Selatangar – Katlahraun – fjárskjól
Gengið var um fisbyrgin og minjarnar á Selatanga, skoðaðar sjóbúðirnar, Brunnurinn, Smiðjan, Skjólin, Dágon o.fl. Minnt var á Tanga-Tómas og rifjuð upp sagan af viðureign hans og Arnarfellsbónda. Síðan var gengið að refagildrunum ofan við Nótahelli, um Ketilinn í Katlahrauni og yfir í fjárbyrgi Vígdísarvallamanna (Ísólfsskálamanna).
Frá því var gengið í fjórðungssveig yfir að Vestari lestargötunni (Rekagötunni) frá Selatöngum yfir að Ísólfsskála. Erling Einarsson (Skálaafkomandi, sem var með í för) sagðist hafa heyrt að gatan hefði verið nefnd Selatangagata frá Ísólfsskála, en Ísólfsskálagata frá Selatöngum. Gatan er vörðuð þegar komið er upp úr Katlinum. Framundan er greinileg klofin varða. Síðan sést móta fyrir götunni uns komið er að Mölvík. Þá hverfur hún að mestu í sandi, en ef sýnilegum litlum vörðum er fylgt neðan við hraunkantinn kemur gatan fljótlega aftur í ljós. Hún heldur síðan áfram inn á hraunið og áfram áleiðis að Skála. En við hraunkantinn var beygt til vinstri að þessu sinni, niður í Hraunsnes. Þar eru fallegar bergmyndanir, klettadrangar og vatnsstorknir hraunveggir. Gengið var eftir ruddri götu til vesturs. Áður en komið var að enda hennar í vestanverðum hraunkantinum var enn beygt til vinstri, að hinum miklu þurrkgörðum og – byrgjum ofan við Gvendarklappir. Þar var fiskur verkaður vel fram á 20. öldina.
Kaffi og meðlæti var þegið á Ísólfsskála að lokinni göngu.
Því miður gekk skipulagið ekki alveg upp að þessu sinni. Áætlað hafði verið, auk landgöngunnar, hvalaganga og afturganga, en sú fyrrnefnda fór framhjá í kafi, þrátt fyrir þrotlausar æfingar, og sú síðarnefnda sofnaði í einu byrgjanna í góða veðrinu þannig að þátttakendur urðu ekki varir við hana að þessu sinni.
Veður var með ágætum – þægileg gjóla og sól.