöður væru teknar upp að nýju, án þess þó nokkur sýnilegur árangur hafi orðið af þeim upphvatningum. Hugmynd manna hefir verið sú, að tekin væru upp selstöðubú i félagi. Sigurður Sigurðsson gerði 1902 áætlun um kostnað við félagssel og komst að þeirri niðurstöðu að það sé efasamt hvort þau borgi sig, nema ef ostagjörð væri þeim samfara, en i þeirri grein eru Íslendingar, sem kunnugt er, langt á eftir öðrum þjóðum. Nokkrum árum síðar (1908) ritaði Torfi Bjarnason líka um samlagssel. Var hann heldur bjartsýnni á framtíð þeirra, og mælti fram með þeim; komst hann að þeirri niðurstöðu, að „þau mundu borga sig, en ætlaðist líka til ostagjörðar á seljum þessum.“
Heimild:
-LÝSING ÍSLANDS eftir þorvald Thoroddsen. Gefin út af Hinu íslenzka Bókmentafélagi, þriðja bindi. Kaupmannahöfn, prentað hjá S. L. Möller, 1919.
-Lovsainling lor Island I, bls. 394.
-Egilssaga, Kvík 1892, 29. kap., bls. 7-5.
-Landnáma (1891) bls. 72, 95.
-Laxdæla (1895) bls. 175. 204.
-Glúma (1897) bls. 43, 44. Reykdæla (1896) bls. 87. Ljósvetniugasaga (1896) bls. 62. Harðarsaga og Hólmveria (1891) bls. 57.
-Hænsna-Pórissaga (1892) bls. 33., Gunnlaugssaga ormstungu (1893) bls. 13. Sumir haf’a á sumrum búið í tjaldi, þess er t. d. getið um Jófríði Gunnarsdóttur, að hún »átti sér tjald úti, þvíat henni þótti þ)at ódauíligra* (Hænsna-tórissaga s. st.).
-Hrannkelssaga (1893) bls. 6, 7.
-Vígastjrssaga og Heiðarvíga (1899) bls. 64.
-Biskupasögur I. bls. 189.
-Biskupasögur II, bls. 359.
-Grágás (1852) bls. 113. Jónsbók Ól. H. bls. 173, 174, 176—177. 193.
-Búalög (1915) bls. 22. 34, 61.
-Jónsbók bls. 172.
-Dipl. Isl. II, bls. 577.
-Lovs. f. Islaud III. bls. 182. 191.
-Eggert Olafssons Reise bls. 155, 178. Sbr. Olavius: Oekon. Rejse bls. ‘247—248.
-N. Mohr: Forseg til en islaudsk Naturhistorio. Kbhavu 1786 bls. 10, .349-350.
-Gl. Félagsrit VI. bls. 46.
-Gl. Félagsrit VII, bls. 194-204.
-Gl. Félagsrit XII, bls. 32-33.
-Æfisaga Jóns Steingrímssonar, Rvík 1915, bls. 223.
-Sig. Sigurðsson segir í Fjallkonu 1902, nr. 13, að nú muni vera 3 eða 4 menn á öllu landinu, sem hafa í seljum, og valda því alveg sérstakar ástæður. Árið 1900 tóku 3 bændur í Hrunamannahreppi sig saman og höfðu ær sínar, rúmar 200 að tölu, í seli.
-Sigurður Sigurðsson: Selstaða og sauðamjólk (Fjallkonan 1902, nr. 18 og 14). Sbr. Austri X, 1900. nr. 14. ísafold 1902, nr. 8.