Tag Archive for: Ás

Garðar

Gísli Sigurðsson skrifar um „Garða á Álftanesi“ í Alþýðublað Hafnarfjarðar 1972:

Gísli Sigurðsson

Gísli Sigurðsson.

„Lengi hefur það verið rnér undrunarefni, hve fáskrúðugar eru sagnir úr landnámi Ingólfs Arnarsonar hér við Faxaflóa. Segja þó bækur, að Ingólfur hafi verið frægastur allra landnámsmanna. Verður og ekki annað sagt um þá frændur, en þeir hafi frægir orðið: Þorsteinn sonur hans stofnar fyrstur til þinghalds og hurfu margir að því ráði með honum, Þorkell máni sonur Þorsteins var lögsögumaður og um hann hafa myndast næstum því helgisögur, og niðjar þeirra í karllegg voru allsherjargoðar og helguðu alþing á hverju ári. Séu nú sagnirnar héðan úr umhverfinu athugaðar, sjáum við, að mikið tóm blasir við okkur.
Hrafna-Flóki og þeir félagar koma við hér í Hafnarfirði, þegar þeir halda brott eftir misheppnaða tilraun til landnáms.

Landnám

Landnám Ingólfs.

Þá kemur Ingólfur Arnarson og nemur hér land og setur bústað sinn í Reykjavík. Gaf hann síðan land frændum sínum og vinum, er síðar komu. Um landnám næsta nágranna segir Landnámabók: Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum. — Líklega hefur Ásbjörn komið hingað á árunum 890 til 900, en þá var hingað mest sigling.
Síðan líða um 300 ár, að því nær ekki er minnzt á þetta landssvæði. Þá segir svo í kirknatali Páls biskups, en það er tekið saman nálægt 1200: Þá er Hafnarfjörður og þá er Álftanes. Kirkja í Görðum og á Bessastöðum.

Garðar

Garðar og nágrenni.

Viðfangsefni mitt nú er að ræða lítilsháttar um annan þessara staða; Garða á Álftanesi.
Áður en lengra er haldið, skulum við staldra við frásögn Landnámuum Ásbjörn Össurarson. Landnám hans nær milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns, það er yfir Álftaneshrepp hinn forna, það svæði, sem nú skiptist í Álftaneshrepp, Garðakauptún, Hafnarfjörð og Hraunin.
Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, er sagt. En hvar voru Skúlastaðir? Af þeim fáu nöfnum, sem kunnug eru héðan úr nágrenninu frá fornri tíð, eru nokkur, sem enginn veit nú hvar eiga við. En það verður að teljast með einsdæmum, að nafnið á bústað landnámsmanns sé glatað.

Garðar

Garðar árið 1900.

En eru, þá nokkur líkindi til, að þann stað megi finna, sem Ásbjörn bjó á, Skúlastaði? Nokkuð sérstætt er nafnið. En það kemur á óvænt, því að hvergi verður Skúla-nafnið fundið meðal frænda Ingólfs eða afkomenda þeirra. Engum blöðum er um það að fletta, að býlið hefur verið einhvers staðar á svæðinu milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns.

Garðar

Garðar. Nýibær framar.

Nokkuð öruggt er, að bústaðir landnámsmanna verða er fram líða stundir höfðingjasetur og flestir kirkjustaðir. Til þess að verða höfðingjasetur og kirkjustaður þurfti jörðin að vera allstór, ekki minni en 40 hundruð, segja mér fróðir menn. Hvar er þá þessa lands, þessa stóra staðar að leita hér í umhverfi okkar? Sunnan fjarðar er slíkan stað varla að finna. Ofanbæirnir koma naumast til greina, og þótt búsældarlegt hafi oft verið um Álftanes sjálft, þá stöldrum við varla við þar.

Bessastaðir

Bessastaðir.

Til dæmis eru Bessastaðir ekki nema 8 hundruð að fornu mati. Þá er ekki nema einn staður, sem nefna mætti stóran stað og þar sem síðar verður kirkjustaður með höfuðkirkju. Staður sá, sem mér finnst líklegastur til að hafa verið Skúlastaður og bústaður Ásbjarnar, er því Garðastaður. Héðan er fagurt að sjá til allra átta. Hér er gróðursæld og hér er gjöfull sjór fram undan. Í upphafi kristniboðs á Íslandi var þeim höfðingjum, er kirkjur reistu, lofað, að þeir skyldu hafa svo mikil mannaforráð á himnum sem menn rúmuðust í kirkju þeirra. Varð því margur höfðinginn til þess að reisa kirkju á bæ sínum. Til þess að reisa slík hús sem kirkjur voru þurfti og nokkur efni. Þá þurfti kirkjueigandinn að halda prest, en slíkir prestar voru oft eins konar vinnumenn höfðingja.

Garðakirkja

Garðakirkja 1879.

En hafi nú nafnið Skúlastaðir horfið fyrir nafninu Garðar, hver var þá orsökin? Fróðir menn segja mér, að margt bendi til, að allmikil akuryrkja hafi verið stunduð hér um slóðir, um allt Álftanes, allt fram undir siðaskiptin um miðja 16. öld. Benda þar til nokkur örnefni, svo sem Akurgerði í Hafnarfirði, Akrar við Breiðabólstaði og Akurgerði þar í túni, Tröð, sem er bær á nesinu, og Sviðholt, en því er það nafn, að jörð var þar brennd eða sviðin undan sáningu. Þá er hér einnig víða að finna örnefni eins og Gerði og Garða. Þannig voru akrar varðir til forna, að kringum þá voru hlaðnir garðar, bæði til skjóls og til varnar ágangi fénaðar. Geta má þess til, að Ásbjörn og afkomendur hans hafi látið gera akra og haft akuryrkju ekki litla, garðar miklir hafi verið hlaðnir, og þannig hafi Skúlastaðanafnið grafizt undir görðum og hafi þá orðið til Garðar á Álftanesi. Og staðreynd er, að hér var um aldir stór staður og prestssetur.
Næst eftir að getið er um Garða i kirknatali Páls biskups, er þeirra minnzt í Sturlungu, þar sem segir, að 1264 hafi Gissur jarl riðið á Kjalarnes og gist að Einars bónda Ormssonar í Görðum. Var honum þar vel tekið og var hann þar nokkrar nætur.

Ísólfsskáli

Ísólfsskáli – Leitukvennabásar.

Þá er þess getið næst, að þrír menn í Grindavík bera vitni um reka Garðastaðar 1307: Garðastaður á reka bæði rekaviðar og hvalreka á fjörum austan við Ísólfsskála milli Rangjögurs og í Leitukvennabása. Þegar þetta gerðist, er hér þjónandi prestur séra Jón Þórðarson, en herra Haukur hafði þá sýslu.

Garðakirkja

Garðakirkja 1925.

Enn líður nokkur tími eða fram undir aldamótin 1400. Þá tekur nokkuð að rofa til. 1395 lætur Vilchin biskup í Skálholti gera máldaga flestra kirkna í Skálholtsbiskupsdæmi. Ég held að segja megi, að þá sé staðurinn i Görðum og kirkjan nokkuð vel sett að andlegum hlutum og veraldlegum.

Garðar

Garðakirkja 2022.

Er ekki úr vegi að taka hér upp þetta ágæta plagg, máldaga Garðakirkju. „Péturskirkja í Görðum á Álftanesi á heimaland allt, Hausastaði, Selskarð, Hlið, Bakka, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland, afrétt í Múlatúni. 18 kýr, 30 ásauða, 7 naut tvævetur, 6 naut veturgömul, 2 arðuryxn. 6 hross roskin, 16 hundruð í metfé. 10 sáld niður færð. 6 manna messuklæði, utan einn corporale brestur, og að auki 2 höklar lausir, annar með skínandi klæði, en annar með hvítt fustan. 3 kantarakápur, 2 altarisdúkar búnir. 6 altarisklæði og eitt skínandi af þeim. 2 dúkar stangaðir. 2 fordúkar. Skrínklæði lítið. 3 sloppar. Smelltan kross og annan steindan fornan. Koparskrín gyllt. Huslker af silfri. Gylltan kross lítinn. Paxspjald steint. Brík yfir altari. Kertastikur 3 úr kopar. Járnstikur 2. Bakstursjárn vont. Item sæmiiegt Ampli. Klukkur 5. Kaleikar 3, 2 lestir og hinn þriðji forgylltur. Maríuskrift. Pétursskrift. Merki eitt. Sakrarium mundlaug. 1 stóll. 2 pallkoddar. Fornt klæði og skírnarsár. Tjöld vond um kór og dúklaus. 2 reflar vondir um framkjrkju. Glóðarker. Graduale per anni circulum. Lesbækur út 12 mánuði þar til pistlar og guðspjöll, per anni circulum með collectario. Liber Evangeliorum. Omilie Gregorii Actis Apostolorum. Apocalipsis. Passionarius Apostolorum et eliorum santcorum. Altarisbók, Psaltari. Söngbók de tempore frá páskum til adventu. Forn sequentiubók. Messufatakista ólæst. Eins og vænta mátti er hér um eitt bezta heimildargagn að ræða“.

Garðar

Garðar fyrrum.

Hér er í fyrsta skipti getið þeirra býla, er heyra staðnum til: Hausastaðir, Selskarð, Hlið, Bakki, Dysjar, Hraunsholt, Hjallaland og upprekstur í Múlatún. Til skýringar á Hjallalandi vil ég geta þess, að hér mun átt við svæði sunnan Grunnuvatna milli Sneiðinga innst á Vífilstaðahlíð og landamerkja Vatnsenda, skammt vestan til við fjárborgina góðu, Vatnsendaborg.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Þá er vert að veita því athygli, að getið er um 2 arðuryxn gömul. Arðuryxn geta ekki verið annað en yxn, sem draga arð, plóg við akuryrkju. 10 sáld niður færð! Getur hér varla verið um annað að ræða en að sáð hafi verið korni úr 10 sáldum. Hér hefur þá verið nokkur akuryrkja á staðnum.
Og hvað um kirkjubúnaðinn? Er hann ekki sæmilegur? Myndum við ekki verða hýrir á svip, ef fyrir framan okkur lægju gripir þessir. En látum okkur nægja að sjá þá aðeins með innri sjónum.
Frá árinu 1477 er til ágrip af máldaga. Ber honum það sem hann nær algerlega saman við Wilchinsmáldaga. Þó er kirkjan orðin einu messuklæði fátækari.

Vatnsendaborg

Vatnsendaborg.

Næst verður fyrir okkur fróðlegt bréf frá 1558 um viðskipti staðarins við hans Majestet konunginn og umboðsmann hans. Er það all-fróðlegt: Eg Knut Stensen, kongleg Majestetz Byfalingsmaður yfir allt Ísland, kennist með þessu mínu bréfi, að ég hef gjört svoddan jarðaskipti upp á konglig Majestetz vegna við síra Loft Narfason, kirkjunnar vegna í Görðum á Kongsnesi, að ég hef undir kongsins eign til Bessastaða tekið jörðina Hlið er liggur á Kóngsnesi, er þar í landskyld í málnytukúgildi og ein mjöltunna.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir – gamli bærinn.

En þar hefur hann fengið til kirkjunnar í Görðum Viðeyjarklaustursjörð, er heitir Vífilsstaðir í Bessastaðasókn. Tekst þar af landskylda og málnytukúgildi. Og fyrir mismun landskyldanna hefi ég lofað og tilskikkað fyrrnefndum síra Lofti eður Garðakirkju umboðsmanni eina tunnu mjöls á Bessastöðum, að hún takist þar árlega af kóngsins mjöli.
Skal það fylgja hvorri jörð, sem fylgt hefur að fornu og nýju. Skulu þessi jarðaskipti óbryggðanlega standa og vera hér á báðar síður, utan konglig Majestet þar öðruvísi umskipti á gjörir eða skykkan. Samþykkti þessi jarðaskipti herra Gísli Jónsson Superindentent yfir Skálholts stikti. Og til staðfestu og auðsýningar hér um, að svo í sannleika er sem hér fyrir skrifað stendur, þrykki ég mitt signet á þetta jarðaskiptabréf. Skrifað á Bessastöðum 4. dag júlí-mánaðar, Anno Domini 1558. Þá kemur neðan máls ekki ófróðleg klausa um viðskipti við Konglega Majestet og hans Byfalingsmenn. Þessa mjöltunnu hafa prestar í Görðum misst síðan í tíð höfuðsmanns Einvold Krus af óvild, inn féll milli hans og síra Jóns Krákssonar í Görðum.

Steinhes

Steinhes.

Að þetta ofanritað sé rigtug og orðrétt Copia eftir originalnum og höfuðsmannsins bréf vottum vér sem saman lásum og originalinn sjálfan með undirsettu innsigli höfuðsmannsins Knutz Steinssonar sáum og yfirskoðuðum að Görðum á Kóngsnesi 19. júní anno 1675.

Garðabær

Garðabær – mörk.

Það næsta, sem fyrir okkur verður varðandi Garðakirkju og Garðastað, er að finna í Visitasíubók hans herradóms Brynjólfs biskups Sveinssonar frá 19. sept. 1661 og fjallar um lögfesti á landamerkjum Garðastaðar: Landamerki Garðastaðar eftir lögfesti síra Þorkels eru þessi: Syðri Hraunbrún hjá Norðurhellum og svo suður eftir Smyrlabúðarhraunsjaðri í miðjan Kethelli og svo hraunið allt fram að Steinhesi, svo beint úr Steinhesinu og upp í Syðri-Kaldárbotna og allt Helgafell og í Strandartorfur og í Húsfell. Úr Húsfelli og í Hnífhól og úr Hnífhól og heim í Arnarbæli. Datum Bessastöðum 1661 Jónsmessudag sjálfan.

Jón Halldórsson og Jón Jónsson

Item lagði nú síra Þorkell Arngrímsson fram vitnisburðarbréf síra Einars Ólafssonar og Egils Ólafssonar og Egils Einarssonar með þeirra áþrykktum innsiglum, datum Snorrastöðum í Laugardal næstan eftir Maríu-messu á jólaföstu anno 1579, að Garðastaður ætti land að læknum fyrir sunnan Setberg, sem er sá lækur sem rennur milli Stekkatúns og Setbergs og allt land að þeim læk, er menn kalla Kaplalæk.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Og það Stekkatún, sem er sunnan við greindan læk, byggði síra Einar ætíð með Hamarskoti, og með sama hætti þeir sem enn fyrr bjuggu í Görðum en hann, og aldrei heyrði hann þar orðtak á að Setberg ætti nokkurt ítak í Hamarskotslandi eður neinstaðar í Garðalandi.
Þessu næst koma svo útdrættir gerðir af síra Árna Helgasyni.

Um Garðastað

Fiskaklettur

Fiskaklettur.

Kirkjan á einnig Hjallaland og afrétt í Múlatúni, bæði eftir vísitazíu og máldögum. Plagg þetta er frá 25.8.1780. Þá er vitnað til bréfs undirskrifaðs 1701, og er svo hljóðandi: Nú koma nokkrar afskriftir af máldögum Garðakirkju og þar á meðal eitt er kallast: Nýtt Registur 1583. Svo hljóðandi: Kirkjan í Görðum á Álftanesi á 20 kúgildi, einn hest. Þessar jarðir: Ás, Setberg, Vífilsstaði, Dysjar, Nýjabæ, Selskarð, Akurgerði, Hlið, Hamarskot, Bakka, Hausastaði, Pálshús, Oddshús, Hraunsholt.

Ás

Ás – gamli bærinn.

Hvernig Ás og Setberg er undan gengið veit ég ekki, né heldur hvar Oddshús hafa verið. Síðan koma skriftir um skóga og skógaítök og svo undirskriftir. Það fer eins fyrir mér og séra Árna. Ekkert veit ég um Ás utan það, að 1703 á konungur hluta jarðarinnar. En það held ég að ég viti um Setberg, að það sé ein sú jörð, sem slapp í gegnum netið, að hvorki lenti í eigu nokkurrar kirkju né í eigu Viðeyjarklausturs. Hún var alltaf bændaeign. Oddshús tel ég aftur á móti að hafi verið þar sem síðar var Oddakot. Oddakot var austast á eyju þeirri, sem nefnzt hefur Hliðsnes. Má þar enn sjá marka fyrir rústum kotsins. Til skamms tíma lifði hér í Hafnarfirði fólk, sem borið var og barnfætt Í Oddakoti.

Setberg

Gamli Setbergsbærinn.

Eftir að Árni biskup Helgason gerir á margvíslegan hátt hreint fyrir sínum dyrum og kirkjunnar í Görðum með upprifjunum og afskriftum af bréfum og máldögum staðarins, er hljótt um stund, eða allt þar til hingað kemur sá mæti klerkur Þórarinn Böðvarsson.

Akurgerði

Akurgerði fyrrum.

Hann hafði ekki lengi setið staðinn, er hann hóf að grannskoða, hvernig háttað væri um eignir Garðastaðar. 1871 fær hann settan rétt til að rannsaka, hve mikið land tilheyrði verzlunarlóðinni, lóð Akurgerðis, sem upphaflega var hjáleiga frá Görðum. En 1677 höfðu farið fram með vilja konungs makaskipti á hjáleigunni og jörð vestur í Kolbeinsstaðahreppi. Bjarni riddari Sivertsen hafði keypt jörðina af konungi, en Knudtzon stórkaupmaður keypti af dánarbúi Bjarna. Munu engin mörk hafa þar verið sett í milli. Vitnisburðir þeir, sem fengust við þessa athugun, eru gagnmerkir, en verða ekki upp teknir hér nú. Eftir að rannsókn hafði farið fram, var málið lagt í dóm — eða til sáttar. Sú sáttargjörð var svo birt árið 1880. Voru þá landamerki samin milli fyrrum hjáleigunnar Akurgerðis og Garðakirkjulands. Voru þau þessi: Fyrst: Klöpp undir brúnni yfir lækinn niðri í fjöru. Varða á svonefndum Ragnheiðarhól. Varða hjá bænum Hábæ í Hrauni. Varða ofanvert við Hólsbæina á Stakkstæði. Varða hjá Félagshúsinu, rétt við Fjarðarhelli. Varða hjá Veðurási. Varða á hól vestan Kristjánsbæjar, og þaðan beina línu í Fiskaklett.
HafnarfjörðurNokkra skýringu munu þessir staðir þurfa. Klöppin undir brúnni: Klöpp þessi liggur nú undir austurvegg Pósthússins í Hafnarfirði.
Ragnheiðarhóll: Þar er nú risið hús Olivers Steins. Hábær: Hann stóð þar sem nú eru Rafveituskrifstofur.

Hafnarfjörður

Varða við Vörðustíg.

Varða ofan Hólsbæjar var við húsið nr. 2 við Urðarstíg. Félagshúsið er nr. 7 við Hellisgötu. Veðurás eru húsin nr. 9 og 11 við Kirkjuveg. Varðan vestan Kristjánsbæjar: Við hana er Vörðustígurinn kenndur, og er hún eina merkið, sem enn stendur. Og Fiskaklettur stendur enn snoðinn nokkuð rétt við Vöruskemmu Eimskipafélags Íslands. Sú trú er nú kominn á þann klett, að ógæfumerki sé að hrófla við honum.
Eftir þetta verða litlar breytingar á högum Garðakirkjulands, eða allt þar til að Hafnarfjörður fær kaupstaðarréttindi 1. júní 1908. En þá og nokkru síðar verða miklar breytingar, sem er mjög langt mál og allflókið.
Að síðustu verður hér litið yfir landamerki þau, sem gerð voru á árunum kringum 1890.

Landamerki

Arnarbæli

Arnarbæli – varða ofan Grunnuvatna.

Merki á landi Garðakirkju á Álftanesi, samkv. máldögum og fornum skjölum.
1. Á móti Oddakoti í miðjan Ós þann, sem rennur úr Skógtjörn í sjó fram austan til við túngarðinn.

Hnoðraholt

Hnoðri á Hnoðraholti.

2. Úr Ósnum norður í Hól hjá Skógtjörn, og er þar hlaðin merkjavarða, þaðan í móti landi Skógtjarnar og Brekku í vörðu á hólnum hjá Núpsstíflum, þar er hlaðin merkjavarða.
3. Þaðan út í miðja Tjörn, Lambhúsatjörn, þá sem er milli Bessastaða og Gálgahrauns, og í miðjan tjarnarósinn í mynni Arnarnesslækjar, upp með læknum sunnanverðum upp í Stóra-Krók á sama læk og úr því keldudragi, sem þar er að sunnanverðu og beina stefnu yfir mýrina upp í Dýjakrók (3. sept. 1870) og þaðan í mitt Hnoðraholt, þaðan fyrir norðan Vetrarmýrina, beina línu suður í Arnarbæli, þaðan í austur-landsuður upp í Hnífhól, þaðan í austur-landsuður í mitt Húsfell. Úr miðju Húsfelli beint til suðurs í Efri-Strandartorfur, þaðan beint í suður í Markraka í Dauðadölum, þaðan til vesturs í Melrakkaskarð (Melrakkagil) í Undirhlíðum, þaðan til norðurs við lönd Hvaleyrar og Áss í Steinhús (Steinhes), sem er við Neðri-Kaldárbotna, þaðan móts við Ófriðarstaðaland vestanvert við Gráhelluhraun beina línu í svonefndan Moldarkrika, þá til norðurs í Vörðu á Hlíðarþúfum, þá sömu línu norður í Öxl á Mosahlíð, enn sömu línu í Vörðu á Kvíholti, loks sömu línu mitt á milli Gíslahúss og Bjarnabæjar í vörðu á miðjum Hamri við Hafnarfjarðarbotn, þaðan allt með Hafnarfirði norðanvert í Ós hinn áðurnefnda hjá Oddakoti.

Garðahverfi

Minnismerki um Hausastaðaskóla og Hausastaði.

lnnan framangreindra takmarka eru auk Garðastaðar þessar jarðir Garðakirkju: Selskarð, Hraunsholt, Hamarskot, Langeyri, Skerseyri, Bali, Dysjar, Bakki, Pálshús, Nýibær, Krókur, Ráðagerði, Hóll, Miðendi, Hlíð, Móakot, Hausastaðir og Hausastaðakot, sem allar hafa afmörkuð tún og rétt til að nota að tiltölu kirkjulandið utantúns til allra leiguliðanota, en ekkert útskipt land fyrir utan túnið, svo og þurrabúðir, sem eru eign kirkjunnar með kálgörðum og túnblettum og timburhúsum sömuleiðis.

Dyngjuhóll

Landamerkjavarða á Dyngjuhól sunnan Vífilsstaða.

Innan merkja er kirkjujörðin Vífilsstaðir, áður konungseign, á hún sérstaklega: tún og engi fyrir neðan Vífilsstaðavatn, hálfan Leirdal, allan Rjúpnadal, alla Vetrarmýri og mótak niður undan við Arnarneslæk, Maríuhelli og Svínahlíð fram í Sneiðinga.
Ennfremur eru innan merkjanna þessar jarðir:
1. Setberg: Eru merki þeirrar jarðar sem segir í landamerkjaskjali hennar.
2. Urriðakot: Eru merki þeirrar jarðar, sem segir í landamerkjaskjali hennar.
3. Hofstaðir: Sú jörð á sitt eigið tún, en ekkert land utantúns. Með hagbeit í kirkjulandinu fyrir fénað, sem túnið ber.
4. Hagakot: Þjóðeign, á sitt eigið tún, mýrarkorn neðan túns og mótak í barði og beit fyrir fénað þann, sem túnið og mýrin framfleytir.
5. Akurgerði: Túnlaus verzlunarlóð, merki ákveðin með samningi dags. 27. marz 1880 og þinglýst 17. júní sama ár. Þessi landamerki samþykkt af öllum hlutaðeigendum og síðan þinglýst á manntalsþingi í júní 1890.“

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, 1. tbl. 10.01.1972, Garðar á Álftanesi, Gísli Sigurðsson, bls. 7, 13 og 14.

Garðar

Garðar.

 

Ás - letursteinn

Letursteinn er við bæinn Ás ofan Hafnarfjarðar, fyrrum Garðahreppi. Steinninn er við fyrrum brunninn í bæjarlæknum skammt sunnan við bæjarstæðið. Þar við er nú hlaðin bogadregin steinbrú. Á letursteininn eru höggnar tvær myndir af ásum og sveigður kross ofar. Á tvær hliðar hans er höggvið rúnaletur, óskiljanlengt.

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

FERLIR hefur reynt að leita uppruna steinsins. Hann er við göngustíg umhverfis Ástjörn, nálægt tveimur hlöðnum steinbrúm, sem gerðar voru fyrir ca. 40 árum. Rúnaletrið passar ekki við þekkt rúnaletusstafróf.
Ábending fékkst um steininn. Þegar komið var á vettvang þakti snjór svæðið (sem betur fer). Nuddaður var snjót á steininn og þá komu rúnirnar í ljós.

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

Talið var í fyrstu að þetta vera letustein frá því að Haukur Halldórsson og félagar, heiðingjalistamennirnir, gistu í Straumi. Svipur er með myndunum á steininum og steinmyndum við Fjörukránna.
Hauki var send fyrirspurn um steininn á Facebook. Hann svaraði; sagðist ekki kannast við hann.
Tryggva Hansen, steinlista- og -hleðslumanni var send fyrirspurn. Hann býr upp við Rauðavatn. Tryggvi var mikilvirkur hleðslumaður fyrrum og í góðum tengslum við Hauk og félaga. Ekkert svar hefur borist frá Tryggva.
Svar barst loks frá Tryggva: „Kann að meta þetta. Haukur var þarna, en hann virðist ekki muna eftir letursteininum þeim arna. Skondið. Á steininum virðist þó eitthvert táknrænt hafa  verið“…

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

Þessi steinn hefur verið þarna við „alfaraleiðina frá Ási (Hrauntungu- og Stórhöfðastíginn) “ í a.m.k. nokkra áratugi, en enginn virðist hafa veitt honum hina minnstu eftirtekt, hvað þá að um hann hafi verið fjallað opinberlega.

Ás - brúarsmíði

Ás – brúarsmíði.

Eftirfarandi frétt mátt lesa í Fjarðarpóstinum árið 1997 um brúargerðina nálægt steininum. Í framhaldi af því var póstur sendur á brúarsmiðinn, Guðjón Kristinsson.
Guðjón svaraði: „Sæll ég kannast við andlitin, en man ekki eptir rúnasteininum. Þarf að bregða mjer og líta á þetta.“
Talið er víst að ekkert þýði að senda Minjastofnun fyrirspurn um tilvist steinsins, að teknu tilliti til fyrrum viðbragða stofnunarinnar við öðrum slíkum.
Áletrunin á steininum að Ási gæti verið mun eldri en í fyrstu var ályktað.
Allar ábendingar um tilurð steinsins og/eða sögu hans eru vel þegnar á ferlir@ferlir.is.

Heimildir:
-Fjarðarpósturinn, 15. árg. 1997, Rómversk göngubrú á Áslandi, bls, 6.

Ás - letursteinn

Ás – letursteinn.

Ás

Bærinn „Ás“ ofan við Hafnarfjörð hefur jafnan látið lítið fyrir sér fara þrátt fyrir að eiga sér langa og merka sögu.

Ás

Gamli bæjarhóllinn.

Í Örnefnaskrá segir að landamerki fyrir umboðsjörðina Ás í Garðahreppi séu: „Stefna á Fuglastapaþúfu fyrir vestan Skarð austast á Grímsnesi; þaðan í Bleikstein í Bleiksteinshálsi; þaðan í Þormóðshöfða og þaðan í Steinhús“
Í Örnefnaskrá segir enn fremur: „Ás í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi, en tilheyrir nú Hafnarfirði. Jörðin tilheyrði jörðum þeim er lágu við fjörðinn“.

Ás

Gamli bærinn.

Í Jarðabók frá 1703 segir m.a.:
„Jarðardýrleiki á kóngsins parti er óviss og veit enginn neitt til að segja.
Jóns Peturssonar part segja menn almennilega vera iii [symbol] lxxx álnir, er þetta þó nokkuð á óvissu, þar bóndaeignin engvum tíundast nje tíundast hefur það menn til vita. Er sögn manna að þessi bóndahlutans tíund niður falli fyrir örðugan hreppamanna flutning yfir Kapelluhraun að Þorbjarnarstöðum; sýnist líklegt að jörðin muni til samans öll xii [symbol] verið hafa, og væri þá kóngsparturinn viii [symbol] og xl álnir.
Eigandinn að meira hlut jarðarinnar er kóngleg Majestat, að minna hlut Jón Petursson á Hlíði lögrjettumaður. Ábúandinn Þórður Jónsson.
Landskuld af kóngsins parti er lx álnir, af bóndaeigninni xx álnir. Betalast með iiii vættum fiska í kaupstað. Við til húsabótar leggur ábúandinn af báðum pörtunum.
Leigukúgildi með kóngsins parti í, með bóndaeigninni i. Leigur betalast í smjöri heim til Bessastaða eftir kóngskúgildið. En eftir bóndans kúgildið ýmist í smjöri eður fiski heim til eigandans eður í kaupstað. Kóngskúgildið uppýngdi í fyrra umboðsmaðurinn Páll Beyer. So hafa og eignarmenn bóndahlutans eftir þörfum uppýngt sitt kúgildi.

Ás

Fjósið frá 1904.

Kvaðir af kóngspartinum eru mannslán um vertíð, sem leyst hefur verið stundum með einuri vætt fiska, stundum með því að ljá umboðsmanninum eitt tveggja manna far leigulaust um vertíð.

Ás - Stekkur

Ás – Stekkur í Hádegisskarði.

Item einn hrísshestur árlega heim til Bessastaða; þótti næst umliðið ár umboðsmannsins fólki sá hrísshestur ekki nógu gildur, er bóndinn færði; var hönum því tilsagt að bæta þar við, og færði hann annan hrísshest lakari í því nafni. Hjer að auki einn dagsláttur heim til Bessastaða, og fæðir bóndinn sig sjálfur. Stundum hafa skipaferðir kallaðar verið og jafnvel nokkrum sinnum fleiri en ein á ári, fæðir þá bóndinn sig sjálfur. Í fyrra og margoft áður var maður heimtur að þjóna að húsastörfum staðarins á Bessastöðum og fæðir bóndinn verkmanninn. Enn nú setti Jens Jurgensson tvö ár þau síðustu, sem manninn. Enn nú setti Jens Jurgensson tvö ár þau síðustu, sem hann var umboðsmaður, og so í fyrra umboðsmaðurinn Páll Beyer, eitt lamb í fóður hvört ár þessara þriggja með jörðinni. Hafði sú kvöð aldrei verið það menn til minnast, og hefur bóndinn ekkert fyrir það fóður þegið. Hjer á ofan voru í hittifyrra ár af Jens Jurgenssyni og nú í sumar af Páli Beyer útheimtur heyhestur til að fóðra kvikfjenað þann, er fálkanum var ætlaður til fæðis á útsiglingunni, og bóndanum sjálfum skikkað að flytja heyið inn í Hólmskaupstað. Þessi kvöð hafði og fyrr aldrei verið það menn muna. Áður þegar fálkarnir sigldu á Básendum og Keflavík var bóndanum skikkað að láta mann á tje til að bera fálkana ásamt öðrum frá Bessastöðum suður til áðurnefndra kaupstaða og kostaði bóndinn manninn að suður til áðurnefndra kaupstaða og kostaði bóndinn manninn að öllu. Þessi kvöð var og aldrei fyr en í Ás

Innviðir fjósflórsins.

Heidemanns tíð og þaðan í frá iun til þess er fálkarnir sigldu með Hólmsskipi. Bóndinn gaf manninum xx álnir, sem hans vegna fór í þessa för, og fæddi hann. Á bóndans parti eru kvaðir alls öngvar.
Kvikfjenaður er iiii kýr, viii ær, í sauður tvævetur, vii veturgamlir, viii lömb, i foli þrevetur. Fóðrast kann iii kýr og í úngneyti. Heimilissmenn iiii.

Ássel

Ássel við Hvaleyrarvatn.

Selstöðu á jörðin í heimalandi, eru þar hagar sæmilegir og vatnsból gott.
Hrísrif hefur jörðin í almenningum til kolgjörðar og eldiviðar.
Lýngrif er í heimalandi brúkað nokkurn part til eldiviðar og til að fæða pening í heyskorti.
Torfrista og stúnga lök og lítt gagnvænleg.
Heimræði brúkar jörðin frí og skipsuppsátur í Ófriðastaðarlandi að sumir halda, en sumir eigna skipsuppsátrið Ási so sem ítak á móti selstöðu, sem Ófriðarstaðir skuli eiga og síðar segir. Vita menn ekki glögt hvort þetta skipsuppsátur og búðarstæði sje með skyldurjetti eður fyrir liðunarsemi. Þó gánga þar skip ábúandans og hafa gengið um lángan aldur, en búð var þar ekki það menn minnast fyr en Margrét Þorsteinsdóttir bjó að Ási fyrir meir en tuttugu árum.

Ás

Norðurtúnsgarðurinn.

„Í lýsingu Selvogsþinga eftir síra Jón Vestmanns segir m.a. Kaupstaðavegur til hafnarfjarðar liggur úr Selvogi yfir Grindarskörð, stífgild þingmannaleið yfir fjallgarðinn nr. 1, brattur og grýttur mjög. Frá Krýsuvík liggur annar vegur til sama kaupstaðar nefndur Ketilsstígur, þrír partar úr þingmannaleið að lengd grýttur og brattur sem hinn. Hlíð í Selvogi er næsti bær við Grindarskarðsveg, en Litli-Nýibær í Krýsuvík næst við Ketilsstíg. Ás í Garðasókn á Álftanesi er næst[i] bær við Ketilsstíg að vestan er Hafnarfjörður í sömu sókn næstur Grindarskarðarveg að vestanverðu.
Lýsing Garðaprestakalls 1842 eftir síra Árna Helgason segir m.a.: Þar eru taldir upp bæir í sókninni og einn af þeim er Ás með tómthúsi. Einnig eru taldir upp alfaravegir, og er sá syðsti sem liggur upp í Krýsuvík, liggur hann frá Ási Garðasókn, og heitir Stórhöfðastígur.

Í Jarðatali Johnsens frá 1847, segir m.a.:
Álftaneshreppur. Ás, jarðarnúmer 169; jörðin er í kojungseign. Dýrleiki er 12 hundruð, landskuld er 0.80, kúgildi tvö, ábúandi einn.
Jörðin Ás var lögð undir lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar 1959 og bærinn eignaðist landið 1964.

Sjá eignarnámsskuldir Hafnarfjarðar gagnvart einstökum bæjum – https://ferlir.is/logsagnarumdaemi-hafnarfjardar-fra-1908/

Samkvæmt túnakorti frá 1918, er túnið á Ási 2.8 teigar og þar af helmingur sléttaður. Kálgarðar eru i, 670 m2.
Tún Stekks er talið 0.6 teigar, ýft að mestum hluta. Kálgarður 720 m2.

Ás

Ás-túnakort 1914.

Til er „Fornleifaskráning í landi Áss Hafnarfirði“ 2005, en skráning sú verður að teljast í besta falli mjög hæpin. Skráningin sem slík veltir óneitanlega upp spurningunni um hvar takmörkin eru og eigi að vera á heimildum um opinberar samþykktir á slíkum skráningum hér á landi.

Stekkur

Bæjarstæði Stekks fyrrum.

Fyrst Ari Gíslason: „Jörð í Garðahreppi, næst Hvaleyri, nær ekki að sjó, vegna þess að Hafnarfjarðarbær er þar á milli. Upplýsingar um örnefni eru frá Oddgeiri Þorkelssyni að Ási.
Upp og austur frá bænum Ási rís upp fjall, sem heitir Ásfjall. Það er raunverulega framhald af Hvaleyrarholti, (er fyrr getur). Á Ásfjalli er varða, sem heitir Ásvarða. Bærinn Ás stendur í brekku vestan undir fjallinu. Vestur frá bænum er tjörn í lægð, sem heitir Ástjörn. Norður frá henni er býli, sem heitir Stekkur. Þar mun hinn gamli stekkur frá Ási hafa verið. Neðan við Stekksbæinn er lægð, grasi vaxin, sem heitir Leirdalur, og ve[stur] af Ásfjalli er Grísanes, hæð í Hvaleyrarlandi.
Norðan við bæinn að Ási er holtið nafnlaust, og brekkurnar þar næstar, sem tilheyra Ási, utan í fjallinu eru einnig nafnlausar. Slakki er í fjallinu, sem nefndur er Skarð. Þegar hallar svo niður af fjallinu sunnanverðu, koma þar börð og lægðir á milli. Þetta svæði er nefnt Grófir, og neðan þess tekur svo við svæði, sem heitir Lækir. Þá fer að nálgast jafnsléttuna, og taka þar við Ásflatir. Þær eru fyrir botni dals þess, er myndast milli Grísaness og Hamraness, Svo er hár hnúkur syðst á fjalli, sem heitir Vatnshlíðarhnúkur. Vestur af honum hallar fjallinu niður og myndar þar háls, sem nær niður á Hamranesið fyrrnefnda og heitir Bliksteinaháls eða Bleiksteinaháls. Á honum eru tveir steinar ljósir að lit, sem heita Bliksteinar. Þeir eru í hálsinum norðanverðum og eru á merkjum móti Hvaleyri.

Ásvarða

Útsýni af Ásfjalli.

Sunnan við Vatnshlíðarhnúkinn fyrrnefnda er hlíð með giljum og skógarbörðum, sem hallar niður að Hvaleyrarvatni, og heitir hlíð þessi Vatnshlíð. Að norðan eru merki Jófríðarstaða svo nærri vatninu, að þegar hátt er í vatninu, getur Jófríðarstaðabóndinn vatnað hesti sínum í því. Norðurendinn á Ásfjalli er nefndur Ásfjallsöxl, og þar er merkjavarða; svo í landsuður þaðan er varða á Bláberjahrygg, sem er á merkjum móti Jófríðarstöðum; svo eins og fyrr segir rétt við vatnsendann.
Sunnan við vestri endann á vatninu er gríðarstór höfði eða hóll, sem heitir Selhöfði. Á honum er merki móti Hvaleyri. Sunnan við vatnið er dálitill hryggur, sem nefndur er Kjóadalsháls. Svo er landið mjótt, því nú ná nöfnin þvert yfir land jarðarinnar. Svo er gríðarstór dalur, helmingur grasflöt, hitt moldarflag; heitir hann Miðhöfði. Þar upp af er svo Efstihöfði, og svo skerst landið í odda við svonefnt Steinhús, neðst í gjánni, rétt fyrir neðan túnið í Kaldárseli. Þar myndar það tungu.“

Ás

Stríðsminjar á Ásfjalli.

Og í framhaldinu Gísi Sigurðsson: „Landamerki fyrir umboðsjörðinni Ás í Garðahreppi eru: Stefna úr Fuglstapaþúfu í þúfu fyrir vestan svokallað Skarð austast á Grísanesi; þaðan í Bleikstein í Bleiksteinshálsi; þaðan í Þormóðshöfða og þaðan í Steinhús.

Fuglastapaþúfa

Fuglastapaþúfa.

Úr Fuglstapaþúfu fyrir vestan Guðbrandsbæ bein lína í austur í vörðu milli Áss og Jófríðarstaða; þaðan í vörðu norðan til við Ásfjallsöxl. Þaðan til suðausturs í vörðu á Bláberjahrygg; sama lína í Vatnsenda efri; svo í vörðu á Kjóadalshálsi; þaðan beint í vörðu á Miðhöfða; þaðan í Fremstahöfða; þaðan upp í Steinhús.
(Úr landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu).
Ás í Garðahreppi, fyrrum Álftaneshreppi, en tilheyrir nú Hafnarfirði. Jörðin tilheyrði jörðum þeim, er lágu við fjörðinn. Ás, bærinn, stóð á Bæjarhólnum, sem var um það bil í miðju Ástúni. Allt var túnið umgirt Ástúngörðum. Norðurtúngarður lá að ofan og vesturtúngarður að vestan, suðurtúngarður sunnan og neðan og austurtúngarður austan upp með fjallinu.
Heiman frá bæ niður Brekkuna lágu Suðurtraðirnar niður í suðurtraðarhlið. Um Austurtúnið rann Lækurinn. Túnlækurinn rann varla nema í rigningartíð og í leysingum. Neðan við Hólinn vestan bæjarins var Ásbrunnur, og að honum lá Brunngatan. Austan lækjarins var Lambhústún og þar lambhúsið. Í Norðurtúni var Hjallabrekka, og þar sem saman komu Austurtún og Norðurtún, Hjallabyrgi. Þar eru nú sumarbústaðir. Heiman frá bæ lágu Norðurtraðir og þar á mótum garðanna, norður- og vesturgarðs, var norðurtraðarhlið. Ofanvert við traðirnar nyrzt var flöt, nefndist Dansflöt, en neðan traðanna var Fjarðarflöt, en þar niður af þýfður hluti, nefndist Harðhaus.
Utan suðurhliðs var Stöðullinn, þar fyrir neðan var kargþýfður mói, nefndist Ásmói, sem sumir nefndu Ásumói. Þá var þar neðar Ásmýri eða Mómýrin. Þar var mótak, og suður af var Móholtið. Þangað var mórinn borinn frá mógröf og þurrkaður. Út frá vesturtúngarði neðarlega var uppspretta, nefndist Áslindin. Þar var vatnsból fyrir Ás, ef brunninn þraut.

Ás

Bæjarlækurinn.

Vestur í holtinu var önnur uppspretta, sem var kölluð Lindin. Þar var vatnsból frá Stekknum.

Ás

Ás – fjárhústóft.

Ofar hér í holtinu voru Börðin, þau hafa nú verið jöfnuð út, og er þar komið allgott tún. Hér ofar taka svo við Ásmelar. Þeir liggja austan og ofan frá Ásholti, en norðan landamerkja eru garðlönd Hafnfirðinga. Ásvegur liggur frá Norðurtröðum norður um Ásleiti og yfir á Háaleiti , síðan áfram norður að Ófriðarstaðatúngarði.
Vestur á melunum var hringlaga gerði nefnt Kringla. Hér enn vestar var svo býli, þurrabúð, nefndist það Stekkurinn, Ásstekkur, Vindás og Vindásstekkur. Honum fylgdi Stekkstúnið umgirt Stekkstúngörðum, vesturtúngarður, suðurtúngarður, austurtúngarður og norðurtúngarður. Þar sem saman komu norður- og vesturtúngarður, var norðurhlið. Þaðan lá Stekksgata niður að Brandsbæ og áfram niður til Fjarðar. Suðurhlið var neðarlega á mótum vestur- og suðurtúngarðs. En Lindargatan lá heiman frá Stekksbæ austur um austurgarðshlið austur að Lindinni. Brunngatan var löng frá Stekk og austur.
Norðvestur frá Stekk, neðan vestasta hluta melanna, var Leirdalur, og tilheyrði nokkur hluti hans Ási, en í Fuglstapaþúfu syðri voru hornmörk jarðanna Áss, Ófriðarstaða og Hvaleyrar. Þaðan lá landamerkjalínan í Axlarvörðu á Ásfjallsöxl eystri, en neðan og vestan undir Öxlinni var svokallaður Dagmálahvammur. Suðvestur og upp frá Öxlinni var Ásfjall og þar á Ásfjallsvarða.

Ás

Upplýsingaskilti nálægt Ási.

Suður eða suðsuðaustur frá háfjallinu var klettastallur, nefndist Mógrafarhæð. Ekki er nú hægt að sjá, að mótak hafi verið hér í fjallinu. Landamerkjalínan liggur úr vörðunni suður á svonefndan Bláberjahrygg, sem er misgengisbrún og þaðan um Vatnshlíðargil austast í Vatnshlíðinni.

Bleiksteinsháls

Landamerkjavarða á Bleiksteinshálsi.

Hæst á Vatnshlíðinni er svonefndur Vatnshlíðarhnúkur. En vestan á Bláberjahrygg er Bláberjahnúkur.
Landamerkjalína liggur úr gilinu um Vatnsendann og þaðan upp Kjóadalaháls í Kjóadalahálsvörðu. Frá Markavörðunni liggur lína um Kjóadali upp í Miðhöfðavörðu á Miðhöfða, þaðan í Fremsthöfðavörðu á Fremsthöfða og þaðan í Steinhús, sem í gömlum skjölum nefnist Steinhes, og er þar hornmark margra landa. Landamerkjalínan á vesturmörkum mun svo liggja úr Steinhúsi norður eftir Langholti um Þormóðshöfða og Selhöfða, en efst á höfðanum er Borgin, fjárborg allstór um sig. Héðan liggur línan niður á Selhraun eða Seljahraun. Það liggur alveg að Hvaleyrarvatni. Við suðurhlið vatnsins er Hvaleyrarsel og innar Ássel. Þar má enn vel sjá móta fyrir seljarústum. Úr Seljahrauni liggur línan upp á Bleikisteinsháls. Bleikisteinsstígur liggur rétt við klöpp, sem nefnd er Bleikisteinn, en austur og upp frá hálsinum er Bleikisteinshnúkur. Bliksteinshnúkur, Bliksteinn, Bliksteinsháls og Bliksteinsstígur eru einnig nöfn, sem hér eru viðhöfð. Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól. Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn.

Ás

Steinn af æsi við Ás.

Neðan frá hrauntungunni eru svo Ásflatir. En fram á þær syðst rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum. Þær liggja norðan við Bláberjahrygg. En stígur liggur um Ásflatir vestur á Grísanesháls, en þar er Hrauntungustígur, sem þarna er að byrja. Síðan liggur landamerkjalínan norður af hálsinum norður yfir Ástjörn, upp fyrir vestan Stekkinn í Fuglstapaþúfu. En Grísanesstígur liggur niður af hálsinum heim að suðurtraðarhliði. Þaðan liggur aftur á móti Skarðsstígurinn upp í svonefnt Skarð á Ásfjallsöxl vestari. Skarðsvarðan var þarna, sem einnig nefndist Hádegisvarða og Hádegisskarð skarðið. Hér um rann féð til beitar suður á Grófirnar, Bláberjahrygg og Vatnshlíðina. Hellishraun, svo var hraunið í Hellisdal einnig nefnt.“
Sjá einnig Ás og Ástjörn – friðlýsing Áss og Ástjarnar.

Til mun vera „Fornleifaskráning vegna samkeppni um skipulag í Áslandi og Grísanesi, Birna Gunnarsd. og Ragnheiður Traustad, 1996“, en sú skráning mun vera öllum öðrum hulin nema skráningaraðilunum sjálfum.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar um Ás.
-Örnefnalýsing Gísla Siguðssonar um Ás.
-Jarðabókin 1703.
-„Fornleifaskráning í landi Áss Hafnarfirði“ 2005.

Ás

Ástjörn og nágrenni.

Dalurinn

Í Fjarðarpóstinum 2. mars 2023 er m.a. fjallað um „Fornminjar eyðilagðar í Hamranesi – Minjaverði hafði verið bent á að minjarnar væru ekki á minjakorti – Minjastofnun með málið í skoðun„.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2019.

„Þar sem nú rís Hamraneshverfið er svæði sem kallaðist Dalurinn eða Ásflatir eða jafnvel Hellisdalur. Um það má m.a. lesa í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar og Ara Gíslasonar. Þar er fjárskjól sem hefur verið nefnt Hellirinn eða eins og Gísli nefnir það Hellishraunsskjól en hraunið í dalnum er nefnt Hellishraun. Þetta svæði var í landi bæjarins Áss undir Ásfjalli. Skjólið, sem í raun var aðkoma að hellinum var að sögn Gísla vel hlaðið en hrunið þegar hann skráði upplýsingarnar á síðustu öld.

Dalurinn

Dalurinn – fjárskjól; ratleikjaspjald 2021.

Í þessum helli var eitt merkið í Ratleik Hafnarfjarðar 2021 og var þá forstöðumanni Byggðasafnsins bent á að fjárskjólið væri ekki merkt á minjakorti bæjarins sem þá hafði nýlega verið birt. Var þá upplýst að fjárskjólið væri þó skráð. Bæjarstjóri, Rósa Guðbjartsdóttir fékk afhent fyrsta Ratleikskortið þar sem fjárskjólið er merkt. Ekki er til deiliskipulag af svæðinu þar sem fjárskjólið er, en hverfið er að mestu hannað sem þróunarreitir þar sem lóðarhafar fá að koma sjálfir með tillögu að deiliskipulagi. Í aðalskipulagi var svæðið merkt sem íbúðasvæði þar til á breyttu aðalskipulagi frá 4. maí 2021 er svæðið er merkt sem miðsvæði.

DalurinnVið skoðun á svæðinu í síðustu viku má sjá að öll ummerki um fjárskjólið eru horfin og hellirinn hefur verið brotinn niður af hluta og lögð hefur verið sver lögn þarna um. Á tillögu að deiliskipulagi fyrir þetta svæði má sjá að þvert yfir svæðið er gert ráð fyrir kvöð um lagnaleið en merkingar á minjunum vantar inn á deiliskipulagið.

Í bréfi til umhverfis- og skipulagssviðs Hafnarfjarðar þann 20. júlí 2020 svaraði Minjastofnun erindi skipulagsfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar þar sem óskað var eftir umsögn stofnunarinnar um tillögu að aðalskipulagsbreytingu sem náði til svæðis í Hamranesi (og var samþykkt 4. maí 2021 eins og nefnt er hér að ofan). Þar segir m.a.: „Á svæðinu eru skráðar einar minjar (nr. 2061-1), fjárskýli sem er fyrirhleðsla við hraunhelli. Taka þarf tillit til minjanna þegar kemur að deiliskipulagsvinnu.“

DalurinnSigurður Haraldsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs, segist ekki hafa vitað af minjunum og viti ekki hvers vegna ábending Minjastofnunar hafi ekki komist til skila í
skipulagsvinnuna. Hann nefndi þó að notast hafði verið við minjaskráningu á vef fyrir Hafnarfjörð, www.map.is/hafnarfjordur en þar eru þessar minjar ekki merktar inn. Málið yrði þó skoðað.

Minjavörður Reykjaness hjá Minjastofnun, Þór Ingólfsson Hjaltalín, sagði í svari við fyrirspurn Fjarðarfrétta ætla að skoða skemmdir á minjunum og taka málið fyrir hjá stofnununni.
Í minjaskráningu Atla Rúnarssonar frá 14.10.2019 er fjárskjólið sagt í landi Hvaleyrar og ástand sagt illgreinanlegt. Hætta er sögð vegna byggingaframkvæmda og í lýsingu er haft eftir lýsingu í athugasemdum Katrínar Gunnarsdóttur í fornleifaskráningu frá 2005: „Þar sem hleðslur fjárhellisins hafa hrunið niður og varla mögulegt að segja til um hvar og hvernig þær hafa verið, er ekki ástæða til að varðveita hellinn sem heimild um búsetuhætti fyrir tíma.“

DalurinnÍ pistli „Dalurinn – Hellishraunsskjól“ á www.ferlir.is skrifar Ómar Smári Ármannsson fornleifafræðingur og sérfræðingur í mannvistarminjum á Reykjanesi 12. febrúar 2019: „Þrátt fyrir framangreinda umsögn er full ástæða til að varðveita fjárskjólið sem og svæðið þar umleikis, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða eitt af fáum fjárskjólum, þeim mikilvægu mannvirkjum frá fyrri tíð, í landi Hafnarfjarðar“.

Dæmi eru um skráðar minjar sem finna má á korti en eru ekki merktar inn á deiliskipulag og smalaskjól sem finna má við Tinhellu er t.d. inn á athafnalóð og í minjaskráningu eru þær ekki sagðar í neinni hættu. Þá eru líka dæmi um að náttúruminjar séu ekki skráðar eins og Litli Rauðimelur en hann er rétt við Stóra Rauðamelsnámurnar sem nú er fyrirhugað að stækka vegna hafnargerðar í Straumsvík. Liggur fyrir deiliskipulagsbreyting vegna þessa án þess að Litla Rauðamels sé getið í umhverfisskýrslu.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2023.

Þá eru fleiri fornminjar óskráðar í bæjarlandinu, m.a. fjárskjól við Stórhöfða sem gæti verið í hættu vegna fyrirhugaðs reiðstígs sem veitt hefur verið framkvæmdaleyfi fyrir án þess að deiliskipulag liggi fyrir eða að málið hafi verið kynnt almenningi.
Virðist eins og áhugi fyrir fornminjum og náttúruminjum sé lítill í stjórnsýslunni og þykir mörgum vont að vita til þess að minjar séu eyðilagðar án þess að leitað hafi verið eftir áliti og samþykki Minjastofnunar.“

FERLIR fjallaði um eyðileggingu fjárskjólsins, sjá HÉR. Einnig hafði verið fjallað um fjárskjólið á vefsíðunni mörgum árum fyrr, bæði HÉR  og HÉR.

Dalurinn

Svar Hafnarfjarðarbæjar við eyðileggingunni.

Í bréfi Hafnarfjarðarbæjar 17. mars 2023; Efni: „Svar við fyrirspurn Minjastofnunar vegna eyðileggingu á minjum á lóðinni Hringhamar 16 í Hamranesi„, segir: „Í bréfi frá Minjastofnun dags. 2. mars s.l. er óskað eftir frekari upplýsingum um aðdraganda og orsakir þess að minjar sem stofnunin benti á í bréfi sínu dags. 20. júlí 2020 að þyrfti að taka tillit til í deiliskipulagsvinnu hefðu verið eyðilagðar. Bréf frá því 2020 var sent vegna breytinga á aðalskipulagi Hafnarfjarðar vegna Hamraneshverfis.
Umhverfis- og skipulagssvið harmar að fornminjarnar hafa verið eyðilagðar og engar afsakanir til sem réttlæta það, þarna er um mannleg mistök að ræða.

Skipulag í Hamraneshverfi var unnið með óhefðbundnum hætti. gert var rammaskipulag þar sem svæðið var reitað niður og reitunum var úthlutað til verktaka og þeir sáu síðan um að deiliskipuleggja sinn reit og byggja. Götur og lagnir voru lagðar í samræmi við rammaskipulagið. Þessi vinnubrögð verða ekki reynd aftur þar sem margt hefur gengið á og farið úrskeiðis og flækjustig eru mörg.

Dalurinn

Fjárhellirinn í Dalnum.

Í deiluskipulagi sem nú er í afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun er gerð grein fyrir gatnakerfi, stígum og stofnanalóðum hverfisins og það varð út undan þegar úthlutaðir reitir voru deiliskipulagðir. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að á lóðinni Hringhamri 16 verði grunn- og leikskóli. Áður en deiliskipulagsvinna þessi hófst var búið að ákveða að leggja lögn þvert á lóðina. Við þá vinnu voru minjarnar eyðilagðar. Um er að ræða regnvatnslögn sem á að miðla vatni innan lóðarinnar.
Framkvæmdarleyfi fyrir gatna- og lagnavinnu í Hamraneshverfi var gefið út af skipulagsfulltrúa á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa þann 3. mars 2021.
Því miður láðist að merka þessar minjar inn á kortagrunna sveitarfélagsins sem og inn á aðalaskipulagið með þeim afleiðingum sem nú er raunin.“ – Anna Margrét Tómasdóttir, Verkefnastjóri

Dalurinn

Dalurinn – fjárskjólið.

Í bréfi Minjastofnunar 10. maí 2023; Efni: „Hamranes í Hafnarfirði, götur, stígar, stofnanalóðir og veitur – tillaga að deiliskipulagi„, segir: „Í tölvupósti 11. apríl 2023 óskar Anna Margrét Tómasdóttir hjá umhverfis- og skipulagssviði hafnarfjarðarbæjar eftir umsögn Minjastofnunar Íslands um ofangreinda deiliskipulagstillögu. Fylgigagn var skipulagsuppdráttur dagsettur í janúar 2023. Fornleifaskráning liggur fyrir á svæðinu; Heiðrún Eva Konráðsdóttir: Hafnarfjörður, Hamranes. Fornleifaskráning vegna deiliskipulags (Byggðasafn Hafnarfjarðar 2019). Fornleifaskráin er fullnægjandi fyrir afgreiðslu deiliskupulagsins, sbr. 16. gr. Laga um menningarminjar nr. 80/2012. Samkvæmt henni eru einar skráðar minjar á skipulagssvæðinu, fjárskýli nr. 2061-1, sem er fyrirhleðsla við hraunhelli.

Dalurinn

Bréf Minjastofnunar.

Með bréfi dagsett 30 júlí 2020 gaf Minjastofnun umsgögn um ofangreint svæði vegna breytinga á aðalskipulagi. var þá vakin athygli á þessum minjum, að gæta þyrfti að þeim við frekari deiliskupulagsvinnu. Deiliskipulagið var hins vegar ekki sent til umsagnar Minjastofnunar á auglýsingatíma þess, Þann 23. febrúar 2023 fékk Minjastofnun svo ábendingu um að friðaðar minjar í Hamranesi hefðu verið eyðilegðar og reyndist það vera ofangreint fjárskýli. Eftir að tilkynnt var um málið fóru starfsmenn Minjastofnunar á vettvang til að athuga um ástand minjanna. Ljóst er að minjarnar hafa verið eyðilagðar vegna framkvæmda á svæðinu og er það mat stofnunarinnar að þær verði ekki lagaðar eða komið í fyrra horf. Í kjölfarið óskaði Minjastofnun Íslands eftir skýringum hjá Hafnarfjarðarbæ, með bréfi dagsett 2. mars 2023, þar sem óskað var eftir upplýsingum um aðdraganda og orsakir þess atviks. Svar Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi dagsett 17. mars 2023. Minjastofnun telur skýringar sem þar eru raktar fullnægjandi og er ljóst að um mannleg mistök er að ræða. Mikilvægt er að tryggja að gott verklag komi í veg fyrir slys af þessu tagi í framtíðinni. Með bréfi þessu er friðun minjanna (fjárskýlis nr. 2061-1) aflétt, sbr. 25. hr. laga um menningarminjar, þar sem segir: „Minjastofnun Íslands er heimilt að afnema friðun fornleifa sem byggist á aldursákvæðum þessara laga“. Fyrirliggjandi skráning minjanna telst fullnægjandi rannsókn.
Minjastofnun Íslands hefur ekki frekari athugasemdir við ofangreint deiliskipulag.“ – Þór Hjaltalín, minjavörður Reykjaness

Þór Hjaltalín

Þór Hjaltalín.

Í svari Þórs Hjaltalíns við fyrirspurn fréttastjóra Fjarðarfrétta dags 23. ágúst 2023 kemur eftirfarandi fram:“Sæll Gísli. Verkferlar og samskipti eru hér í stöðugri þróun og skoðun til að lágmarka hættuna á að minjar skemmist af vangá, en ef það gerist er það auðvitað áminning til okkar allra.
Eins og rakið er í bréfi bæjarins var skipulagið fyrir Hamraneshverfið unnið með óhefðbundnum hætti (rammaskipulag), sem reyndist illa og segjast þau hverfa frá þeim vinnubrögðum í framtíðinni, sem er vel.
Ef minjar eru skemmdar, þá kemur vissulega til álita að kæra. Eftir að hafa farið yfir málið hér innanhúss varð niðurstaðan hins vegar sú að reyna að laga vinnubrögð/samskipti þannig að slys af þessu tagi endurtaki sig ekki.
Við eigum í reglulegum samtölum við byggingar- og skipulagsfulltrúa hringin í kringum landið sem miða að því að tryggja vernd menningarminja og það á við um Hafnarfjarðarbæ eins og önnur sveitarfélög. Nú liggur fyrir vönduð heildarskráning minja í Hafnarfirði og stöndum við því mun betur að vígi varðandi vernd fornleifa en við gerðum fyrir örfáum árum síðan. En það kom því miður ekki í veg fyrir að þessar minjar skemmdust. Slík mál lítum við ávallt alvarlegum augum og eins og ég nefndi verður reynt að bæta vinnlag til að lágmarka hættuna á slíkt endurtaki sig.“

Guðni Gíslason

Guðni Gíslason, fréttastjóri Fjarðarfétta.

Viðbrögð fréttastjóra/ritstjóra Fjarðarfrétta voru:
„Sæll og takk fyrir svarið.
Teljast þetta eðlileg viðbrögð Minjastofnunar? Engin viðurlög? Engin áminning?
Já, mannleg mistök, þrátt fyrir að Hafnarfjarðarbæ hefði verið upplýst sérstaklega um minjarnar af Minjastofnun og að þær hafi verið skráðar fyrir Byggðasafn Hafnarfjarðar. Forstöðumanni Byggðasafns var bent á að minjarnar væru ekki inn á minjakorti Hafnarfjarðar á map.is en hann gerði ekkert í því.
Það varð til þess að starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar sáu minjarnar ekki á minjakorti.
Minjarnar höfðu verið í Ratleik Hafnarfjarðar þar sem bæjarstjóri fékk fyrsta kortið.
Er hægt að kalla þetta mistök? Ef svo er getum við búist við að miklu fleiri minjar hverfi.“

Með góðri kveðju,
Guðni Gíslason, útgefandi/ritstjóri

FERLIR sendi Minjastofnun eftirfarandi fyrirspurn í ágústmánuði s.l.: „Sæl, getið þið upplýst um hver voru viðbrögð Minjastofnunar við svari Hafnarfjarðarbæjar v/fyrirspurn hennar um eyðileggingu fjárskjóls í Dalnum norðan Hamraness s.l. vor?“ Minjatofnun hefur ekki talið ástæðu til svara.

Fornleifaskráning katrínarFERLIR tekur undir svör fréttastjóra/ritstjóra Fjarðarfrétta. Viðbrögð og svör minjavarðar Reykjaness[kaga] verða að teljast sérstaklega léttvæg í ljósi eyðileggingar fornminja í umdæmi Hafnarfjarðar þar sem fyrir lá staðfest vitneskja um þær þrátt fyrir fullyrðingar um annað. Ljóst er að starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar hefur verið vanhæft til verka, en skýringar á misferlinu er að hluta til við stofnunina að sakast. Strax þegar fyrirhugaðar voru framkvæmdir á svæðinu hefði átt að merkja þekkt minjasvæðið til að koma í veg fyrir eyðilegginguna, en það var ekki gert. Þá verður að telja viðbrögðin harla máttlaus í ljósi þeirra verðmæta, sem stofnunni ber að vernda, en aðrir komast upp með því að raska með þeirri einni afsökun að um „mannleg mistök“ hafi verið að ræða, sérstaklega í ljósi þess að allar nauðsynlegar upplýsingar lágu fyrir um minjarnar. „Teljast þetta eðlileg viðbrögð Minjastofnunar? Engin viðurlög? Engin áminning?“ Þessi dæmalausu viðbrögð eru fordæmi til framtíðar? „Minjastofnun telur skýringar sem að framan eru raktar fullnægjandi vegna þess að um mannleg mistök hafi verið að ræða“. Ljóst er að Minjastofnun þarf að líta sér nær þegar kemur að málum sem þessu.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2002.

Í Lögum um menningarminjar 2012 nr. 80 29. júní segir m.a. í 23. gr. laganna: „Ef fyrirsjáanlegt er að minjastaður spillist vegna breyttrar landnotkunar eða framkvæmda skal framkvæmdaraðili eða viðkomandi sveitarfélag gera Minjastofnun Íslands viðvart með sannanlegum hætti með minnst fjögurra vikna fyrirvara áður en áætlaðar framkvæmdir hefjast og lýsa þeim breytingum er af framkvæmd mun leiða. Minjastofnun Íslands ákveður að undangenginni vettvangskönnun hvort frekari rannsóknar er þörf, hvort gera skuli tillögu um friðlýsingu eða hvort fornleifarnar megi víkja og þá með hvaða skilmálum. Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda fyrr en ákvörðun Minjastofnunar Íslands liggur fyrir.“
Þá segir í 25. gr.: „Minjastofnun Íslands er heimilt að afnema friðun fornleifa sem byggist á aldursákvæðum þessara laga.“ Í lögunum er hvergi gert ráð fyrir affriðun þegar um eyðilagðar  fornleifar er að ræða, enda er það ekki hlutverk Minjastofnunar að fyrirgefa skemmdarvörgum eða veita þeim syndaaflausn, líkt og tíðkaðist fyrrum í kaþólskri trú.

Heimildir:
-Fjarðarpósturinn 2. mars 2023, Fornminjar eyðilagðar í Hamranesi, bls. 10.
-Bréf Hafnarfjarðarbæjar 17. mars 2023; Efni: Svar við fyrirspurn Minjastofnunar vegna eyðileggingu á minjum á lóðinni Hringhamar 16 í Hamranesi.
-Bréf Minjastofnunar 10. maí 2023; Efni: Hamranes í Hafnarfirði, götur, stígar, stofnanalóðir og veitur – tillaga að deiliskipulagi.
-Lög um menningarminjar 2012 nr. 80 29. júní.

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjólið fyrrum.

Dalurinn

Þegar FERLIR skoðaði Hellishraunsskjólið í Dalnum norðan Hamraness 23. febrúar 2023 kom í ljós að því hafði verið rústað með stórvirkum vinnuvélum – svo vel að ekki var einn einasti sentimeter eftir af þessu fyrrum fjárskjóli frá Ási.

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjól fyrrum.

Ekki er minnst á fjárskjólið í örnefnalýsingu Ara Gíslansonar fyrir Ás. Þar segir einungis: „Þá fer að nálgast jafnsléttuna, og taka þar við Ásflatir. Þær eru fyrir botni dals þess, er myndast milli Grísaness og Hamraness.“

Gísli Sigurðsson getur um skjólið í örnefnalýsingu sinni fyrir Ás: „Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól. Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn.“

FERLIR fjallaði um Hellishraunssfjárskjólið í umfjöllun um svæðið árið 2019. Þar var m.a. vísað til takmarkaðrar fornleifaskráningar frá árinu 2015 á vegum Byggðasafns Hafnarfjarðar, sem síðari skráningaraðili vegna deiliskipulags þess frá árinu 2019 vísaði athugasemdalaust til, án þess þó að tiltaka verðmæti minjanna með hliðsjón af heildar búseturlandslagi jarðarinnar sem og nálægðarinnar við aðrar slíkar.

Dalurinn

Hafnarfjörður – Hamranes, fornleifaskráning vegna deiliskipulags 2019 – forsíða.

Í „Fornleifaskráningu vegna deiliskipulags; Hafnarfjörður – Hamranes“ eftir Heiðrúnu Evu Konráðsdóttur, sagnfræðing fyrir Byggðasafn Hafnarfjarðar 2019 segir um Hellishraunsskjólið (sem reyndar er án tilvísunar til örnefnalýsingar Gísla Sigurðssonar):

Fornleifaskráning
Hamranes 2061-1
Fornleifa nr.: 2061-1
Hlutverk: Fjárskýli
Tegund: Hleðsla
Aldur: 1550-1900
Hnit: 355825,924 396542,873
Staðarhættir: Hellirinn er norðan í hraunrana, rétt sunnan við veg sem er frá spennistöðinni upp á Ásfjall.

Hellishraunsfjárskjól

Hellishraunsfjárskjól.

Lýsing: Fjárhellirinn er á svæði sem merkt er J á korti yfir ný byggingasvæði í landi Hvaleyrar, Hamranes. Hann er rétt sunnan við veg sem er frá spennistöðinni upp á Ásfjall, svokallaðan línuveg. Hellirinn sem er norðan í hraunrana, er í smá sveig um 8 m langur og opinn á móti norðaustri. Hleðslur sem hafa verið veggjahleðslur í hellinum hafa hrunið inn í hellinn og er hann illfær. Í athugasemdum Katrínar Gunnarsdóttur í fornleifaskýrslunni Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar og Grísaness. Hafnarfirði frá árinu 2005 segir: „Þar sem hleðslur fjárhellisins hafa hrunið niður og varla mögulegt að segja til um hvar og hvernig þær hafa verið, er ekki ástæða til að varðveita hellinn sem heimild um búsetuhætti fyrri tíma.“

Minjagildi: Lítið
Hætta: Hætta
Hættuorsök: Vegna bygginga
Ástand: Greinanlegar fornleifar

Fornleifaskráning katrínarVísað til óaðgengilegrar fornleifaskráningar Katrínar Gunnarsdóttur í fornleifaskýrslunni – „Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar og Grísaness fyrir Byggðasafn Hafnarfjarðar, Hafnarfirði frá árinu 2005“. Í þeirri skráningu er einungis einnar fornleifar getið á svæðinu, þ.e. fjárskjólinu ótilgreinda. Ekkert er minnst á götur þær er lágu um „Dalinn“ að og frá Ási og nálægum bæ, Hvaleyri, þ.e. Hrauntungustíg, Stórhöfðastíg, selstígana frá Ási að Ásseli og frá Hvaleyri að Hvaleyrarseli við Hvaleyrarvatn. Svo virðist sem hlutaðeigendur hafi fyrrum farið í þyrlum á millum bæja og selja, þrátt fyrir að allar þessar götur hafi verið vel greinilegar áður en framkvæmdir hófust við svonefna „Skarðshlíð“.

Ekki er getið um fjárskjólið í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar VIII“, unna af Atla Rúnarssyni fyrir Byggðasafn Hafnarfjarðar 2021. Sú skráning er reyndar meingölluð. Í henni eru t.d. nútímaminjar skráðar sem fornleifar, hleðslur undir seinni tíma girðingar skráðar sem „vörslugarðar“ eða „merkjagarðar“, nútíma ræsi skráð sem fornar götur o.s.frv. Hins vegar er ógetið ýmissa merkra minja á svæðinu. Lítið sem ekkert samráð virðist hafa verið við þá núlifandi er gerst til þekkja fornleifa innan umdæmisins.

Þegar fornleifar eru annars vegar ráða Lög um menningarminjar frá árinu 2012. Þar segir m.a.:

3. gr.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2002.

Fornminjar.
Fornminjar samkvæmt lögum þessum eru annars vegar forngripir og hins vegar fornleifar.
Forngripir eru lausamunir 100 ára og eldri sem menn hafa notað eða mannaverk eru á og fundist hafa í eða á jörðu eða jökli, í vatni eða sjó. Skip og bátar frá því fyrir 1950 teljast til forngripa. Til forngripa teljast einnig leifar af líkömum manna og hræjum dýra sem finnast í fornleifum, svo sem fornum haugum, dysjum og leiðum.
Fornleifar teljast hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri, svo sem: búsetulandslag, skrúðgarðar og kirkjugarðar, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi leifum mannvirkja og öskuhauga, húsaleifar hvers kyns, svo sem leifar kirkna, bænhúsa, klaustra, þingstaða og búða, leifar af verbúðum, naustum og verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum, vinnustaðir þar sem aflað var fanga, svo sem leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, kolagröfum og rauðablæstri, tún- og akurgerði, leifar rétta, áveitumannvirki og aðrar ræktunarminjar, svo og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita, vegir og götur, leifar af stíflum, leifar af brúm og öðrum samgöngumannvirkjum, vöð, varir, leifar hafnarmannvirkja og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra, virki og skansar og leifar af öðrum varnarmannvirkjum, þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð, áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum og minningarmörk í kirkjugörðum, haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið, skipsflök eða hlutar þeirra.

Fornminjar njóta friðunar nema annað sé ákveðið af Minjastofnun Íslands.

13. gr.

Dalurinn

Dalurinn – fjárskjólið 2023.

Minjaverðir.
Minjaverðir eru starfsmenn Minjastofnunar Íslands og sinna þeim verkefnum sem undir stofnunina heyra samkvæmt nánari fyrirmælum forstöðumanns. Minjaverðir skulu hafa háskólamenntun og sérþekkingu á einhverju þeirra fagsviða sem undir stofnunina falla.
Í þjónustusamningi milli Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands má fela minjavörðum eftirlit með minjum sem heyra undir Þjóðminjasafn Íslands.

15. gr.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2019 – gangurinn.

Skráning og skil á gögnum.
Minjastofnun Íslands hefur yfirumsjón með skráningu fornleifa og friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja.
Stofnunin heldur heildarskrár yfir allar þekktar fornleifar og friðuð og friðlýst hús og mannvirki á landinu. Stofnunin birtir skrárnar og skulu þær vera aðgengilegar á miðlægum gagnagrunni.
Minjastofnun Íslands er heimilt að fela tilteknum einstaklingum eða stofnunum er búa yfir sérþekkingu og reynslu á sviði skráningar fornleifa, húsa og mannvirkja afmörkuð könnunar- og skráningarstörf fyrir stofnunina.
Öll gögn sem varða skráningu fornleifa, friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja skulu afhent Minjastofnun Íslands. Skráningarskýrslur skulu afhentar stofnuninni á rafrænu formi. Eintök af skránum skulu afhent hlutaðeigandi skipulagsyfirvöldum á rafrænu formi.
Fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskráningu á tilteknu svæði telst ekki lokið fyrr en skráin hefur hlotið staðfestingu Minjastofnunar Íslands. Stofnunin skal veita skipulagsyfirvöldum, byggingarfulltrúum og náttúruverndaryfirvöldum aðgang að skráningargögnum í vörslu stofnunarinnar.
Minjastofnun Íslands setur reglur um skráningu fornleifa og friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja og skil á gögnum þar að lútandi að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

16. gr.

Dalurinn

Fjáskjólið 2019 – gangurinn.

Skráning vegna skipulags og undirbúnings framkvæmda.
Skráning fornleifa, húsa og mannvirkja skal fara fram áður en gengið er frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi. Áður en deiliskipulag er afgreitt eða leyfi til framkvæmda eða rannsókna er gefið út skal skráning ætíð fara fram á vettvangi. Minjastofnun Íslands setur reglur um lágmarkskröfur sem gera skal til skráningar fyrir hvert skipulagsstig og er heimilt að gera samkomulag við skipulagsyfirvöld um framvindu skráningarstarfsins enda sé tryggt að því verði lokið innan hæfilegs tíma.

Sá sem ber ábyrgð á skipulagsgerð í samræmi við skipulagslög skal standa straum af kostnaði við skráninguna. Ríkissjóður skal þó bera kostnað af fornleifaskráningu sem fram fer innan þjóðlendu nema um annað hafi verið samið. Skulu skipulagsyfirvöld hafa samráð við Minjastofnun Íslands um tilhögun skráningar eða endurskoðun á fyrri fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskrám með hliðsjón af fyrirhuguðum breytingum á skipulagi. Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda án undanfarandi fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskráningar. Þegar sérstaklega stendur á getur Minjastofnun Íslands veitt undanþágu fyrir framkvæmdum með tilteknum skilyrðum.
Skipulagsyfirvöld skulu tilkynna Minjastofnun Íslands um gerð skipulagsáætlana og verulegar breytingar á þeim og um gerð skýrslna um mat á umhverfisáhrifum.
Skylt er að heimila þá för um landareign sem nauðsynleg getur talist við framkvæmd skráningar sem gerð er fyrir opinbera aðila. Ber að sýna landeiganda tillitssemi og valda ekki raski eða ónæði að þarflausu.

21. gr.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2019.

Verndun fornleifa.
Fornleifum, sbr. 3. mgr. 3. gr., jafnt þeim sem eru friðlýstar sem þjóðminjar og þeim sem njóta friðunar í krafti aldurs, má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, spilla, granda eða breyta, hylja, laga, aflaga eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.
Eigendur og ábúendur jarða skulu hlúa að fornleifum á landareignum sínum og viðhalda umhverfi þeirra eftir því sem sanngjarnt getur talist. Minjastofnun Íslands er skylt að veita ráðgjöf og leiðbeiningar í því sambandi.
Minjastofnun Íslands gerir nauðsynlegar ráðstafanir til verndar fornleifum, viðhalds eða endurbóta, en áður skal gera landeiganda eða ábúanda viðvart um þær. Ef nauðsyn krefur lætur Minjastofnun Íslands rannsaka fornleifar með uppgreftri eða á annan hátt.
Friðlýstum fornleifum skal viðhaldið á kostnað ríkisins. Minjastofnun Íslands ber ábyrgð á friðlýstum fornleifum og semur verk- og fjárhagsáætlun um viðhald þeirra.

23. gr.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2023.

Fornleifar í hættu.
Hver sá sem verður var við að fornleifar liggi undir skemmdum skal gera Minjastofnun Íslands viðvart án tafar.
Ef fyrirsjáanlegt er að minjastaður spillist vegna breyttrar landnotkunar eða framkvæmda skal framkvæmdaraðili eða viðkomandi sveitarfélag gera Minjastofnun Íslands viðvart með sannanlegum hætti með minnst fjögurra vikna fyrirvara áður en áætlaðar framkvæmdir hefjast og lýsa þeim breytingum er af framkvæmd mun leiða.
Minjastofnun Íslands ákveður að undangenginni vettvangskönnun hvort frekari rannsóknar er þörf, hvort gera skuli tillögu um friðlýsingu eða hvort fornleifarnar megi víkja og þá með hvaða skilmálum. Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda fyrr en ákvörðun Minjastofnunar Íslands liggur fyrir.

Stofnunin skal hafa samráð við Umhverfisstofnun þegar fjallað er um blandaðar minjar, þ.e. menningarminjar sem einnig teljast til náttúruminja.

Fornleifaskráning katrínar

Hafnarfjörður – Fornleifaskráning vegna deiliskipulags við Hamranes… – Katrín Gunnarsdóttir.

Í „Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-12025“ er vísað til greinagerðar 19. apríl 2014: „Fornleifaskráning hefur verið unnin fyrir Velli, Selhraun, Ásland, Hvaleyri, Sléttuhlíð og Hleinar að Langeyrarmölum, auk nokkurra minni svæða, einkum í tengslum við þéttingu byggðar„. Þessara greinargerða er getið í heimildaskrá aðalskipulagsins.

Fornleifaskráning í landi Áss í Hafnarfirði var unnin af Katrínu Gunnarsdóttur fyrir Byggðasafn Hafnarfjarðar, janúar 2005.

Hvorki er í þeim heimildum vísað í fyrirliggjandi örnefnalýsingar né er merkra minja getið. Skráningunni verður að teljast verulega ábótavant.

Í greinargerð með tillögu að deiliskipulagi fyrir Hamranes segir:
2.3 Menningarminjar.
Engar þekktar fornleifar eru á svæðinu skv. forleifaskráningu sem unnin var af Byggðasafni Hafnarfjarðar árið 2019 vegna fyrirhugaðrar vinnu við deiliskipulagningu Hamranes„.

Dalurinn

Deiliskipulag fyrir Dalinn. Ekki er gert ráð fyrir nýtingu svæðisins umhverfis fjárskjólið.

Í „Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025“ er fjárskjólsins ekki getið.

Ljóst er skv. fyrirliggjandi gögnum að Minjastofnun hafði verið upplýst um fornminjarnar og stofnunin hafði sent hlutaðeigandi hjá Hafnarfjarðarbæ varnaðarorð vegna þeirra í tíma, þ.e. árið 2020.

Þann 24. febrúar 2023 var Henny Hafsteinsdóttur, minjaverði Reykjavíkur og nágrennis hjá Minjastofnun, sent eftirfarandi:

Sæl,
Sendi þér ábendingu um Hellishraunsskjólið í Áslandi í Hafnarfirði.

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2019.

Í dag lítur skjólið út sbr. meðfylgjandi myndum; ekki sentimeter eftir af því með þriggja akreina götu í ofanílag. Væntanlega hefur einhver tekið ákvörðun um eyðingu þessa. Fróðlegt væri að fá upplýst hver það gerði og með hvaða rökum?

FERLIR mun fylgjast með framvindu málsins og uppfæra umfjöllunina til samræmis eftir því sem fram vindur. Spurningin er; var tekin meðvituð ákvörðun um eyðingu framangreindra minja og þá af hverjum? Getur verið að lögmæld skráning fornleifa skipti í raun litlu þegar eyðileggingu þeirra er lokið. „Úps“ er gjarnan svar verktaka eftir að hafa farið með stórvirkar vinnuvélar yfir fornleifar, „án vitundar vits“, að eigin sögn.
Hveru mikið mark er takandi á ákvæðum laga um vernd og varðveislu fornleifa hér á landi eða eru fornleifaskráningar bara svo lélegar að ekki er mark á þeim takandi?…

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum 2023.

Hellishraunsskjól

Fornt fjárskjól, Hellishraunsskjól, er í gróinni lægð í Hellishrauni við Ásflatir milli Hamraness og Ásfjalls. Tvö önnur slík skjól, Grófarhellir og Grísanesskjól, eru í nágrenninu:
Í Örnefnalýsinu Ara Gísasonar um Ás segir m.a.:  „Þá fer að nálgast jafnsléttuna, og taka þar við Ásflatir. Þær eru fyrir botni dals þess, er myndast milli Grísaness og Hamraness.“ Skýrslan fjallar einungis um Hvaleyri, en svæðið er að hluta til í Áslandi og þar er eina skráða fornleifin í skýrslunni; fjárhellirinn. Um hann segir Gísli Sigurðsson m.a. í Örnefnalýsingu sinni um ÁS: „Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól.  Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn“.

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjól.

Út frá frá hrauntungunni eru svo Ásflatir.  En fram á þær syðst rennur Grófarlækur ofan úr Grófunum.  Þær liggja norðan við Bláberjahrygg.  En stígur liggur um Ásflatir vestur á Grísanesháls, en þar er Hrauntungustígur, sem þarna er að byrja.“ Landamerkja línan liggur s.s. í vörður á Grísaneshálsi og  Hamraneshálsi (Bleiksteinshálsi). Báðar þessar vörður verða að teljast fornleifar sem og leiðirnar verða að teljast til fornleifa skv. Þjóðminjalögum. Þarna lá um Skarðið  vegurinn frá Ási upp á Hrauntungu- og Stórhöfðastíg. Auk þess sem selstígarnir frá Ási og Hvaleyri lágu um Ásflatir og skáhallt yfir Hamraneshálsinn að Hvaleyrarvatni.
Við þetta má bæta að í örnefnalýsingum Hvaleyrar segir, sbr.  Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar: „….), „Vestur frá Ási og vestur frá Ástjörn ganga fram í hraunið tvær hæðarbungur óbrunnar. Sú sem er nær Ási heitir Grísanes, og þaðan beint í suður er annað nes, sem heitir Hamranes. Það þekkist á, að í því eru hamrar. Suðvestur af eða í Grísanesi er smáhellir, sem heitir Grísanesskjól, en efst uppi milli nesjanna, upp undir svonefndum Ásflötum, heitir Grófarhellir. Hamranesið er skógi vaxið, brekkur sunnan og vestan, háir hamrar að vestan en aflíðandi að ofan. Þá er næst Bleikisteinn í norðanverðum Bleikisteinshálsi.“

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjól.

Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Hvaleyrir segir um svæðið: „Hér vestur af undir hraunhól er hellisskúti, nefnist Grísanesskjól. Landamerkjalínan liggur um Grísanesháls, niður af honum og inn um Ásflatir. En undir brekkunni við hraunið, sem hér nefnist Hellisdalshraun og Hellisdalur, liggur Hrauntungustígur suður yfir að Hamranesi. Þar spretta fram tvær lindir, Hamraneslindir. Frá Hamranesi lá Hrauntungustígurinn vestur yfir hraunið út að Háabruna og vestur yfir hann í Hrauntunguna.“ Þarna er getið um Hrauntungustíginn um Ásflatir og Helludal.

Hellishraunsskjól

Hellishraunsskjól

Hellirinn sem er norðan í hraunrana, er í smá sveig um 8 m langur og opinn á móti norðaustri. Hleðslur sem hafa verið veggjahleðslur í hellinum hafa hrunið inn í hellinn og er hann illfær. Í athugasemdum Katrínar Gunnarsdóttur í fornleifaskýrslunni „Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar og Grísaness“ frá árinu 2005 segir: „Þar sem hleðslur fjárhellisins hafa hrunið niður og varla mögulegt að segja til um hvar og hvernig þær hafa verið, er ekki ástæða til að varðveita hellinn sem heimild um búsetuhætti fyrri tíma.“

Þrátt fyrir framangreinda umsögn er full ástæða til að varðveita fjárskjólið sem og svæðið þar umleikis, ekki síst vegna þess að þarna er um að ræða eitt af fáum fjárskjólum, þeim mikilvægu mannvirkjum frá fyrri tíð, í landi Hafnarfjarðar, auk þess sem skjólið er hluti af búsetuminjum svæðisins, sbr. stekkinn í Skarðinu skammt norðar.

Heimild:
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Ás og Hvaleyri.
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Ás og Hvaleyri.
-Katrín Gunnarsdóttir: Fornleifaskráning í landi Hvaleyrar og Grísaness Hafnarfirði. Byggðasafn Hafnarfjarðar. 2005.
Dalurinn

Dalurinn – fjárskjólið 2023.

Stekkur

Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021“ segir frá Áslandi:

Ás
HafnarfjörðurElsta heimild um Ás er svokallað Gilzbréf en það var ritað þann 4. ágúst 1506 í Ási og var vitnisburður um að Eiríkr Þorsteinsson hafi selt Þórarni Jónssyni jörðina Gil í Borgarþingum í Skagafirði fyrir þrjá tigi hundraða. Næst var sagt frá Ási í fógetareikningum frá 1553 og þar sagði að Tómas nokkur bóndi hafi greitt í skatt átta álnir vaðmála.
Árið 1585 gerðist það að unglingspiltur, Hjálmar Sveinsson, stal tveimur sauðum frá Ási. Var hann dæmdur á Kópavogsþingi til húðstrýkingar „svo sem hann þola mátti“. Var honum svo haldið á lífi í sjö daga til að fá að „lifa við minningu þessarar húðstrýkingar“ og var svo hálshöggvinn.
Næst var sagt frá Ási í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703, þá var ábúandinn Þórður Jónsson. Þar sagði að jarðadýrleiki á kóngsins parti hafi verið óviss en að hlutur Jóns Péturssonar á Hliði lögréttumanns hafi líklega verið iii hundruð og lxxx álnir, var þá talið líklegt að jörðin hafi í heildina verið xii hundruð og þá hafi kóngsparturinn verið xiii hundruð og xl álnir, þó var tekið fram að tíund bóndans hafi fallið niður vegna örðugra hreppamannaflutninga yfir Kapelluhraun að Þorbjarnarstöðum.

Ás

Ás – gamli bærinn.

Jörðin var að mestu í konungseign fyrir utan hlut Jóns Péturssonar. Leigukúgildi af jörðinni voru jöfn á milli þessara hluta, eitt á hvorn hlut, og greiddist leigan af konungshlutanum í smjöri til Bessastaða en af bóndahlutanum ýmist í smjöri eða fiski til bóndans eða í kaupsstað.
Kvaðir af kóngshlutanum voru mannslán um vertíð og einn hrísshestur árlega heim til Bessastaða. Einnig var nýlega byrjað að heimta heyhest frá Ási til Bessastaða til þess að fóðra kvikfénaðinn sem var ætlaður til þess að fæða fálka sem seldir höfðu verið seldir úr landi og fóru með Hólmsskipi. Engar kvaðir voru á bóndahlutanum.

Ás

Ástjörn og nágrenni – örnefni.

Þegar Jarðabókin var skrifuð voru á Ási fjórar kýr, átta ær, einn tvívetra sauður og sjö veturgamlir, átta lömb og einn þrívetra foli. Þar gat fóðrast þrjár kýr og eitt ungnaut og heimilismenn voru fjórir. Jörðin átti þá selstöðu í eigin landi og voru hagar þar sæmilegir og vatnsból gott. Jörðin átti hrísrif í almenningi til kolagerðar og eldiviðar en notaði einnig lyngrif í eigin landi til eldiviðar og til þess að fæða fé í heyskorti. Torfrista og stunga var léleg og varla nothæf.
Jörðin var með skipsuppsátur í Ófriðarstaðalandi en það virðist ekki vera visst hvort hún fékk uppsátrið frítt eða gengt selstöðu Ófriðarstaða í landi Áss. Engar engjar fylgdu jörðinni en útigangur kvikfénaðs var sæmilegur og vatnsból brást sjaldan.
Gerð var úttekt á bæjarhúsum Áss árið 1769 en þá bjó á Ási Þórný Gísladóttir ekkja. Úttektin var gerð þann 2. maí 1769 af Jóni Jónssyni og Guðmundi Gíslasyni en Landfógeti mætti ekki né neinn á hans vegum, sem virðist hafa verið óvenjulegt.
Árið 1783 virðist að ástand húsa hafi versnað frá þessari úttekt og var álagið komið í 110 álnir.

As

Ás – túnakort 1918.

Í Sýslu- og sóknarlýsingum frá 1842 minntist séra Árni Helgason á Ás í upptalningu á bæjunum í Garðaprestkalli og þá var Ás með tómthúsi (Stekkur). Þá sagði hann frá alfaravegum en sá syðsti upp í Krýsuvík lá upp frá Ási og hét Stórhöfðastígur, beygði hann suður með Undirhlíðum og yfir fjallið og hét þá Ketilsstígur.

Ás

Ás- loftmynd 1960.

Í Jarðatali Johnsen frá 1847 var jörðinni gefið númerið 169 og var hún þá alfarið í konungseign. Þá var dýrleiki jarðarinnar 12 hundruð, landskuldin 0.80, kúgildin tvö og einn ábúandi sem var leigjandi.

Ás

Ás – leifar fjóss.

Árin 1871 og 1872 kom upp miltisbrandur á Ási. Þann 16. og 17. október 1871 drápust þar snögglega tvær kýr og höfðu miltin í þessum kúm verið mjög stór og blóðhlaupin. Ekkert var þó gert í þessu fyrr en þriðja kúin drapst tæpum þrem vikum síðar og var þá dýralæknir kallaður til. Við krufningu kom fram að „blóðið var svart sem tjara og rann eigi saman; aptur af kúnni og úr nösum hennar hafði gengið blóð, rjett áður en hún drapst, lungun voru mjög sollin, miltið miklu stærra en vanalega, svart og meyrt; þarmarnir voru fullir af blóðkorgi, og að utan höfðu þeir marga blóðhlaupna bletti“. Daginn áður hafði dýralæknirinn krufið hest á Ófriðarstöðum
sem hafði sömu einkenni.

Ás

Ás – letursteinn.

Á túnakorti frá 1918 voru túnin við Ás sögð nálægt til helminga sléttuð og töldust 2,8 teigar, kálgarðar voru 670 fermetrar.
Ástjörn var friðuð árið 1978 til þess að vernda dýra- og jurtalíf á svæðinu og er umferð um svæðið óheimil á varptíma. Ástjörn og Ásfjall voru svo gerð að fólkvangi árið 1996.
Lítið er eftir af minjum á sjálfu bæjarstæði Áss, þar sjást nokkur veggjabrot af húsi sem reist var árið 1904 (2658-13), fjósið sem grafið er inn í bæjarhólinn og bæjarhóllinn sjálfur, en svæðið hefur verið lagt undir skógrækt og teljast þess vegna allar minjar innan skógræktarsvæðisins í mikilli hættu. Eitthvað af minjum er að finna utan skógræktarsvæðisins og er þá kannski helst að minnast á Ásbrunn og útihúsatóft, sem þó er illgreinanleg.

Stekkur

Stekkur

Stekkur – túnakort 1918.

Minna er til af heimildum um Stekk en þannig voru oft hlutskipti hjáleigna, þá sérstaklega þeim sem ekki voru í byggð lengi.
Stekkur var byggður í kringum 1830 og mun hafa hlotið nafn sitt af því að þarna á Ás hafa verið með stekk. Bærinn stóð þar sem nú er endi gatnanna Blikaás og Lóuás. Bæjarstæði Stekks var gróflega lýst í örnefnaskrá: „[…] Hér enn vestar var svo býli, þurrabúð, nefndist það Stekkurinn, Ásstekkur, Vindás og Vindásstekkur. Honum fylgdi Stekkstúnið umgirt Stekkstúngörðum, vesturtúngarður, suðurtúngarður, austurtúngarður og norðurtúngarður. Þar sem saman komu norður- og vesturtúngarður var norðurhlið. Þaðan lá Stekksgata niður að Brandsbæ og áfram niður til Fjarðar. Suðurhlið var neðarlega á mótum vestur- og suðurtúngarðs. En Lindargatan lá heiman frá Stekksbæ austur um austurgarðshlið austur að Lindinni. Brunngatan var löng frá Stekk og austur.“

Ás - Stekkur

Stekkur – minjar neðan Stekks.

Jörðin var auglýst til leigu árið 1959 og þá var íbúðarhúsið sagt vera með 7 herbergi og að á jörðinni væri stórt hænsnahús. Stekkur var einnig um tíma miðstöð keðjubréfasvindls sem var mörgum til ama á árunum í kringum 1970.
Við byggingaframkvæmdir árið 2000 varð rask á minjum á og við bæjarstæði Stekks og voru t.d. leifar íbúðarhússins jafnaðar við jörðu.
Enn má þó sjá móta fyrir bæjarhólnum, matjurtagarði og kartöflukofa, túngörðum og útihúsatóftum á svæðinu.

Stekkur

Stekkur – loftmynd 1960.

FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.

Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar 2021 – Ásland. https://byggdasafnid.is/wp-content/uploads/2021/10/Fornleifaskra%CC%81-Hafnarfjardar-VIII-A%CC%81sland.pdf

Ás - Stekkur

Ás – stekkur við Hádegisskarð.