Sögur af Selatöngum og nágrenni
Selatangar á suðurströnd Reykjanesskagans, hin forna verstöð Krýsuvíkurbænda, Ísólfsskálabænda og Skálholtsdómkirkju hafa gefið af sér ýmiss ævintýri, skrímsla- og draugasögur sem og sagnir af álfum og tröllum.
Hér hefur verið gerð samantekt fyrir þá/þær, sem bæði hafa gaman af sögnum og vilja til að gæða landslagið lífi. Sumar sögurnar eru til í ýmsum myndum, en hér eru þær staðfærðar upp á Selatangana.
Ögmundarhraun er talið hafa runnið árið 1151. Katlahraun, það er umlykur Tangana að vestanverðu, er hluti þess. Verstöðin sjálf getur því ekki verið eldri en frá 12. öld. Þá er talið að Skálholtsdómkirkja hafi ásælst flestar sjávarjarðir á suðurströnd Skagans, en svæðið var eitt gjöfulasta forðabúr landsins á þeim tíma sem og eftirleiðis. Helsta útflutningsvaran varð og er enn verkaður fiskur. Þá var fiskur frá Grindavík og nágrenni helsta viðurværi biskups, hans fólks og skólasveinanna í Skálholti um langa tíð. Sjórinn hefur nú tekið til sín hinar fornu minjar fyrri alda. Núverandi minjar á Selatöngum eru því nánast allar frá því á 19. öld, en eru þó hinn ágætasti vitnisburður um söguleg tengsl fortíðar við nútíðina.
Tanga-Tómas (draugasaga)
Sagan af Tanga-Tómasi kemur fyrir í sögninni “Selatangar” í Rauðskinnu, sem gefin var út 1929. Síðan hefur hún verið gefin út í nokkrum útgáfum. Hér er sagan svona [með innskotum vegna mismunar í öðrum frásögnum af sama atburði]:
“Á Selatöngum, miðja vegu milli Grindavíkur og Krýsuvíkur, var fyrrum verstöð og útræði mikið. Gengu þaðan m.a. biskupsskip frá Skálholti. Þar sér enn allmikið af gömlum búðartóftum og göðrum, er fiskur og þorskhausar voru fyrrum hengdir á til herslu. Hjá Selatöngum eru hraunhellar margir, en flestir litlir. Var hlaðið fyrir opið á sumum þeirra til hálfs, og notuðu sjómenn þá til ýmissa hluta. Í einum þeirra höfðu þeir kvörn sína, og kölluðu þeir þann helli Mölunarkór, í öðrum söguðu þeir, og kölluðu hann því Sögunarkór o.s.frv. Reki var mikill á Selatöngum, og færðu sjómenn sér það í nyt; smíðuðu þeir ýmsa gripi úr rekaviðnum, þá er landlegur voru, en þær voru ekki ótíðar, því að brimasamt var þar og því sjaldan róið á stundum. Á Selatöngum mun ort hafa verið margt um manninn, eins og ráða má af vísu þessari um sjómenn þar:
Tuttugu og þrjá Jóna telja má,
tvo Árna, Þorkel, Svein,
fimm Guðmunda og Þorstein þá,
þar með Guðlaug, Freystein,
Einara tvo, Ingimund, Rafn,
Vilhjálmur Gesti verður jafn,
Selatanga sjóróðramenn;
sjálfur guð annist þá.
[Hér er um að ræða stytta afbökun á vísunni. Hún mun vera til í nokkrum útgáfum og jafnvel heimfærð upp á aðrar verstöðvar með suðurströndinni.]. Á síðara hluta 19. aldar bjó í Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík maður sá, er Einar Sæmundsson hét. Hann átti mörg börn, og er saga þessi höfð eftir tveim sonum hans, Einari og Guðmundi. Einar, faðir þeirra, var allt að 30 vertíðum formaður á Selatöngum. Var í mælt, að reimt hefði verið á Selatöngum, og var draugsi sá í daglegu tali nefndur Tanga-Tómas. Hann gerði búðarmönnum ýmsar smáglettur, en var þó ekki mjög hamramur.
Þá bjó á Arnarfelli í Krýsuvík maður sá, er Beinteinn hét. Var talið, að Tómas væri einna fylgispakastur við hann. Var Beinteinn þessi fullhugi mikill, smiður góður og skytta og hræddist fátt. Var þetta orðtak hans: “Þá voru hendur fyrir á gamla Beinteini”.
Einu sinni varð Beinteinn heylítill, og flutti hann sig þá niður á Selatanga með fé sitt til fjörubeita. var hann þarna um tíma og hafðist við í sjóbúð, er notuð var á vetrum. Kvöld eitt, er Beinteinn kemur frá fénu, kveikir hann ljós og tekur tóbak og sker sér í nefnið.
Tík ein fylgdi honum jafnan við féð og var hún inni hjá honum. Veit Beinteinn þá ekki, fyrr en ljósið er slökkt og tíkinni hent framan í hann. Þreif hann þá byssuna og skaut út úr dyrunum. Sótti draugsi þá svo mjög að Beinteini, að hann hélst loks ekki við í sjóbúðinni og varð að hrökklast út í illviðrið og fara heim til sín um nóttina. [Í annarri sögu af sama atviki kemur fram að þegar Beinteinn hafi ætlað að ganga til náða, gert krossmark fyrir dyrum, lagt hurðina aftur og stein fyrir svo Tanga-Tómas héldist úti, hafi draugsi rumskað, séð að hann hafði verið lokaður inni, ráðist á Beintein og þeir slegist úti sem inni. Hafi Beinteinn komist berfættur og við illan leik heim að Arnarfelli og þurft að liggja þar næstu daga til að jafna sig]. Hafði Beinteinn skaröxi í hendi, og hvar sem gatan var þröng á leiðinni heim um nóttina, þá kom draugsi þar á móti honum og reyndi að hefta för hans, en undir morgun komst Beinteinn heim og var þá mjög þrekaður.
[Í hljóðrituðu viðtali við Sæmund Tómasson frá Járngerðarstöðum, sem varðveitt er hjá þjóðháttadeild Árnastofnunnar, kemur fram að Beinteinn frá “Vigdísarvöllum” hafi skorið silfurhnappa af peysunni sinni til þess að skjóta á drauginn því það hefði verið eina ráðið. Í enn annarri frásögn kemur hins vegar fram að silfurhnappar hefðu ekki dugað á Tanga-Tómas, einungis lambaspörð]. Sjá m.a. HÉR.
Um viðskipti draugsa og Beinteins er ekki fleira kunnugt, svo að sögur fari af. Þess má geta, að þá er Beinteinn var spurður, hvað hann héldi, að um draugsa yrði, er sjóbúðin yrði rifin, þá svaraði hann: “Og hann fylgir staurunum, lagsi”.
Nokkuru eftir þetta bar svo við, að tveir áður nefndir synir Einars bónda í Stóra-Nýjabæ fóru niður á Selatanga á jólaföstunni og hugðu að líta til kinda og ganga á reka; jafnframt ætluðu þeir að vita, hvort þeir sæu ekki dýr, því að annar þeirra var skytta góð.
Þeir komu síðla dags niður eftir og sáu ekkert markvert; fóru þeir inn í þá einu verbúð, sem eftir var þar þá, og ætluðu að liggja þar fram eftir nóttunni, en fara á fætur með birtu og ganga þá fjöru og vita, hvort nokkuð hefði rekið um nóttina.
Bálkar voru í búðinni fyrir fjögur rúm, hlaðnir úr grjóti, eins og venja var í öllum sjóbúðum, og fjöl eða borð fyrir framan. Lögðust þeir í innri rúmbálkinn að vestanverðu og lágu þannig, að Einar svaf við gaflhlaðið, en Guðmundur andfætis. Þá er þeir höfðu lagst niður, töluðu þeir saman dálitla stund, og segir þá Guðmundur meðal annars: “Skyldi þá Tómas vera hér nokkurs staðar”? Kvað Einar það líklegt vera. Fella þeir svo talið og ætla að sofna, en er þeir hafa legið litla stund, þá heyra þeir, að ofan af ytra bálkanum við höfuð Guðmundar stekkur eitthvað, Var það líkast því sem stór hundur hefði stokkið niður á gólfið; voru þeir þó hundlausir, er þeir komu þangað, og búðin lokuð. Segir þá annar bræðranna: “Þarna er hann þá núna”, en í sömu svipan er kastað tómu kvarteli, sem hafði staðið á ytra bálkinum hinum megin, einn í gaflhlað beint yfir höfuð Einari. Sofnuðu þeir bræður ekki um nóttina, en fóru á fætur. Ekki lét draugsi neitt frekar til sín heyra.
Eftir 1880 lagðist útræði niður frá Selatöngum. Um það leyti var seinasta sjóbúðin rifin, og hafa menn eigi hafst þar við síðan.
Tangaboli (skrýmsli)
Við sjóinn vestan af hinum forna stað Húshólma í Krýsuvík, þann stað er hraunið í eyði lagði um miðja 12. öld, eru Selatangar eða Seltangar, eins og fyrrum var kveðið. [Það nafn færðist síðar á tanga í Hólmasundi]. Lengi vel var talið að þar hafi selstöð verið, en lagst af þegar Tangarnir voru teknir undir útver Krýsuvíkurbænda á 18. öldinni. Kletturinn Dágon með tveimur bræðrum sínum skiptir jörðum Krýsuvíkur og Ýsuskála, sem nú mun heita Ísólfsskáli, neðan við gömlu búðina. LM er klappað í klöppina neðan við Dágon og sést markið enn í lágfjöru.
Katlahraun heitir hraunið vestan við Tangana. Í því er Ketillinn. [Sumir nefna þann stað Borgir eftir hraunborgunum í því miðju]. Austast í Katlahrauni, í viki víkur er krókur eða hellir nokkur sem kallaður var Bolabás, en nú nefndur Nótarhellir. Eftir að verstöðin lagðist af á Selatöngum var staðurinn notaður til selaveiða. Var þá dregið fyrir selinn yfir víkina af löngum tanga, sem enn sést og yfir í hellirinn. Ekki er hægt að komast niður í hann af háum hraunkambinum eða ganga þurrum fótum í hann með sjónum nema þegar velfjarað hefur út. Um Tangabola er saga sú er nú skal greina:
Það var trú manna að í Bolabás væri vættur einn sem kallaður var Tangaboli, og eru engar sögur um það hvörs kyns hann væri, en sagt er að hann hefði mannsmynd niður að mitti, en menn greinir á um hvort neðri hlutinn átti að hafa líkst sel eður nauti, en það var annað hvört. Öngvir eru nú lifandi er hann gátu hafa séð.
Þegar Tangaboli hafði aðsetur í hellinum hljóðaði hann ákaflega, einkarlega undir slæm suðaustanveður, sumar sem vetur, en sú átt stendur beint upp á Bolabás.
Engum átti hann þó að hafa gjört illt og líka var sjaldgæft að sjá hann; þó er sagt að eitthvört sinn hafi maður verið á gangi upp á kambinum að vitja um refagildru er hann heyrði Tangabola hljóða ámátlega. Maðurinn, sem var bæði hvatvís og ófyrirleitinn, fór með mesta flýti ofan og suður með hraunkambinum til að sjá skepnu þessa; honum tókst það líka og átti hann að segja svo frá að kvikindi þetta hafi verið mjög svo aumlegt og ljótt og hafi sagt við sig að honum mundi verða það lítið til gæfu að kappkosta að skoða sig, en fór við það svo búið í helli sinn. En sagt er að maðurinn hafi orðið lánlítill eftir þetta.
Fáum árum áður lágu þar tveir menn við í búðinni á Selatöngum, en voru við róðra þess á milli. Höfðu ungan dreng með sér til léttis. Annar maðurinn var frekur og ósvífinn og alþekktur að því alla sína tíð. Nú um nóttina tók Tangaboli að hljóða, en fyrrnefndur maður tók undireins með háðsglósum til við að herma eftir honum. Við það espaðist Tangaboli svo að þeim sem vöktu þótti sem hljóðið væri einlægt að færast nær og verða grimmlegra, og seinast heyrðist þeim sem hljóðið væri komið heim undir búð. Þá beiddi hinn þennan að hætta að herma eftir því, hvað hann og gjörði, enda haldið að honum hafi ekki verið farið að finnast til, en þegar hann hætti að herma eftir. Þá hætti líka Tangaboli undireins að hljóða.
Ekki er um það borið á móti að aftur hafi heyrst til Tangabola við komur manna á Selatanga, einkum þegar brimasamt er. En eftir að fella féll úr berginu ofan við op hellisins fyrir nokkrum árum er ekki vitað til að heyrst hafi til Tangabola enda er nú sjórinn búinn að brjóta mikið upp hellirinn hans svo hann er orðinn víðari og opnari og ólíkur því sem áður var. Því verður ekki neitað að vættur þessi var til, en líkast virðist hann hafa verið af sjóskrímslakyni. Vissa er um eina sanna sögu um það að það hafi verið til hér í sjónum:
Þegar Gvendur bjó á Skála var einn bræðra hans þar með honum um tíma. Bróðirinn var skotmaður frægur og hagleiksmaður með marga hluti.
Eitt sinn skaut Gvendur sel; bróðirinn stóð í fjörunni, en selurinn var á sundi út á sjó. Selurinn var dauðskotinn, og sendi Gvendur hundinn þeirra bræðra eftir honum, en hann réði ekki við selinn. Fór þá Gvendur sjálfur og ætlaði að sækja selinn, en sneri aftur allt í einu þegar hann átti skammt þangað sem selurinn var, og kom í land aftur. Var hann þá spurður hvað til hafi komið að hann fékkst ekki við selinn, en hann sagði að móti sér hefði komið sjóskrímsli bæði ljótt og mikið vexti og hann skyldi aldrei að nauðsynjalausu fara til sunds í þennan sjó.
Þótt kvikindið hafi ekki sést í seinni tíð er ekki hægt með öllu að fortaka að Tangaboli sé allur.
Sjórekna skútan (draugasaga)
Fyrir mörgum árum fórst bátur utan við Selatanga með 7 mönnum. Þrír komust á kjöl og kölluðu á hjálp því að margir vermenn stóðu á sandinum – báturinn barst á skammt undan lendingu – en brimið var svo mikið að ómögulegt var að hjálpa þeim.
En er mennirnir voru allir dauðir og drukknaðir þá snerist báturinn við og kom sjálfur í land eins og honum væri stýrt. Stóð hann svo uppi í sandfjörunni vestan við Dágon og snart enginn við honum fyrr en veturinn eftir er hann var færður lengra upp á land. Vildi enginn róa bátnum framar því að geigur stóð mönnum af honum.
Þegar báturinn var settur upp á land stóð fjármaður frá Ísólfsskála, sem er þarna vestan við Hraunsnesið, uppi undir Katlahraunsbrúninni að leita fjár. Sá hann þá að öll dauða skipshöfnin gekk á eftir bátnum þegar hann var settur upp og var ófrýn á að sjá. Eftir það stóð báturinn í djúpri sandhvilft upp við berghamarinn.
Skömmu seinna reið þar um bóndi utan af Vík er Guðmundur hét og bjó á Þorkötlustöðum. Ætlaði hann austur undir Fjöll. Þetta var í svartasta skammdegi og reið Guðmundur bóndi Tangagötuna, um Ketilinn og út á bergbrúnina því þar liggur alfaravegurinn. Hundur fylgdi með í för. Gatan beygir þarna til norðausturs ofan við sandhvilft. Þegar Guðmudnur er kominn á móts við hana mætir honum maður er hann bar eigi kennsl á og segir sá við hann:
„Settu með okkur, lagsmaður!“
Guðmund grunar ekkert því að báturinn sást ekki af götunni og tekur hann vel undir þetta. Ekki mælti maður þessi fleira en snýr við og bendir Guðmundi að koma á eftir sér. Guðmundur ríður svo á eftir honum en það þótti honum skrýtið að hestur hans var alltaf að frýsa og virtist nauðulega vilja elta manninn. Hundurinn var og afundinn og flóttalegur ásýndum.
Nú koma þeir í lágina þar sem báturinn stóð og sér Guðmundur þá 6 menn standa í kringum bátinn og voru svaðalegir álitum. Þá man Guðmundur fyrst eftir frásögnum af bátreikanum undan Tanganum um haustið og þykist hann þarna þekkja þá sem drukknað höfðu. Verður hann þá skelkaður mjög og slær upp á klárinn. Tekur hann til fótanna en Guðmundur heyrir draugana kveða vísu þessa um leið og hann reið upp úr lautinni:
Gagnslaus stendur gnoð í laut,
gott er myrkrið rauða.
Halur fer með fjörvi braut,
fár er vin þess dauða,
fár er vin þess dauða.
Guðmundur nam vísuna. [Hún er bæði til í annarri útgáfu auk þess sem vísan hefur verið notuð með öðrum þjóðsögnum]. Reið hann nú allt hvað af tók og náði í Krýsuvík um kvöldið. Eftir það fór Guðmundur bóndi aldrei einn um þennan veg og lét alltaf einhverja fylgja sér þótt albjartur dagur væri.
Báturinn var loks höggvinn að mestu niður í eldinn, en áður höfðu menn oft heyrt högg og brak í því, einkum er kvölda tók. Enn má þó merkja leifar úr bátnum inni í Rekavik [vik var stundum notað yfir skjól ofan ströndina, en vík niður við sjó] ofan við Selatanga.
Ketilskessan (tröllasaga)
Skessa bjó í Festisfjalli ofan við Ægisand austan við Grindavík. Frænka hennar hafði dvöl í helli einum í Katlinum í Katlahrauni skammt vestan við Selatanga. Hellir þessi var stundum nefndur Skessuhellir, en vermenn er síðar voru á Selatöngum nefndu hann Mölunarhellir. Lítið hafði hún gjört mönnum til móðs. Einu sinni fór hún að ganga á rekana. Ekki er getið um að hún hafi fundið nokkuð á rekunum, en á heimleiðinni varð hún naumt fyrir, því hana greip skyndilega jóðsótt þar á leiðinni.
Á Katlinum er steinn mikill; skammt frá alfaraleiðinni. Þar lagðist hún við og fæddi barn sitt. Kom þá maður með hest til hennar og beiddi hún hann að liðsinna sér. Maðurinn gjörði það. Hún fékk hann til að lofa sér að ríða hestinum og hjálpa sér að Festisfjalli. Hann segir: „Stíg þú á bak stórkona, en sligaðu ekki hestinn.“
Hún strauk höndum um hrygg hestsins og fór síðan á bak. Reiddi hann hana upp með Móklettum, á Siglubergsháls og að fjallinu. En er hún steig af baki var alblóðugt bakið á hestinum. Hún bað hann hafa þökk fyrir, en hesturinn mundi aldrei uppgefast.
Steinninn er síðan kallaður Skessusteinn og er enn í Katlinum og laut við hann.
Annað sinn fór skessan á fjöru, en er hún kom af fjörunni mætti henni maður sá er Hjálmar hét. Réðist hún á hann; fór hann heldur halloka. Urðu það úrræði hans að hann greip hægri hönd sinni í magaskegg skessunnar og felldi hana með því.
Bað hún hann þá að gefa sér líf, hvað hann gjörði. En er hún var upp staðin þakkaði hún Hjálmari lífgjöfina.
Sagt er að skessan hafi enn viðdvöl í helli sínum í Katlinum. Þegar veður eru góð og lygnt á Töngunum og vel er hlustað má heyra hana raula við barn það er hún fæddi við Skessustein, en hann er skammt frá opinu.
Bátamál (fyrirbærasaga)
Eftirfarandi galdrasaga var oftlega sögð á sagnastundum vermanna á kvöldvökum eða landlegum Selatöngum:
„Stundum heyrist marra í bátunum þótt logn sé og þeir standi í naustum. Það er málipð bátanna sem fáum er gefið að skilja.
Einu sinni var þó maður er skildi bátamál. Hann kom þar að sem tveir bátar stóðu og heyrir hann að annar bátanna segir: „Lengi höfum við nú saman verið, en á morgun verðum við að skilja.“
„Það skal aldrei verða að við skiljum,“ sagði hinn báturinn, „höfum við nú verið saman í þrjátíu ár og erum við orðnir gamlir, en ef annar ferst þá skulum við farast báðir.“
„Það mun þó ekki verða. Gott veður er í kvöld, en annað veður mun verða á morgun og mun enginn róa nema formaður þinn, en ég mun eftir verða og allir bátar aðrir. En þú munt fara og aldrei aftur koma; munum við eigi standa hér saman oftar.“
„Það skal ekki verða og mun ég ekki fram ganga.“
„Þú munt þó verða að ganga fram og er þessi nótt hin síðasta sem við verðum saman.“
„Aldrei skal ég fram ganga ef þú fer ekki.“
„Það mun þó verða.“
„Ekki nema andskotinn sjálfur komi til.“
Eftir þetta töluðu bátarnir svo hljótt að heyrandinn í holtinu nær heyrði ekki hljóðskraf þeirra.
Morguninn eftir var veður ískyggilegt mjög og sýndist engum ráð að róa nema einum formanni og áhöfn hans. Gengu þeir til sjóar og margir fleiri sem ekki varð úr að réru.
„Skinnklæðið ykkur í Jesú nafni,“ segir formaður sem títt er. Þeir gjöra svo.
„Setjum fram bátinn í Jesú nafni,“ segir formaður eins og vant var. Þeir taka til, en báturinn gekk ekki fram. Heitir þá formaður á sjómenn aðra sem þar voru staddir að duga þeim, en það kom fyrir ekki. Þá heitir hann á alla sem við voru að setja fram bátinn og gekk þá maður undir manns hönd, og kallar nú formaður: „Setjum fram bátinn“ með sama formála sem áður. En báturinn gekk ekki að heldur.
Þá kallar formaður hátt: „Setjið fram bátinn í andskotans nafni.“ Hljóp þá báturinn fram, og so hart að ekki varð við ráðið og á sjó út. Sóferðabænin misfórst sem og annað regluverk. Höfðu haldsmenn nóg að vinna; síðan var róið, en ekki hefur sést til þess báts síðan og ekki spurst til nokkurs sem á honum var.“
Álfheimar (álfasaga)
Unglingspiltur var einu sinni með öðrum vermönnum á Selatöngum. Hann hafði orðið eftir er aðrir réru. Ákvað hann að ganga sér til hreyfings. Veður var heitt eins og oft vill vera á suðurströndinni. Í leið sinni til baka varð hann bæði göngumóður og þyrstur, en hann kom hvergi auga á vatn til að svala sér á.
Hann gengur nú hjá hömrum vestast á Töngunum og heyrist honum þar eitthvað inni; hann ímyndar sér að einhverstaðar kunni vatn að renna ofan af klettinum og fer að skyggnast um. Þá heyrir hann glöggt strokkhljóð og í sama vetfangi þykir honum hamarinn vera opinn og sér hann þar unglegan kvenmann snöggklæddan sem stendur upp við háan rúmgafl og skekur strokk. Við þessa sýn verður honum nokkuð bilt, en horfir þó um stund á stúlkuna og virðir hana fyrir sér.
Hún horfir líka á hann og hættir á meðan verki sínu og segir loksins: „Ertu þyrstur; viltu drekka?“
Við þetta ávarp varð hann dauðhræddur og hljóp í burtu. Þegar aðrir vermenn komu að landi sagði hann einum þeirra, greindum manni, þessa sýn. Þá sagði hinn: „Ekki skyldi mér hafa farið eins og þér; ég skyldi hafa þegið það sem mér var boðið.“
En næstu nótt dreymdi piltinn sömu stúlkuna og segir hún við hann: „Því vildir þú ekki þiggja af mér svaladrykk? Ég bauð þér hann í einlægni.“
Pilturinn þóttist svara: „Ég gat það ekki fyrir hræðslu.“
Þá segir hún: „Hefðir þú þegið af mér að drekka skyldir þú hafa orðið mesti auðnumaður, en nú legg ég það á þig að þú getir aldrei orðið annað en fjársmalamaður.“ Að svo mæltu hvarf hún.
Er frá því að segja að pilturinn fór úr verinu af ótta við stúlkuna; hann sá hana ekki oftar, hvorki í vöku né svefni. En ámæli hennar urðu að áhrínsorðum.
Með réttu, án þess að þurfa að bæta þar nokkru við, er fjölmargt auk þessa að skoða og upplifa á Selatöngum. Minjasvæðið er bæði aðgengilegt og auðgengið, en hefur verið verulega vanrækt af þeim opinberu yfirvöldum, sem gæta eiga menningarverðmætanna. Grindavíkurbær hefur þó af eigin frumkvæði reynt að leiðbeina fólki um svæðið, leggja göngustíga og setja upp upplýsingaskilti, án þess að Menntamálaráðuneytið (Þjóðminjasafnið og Minjavernd ríkisins) hafi svo sem sýnt hinn minnsta vott um áhuga á menningarvarðveislu svæðisins. Benda má í því sambandi á viðleytni Menningarfélags Grindavíkur er gaf út á sínum tíma bækling um svæðið. Hann er enn til fáanlegur í Saltfisksetri Íslands í Grindavík. Síðast er fréttist voru sex eintök enn óseld.