Straumsselsstígar
Stefnan var tekin í Straumssel um vestari Straumsselsstíg (Mosastíg). Ætlunin var m.a. að skoða selið og fjárskjólin ofan við selið.
Í lýsingum er talað um tvær götur upp í Straumssel. Straumsgatan liggur frá Straumi að vestanverðu til suðurs, skammt austan við Straumsréttina. Frá götunni liggur stígur, hér nefndur Straumsstígur, upp á hraunstallana vestan Þorbjarnarstaða. Þar greinist gatan; annars vegar til suðurs yfir Alfaraleiðina austan Draugadala, upp í gegnum Seljahraunið og áfram upp í gegnum Mjósundið (Gjásels- og Fornaselsstígur) og hins vegar upp hraunið vestan Grenigjáa á landamerkjum Straums og Óttarsstaða. Gatan fylgir vestanverðu Gráhelluhrauninu og Draughólshrauni, upp með Straumsselshöfða [neðan við selið] og upp í Straumssel að vestanverðu. Auðvelt er að rekja þessa götu upp frá Straumi þar sem hún liggur til suðurs austan Straumsréttar, yfir Reykjanesbrautina og áfram til suðvesturs (nálægt fallinni fjárgirðingu á mörkum Straums og Óttarsstaða sem fyrr sagði). Hin gatan (sú eystri) hverfur ofan við Mjósundið og vestan við Laufhöfða á kafla undir kjarr, sem hefur gróið þar vel upp, en kemur fljótlega aftur í ljós skammt sunnar. Stefnan á vestari götunni er hins vegar tekin á áberandi landamerkjavörðu skammt neðan stígs milli Straumssels og Óttarsstaðasels. Þaðan er gatan auðrakin í hvort selið sem er.
Straumsselsstígsins eystri er getið í örnefnalýsingu, sem fyrr sagði. Hann liggur til suðurs vestan Sölvhóls og áfram fast við vestanverðan túngarð Þorbjarnastaða. Grunsemdir eru um að þessi stígur, sem síðan liggur beint út frá Þorbjarnastaðartúninu til suðurs og áfram áleiðis upp í Gjásel og Fornasel, sem voru sel frá Þorbjarnastöðum og hugsanlega Lambhaga, hafi verið forn gata þaðan. Þessi sel lögðust af allnokkru fyrr en Straumsselið. Túngarðurinn í Straumsseli var hlaðinn um 1900 en þá hafði selsbúskapur í Hraunum lagst af með öllu.
Þess vegna er ekki nú hlið á garðinum þar sem selsstígurinn mætir túninu. Eystri selstígurinn er merktur að hluta, en á röngum stað að hluta frá selinu en réttur áleiðis niður Laufhöfða.
Þessi selsstígur liggur til suðsuðausturs vestan við Stekkinn (Efri Þorbjarnarstaðaréttina) sunnan Þorbjarnastaða, yfir Mið-Seljahraunið (þau eru fjögur á þessu svæði), framhjá Miðmundarhæð (á hægri hönd), um “grennsta” haftið á Seljahrauni og áfram til suðausturs austan Grenigjáa, upp með Eystri Tobbuklettum, um Flárnar, meðfram austanverðu Draughólshrauni og upp meðfram Jónshöfða. Stígurinn hlykkjast um hraunið. Við Laufhöfða eru gatnamót. Þar beygir Straumsselsstígur til suðurs þar sem hann liggur um Katlana.
Skammt þar austan við er Kápuhellir, í landi Þorbjarnarstaða. Norðan undir Straumsselshöfða beygir stígurinn til vesturs og kemur vestan og sunnan hans upp í selið. Reyndar skiptist gatan undir norðurhorni höfðans, en þaðan liggur gata áleiðis að Straumsselshæð og inn í selið að norðaustanverðu.
Á leiðinni sást vel yfir að Tobbuklettum og vörðu við Grenigjár, en í þeim er nokkuð stór rétt innan hraunhólaþyrpingar. Selsstígurinn er vel markaður í klöppina á kafla, einkum neðst í Flánum. Einnig er hægt að komast inn á hann eftir stíg af Gerðarstíg, sem er austastur þessara stíga. Hann liggur til suðurs austast í Seljahraununum.
Fyrir ofan Straumssel er Straumsselshæð og á henni Straumsselshæðarvarða. Ofar og sunnar eru Stórhæðir. Efst austan til er Fremstihöfði en í suðvestur sér í hæstu hæð Gömluþúfu. Í því er Gömluþúfugrenið.
Sunnarlega í Straumselshöfða er Höfðavatnsstæðið, uppi á hól. Þar á sumrum var drykkur fyrir tvo smala og hunda þeirra.
Straumsselið er eitt hið merkilegasta á Reykjanesskaganum. Seltætturnar eru í Straumselstúni. Þarna stóð bær fram á síðustu öld, sem Guðmundur Tjörvi lét reisa. Bærinn brann síðan. Áður var faðir hans, Guðmundur (sonur Krýsuvíkur-Gvendar) um tíma skógarvörður í Almenningum og hélt þá til í selinu.
Seltúnsgarðar liggja um nokkurn hluta túnsins. Gamla selið er hér innangarðs sem og Selsgarðurinn, matjurtargarður. Vatnsstæði er í skúta norðan við þær, Selsbrunnurinn. Hlaðin hestarétt er vestan við Selstúnið.
Í Straumsseli var búið stundum á 19. öldi. Síðast á árunum 1890-1895. Bæjarhúsin eyddust af bruna og hefur ekki verið búið þar síðan. “Í suðri sést í Hafurbjarnaholt, kennt við Björn Gnúps-Bárðarson, Hafur-Björn, sem samninginn gerði við bergbúann forðum. Gerðu þeir helmingaskipti í fjáreign. Segir sagan að þá hafi komið hafur og hrútur í féð og var þá sem tvö höfuð væru á hverri skepnu. Gerðist Björn þá fjárríkasti bóndi á Suðurnesjum”.
Straumsstígurinn kemur í selið ofan við hestaréttina. Líklega hefur hún verið notuð af hestafólki, t.d. þeim sem þurftu að hitta Guðmund skógarvörð í Straumsseli á meðan hrístakan stóð yfir. Einnig hefur heimilisfólk í selinu notað hesta fyrir utan auðvitað vöruflutninga.
Suður frá garði frá selinu liggur Straumshellnastígur, suður að Straumshellum nyrðri, miðja vegu milli Gömluþúfu og Straumssels. Þaðan liggur stígur í Straumshellana syðri. Hér voru allgóð fjárskjól og hafði Tjörvi þarna fé. Við syðri hellana er Gerðið, sem notað var til samrekstar.
Norðan við neðri hellana er gott varðað vatnsstæði í hraunkvos. Í neðri hellunum er rúmgóður fjárhellir utan í holti og snýr opið til vesturs. Hlaðið er framan við munnann. [Skammt sunnan við opið mótar vel fyrir öðrum miklum hleðslum við op. Hleðslurnar eru fallnar og hafði lokast fyrir opið, en hefur nú verið opnað á ný. Þarna mun vera op á öðrum fjárhelli, sem langur gangur átti að hafa verið inn í].
Í efri hellunum er rúmgóður fjárhellir og vel manngengur. Hlaðið er fyrir munnann, en hellisopið er innan við fallega hlaðið gerði í hraunbala. Ofan við gerðið að norðanverðu er hlaðið byrgi eftir refaskyttu, sem Jónas Bjarnason og félagar hlóðu eftir miðja 20. öld, væntanlega úr grjóti réttarinnar.
Vestari selsstígnum var fylgt úr hlaði. Hann liggur til suðurs út frá bænum og beygir síðan til vesturs og loks til norðurs. Stígurinn til vesturs yfir að Óttarsstaðarseli þverar hann vestan við selið. Stígurinnn er vel markaður í landið og er augljós á köflum.
Straumsselsstígnum var fylgt til norðurs vestan Straumsselshöfða og yfir á vestari Straumsselsstíginn, sem síðan var rakin áleiðis niður að Þorbjarnastöðum með viðkomu í Tobbuklettum.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Straum og Óttarsstaði.