Sveifluháls og nágrenni – Þorvaldur Thoroddsen
Þorvaldur Thoroddsen skrifaði um „Ferðir um Suðurland sumarið 1883„. Skrifin birtust m.a. í Andvara 1884:
„Frá Geitahlíðarenda og vestur að Ögmundarhrauni er hraunlaus kafli og er það fásjeð á Reykjanesi. Þetta hraunlausa svæði nær frá Kleyfarvatni suður í sjó milli Sveifluháls og Lönguhlíðarfjallanna, en undir eins og Sveifluháls sleppur, taka við eilíf brunahraun. Í Geitahlíð, sem er suðvesturhlutinn af Lönguhlíð, eru dóleríthamrar efst, en móberg undir; svo er jarðmyndunin frá Herdísarvík norður að Grindaskörðum.
Nyrzt í dældinni milli Lönguhlíðar og Sveifluháls er Kleifarvatn; fram með því liggur vegur úr Hafnarfirði, en nú var eigi hægt að fara hann, því svo mikill vöxtur var í vatninu. Menn hafa tekið eptir því, að Kleifarvatn vex og þverrar á víxl, og vex jafnvel mest, þegar þurrkar ganga — að því er menn segja — hvernig sem því er nú varið; í því er engin veiði, engin branda nema hornsíli. Sunnar, nálægt Krýsuvík, eru tvö mjög einkennileg vötn, Grænavatn og Geststaðavatn, litlu fyrir neðan námurnar; þau eru bæði kringlótt og mjög djúp; sagt er, að sextugu færi hafi verið rennt í Grænavatn og eigi náð botni. Vötn þessi eru á flötum melum og melgarður eða melbryggja hringinn í kringum þau. Skálar eða katlar líkir þessum, en minni og vatnslausir, eru þar í kring.
Krýsuvíkurnámur eru utan í Sveifluhálsi, norður af Krýsuvík, og dálítið fyrir neðan hann. Móberg er í hálsinum öllum, og brennisteinsblettir og sundursoðinn leir allvíða í honum; en mest kveður þó að því við Krýsuvík. Hinar súru gufur koma upp um sprungur í móberginu; í giljum og vatnsræsum, er ganga niður í fjailið, hefir jarðvegurinn við það soðnað allur í sundur; móbergið er orðið að marglitum leir og gegnumofið af brennisteinssúrum steinsamböndum.
Víða eru þar stórir, bullandi leirkatlar, sem alltaf sýður í; fremur lítið er þar samt um brennistein, og miklu minna en í námurnar fyrir norðan í Þingeyjarsýslu. Móbergið er víða upplitað og orðið hvítleitt af gufunum, en hraunmolarnir úr því liggja lausir kolsvartir ofan á, af því að soðnað hefir í kringum þá. Undarlegt þykir mjer, ef það getur borgað sig að vinna þær. Ensku fjelögin, sem hafa námurnar, og ætla sjer að taka þar brennistein, kopar og buris, eru byggð í lausu lopti á hlutabrjefum. Englendingur nokkur, J. W. Busby, keypti fyrst Krýsuvíkurnámur 1858 fyrir milligöngu Dr. Jóns Hjaltalíns; sjera S. B. Sivertsen og Sveinn Eiríksson bóndi í Krýsuvík seldu fyrir 1400 dali; eptir kaupbrjefinu mega Englendingar taka allan brennistein í Krýsuvíkurtorfu og Herdísarvíkurlandi, ásamt öllum málmiðartegundum, or þar kynni að finnast; auk þess hafa þeir ýms rjettindi önnur. Síðan hafa námurnar farið hendi úr hendi og verið seld í þeim hlutabrjef.
Frá Krýsuvík fórum við snöggva ferð upp í Trölladyngju, sem jeg þá skoðari miklu nákvæmar seinna um sumarið, og síðan niður að Kaldárseli. Vegurinn liggur um Ketilstíg, síðan norður með Sveifluhálsi að vestan og svo fram með Undirhlíðum.
Sveifluháls er allur úr móbergi, og á honum ótal tindar og hnúkar; hvergi hefir gosið í þessum hálsi, og engin eru þar eldmerki, nema mjög gamlir gígir við suðurenda hálsins nálægt Mælifelli. Hálsinn er víða sundursoðinn af súrum eldfjallagufum, og þeir hafa, ef til vill, einmitt þess vegna engin gos komið, af því að gufurnar höfðu þar stöðuga útrás; annars eru öll fjöllin og dalirnir í kring sundurrótaðir af jarðeldum og eintómar gígaraðir fram með hverri hlíð. Undirhlíðar eru nokkurs konar áframhald af Sveifluhálsi, eða þó öllu heldur hjalli, er gengur út undan norðurenda hans, og halda þær áfram norður fyrir Helgafell.
Fram með Undirhlíðum eru margar gígaraðir, og eru sumir eldgígirnir upp á rönd þeirra rjett við Helgafell. Frá gígum þessum hafa mikil hraun runnið. Undir miðjum hlíðunum eru mjög nýlegir gígir; þeir hafa hlaðizt upp úr uppblásnum hraunsteinum, sem er tyldrað hverjum ofan á annan, og eru þeir því fjarska brattir. Aðalgígurinn er 70 fet á hæð og hefir 40—50° halla út á við. Úr pessum gígum hefir Kapelluhraun runnið niður í sjó sunnan við Hafnarfjörð. Þetta hraun hefir eflaust runnið síðan land byggðist; útlit þess bendir til þess, og í fornum bókum er það kallað Nýja-hraun, þannig t. d. í Kjalnesingasögu, og í íslenzkum annálum er sagt frá því, að skip hafi brotnað 1343 við Nýja-hraun fyrir utan Hafnarfjörð.
Kapelluhraun hefir runnið niður með hlíðunum fyrir neðan Kaldársel niður að Stórhöfða, en beygir þar frá þeim til vesturs og norðurs. Sumir eldgígarnir og hraunstraumarnir við Helgafell eru mjög nýlegir. Á einum stað sá jeg þar mjög einkennilegan, sjerstakan hraunblett; hraunið hafði runnið út úr smáholum utan í litlu melbarði og fossað niður í smálækjum eins og uppsprettur; engir gígir höfðu samt myndazt, eins og vant er að vera við hraun, heldur hafði hraunleðjan beinlíns ollið á nokkrum stöðum út úr sprungu í melbarðinu; sprungan sjest eigi, en opin eru í vanalega stefnu, eins og aðrir gígir þar í nánd, frá norðaustri til suðvesturs; kringum uppvörpin er dálítil hrúga af hraunsteinum og svo hraunpípur niður úr; hraunbletturinn, sem komið hefir úr opum þessum, er mjög lítill, á að gizka 300 faðma langur og 10—20 faðma breiður.
Ásarnir, sem ganga niður undir Hvaleyri, eru nokkurs konar álma út úr Undirhlíðum og skilur hún Kapelluhraun frá Hafnarfjarðarhrauni. Hafnarfjarðarhraun er mjög gamalt; það virðist hafa komið úr stórum gömlum gíg norður af Helgafelli og vestur af Húsfelli, en síðan hefir landið milli þess gígs og Setbergshlíðaenda sokkið, og sjest vel í gjábarminum vestri allt norður undir Elliðavatn. Önnur gjá hefst rjett fyrir vestan Húsfell og gengur í suðvestur með Helgafelli suður um hraun þau, er komin eru frá Grindaskörðum; hún heitir Gullkistugjá; yfir hana verður eigi komizt nema á einstöku stað.“
Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir um Suðurland sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 25-28.