Suðurreykjasel – Húsadalur
Í Jarðabókinni 1703 segir að á Suðurreykjum sé „selstaða góð“. Í örnefnalýsingu fyrir Suður-Reyki, eins og nafnið er nú skrásett, segir að „norðan undir Þverfjalli er Forarmýrin og norðan úr henni rennur Forarmýrarlækur.
Í Forarmýri sést móta fyrir áveitumannvirkjum sem einhver bóndi sem var á Reykjum skömmu fyrir aldamótin [1900] lét gera. Forarmýrarháls er vestan við og undir þeim hálsi eru Selbrekkur. Neðst í Selbrekkum var sel og sjást rústir þess enn“. Upplýsingar þessar virðast vera teknar úr Fornleifaskrá fyrir Mosfellshrepp, gerð af Þjóðminjasafni Íslands. Í skránni er selið ekki staðsett. Þá segir: „Norðan til við Selbrekkur er Fuglaþúfa á meldragi og skammt í austur frá henni eru tóftir af sauðahúsi. Hætt var að nota sauðahúsin að Suður-Reykjum um aldamótin [1900] og mun Finnbogi Árnason síðastur hafa notað þau“. Þetta kom m.a. fram í viðtali við Oddnýju Helgadóttur í október 1989.
Dalurinn ofan við Suðurreyki heitir Húsadalur. Nær hann inn að Forarmýri. Neðan frá mýrinni rennur Varmá niður dalinn Hún kemur úr Bjarnarvatni innan við Reykjaborg. Ýmsir þverlækir eru í dalnum. Skammt ofan við bæinn eru nokkur sumarhús umhverfis talsvert gil, sem þar er. Trjárækt hefur verið stunduð við bústaðina svo víða eru allhá tré.
Í gilinu norðan megin við ána er skjólgóður hvammur. Skammt ofan við hann er gróin tóft. Líklega hefur þarna verið stekkur um tíma.
Húsadalurinn er vel gróinn, einkum að norðanverðu. Vestasti hluti dalsins hefur eflaust fyrrum verið framlenging á heimatúninu. Reykjafell er norðanvert og Reykjaborg sunnanvert. Hamrar hennar blasa við mót vestri. Vestan Reykjaborgar er Hádegisfell, lægra. Innar eru Þverfell að austanverðu og Bæjarfell að sunnanverðu. Milli Bæjarfells og Reykjaborgar er fyrrnefnt Bjarnarvatn.
Miðja vegu í dalnum eru rústir fjárhúsa (beitarhúsa). Annað er norðan við ána og hitt sunnan við ána. Síðarnefndu rústunum hefur verið raskað, en þó má enn sjá stærð þeirra og lögun sem og vegghæð, sem hefur verið óvenju mikil. Litlu A-laga húsi hefur verið komið fyrir í tóftinni með tilheyrandi raski.
Skammt norðaustar eru óreglulegar hleðslur, nokkuð stórar. Nyrst í þeim eru leifar af hlöðnu húsi. Þarna gæti hafa verið sauðhús og sauðagerði.
Fjárhústóftin norðan árinnar horfir mót suðri. Veggir eru grónir og standa. Vestan við og fast við hana er minna afhýsi með op mót suðri. Tóftin ber með sér að vera ekki mjög gömul; bárujárn hefur verið í þaki, a.m.k. undir það síðasta. Skammt ofar, fast við ána, hefur verið hlaðinn garður, nú gras- og mosavaxinn.
Og þá var bara að feta sig inn dalinn, yfir mýri, sem reyndar var frosin að þessu sinni, og upp að Selbrekkum þangað til Bæjarfellið var svo til beint í suður. Forarmýrarlækurinn kemur þar niður og sameinast Varmá.
Skammt ofan og utan við mótin eru tóftir selsins. Þær eru mjög grónar og ekki auðvelt að greina rýmaskipan í fljótu bragði, en þó má gera það með lagni. Meginhúsið, baðstofan, er austast, en utan í því að vestanverðu hafa verið eldhús og búr sitt hvoru megin við innganginn í baðstofuna. Allar dyr hafa verið mót vestri. Selið er vel staðsett í dalnum í skjóli fyrir austanáttinni eins og svo algengt var um selstöður á Reykjanesskaganum. Neðan (sunnan) við selið eru stekkjartóftir, aflangur til suðurs. Stekkurinn hefur verið nokkuð stór, en er nú gróinn. Ekki mótar fyrir hleðslum nema með rannsókn, líkt og í selstæðinu. Op var mót suðri.
Forarmýrinn er nú að gróa upp og er hin myndarlegasta starmýri. Vestari hluti hennar er slétt og ekki langt að bíða að hún verði að túni.
Vel mætti beita hestum á mýrina og opinbera þannig tóftirnar til frekari skoðunnar. Ljóst er að bóndinn á Suðurreykjum hefur viljað nýta aðstöðuna til hins ítrasta og því farið með selstöðuna svo fjarri bæ sem unt var, a.m.k. um tíma. Tóftirnar eru greinilega mjög gamlar.
Telja má líklegt að seinna hafi selstaðan verið færð neðar með ánni og þá væntanlega upp í fyrrnefnt gil þar sem skjól er svo að segja fyrir öllum áttum, góður hagi og óþrjótandi vatn.
Beint upp af Selbrekkum, á berri melhæð er einmanna tóft. Horfir hún til norðvesturs. Tóftin, sem er gróin, er nokkuð heilleg og standa veggir t.a.m. enn. Ekki er gott að kveða á um hlutverk hússins, en það gæti þess vegna hafa verið sauðahús eins og segir í örnefnalýsingunni. Einnig gæti þarna hafa verið athvarf fyrir fólk á leið inn með Reykjafelli og niður með Norðurreykjaá í Helgadal og síðan í Reykjadal (Norðurreykjum). Berangur er nú umhverfis tóftina, en telja má líklegt að svæðið hafi verið mun grónara fyrrum.
Annars má telja líklegt að Húsadalurinn sé ekki mikið nýttur til útivistar þrátt fyrir fjölmargar áframhaldandi leiðir úr honum, s.s. til suðausturs að Bjarnavatni austan við Þverfell, yfir í Torfdal til norðausturs, til suðurs upp að Borgarvatni og áfram niður í Þormóðsdal eða til norðurs og niður með Norðurreykjaá, sem fyrr er lýst.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Suður-Reyki – 1991.