Setberg – skotbyrgi
Leifar skotbyrgja frá tímum Síðari heimstyrjaldarinnar er að finna á 23 stöðum á og við höfuðborgarsvæðið. Á þessum 23 stöðum eru 49 minjar, s.s. á Valhúsahæð (10), í Öskjuhlíð (6), á Garðaholti (5) og á Ásfjalli (5). Ýmist er um að ræða grjóthlaðin hringlaga skjól eða steypt.
Ofan við Setberg í Hafnarfirði, fyrrum Garðahreppi, á svonefndum Setbergshamri ofan við Þórsberg eru 4 grjóthlaðin byrgi. Þrjú þeirra má glöggt sjá á loftmyndum af Hafnarfirði frá árunum 1954 og 1958. Hið fjórða er í skjóli norðvestan undir hamrinum þar sem minna ber á því en hinum, sem ofar stóðu. Varðmönnum byrgjanna var greinilega ætlað að fylgjast með umferð norðan, vestan og sunnan hamarsins. Austar var Camp Russel á Urriðaholti (sem nú hefur verið þurrkaður út vegna nýrrar íbúðarbyggðar) og virkið á Flóðahjalla (Svínaholti).
Framangreind skotbyrgi ofan Setbergs eru augljós enn í dag (2023). Einhverra hluta vegna hafa misvísanir varðandi skráningu þeirra ratað inn í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar„. Þá hefur misfarist að skrá eina þá helstu, efst á standinum ofan Þórsbergs.
Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar VII, Setberg 2021“ segir m.a. um framangreindar minjar:
„Númer: 2625-12.
Sveitarfélag: Hafnarfjörður. Landareign: Setberg. Tegund: Hleðsla. Hlutverk: Skotbyrgi. Ástand: Vel greinanleg. Aldur: 1900-1950. Lýsing: Kringlótt hleðsla sem er mikið hrunin, líklega skotbyrgi úr seinni heimsstyrjöldinni. Enginn sjáanlegur inngangur, gott útsýni í allar áttir. Veggjahæð er frá 0–0.2m og veggjabreidd þar sem hún er greinanleg er að jafnaði um 1m. Heimildir: Loftmyndir frá 1945, 1956 & 1958″
„Númer: 2625-22
Sveitarfélag: Hafnarfjörður. Landareign: Setberg. Tegund: Tóft. Hlutverk: Útihús. Ástand: Vel greinanleg. Lengd: 8.6m. Breidd: 6.2m. Vegghæð: 0–0.7m. Breidd veggja: 0.6m. Lýsing: Grjóthlaðið útihús, inngangur í suður og timburleifar innan í rústinni. Töluvert hrunin. Veggjahæð er frá 0–0.7m og veggjabreidd er að jafnaði um 0.6m.“
„Númer: 2625-23
Sveitarfélag: Hafnarfjörður. Landareign: Setberg. Tegund: Hleðsla. Hlutverk: Stekkur. Aldur: 1550-1900. Lengd: 8.1m.
Breidd: 4.8m. Vegghæð: 0–0.3m. Breidd veggja: 0.4m. Lýsing: Stekkur, bogadregin hleðsla við klett sem myndar þannig aðhald, austur veggur er klettur. Vel siginn, mikill trjávöxtur í og við hleðsluna. Veggjahæð er frá 0–0.3m og upprunaleg veggjabreidd þar sem hún er greinanleg er að jafnaði um 0.4m.“
Af framangreindu má sjá að þrjár fornleifar af fjórum eru í Fornleifaskránni skráðar á tiltölulega afmörkuðu svæði. Þá, sem vantar (skotbyrgi), má augljóslega sjá á loftmyndum frá því um miðja síðustu öld. Ein fornleifin af þremur er réttilega sögð vera „skotbyrgi“, hinar tvær eru sagðar vera „útihús“ og „stekkur“, sem fer víðs fjarri. „Timburleifar innan í“ meintu „útihúsi“ segir ekkert um fyrrum nýtingu minjanna.
Nú mætti ætla, af loftmyndunum að dæma, að ofan Setbergs hafi verið hlaðnar fjárborgir, líkt og aðrar 97 slíkar á Reykjanesskaganum, en við skoðun á vettvangi var augljóst að um „skotbyrgi“ hafi verið að ræða. Hermennirnir hefðu ekki fúlsað við vel og vandlega hlöðum fjárborgum Íslendinga þeim til skjóls og þar af leiðandi ekki talið ástæðu til að umbreyta þeim í þau hróf er dæmin eru um. Grjóthlöðnu skotbyrgin á stríðsárunum voru ekki „hlaðin“ sem slík, líkt og þau voru fyrrum ætluð til að veita búfénaði skjól í snjóum og vondum veðrum, heldur var þeim „hrófað“ skipulagslaust upp í svipuðum tilgangi; að veita hermönnum skjól fyrir veðri og vindum sem og mögulegum óvinum.
Þegar minjarnar ofan Setbergshamars eru skoðaðar er augljóst að um skotbyrgi er um að ræða, en hvorki „útihús“ né „stekk“. Útihús voru yfirbyggð og stekkir voru tvískiptir. Hvorugu virðist í fljótu fari fyrir að fara ofan Setbergshamars. Til að gæta þó allrar sanngirni gætu minjarnar nr. 2625-23 mögulega hafa verið stekkur fyrrum, en hafa ber í huga að „stekkjartíðin“ lagðist af á þessu svæði fyrir aldarmótin 1900.
FERLIR er farið að lengja eftir góðum og gagnmerkum fornleifaskráningum á Reykjanesskaganum.
Heimild:
-Loftmyndir af Hafnarfirði 1954, 1956 og 1958.
-Vettvangsskoðun.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar VII, Setberg 2021, bls. 25, 35, 42.