Sjötta eldgosið ofan Grindavíkur árið 2024 – það sjöunda frá því í des. 2023
Eldgos hófst af miklum krafti á sprungurein við Sundhnúk að austanverðu Stóra-Skógfelli ofan Grindavíkur um klukkan 23.14 þann 20. nóv. 2024. Starfsmenn HS Orku urðu fyrst varir við merki í borholum um yfirvofandi eldgos rétt áður en það hófst. Starfsmenn voru á svæðinu og fluttu þeir sig strax upp á Reykjanes.
Fyrstu fréttir af hraunrennsli benda til þess að hraunstraumur renni í vestur og liggi sunnanvert í Stóra-Skógfelli, að því er fram kemur í tilkynningu Veðurstofunnar. Enginn hraunstraumur sést í átt að Grindavík, heldur hefur hann leitað lengra til vesturs en áður hefur verið – að bílastæði Bláa lónsins. Þar mætir hraunstraumurinn annars vegar hárri hraunbrún Illahrauns að sunnanverðu og Arnarseturshraunsbrúninni að austan. Eini möguleikinn er að meint hrauntunga teygi sig í átt að Lat, syðsta gíg hinna eldri Eldvarpahrauna.
Gosmökkurinn var mikill í upphafi goss. Sást hann greinilega í kvöld- og næturskímunni. Sprunga opnaðist á annars miðri gosrásinni á um 2.5-3.0 km kafla milli Sundhnúks og austur fyrir sunnanvert Stóra-Skógfell. Umfangs hraunsins gæti orðið um 6 ferkílómetrar. Væntanlega mun draga úr gosinu fljótlega. Fyrsta sólahrringinn kom upp tæplega helmingur þeirrar kviku sem hafði áður safnast upp undir svæðinu.
Þetta er tíunda hrinan í röð eldgosa á sama sveimi síðan 2021. Þrjú hinna fyrstu áttu uppruna sinn í Fagradalsfjalli skammt norðaustar – hæfilega fjarri byggð. Líklega er um eitt og sama gosið að ræða – með hléum?
Fyrsta eldgosalotan ofan Grindavíkur var 18. desember 2023, önnur 14. janúar 2024, þriðja 8. febrúar 2024, fjórða 16. mars 2024, fimmta 29. maí, sjötta 22. ágúst og þetta nýjasta 20. nóv., sem fyrr sagði. Fyrstu goshrinurnar þrjár voru skammvinnar, vöruðu einungis í rúman sólarhring, sú fjórða varði í u.þ.b. tvo mánuði – lauk þann 9. maí sama ár, eftir 54 daga dugnað og sú fimmta tuttugu dögum síðar, eða þann 29. maí. Stærsta goshrinan að magni til varð hins vegar 22. ágúst.
Líklegt er að þessi hrina verði litlu langlífari, í tíma talið, og þau fyrri. Eitt er þó víst – von er á nýju landslagi ofan Grindavíkur með nýjum ófyrirséðum framtíðarmöguleikum.
Gosið er nokkurn veginn á sömu slóðum og fyrri gos á þekktri sprungurein er liggur áleiðis að Kálffelli. Það ætti að þykja heppileg staðsetning m.t.t. byggðarinnar í Grindavík og að merkilegri megininnviðum standi tiltölulega lítil ógn af gosinu, utan hættu á niðurgrafinni vatnsæð Njarðvíkurlínu, háspennulínum og bílastæðum Bláa lónsins, sem eru utan varnargarða.
Eldgosið að þessu sinni, líkt og hin fyrri, undirstrikar hversu litla þekkingu jarðfræðingar og jarðeðlisfræðingar virðast hafa á náttúrufyrirbærum sem þessum. T. d. virðast Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði og bergfræði við Háskóla Íslands, og Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur og prófessor í jarðeðlisfræði í Háskóla Íslands, jafn forgengilegir og áður þegar á hólminn er komið.
Náttúruöflin eru ólíkindatól. Þótt þetta eldgos, líkt og hin fyrri, hafi virst óálitlegt tilsýndar, við fyrsti sýn, getur það boðið upp á nýja og óvænta möguleika. Spurningin er bara, fyrir okkur hin, að reyna að hugsa til lengri framtíðar og nýta það sem í boði verður…
Sjá MYNDIR úr eldgosunum sex við Sundhnúk sem og hrinunum í Geldingadölum og Meradölum.