Stakkavík
Stakkavík er jörð í Selvogi, norðan Hlíðarvatns. Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfus – Áfangaskýrsla I, 2015„, er m.a. fjallað um Stakkavík:
„Jarðardýrleiki x að sögn, en engin geldst hjer tíund af.“ JÁM II, 464.
Ekki til túnakort. Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Lýngrif brúkast til eldiviðar bjarglegt. Rifhrís og til eldiviðar brúkast og peningi til bjargar í heyskorti….Eggver í Hlíðarvatnshólnum má ekki telja…Rekavon í besta lagi af þessari sveit þá inná voginn líður, og fylgir hún kirkjunni og proprietariis. Sölvafjara bjargvæn heimamönnum og so fjörugrös. Heimræði má hjer valla telja, því bærinn liggur lángt frá sjó, þó hefur það fyrir fám árum reynt verið, og til gagns komið sumar og vetur. Túnin brýtur Hlíðarvatn. Engi litlu betur, en um Hlíð segir. Torfrista og stúnga so sem lökust er hún í þessari sveit, nema miður se fyrir grjótum.“ JÁM II, 465-466.
„Stakkavík hefur um aldabil verið í eigu Strandarkirkju; er nú í eyði. Stakkavíkurhúsið stendur á tanga er liggur fram í Hlíðarvatn,“ segir í örnefnalýsingu. Nú er gamalt veiðihús í niðurníðslu rétt vestan við síðasta bæjarstæðið í Stakkavík.
Bærinn stóð á túnræmu sem afmarkast af túngarði í norðri og nokkuð bröttum hraunkambi í suðri. Þar fyrir neðan er Hlíðarvatn. Túnið er óslétt og töluvert af hrauni stendur upp úr. Trúlega hefur þetta ekki þótt gott tún.
Stakkavíkurbærinn stóð fremst á hraunkambinum norðan megin við Hlíðarvatn. Um 50 m norðar er túngarður sem liggur austur-vestur. Húsin voru þrjú, íbúðarhús, heyhlaða og skemma sambyggt því. Alls er bæjarstæðið um 16×16 m stórt. Húsið sem var framar á hraunkambinum hefur verið steypt, 8×7 m á stærð og veggirnir um 25 cm þykkir. Veggirnir hafa fallið út á við nema vesturveggurinn sem hefur hrunið inn í grunninn. Í grunninum má sjá leifar af eldavél og ef til vill sést þar einnig í steyptan skorstein. Grunnurinn á húsinu er mosa og grasi gróinn. Vestan megin við húsið hefur verið steyptur pallur/stétt um 2×2 m og um 0,5 m há. Virðist hún hafa verið í sömu hæð og gólfflötur hússins og ef til vill var inngangurinn í húsið þar. Ætla má að húsið hafi verið hvítmálað þar sem leifar af málningunni sjást á steypunni. Við húsið er lítil hella og á henni platti sem á stendur. ,,Stakkavík í eyði 1943. Síðasti ábúandi Kristmundur Þorláksson“.
Norðan við húsið er eitthvað sem virðist vera upphlaðin tóft, ferningslaga, um 5×5 m á stærð. Trúlega eru þetta leifar af skemmunni. Hún er nánast algróin og svo virðist sem fyllt hafi verið upp í hana. Á stöku stað sést í hleðslurnar að utanverðu. Heyhlaðan er 9×7 m á stærð. Veggirnir eru um 1 m á hæð og 1 m á breidd. Allir eru þeir vel hlaðnir nema suðurveggurinn sem ekki sést og ef til vill hefur verið op þar. Veggirnir eru mosa og grasi grónir og þá sérstaklega að utanverðu. Tóftin er algróin að innaN og engar leifar af milliveggjum eru sjáanlegir. Leifar af norðurvegg íbúðarhússins eru inn í tóftinni. Mikil gróska er í bæjarstæðinu en ekki teljandi bæjarhóll, enda ekki víst að nokkur mannvirki hafi staðið þarna fyrr en eftir miðja 19. öld.
Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Afbýli hefur hjer að fornu verið, það var kallað fjórðúngur jarðarinnar og naut afbýlismaðurinn kosta jarðarinnar pro qvoto.“ Ekki er nú vitað hvar afbýli þetta hefur verið og ekki er getið um hjáleigu frá Stakkavík í seinni tíma heimildum.“ JÁM II, 466.
Í Frey 1994 er viðtal Matthíasar Eggertssonar við Eggert Kristmundsson undir fyrirsögninni „Sauðurinn slapp á Lækjartorgi og náðist uppi í Öskjuhlíð„. Hér á eftir er hluti viðtalsins. þ.e. þeim hluta er lítur að dvöld Eggerts í Stakkavík.
„Búskapur hefur verið að dragast saman á Suðumesjum undanfarin ár og áratugi og er nú vart svipur hjá sjón miðað við sem áður var. Enn er þó til fólk sem rak stór bú fram á þennan áratug en hefur nú verulega dregið saman seglin. Einn af þeim er Eggert Kristmundsson, sem býr á Efri-Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd með systkinum sínum, Elínu, Lárusi og Þorkeli. Fréttamaður Freys sótti þau heim ásamt Val Þorvaldssyni, héraðsráðunauti Bsb. Kjalamesþings, til að heyra búskaparsögu þeirra.
–Hvar ert þúfœddur og uppalinn?
Ég er fæddur í Stakkavík í Selvogi árið 1919. Foreldrar mínir voru Kristmundur Þorláksson, fæddur í Hamarskoti í Hafnarfirði, en móðir mín hét Lára Scheving, fædd á Ertu í Selvogi. Foreldrar hennar flutt svo að Stakkavík og þar giftist hún Kristmundi, sem kom þangað sem vinnumaður. Þau eignuðust 10 böm og þar af eru 8 á lífi. Þar búa þau svo til ársins 1943 að þau flytja hingað að Efri-Brunnastöðum.
–Hvernig búi bjuggu foreldrar ykkar á uppvaxtarárum ykkar?
Þau voru fyrst og fremst með fé og svo kýr til heimilis. Það var erfitt með heyskap þarna svo að féð gekk mest úti. Það varð að fylgja því eftir og reka það til sjávar á fjörubeit, tvo tíma hvora leið. Það var staðið þar yfir því í tvo tíma og síðan rekið á haga upp í brekkurnar, þar sem skógurinn var. Þar voru beitarhús fyrir féð, sem hét Höfði.
Þannig var þetta upp á hvem dag á vetuma þegar harðindi voru, en svo þegar það kom góð tíð þá fór féð upp um öll fjöll og fimindi og þá varð maður að elta það alla leið austur í Geitafell. Við lentum einu sinni í því við Gísli bróðir minn að sækja féð þangað og við fórum af stað kl. 9:00 um morguninn og komum ekki heim fyrr en kl. eitt um nóttina. Þá komum við til baka með 50 fjár. Í þessum leiðangri skall hann á með blindhríð og útsýningsél. Svo snerist áttin og þá hefðum við villst ef við hefðum ekki haft með okkur tvær golsóttar ær, forystukindur, og þær björguðu okkur. Snjórinn var í hné mestalla leiðina, nema þar sem rindar voru og hæst bar og forystuæmar reyndu að þræða rindana. Við vorum ekki með nokkum matarbita með okkur, því að við ætluðum ekki þetta langt og urðum alveg úrvinda af þreytu. Ég var þá 14 ára en Gísli 15.
Auk kúa og kinda, sem voru um 300, vorum við með fjóra hesta, en það varð að koma tveimur fyrir yfir veturinn.
–Hvert fóruð þið með sláturfé?
Við rákum það til Hafnarfjarðar og það var um átta tíma rekstur en stundum til Reykjavíkur. Ef maður fór hjá Eldborginni yfir Brennisteinsfjöllin gangandi á vetuma þá gat maður farið þetta á sex
tímum og komið niður hjá Múlanum, rétt fyrir ofan Vatnsskarðið, þar sem er lægst ofan af Lönguhlíðinni. Það er mikið brunahraun þama sunnan í móti með mosa og þegar gaddað var þá var gott að
labba þama, en aftur þegar mosinn var mjúkur þá var þyngra að fara þama um.
Ég man sérstaklega eftir fjárrekstri eitt haustið. Guðmundur í Nesi í Selvogi hafði lagt af stað daginn áður með sinn rekstur, en við fórum þennan dag út í Krýsuvík og ætluðum að nátta okkur þar.
Ég hafði þá aldrei áður farið þessa Krýsuvíkurleið. En það var dálítill snjór á fjallinu enda komið fram að veturmáttum, eftir hrútarétt. Við vorum með 30 sauði og 20 lömb. Á þessum tíma bjó Magnús Ólafsson í Krýsuvík í koti rétt hjá kirkjunni. En hann var ekki heima, svo að við tókum bara úr glugga og skriðum inn til að sofa um nóttina, en við vorum með mat með okkur og prímus. Klukkan sjö um morguninn leggjum við af stað og þá er hann kominn á norðaustan og fok og einn hesturinn strokinn. Það tafði okkur á annan klukkutíma að elta hann uppi. Þegar við komum að Nýjabæ, þá hittum við Magnús Ólafsson og játuðum upp á okkur húsbrotið, en hann fyrirgaf okkur það strax.
Við héldum svo áfram en þá skall á bandvitlaust veður, stormur og snjókoma og óstætt og við villtumst og vorum að hrekjast þetta allan daginn og komumst svo loks aftur í Nýjabæ klukkan eitt um nóttina hundblautir og hraktir. Magnús hafði nóg að gera alla nóttina að kynda og þurrka fötin okkar.
Svo morguninn eftir var kominn útsynnings éljagangur og ég gleymi aldrei hvað mér var kalt þegar ég var að fara í leppana um morguninn, og að koma svo út í kuldann, svona ruddagarra.
Svo rekum við af stað og vorum sjö tíma frá Krýsuvík og niður í Hafnarfjörð. Þriðja daginn rákum við svo féð frá Hafnarfirði til Reykjavíkur og þegar við komum niður á Lækjartorg á leið að Tjörninni en þar var Nordal með sitt sláturhús, þá tryllist einn sauðurinn algjörlega. Hann fer yfir einn bílinn sem þar stóð og Sigurður Gíslason yfirlögregluþjónn, hann keyrir á eftir honum á mótorhjóli og annar á lögreglubíl og þeir ná sauðnum uppi í Öskjuhlíð og koma með hann í lögreglubílnum niður í sláturhús. Þessi kraftur var í sauðnum eftir þriggja daga rekstur og á pörtum í umbrotafærð. En þegar bílamir komu og fóru að pípa þá varð hann albrjálaður.
Þetta gerðist rétt fyrir 1940. Þetta er túr sem ég gleymi aldrei, það var ljóti túrinn. Þeir sem yngri eru mættu vita af því að þetta máttu menn leggja á sig töluvert fram á þessa öld í lífsbaráttunni.
En það trúir þessu ekki, þetta er bara karlagrobb í augum unga fólksins og það er svo sem ósköp eðlilegt.
Heyskapurinn í Stakkavík?
Við heyjuðum á eyðijörð sem heitir Hlíð og var hinum megin við Hlíðarvatnið. Þar fengum við um 90 hestburði sem varð að binda og flytja á bát yfir vatnið og bera síðan heim í hlöðu.
Svo vorum við uppi um öll fjöll að heyja hvar sem nokkra tuggu var að hafa. Maður lá þá við í tjaldi. Það þótti góður sláttumaður sem sló einn kapal á dag. Svo varð maður að reiða þetta heim, allt
upp í þriggja tíma lestarferð. Það voru ágætis slægjur sums staðar, t.d. inni í Stóra-Leirdal, inni í Grindarskörðum. Þar mátti heyja 50 hesta á einum stað. Það var á margra ára sinu. Og féð gekk auðvitað á þessu. Þetta var töluvert beitilyng og grávíðir og það var mjög góð lykt af þessu, þegar búið var að þurrka það, en þetta var létt fóður.
–Stunduðu þið ekki sjóróðra frá Stakkavík?
Nei, en Gísli, bróðir móður minnar, gerði út frá Herdísarvík. Þar voru þá gerð út sjö skip, opin. Það sjást þar enn tættur af verbúðunum. Hann átti þar eina búðina og var þá með menn austan úr Árnessýslu og víðar að á vertíð. Svo reri faðir minn í mörg ár í Selvogi hjá Sveini Halldórssyni. Hann var á opinni trillu.
-Þið bjugguð þarna samtíða Einari Benediktssyni, skáldi, og Hlín Johnson?
Ég hef ekki haldið meira upp á neina konu en hana Hlín. Hún var hetja. Þau flytja í Herdísarvík um 1934. Einar deyr svo snemma árs 1940, en hún var þarna lengi eftir það.
Við hjálpuðum henni á vorin að smala til að rýja og marka og svo aftur á haustin, þegar hún var að farga. Á sumrin hjálpuðum við henni með heyskapinn. Ég var þá að vinna í Hafnarfirði en fór um helgar að hjálpa henni, sló með orfi og ljá. Það var gerði austast í Herdísarvík og aðalheyskapurinn var þar. Þetta hafði verið grætt upp með slori þegar útgerðin var þarna, bara borið á hraunið. Það er grunnur jarðvegur þarna. Þarna mátti heyja unt 80 hesta.
–En á veturna var hún í gegningunum sjálf?
Já, hún var með þrjár kýr og ól upp kálfana. Féð var aldrei meira en svona rúmlega 200. Það gekk allt sjálfala. Þetta er einstök jörð til beitar. Það gátu ekki komið þeir vetur að það félli fé úr hor í Herdísarvík. Það gerir fjaran. Það er svo mikið þang og þari þama í Bótinni. En þetta er að breytast. Sjávarkamburinn er allur að fara og sjórinn að brjótast upp í tjöm. Úr þeirri tjörn hefi ég fengið þann besta silung sem ég hef borðað um dagana. Hann var tekinn úr Hlíðarvatni og þurfti að vera þarna í fjögur ár. Þá var hann orðinn fimm pund. Hann er eldrauður og mjög bragðmikill.
–Hafði Hlín ekki eitthvað af börnum sínum til að hjálpa sér þarna?
Það var ósköp lítið sem þau voru þarna, en Jón Eldon sonur hennar færði henni vistir. Hún gaf honum Dodge Weapon bíl, mjög sterkan og hann gat farið þangað suður þó að það væri mikill snjór og ófærð. Ég fór mörg kvöld með honum og við komum ekki til baka til Hafnarfjarðar fyrr en þetta klukkan eitt og tvö á nætumar. Við fórum þá Krýsuvíkurleiðina frá Hafnarfirði.
-Hvað bjó hún þarna lengi?
Hún fer upp úr 1950 og flytur þá í Fossvoginn og var þar með einar tvær kýr, heyrði ég. Ég held að hún hafi þó viljað vera áfram í Herdísarvik, en það var sjálfsagt erfitt.
Ég vorkenndi henni oft þegar ég var að fara frá Herdísarvík að skilja hana eftir í blindbyl og myrkri, háaldraða konuna. En hún var ekki bangin við það.
-Hvað réð því að þið flytjið?
Mæðiveikin var þá komin upp og það var búið að girða fyrir Ámessýslu þama, niður í sjó í Selvogi og yfir að Vatnsenda. Svo bara kom veikin upp vestan við. Auk þess sáum við að það var engin framtíð í því að vera þarna fyrir okkur bömin sem vorum þarna að vaxa upp, engin atvinna nema þessi búskapur sem var afar torsóttur og erfiður.“ M.E. (Matthías Eggertsson)
Við Stakkavík er grunnur seinni tíma sumarbústaðar, sem nú er horfinn. Í Vísi 1962 er viðtal við Lizzie Olsen, sænska konu, undir fyrirsögninni „Fór til Kleifarvatns“:
„Fyrir skemmstu var haldin hér í bænum myndlistarsýning fimm Svía, sem sjálfir létu ekki sjá sig hér og hafa aldrei hingað komið, en í gær áttum vér viðtal dagsins við sænska listakonu, sem lagt hefir leið sína um Ísland í nokkrar vikur, en fer héðan án þess að halda nokkra sýningu. Hún hefir raunar ekki málað hér neina mynd. En samt þykir oss trúlegt, að Íslands eigi eftir að gæta í ófáum myndum, sem koma frá hendi listakonunnar næstu misseri og jafnvel lengur.
„Hvar er Stakkavík?“
— Hvað byrjuðuð þér svo að skoða hér eða hvað vilduð þér helzt sjá?
– Ég held helzt að eitt af því fyrsta, þegar ég hafði lent hér, var að spyrja hvern mann á fætur öðrum: „Hvar er Stakkavík?“ og lengi gat enginn svarað þeirri spurningu. Ég gat nokkurn veginn sagt til um, á hvaða svæði Stakkavík væri, en það kom lengi vel fyrir ekki. En þannig stóð á þessu, að kollega minn, sem hafði verið hér, hafði dvalizt um skeið á þessum stað, og fór miklum orðum um þennan part af Íslandi. Svo komst ég í samband við Kjartan Sveinsson, skjalavörð, sem einmitt hafi lánað sænska kolleganum sumarbústað sinn í Stakkavík um tíma. Og mér var strax boðið þangað.
Fyrst til að skoða staðinn
Við ókum suður að Kleifarvatni og Krýsuvík. Það var út af fyrir sig opinberun að koma þangað og ekki lengra. Aldrei á ævi minni hafði ég séð annað eins landslag, og þó hafði ég verið á eldfjallaeyjum við Grikkland. Þetta var stórkostlegt. Mér fannst ég vera kominn til tunglsins, þegar við stigum út úr bílnum sunnan við Kieifarvatn. Ef málarar geta ekki fengið innblástur þar, þá er ég illa svikin.
En svo, ef einhvern langar til að vita, hvar Stakkavík er, þá er hún við Hlíðarvatn, skammt frá Herdísarvík. Dvaldist ég þarna ein í vikutíma.“
Í Tímanum 1962 eru skrif Jónasar Guðmundssonar; „Sprittloginn í Stakkavík„:
„Fyrir um það bil hálfum öðrum áratug, eða tveim, var ég oft gestur Kjartans Sveinssonar, bónda og skjalavarðar í Stakkavík, sem er við Hlíðarvatn, næsti bær fyrir austan Herdísarvík. Kjartan hafði þau álög á jörð sinni, kominn úrstjórnarráðinu, að hann mátti ekki hafa fé eða önnur venjuleg húsdýr, sem þarna lifðu á skreið og hrísi, og höfðu gjört um aldir. Birkikjarrið var álitið verðmætara en búvörur, sem þarna mátti framleiða.
Á hinn bóginn mátti Kjartan veiða silung í Hlíðarvatni að vild sinni og hann mátti ganga á reka. Kjartan sinnti þessum hlunnindum vel. Silungur var til matar og gnægð var af rekaviði til að kynda gisið íbúðarhúsið. Og í dularfullum rökkrum við snarkið í eldinum, sögðu menn sögur og vöktu nær til morguns.
Oft var lundi á borðum, er synti í þykkri brúnni sósu, en lundinn hefur þá náttúru, að annaðhvort er hann herramannsmatur, eða óæti. Hvergi hefur lundi verið eins góður og í Stakkavík. Soðinn fyrst vestur á Ásvallagötu, og síðan soðinn enn meir í Stakkavík og þá orðinn hæfur til matar.
Það var eitt sinn á síðsumardegi eða í byrjun vetrar, að ég fór eina ferð í Stakkavík. Það rigndi og svört og draugaleg skýin sigldu frá hafinu inn yfir hamrana og fjöruna og regnið streymdi úr himninum og stormurinn vældi. Nú verður kalt í Stakkavík, sagði ég, ef ekki verður þeim mun meira kynt.
– Hafðu ekki áhyggjur vinur sagði Kjartan þá glettnislega. Nú er nægur hiti í Stakkavík. Ég er með hvalspik. Ég man nú ekki hverju ég svaraði. En var vanur þeim sérkennilega yl og ilmi er fylgir því að brenna vatnssósa eik og öðrum sætrjám. Og nú átti að brenna spiki, eða lýsi. Mér leist satt að segja ekki eins vel á þetta og rekaviðinn.
Í „Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1943“ fjallar Ólafur Þorvaldsson m.a. um Stakkavík undir fyrirsögninni „Grindaskarðavegur„:
„Á háfjallinu norðan vegar er Stórkonugjá. Er það hraungjá mikil, sem hraun hefur runnið eftir frá gömlum eldgíg þar uppi. Austur af Stórkonugjá, skammt fyrir norðan veginn, er Kóngsfell. Þar koma saman lönd Gullbringusýslu og Árnessýslu.
Þegar komið er austur af fjallshryggnum, er komið að afarstórri hraunbreiðu. Tvær vörður eru þar við götuna, og skiptast þar leiðir, liggur austasta leiðin til Selvogs, miðleiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur, en sú þriðja, sem nú er sjaldan farin, liggur til Brennisteinsfjalla, suður með Draugahlíð. Var það leið þeirra manna, sem brennisteinsnám stunduðu í Brennisteinsfjöllum, þegar þeir fóru um helgar til Hafnarfjarðar, því að flestir af þeim áttu þar heima, en mest var þessi leið farin af þeim, sem fluttu brennisteininn til Hafnarfjarðar, og var hann fluttur á
klökkum. Hafnfirðingum, sem hesta áttu, svo og bændum þar í grennd, var að einhverju leyti gefinn kostur á þessum flutningum, og skyldu þeir fá eina krónu á hestburðinn í flutningsgjald. Ferðin mun
hafa tekið 12—14 klst. Eitthvað mun þessu hafa verið sinnt, þrátt fyrir þetta lága gjald, sem að lokum reyndist samt félaginu ofvaxið. Þetta var á síðari hluta nítjándu aldar.
Leiðin til Stakkavíkur og Herdísarvíkur liggur frá fyrrnefndum vörðum, suðaustur á slétt hraun, og eru smávörður meðfram veginum yfir hraunið. Þegar á mitt hraunið kemur, er úfinn bruni suðvestan vegar, og er farið yfir mjótt haft af honum við suðurtagl Hvalhnjúks. Þegar austur fyrir Hvalhnjúk kemur, taka við Vestur-Ásar.
Fyrst til hægri handar nokkrir gróðurlausir og dökkir hólar, Svörtu-Ásar. Nokkru suðaustur af þeim úti við brunann er Urðarás, og er hann auðþekktur af mikilli grágrýtisurð sunnan megin. Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Þar sér enn leifar þess, að þar hefur fyrir löngu verið leitað eftir mó, en ekki mun það hafa þótt svara kostnaði.
Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrún. Þegar á brún kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist nokkuð. Það hefur líka hýrnað yfir mörgum vegfaranda þarna, sem kemur úr svartaþoku eða vondu veðri af fjallinu, því að oft er mikill munur veðurfars uppi á fjalli og neðan fjalls. Á brúninni stingum við því við fótum og rennum augum yfir það helzta, sem við blasir. Fyrst skulum við líta niður fyrir fætur okkar, svo að við blátt áfram dettum ekki fram af fjallinu, svo er það snarbratt. Af brúninni blasir við hafið, svo langt sem augað eygir til austurs, suðurs og nokkuð til vesturs, og sjaldan er sjór svo kyrr hér, að ekki kögri hvítu við sanda og hleinar. Héðan sjáum við til Selvogs, og ber þar hæst á vitanum á Selvogstöngum, og kirkjunni á Strönd — Strandarkirkju. Neðan fjallsins er allstórt vatn, Hlíðarvatn. Við austurenda þess, uppi við fjallið, er jörðin Hlíð, bær Þóris haustmyrkurs, þess er nam Selvog. Fyrir nokkrum árum var Hlíð lögð undir Stakkavík, en nú eru báðar í eyði, sorgleg saga, sem gerist víða nú.
Við vesturenda Hlíðarvatns er Stakkavík. Þar sem hús og tún jarðarinnar var fyrir 70—80 árum, er nú allt í vatni, og sést aðeins smáhólmi, þar sem bærinn stóð. Nú stendur bærinn í hraunjaðrinum við vatnið og má heita túnlaus. Þess vegna var Hlíðin lögð undir Stakkavíkina, því að allgott tún er í Hlíð, en sami eigandi að báðum jörðunum, sem sé Strandarkirkja.
Úr vatninu rennur ós til sjávar, Vogsósaós. Í Hlíðarvatni er allmikil silungsveiði, og eru það Hlíð og Stakkavík, sem eiga beztu lagnirnar. Af brúninni sjáum við ekki til Herdísarvíkur, þar eð Stakkavíkurfjall byrgir útsýn þangað. Ef við ætlum okkur heim á annan hvorn víkurbæinn, förum við að feta okkur niður stíginn, sem liggur í mörgum krókum og sveigum niður fjallið og heitir Selstígur. Frá fjallinu er aðeins steinsnar heim að Stakkavík. Vestur að Herdísarvík er um þriggja stundarfjórðunga gangur frá Stakkavík. Hefur nú verið lýst leið hinna svonefndu útbæja í Selvogi, og hverfum við nú aftur norður undir ,,Skarð“, að vörðunum tveim, og förum þaðan austustu leiðina, sem liggur til Vogsósa og Selvogshverfis.“
Í Morgunblaðinu 22. janúar 1986 er minningargrein um Láru Gísladóttur. Hún lést 16.11.1985:
„Þegar ég kom fyrst að Brunnastöðum var Kristmundur horfinn af vettvangi en Lára hafði stigið fyrstu fetin yfír á tíunda áratugævinnar. Þó hún væri öldruð vakti enn í vitund hennar glaður minningalogi
liðinnar ævi og hú var fús til að bregða upp leifturmyndum sem henni voru hugstæðar.
Lára fæddist árið 1889 í litlu hjáleigukoti sem tilheyrði eignarjörð stórbóndans í Nesi í Selvogi. Þetta kot hét Erta. Æskuheimili hennar var lítið en notalegt og henni þótti gott að vaxa þar upp frá
bemsku til ungmeyjarára. Þá fluttust foreldrar hennar að Stakkavík sem var erfíð jörð en gaf dugandi fólki mikla möguleika til fjárræktar. Árið 1918 giftist Lára Kristmundi Þorlákssyni. Hann var ættaður úr Hafnarfírði. Þau tóku þá við búinu í Stakkavík. Kristmundur var harðfengur maður og lét sér ekki allt fyrir brjósti brenna enda þótt fjöllin og hafíð biðu hættunni heim þar sem hann þurfti að gæta hjarðar sinnar.
Hún Lára var heldur enginn veifískati. Á tuttugu árum ól hún honum Kristmundi tíu böm og þurfti í eitt skipti þegar það bar að höndum að gegna sjálf nærkonu hlutverkinu. Einn drengurinn hennar, sjö ára gamall, var hjá henni og gat náð í skærin. Allt fór vel, þegar Kristmundur kom heim frá fjárgæslu brosti konan hans við honum og nærði við brjóst sitt nýfæddan son. Þetta er aðeins ein af mörgum lífsmyndum sem vitna um hetjuhug húsfreyjunnar í Stakkavík. En þrátt fýrir einangrun og margháttaða erfíðleika undi hún vel hag sínum og fannst hún eiga þar sæla daga.
En svo kom vágestur í byggðina. Mæðiveikin felldi fjárstofninn og flölskyldan flutti að Brunnastöðum á Vatnsleysuströnd eftir að hafa búið í Stakkavík í 27 ár. Þar var Lára síðan húsfreyja í nær fjóra áratugi eða þangað til hann Kristmundur hennar kvaddi þennan heim og börnin tóku við.
En Selvogurinn og Vatnsleysuströndin eu tveir ólíkir heimar. Að vísu fellur sami sjór að ströndinni en ris öldunnar er með ólíku yfirbragði og tónn frá hörpu hafsins ekki sá sami.
Þó húsfreyjan á Brunnastöðum tapaði engu af sinni heimilishyggju og gengi með sömu atorku að hverju starfi á ströndinni og í voginum mun henni hafa fundist eggjagrjótið þar sárara við fót en suður í Stakkavík. Þannig verða viðhorf þeirra sem alast upp og lifa með náttúru landsins og neyta af nægtum hennar síns brauðs í sveita síns andlits.
Af tíu börnum þeirra Láru Gísladóttur og Kristmundar Þorlákssonar eru átta á lífi, af þeim eru fimm búsett á Brunnastöðum og reka þar myndarlegt sauðfjárbú. Þau eru: Gísli Seheving, Eggert, Elín Kristín, Þorkell og Lárus Ellert. Anna Sigríður er húsfreyja á Sætúni á Vatnsleysuströnd, Valgeir Scheving er búsettur í Reykjavík og Hallgrímur í Keflavík. Tvö dóu í æsku, Valgerður og Lárus.
Nú er Lára Gísladóttir gengin á vit hins óþekkta og rekur ekki lengur lífsþræði sína á vettvangi okkar skynjanlegu veraldar. Þótt kynni okkar væru ekki löng minnist ég með söknuði þeirra kvöldstunda þegar þessi lífsreynda heiðurskona opnaði fyrir mér heim sinnar liðnu ævi og gerði mér grein fyrir baráttusögu einyrkjanna í einni afskekktustu byggð á suðurströnd íslands, Stakkavík í Selvogi. Spor genginna kynslóða eru athygli verð. Þar voru flest fótmál stigin og hugsun fjöldans bundin þeim ásetningi að vera sjálfbjarga og varða leiðina í átt til betri og bjartari framtíðar. Ein í þeim hópi var Lára Gísladóttir. Guð blessi minningu hennar.“ – Þ. Matt.
Í Tímanum 1971 er grein eftir Ólaf Þorvaldsson; „Tekið heima„. Greinir hann m.a. frá fólkinu og lífinu í Stakkavík.
„Áður fyrr var oft haft á orði, að þessi eða hinn væri búinn „að taka heima“, þegar sá hinn sami hafði fest sér jörð eða kot til ábúðar. Þessi ósköp hafa nokkrum sinnum hent mig á lífsleiðinni, að taka
heima, festa mér jörð eða ábýli til búskapar, oft að lítt athuguðu máli, jafnvel af tilviljun einni.
Ekki verða hér rekin tildrög allra minna heimtaka. Ég tek hér eitt út úr, en það var, þegar ég tók heima í Herdísarvík í Selvogshreppi vorið, eða réttara sagt sumarið 1927.
Það mun hafa verið í síðara hluta júlímánaðar 1927, er við hjónin stóðum við slátt á túni okkar á Hvaleyri, nokkuð fyrir venjulegan fótaferðartíma, að kona mín vekur athygli mína á, að maður á brúnu hrossi kemur niður veginn, sem liggur af aðalveginum, og stefnir að túnhliði okkar. Þetta var óvenjuleg sjón, einkum á þessum tíma sólarhringsins. Hér hlaut langferðamaður að vera á ferð, og fer ég strax að huga nánar að þessum árrisula ferðalangi. Eftir smástund segi ég við konu mína, að ekki kunni ég mann að kenna, sé þetta ekki Kristmundur bóndi í Stakkavík í Selvogi. Við Kristmundur vorum vinir og mjög samrýndir á æsku- og uppvaxtarárum okkar í Hafnarfirði, og svo var ekki nema mánuður frá því, að við sáum Kristmund seinast á þessu sama hrossi. Þetta reyndist rétt vera. Sá var maðurinn.
Hið fyrsta, sem ég spurði Kristmund um eftir kveðjur okkar, var, hvort nokkuð væri að hjá honum. Hann kvað svo ekki vera, en segist ætla að biðja mig fyrir hann Brún sinn, þar eð hann þurfi að bregða sér til Reykjavíkur, og var það auðsótt mál.
Þegar við höfðum komið hestinum á snapir, gengum við í bæinn. Kona mín bar Kristmundi góðgerðir — hann hlaut að vera hjallhanginn eftir að hafa verið á ferð alla nóttina. Á meðan við drukkum morgunkaffið, minntist ég á það, að hann hlyti að hafa mjög brýnt erindi að reka, úr því að hann væri á ferð um hásláttinn, og það í þurrkatíð.
„Það er nú samt í sambandi við sláttinn, að ég fer þessa ferð“, anzar Kristmundur. Svo segir hann mér, að nú sé Herdísarvíkin komin í eyði, og hafi ég ef til vill heyrt um það. Þórarinn, bóndinn í Herdísarvík, hafi flutt til Reykjavíkur með sitt fólk, sem væri ekki margt, aðeins þau hjónin og gömul kona, sem búin hafi verið að vera þar mjög lengi. Þetta hafi gerzt eftir að rúningu fjárins og ullarþvotti lauk.
Og Kristmundur heldur áfram og segir: „Nú þarf ég að reyna að komast til Reykjavíkur og leita uppi Einar Benediktsson, skáld og fyrrverandi sýslumann, til að vita, hvort hann vill lofa mér að slá meira eða minna í Herdísarvíkurtúninu, þar eð útlit er fyrir, að Herdísarvíkin byggist ekki þetta árið. Hlíðartúnið, sem ég hef undir, ætlar að verða mjög lélegt, og ekkert tún heima, svo sem þú veizt. Þórarinn bar vel á túnið að venju og lét róta úr öllum hlössum snemma í vor.“
Um kvöldið kom Kristmundur aftur, svo sem hann ætlaði sér, en ekki með Herdísarvíkurtúnið í vasanum, og óvíst, hvort úr þessu rættist fyrir honum. Við ræddum þetta nokkra stund, unz Kristmundur segir: „Heyrðu annars, af hverju tekur þú ekki Herdísarvíkina. Þessi kot hérna eru ekki við ykkar hæfi“.
Eftir samtal okkar hjóna þetta kvöld var ég ákveðinn að hafa tal af Einari Benediktssyni, að þeim fresti liðnum, sem bann setti sér til þess að gefa Kristmundi eitthvert svar.
Þegar við Kristmundur skildum næsta morgun, og hann hélt heim til sín, sagði ég honum, að ef ég fengi Herdísárvikina til ábúðar, gætum við slegið heimatúnið í félagi og skipt heyinu jafnt. Og
Kristmundi mun hafa þótt þetta betra en ekki.“
Ólafur og kona hans flutti árið síðar að Herdísarvík.
Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfus – Áfangaskýrsla I, 2015.
-https://timarit.is/page/5584174?iabr=on#page/n7/mode/2up/search/stakkav%C3%ADk%20kristmundur
-Freyr, 15.-16. tbl. 01.08.1994, Sauðurinn slapp á Lækjartorgi og náðist uppi í Öskjuhlíð – Viðtal við Eggert Kristmundsson, bls. 512-517.
-Vísir, 18. ágúst 1962, Fór til Kleifarvatns, bls. 2 og 4.
-Tíminn, 17. ágúst 1962, Sprittloginn í Stakkavík, bls. 8. Jónas Guðmunsson skrifar.
-Árbók Hins íslenska Fornleifafélags 1943, Grindaskarðavegur, Ólafur Þorvaldsson, bls. 99-102.
-Morgunblaðið 22. janúar 1986, minningargrein um Láru Gísladóttur, bls. 44.
-https://timarit.is/page/3560264?iabr=on#page/n5/mode/2up/search/kristmundur%20%C3%BEorl%C3%A1ksson%20stakkav%C3%ADk
-Tíminn, sunnudagsblað, 16. tbl. 01.05.1971, Ólafur Þorvaldsson – „Tekið heima“.
-Morgunblaðið 21. jan. 2010, Eggert Kristmundsson, minningargrein, bls. 28.